Færsluflokkur: Spilling og siðferði

Hafa ráðamenn ekkert lært?

Frá Samstöðufundi um orkuauðlindir í Grindavík 25.8.09Ég fjallaði um auðlindasöluna í pistlinum á Morgunvaktinni síðasta föstudag. Hlutirnir gerast nú hratt og þrýst er á um enn meiri hraða. Við eigum að afsala okkur orkuauðlindinni á Reykjanesi án umhugsunar. Þetta eru fáránleg vinnubrögð. Ross Beaty, forstjóri Magma Energy og talsmaður skúffufyrirtækisins Magma í Svíþjóð líka, segist vilja arðræna íslensku þjóðina í fullri sátt við hana. Bjartsýnn maður, Beaty.

Á Vísi er sagt að Samfylkingarfólk sjái mikla annmarka á að ríkið kaupi hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku - þann hinn sama og Beaty vill kaupa - og AGS gæti haft eitthvað við það að athuga. Þetta ítrekar síðan Eyjan í skelfilegri frétt. Hjartað í mér tók kipp - en þetta passar samt alveg við það sem okkur hefur verið sagt um AGS. Skoðið t.d. þetta, horfið á þetta og meðtakið þetta. Óhugnanlegt. Þetta má ekki gerast.

Ég fór á samstöðufundinn í Grindavík í gærkvöldi sem ég sagði frá hér. Hann var fjölmennur og afar fróðlegur. Erindi Guðbrands Einarssonar, bæjarfulltrúa Frá Samstöðufundi um orkuauðlindir í Grindavík 25.8.09 - Guðbrandur Einarssonminnihlutans í Reykjanesbæ, var sérlega athyglisvert og glærusýning hans er hér. Hengi hana líka neðst í færsluna. Fram kom í máli Guðbrands að ótrúlega margt er gruggugt við samninga Reykjanesbæjar, kaup, sölu, eignarhald, lánamál og margt fleira. Eftir að hlusta á Guðbrand spurði ég sjálfa mig forviða hvernig þetta hafi getað gerst! Þetta er svo sannarlega ein, stór svikamylla. Lesið um skuggaverkin hjá Agnari Kristjáni.

Á fundinum settu margir spurningamerki við fjárhagslegt hæfi Geysis Green Energy til þátttöku í milljarðaviðskiptum með tilheyrandi fjárhagslegum skuldbindingum. Fyrirtækið er mjög skuldsett og sumir helstu eigenda þess eru í meðferð skilanefnda gömlu bankanna. Forsvarsmenn fundarins fá áheyrn fjármálaráðherra í dag og það verður fróðlegt að heyra hvað hann segir.

Fundurinn  samþykkti einróma eftirfarandi yfirlýsingu: " Samstöðufundur haldinn í Grindavík þann 25. ágúst 2009 skorar á ríkisstjórn Íslands og sveitarfélög að koma í veg fyrir að fram gangi kaup Magma Energy á hlutum Ræðumenn á Samstöðufundi - Guðbrandur, Jóna Kristín og Þorleifurí HS orku og tryggja þannig áframhaldandi opinbert eignarhald á þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins. Framsal auðlindarinnar í jafn langan tíma og gert er ráð fyrir í tilboði Magma ber að líta á sem varanlegt auk þess sem því fylgir augljós áhætta á að auðlindin verði uppurin að framsalstímanum liðum. Við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu er brýnt að lausafjárvandi samfélagsins sé ekki leystur með bráðræðislegum gjörningum þar sem stórum hagsmunum er fórnað. Fundurinn vill því heita á ríkisstjórn Íslands að standa vörð um sameiginlegar auðlindir landsmanna með langtíma hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi þar sem við ráðstöfun og nýtingu sé horft til þess að hámarka samfélagslegan og þjóðhagslegan ávinning af auðlindinni í sátt við náttúruna."

Ef það er rétt sem Vísir og Eyjan segja, að AGS þrýsti á um söluna og banni ríkinu (les. almenningi) að eiga auðlindir sínar og njóta arðsins af þeim verðum við að losa okkur við AGS. Svo einfalt er það. Eignaupptaka heilu þjóðanna er sérgrein sjóðsins og Íslendingar virðast vera næstir. Það sem mér sárnar einna mest er að nokkrir Íslendingar taka þátt í plottinu með sjóðnum. Væntanlega sjá þeir gróðavon fyrir sjálfa sig og þeim virðist vera skítsama um okkur hin og afkomendur okkar. Maður spyr sig hvað þeir fá mikið í aðra hönd fyrir auðlindasöluna. Gleymum ekki því sem kom fram í myndinni The Big Sellout (Einkavæðingin og afleiðingar hennar). En hér er Morgunvaktarpistillinn frá 21. ágúst.

Morgunvaktin á Rás 2

Ágætu hlustendur...

Nú er vindurinn farinn að gnauða úti fyrir, haustið er í augsýn og farið að skyggja enn á ný. Við þurfum að kveikja ljósin fyrr og hækka hitann á ofnunum. Rafmagn og hiti eru meðal grunnþarfa samfélagsins og við værum illa stödd án orkunnar og heita vatnsins.

Við erum heppnir, Íslendingar. Við eigum auðlindir sem veita okkur orku og heitt vatn til húshitunar og annarra grunnþarfa. Þótt ekki sé hægt að segja að við höfum alltaf farið vel með orkuauðlindir okkar, höfum við þó hingað til getað kennt okkur sjálfum um. Þær hafa verið í okkar eigu.

Fyrir tveimur árum tók bæjarstjóri Reykjanesbæjar fyrsta skrefið í að selja þessa sameign þjóðarinnar og grunnstoð samfélagsins einkaaðilum. Það var í samræmi við frjálshyggjustefnu ráðandi afla í bæjarstjórn og landsmálum - allt átti að einkavæða. Helst einkaVINAvæða eins og bankana. Þriðjungur í Hitaveitu Suðurnesja var afhentur einkaaðilum. Álver í Helguvík var á dagskrá og menn sáu mikla gróðavon í orkunni - og gera enn.

Haustið 2007 var fróðlegt viðtal um 'íslenska efnahagsundrið' við Hannes Hólmstein Gissurarson, frjálshyggjupostula Íslands og einn arkitekta gróðahyggjunnar. Honum var þar tíðrætt um dautt fjármagn - fé án hirðis. Verðmæti sem voru lífguð við með því að afhenda þau einkaaðilum og leyfa þeim að veðsetja þau. Við vitum öll hvernig það endaði. Bankarnir hrundu og auðlindir sjávar eru veðsettar upp í rjáfur. Enda hafa kvótakóngar og bankamenn  það bara bærilegt, hafa svifið um loftin blá í þyrlum og einkaþotum og hlaðið vel undir sig og sína.

En frjálshyggju- og einkavæðingarsinnar eru aldeilis ekki hættir. Nú stendur til að feta í fótspor bæjarstjórans í Reykjanesbæ og selja enn stærri hluta orkuauðlinda frá þjóðinni. Útlendingar eru komnir á bragðið - þeir finna eflaust peningalyktina. Fyrsta skrefið var tekið 2007 og með dyggri aðstoð íslenskra ráðgjafafyrirtækja er Orkuveita Reykjavíkur um það bil að stíga næsta skref. Ef það skref verður stigið munu einkaaðilar, þar á meðal kanadíska skúffufyrirtækið Magma í Svíþjóð, eignast nærri helmingshlut í allri orkuvinnslu á Reykjanesi. Hlutnum fylgja afnot af orkuauðlindinni í allt að 130 ár. Í 130 ár, um það bil fimm kynslóðir Íslendinga, munu erlendir og innlendir auðmenn geta blóðmjólkað auðlindina - ef hún endist svo lengi.

Iðnaðarráðherra Samfylkingar er hlynntur þessari aðför að auðlind þjóðarinnar og ber fyrir sig tæplega ársgömlum lögum um að auðlindin sé í þjóðareign. Hvað stoðar það þegar yfirráð yfir henni og afnotaréttur af henni er í einkaeign og arðurinn fer úr landi? Endar jafnvel á Tortólum heimsins.

Ráðherra ber líka fyrir sig að gott sé að fá erlent fjármagn inn í hagkerfið á þessum erfiðu tímum. En hve mikið kemur inn, spyrjum við þá? Heilir 6 milljarðar! Það er rúmur helmingur af bónuskröfum starfsmanna Straums og 12% af skuld Magnúsar kvótakóngs sem talað var um að yrði mögulega afskrifuð. Þvílík innspýting í efnahagslíf þjóðarinnar! Getur ekki einhver með heilbrigða skynsemi komið vitinu fyrir Katrínu Júlíusdóttur og sagt henni söguna af Sigríði í Brattholti?

Hafa íslenskir ráðamenn ekkert lært?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óður til Hannesar Hólmsteins

Ó, þú mikli trúarleiðtogi sem leiddir þjóðina á vit hinnar helgu græðgi í gervi ofurkapítalisma og frjálshyggju. Þinn var mátturinn og þín var dýrðin. Þú gjörðir ei rangt enda handhafi hins eina Sannleika. Þú og vinir þínir eruð saklausir dæmdir og þráið það eitt að komast aftur að hljóðnemum valdsins til að geta klárað hið heilaga ætlunarverk ykkar. Ykkur sárnar að þjóðin sé hætt að hlusta, en slík eru ævinlega örlög hinna misskildu snillinga. Þið vitið sem er, að ÞIÐ gerðuð ekkert rangt, bara allir hinir. Verstir eru þeir sem nú rembast í sjálfumgleði sinni við að hreinsa kúkinn ykkar úr lauginni. Þeir fatta ekki að þetta er heilagur kúkur! Þeir kunna heldur ekki að græða á daginn og grilla á kvöldin. Mammon veri sál þeirra miskunnsamur. Fólk er fífl. Amen.

 
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Framtíð lýðræðis og fjölmiðlarnir

Ævar Kjartansson - Ljósm.: Örlygur HnefillÞátturinn Framtíð lýðræðis er nú fjórða sumarið í röð á Rás 1 í umsjón hins góðkunna útvarpsmanns Ævars Kjartanssonar og Ágústs Þórs Árnasonar, lektors við Háskólann á Akureyri. Í sumar hafa efnistök þáttarins eðlilega litast mjög af hruninu, aðdraganda þess og afleiðingum. Ég var að enda við að hlusta á þáttinn frá í morgun sem var jafnfrábær og hinir. Ævar og Ágúst Þór fá til sín einn viðmælanda í hverjum þætti og að öllum öðrum eðalútvarpsþáttum ólöstuðum er innihald þessara þátta með því málefnalegasta í útvarpi.

Ég þekki af eigin reynslu hvernig þeir Ævar og Ágúst Þór Ágúst Þór Árnasonvinna, því ég var hjá þeim í einum þættinum. Mér fannst allsendis fráleitt að ég ætti nokkurt erindi í þennan þátt þegar Ágúst Þór hringdi í mig í maí. Hló bara í símann og sagði furðu lostin: "ÉG?!" Ég hafði hlustað á nokkra þætti undanfarin sumur og sá engan flöt á því að ég hefði neitt til málanna að leggja. En ég lét sannfærast og þegar við settumst niður í stúdíói í Efstaleitinu með ferðagræjurnar hans Ævars hafði ég þann vara á að ég gæti örugglega ekki talað í þær 50 mínútur sem þátturinn stæði yfir. Svo hófst notalegt spjall við þá félaga um hinn nýja vettvang skoðanaskipta sem netið og bloggið er og þátt þess vettvangs í framtíð lýðræðisins. Fyrr en varir voru mínúturnar 50 liðnar, það var svo gaman að tala við þá. Og ég sem átti svo margt eftir ósagt! Þegar þættinum var útvarpað 19. júlí og ég hlustaði á hann fannst mér ég alls ekki hafa svarað nægilega vel, einkum tveimur eða þremur spurningum Ágústs Þórs. Bæti kannski úr því seinna en hengi þáttinn neðst í færsluna.

Gestur þeirra í morgun var Jón Ólafsson, heimspekiprófessor. Hann var Jón Ólafsson, heimspekingur alveg frábær. Kom víða við og talaði meðal annars um skotgrafarhernað stjórnmálamanna. Jón sagði t.d.: "Kannski er ég bara svona bjartsýnn, en ég held að það sé meiri tilfinning fyrir þessari nauðsyn að pólitík sé ekki bara hanaslagur þar sem hlakkar í andstæðingnum yfir ákvörðun sem hann veit að á eftir að koma þeim sem tekur hana illa - jafnvel þó að það sé líka mjög slæmt fyrir þjóðina að svo sé. Þarna erum við að sjá, að mínu mati, breytingu á pólitískum kúltúr." Ég er bæði sammála og ósammála þessari fullyrðingu Jóns. Ég held að tilfinningin fyrir þessari nauðsyn sé vissulega mjög mikil hjá almenningi, en minni hjá þeim sem hafa verið fastir á klafa flokkanna - og eru enn. Bæði stjórnmálamönnum og helstu áhangendum trúarkenninga þeirra. En vonandi leiðir tíminn í ljós að Jón hafi rétt fyrir sér.

Í síðasta hluta þáttarins talaði Jón um fjölmiðlana - skort á fagmennsku í fjölmiðlum, hlutverk þeirra í fortíð, nútíð og framtíð - og hvernig þeir hafa spilað með í hanaslag stjórnmálamanna. Og hræðsluna. Hvort sem maður tekur undir skoðanir Jóns eða ekki er þetta mjög umhugsunarverð umræða. Ég klippti þann kafla úr þættinum og hengi við hér neðst í færslunni. Þátturinn allur er hér. Mér finnst að allir fjölmiðlamenn eigi að hlusta sérstaklega á þennan kafla viðtalsins - helst allt viðtalið svo ekki sé minnst á alla þætti þeirra félaga um Framtíð lýðræðis. Rifjum líka upp viðtal Egils í Silfrinu við þennan sama Jón Ólafsson frá 18. janúar sl.

Jón Ólafsson í Silfri Egils 18. janúar 2009

 

Svo er hægt að hlusta á þættina Framtíð lýðræðis aftur í tímann á hlaðvarpi RÚV hér.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Draumar og veruleiki

Í umræðunni um sölu auðlindanna og einkavæðingu grunnstoða þjóðfélagsins verður mér æði oft hugsað til viðtalsins við spekinginn hér að neðan. Draumar hans rættust rækilega - eða a.m.k. stór hluti þeirra. Við glímum við veruleikann eftir frjálshyggju- og einkavæðingarsukkið, sitjum eftir með brostnar vonir og þungar áhyggjur af börnunum okkar og barnabörnunum. Við verðum að átta okkur á því að enn eimir eftir af þessum trúarbrögðum og það töluvert. Látum þá ekki hirða af okkur orkuauðlindirnar líka. Aldrei.

Ísland í dag 13. september 2007

Ég lék mér svolítið með viðtalið og birti í pistli 25. mars, mánuði fyrir kosningar, til að sýna mótsagnirnar. Við vitum öll hvað var gert, hverjir voru þar í fararbroddi og hvaða afleiðingar það hafði. Það þýðir ekkert að reyna að blekkja okkur lengur. Eða hvað? Viljum við að það fari eins fyrir orkuauðlindunum okkar og bönkunum? Ég efast ekki eitt augnablik um að illa fari ef þær verða afhentar einkaaðilum - á silfurfati, fyrir slikk og jafnvel með kúluláni.

 
 ***********************************************
Magma vill kúlulán - Fréttablaðið 22.8.09

Finnur er fundinn - og þvílíkur fengur!

Það hefur verið hljótt um Finn Ingólfsson í vetur. Undarlega hljótt miðað við undirliggjandi vitneskju um mikla þátttöku hans í ýmsum viðskiptum - svo ekki sé minnst á fortíð mannsins. Ég skrifaði pistil um daginn sem ég kallaði Fé án hirðis fann Finn og Framsókn. Í ljósi umræðunnar um HS Orku og kaup Geysis Green Energy og Magma Energy er líka vert að minna á þessa grein sem birtist í DV 10. júlí sl. Auðvitað eru framsóknarmenn líka á bak við einkavæðingu auðlindanna, nema hvað!

Hvítbókin er orðin ómissandi heimild um persónur og leikendur í hrun(a)dansinum og hún er vitaskuld með síðu um Finn. Litla Ísland er óðum að færa sig upp á skaftið með því að skrá tengsl og feril glæpamannanna sem hafa vaðið uppi á Íslandi undanfarin ár. Þeir fundu Finn auðvitað líka. Hér er köngulóarvefur Litla Íslands um Finn Ingólfsson. (Smellið til að stækka.)

Finnur Ingólfsson - www.litlaisland.net

Tvær skemmtilegar fréttir birtust um Finn Ingólfsson á netmiðlum í dag - DV og Eyjunni - og þar kemur fram hin sérkennilega "heppni" Finns í viðskiptum. Í DV-fréttinni segir m.a. þetta: "En þótt syrt hafi í álinn hjá Finni er hann ekki persónulega ábyrgur fyrir sukkinu í Langflugi og þarf því ekki að borga." Takið síðan eftir samningi Finns við vin sinn og flokksbróður Alfreð Þorsteinsson, sem var einvaldur í Orkuveitu Reykjavíkur um langt skeið. Í þessari frétt DV kemur fram að samningurinn hafi verið gerður árið 2001. Samningurinn er til ársins 2112 (103 ár eftir af honum? Prentvilla?) og hann færir Finni 200 milljónir króna á ári. Það er nú ekki eins og Finnur sé ekki aflögufær - en þjóðin fær að borga. Ég spyr sjálfa mig hvort Alfreð sé á prósentum og bendi jafnframt á, að enn er framsóknarmaður stjórnarformaður OR - sá sem var 14. maður á lista flokksins í Reykjavík þar sem flokkurinn rétt slefaði inn með einn mann. Íslenskt lýðræði í hnotskurn?

Vesalings Finnur - DV.is 20.8.09

Í Eyjufréttinni kemur fram að endurskoðandi hins gjaldþrota Langflugs var Lárus Finnbogason sem nú er formaður skilanefndar Landsbankans, stærsta kröfuhafa þrotabúsins. Ég minni í því sambandi á tvo pistla um skilanefndirnar - Hver stjórnar Íslandi? og Skúrkar og skilanefndir. Þetta er sjúkt og verður að taka fastari tökum en gert er. Skilanefndirnar virðast vera ríki í ríkinu og innanborðs fólk með æði vafasöm tengsl.

Finnur Ingólfsson og gjaldþrot Langflugs - Eyjan


Skúrkar og skilanefndir

Ég var ansi reið þegar ég skrifaði þennan pistil um skilanefndir bankanna. Bara nokkuð rækilega fjúkandi og er enn á því að reiði mín - og annarra - hafi verið fullkomlega réttlát. Í kvöld og í fyrrakvöld bættist enn í skilanefndaskjóðuna góðu.

Í kvöld var frétt á Stöð 2 um forstjóra Straums, sem mér skildist að skilanefnd bankans hafi ráðið þegar bankinn fór í þrot. Hann er með 4 milljónir á mánuði sem gerir 48 milljónir á ári. Samkvæmt fréttinni var það einmitt þessi forstjóri sem lagði til að starfsmenn fengju 11 milljarða í bónusgreiðslur fyrir að innheimta skuldir bankans? Hver borgar laun bankastjórans? Við? Hvernig er siðferðinu háttað hjá svona fólki? Maður spyr sig...

Fréttir Stöðvar 2 - 20. ágúst 2009

 

Í áðurnefndum pistli birti ég umfjöllun Kastljóss um skilanefndir bankanna frá í síðustu viku. Annar hluti kom í Kastljósi í fyrrakvöld. Ég veit ekki hvort þeir verða fleiri, en birti hér báða kafla. Hvað finnst fólki um þetta?

Kastljós um skilanefndir - 12. ágúst 2009

 

Kastljós um skilanefndir - 18. ágúst 2009

 


Þið getið það!

Hreiðar Már var í Kastljósi - í bullandi vörn og að því er virtist í litlum tengslum við raunveruleikann og ábyrgð sína á ástandinu. Ég fékk myndband í tölvupósti rétt áður en Kastljósið byrjaði. Innanhússmyndband Kaupþings frá gróðærisárunum þar sem starfsmenn eru hvattir til dáða. Ekki verður annað sagt en að myndbandið hafi haft mikil áhrif - og skelfilegar afleiðingar.

 
Hreiðar Már í Kastljósi 19. ágúst 2009
 
 

Hvenær þrýtur þolinmæði þjóðarinnar?

Ég er orðin úrvinda af þreytu. Ekki bara eftir að standa vaktina nánast allan sólarhringinn 7 daga í viku undanfarið ár í sjálfboðavinnu. Það sem gerir mig endanlega kúguppgefna er að fá aldrei frið fyrir reiðinni, vonleysinu, örvæntingunni og óréttlætinu. Sjá aldrei einu sinni glitta í réttlæti og vonarglætu. Dag eftir dag, viku eftir viku þurfum við að horfa upp á subbulegar eiginhagsmunaklíkur valdakerfisins undirbúa sölu þjóðarauðlinda til einkaaðila - erlendra ef því er að skipta - og hygla sér og vinum sínum á kostnað okkar hinna. Maður er með æluna uppi í hálsi á hverjum einasta degi og reiðin þenur hverja taug. Er ekki kominn tími á alvörubyltingu?

DV í dag, 18. ágúst 2009 - Takið eftir að auðjöfurinn fær að halda kvótanum sínum!

Tugmilljarðaskuldir Magnúsar afskrifaðar - DV 18.8.09

Árni Páll Árnason, frjálshyggjustrumpurinn í Félagsmálaráðuneytinu 4. ágúst 2009

 

Ég skora á alla Íslendinga sem vettlingi geta valdið að fara niður í Austurstræti 16 - Apótekshornið (gamla Reykjavíkur Apótek þar sem Óli blaðasali stóð alltaf) þar sem skilanefnd Landsbankans er til húsa. Stoppa alla umferð á horninu. Félagsmálaráðuneytið er til húsa í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu. Hvað segið þið um hádegið á morgun, miðvikudag? Láta heyra í sér - hringja í ráðherra og þingmenn, senda tölvupósta - MÓTMÆLA SVONA RUGLI!

Viðbót:  DV 18. ágúst 2009 kl. 15:49

Neitar ekki að hluti skulda Magnúsar verið afskrifaður - DV 18.8.09


Spilling og öðruvísi umræða

Ég þreytist seint á að tala og skrifa um spillinguna á Íslandi. Spillingu, sem er svo djúpstæð og inngróin í samfélagið að fjandanum erfiðara verður að uppræta hana - ef það tekst þá nokkurn tíma. Við höfum nefnilega vanist henni svo rækilega, alist upp með henni og litið á hana sem óumflýjanlegan hluta af tilverunni. Eða hvað?

Umræðan í þjóðfélaginu hefur breyst og opnast mjög með netmiðlum og bloggi, það held ég að allir geti verið sammála um. Gallinn er sá að umræðan sem þar fer fram nær ekki til nema hluta þjóðarinnar. Allt of margir líta ennþá niður á blogg og halda að þar komi ekkert fram sem vert er að íhuga. Sumir segjast ekki hafa tíma til að lesa blogg en lesa þó prentblöðin upp til agna á hverjum degi og hlusta/horfa á alla fréttatíma ljósvakamiðlanna. Fjöldi fólks lítur þannig á þjóðfélagsumræðuna að ekkert sé raunverulegt eða satt nema það birtist á síðum Morgunblaðsins eða í fréttatíma RÚV. Þetta er vitaskuld mikill misskilningur.

Einhverjum stjórnmálamönnum er í nöp við netið og þá opnu umræðu sem þar fer fram. Hún gerir þeim erfiðara fyrir að fela hlutina, fara sínu fram í skjóli upplýsingaskorts og þöggunar. Egill Helga hefur eftir 'glöggum stjórnmálaskýranda' í nýjustu bloggfærslu sinni að... "Samfylkingarmaður sem ég talaði við hélt því er virtist fram í fullri alvöru að umræðan á netinu væri einn aðalsökudólgurinn í því hve illa gengur að koma á úrbótum og lausnum. Allur tími ráðamanna færi í það að verjast þessu leiðindafyrirbæri sem netið er..." Ef þetta er almennt sýnishorn af áliti stjórnmálamanna á skoðunum almennings er ansi langt í að við fáum þá opnu og heiðarlegu stjórnsýslu sem kallað var eftir í vetur - og það hátt og snjallt.

Þetta er langur formáli að litlum pistli - Morgunvaktarpistlinum fá 14. ágúst. Hljóðskrá fylgir neðst í færlsunni.

Morgunvaktin á Rás 2
Ágætu hlustendur...

Um árabil var okkur talin trú um að á Íslandi væri engin spilling. Því til sönnunar birtust reglulega niðurstöður Transparency International, sem gæti útlagst á íslensku Alþjóða gagnsæisstofnunin. Þar var Ísland ofarlega, jafnvel á toppnum, yfir MINNST spilltu þjóðir heims. Ég minnist þess ekki að fjölmiðlar, sem birtu niðurstöðurnar, hafi nokkurn tíma skoðað þær eða forsendur þeirra nánar. Stjórnmálamenn vitnuðu gjarnan í þessar kannanir til að bera af sér áburð um spillingu og réttlæta jafnvel spilltustu athafnir sínar.

Þjóðin glotti alltaf þegar þetta hreinleika- og gagnsæisvottorð birtist því hún vissi betur. Við vissum öll að á Íslandi var gjörspillt stjórnkerfi þar sem frændsemi, klíkuskapur og eiginhagsmunir réðu ríkjum. Það mátti bara ekki segja það upphátt og alls ekki minnast á mútur. Slíkur ósómi tíðkaðist bara í útlöndum. Á Íslandi var þannig greiðasemi kölluð 'fyrirgreiðsla' eða eitthvað ámóta huggulegt. Í versta falli 'samtrygging'. Alls ekki spilling og mútur. Það var eitthvað svo... óíslenskt.

Að blogga eða blogga ekki - Að lesa blogg eða lesa ekki bloggEftir efnahagshrunið í haust hafa ótrúlegustu hlutir komið upp á yfirborðið og upplýsingar um alls konar spillingu gefið okkur utan undir hvað eftir annað af svo miklu afli að undan hefur sviðið. Og enn hellast spillingarmálin yfir okkur, nú síðast í fréttum af skilanefndum gömlu bankanna. Þar blandast líka inn í einn angi spillingarinnar - hagsmunaárekstrar og vanhæfi. Ótrúlega mikið þarf til að menn viðurkenni hagsmunaárekstra eða eigið vanhæfi, jafnvel þó að það blasi við öllum öðrum. Og það undarlega er, að menn eru látnir í friði með að ákveða sjálfir hvort þeir eru vanhæfir eða ekki.

Umræðan um spillinguna og fjölmiðlun á Íslandi hefur breyst mjög eftir að netið og bloggið komu til sögunnar. Nú þarf ekki lengur að bíða kvöldfrétta eða prentblaðanna að morgni til að fá upplýsingar. Þær birtast oftast fyrst á netinu - í netmiðlum eða á bloggi. Netið er upplýsingaveita nútímans og framtíðarinnar. Það er annars eðlis en hefðbundnir fjölmiðlar og getur leyft sér meira - eða gerir það að minnsta kosti.

Þótt hefðbundnir fjölmiðlar séu bráðnauðsynlegir og ágætir fyrir sinn hatt finnst mér alltaf skrýtið að hitta fólk sem snýr upp á sig þegar blogg ber á góma og segir snúðugt með misskildum menningarhroka: "Nei, ég les ALDREI blogg." Í tóninum felst að því þyki afskaplega ófínt að blogga og enn ófínna að lesa blogg. Þetta fólk er á villigötum ef það heldur að ekkert sé satt nema það birtist í kvöldfréttum ljósvakans eða á síðum prentmiðlanna. Það hefur ekki nema örlitla nasasjón af sannleikanum því upplýsingaflæðið er margfalt meira, ferskara og frjórra í netmiðlum og á bloggi. Þar er líka hægt að fletta upp öllu mögulegu langt aftur í tímann til að hressa upp á minnið og setja atburði í samhengi.

Jafnvel blaðamenn hafa viðurkennt að lesa aldrei blogg eins og Víkverji dagsins á Mogganum sem skrifaði meðal annars þetta fyrir rúmu ári: "Víkverji sér ansi oft vitnað í blogg í fjölmiðlum. Hann getur ekki séð að menn hafi þar ýkja mikið fram að færa. Það er eitthvað sérlega dapurlegt við það að fólk sé farið að eyða mörgum tímum á dag í að kynna sér þessi ómerkilegu skrif." Víkverji þessi sagði fleira niðrandi um bloggið í pistli sínum, en honum hefur vonandi snúist hugur því annars veit hann ekki allan sannleikann frekar en aðrir sem ekki lesa blogg og netmiðla.

Sannleikurinn leynist nefnilega víðar en í Mogganum og Ríkisútvarpinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gróðafíknin og hið helga fé

Við þekkjum öll þá réttlætingu að ofurlaunin hafi tíðkast vegna þess að ofurlaunaþegarnir báru svo gríðarlega mikla ábyrgð. Jájá. Við vitum að þetta er kjaftæði. Engir ofurlaunaþegar hafa axlað neina ábyrgð - ennþá. Réttlætið felst meðal annars í að þeir verði látnir axla ábyrgð og það frekar fyrr en síðar.

Lesendur síðunnar vita að ég grúska gjarnan og finn stundum ýmislegt forvitnilegt - að mínu mati. Í þetta sinn fann ég alveg óvart tvær greinar í sama Mogga - frá 11. janúar 2004. Fyrri greinin heitir Um gróðafíkn og er skrifuð af Guðmundi Helga Þórðarsyni, fyrrverandi heilsugæslulækni. Um hann veit ég ekkert. Í greininni fjallar hann um gróðafíkn og veruleikafirringu ofurlaunamannanna sem missa allt jarðsamband í ásókn sinni eftir meiri peningum. Ég tek ofan minn ímyndaða hatt fyrir Guðmundi Helga fyrir greinina. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Um gróðafíkn - Guðmundur Helgi Þórðarson - Moggi 11.1.04

Seinni greinin er eftir fjárhirðinn Pétur Blöndal og heitir Hið helga fé sparisjóðanna. Mér skilst á mér fróðari mönnum að Pétur hafi leikið stórt hlutverk í þeirri þróun sem leiddi að lokum til falls Byrs, SPRON og fleiri sparisjóða. Greinin gæti verið innlegg í þá umræðu. Ég tek ekki ofan fyrir Pétri Blöndal fyrir greinina þótt ég játi að stöku sinnum finnist mér Pétur tala skynsamlega. En ekki mjög oft. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Hið helga fé sparisjóðanna - Pétur Blöndal - Moggi 11.1.04


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband