Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Mótmælt víða um land

Það var heldur betur margt um manninn á Austurvelli í gær, töluvert fleiri en Mótmæli - 17.1.09 - Heilbrigðisstarfsfólksíðasta laugardag. Ræðumenn báðir mjög góðir. Og fleiri og fleiri fundir eru haldnir á sama tíma víða um land. Í gær voru haldnir fundir, að Austurvelli frátöldum, á Ísafirði, Akureyri, í Mývatnssveit, á Egilsstöðum og Selfossi. Vel mætt á alla fundina.

Mér þótti alveg sérstaklega vænt um að sjá heilbrigðisstarfsfólk á frívakt með skilti og grænar höfuðhlífar. Það kom augljóslega til að mótmæla hryðjuverkum ráðherra á heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga, kannski einkum lokun St. Jósefsspítala í Hafnarfirði sem er algjört glapræði. Það má ekki láta Guðlaug Þór komast upp með þessar áætlanir, vítaverð vinnubrögð og glórulausa einkavinavæðingu á heilbrigðiskerfi sem forfeður okkar og -mæður byggðu upp með blóði, svita og tárum. Meðal annars gamla fólkið sem Sigrún talar um hér að neðan og er nú flutt hreppaflutningum eins og sauðfé. Hvað yrði um þetta fólk ef öldrunarþjónustan væri einkavædd og gengi fyrir græðgi auðmanna? Lesið t.d. þetta og þetta - þarna kristallast stefna frjálshyggjumannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í heilbrigðismálum. Óhugnanleg lesning og ekki gert ráð fyrir því sem varð efnahag Íslands að falli, grægðinni, sem er þó drifkraftur og uppistaða frjálsyggjunnar. Vonandi heldur heilbrigðisstarfsfólk áfram að koma í hópum eins og nú.

Sigrún Sverrisdóttir, mótmælandi í MývatnssveitFrumlegustu mótmæli dagsins fannst mér vera mótmælin í Dimmuborgum í Mývatnssveit en þau voru líka þau fámennustu - eðlilega. Þar kom fólk saman til að fleygja gúmmískóm í gullkálfinn sem tákns siðspillingar, valda og siðblindu. Svar dagsins á Sigrún Sverrisdóttir, landpóstur og bréfberi í Mývatnssveit. Þegar fréttamaður spurði hana af hverju hún væri mætt á mótmælin í Dimmuborgum svaraði Sigrún: "Af því þjófnaður hefur aldrei verið vel séður í Mývatnssveit og mér finnst alveg svívirðilegt hvernig er búið að fara með íslensku þjóðina. En svívirðilegast af öllu finnst mér hvernig farið er með gamla fólkið sem er búið að byggja upp landið okkar. Það er flutt hreppaflutningum eins og hvert annað rusl." Vel mælt hjá Sigrúnu fyrir utan að vera auðvitað alveg hárrétt. Góðir, Mývetningar!

Haldinn var fyrsti mótmælafundurinn á Austurlandi í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum í gær. Ung kona, Þórunn Ólafsdóttir frá Fáskrúðsfirði, var driffjöður og skipuleggjandi fundarins. Ræðumenn voru Björgvin Valur Guðmundsson og Ingunn Snædal, sem bæði fluttu stuttar en kjarnyrtar ræður. Þær voru teknar upp og ég klippti saman það sáralitla myndefni sem ég hafði úr fréttunum og skeytti saman við ræðurnar þeirra. Takið viljann fyrir verkið. Hljóðið er gallað alveg fremst en lagast fljótlega. Áfram Austfirðingar!

Ég klippti saman fréttaumfjöllun sjónvarpsstöðvanna um fundina. Takið eftir gjörólíkum efnistökum fréttamanna fréttastöðvanna. Það er dæmigert að uppákomur eins og sú sem Ástþór Magnússon og Eiríkur Stefánsson stóðu fyrir fái meiri umfjöllun en ástæða fundarins, ræðurnar og samhugur þúsunda fundargesta. Myndefni frá fundunum á landsbyggðinni var harla lítið. Nánast ekkert frá Ísafirði og ekkert frá Selfossi. Og hvergi bútar úr ræðum eða neitt slíkt. Ef einhver á myndefni frá þessum fundum væri gaman að fá það eða vísun á það á netinu.

Viðbót: Hér er ræða sem flutt var á fundinum á Selfossi í gær.

Á fundinum á Austurvelli töluðu Gylfi Magnússon, lektor við HÍ, og Svanfríður Anna Lárusdóttir, sem nú er atvinnulaus. Ekki veit ég hvort Svanfríður Anna er sviðsvön, en mikið fjári stóð hún sig vel! Ég varð mér úti um ræðu Gylfa, en á eftir að bera mig eftir ræðu Svanfríðar Önnu. Ef hún sér þetta má hún gjarnan senda mér hana. En hér er glæsileg ræða Gylfa Magnússonar:

"Fundarstjóri, ágætu fundargestir.

Það leika naprir vindar um efnahagslíf heimsins um þessar mundir. Óvíða kaldari en á okkar hrjóstruga landi. Yfir okkur hellast slæmar fréttir, gjaldþrot, uppsagnir, niðurskurður, tap og skuldir. Hnípin þjóð hlustar. Reið og ráðþrota.

Það er erfitt að vera bjartsýnn við aðstæður sem þessar. Aðrar tilfinningar ríkja.

Gylfi Magnússon á Austurvelli 17.1.09Bölsýnin eykur enn á vandann. Til að endurreisa íslenskt efnahagslíf þarf margt. Eitt af því er bjartsýni. Þjóðin þarf að fá aftur trú á sjálfri sér og leiðtogum sínum. Trúa því að landsmenn séu á réttri leið.

Án þess koðnar allt niður áfram. Enginn þorir að sýna frumkvæði, hefja rekstur og ráða starfsfólk. Fólk sem getur unnið og vill vinna fær þá ekki vinnu. Atvinnutæki standa óhreyfð. Verðmæti eru ekki sköpuð.

Við hvorki viljum né þurfum aftur þá ofurbjartsýni og fífldirfsku sem gerði stjórnlausum áhættufíklum kleift að koma okkur á kaldan klaka. Með dyggri aðstoð og velþóknun ráðamanna sem létu fámennan hóp pappírsauðkýfinga fara um hagkerfið eins og engisprettur um akur.

Leiðtogar þjóðarinnar leyfðu hópi manna að sölsa undir sig öll helstu fyrirtæki landsins, skipta á milli sín öllum feitustu bitunum. Þeir léku sér með annarra manna fé. Ef einhvers staðar var fé án hirðis þá fengu þeir að hirða það. Þeir fengu meira að segja íslenska ríkisábyrgð fyrir mesta glannaskapnum. Umræðulaust. Enda réðu þeir umræðunni. Kváðu niður alla gagnrýni. Deildu og drottnuðu.

Það er komið miklu meira en nóg af slíku. Það hefur enginn trú á þessu lengur. Hvað gefur þá ástæðu til bjartsýni?

Jú, það er ýmislegt. Kannski fyrst og fremst það, að í lýðræðisríki eins og okkar þá ræður þjóðin á endanum. Hún velur þingmenn og forseta og getur skipt þeim út, hvort sem þeim líkar betur eða verr, þegar þeir hafa brugðist. Það verður án efa gerst við fyrsta tækifæri.

Þjóðin ræður stefunni. Hún getur ákveðið að sópa gamla hagkerfinu á öskuhauga sögunnar og reisa annað, nýtt og miklu betra á rústunum.

Til þess hafa Íslendingar alla burði. Við erum kraftmikil og vel menntuð þjóð, vinnusöm, útsjónarsöm og úrræðagóð. Okkur tókst á tuttugustu öld að byggja upp þjóðfélag sem við vorum stolt af með réttu. Friðsælt, opið og lýðræðislegt þjóðfélag með ein allra bestu lífskjör í heimi.

Við búum enn að öllu því sem þarf til að endurreisa þetta þjóðfélag og gera það enn betra. Fjármálakreppa eyðileggur ekki það sem mestu skiptir. Hún eyðir pappírsverðmætum.

Fólkið er enn hér. Menningin. Sagan. Auðlindir lands og sjávar. Ægifögur náttúran. Virðing fyrir lögum og reglum og trú á friðsamar lausnir. Þetta gerir okkur kleift að halda okkur í hópi þeirra þjóða heims sem búa best að þegnum sínum.

Vitaskuld bíður Íslendinga erfitt verkefni. Það er því miður nær óhjákvæmilegt að ástandið á eftir að versna á marga mælikvarða áður en Gylfi Magnússon á Austurvelli 17.1.09það fer að batna aftur. Það eru engar auðveldar lausnir í boði. Fjölmörg heimili og fyrirtæki eiga eftir að ganga í gegnum erfiða og þungbæra fjárhagslega endurskipulagningu. Ríkið þarf að skera niður og hækka skatta.

Þetta eru ekki skemmtileg verkefni. Það er hins vegar ekkert sem fyrir liggur sem er óviðráðanlegt. Því fer raunar fjarri. Byrðarnar verða þungar um tíma en ef þeim er skipt á sanngjarnan hátt þá verða þær engum óbærilegar.

Nýja hagkerfið fær í vöggugjöf gríðarlegar skuldir. Einkageirinn skuldar mikið og mun raunar aldrei endurgreiða nema hluta þess. Hið opinbera mun skulda talsvert meira en landsframleiðslu eins árs. Það eru skatttekjur fjölmargra ára.

Þetta er auðvitað ekkert fagnaðarefni. Það er ekkert skrýtið að margir bölvi þeim sem komu okkur í þessa stöðu. Það á líka að draga þá til ábyrgðar, bæði siðferðilega og lagalega. Undanbragðalaust. Uppgjör við fortíðina er nauðsynlegur liður í uppbyggingunni.

Skuldirnar eru samt ekki, frekar en annað sem við þurfum að takast á við, óviðráðanlegar. Það hafa ýmis ríki þurft að takast á við skuldir sem þessar og tekist það. Þeim mun örugglega fjölga á næstunni enda því miður ýmis dæmi um ríki sem eru með lítið skárra fjármálakerfi en hið helsjúka íslenska kerfi var orðið undir lokin.

Það má líka ekki gleyma því að Ísland býr, þrátt fyrir allt, að sterku lífeyriskerfi. Það hefur fengið þungt högg. Eftir stendur samt mun betra kerfi en flestar aðrar þjóðir búa að. Þjóðin er líka ung. Það skiptir miklu að íslenska ríkið þarf ekki að hafa verulegar áhyggjur af lífeyrisskuldbindingum landsmanna, ólíkt mörgum nágrannaríkja okkar.

Hvað þarf á að gera? Það þarf að teikna upp nýtt hagkerfi með nýjum leikstjórnendum og nýjum leikreglum.

Um flesta þætti þess er líklega breið samstaða. Flestir vilja bæði öflugan einkageira og opinberan geira. Sá síðarnefndi heldur uppi velferðarkerfi og tryggir öllum aðgang að góðri menntun og heilsugæslu. Hið opinbera setur leikreglurnar og sér til þess að þeim sé fylgt. Þar þarf ýmsu að breyta.

Gylfi Magnússon á Austurvelli 17.1.09Einkageirinn skapar verðmæti og skatttekjur. Hann þarf að losna við meinsemdir útrásarvíkinga, með öll sín eignarhaldsfélög, "Group", bókhaldsbrellur, vogaðar stöður, skattaskjól, eigna- og stjórnunartengsl, pólitísk tengsl og hvað þetta nú allt saman heitir. Þetta er hluti af því sem fara þarf á öskuhauga sögunnar. Ekkert af þessu skapaði nein raunveruleg verðmæti.

Í stað þess getur komið blómlegt atvinnulíf með fleiri og smærri fyrirtækjum, dreifðara en einfaldara eignarhaldi, meiri valddreifingu, meira gagnsæi, hraustlegri samkeppni, meiri nýsköpun, fleiri tækifærum fyrir alla. Opið, sanngjarnt og heilbrigt efnahagslíf.

Það þarf mörgu að breyta. Fyrst hugarfarinu. Sú hugmyndafræði sem kom okkur í núverandi stöðu er andlega gjaldþrota. Þeir sem fóru fyrir henni þurfa að víkja strax af sviðinu og láta öðrum eftir uppbygginguna. Hvort sem þeir eru í stjórnmálum, stjórnkerfinu, fyrirtækjarekstri, fara fyrir hagsmunasamtökum eða voru bara í klappliðinu.

Fyrsta skrefið til fyrirgefningar er að þetta fólk rétti fram sáttarhönd og axli ábyrgð með því að víkja. Því miður hefur lítið sést til þeirrar sáttahandar ennþá. Það glittir bara í löngutöng.

Allt þetta fólk má auðvitað starfa að uppbyggingunni en það má ekki og getur ekki stjórnað henni. Þeir sem strönduðu þjóðarskútunni eiga ekki að stýra henni af strandstað. Þeir geta ekki hvatt landa sína til dáða. Það hefur enginn trú á þeirra lausnum. Þeir mega hins vegar leggjast á árarnar með öllum hinum. Á almennu farrými.

Með nýrri sýn og nýrri forystu verða Íslendingum allir vegir færir. Okkur vantar ekkert annað til að hefja endurreisn Íslands."


Hvað er Íslandi EKKI fyrir bestu?

Og hverjum er ekki sama um Landsfund Sjálfstæðisflokksins? Góðar spurningar. Öðru máli gegnir um laugardagsfundina á Austurvelli, Ísafirði, Akureyri, Selfossi og í dag í fyrsta sinn á Egilsstöðum. Engum ætti að vera sama um þá - hvort sem fólk vill kalla þá mótmælafundi, samstöðufundi eða hvað sem er. Það skiptir minnstu máli. Öllu máli skiptir að mæta og láta þannig í ljós óánægju sína með ótrúleg viðbrögð stjórnvalda og stjórnkerfisins við efnahagshruninu og afleiðingum þess og krefjast úrbóta. Enn er verið að svalla og sukka á kostnað almennings á Íslandi. Lesið bara þetta, t.d. Ef satt reynist er verið að mergsjúga okkur ennþá meira og líkast til með vitund og samþykki stjórnvalda. Bjarga vinum sínum fyrir horn, skítt með afleiðingarnar fyrir þjóðina. Svo kemur Geir í sjónvarpsviðtal og segist ekkert skilja í því af hverju erlendur gjaldeyrir skilar sér ekki inn í landið til að styrkja krónuna! Það þarf enginn að segja mér að hann viti þetta ekki.

Einhverjir lásu kannski þennan pistil þar sem bent var á Eirík Guðmundsson og pistlana hans í Víðsjá. Ég ætla að birta hér þann sem var í Víðsjá í fyrradag, fimmtudag. Í honum kemur glöggt fram hve siðblindir stjórnmálamenn eru... eða hraðlygnir. Er ekki ástæða til að andæfa slíkum hugsunarhætti á Austurvelli - svo dæmi sé tekið?

Eiríkur Guðmundsson - Víðsjárpistlar

Hvað er Íslandi EKKI fyrir bestu?

Það var gaman að heyra í Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra á Morgunvaktinni í morgun. Björn ræddi Evrópumál, enda nýbúinn að senda frá sér bók sem heitir Hvað er Íslandi fyrir bestu? Í þeirri bók fjallar Björn, ef marka má baksíðuna, um stöðu Íslands í hnattvæðingunni, um þátttöku íslands í Schengensamstarfinu, hann spyr hvaða aðferðum beri að beita við töku ákvarðana um Evrópusamstarfið, og hvaða kosti íslendingar eiga í gjaldmiðilsmálum, svo eitthvað sé nefnt, þetta kemur allt fram á baksíðu bókarinnar.

Björn BjarnasonUndir lok viðtalsins á Morgunvaktinni í morgun, var það borið undir Björn hvort það væri ekki undarlegt að hér á landi hefði enn enginn axlað ábyrgð því ástandi sem nú ríkir á Íslandi. Umsjónarmaður gerði því skóna að í öðrum löndum væru menn fyrir löngu búnir að segja af sér. Björn virtist koma af fjöllum, hann sagði að í útlöndum væru menn ekki að segja af sér út af svona hlutum, þar segðu menn af sér af persónulegum ástæðum. Hverjir eru að segja af sér í útlöndum þótt vandinn sé mikill, í öllum löndum, sagði Björn efnislega. Af orðum Björns mátti ráða að á Íslandi hefði ekkert það gerst, sem ekki hefði gerst í öðrum löndum. Afsagnir hér væru því út í hött.

Það var fróðlegt fyrir dauðlegan hlustanda Ríkisútvarpsins að fá innsýn, svo snemma morguns, inn í það hvernig ráðamenn, og í þetta sinn, forystumaður í Sjálfstæðisflokknum hugsa. Um það, hvað Íslandi sé fyrir bestu, nú, í miðjum janúarmánuði árið 2009. Áfram halda fjölmiðlar að spyrja forkólfa um það hvað Íslandi sé fyrir bestu. Hvers vegna? Jú, vegna þess að sömu menn, sömu kólfar, halda áfram að stjórna landinu, þrátt fyrir það sem gerst hefur, þeir halda áfram að ráðleggja mönnum að sækja um mikilvægar stöður, og ráða í þessar sömu stöður. Þeir halda áfram að skrifa bækur með titlinum: Hvað er Íslandi fyrir bestu? Því skyldu menn sem vita hvað Íslandi er fyrir bestu, segja af sér, snemma morguns eða síðla nætur, nei hér hefur ekkert það gerst sem kallar á slíkt.

Íslendingar bera gæfu til að eiga menn sem vita hvað þjóðinni er fyrir bestu, eini vandinn er sá að þjóðin fór á hausinn á meðan þeir réðu ríkjum. Á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir að skuldir íslenska ríkisins séu um 2200 milljarðar- 2200 milljarðar, eiga menn að segja af sér út af því? Nei, menn segja af sér út af einhverju persónulegu, ef þeir gera í buxurnar prívat, en ekki ef þeir hafa fylgt og trúað blint á hugmyndafræði, sem gert hefur heila þjóð gjaldþrota. 2200 milljarðar, það er á engan hátt persónuleg tala, að því leyti hefur Björn Bjarnason rétt fyrir sér.

Hvað er best fyrir Ísland? Að fulltrúar þeirrar hugmyndafræði, sem nú er búin að setja þjóðina á hausinn, haldi áfram að stjórna landinu? Að menn sem pissuðu í buxurnar af samúð með Bandaríkjamönnum þegar flogið var á turnana í New York árið 2001, en treysta sér ekki til að fordæma afdráttarlaust og án undanbragða fjöldamorðin í Palestínu, haldi áfram að stjórna landinu? Hvað er best fyrir Ísland? Það hlýtur að vera orðið ljóst að þeir kónar sem mestu hafa ráðið á Íslandi, undanfarin ár vissu ekki hvað Íslandi var fyrir bestu. Ef þeir hefðu vitað það væri þjóðin ekki í þeirri stöðu sem hún er í. Að minnsta kosti ÞAÐ ætti að liggja ljóst fyrir. Meira að segja góðir og gegnir Sjálfstæðismenn átta sig á því. En, Björn Bjarnason, hann virðist enn halda að það sé nokkur eftirspurn eftir því sem honum, og hans félögum finnst vera þjóðinni fyrir bestu - ég dreg reyndar ekki þekkingu Björns á Schengensamstarfinu í efa.

Sennilega heldur Björn Bjarnason að íslenska þjóðin bíði spennt eftir Sjálfstæðisflokkurinnlandsfundi Sjálfstæðisflokksins!!! Að við bíðum spennt eftir einhverjum niðurstöðum landsfundar sjálfstæðisflokksins. Að við séum á nálum, yfir því hvað muni gerast á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hér hlýtur að vera eitthvað grín í gangi - Þröstur Helgason, blaðamaður Morgunblaðsins, skrifar athyglisverðan pistil í miðopnu blaðsins í dag; Þröstur segir: ,,Hvers vegna ætti okkur ekki að vera sama um það hvað sjálfstæðisflokkurinn ályktar um Evrópusambandsaðild á landsfundi sínum eftir nokkra daga? Á undanförnum vikum og mánuðum hefur nánast allt snúist um þennan blessaða landsfund. .... Sjálfstæðismenn virðast svo uppteknir af þessum fundi að það kemst ekkert annað að. Það er engu líkara en þeir hafi slegið lífinu í þessu landi á frest þar til fundurinn er afstaðinn. Á meðan dýpkar kreppan. Á meðan eykst reiðin. Á meðan átta landsmenn sig alltaf betur og betur á því að þessi flokkur hefur brugðist. Á meðan minnkar fylgið við sjálfstæðisflokkinn." Þetta segir Þröstur Helgason í Morgunblaðinu. Og ekki lýgur Mogginn.

Að lokum þetta:
Á Íslandi undanfarin ár hefur verið rekin glórulaus stefna. Við höfum fjarlægst Norðurlöndin, þokkalegustu samfélög í heimi, og nú er svo komið að við getum varla nefnt okkur í sömu andrá og þau. Við erum úti í mýri. Þökk sé mönnum sem héldu, að þeir vissu hvað væri Íslandi fyrir bestu. Og þessir menn halda ÁFRAM að segja Íslendingum hvað þeim er fyrir bestu. Áfram eru þeir spurðir: Hvað er íslandi fyrir bestu? Ég bið forláts, en þetta gengur einfaldlega ekki upp. Það eru meira að segja til Sjálfstæðismenn sem átta sig á því, þess vegna hefur fylgið hrunið af sjálfstæðiflokknum. 2200 milljarðar, stendur á forsíðu Morgunblaðsins í dag, og ekki lýgur Mogginn. ,,Það liggur í augum uppi að ályktun Sjálfstæðisflokksins um Evrópusambandsaðild á ekki eftir að skipta miklu máli." Stendur í Mogganum í dag. ,,Flokkurinn hefur einfaldlega ekki nægilegt traust til þess að hafa afgerandi áhrif á það hvað þjóðin ætlar að gera í þessum efnum." Stendur í Mogganum í dag. ,,Hann er ekki sá ráðgjafi sem maður myndi kjósa sér í mikilvægum efnum þessa dagana." Stendur í Mogganum í dag. ,,Hugmyndalega er hann gjaldþrota." Stendur í Mogganum í dag.

Herra Björn Bjarnason, hvað er Íslandi fyrir bestu? Herra Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hvað er Íslandi fyrir bestu? Herra Geir Haarde, hvað er Íslandi fyrir bestu?

Nei, þetta er að verða gott, þið hljótið að sjá það.

______________________________________________________

Hér er greinin í Morgunblaðinu eftir Þröst Helgason sem Eiríkur vitnar í.

Þröstur Helgason - Mbl. 15.1.09

Og góðar umræður í Kastljósi í gærkvöldi.

Síðan spyr ég aftur sömu spurninga og fyrir viku:

Ó, þjóð mín þjóð... 

Hvar ertu?

Hvar eruð þið, sem skrifið svo fjálglega um ástandið og spillinguna?
Hvar eruð þið, sem ræðið um byltingu í heitu pottunum og á kaffistofunum?
Hvar eruð þið, sem fordæmið bankamenn og útrásarauðmenn?
Hvar eruð þið, sem skammið ríkisstjórn, alþingismenn og embættismenn?
Hvar eruð þið, sem hallmælið gróðærinu og viljið annað siðferði?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við aðgerðir og aðgerðaleysi ráðamanna?
Hvar eruð þið, sem viljið réttlæti öllum til handa, ekki bara sumum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á hlutabréfakaupum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á peningamarkaðssjóðum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað lífeyrinum ykkar?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við að bankarnir afskrifi skuldir auðmanna?
Hvar eruð þið, sem viljið ekki selja þeim fyrirtækin aftur skuldlaus?
Hvar eruð þið, sem horfið á aldraða foreldra flutta hreppaflutningum?
Hvar eruð þið, sem viljið jafnræði?
Hvar eruð þið, sem sjáið húsnæðislánin ykkar rjúka upp?
Hvar eruð þið, sem hafið misst vinnuna?
Hvar eruð þið, sem viljið kosningar og nýja stjórn?
Hvar eruð þið, sem teljið réttlætiskennd ykkar misboðið?
Hvar eruð þið, sem eruð að lenda í heljargreipum verðtryggingar - sumir aftur?
Hvar eruð þið, sem viljið láta frysta eigur auðmanna?
Hvar eruð þið, sem fordæmið leynd og ógegnsæi aðgerða stjórnvalda?

Hvar er samviska ykkar?


Áskorun til fjölmiðlafólks

Ég er forviða á fjölmiðlum landsins, flestum hverjum. Nú fékk ég í fyrsta sinn að upplifa það, að komast ekki á mótmæla- eða borgarafund vegna veikinda. Varð að sitja heima og treysta á upplýsingar fjölmiðla og fyrst fundinum var hvorki sjónvarpað né útvarpað beint fær maður aðeins eftiráupplýsingar. Hamrað hefur verið á því undanfarna mánuði að góðar, ítarlegar og gegnsæjar upplýsingar til almennings skipti sköpum við að afhjúpa, fræða, skýra og fá þjóðina með í að byggja upp framtíðina.

Skemmst er frá því að segja, að eini miðillinn sem hefur staðið sig sæmilega sómasamlega er RÚV. Í gærkvöldi var bæði sagt frá fundinum í fréttum kl. 19 og 22, sem og viðtal við Robert Wade í Kastljósi. Ekki var minnst á fundinn í hádegisfréttum Bylgjunnar eða kvöldfréttum Stöðvar 2. Ísland í dag fjallaði um Idolið og kjólana á Golden Globe. Kompás fjallaði um krabbamein í hundum. Örsmáar fréttir um að húsfyllir væri í Háskólabíói birtust á mbl.is og visir.is.

Eftir að fundi lauk var ég friðlaus. Í tíufréttum RÚV hafði verið ýjað að sprengjum sem varpað var á fundinum og smátt og smátt, eftir lestur bloggs fundargesta, varð mér ljóst að það var sprengjuregn. Ég þaut milli netmiðlanna en fann smánarlega lítið. Allar aðrar upplýsingar varð ég að fá úr bloggum og tölvupósti. Þetta var á dv.is og þetta á Smugunni. Eyjan birti líka umfjöllun og tengdi í Smuguna. RÚV-vefurinn er dyntóttur í meira lagi og ég komst ekki inn á útvarpsfréttirnar.

Í morgun bjóst ég við ítarlegri umfjöllun prentmiðlanna, Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, um fundinn og allar sprengjurnar sem þar var varpað. En viti menn... Þetta er það eina sem kom um fundinn í Mogganum - engin efnisleg umfjöllun.

Háskólabíó fylltist - Mbl. 13.1.09

Og þessi agnarsmáa klausa var í Fréttablaðinu, sem er örþunnt í dag í stað þess að vera stútfullt af greinum og fréttaskýringum af atburðum undanfarinna daga. Það liggur við að þeir hefðu allt eins getað sleppt þessu alveg. Aumara verður það varla.

Salurinn þéttskipaður - Fbl. 13.1.09

Aftur á móti var viðtal við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur á Morgunvakt Rásar 1 í morgun og RÚV tók fundinn upp og boðaði sýningu á honum eftir tíufréttir á miðvikudagskvöld. Blaða- og fréttamenn fjölmiðlanna eru á nákvæmlega sama báti og við hin - þeim líður eins og okkur. Þeir eru auk þess upp til hópa heiðarlegir, klárir og vilja gera vel. Af hverju láta þeir þagga niður í sér? Hverju er þeim hótað? Hver hótar þeim?

Ég skora á íslenska fjölmiðlamenn og -konur að stíga fram, standa með þjóðinni og sjálfum sér og upplýsa okkur um það sem er að gerast í þjóðfélaginu, á bak við tjöldin og í forarpyttum stjórnmála, stjórnsýslu og fjármála. Láta ekki múlbinda sig lengur. Ráðherra hótaði Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur í gær. Hún sýndi hugrekki, lét það sem vind um eyrun þjóta og lét þjóðinni í té mikilvægar upplýsingar. Ég treysti því að hún standi við orð sín og fylgi þeim eftir. Segi allri þjóðinni sögu sína, ekki bara þeim sem voru í Háskólabíói. Ef allir sem eitthvað vita, bæði fjölmiðlafólk og viðmælendur þess, feta í fótspor hennar með heiðarleika og hugrekki, eigum við von.

Að lokum tek ég ofan minn ímyndaða hatt fyrir RÚV, útvarpi og sjónvarpi.

Viðtal við Robert Wade í Kastljósi

 

Umfjöllun í RÚV-fréttum um borgarafundinn í gærkvöldi


Leppar og leynifélög - 3. hluti

Búið er að mergsjúga íslenska efnahagskerfið, setja fjármálastofnanir á hausinn og nú blæðir þjóðinni. Ósköpin eru rétt að byrja. Hægt væri að fylla upp í ýmis göt og t.d. reka heilbrigðiskerfið með glans fyrir það fé sem auðjöfrar Íslands hafa stungið undan og liggja nú á eins og ormar á gulli. Þeir sötra kokteila á lystisnekkjum og fara í margra milljóna ævintýraferðir á meðan við hin þurfum að taka á okkur auknar byrðar og þrífa skítinn eftir þá.

Víðast hvar í heiminum sætu allir þessir menn í fangelsi á meðan þáttur þeirra í hruninu væri rannsakaður, eignir þeirra væru frystar og ekki hróflað við neinu fyrr en allt væri komið upp á borðið. En ekki á Íslandi, ónei. Hér sjá yfirvöld ekki ástæðu til þess. Kannski "er ekki hefð fyrir því" frekar en t.d. því að fólk axli ábyrgð, pólitíska eða siðferðilega, á afglöpum sínum.

Leppar og leynifélög - 3. hluti

Til upprifjunar - 2. hluti

 

Og 1. hluti

 


Áríðandi skilaboð til þjóðarinnar

Íslenska þjóðin hefur verið á hraðnámskeiði í hagfræði undanfarna þrjá mánuði. "Fræðunum" hefur verið troðið ofan í kok á okkur, nauðugum viljugum í ljósi efnahagshruns og aðstæðna. Við vitum margfalt meira núna en í september en örugglega er ótalmargt sem við hvorki vitum né skiljum ennþá. Og til að skilja er nauðsynlegt að fræðast.

Borgarafundur 24.11.08Í kvöld, mánudagskvöld, er borgarafundur í Háskólabíói klukkan átta. Þetta er 8. borgarafundurinn og sá 3. í Háskólabíói. Fólki er eflaust í fersku minni fundurinn 24. nóvember þegar við troðfylltum bíóið og anddyrið var stútfullt. Þá sátu ráðherrar fyrir svörum, gáfu innantóm loforð og sögðu okkur ekki vera þjóðina. Við lærðum heilmikið þótt ekki væri nema hvert viðhorf valdhafa er til fólksins í landinu.

Einmitt vegna þess hve nauðsynlegt er að fræðast og skilja orsakir og afleiðingar skiptir sköpum að fjölmiðlar sinni mótmæla- og borgarafundum. Það komast ekki nema visst margir inn í Háskólabíó. Hvers eiga hinar tugþúsundirnar (eigum við að segja hundruð þúsunda?) að gjalda sem annaðhvort komast ekki vegna aðstæðna eða búsetu eða ekki er pláss fyrir. Ég skora á RÚV eða Stöð 2 að sjónvarpa beint frá fundinum og útvarpsstöðvar að útvarpa frá honum líka! Fjölmiðlarnir eiga að sjá sóma sinn í að styðja almenning í landinu með því að auðvelda aðgengi að upplýsingum og aðgerðum. Þegar RÚV sýndi beint frá fundinum í sjónvarpi 24. nóvember mældist gríðarlegt áhorf. Við, fólkið í landinu, eigum RÚV. Sendið þeim ykkar skilaboð og hjálpið mér og öllum hinum að vekja athygli á fundinum. Skrifið bloggfærslur, tengið í þessa færslu, talið við samstarfsfólkið... hvernig sem þið farið að.

Viðbót mánudag kl. 12:28: Var að heyra í hádegisfréttum RÚV að fundurinn yrði tekinn upp og sýndur með íslenskum texta eftir tíufréttir á miðvikudagskvöld.

Fundurinn í kvöld verður alveg einstaklega fróðlegur og ég skora á alla sem mögulega geta að mæta! Að þessu sinni verður fjallað um íslenskt atvinnulíf í aðdraganda kreppunnar, spurt hvað fór úrskeiðis og fjallað verður um hriplekt lagaumhverfi og veikar eftirlitsstofnanir. Formönnum stjórnmálaflokkanna og stjórn Viðskiptaráðs Íslands hefur verið boðin þátttaka í pallborðsumræðum. Komið hefur fram nokkuð víða, síðast í Silfrinu í gær, að Viðskiptaráð hefur verið öflugur þrýstihópur og fengið um 90% af baráttumálum sínum í gegn hjá ríkisstjórnum fyrr og nú, m.a. afnám regluverks í fjármála- og viðskiptalífinu - með afleiðingum sem öllum eru kunnar. Ábyrgð þeirra er mikil. Þetta er fundur sem við getum öll lært af, m.a. til að tryggja að sömu mistökin verði ekki gerð aftur, t.d. að einkavæða heilbrigðisþjónustuna eða orkuauðlindirnar og gefa auðmönnum.

Frummælendur á borgarafundinum verða:
Robert Wade - prófessor í stjórnmálahagfræði við London School of Economics
Raffaella Tenconi - hagfræðingur hjá Straumi fjárfestingabanka í London
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir
- stjórnsýslufræðingur
Herbert Sveinbjörnsson - heimildamyndagerðarmaður og aðgerðasinni

Raffaellu veit ég ekkert um en þegar maður gúglar hana virðist hún vinna hjá Dresdner Kleinwort sem líkast til er samstarfsaðili Straums. Sigurbjörg var í Silfri Egils 30. nóvember sl., sjá neðsta myndbandið hér. Herbert var í Silfrinu í gær, sjá næstefsta myndbandið hér.

Robert Wade ætti að vera mörgum Íslendingum kunnur. Hann hefur haldið fyrirlestra í Háskóla Íslands og í byrjun júlí sl. skrifaði hann grein í Financial Times, biblíu fjármálamanna, sem hann nefndi Iceland pays price for financial excess. Greinin er neðst í færslunni í Word-skjali. Forsætisráðherra var ekki hrifinn og líkti grein Wades við aðsenda grein í DV eða einhverju slíku blaði og talaði niður til hans eins og heyra má í þessari úrklippu úr Íslandi í dag frá 3. júlí 2008.

 

Greinin vakti talsverða athygli hérlendis. Ég skrifaði lítinn pistil með slóðum og þessari frétt sem birtist í tíufréttum RÚV 1. júlí. Hér er umfjöllun Vísis.is um greinina. Skyldi spáin um stjórnarslit fara að rætast fljótlega? Takið sérstaklega eftir lokaorðunum.

Skömmu eftir hrunið, eða 7. október, var viðtal við Robert Wade í fréttum RÚV. Aftur skrifaði ég pistil og vakti athygli á málflutningi Wades.

 

Á borgarafundinum í kvöld verður sýnd um 10 mínútna annáll um fundina sem haldnir hafa verið. Ég veit þó ekki hvort sá á fimmtudagskvöldið er með, hann er svo nýr. En fundirnir hafa verið hver öðrum betri og áhugaverðari. Í Silfrinu í gær var sýnt þetta sýnishorn úr annálnum. Heiða skessuskott er þar í stóru hlutverki, enda skörungur sem leggur sitt af mörkum til betra samfélags.

 Borgarafundur í Háskólabíói 12. janúar 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Silfrið að hætti klappstýrunnar

Ég fékk skemmtilegan tölvupóst um daginn með slóð að vefsetrinu www.málefnin.com sem ég þekki ekkert. Í einni umræðunni þar var verið að gagnrýna okkur Egil bæði og ég var kölluð helsta klappstýra Egils Helgasonar sem samviskusamlega klippti þættina hans í neytendavænar umbúðir. Af ummælunum mátti helst skilja að hvorugt okkar hefði neitt markvert til málanna að leggja og ætla mætti að í höfðum okkar bærðist engin gagnrýn hugsun. Þetta má allt lesa hér. Höfundur skrifar undir dulnefni.

En með tölvupóstinum fylgdu nokkuð greinargóðar leiðbeiningar fyrir klappstýrur, s.s. um nauðsynlegt líkamlegt atgervi og æskilegan klæðaburð. Samkvæmt því ætti ég að sitja nýböðuð og ilmandi, íklædd glansandi stuttpilsi og aðskorinni, fleginni íþróttatreyju einhvers konar, förðuð og fín við að taka upp og klippa Silfur Egils. Ég gef ekki upp hvort ég fór eftir leiðbeiningunum, en hér er Silfrið í "neytendavænum umbúðum". Að þessu sinni bærist engin hugsun í höfði mér, hvorki gagnrýnin né annars konar, enda sárlasin.

Vettvangur dagsins 1 - Björg Eva Erlendsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Jakobína Ólafsdóttir, Hörður Torfason

 

Vettvangur dagsins 2 - Vilhjálmur Bjarnason, Þórður B. Sveinbjörnsson, Herbert Sveinbjörnsson


Torben Friðriksson, fyrrverandi ríkisbókari

 

Einar Baldursson, sálfræðingur

 

Njörður P. Njarðvík, prófessor (sjá grein hér)

 


Víkverjaþankar og sukkreikningur Halldórs

Ég er núna fyrst að hraðlesa blöð undanfarinna daga. Það er mikið verk og seinlegt - enda situr það oft á hakanum hjá mér. Slangur af blaðagreinum hér, uppfært slitrótt og af handahófi. Þetta var í laugardagsblaði Moggans - frábær Halldór að venju og pælingar Víkverja dagsins:

Sukkreikningur - Halldór - Mbl. 9.1.09
Víkverji - Mbl. 10. janúar 2009


Ó, þjóð mín þjóð

Hvar ertu?

Hvar eruð þið, sem skrifið svo fjálglega um ástandið og spillinguna?
Hvar eruð þið, sem ræðið um byltingu í heitu pottunum og á kaffistofunum?
Hvar eruð þið, sem fordæmið bankamenn og útrásarauðmenn?
Hvar eruð þið, sem skammið ríkisstjórn, alþingismenn og embættismenn?
Hvar eruð þið, sem hallmælið gróðærinu og viljið annað siðferði?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við aðgerðir og aðgerðaleysi ráðamanna?
Hvar eruð þið, sem viljið réttlæti öllum til handa, ekki bara sumum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á hlutabréfakaupum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á peningamarkaðssjóðum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað lífeyrinum ykkar?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við að bankarnir afskrifi skuldir auðmanna?
Hvar eruð þið, sem viljið ekki selja þeim fyrirtækin aftur skuldlaus?
Hvar eruð þið, sem horfið á aldraða foreldra flutta hreppaflutningum?
Hvar eruð þið, sem viljið jafnræði?
Hvar eruð þið, sem sjáið húsnæðislánin ykkar rjúka upp?
Hvar eruð þið, sem hafið misst vinnuna?
Hvar eruð þið, sem viljið kosningar og nýja stjórn?
Hvar eruð þið, sem teljið réttlætiskennd ykkar misboðið?
Hvar eruð þið, sem eruð að lenda í heljargreipum verðtryggingar - sumir aftur?
Hvar eruð þið, sem viljið láta frysta eigur auðmanna?
Hvar eruð þið, sem fordæmið leynd og ógegnsæi aðgerða stjórnvalda?
 
Hvar er samviska ykkar?

Hvar eru þessar tugþúsundir sem eru í viðráðanlegri fjarlægð, við sæmilega heilsu og ættu að mæta á Austurvöll klukkan 15 á laugardögum og tjá óánægju sína með nærveru sinni þar? Eruð þið í Kringlunni eða Smáralind? Heima að horfa á enska boltann eða þrífa? Í sundi eða húsdýragarðinum? Hvar eruð þið?

Það eru 168 klukkutímar í einni viku. 8 tíma svefn á nóttu eru 56 tímar. 10 tímar í vinnu og ferðir 5 daga vikunnar eru 50 tímar. Eftir eru 62 tímar í viku. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þið getið ekki séð af 1 klukkutíma til að mæta á Austurvöll og tjá með nærveru ykkar að þið séuð ekki sátt við ástandið í þjóðfélaginu og hvernig er tekið á því?

Ég bara næ þessu ekki.

Hvort ætli sé mikilvægara - hvort Manchester United vinnur Chelsea í dag eða hvort þið eigið þak yfir höfuðið til að horfa á leik eftir nokkra mánuði? Hvaða máli skiptir hvort þið farið í sund klukkan tólf eða þrjú? Eru Kringlan og Smáralind ekki opnar á öðrum tímum en milli þrjú og fjögur á laugardögum? Hvar í andskotanum eruð þið?

Hvernig réttlætið þið það, að láta okkur hin - par þúsund manns eða svo - heyja baráttuna fyrir ykkur? Hvað gerir ykkur svo sérstök að þið séuð undanþegin því að taka þátt í að berjast fyrir framtíð ykkar sjálfra, barnanna ykkar og barnabarnanna? Hvernig í ósköpunum stendur á því að þið berið ekki hönd yfir höfuð ykkar og látið aðra um að mæta á mótmælafundi fyrir ykkur? Hvar er sú gagnrýna hugsun sem ykkur var gefin í vöggugjöf?

Hvað ætlið þið að segja barnabörnunum ykkar þegar mótmæla- og borgarafundirnir eru komnir í sögubækurnar? "-Varst þú þarna, afi? -Nei, ég var heima að horfa á enska boltann. -En þú, amma? -Nei, ég fór alltaf í Kringluna á laugardögum." Eða ætlið þið kannski að ljúga og segjast hafa tekið þátt í mestu hugarfarsbyltingu Íslandssögunnar án þess að hafa lyft litlafingri eða mótmælaspjaldi? Hvar er réttlætiskennd ykkar?

Ég bara skil ykkur ekki.

Eruð þið virkilega ekki búin að fatta hvað er á seyði? Horfið þið ekki eða hlustið á fréttir? Vitið þið ekki að það er búið að arðræna þjóðina, stjórnvöld hylma yfir með sökudólgunum og enginn er látinn sæta ábyrgð? Vitið þið ekki að heilbrigðisráðherra er að leggja heilsugæsluna í rúst til að einkavæða hana og gefa auðmönnum - að hann hefur ekkert lært? Hvar eruð þið, heilbrigðisstéttir þessa lands á frívakt á laugardögum?

Ef einhver er í vafa um hvort tilefni sé til að mæta á Austurvöll klukkan þrjú í dag eru hér þrjú myndbönd til að skerpa sýnina. Þetta eru fréttir Stöðvar 2 og RÚV 8. og 9. janúar - í gær og í fyrradag. Bara tvö kvöld - og bara þarna eru ótal tilefni. Hvað þá í fréttum undanfarinna þriggja mánaða. Og myndband af Sjónvarpi Mbl.is þar sem grunur minn í síðasta pistli er staðfestur - það á að einkavæða heilbrigðisþjónustuna að amerískri fyrirmynd. Ég - fyrir mína parta - mótmæli því af alefli! En þið?

Stöð 2 - 8. og 9. janúar 2009

 

RÚV - 8. og 9. janúar 2009

 

Mbl Sjónvarp - 8. janúar 2009

 

Elskurnar mínar - ef þetta nægir ykkur ekki, ofan á allt sem á undan er gengið - þá veit ég ekki hvað þarf til að vekja ykkur af gróðærismókinu. Sjáumst á Austurvelli í dag og alla laugardaga þar til árangur næst - klukkan þrjú


Hryðjuverk heilbrigðisráðherra

Guðlaugur Þór ÞórðarsonEins og allir vita er Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi heilbrigðisráðherra íslensku þjóðarinnar, sjálfstæðismaður. Og ekki nóg með það - hann er frjálshyggjumaður. Fulltrúi þeirrar stefnu í stjórnmálum sem er rétt nýhrunin til grunna. Hann hefur talað grimmt fyrir því "frelsi án hafta" sem leitt hefur Íslendinga til glötunar og örugglega fleiri þjóðir. Guðlaugur Þór og skoðanabræður hans vilja gefa allt frjálst, einkavæða alla hluti, hafa "frjálsa samkeppni" sem víðast - sama hvaða nöfnum það nefnist. Hann segir að ríkið eigi ekki að vera að vasast í rekstri á einu eða neinu, allt eigi að vera í höndunum á einkaaðilum. Allt. En sjálfur er hann auðvitað á öruggum launum hjá ríkinu eins og fleiri frjálshyggjupostular og einkavæðingarsinnar og eftirlaunin verða með eindæmum góð.

Ég skrifaði svolítinn einkavæðingarpistil í júlí í framhaldi af umræðu um pistilinn þar á undan og hef ekki skipt um skoðun á því sem ég sagði þar og geri líklega aldrei = Það má alls ekki einkavæða grunnþjónustu og -stoðir þjóðfélagsins! Þar er að sjálfsögðu heilbrigðisþjónustan innifalin.

Ég vonaði að fólk hefði lært eitthvað á efnahagshruninu, en nei - ekki Guðlaugur Þór. Hann vinnur nú markvisst að því að einkavæða sinn málaflokk, heilbrigðismálin. Ég efast nefnilega ekki eitt sekúndubrot um að aðgerðir hans séu beinlínis undirbúningur undir einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Þær eru hagsmunapólitík eins og einn viðmælandinn í myndbandinu hér að neðan fullyrðir.

Um leið og heilbrigðisráðherra setur á ný gjöld og hækkar önnur fækkar hann heilbrigðisstofnunum á landinu úr 23 í 6. Ég endurtek: Heilbrigðisráðherra fækkar heilbrigðisstofnunum á landinu úr 23 í 6! Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum og eyrum. Þetta er hryðjuverk á heilbrigðisþjónustunni, ekkert minna. Í anda frjálshyggjunnar og einkavæðingarinnar sprettur svo væntanlega upp einkarekin heilbrigðisþjónusta - þar sem menn telja sig geta grætt á henni. Og það verður örugglega ekki í fámennari sveitarfélögum landsins, svo mikið er víst. En Guðlaugur Þór er búinn að setja kúrsinn, nú skal borgað fyrir alla hluti heilbrigðisþjónustunnar (sem var nógu dýr fyrir) og því verður mun auðveldara fyrir einkaaðilana að verðleggja sig þegar þeir þeir spretta upp. Síðan kemur gamli söngurinn: "Ríkið á ekki að vera í samkeppni við einkaaðila." Kannist þið ekki við hann?

Guðlaugi Þór virðist líka vera mikið í nöp við samráð og réttar upplýsingar til þeirra aðila sem málið við kemur. Ekkert samráð við heilbrigðisnefnd Alþingis, nefndarmenn heyra um gjörðir hans í blöðunum. Ekkert samráð við stéttarfélög eða starfsmannafélög, bæjarstjórnir eða aðra aðila sem málið snertir. Og hann er að flýta sér einhver ósköp. Af hverju þessi flýtir, Guðlaugur Þór? Það hefur tekið marga áratugi, jafnvel heila öld, að byggja upp heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Hvers vegna að leggja hana í rúst á nokkrum vikum? Hver er tilgangurinn?

St. Jósefsspítali í Hafnarfirði er rómað sjúkrahús fyrir góða þjónustu og alveg einstaklega gott og hæft starfsfólk. Stolt Hafnarfjarðar. Ég veit um St. Jósefsspítali - Ljósm. Mbl.marga sem, þegar þeir hafa haft val, hafa valið að leggjast þar inn frekar en á önnur sjúkrahús. Nú á að breyta honum í öldrunarstofnun. Sumt starfsfólk verður væntanlega eftir, annað flyst á Landsspítala og rúsínan í pylsuendanum er sú að skurðstofustarfsfólkið getur fengið vinnu í Keflavík - af öllum stöðum. Ekki á Landsspítalanum, heldur í Keflavík.

Bíðum nú við. Er þetta hagsmunapólitíkin sem minnst var á? Ég veit það ekki, það er að minnsta kosti vond lykt af þessu. Árni Sigfússon, bæjarstjóri þar, er sjálfstæðismaður. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, er í Samfylkingunni. Er heilbrigðisráðherra að gera samflokksmanni sínum pólitískan vinargreiða með því að senda skurðstofustarfsfólkið til Keflavíkur, þar sem nýverið þurfti að loka skurðstofum vegna samdráttar? Kaupa vinsældir fyrir flokksbróður sinn svo hann verði endurkjörinn? Hvaða vit er í því að keyra fram og til baka Keflavíkurveginn með sjúklinga, ýmist í einka- eða sjúkrabílum? Aukin umferð og mengun og jafnvel gæti fjarlægðin skilið milli lífs og dauða. Hver veit? Og hver á að borga brúsann? Kannski auðjöfurinn sem fréttist af nýlega að skoða skurðstofurnar í Keflavík og sagðist hafa áhuga á loftræstikerfinu þar? Og sem var í notalegri nærmynd í Íslandi í dag á þriðjudagskvöldið. Á kannski að fara að selja inn á skurðstofurnar? Kannski er ég alveg úti að aka í þessum ályktunum - kannski ekki. Það kemur í ljós.

En nú spyr ég: Hvar eru alþingismenn? Hvar er stjórnarandstaðan? Hvar eru þeir sem vilja hag heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem mestan? Hvar eru þeir sem vilja og geta staðið vörð um hana? Af hverju í ósköpunum gerir fólk ekki allt vitlaust þegar verið er að leggja heilbrigðiskerfið okkar í rúst? Ég skil þetta ekki. Það nægir engan veginn að koma í örstutt viðtöl í sjónvarpið og segjast hafa verið blekkt eða að ekki sé haft samráð. Ætla alþingismenn virkilega að láta þessa eyðileggingu viðgangast? Ég hef enga trú á því að almenningur eða heilbrigðisstarfsfólk vilji láta einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Við höfum séð afleiðingar þess t.d. í Bretlandi, þær eru skelfilegar. Og við eigum að vita, ef við horfum eitthvað út fyrir hlaðvarpann heima, að hin einkarekna heilbrigðisþjónusta í Bandaríkjunum er eitt hræðilegasta dæmið um mismunun sem um getur. Horfið á heimildamynd Michaels Moore, Sicko - 1. hluti hér og restin er þarna líka.  Fengum við ekki nóg af skefjalausri mismunun í gróðærinu?

En hér eru samanklipptar fréttir frá 2. til 7. janúar 2009 um hryðjuverk heilbrigðisráðherra.

Það vantar peninga, gott og vel. Ég sting upp á léttum samvæmisleik, t.d. í athugasemdakerfinu við þennan pistil. Við getum kallað hann "Tapað - fundið". Guðlaug Þór vantar 1.300 milljónir segir í einni fréttinni. Það eru 1,3 milljarðar. Finnum Finn... þá fyrir hann. Neðst í pistlinum hengdi ég Fjárlögin 2009. En ég skal byrja.

Bjarni Ármannsson, sem reyndi að kaupa sér aflausn á fölskum forsendum í vikunni, fékk að sögn um 1 milljarð við starfslok. Hann seldi líka hlutabréfin sín á yfirverði og hresstist við það pyngja hans um 7 milljarða. Bjarni segist hafa "skilað" 370 milljónum en sú tala hefur verið dregin mjög í efa. Engu að síður getur Bjarni lagt að minnsta kosti 7 milljarða í púkkið. Að eigin sögn þráir hann að taka þátt í að byggja samfélagið upp aftur, þetta er kjörið tækifæri. Svo á hann rándýra íbúð í London sem hann getur selt og látið okkur fá andvirðið. Þetta er feykinóg fyrir Guðlaug Þór og gott betur - en ég ætla að nefna eitt í viðbót af því ég hef það á hraðbergi.

Hér er grein úr Mogganum í gær um Kjalar, félag í eigu Ólafs Ólafssonar - sem ásamt Finni Ingólfssyni (fann einhver Finn?) fékk Búnaðarbankann að gjöf sem varð svo Kaupþing. Lesið greinina. Ég fæ ekki betur séð en að Ólafur sé að krefja ríkið (okkur) um greiðslu á hvorki meira né minna en 190 milljörðum króna! Ég trúi ekki að maðurinn þurfi á öllum þessum peningum að halda, þetta er bara hreinræktuð græðgi. Hann getur vel séð af svona, ja... að minnsta kosti 50 milljörðum til samfélagsins sem hann blóðmjólkaði. Smáaurar.

Auk fjárlaganna set ég hér inn myndband úr Íslandi í dag í gærkvöldi. Þar var rætt við Agnesi Braga og Andrés Jónsson um starfslokasamninga og nokkrir slíkir eru listaðir á skjánum. Eitthvað hlýtur að fást hjá því góða fólki sem örugglega vill leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Varla hugsar þetta fólk aðeins um að skara eld að eigin köku lengur og skilur okkur hin eftir í skítnum, því trúi ég ekki.

Mér sýnist ég vera búin að finna um það bil 60 milljarða fyrirhafnarlaust, hef þó bara nefnt tvo menn á nafn og ekki snert fjárlögin. Skoðið endilega málið, komið með tillögur og hvetjið aðra til þess líka - svo tek ég þetta saman. Málinu reddað, kreppan búin - eða hvað? Ég minni á að milljarðatugir auðmannanna eru í raun okkar peningar. Þeir rændu þjóðina með fölsunum, lygum og blekkingum svo við skulum óhrædd vera frek á féð.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þetta gerist aftur og aftur og aftur

Í bernsku minni var almenningsálit heimsins hliðhollt Ísraelsmönnum og Helföringyðingum almennt. Mjög hliðhollt, þeir voru fórnarlömb. Ég man eftir bók sem pabbi átti og ég blaðaði oft í, man ekki hvað hún hét. En í henni var lýst í máli og myndum hvernig gyðingum var smalað í útrýmingarbúðirnar og ofnana. Ég, barnið, grét yfir tötralega klæddu, grindhoruðu fólkinu, jafnöldrum mínum jafnvel, sem var leitt til slátrunar fyrir það eitt að vera til og tilheyra einhverjum hópi fólks sem ég kunni engin sérstök skil á önnur en að þetta var bara fólk eins og ég, systir mín og mamma og pabbi. Ég las ótal bækur um helförina og háskældi yfir örlögum gyðinga víða í Evrópu. Gladdist yfir því að þeir hefðu fundið sér heimili og föðurland fyrir botni Miðjarðarhafs og sest þar að. Hvergi var minnst á að þar hafi fólk búið fyrir og verið ýtt til hliðar þegar þeir hópuðust þangað. Ónei, það vissi ég ekki fyrr en seinna. Þegar ég var á unglingsaldri þótti voða fínt að fara til Ísraels og vinna á ísraelsku samyrkjubúi og það gerðu nokkur íslensk ungmenni.

Síðan er mjög mikið vatn til sjávar runnið og samúð mín með Ísraelsmönnum löngu, löngu fokin út í veður og vind. Eða réttara sagt - hún var drepin með vélbyssum, skriðdrekum, yfirgangi og ofbeldi. Til að byrja með reyndi ég að finna réttlætingu, en því meira sem ég vissi og því betri sem fréttaflutningurinn varð því ógerlegra var það og ég gafst að lokum alveg upp á slíkum þönkum. Ég hef enga sérstaka samúð með neinum af því hann eða hún aðhyllist einhver viss trúarbrögð, en ég hef samúð með manneskjum. Fólki. Kæri mig ekki um að flokka það eftir trúarskoðunum, húðlit eða öðru því, sem leiðir aldrei til annars en fordóma, haturs og styrjalda. Ég hef aftur á móti megnustu skömm á öllum öfgum, heilaþvotti og ítroðslu - sem leynist ótrúlega víða. Og ég þoli ekki neins konar yfirgang og ofbeldi.

Oft hef ég spurt sjálfa mig hvernig ég - eða við - myndum bregðast við ef Biblíahér yrði gerð innrás eins og gyðingar gerðu í Palestínu. Ef fólk veifandi 2000 ára gamalli bók kæmi askvaðandi og segði: "Við eigum þetta land. Það stendur hérna." Kannski meira að segja bók sem við hefðum ekki hugmynd um að væri til. Ef til vill Norðmenn? Landnámsmenn voru jú Norðmenn. Eða Írar? Hér ku hafa verið írskir munkar fyrir landnám og stór hluti landnámsfólks var írskir þrælar, leysingjar eða frjálsir menn. Er kannski til bók á gelísku þar sem stendur að eitthvert æðra vald hafi kveðið svo á um að Írar ættu eyjuna í norðri? Hvað vitum við? En það er ekkert sérlega erfitt að svara spurningunni um hvað ég myndi gera - hvað við myndum gera. Við yrðum öll skæruliðar - fyrir utan þann hóp sem, eins og alltaf gerist, vinnur með "innrásarliðinu". Kvislingana. Við myndum berjast fyrir landinu okkar, tilverurétti okkar og barnanna okkar fram í rauðan dauðann. Beita hvaða meðulum sem tiltæk væru. Ég efast ekki um það eitt augnablik.

Það vantar bara rétt rúma tvo mánuði upp á að það séu 7 ár - sjö ár! - síðan hann flutti pistilinn í Íslandi í bítið á Stöð 2. Það var nánar til tekið  þriðjudagsmorguninn 12. mars 2002. Svo var pistillinn birtur á netinu, líklega á vef JPV útgáfunnar. Ég lagði við hlustir eins og venjulega þegar hann flutti pistla og - eins og oftast - hitti hann mig í hjartastað. "Já, einmitt," hugsaði ég með mér - enda átti ég pistilinn ennþá. Hann var að lýsa minni upplifun alveg jafnt og sinni. Ekki man ég hvað var að gerast í Palestínu á þessum tíma, en eitthvað var það. Og pistilinn skrifaði Illugi Jökulsson:

Tökum ekki á móti sendiboðanum

Ég man alltaf þegar Yom Kippur stríðið hófst í október 1973 - þá gerðu Egiftar og Sýrlendingar óvænta árás á Ísrael og virtust ná miklum árangri í fyrstu - fréttirnar bárust að morgni, þegar ég var á leið í skólann, og þegar skólanum lauk, þá flýtti ég mér heim áhyggjufullur og spurði móður mína andstuttur: "Jæja, hvernig gengur Ísraelsmönnum?" Og var svo með böggum hildar, eins og það heitir nútildags, fyrstu dagana meðan Ísraelar fóru sem mest halloka.

Þetta nefni ég aðeins til marks um að hér talar bóna fíde stuðningsmaður Ísraels frá blautu barnsbeini og langt fram á þennan dag. En þegar ég las í Fréttablaðinu í gær að von væri á sendiherra frá Ísrael til að afhenda hér trúnaðarbréf sitt á morgun, á miðvikudag, þá urðu viðbrögðin þau að fá hroll - Drottinn minn dýri, ég ætla bara rétt að vona að íslenskir ráðamenn ætli ekki á þessum síðustu og verstu tímum fyrir botni Miðjarðarhafs að fara að taka með pompi og prakt á móti trúnaðarmanni ríkisstjórnar Ísraels og bjóða honum til Bessastaða að skála í kampavíni; það væri svona rétt eins og að taka kurteislega á móti Joachim von Ribbentropp rétt í þann mund að maður hefur frétt af Treblinka og Auswitz, eða sendiherra Rauðu khmeranna meðan þeir gengu sem harðast fram, eða Radovan Karadzic eða Radko Mladic - guð forði okkur frá slíkum gestum.

Þessi pistill er því fyrst og fremst áskorun til íslenskr
Illugi Jökulsson - Ljósm. Mbl. Ómara ráðamanna, og einkum Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, og Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, að sleppa því að taka með allri seremóníu á móti þessum nýja sendiherra - aðeins þannig er nógsamlega hægt að lýsa andstöðu sinni við framferði Ísraela þessar vikurnar og þessa dagana, þessar mínúturnar liggur mér við að segja. Og ekki bara andstöðu, heldur fyrirlitningu og viðbjóði.

Það er nú svo einkennilega komið að þetta Ísraelsríki, sem ég eyddi mörgum áratugum ævi minnar í að styðja í huganum, beitir í einu og öllu aðferðum sem hvaða fasistar sögunnar sem er væru fullsæmdir af - og þótt engin von sé til þess að róta á nokkurn hátt við trénuðu ofbeldisæði forsætisráðherrans, þá gæti það kannski orðið til að vekja fáeina menn í Ísrael til umhugsunar að trú og trygg vinaþjóð Ísraela einsog Íslendingar séu búnir að fá sig svo fullsadda að þeir loki dyrum sínum, hryggir og reiðir, á sendimenn þeirra.

Að minnsta kosti er það fjandanum óviðkunnanlegri tilhugsun að ímynda sér íslenskan utanríkisráðherra og forseta lýðveldisins tipla á tánum kringum reigingslegan trúnaðarmann frá Aríel Sharon, manni sem af einhverjum dularfullum ástæðum virðist hafa lært alla sína pólitík af fordæmi þeirra Heinrich Himmlers og Reynhards Heydrich.

Nú kynnu einhverjir að segja að það sé ekki beint vænlegt til að hafa áhrif á aðrar þjóðir að neita bara að taka á móti sendiboðum þeirra; það sé í fyrsta lagi diplómatískur dónaskapur sem ekki muni skila öðru en móðguðum diplómat og erfiðari samskiptum þaðan í frá, og í öðru lagi sé miklu áhrifameira að taka á móti manninum og lýsa óánægju með stefnu stjórnar hans á ákveðinn en vissulega kurteislegan hátt - ætíð sé sennilegra að samræður hafi áhrif en að skella hurðum.

En hvað sem líður einstökum svokölluðum tilslökunum eru Sharon og hans menn löngu búnir að sýna og sanna að þeir hafa engan áhuga á samræðum - orð, röksemdir, bænir - þetta hefur engin áhrif á þá menn. Þá er betra að skella hurðum og vona að hurðaskellurinn heyrist alla leið suður til Jerúsalem, og vita að minnsta kosti að maður hefur ekki lagt beina eða óbeina blessun sína yfir framferði Ísraels með því að taka á móti sendimanni landsins, eins og það væri bara hvert annað land en ekki helsta hryðjuverkaríki heimsins um þessar mundir.

Nú blandast auðvitað engum hugur um að herskáir leiðtogar Palestínumanna eiga verulega sök á þeirri ofbeldisþróun sem leiddi til þessa ástands sem nú ríkir. Það blandast heldur engum hugur um að hafi Yasser Arafat einhvern tíma verið brúklegur leiðtogi, þá er sá tími löngu liðinn. Mín vegna má og skal draga þá alla til þeirrar ábyrgðar sem þeir eiga skilið. En aðgerðir Ísraels eru löngu hættar að bitna á þeim sem það kunna að eiga skilið - það er verið að ráðast á börn, barnshafandi konur, fólk sem allir vita að hefur ekkert til saka unnið annað en vera Palestínumenn. Og það er ráðist markvisst á sjúkrabíla - við eigum ekki, hæstvirtur utanríkisráðherra, að líta einu sinni við fulltrúum frá slíkum ríkjum.

Baráttuaðferðir hinna herskáustu Palestínumanna hafa löngum verið fyrirlitlegar og hörmulegar. En að ríkisstjórn í svokölluðu lýðræðisríki - og það einu allra öflugasta herveldi heimsins - skuli svara í sömu mynt, með sömu og jafnvel viðbjóðslegri aðferðum, það er þyngra en tárum og ekkert hjal yfir kampavínsglösum getur eytt þeirri ábyrgð sem við berum ef við lýsum ekki með hvurju einasta ráði sem við eigum algerri andstöðu okkar við þetta fasistaríki.

Það hefur stjórn Aríel Sharons að minnsta kosti afrekað að þessa dagana er alltént auðveldara að skilja palestínsk ungmenni sem í æði og örvæntingu yfir niðurlægingunni og kúguninni sem þjóð þeirra hefur mátt þola í hálfa öld, og núna blóðbaðinu - að þau reyri sig sprengjum og fórni lífinu í fánýtri og blóðugri hefnd - heldur en forsætisráðherrann sem sendir dáta sína útá götur í skriðdrekum og segir þeim að skjóta á sjúkrabíla.

Í öllum hamingju bænum - Halldór Ásgrímsson, Ólafur Ragnar Grímsson - neitið að taka á þessum sendiboða þeirra hryðjuverkamanna sem nú ráða Ísrael, eða farið út úr bænum ef þið þráist við að telja kurteisisvenjur ekki leyfa ykkur annað, þykist vera veikir, eða leggist á gólfið á Bessastöðum þegar hann bankar og svarið ekki í símann - heiðrum ekki fasistana með því að bjóða þeim í okkar hús; þá menn sem brjóta niður hús og heimili saklauss fólks í Palestínu; þessir menn eru ekki í vorum húsum hæfir.

____________________________________________

Nú stendur yfir slátrun á almennum borgurum á Gaza. Fólki eins og mér og Börnum slátrað í Palestínuþér, systur minni, mömmu og pabba, börnunum okkar og barnabörnunum. Þeim er slátrað í hundraðatali - í skólum, á heimilum sínum - hvar sem er. Fólki sem er innilokað eins og dýr í búri á litlum bletti og kemst hvorki lönd né strönd. Ef þetta væru dýr hefðu öll dýraverndarsamtök veraldar risið upp á afturlappirnar og gert allt vitlaust. Það má ekki drepa hvali eða ísbirni! En þetta er fólk - manneskjur - börn, konur, gamalmenni... Alþjóðasamfélagið lætur sér fátt um finnast, enginn slítur stjórnmálasambandi við Ísrael og stjórnir heimsins láta nánast eins og ekkert sé. Harma en fordæma ekki, tala en gera ekkert. Enda er þetta "bara" fólk, ekki dýr. Hvað þá dýr í útrýmingarhættu, raunverulegri eða ímyndaðri. Mér er alveg sama um alla alþjóðapólitík - hvers konar manneskjur erum við eiginlega? Af hverju líðum við þetta?

Eftir síðari heimsstyrjöldina var sinnuleysi alþjóðasamfélagsins gagnrýnt harkalega fyrir að bregðast ekki við helförinni. Samfélög gyðinga um allan heim halda þeirri gagnrýni á lofti enn þann dag í dag. En önnur helför hefur verið í gangi áratugum saman við botn Miðjarðarhafs og það finnst þeim í lagi því þar eru þeir sjálfir gerendurnir. Alþjóðasamfélaginu er líka sama - og á meðan er börnunum slátrað.

Ég grét yfir Kastljósi gærkvöldsins og ég er sannfærð um að það gerðu fleiri. Hlustið líka á mjög fróðlegt viðtal við Jón Orm Halldórsson í Víðsjá hér. Viðtalið er líka í tónspilaranum merkt: Víðsjá - Jón Ormur Halldórsson um árásir... Jón Ormur segir m.a. að verið sé að drepa börn af því það eru kosningar í Ísrael í mars. Stjórnin þarf að skora í skoðanakönnunum. Alveg eins og Brown þegar hann beitti hryðjuverkalögunum á Íslendinga.

 

Slysaskot í Palestínu

Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteyg dökkhærð stúlka
liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan brotin.

Ég er Breti, dagsins djarfi
dáti, suður í Palestínu,
en er kvöldar klökkur, einn,
kútur lítill, mömmu sveinn.

Mín synd er stór. Ó, systir mín.
Svarið get ég, feilskot var það.
Eins og hnífur hjartað skar það,
hjarta mitt, ó, systir mín,
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.

Kristján frá Djúpalæk (1916 - 1994) - Í víngarðinum 1966


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband