Færsluflokkur: Spilling og siðferði

Aurasálin og Spákaupmaðurinn

Eins og sjá mátti hér og hér hef ég verið að grúska í gömlum blöðum. Upphaflega í leit að ákveðnu máli en eins og gengur leiddi leitin mig út og suður og að lokum mundi ég varla að hverju ég var að leita í byrjun. Svona grúsk er tímafrekt en alveg ótrúlega fróðlegt. Ég rakst t.d. á þessa mögnuðu pistla sem birtust í Markaði Fréttablaðsins 1. mars 2006.

Ég las aldrei það blað og fylgdist ekkert með "markaðnum" þótt sumum fréttum af honum hafi verið troðið ofan í kokið á manni, nauðugum viljugum. En í ljósi þess hvernig farið var með þjóðina er merkilegt að kynna sér móralinn og siðferðið sem óð uppi á þessum tíma - og hrokann. Ef til vill kemur einhver með þá athugasemd að þessir pistlar séu skrifaðir í gríni. Ég held reyndar ekki og hef a.m.k. ekki húmor fyrir þeim þó svo væri.

Aurasálin og Spákaupmaðurinn - Markaðurinn 1. mars 2006

Í sama blaði heyrðist rödd skynseminnar sem furðaði sig á því sem var að gerast í viðskiptaheiminum.

Ótroðnar slóðir - Gylfi Magnússon - Markaðurinn 1. mars 2006


Auðmenn, tjáningarfrelsi og réttlæti

"Íslenskir útrásarvíkingar hafa umsvif í Bretlandi, þar sem meiðyrðalöggjöf er miklu strangari en á Íslandi og útgjöld vegna meiðyrðamála eru nánast óbærileg venjulegum launþegum. Til þess að höfða mál gegn íslenskum ríkisborgurum þarf aðeins að koma því í kring, að ummæli, sem stefna á fyrir, birtist einhvers staðar á ensku, til dæmis á netinu. Íslenskur auðmaður með hagsmuni í Bretlandi þarf því aðeins að sjá um slíka birtingu og höfða síðan mál í Bretlandi, og þá er þess ekki langt að bíða, að sá, sem hann stefnir, verði gjaldþrota, hvort sem hann tekur til varna eða ekki og hvort sem hann vinnur málið eða tapar því."

Þannig hefst annar hluti fréttaskýringar Eyjunnar um Auðmenn, málfrelsi og lögsögu meiðyrðamála sem birt var í gær. Fyrsti - eða fyrri hlutinn, Eiga auðmenn að geta þaggað niður gagnrýni? birtist á fimmtudaginn.

Málið sem fjallað er um í þessum fréttaskýringum er grafalvarlegt og gæti haft háskalegar afleiðingar ef ekki verður brugðist við af löggjafanum á Íslandi. Ég fjallaði um þetta í föstudagspistlinum á Morgunvakt Rásar 2 og hvet alla til að lesa líka Eyjupistlana tvo sem vísað er í hér að ofan. Hljóðskrá viðfest neðst að venju.

Morgunvaktin á Rás 2

Ágætu hlustendur...

Mér hefur orðið tíðrætt um málfrelsið; tjáningarfrelsið sem hefur blómstrað undanfarið, einkum á netmiðlum og bloggi. Ég hef sagt, og stend við það, að þeir sem ekki lesa netmiðla og blogg fái ekki nægilega góða heildarmynd af því sem er að gerast í samfélaginu, atburðunum sem leiddu til hrunsins og því sem gengið hefur á þetta ár sem liðið er síðan.

Einhvern tíma gilti löggjöf hér á landi sem kvað á um að ekki mætti vega að æru opinberra starfsmanna. Ekki einu sinni þótt sagt væri satt. Ef sannleikurinn var talinn skaða æru viðkomandi átti að þegja. Af hverju heiður opinberra starfsmanna var álitinn heilagri en annarra veit ég ekki, en lögunum var breytt, meðal annars vegna þrýstings frá Þorgeiri heitnum Þorgeirsyni.

Nýverið féll hæstaréttardómur í máli þar sem blaðamaður var gerður ábyrgur fyrir orðum viðmælanda síns um starfsemi afar umdeilds athafnamanns á höfuðborgarsvæðinu. Fordæmalaus dómur sem vakti furðu og óhug en hefur nú verið áfrýjað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Eins og prentlögin eru nú, ræður kærandinn hverjum hann stefnir - viðmælanda, blaðamanni eða útgefanda - en því og fleiru mun eiga að breyta með nýjum fjölmiðlalögum.

En nú virðist íslenskum blaðamönnum og öðrum sem tjá sig á opinberum vettvangi stafa ógn af meiðyrðalöggjöf í Bretlandi, sem mun vera strangari en gerist og gengur víða á Vesturlöndum. Netmiðillinn Eyjan sagði í gær frá hótun íslensks auðmanns um að stefna miðlinum fyrir breska dómstóla vegna skrifa blaðamanns um sig og starfsemi sína á Íslandi. Hann sagði að Eyjupistillinn, sem auðvitað var á íslensku, yrði bara þýddur yfir á ensku og Eyjunni stefnt fyrir að skaða viðskiptahagsmuni sína í Bretlandi - hverjir sem þeir eru.

Nokkuð hefur verið fjallað um þessa kæruleið í íslenskum og erlendum fjölmiðlum og viðbrögð til dæmis Bandaríkjamanna við bresku dómunum - en þeir neita að taka mark á þeim og líta á þá sem þöggun eða skerðingu tjáningarfrelsis.

Málaferli sem þessi eru rándýr og mun kostnaðurinn talinn í tugum milljóna. Hinn ákærði þarf að kosta vörn sína sjálfur og sanna mál sitt, en kærandinn virðist ekki þurfa að sanna neitt.  Honum virðist nægja að dylgja um meintan skaða. Slík málaferli eru ekki á færi annarra en auðmanna, og ef ekki verður tekið fyrir þetta strax stafar tjáningarfrelsi á Íslandi - og annars staðar í heiminum - stórhætta af.

Ef ekki verður brugðist við aðförinni er hætt við að íslenskir útrásardólgar og auðmenn verði jafn ósnertanlegar og heilagar kýr eins og opinberir starfsmenn forðum og þaggi niður alla gagnrýni í krafti misvel fenginna fjármuna sinna og lagatæknilegra brellna í erlendum höfnum.

Að lokum legg ég til að íslensk lög og dómar íslenskra dómstóla snúist um réttlæti.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

"Fjör á fjármálamarkaði"

Alltaf er gaman þegar maður rekst fyrir tilviljun á gömul skrif sem beinlínis vísa til ástandsins í dag. Hér skrifar Egill Helgason á Vísi.is og skrifin birtust í DV, að þessu sinni 2. mars 2006.

Fjör á fjármálamarkaði - Egill Helgason - DV 2. mars 2006


ESB-nefndin

Við hljótum að fá meiri upplýsingar um fólkið í sérstöku samningahópunum. Kynjaskiptingin ef á heldina er litið virðist nokkuð jöfn og rétt að fagna því. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Nefndin sem semur við ESB - Fréttablaðið 6. nóvember 2009


"Geta ekki hætt að ljúga og stela"

Mér varð bumbult þegar ég sá þetta. Nú þyrfti að grafa upp sundurliðun á kostnaðarliðnum "sérfræðiráðgjöf" hjá bönkunum. "Þessir sömu menn sitja enn við kjötkatlana í bönkunum og virðast ekki geta hætt að ljúga og stela". Svo er spurning hver græðir á laxveiðileyfunum.

Fréttir Stöðvar 2 - 5. nóvember 2009


Þetta var í Tíufréttum RÚV áðan og mér fannst það kallast hressilega á við hina fréttina. Hvað ætli laxveiðiferðir sumarsins hefðu fætt margar fjölskyldur og hve lengi? Viljum við svona þjóðfélag?

Tíufréttir RÚV 5. nóvember 2009

 


Rödd og raddleysi almennings

Hvað veldur því að almenningur á Íslandi hefur ekki hafið upp raust sína að neinu marki fyrr en nú? Ekki veitt stjórnvöldum hverju sinni nauðsynlegt aðhald, látið sér nægja að kjósa á fjögurra ára fresti, yppt öxlum þegar stjórnmálamenn svíkja kosningaloforð og ganga á bak orða sinna og sagt: "Þetta er bara svona" eða "þetta kusum við yfir okkur". Fólk Mótmæli á Austurvelli 24. janúar 2009hefur látið sukk með almannafé og spillingu yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust svo áratugum skiptir og ekki einu sinni refsað stjórnmálamönnum og -flokkum þegar það hafði þó tækifæri til.

Vantaði þennan vettvang fyrir fólk til að tjá sig sem undanfarið ár hefur blómstrað á netinu? Ég held að það sé nú ekki eina skýringin þótt hún vegi talsvert þungt. Velmegun hefur gert okkur löt og gagnrýnislaus, auk þess sem yfirvöld hafa alltaf verið dugleg við að kveða niður gagnrýnisraddir, haft til þess tækifæri og vettvang og sagt fólki að mótmæla eða samþykkja gjörninga þeirra með atkvæðinu eftir X mörg ár - fullviss um gullfiskaminni kjósenda. Þannig hafa yfirvöld getað farið sínu fram án teljandi fyrirstöðu.

Fjölmiðlar hafa líka spilað stórt hlutverk í gagnrýnisleysinu með því að krefjast ekki skýrari svara ráðamanna eða ganga á eftir málum og krefjast rökstuðnings og sannana. Hve oft hefur maður ekki séð blaða- eða fréttamenn taka viðtöl við ráðherra eða alþingismenn um mál sem augljóst er að fréttamaðurinn veit ekkert um og hefur ekki hundsvit á. Þar er jafnvel kornungt fólk á ferðinni, reynslulaust sem hefur hvorki þekkingu né burði til að ræða við þaulreynda stjórnmálamenn sem eru vanir að geta stungið upp í fólk með einföldum frösum. Enda er veruleiki íslenskra blaða- og fréttamanna sá, að þeir fá hvorki tíma né tækifæri til að kafa ofan í mál og gera þeim almennileg skil. Hvað þá að fylgja þeim eftir.

Þó er vert að geta þáttar Egils Helgasonar í að veita almenningi rödd í Silfrinu sínu á RÚV eftir hrun. Hann er einn af allt of fáum fjölmiðlamönnum sem hefur lagt sig fram við að bjóða hinum almenna borgara að tjá sig í ljósvakamiðlum sem eru því miður allt of einokaðir af stjórnmálamönnum og þeirra skotgrafahernaði. Svo er ég líka með pistla á Morgunvakt Rásar 2 - ef einhver skyldi hafa misst af því.  Wink

Það er líka athyglisvert að skoða viðbrögð fólks við því þegar "maðurinn af götunni" tekur sig til og gerir eitthvað - segir eitthvað - mótmælir - eða hefur frumkvæði að einhverju sem hingað til hefur talist til verkefna Borgarafundur í Háskólabíói 24. nóvember 2008sérstakra hópa í þjóðfélaginu. Það eru kannski stjórnmálamenn, fjölmiðlafólk eða einhverjir aðrir sem "eiga" sviðið og fólk er því ekki vant að almennir borgarar láti sig nokkru skipta hvað þar fer fram. Og mér virðist eins og fólki finnist að manni komi þetta bara ekki við - jafnvel þótt málefnin snerti líf okkar og framtíð afkomenda okkar. Undarlegt.

Gott dæmi um slíkt er bréfið sem nokkrir borgarar sendu til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ég fjallaði um hér. Sagt var frá því samdægurs í nokkrum netmiðlum en síðan ekki söguna meir. Hvorki Fréttablaðið né Morgunblaðið minntust á þetta framtak í dag, hvorug sjónvarpsstöðin flutti fréttir af málinu og ég hef ekki orðið vör við að fjallað hafi verið um framtakið á útvarpsstöðvunum. Af hverju skil ég ekki. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert í öðrum löndum þar sem AGS hefur haft viðkomu með sín umdeildu vinnubrögð svo mögulega er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem hópur almennra borgara hefur beðið um fund með framkvæmdastjóra AGS.

Svo eru það viðbrögð hins almenna borgara við bréfinu. Sjá má sýnishorn við færsluna mína hér. "Það heimskulegasta sem ég hef lesið lengi" segir einn og líkir þessu við för framsóknarmanna til Noregs. Gerir ekki greinarmun á alþingismönnum og almenningi. Einn lesandi hefði heldur viljað að hópurinn skrifaði útrásardólgunum. Annar spyr hvort þetta sé "einhvers konar sjálfskipuð, ný ríkisstjórn". Enn annar virðist ekki hafa hugmynd um hvers konar fyrirbæri AGS er og heldur að sjóðurinn sé eins og notalegur tilsjónarmaður sem vilji okkur allt hið besta. Athyglisverð viðbrögð við frumkvæði almennra borgara sem láta sér ekki nægja þær skýringar sem þeim eru gefnar af valdhöfum. Í umfjöllun Eyjunnar má líka sjá viðbrögð fólks og athugasemdir. Mjög fróðleg lesning.

Þetta er orðinn ansi langur formáli að erindinu, sem er að vekja athygli á frumkvæði Gunnars Sigurðssonar, Lilju Skaftadóttur, Herberts Sveinbjörnssonar, Heiðu B. Heiðarsdóttur og fleiri sem vinna að athyglisverðri heimildamynd um efnahagsundrið á Íslandi og hrun þess. Myndin er gott dæmi um hverju venjulegt fólk - almenningur - getur áorkað með hugviti, dugnaði, samvinnu og hugsjón. Framtakið ætti að vera öðrum fyrirmynd og hvatning til að láta til sín taka á einhvern hátt. Taka þátt í að kryfja orsakir ástandsins og afleiðingar þess, sem og að móta framtíð okkar sjálfra og afkomenda okkar. Það er tími til kominn að hinn almenni borgari á Íslandi geri sér grein fyrir því hvers hann er megnugur - og að sameinuð sigrum við, hvað sem við er að etja.

Kastljós 3. nóvember 2009

Ég skrifaði pistil í byrjun ágúst um gerð myndarinnar og birti þar úrklippur úr viðtali Gunnars Sigurðssonar við þingmann breska Verkamannaflokksins, Austin Mitchell. Set það hér með til upprifjunar en tek fram að ég hef ekki hugmynd um hvað úr viðtalinu verður notað í myndinni - ef eitthvað.

Viðtalsbrot - Austin Mithcell, þingmaður breska Verkamannaflokksins

 

Að lokum er hér stikla fyrir myndina fyrir fólk sem vill dreifa henni

 


Borgarabréf til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

IMF - International Monetary Fund - AlþjóðagjaldeyrissjóðurinnHópur áhyggjufullra Íslendinga skrifaði bréf til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, og fór fram á fund með honum til að fá skýr svör við ýmsum spurningum sem brenna á almenningi á Íslandi. Hópnum finnst ekki nóg að lágt settir starfsmenn sjóðsins, s.s. svokallaður "landstjóri" AGS á Íslandi, svari eða svari ekki eftir atvikum þeim spurningum sem upp koma hverju sinni og að sjóðurinn hafi sína hentisemi með framtíð þjóðarinnar og komandi kynslóða.

Hér er íslensk útgáfa bréfsins, en ensk útgáfa var send Strauss-Kahn bæði í tölvupósti og með UPS/DHL hraðsendingu fyrr í dag.

*************************************************

Reykjavík, 2. nóvember 2009

Hr. Dominique Strauss Kahn
framkvæmdastjóri
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
Washington, D.C., 20431
U.S.A.

Ágæti Strauss Kahn,

Íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir miklum erfiðleikum. Þeir erfiðleikar orsakast að hluta til vegna alheimskreppunnar. Ástæðan fyrir stærð vandamálsins á Íslandi er sú að íslenskir bankar, sem voru einkavæddir m.a. í samræmi við stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins snemma á þessari öld, tefldu allt of djarft. Mjög ámælisvert er að þessi þróun hafi átt sér stað án þess að íslensk stjórnvöld hafi gripið í taumana. Í kjölfar bankahrunsins leituðu íslensk stjórnvöld til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð í október 2008.

Við, undirrituð, teljum vafa undirorpið að sú samvinna sem Ísland hefur tekið upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé íslenskri þjóð til hagsbóta og viljum fá úr því skorið. Það er að renna upp fyrir okkur að stefna sjóðsins er öðru fremur að skuldsetja íslensku þjóðina til að gæta hagsmuna fjármagnseigenda. Ábyrgð Íslendinga er mikil og það er okkar að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir verði skuldsettar með þeim hætti að þær Dominique Strauss-Kahngeti ekki staðið í skilum. Sem almennir borgarar á Íslandi förum við fram á skýr svör.

Skoðanakannanir sýna að meirihluti íslensku þjóðarinnar er andvígur frekara samstarfi við AGS. Þarna vegur þyngst sú staðreynd að AGS stillti íslenskum stjórnvöldum upp við vegg í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Það er óásættanlegt að alþjóðastofnun hagi sér á slíkan hátt, enda hefur þetta rúið sjóðinn því trausti sem hann hafði á Íslandi.

Þar sem hagsmunir heillar þjóðar og afkomenda okkar eru í húfi, förum við hér með fram á fund með þér, framkvæmdastjóra sjóðsins. Við viljum ræða við þig efnahagsáætlun AGS og fá skýringar á einstökum þáttum hennar. Við munum leggja fram rökstudda gagnrýni byggða á opinberum gögnum. Fundurinn getur farið fram í Reykjavík eða Washington eða annars staðar ef það hentar. Afar brýnt er að fundurinn fari fram sem allra fyrst og eigi síðar en 15. desember 2009.

Við, sem undir þetta bréf ritum, erum almennir borgarar á Íslandi. Við erum á öllum aldri, af báðum kynjum og styðjum mismunandi stjórnmálaflokka. Eftir efnahagshrunið sem varð sl. haust stóðum við fyrir opnum borgarafundum þar sem ráðherrar og þingmenn hafa mætt og svarað spurningum almennings milliliðalaust. Við teljum það heiður fyrir þig, framkvæmdastjóra AGS, að feta í fótspor fulltrúa elsta þjóðþings veraldar, Alþingis, og eiga með okkur opinn og heiðarlegan fund.

Agnar Kr. Þorsteinsson sérfræðingur í tölvuþjónustu atvinnulaus
Ásta Hafberg, verkefnastjóri Markaðsstofu Austurlands
Elías Pétursson, framkvæmdastjóri
Einar Már Guðmundsson, rithöfundur
Guðmundur Andri Skúlason, vélstjóri
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Gunnar Sigurðsson, leikstjóri
Halla Gunnarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur
Haraldur L. Haraldsson, hagfræðingur
Heiða B. Heiðarsdóttir
Helga Þórðardóttir, kennari
Herbert Sveinbjörnsson, kvikmyndargerðarmaður
Lára Hanna Einarsdóttir, þýðandi og leiðsögumaður
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður
Ólafur Arnarson, rithöfundur og Pressupenni

**********************************************************

Hér er enska útgáfan af bréfinu.

Bréf til Strauss-Kahn


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ó, mín gleymna þjóð!

"Íslendingum er ekki viðbjargandi," hugsaði ég með mér þegar ég horfði á fréttirnar í gærkvöldi þar sem sagt var frá niðurstöðum nýjasta þjóðarpúls Gallups. Til hvers er maður eiginlega að berjast? Hvað veldur því að fólk vill aftur vöndinn sem sárast beit? Vönd valdhafanna sem skópu hrunið og allar skelfilegu afleiðingar þess. Valdhafanna sem afnámu nánast skatta á auðmenn og fyrirtæki á kostnað almennings. Valdhafanna sem gáfu eigur okkar vinum sínum, samþykktu Icesave á sínum tíma og lögðu þjóðina að veði, afnámu allar reglur í fjármálaheiminum, leyfðu kvótakóngum ýmist að veðsetja auðlindir hafsins mörg ár fram í tímann eða selja orkuauðlindir fjárglæframönnum - og svo framvegis, og svo framvegis. Og þessir valdhafar frömdu fleiri glæpi gagnvart þjóðinni - ótalmarga. Er þýlundin alger? Er ekki allt í lagi?

Þjóðarpúls Capacent Gallup - RÚV 31. október 2009

Fólk kvartar og kveinar undan efnahagshruninu, missir vinnuna, fer á hausinn, horfir á lánin sín hækka úr hófi fram, flýr úr landi, mótmælir... en samt fá aðalhrunflokkarnir tveir samtals 49% í skoðanakönnun. Er fólki ekki sjálfrátt? Er gullfiskaminnið svona hrikalegt? Gerir fólk sér virkilega ekki grein fyrir því hvað gerist ef þessir flokkar ná aftur völdum á Íslandi? Maður spyr sig...

Mig grunar að herför Sjálfstæðismanna nú sé vegna þess að einhvers staðar sé verið að sauma að þeim og hætt sé við að ógeðslegur sannleikurinn sé að koma upp á yfirborðið. Þeir munu hætta við allar rannsóknir og reka Evu Joly ef þeir komast aftur til valda. Svo einfalt er það. Er það það sem fólk vill? Það er það sem fólk fær ef það kýs þessa flokka, svo mikið er víst. Og ég frábið mér ESB eða Icesave-saminga umræðu í þessu sambandi. Þau mál koma þessu einfaldlega ekki við. Hér er til umræðu uppgjör við fortíðina og ábyrgð á núverandi ástandi.

Rifjum upp örfá atriði - af nógu er að taka - og ekkert af þessu hefur enn verið gert upp.

Stöð 2 og RÚV í apríl 2009

 

RÚV 13. apríl 2009

 Stöð 2 - 21. apríl 2009

 

 Vill þjóðin virkilega láta tala niður til sín aftur í þessum stíl?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ráðleysið í kjölfar hrunsins

"Mörg lönd hefðu upplifað djúpa fjármálakreppu, bæði fyrr og síðar, Ísland skæri sig ekki endilega úr þótt fallið hefði verið dramatískt. Líka traustvekjandi að hugsanleg svik væru í rannsókn. En það sem hefur mest áhrif á afstöðu alþjóðlega fjármálageirans er hvað íslensk yfirvöld virtust lengi vel ráðlaus. Icesave er eitt dæmið og viðbrögðin reyndar skopleg á köflum. Við, sem fylgdumst með Íslandi, veltum því fyrir okkur á hverjum morgni hvaða merkilega uppákoma yrði í dag, sagði þessi bankamaður sem nefndi, að reiptog ríkisstjórnarinnar og þáverandi seðlabankastjóra hefði komið útlendingum spánskt fyrir sjónir. Í stuttu máli: Sjálft hrunið fór ekki verst með orðspor Íslands erlendis - heldur ráðleysið sem fylgdi í kjölfarið."

Sigrún Davíðsdóttir - Pistlar í Speglinum á RÚV

Sigrún Davíðsdóttir var með enn einn upplýsandi pistil í Speglinum í gærkvöldi. Ég hugsaði með mér þegar ég hlustaði - og kom sjálfri mér á óvart með því að skilja (held ég) allt sem hún sagði - að fyrir rúmu ári hefði ég ekkert botnað í þessu. Spurning hvenær maður fær diplómaskjal í hagfræði.

Hljóðskrá í viðhengi hér fyrir neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Heimsmyndin og arfleifðin

Ég rakst á þessa skemmtilegu teikningu af heimsmynd Ronalds Reagan á Eyjunni og fór að skoða teiknarann nánar, David Horsey. Fann þá aðra heimsmynd sama manns, svipaða hinni og skemmtilega pælingu og skýringar. Þarna er giskað á að myndin sé frá ca. 1983-1984 og rætt um hve heimsmyndin hafi furðanlega lítið breyst. Flestir muna hver heimsmynd Georges W. Bush var, ekkert ósvipuð þessari, en vonandi fær Obama að vera nógu lengi í embætti til að hjálpa löndum sínum að kynnast umheiminum betur. (Smellið til að stækka.)

Heimsmynd Ronalds Reagan - The World According to Ronald Reagan

Í grúskinu rakst ég svo á þessa frábæru teikningu eftir Horsey af arfleifð Bush. Mikið væri gaman að sjá útgáfu íslenskra teiknara af arfleifð Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins. Yfir til ykkar, snillingar...

Arfleifð Bush - The Bush Legacy


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband