Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Góðar hugmyndir eru sígildar

Fyrir nokkrum dögum bárust mér skilaboð frá góðum bloggvini með hugmynd sem mér þótti fjári góð og lofaði að koma áleiðis. Ég gleymdi mér og er svolítið sein á ferðinni með hana, en gjörningurinn sem í henni felst er sígildur og á við jafnt framvegis sem í dag.

Hugmyndin er þessi: Flestir eiga gamla lykla sem þeir hafa ekki not fyrir, vita ekki að hverju þeir eru eða hafa gleymt því... semsagt - ónothæfa aukalykla. Hengjum lykil í band, t.d. jólaborða, mætum með lykilinn á Austurvöll kl. 15 á laugardögum og hengjum hann á norska jólatréð. Þetta er táknrænn gjörningur og verður æ táknrænni eftir því sem fleiri annað hvort gefast upp á að borga síhækkandi afborganir á verðtryggðum húsnæðislánum eða missa heimili sín. Skilum lyklunum!

Slíkur gjörningur, táknrænn sem hann er, væri mjög í ætt við þetta atriði Spaugstofunnar frá 22. nóvember sl.


Hótanir Tortímandans

Ég held að ekki þurfi að skýra neitt frekar þessar myndir frá Halldóri og Henrý Þór.

Halldór Baldursson - Mbl. 5. desember 2008

Henrý Þór - www.henrythor.blogspot.com


"Þetta er hress karl...

...sem hefur nógu frá að segja og mikið til málanna að leggja." Þetta sagði einn viðmælendanna í myndbandinu hér að neðan meðal annars. Hjartað í mér sökk niður í maga. Er virkilega til "venjulegt" fólk sem hugsar ennþá svona eftir allt sem á undan er gengið? Athyglisvert en jafnframt svolítið óhugnanlegt. Fleiri svöruðu í svipuðum stíl en sem betur fer ekki allir.

Búið er að fjalla mikið um yfirlýsingar Davíðs og svör hans á fundi Viðskiptanefndar Alþingis í morgun. Varla er á það bætandi. Það er fróðlegt að skoða athugasemdir við bloggpistla um málið. Einhver (jir?) æðir um með athugasemdir til varnar Davíð og hrópar "einelti, einelti!". Friðrik Þór kallar sinn Hannes og segir honum að hætta að gelta.

Mér finnst svívirðing og hneisa að kalla kröfu almennings um að Davíð víki af sjónarsviðinu "einelti", einkum gagnvart þeim sem hafa upplifað raunverulegt einelti, þjáðst alla tíð og jafnvel stytt sér aldur vegna þess. Krafa um að embættismenn eða stjórnmálamenn beri ábyrgð á mistökum sínum og afglöpum getur aldrei verið annað en sanngjörn og einelti er hún svo sannarlega ekki. Því fleiri sem gera kröfuna bendir þvert á móti til þess að hún sé afar réttmæt.

Merkilegt sem haft er eftir Pétri Blöndal um að "...engin staðfesting hafi fengist á því að Davíð sé óvinsæll hjá þjóðinni...". Þetta bendir sterklega til þess að Pétur eigi hvorki sjónvarp né útvarp og varla er hann nettengdur heldur. Enda vísaði fréttamaðurinn strax í skoðanakönnun þar sem fram kom að 90% þjóðarinnar vill losna við Davíð. Aðspurður um endurkomu Davíðs í pólitík svarar Geir: "Ég óttast ekki neitt í þessu sambandi..." Óttast? Er ástæða fyrir hann að óttast ef Davíð kemur aftur? Já, líklega. Honum finnst það alltént eins og fram kemur.

Og að lokum davíðskur hroki hjá Geir þegar fréttamaður segir að á fundinum hafi Davíð gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að hlusta ekki á viðvaranir sínar (sem enginn í ríkisstjórninni vill reyndar kannast við). Geir svarar í davíðskum stíl: "Var það, já. Ég var ekki á fundinum. Varst þú á fundinum?" Flott, Geir! Annars hrutu gullkornin út úr Geir á færibandi, tókuð þið eftir því?

En hvað sem þið gerið í dag - gefið ykkur tíma til að hlusta á pistil Eiríks Guðmundssonar í Víðsjá í gær. Hann er hér - kemur strax á eftir kynningu og yfirliti yfir efni þáttarins. Er líka í tónspilaranum merkt: Víðsjá - Draumur eða martröð...


Frekjan, hrokinn og firringin

Þessi frétt var á mbl.is í gær undir fyrirsögninni: "Frekja og hroki aðgangsorð íslenska helvítisins". Meðal þeirra sem tengdu bloggfærslu við hana var Dofri og rifjaði hann þar upp frétt og viðtal frá september 2007. Viðtalið sem Dofri benti á var við Hannes Hólmstein Gissurarson og það er hreinlega dæmalaust.

Í viðtalinu við Hannes Hólmstein kemur fram að honum finnst mjög æskilegt að sem flest sé í einkaeigu eins og nýfrjálshyggjutrúin býður, meira að segja orkufyrirtækin okkar. Hann mærir útrásarvíkingana og vill bara selja allt klabbið. Skömmu eftir að viðtalið var tekið fór REI-málið að koma upp á yfirborðið. Og hvað er ekki að gerast með Hitaveitu Suðurnesja þessa dagana? Hún var einmitt einkavædd að hluta og Hannes Friðriksson fylgist með því sem nú er í farvatninu þar og hverjir standa þar að baki.

Hér er þetta magnaða viðtal við Hannes Hólmstein frá 13. september 2007. Hann ræður sér ekki fyrir hrifningu á því hve mikið og hratt bankakerfið stækkaði. Hvernig sem á því stendur situr hann ennþá í stjórn Seðlabankans, besti vinur hans er aðalbankastjórinn og margir trúbræður hans og lærlingar eru valdamiklir í stjórnkerfinu, t.d. þingmenn, ráðherrar og borgarfulltrúar. Hafa þeir nokkuð gengið af trúnni? Ég hef ekki orðið vör við það.

Þessar fréttir eru frá sama tíma, 13. og 15. september 2007. Hér getum við rifjað upp sýnishorn af því sem bankarnir eyddu loftbólupeningunum í, sem og sparifé Íslendinga og útlendinga. Það mun hafa verið um mitt árið 2007 að erlend millibankalán fengust ekki lengur og þá tóku bankasnillingarnir upp á því að draga sparifjáreigendur m.a. í Bretlandi, Hollandi, Belgíu og Þýskalandi á asnaeyrunum og hirða af þeim aurana þeirra. Lagt var að íslenskum sparifjáreigendum að millifæra sparnað sinn í ýmiss konar sjóði sem frægt er orðið og þeir rýrnuðu verulega. Í fréttinni er bara eitt sýnishorn af því hve hátt var lifað fyrir annarra manna peninga. Það er dýrt að temja sér svona lífsstíl. Þetta var ein af mörgum hliðum á íslenska efnahagsundrinu sem Hannes Hólmsteinn var svo hrifinn af. Ætli hann sé það ennþá?


Heitir þetta ekki þjófnaður á mannamáli?

Það er búið að ræna almenning á Íslandi aleigunni og ærunni í ofanálag en þjófarnir ganga enn lausir. Þetta vita allir en stjórnvöld lyfta ekki litlafingri til að góma þá - þótt þau viti nákvæmlega hverjir þeir eru - því það má ekki "persónugera vandann" og alls ekki stunda "nornaveiðar". Þau orð hljóta að verða töm á tungu lögmanna framtíðarinnar í dómsölum landsins þegar verja á Jón eða Gunnu fyrir að hafa hnuplað blóðmörskepp úr Bónus eða brotist einhvers staðar inn og stolið öllu steini léttara. Því auðvitað má alls ekki persónugera vandann. Hvað þá stunda nornaveiðar.

Þetta myndband er úr Kastljósi í gærkvöldi. Ef mér skjöplast ekki heitir þetta einfaldlega þjófnaður - og hann er ekki af smærri sortinni þessi.


Össur finnur nýja auðlind

Henrý Þór Baldursson heitir ungur maður, nýbakaður faðir (til hamingju!), með beittan, gagnrýninn húmor sem hann tjáir með skopmyndum á bloggsíðu sinni og á Smugunni.

Á þessari skopmynd er Össur að kynna nýja auðlind - hugmynd um hvernig hægt er að fela Ísland með því að breyta nafninu í frægt vörumerki - sem sagt, selja landið sem er einmitt það sem Össur hefur prédikað mjög grimmt undanfarið. Nema hvað hann vill selja það erlendum álrisum, ekki gosdrykkjaframleiðanda. Hvernig líst fólki á að breyta nafni Íslands í Alcoa? Fleiri hugmyndir, einhver? Hjálpum Össuri.

Össur blés til veislu


Ákall frá Herði Torfasyni

Hörður TorfasonMér heyrist að Hörður Torfason sé á góðri leið með að verða þjóðhetja. Hann hefur nú staðið fyrir og stjórnað mótmælafundum á Austurvelli 8 laugardaga í röð. Fáir gera sér grein fyrir allri vinnunni sem er á bak við skipulagninguna. Þetta hefur verið full vinna hjá Herði og heimili hans undirlagt, svo og sími hans og tími. Hörður er hugsjónamaður af bestu sort.

Hörður hefur nú fengið afnot af húsnæði að Smiðjuvegi 72 í Kópavogi með það fyrir augum að nota það til fundarhalda, hafa þar aðstöðu fyrir fólk sem vill bretta upp ermar, láta til sín taka og skipuleggja framtíðina. Í þessu skyni hefur Hörður stofnað félagið Raddir fólksins og er að opna heimasíðuna raddirfolksins.org, sem er í vinnslu. Hann hefur líka stofnað bankareikning í nafni félagsins þar sem fólk og fyrirtæki geta lagt sitt af mörkum - bankareikningurinn er: 1132-05-415000 og kennitalan er 571108-0540.

En fleira þarf til. Í húsnæðið á Smiðjuvegi vantar t.d. tölvur, skrifborð, skrifborðsstóla, hillur, kaffi- og meðlætisgræjur, eldhúsáhöld, ísskáp... allt mögulegt. Ef einstaklingar eða fyrirtæki eru að endurnýja hjá sér eða með fullar geymslur af ónotuðum hlutum sem gætu nýst á Smiðjuveginum væri mjög vel þegið að láta Hörð vita af því. Hann sækir ef með þarf. Síminn á Smiðjuveginum er 618 0888.

Og síðast en ekki síst vantar fólk til alls konar starfa. Til að byrja með verður opið frá kl. 14 til 18 og fólk er hvatt til að mæta og/eða hafa samband.


Hámark niðurlægingarinnar?

Eða kannski bara Íslandsmet í smekkleysi.

Það er búið að rýja okkur inn að skinni. Gera okkur gjaldþrota, svipta okkur ærunni, leggja orðstír okkar í rúst. Ótta og óöryggi hefur verið troðið upp á þjóðina. Búið er að haga málum þannig að í fyrsta sinn upplifa Íslendingar þá skelfilegu tilfinningu að skammast sín fyrir þjóðerni sitt. Stoltið er í lágmarki eða horfið, landar okkar erlendis verða fyrir aðkasti. Þjóðin er í sárum, við erum ævareið, sár, dofin, gráti nær... og gott betur.

Í erlendum fjölmiðlum lesum við greinar og viðtöl þar sem okkur er ýmist vorkennt eða við verðum fyrir háðsglósum. Það vekur furðu meðal þroskaðra lýðræðisþjóða að enginn hafi verið handtekinn fyrir a.m.k. fjársvik, enginn stjórnmála- eða embættismaður hafi sagt af sér og viðurkennt þannig ábyrgð sína, mótmæli almennings eru svo friðsamleg að útlendingum þykir furðu sæta.

Svo blasir þetta við ferðamönnum sem koma til landsins á Keflavíkurflugvelli. Er hægt að leggjast lægra? Á hvers vegum er þetta? Hvaða snillingur á hvaða auglýsingastofu lét sér detta þetta í hug? Hnuplað héðan.

Ég krefst þess sem Íslendingur með örlítinn snefil af stolti eftir, að þessi lágkúra verði tekin niður nú þegar!

Ísland á hálfvirði


Viðbót:
Auglýsingaspjöldin hafa nú verið tekin niður í Leifsstöð, sjá hér. Ég er þakklát fyrir það.


Afmælisboð 1. desember - hvað allir athugi!

1. desember er flottur afmælisdagur. Ég veit allt um það, því það er afmælisdagurinn minn. Þegar ég var lítil stelpa voru það forréttindi fyrir afmælisbarn að geta ævinlega haldið upp á afmælið sitt á sjálfan afmælisdaginn. Það gat ég, allir krakkar áttu frí í skólanum og gátu mætt í boðið OG... best af öllu - það var alltaf flaggað fyrir mér - hélt ég. Fram eftir aldri trúði ég því og þegar ég áttaði mig á hinu sanna - að það var ekki beint verið að flagga fyrir mér heldur fullveldinu - fékk ég lauflétt áfall sem stóð þó ekki ýkja lengi yfir, ef ég man rétt. En ég ákvað af lítillæti mínu að deila deginum með því. Það var fín tilfinning og ég var ekki mjög gömul þegar ég skildi þýðingu þessa dags.

Í dag ætla ég (ásamt fleirum) að bjóða í afmæli og ég vona að sem flestir mæti. Fullveldið okkar verður 90 ára - ég er aðeins yngri. En við höldum saman upp á daginn eins og venjulega, fullveldið, Rósa Guðna (jafnaldra mín), Rás 2 (25 ára krakki) og ég. En í þetta sinn er það ekki boð í heimahúsi með lítilli kók í glerflösku og lakkrísröri, súkkulaðiköku með kertum og stórkostlegum skreytingum eftir listamanninn Einar Jens, föðurbróður minn... heldur risastór þjóðfundur á Arnarhóli klukkan þrjú - á hefðbundnum afmælisveislutíma. Það verða haldnar ræður og allt. Kannski ekki beint í tilefni af mínu afmæli... en það gerir ekkert til vegna þess að alvörutilefnið er miklu, miklu mikilvægara.

Mætið í afmælið, gangið út af vinnustaðnum, standið með sjálfum ykkur, börnunum ykkar og barnabörnunum, komið og leggið ykkar af mörkum til að gera þennan afmælisdag sem eftirminnilegastan fyrir alla þjóðina (og mig Wink). Oft var þörf en nú er nauðsyn!

Þjóðfundur - fullveldið 90 ára


Þorvaldur Gylfason í Mannamáli

Sá vísi maður, Þorvaldur Gylfason, var í Mannamáli á Stöð 2 í kvöld. Ég hef birt mörg viðtöl við hann úr Silfrinu og greinar úr blöðum. Hlustum á Þorvald, hann hefur svo margt fram að færa og hér er hann ómyrkur í máli. Ekki vita allir að hann er bróðir Vilmundar sem ég fjallaði um hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband