Færsluflokkur: Spilling og siðferði

Einar Már og ástandið

Eins og allir vita sem fylgst hafa með atburðum síðasta ár hefur Einar Már Guðmundsson verið einn af aðalleikendum andófsins gegn gróðapungum, spillingu og því ástandi sem skapast hefur á Íslandi. Einar Már skrifaði meðal annars greinaflokk í Morgunblaðið í vetur og gaf síðan út bók byggða á greinunum - Hvítu bókina.

Ég er að lesa þessa bók eins og ég nefndi um daginn. Er langt komin með hana. Þetta er fjórða bókin sem ég les um Hrunið mikla. Hinar voru hver annarri fróðlegri og sú Hvíta gefur þeim ekkert eftir. Engu að síður er hún gjörólík þeim og vekur allt annars konar tilfinningar. Enda er Einar Már skáld og rithöfundur, mikill andans maður og hugsjóna, og bókin ber þess merki svo ekki verður um villst. Í fyrsta Morgunvaktarpistlinum minntist ég á hinar þrjár bækurnar og sagði þær skyldulesningu. Hvíta bókin gæti vel orðið mesta skyldulesningin af þeim öllum og ég hvet alla til að lesa hana. Líka þá sem hafa fengið upp í kok af hrunumræðunni. Hún er nefnilega góð fyrir sálina, þrátt fyrir allt. Á meðan við höfum svona þenkjandi áhrifamenn í samfélaginu - þá er von.

Einar Már flutti ræðu á útifundinum á Austurvelli á fimmtudaginn sem InDefence-hópurinn boðaði til að andæfa Icesave-samningnum. Umgjörð þess fundar var gjörólík öllum öðrum sem ég hef mætt á undanfarna 10 mánuði. Ríkmannlegt svið, sérlega vandað hljóðkerfi, skemmtiatriði og um margt annar mannskapur en áður. Þeirra á meðal ýmsir sem sjálfir bera mikla ábyrgð á efnahagshruninu með aðgerðum sínum og/eða aðgerðaleysi. Skoðið myndir Helga J. Haukssonar af fundargestum. Ég hef spurt sjálfa mig hvernig þessum mönnum leið undir þrumuræðu Einars Más - sem hann gaf mér leyfi til að birta. Og bestu þakkir til Helga fyrir að heimila birtingu á myndunum sínum. Hengi að auki neðst í færsluna Spegilsviðtal við Einar Má frá 13. ágúst.

Ræða Einars Más Guðmundssonar á Austurvelli 13. ágúst 2009

Sjálfgerðir fjötrar eru traustastir fjötra. Þannig orti Sigfús Daðason; og sú er staðan nú. Það var tekið veð í þjóðskránni án þess að þjóðin væri spurð og nú eigum við að viðurkenna veðið og játa á okkur glæpinn. Við erum að játa á okkur glæp sem við höfum ekki framið. Leyfið mér að vitna í Evu Joly: Einar Már á Austurvelli 13.8.09"Ísland þar sem eru einungis 320 þúsund íbúar sér nú fram á að þurfa að axla margra milljarða evra skuldabyrgði sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða." Já, það er verið að hneppa okkur í ánauð. Icesave samningurinn er fyrsta stigið, skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er næsta stig og þannig koll af kolli, þar til einhverntíma í framtíðinni, þá fáum við afsökunarbeiðni á þeim mistökum sem verið er að gera núna ... en þá verður það of seint ... Þeir segja að við verðum Kúba norðursins ef við samþykkjum þetta ekki. En ættum við þá ekki að bæta því við: Við verðum Haítí norðursins ef við samþykkjum þetta. Þar var gengið að öllum kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nú ríkir þar hungursneyð. Á sunnudaginn var páfi að biðja fyrir Argentínumönnum vegna nákvæmlega sömu mála. Prógram Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur gert hálfa argentínsku þjóðina að fátæklingum. Þess vegna erum við komin hingað og þessu mótmælum við. Öll. Við eigum að játa á okkur glæp sem við höfum ekki framið. Við eigum að axla byrgðar hins alþjóðlega fjármálakerfis og verða Breiðavíkurdrengir þess. Í rauninni er þessi vandi ekki vandi þjóðarinnar heldur eigenda þessa einkavædda banka sem rakaði til sín fé í gegnum ICESAVE reikningana á sínum tíma. Okkar vandi er sá að stjórnvöld þessa lands og stjórnmálamenn vilja taka þennan vanda af eigendum bankans og færa hann yfir á okkur og ekki síst afkomendur okkar. Þetta getum við ekki samþykkt. Þessu mótmælum við öll.

Við ykkur í þinghúsinu segi ég: Hættið að bulla. Hættið að tala um vinaþjóðir, innistæðutryggingar, alþjóðasamfélag. Alþjóðasamfélagið er samfélag hinna ríku þjóða, innistæðutrygging þýðir þjóðnýting á tapi og vinaþjóðir er fróm ósk og gildir ekki yfirvöld og auðmagn. Svíar eru ekki Einar Már á Austurvelli 13.8.09óvinir okkar en sænska fjármálakerfið fjármagnaði bankakerfi Eystrasaltsríkjanna þegar þau voru markaðsvædd og rænd. Sænskt fjármálalíf horfir því á svipað hrun þessara banka og skilur því málflutning Gordons Brown jafn vel og hann sjálfur, nei ruglið þessu ekki við vináttu, en Gordon Brown er einn helsti hugmyndafræðingur fjármálakerfisins í City og reglur þess eða réttara sagt regluleysi varð leiðarljós hins íslenska fjármálakerfis. Í þessu samhengi skipta öll ykkar lögfræðiálit engu máli né heldur hvað mennirnir í samninganefndunum heita. Það ríkir fjármálastríð í heiminum þar sem úrsérgengið kerfi reynir að ræsa vélarnar og á því verkstæði moka stjórnvöld okkar kolum einsog óð væru. Einn vitrasti hagfræðingur heims segir: "Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er nokkurs konar handrukkari alþjóðlegra lánardrottna og innheimtir tekjur ... fyrir þá. Það ótrúlega er að þjóðir um allan heim eru að glata efnahagslegu og peningalegu sjálfstæði sínu án mótspyrnu." Er það ekki nákvæmlega þetta sem við erum að gera með samþykkt ICESAVE-samningsins: Við erum að láta hneppa okkur í skuldafangelsi án minnstu mótspyrnu. Það er verið að gera okkur ábyrg fyrir fullkomlega ábyrgðarlausu fjármálakerfi, en áður var okkur sagt hið gagnstæða. Eigendur bankanna báru svo mikla ábyrgð. Þess vegna þurftu þeir himinhá laun og kaupauka. Sem sé; gróðinn skal einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Ef við samþykkjum þetta er hægt að láta okkur samþykkja hvað sem er. Jafnvel í undirheimunum þætti þetta ókurteisi.

Það breytir í raun engu hvort ICESAVE - samningurinn er vondur eða góður. Hann er í eðli sínu rangur. Ríkisstjórnin verður að sýna okkur hverjar þessar eignir eru. Þetta erum við búin að segja lengi en nú kemur bandarískur bankasérfræðingur og segir nákvæmlega það sama. Bandaríski Einar Már á Austurvelli 13.8.09sérfræðingurinn veit einsog við að þegar lið kaupir knattspyrnumann vita forráðamenn þess hvernig hann er á sig kominn. Þeir undirrita ekki bara kaupsamning og síðan birtist feitasti maður í heimi og getur hvorki hlaupið né sparkað. Jafn misvísandi eru fregnirnar um eignir Landsbankans. Annars hefðu Bretar bara tekið þær en þeir vilja ekki taka þær. Þeir vilja taka okkur. Það eru svo góð veð í okkur. Þetta er bara hreint og klárt kennitöluflakk. Eigendur og stjórnendur Landsbankans eru með fullt af fyrirtækjum í rekstri og alls konar gjörninga í gangi. Þeir hafa valdið svo miklu tjóni með þessu fyrirtæki sínu að það á að ganga á önnur fyrirtæki þeirra og eigur. Það hefur enginn rétt á að setja þjóð á hausinn með þessum hætti. Og þjóð sem lætur setja sig á hausinn með þessum hætti, hver verða eftirmæli hennar? Peningarnir af ICESAVE reikningunum runnu til útrásarvíkinganna og fyrirtækja þeirra. Baugsfyrirtækin skulda hundruð milljarða. Eignir eru færðar yfir á önnur fyrirtæki en skuldir skildar eftir. Og aldrei skortir þá lögfræðiátlitin. Eigum við að láta þá komast upp með þetta? Eða eigum við að kenna þeim að reikna og setja jafnaðarmerkið á réttan stað? Bara arðgreiðslurnar úr loftbólufyrirtækjunum sem nú hvíla á ríkinu voru jafn háar og ICESAVE skuldbindingar ríkissjóðs og sömuleiðis ágóði íslenskra auðmanna af skortstöðutökum gegn íslensku krónunni. Ríkisstjórnin stendur sig illa í að kynna málstað okkar, enda er hún með allt kerfi gömlu stjórnarinnar í vinnu. Og hvar er forsetinn með öll sín sambönd? Eða þekkir hann bara auðjöfra og fjárglæframenn?

Við hljótum að spyrja: Þegar upp er staðið, hvað er það sem skilað hefur þjóðfélagi okkar árangri? Það er ekki hin sjálfumglaða fáviska sem aðeins hefur tekið út úr þjóðfélaginu en ekki skilað neinu til þess. Það er barátta alþýðunnar, sem skilað hefur okkur árangri. Það var baráttan á síðustu öld Einar Már á Austurvelli 13.8.09sem skilaði okkur öflugu velferðarkerfi, skólakerfi, heilbrigðiskerfi, símalínum, sundlaugum, lífeyrissjóðum og þannig mætti lengi telja. Hið svokallaða góðæri fólst í því að afrakstur stéttabaráttunnar, sameign fólksins var einkavædd og gerð að söluvöru. Það sem áður var sameign fólksins, fiskurinn, síminn og bankarnir, svo dæmi séu tekin, var færð til einkaaðila á silfurfati og henni sólundað. Góðærið fólst í því að svokallað „dautt fjármagn", það er að segja þessi sameign fólksins, var sett af stað. Umferð þessa fjármagns skapaði veltu í samfélaginu, góðæri, en nú er þeirri umferð lokið. Það má eiginlega segja að það hafi orðið umferðarslys. Fjármagni fólksins hefur verið eytt i einskisnýtt drasl, glerhallir og partí og fátt er eftir til að selja. Þótt stór hluti góðærisins væri hagbóla, byggð á draumórum, þá má ekki gleyma því að undirstaða þess voru raunverulegar eignir fólksins: Fiskurinn, lífeyrissjóðirnir og ríkisfyrirtækin. Lífeyrissjóðir hafa verið mergsognir með aðstoð gjörspilltra stjórna og einkavæðing bankanna gerði auðmönnum kleift að skuldsetja fyrirtæki og félög og greiða sjálfum sér arð án þess að nokkur verðamætasköpun ætti sér stað. Sameign fólksins, hinu „dauða fjármagni", var sóað. Það er okkar hlutverk að endurheimta það. Við þurfum að byggja upp nýtt hagkerfi þar sem þjóðin á auðlindirnar og það sem henni ber samkvæmt stjórnarskrá: nýtingarrétt á náttúruauðlindum og aflaheimildum í sjó. Við þurfum að brjótast gegn bölvun spillingar og því segi ég:

Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:

Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.

Við roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hver stjórnar Íslandi?

Stundum verð ég svo reið að ég tek meðvitaða ákvörðun um að halda mér saman þar til mér rennur reiðin. En nú tókst það ekki. Ég hef nokkrum sinnum nefnt embættismannakerfið og stjórnsýsluna, síðast hér. Kallaði kerfið fimmta valdið í þessum pistli og held að það sé réttnefni. Sagt er að það sé handónýtt apparat, gjörspillt og þar ríki klíkuskapur og eiginhagsmunagæsla. Sem ég sit hér og horfi og hlusta á Kastljósið fæ ég hroll og mér verður æ ljósara að þau eru mörg, ríkin í ríkinu. Þau eru líka æði skuggaleg og hafa á sér sterkan blæ leyniklúbba þar sem klíkubræður hygla sér og sínum. Og ég spyr: Hver stjórnar Íslandi? Margir fullyrða að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórni hér öllu. En ég fæ ekki betur séð en að skilanefndir bankanna, sem sýsla með aleigu og fjöregg þjóðarinnar, séu forhertasta valdið og fari sínu fram hvað sem hver segir. Ætlar enginn að taka í taumana? Hefur enginn kjark til að fylgja eftir loforðum um opna stjórnsýslu, gagnsæi og heiðarleika?

Frétt á Eyjunni 12. ágúst 2009 - tilvísun í Vísi.is

Eyjan 12. ágúst 2009

 Fyrirspurnin og svar ráðherra á Alþingi í dag

Þessi frétt birtist á Eyjunni í gær

Eyjan 11. ágúst 2009

Gunnar Andersen, forstjóri FME kom í Kastljósviðtal í gærkvöldi og var ekki sammála okkur hinum um, að skilanefndirnar væru að lítilsvirða ákvarðanir FME. Gunnar virtist ekkert hafa við vinnubrögð skilanefndanna að athuga. Ég næ því ekki. Það er ekki traustvekjandi að þeir sem hafa með uppgjör bankanna að gera séu tengdir og skyldir bæði inn í gömlu bankanna og fyrirtæki útrásardólga. 

Gunnar Andersen, forstjóri FME, í Kastljósi 11. ágúst 2009

Rætt var við Pál Eyjólfsson, stærðfræðing og fyrrverandi starfsmann Landsbankans í Lúxemborg í Íslandi í dag 14. júlí. Páll var myrkur í máli og sagði m.a.: "Mér finnst eins og þeir hafi ákveðið að setja þetta í þrot og reyna að hirða eins mikinn pening úr þessu og þeir gátu með að skrifa tíma og taka ráðgjafaþóknanir." Þetta skyldi þó aldrei eiga við skilanefndir bankanna á Íslandi líka? Nóg hafa þær kostað þjóðina og þóknanir nefndarmanna ekkert slor. Feitur biti handa vinum, vandamönnum, klíkubræðrum og hvað... flokkssystkinum? Hvaða stjórnmálaflokkum tengist þetta fólk. Þetta angar allt af sukki og spillingu sem við vonuðum að heyrði fortíðinni til en virðist ekki hafa farið langt.

Ísland í dag 14. júlí 2009 - Páll Eyjólfsson

Í Kastljósi í kvöld tók Helgi Seljan saman fróðlegar upplýsingar um skilanefndir bankanna og fólkið í þeim - fyrri störf, tengsl og sitthvað í þeim dúr. Þetta er hrollvekjandi. Bendi einnig á skrif Ólafs Arnarsonar á Pressunni, hann hefur fjallað talsvert um skilanefndirnar.

Kastljós 12. ágúst 2009 - Úttekt á skilanefndum

Þessu ótengt - og þó ekki. Ég ætla ekki að segja neinum hvað fór í gegnum huga minn þegar ég sá þessa frétt á Stöð 2 í kvöld.

 


Lýst eftir réttlætiskennd þjóðar

Að blogga eða ekkiEins og þeir vita sem hingað koma reglulega flyt ég pistla á Morgunvakt Rásar 2 á föstudögum. Síðasta föstudag var 6. pistlinum útvarpað og mig hryllir við hve tíminn er fljótur að líða. Það er svo stutt síðan sá fyrsti var tekinn upp. Og ég er ekki fyrr búin með einn en komið er að þeim næsta.

Þegar ég settist niður við að semja þennan pistil sem hér birtist var ég ekki búin að ákveða um hvað hann ætti að fjalla og byrjaði án þess að vita hvernig framhaldið yrði. Þetta er skrýtið ferli en þó orðið kunnuglegt eftir alla bloggpistlana. Oftast er bara óljós hugmynd í kollinum þegar byrjað er - þ.e. um textann sjálfan. Svo kemur kannski í ljós að pistillinn hefur verið að gerjast í undirmeðvitundinni og sprettur fram þegar ég byrja að skrifa.

En hér er pistill síðasta föstudags og hljóðskrá fylgir neðst að venju. Mér fannst frábært að lagið sem ég bað um hafi verið spilað á eftir pistlinum. Það passaði nefnilega eins og flís við rass... hlustið.

Morgunvaktin á Rás 2

Ágætu hlustendur...

Vitið þið það... ég hef ekki tölu á því hve oft það hefur komið fyrir mig í vetur að hugsa - eða segja beinlínis upphátt þegar nýjar fréttir berast: "Nei! Ég get ekki meira!" Mig grunar ég sé ekki ein um þetta. Eftir því sem stungið er á fleiri graftarkýlum spillingar, óráðsíu, lögbrota, siðleysis og glæpa því erfiðara er að burðast með þetta allt á bakinu og horfa til framtíðar.

Danski hagfræðingurinn Carsten Valgreen sagði meðal annars þetta í blaðagrein í janúar: "Ísland er lítið, einsleitt samfélag þar sem innibyrðis Carsten Valgreentengsl eru mikil. Þetta er bæði mikill styrkleiki og veikleiki. Þetta er rót kreppunnar. Slík samfélagsgerð virkar næstum eins og fjölskylda eða eitt fyrirtæki. Útilokun tiltekinna vandamála og ákvörðun um að þagga þau niður þróast mjög auðveldlega, og af því leiðir að erfitt er að grípa inn í þegar þau hafa hreiðrað um sig."

Þetta er alveg hárrétt hjá Carsten. Þessi nánu tengsl í íslensku samfélagi þar sem ættingjum, vinum, klíku- og flokksbræðrum og -systrum er hyglað án tillits til hæfni eða getu hafa reynst þjóðinni skelfilega afdrifarík. Sagt er að embættismannakerfið, sjálf stjórnsýslan sem á að halda þjóðfélaginu gangandi, sé handónýtt apparat þar sem skipta þurfi ansi mörgum út til að kerfið virki almennilega. Gömlu stjórnarflokkarnir tveir höfðu áratugum saman komið sínu fólki fyrir í kerfinu og nú, þegar ný stjórn með aðrar hugmyndir er við völd, eru útsendarar fyrri stjórna í fínni aðstöðu til þess beinlínis að vinna gegn þeirri nýju á ýmsan hátt. Væri ekki viturlegt að fara ofan í saumana á þessu kerfi og breyta því?

Umburðarlyndi og langlundargeð þjóðarinnar gagnvart spillingu, dómgreindarleysi og jafnvel lögbrotum fólks sem á að heita í vinnu hjá almenningi hefur líka verið með ólíkindum en virðist vera að þverra - góðu heilli. Rifjum upp nokkur atriði sem hefðu umsvifalaust valdið afsögnum eða vanhæfi í siðmenntum löndum:

- Fjármálaráðherra átti hlutabréf í banka, fékk greiddan arð í ágúst 2008 en neitaði að gefa upp fjárhæðir. Hann hafði lengi vitað um afleita stöðu bankanna en sat áfram í stóli ráðherra.
- Þingmaður var í sjóðstjórn gjaldþrota banka, þáði stórfé fyrir auk þingfararkaups og ríkið dældi fé inn í sjóðinn eftir hrun. Maðurinn var aftur kjörinn á þing.
- Þingmaður stal úr ríkiskassanum og sat í fangelsi. Flokksbræður veittu honum uppreist æru og hann flaug aftur inn á þing.
- Ríkissaksóknari er nátengdur forstjóra eins stærsta eiganda stærsta bankans sem er til rannsóknar. Vanhæfið blasir við en embættismaðurinn harðneitar að segja af sér.
- Fjármálaeftirlitið vísar manni úr skilanefnd banka vegna mögulegra hagsmunaárekstra, en skilanefndin ræður hann þá umsvifalaust sem framkvæmdastjóra hins gjaldþrota banka.
- Nokkrir banka- og auðmenn rændu íslensku þjóðina, lifa áhyggjulausir í vellystingum hérlendis og erlendis, en ekki hefur verið hróflað við þeim eða eigum þeirra tæpu ári eftir ránið. Þó vita allir hverjir þeir eru og hvar þá er að finna.

Þetta eru aðeins örfá dæmi af fjölmörgum um siðspillingu í íslenskum stjórnmálum og embættismannakerfi. Þjóðin hefur liðið þetta alla tíð, en nú vottar loksins fyrir vísi að vakningu og þar leika fjölmiðlar stórt hlutverk. Það var yndislegt að verða vitni að viðbrögðum fjölmiðla og almennings við lögbanni Kaupþings á RÚV um síðustu helgi. Þar lögðust allir á eitt við að gera lögbannið að engu - og það tókst.

Ég lýsi eftir viðlíka samstöðu í fleiri réttlætismálum.

************************************

Ég fékk eftirfarandi tölvupóst upp úr hádegi á föstudag:

Sæl Lára,

Góður þótti mér pistillinn þinn á rás 2 í morgun en leitt þótti mér að heyra að þú færir með rangfærslur um Illuga Gunnarsson. Þar furðaðirðu þig á því að hann hefði ekki sagt af sér vegna þess að ríkissjóður hafi greitt inn í sjóð 9. Þetta er auðvitað kolrangt.

Illugi GunnarssonÉg skora á þig að leiðrétta þennan hvimleiða misskilning.

Illugi gerir raunar mjög vel grein fyrir nákvæmlega þessu á vefsíðu sinni:

5. Voru peningar greiddir úr ríkissjóði inn í sjóð 9?

Engir peningar fóru úr ríkissjóði í sjóð 9. Þessi misskilningur er tilkominn vegna þess að þegar fyrirtækið Stoðir fór í greiðslustöðvun þurfti að loka sjóði 9 tímabundið. Eins og áður sagði var það gert til að tryggja að allir sjóðsfélagar sætu við sama borð. Þann 30. september ákvað svo stjórn Glitnis (sem var þá enn banki í eigu einkaaðila) að kaupa skuldabréf Stoða af sjóði 9 með afföllum. Til kaupanna notaði Glitnir sína eigin fjármuni og engir peningar fóru úr ríkissjóði.

Sagan um 11 milljarðana frá ríkissjóði hefur verið nokkuð þrálát í umræðunni, þrátt fyrir að hið rétt hafi komið fram fyrir löngu síðan. Þeir sem vilja fullvissa sig um hið sanna geta lesið fjáraukalög á vefsíðu Alþingis. Samkvæmt 40. grein stjórnarskrárinnar er bannað að greiða nokkurt gjald úr ríkissjóði án þess að heimild sé fyrir því í fjárlögum. Fjáraukalögum fyrir árið 2008 voru samþykkt í desember og þar kemur skýrt fram að engin greiðsla fór til sjóðs 9. Margt má segja um ríkissjóð og útgjöld hans en eitt er þó víst að 11 milljarðar eru ekki teknir úr ríkissjóði án þess að það komi fram í bókhaldi hans.

Fjáraukalög má finna hér á vef Alþingis www.althingi.is
http://www.althingi.is/altext/136/s/pdf/0482.pdf

 ********************************************

Þessu er hér með komið til skila EN... Í fyrsta lagi furðaði ég mig ekki á því að hann hefði ekki sagt af sér, það var ekki venjan þá en verður vonandi framvegis - heldur furðaði ég mig á því að hann hafi boðið sig fram aftur með þennan bagga á bakinu sem aldrei upplýstist nægilega vel.

Í öðru lagi furða ég mig á því að ekki hafi verið farið ofan í saumana á málefnum einstakra frambjóðenda FYRIR kosningar. Það hefur reyndar ekki verið gert ennþá - og ég bíð óþreyjufull eftir að það verði gert. Ekki veitir af að hreinsa andrúmsloftið.

Í þriðja lagi furða ég mig á því að ég hef hvergi séð tekinn af allan vafa um málið og mér nægir alls ekki þetta hefðbundna... "að viðkomandi vísi ávirðingum á bug..." og síðan ekki söguna meir. Ég þarf miklu ákveðnari, augljósari og betri sannanir til að trúa. Og fjáraukalög Alþingis eru engin sönnun fyrir einu eða neinu í mínum huga. Slík er tortryggnin orðin og lái mér hver sem vill.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fé án hirðis fann Finn og Framsókn

Ég verð að játa að ég átta mig ekki á þessari svikamyllu. Þarna virðist græðgin hafa tekið völd og skúrkar leikið lausum hala með annarra manna fjármuni í höndunum. Um er að ræða Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga og Gift. Fleiri félög blandast eflaust inn í málið en samkvæmt fréttum teygja allir angar málsins sig inn í Framsóknarflokkinn. Lítum á málið.

Fyrir tveimur árum, í júní 2007, átti félagið samkvæmt fréttum 30 milljarða króna. Nú er það sagt skulda 45 milljarða. Þetta er viðsnúningur upp á 75 milljarða. Eignarhald ES virðist hafa verið nokkuð óljóst, en þó talið að tryggingartakar hafi átt félagið og til stóð að greiða út eignarhlut þeirra, en það var aldrei gert. Þess í stað virðist hópur sjálftökufólks hafa notað féð í fjárhættuspil. Fé annarra. Fé án hirðis.

14. júní 2007 spurði Sigurður G. Guðjónsson um eignarhaldið í Morgunblaðinu

Hver á Samvinnutryggingar og Andvöku - Morgunblaðið 14. júní 2007

Stöð 2 fjallaði um þetta undarlega mál í fréttum 14.,15. og 16. júní 2007

 

Eflaust hefur fleira verið grafið upp, en lítum næst á Kastljós 2. desember 2008

 

Því næst skulum við skoða fréttir RÚV í gærkvöldi, 8. ágúst 2009

 

Svona lítur Gift út í hinni frægu stórlánabók Kaupþings

Stórlánabók Kaupþings - Gift

Og hér eru tvær tengslamyndir af síðunni Litla Ísland (smellið til að stækka)

Samvinnutryggingar ehf. - www.litlaisland.net

Gift - www.litlaisland.net

Hvernig hægt er að gera hlutina svona flókna er ofar mínum skilningi, en eflaust er það af ásettu ráði gert til að fela slóðir. Heilmargt er hægt að lesa um málið á netinu ef maður gúglar svolítið. Svo margt að það er erfitt og tímafrekt að ná áttum. En þetta er eitt þeirra mála sem rannsóknaraðilar mega alls ekki gleyma. Og enn spyr ég: Hvar eru þessir peningar? Hér er úttekt Morgunblaðsins á Giftar-málinu frá 28. nóvember 2008 og ítarlegur pistill Gunnars Axels í kjölfarið.


Spegill, spegill herm þú mér...

Ætli það sé ekki best að skella inn síðasta Morgunvaktarpistli áður en þeim næsta verður útvarpað í fyrramálið. Svo mikið hefur gengið á að ég var satt að segja búin að steingleyma pistlinum - en var minnt á hann í dag. Það er þetta með orðhengilsháttinn og tittlingaskítinn... Hljóðskrá fylgir neðst í færslunni.

Morgunvaktin á Rás 2

Ágætu hlustendur...

Ég býst við að flestir eigi spegil og líti í hann endrum og eins. Sumir með aðdáun og ánægju, aðrir með hryllingi og jafnvel skömm. En hvað sjáum við þegar við horfum í spegil? Sjáum við aðeins umbúðirnar - útlitið? Eða eru einhverjir svo hugaðir að þeir þori að kafa dýpra, skoða sálina og spyrja: "Hver er ég?"

Skömmu fyrir hrun las ég pistil eftir Bergþóru Jónsdóttur, blaðamann á Mogganum. Ég klippti hann út, birti á blogginu mínu og endurbirti hann seinna. Bergþóra þorði nefnilega að kafa dýpra og skoða sálina - og það þjóðarsálina. Hún segir meðal annars þetta:

slenska þjóðin er skrýtin skepna. Hún veður áfram í dugnaði; er framsækin, menntuð, nútímaleg, tæknivædd og vinnusöm. Í útlöndum Spegill, spegill...heyrir maður að Íslendingar séu eftirsóttir í vinnu, og það finnst íslensku þjóðinni gott að heyra - eins og allt annað hrós um sjálfa sig.

Það er stutt í pirringinn ef Íslendingurinn er ekki bestur í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Íslenska þjóðin stærir sig af landinu sínu; blámanum, hreina vatninu og náttúrufegurðinni, fiskinum og lambinu og öllum framkvæmdunum sem fleyta henni í röð mest velmegandi þjóða heims.

Samt er eitthvað að.

Íslendingar eiga erfitt með að tjá sig og andmæla sjaldan þegar yfir þá er vaðið. Þeir lúffa fyrir valdinu og þora ekki eða nenna ekki að hafa sig í frammi þegar þeim er innst inni misboðið. Þeir trúa því að glæpur sé ekki glæpur - segi valdið það. Þeir gapa af undrun þegar einkabankarnir fá óvart gefin listaverkin þeirra - gera samt ekkert. Þeir hneykslast á dómum í dómskerfinu en hafa ekki döngun í sér til að þrýsta á um breytingar. Þeir hafa ekki neytendavitund, láta okur og óréttmæta viðskiptahætti yfir sig ganga. Þeir bölva, en eru fljótir að gleyma. Þeir agnúast út í stjórnvöld en kjósa sífellt annað eins yfir sig aftur."

Svo mælti Bergþóra. Mér hefur oft orðið hugsað til orða hennar í vetur, nú síðast þegar birtar voru niðurstöður úr skoðanakönnun sem sýndu, að sá flokkur sem ber langmesta ábyrgð á hruninu hafði bætt við sig fylgi. "Hvað er að?" spurði ég sjálfa mig, en fátt varð um svör. Er svona auðvelt að sannfæra Íslendinga? Láta þá kyssa vöndinn, þakka fyrir hýðinguna og biðja um meira.

Hvers vegna getum við ekki rætt málin af skynsemi og yfirvegun og komist að sameiginlegri niðurstöðu með hagsmuni allrar þjóðarinnar í huga, ekki aðeins útvaldra sérhagsmuna? Hvar er samfélagsvitund Íslendinga; meðvitundin um að við búum í samfélagi þar sem okkur ber að hlýða reglum og taka tillit til náungans? Var þeirri vitund útrýmt af skefjalausum heilaþvotti nýfrjálshyggjunnar um að hver væri sjálfum sér næstur? Hvernig stendur á að sumir alþingismenn nota ræðustól Alþingis til að gjamma eins og unglingar í ræðukeppni í grímulausri sérhagsmunagæslu í stað þess að leysa risavaxin vandamál þjóðarinnar í sameiningu?

Í Innansveitarkróníku sagði Halldór Laxness: "Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls."

Þetta er skrifað fyrir 40 árum og ekkert hefur breyst. Er ekki kominn tími til að leggja orðhengilsháttinn og tittlingaskítinn á hilluna, líta í spegil og endurskoða þjóðarsálina?

En við skulum byrja á okkur sjálfum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband