Færsluflokkur: Dægurmál
29.9.2009
Síðbúin afsökunarbeiðni
Hvort sem Magnús Þór Sigmundsson er álfur eður ei, þá er hann frábær listamaður. Margir hrifust mjög af laginu sem hann flutti í þættinum Á rás fyrir Grensás á föstudagskvöldið. Ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég hlusta á lagið. Eins og fram kemur í þessari hressilegu frétt á vef Önfirðingafélagsins (af bb.is) samdi hann lagið fyrir vestfirska karlakórinn Fjallabræður, sem flytja lagið með honum auk stórfínna tónlistarmanna.
Í fréttinni kemur fram að Magnús Þór hafi búið m.a. í Keflavík og á Flateyri, en búi nú í Hveragerði. Hann og fjölskylda hans eru því meðal þeirra sem fá yfir sig eiturgufurnar úr borholum Bitruvirkjunar ef hún verður reist.
Ég hringdi í Magnús Þór til að fá leyfi hans til að birta lagið og var það auðfengið. Hann sagði mér að lagið væri síðbúin afsökunarbeiðni. Síðbúin afsökunarbeiðni til landsins, náttúrunnar, auðlindanna... alls þess, sem nú er ýmist verið að selja og/eða eyðileggja. Arfleifðar okkar og afkomenda okkar.
En hér er lag Magnúsar Þórs, Freyja, flutt af honum sjálfum, vestfirska karlakórnum Fjallabræðrum og vel völdum tónlistarmönnum. Þetta er glæsilegur flutningur á frábæru lagi og mögnuðum texta sem ég skrifaði niður eftir eyranu. Náði honum vonandi réttum.
Freyja
Fyrirgefðu mér
undir fótum ég fyrir þér finn
ég man
þú varst mín
hér eitt sinn.
Kæra Freyja mín
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?
Ég seldi þig
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?
Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?
Fyrirgefðu mér
ég fyllti upp í dali með fjöllunum
ég heyrði ekki söng þinn og seið
mér varð á.
Já, ég skammast mín
er þú sál mína særir til þín
þar sem tár þinna jökla og fjallasýn
kveðast á.
Já, ég seldi þig,
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?
Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?
Kæra Freyja mín,
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?
Höfundur: Magnús Þór Sigmundsson
Með birtingu þessa lags og texta hefst baráttan gegn Bitruvirkjun hér á síðunni - aftur. Látið boð út ganga!
Dægurmál | Breytt 1.10.2009 kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
25.9.2009
Að vera eða ekki vera...
8.9.2009
Tjáningarfrelsi og nafnleysi
Mikið hefur verið rætt og ritað um kvartanir vissra manna um róg og níð í skjóli nafnleysis. Með betri pistlum um málið má lesa hjá Sigurði Þór. Í gærkvöldi las ég svo stórfínan pistil Agnars Kristjáns Þorsteinssonar, sem varpar ljósi á ýmislegt í þessu sambandi. Hann kemur m.a. inn á hluti sem ég hef mikið velt fyrir mér, skrifað og talað um - hræðsluþjóðfélagið sem hér hefur ríkt svo óralengi og kæft eðlilega, nauðsynlega umræðu. Þar sem fólk er látið gjalda orða sinna og skoðana. Svo langt hefur verið gengið að fólk hættir að þora að tjá sig og segja sannleikann. Agnar leyfði mér að birta pistilinn sinn hér. Yfirskrift pistilsins er Til varnar nafnleysi í samfélagi ógnar.
Ég hef verið aðeins hugsi yfir þessari nafnleysisumræðu því að mörgu leyti hefur hún verið á einn veg: þ.e. þar sem lítill minnihluti nafnleysingja eru sóðar og níðingar, þá skuli ganga í skrokk á þeim öllum. Því hef ég ákveðið að stíga fram og taka aðeins upp hanskann fyrir hinni nafnlausu umræðu á netinu, eitt af því sem er óvinsælt af hálfu þeirra sem vilja stýra öllum umræðum og yfir tjáningarfrelsi drottna.
Þegar ég byrjaði að blogga þá ákvað ég að byrja með dulnefnið AK-72, sem er samsett úr stöfum í nafni mínu og fæðingarári. Tvennt var það sem olli þessari ákvörðun og það var að ég var að færa mig hikandi inn á þennan ritvöll sem bloggið er og svo hinsvegar það sem var aðalástæðan: ég var ekki með skoðanir sem voru vinsælar, þ.e. ég gagnrýndi Sjálfstæðisflokk og Framsókn fyrir það fyrsta og svo hafði ég sterkar skoðanir gagnvart forarpytti íslensku þjóðarinnar: rasismanum, þjóðernishyggjunni og útlendingahatrinu sem einkennir umræðu þegar kemur að þessum minnihlutahópum. Enda fór sem fór, maður lenti í eldheitum umræðum og fékk á sig hatursfullar athugasemdir frá fólki sem skrifaði undir nafni og maður skildi alveg fullkomlega hversvegna nafnleysi getur verið gott i umræðu þar sem maður tekur upp hanskann fyrir minnihlutahóp.
Svo kom þó að ég fór að skrifa undir nafni eftir beiðni frá ritstjóra Mogga-bloggsins en hélt þó þessu heiti á yfirborðinu enda myndaði það smá buffer" að mér fannst. Og það kom líka í ljós að skrifa undir nafni hafði einmitt ákveðin áhrif því þegar leið á umræðu um múslima og fordóma gegn þeim sem ég tók þátt í, þá gerðist nokkuð sem vakti hroll hjá mér og ónot. Einn af verstu öfgamönnunum í þeirri umræðu sem ég tel að gangi ekki heill til skógar, tók sig til og gróf upp hvar ég vann, netfangið þar og byrjaði að senda mér óhugnanlega tölvupósta með hatursáróðri. Ég bað hann um að hætta þessu og sagði honum að ég hefði ekki beðið um að fá svona viðurstyggð senda. Svar hans var að hann teldi sig hafa fullkominn rétt á því, hann væri að fræða mig um hætturnar af múslimum og þverneitaði að taka mig af póstlista sínum heldur hélt áfram að senda póst.
Ógnin af þessu var einnig augljós, ofstækisfullur kynþáttahatari og kristinn öfgamaður taldi sig geta gert hvað sem er og óhugnaðurinn sem fylgdi þessu, lifið með manni í nokkra daga á eftir. Að lokum varð þó niðurstaðan sú hjá mér, að einfaldlega setja klikkhausinn í junk-mail filter", lét vini mína vita af þessu og sagði þeim að ef ég endaði lúbarinn eða með hníf í kviðnum, þá ætti að leita fyrst að grunuðum hjá íslenskum kynþáttahöturum sem fóru mikið um netheima. Ég ætlaði ekki að láta einhverja hálfslefandi, innræktaða amlóða hræða mig né hafa áhrif á mann.
Þó bliknar þessi saga mín miðað við íslenskt samfélag eins og það hefur verið síðustu ár undir stjórn náhirðar og sauðskinsskálka. Það var og er samfélag ógnar og ótta ,samfélag þar sem mönnum er hótað eða refsað fyrir að segja skoðanir sínar, tjá sig eða jafnvel upplýsa um glæpi líkt og litli Landsímamaðurinn gerði. Hann var rekinn fyrir að fara til lögreglunnar og láta vita um glæp uppáhaldsdrengja Bláu handarinnar sem kreistir og kremur alla þá sem henni líkar ekki við, og átti víst erfitt með að fá vinnu eftir á. Orðið um að hann væri uppljóstrari" var víst látið ganga meðal klíkubræðra sem seint fyrirgáfu að andlit frelsis markaðarins" skuli hafa verið gripið með kúkinn í brókunum og milljónir í vasanum. Ef hann hefði aftur á móti farið hefðbundna leið og látið yfirmann vita, þá hefði þetta bara verið kæft niður og hann færður á milli deilda, líkt og einhverjir bankamenn lentu í þegar þeir urðu varir við óeðlilega hluti innan bankakerfisins fyrir hrun.
Það sama hefur gerst fyrir suma þá sem skrifa á netinu undir nafni hafa upplifað, þeim er hótað, þeim er ógnað og sviptir atvinnu fyrir að tjá sig um málefni líðandi stundar, skoðanakúgun er liðin af hálfu þeirra sem völd hafa eða valdinu þjónka. Þetta varð sérstaklega áberandi í vetur þegar fólk sem tók þátt í mótmælum þurfti að þola allskonar svívirðingar, hótanir, ógnanir og jafnvel rúðubrot og ofbeldi, en nei, það var í lagi, þetta voru bara kommúnistadrullusokkar, þetta voru atvinnumótmælendur og þeir voru ekki eins réttháir í augum þeirra sem grenja nú. Þá mátti svívirða, níða, hrækja á, berja á og já, talsmenn frelsisins gengu fram með blóðþorstaglampa, heimtandi harðari aðgerðir gegn því fólki sem dirfðist að standa upp úr sófanum og láta skoðanir sínar í ljós. En var þetta fólk að væla? Nei, það tók mestum skítnum af æðruleysi því það ætlaði ekki að leyfa rökkum níðinga flokkakerfisins að brjóta sig niður og myndaði skel ólíkt þeim stjórnmálamönnum, flokksdindlum, fjölmiðlamönnum og vörgum viðskiptalífsins sem vilja stýra allri umræðu.
En það eru ekki bara þeir sem skrifa og tjá sig á netinu sem lenda í svona, það eru líka þeir sem tjá sig á vinnustöðum þar sem yfirmenn þola ekki rangar" skoðanir líkt og gerðist með einn ættingja minn sem vann hjá einu borgarbatteríinu. Hann lét gamminn geysa í einum kaffitímanum þar sem hann hraunaði aðeins yfir Framsóknarflokkinn, nokkuð sem nýja yfirmanninum með valdastandpínuna líkaði ekki við. Þegar verkstjóra-jæjað kom, þá var ættinginn dreginn inn á skrifstofu og honum tilkynnt það í ógnvekjandi tón að svona ætti hann ekki að tala og það yrði séð til þess að honum yrði sparkað ef hann talaði svona um Framsóknarflokkin aftur. Ættinginn gerði það eina rétta í stöðunni, sagði honum bara að eiga sínar hótanir, gekk út og fékk sér aðra vinnu, nokkuð sem var auðvelt fyrir mann með hans menntun og reynslu.
En í samfélagi ógnar og ótta sem hið Gamla Ísland" var og er, þá er ekki svo hægt um vik á mörgum stöðum að gera hið eina rétta í stöðunni og storka skoðanakúgaranum. Tökum sem dæmi, þá sem búa út á landi og í litlum bæjarfélögum eða þorpum. Þar er nefnilega mun erfiðara að vera með óvinsælar" skoðanir hvort sem það er að leggjast á móti álverum eða vera ekki með sömu skoðun og aðalatvinnurekandinn eða stjórnmála-aflið í þorpinu, það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, ekki bara fyrir hann heldur einnig fjölskylduna. Þar er nefnilega hægt að beita hóprefsingu og ég efast ekki um að þeir sem valdið hafa, þeir sem tala mest um frelsi einstaklingsins og markaðsins" og tjáningarfrelsið má ekki hindra" hafi refsað mönnum fyrir að tjá sig undir nafni enda hafa þeir sem kenndir eru við skrímsladeild og náhirð oftast verstir verið.
Þetta leiðir því að öðru, þetta tal um hræsnina sem felst í því að tala um frelsið" en þola ekki að aðrir hafi aðrar skoðanir. Hræsnin á bæ þeirra sem heimta að skrúfað sé fyrir skoðanir eða hvassa gagnrýni eða heimta að einhver yfirritskoðari taki á mönnum sem skrifa undir nafni, líkt og nýbakaður þingmaður nokkur sem aðhyllist frelsið", telur að eigi að gera við hvassan skrifara sem dirfist að urra í áttina að honum. Hvar er frelsið þá ef þingmaður getur látið þagga niðri í gagnrýnanda sínum?
Slepjan sem liggur svo í orðum margra þeirra sem stíga fram nú sem siðapostular og fulltrúar vandlætingar, er í senn hræsin og velgjuvaldandi. Aðilar sem allir eiga sök á því hruni sem hefur orðið hér, aðilar sem hafa ekkert lært af hruninu og dreymir um hið gamla Ísland" rísi upp á ný sem Fimmta ríkið. Og hverjir eru þeir þegar litið er yfir hringleikahús íslenskrar umræðu?
- Stjórnmálamenn sem væla hvað mest undan að landinn blaðri á netinu og nota yfirskin um netníð og nafnleynd". Sjálfir sjá þeir ekkert að notkun dulnefna ungliða sinna eða hópa sem birtu auglýsingar í þeirra þágu með lítt dulbúnum og jafnvel frekar árásargjörnum áróðri fyrir kosningar og nú í sumar. Nei, þá var það í lagi, því andstæðingurinn er skotmark sem í lagi er að beita nafnlausu níði gegn. Það er nefnilega munur á því að vera nafnlausi Jón eða Háaleitis-Jón þegar kemur að persónulegu skítkasti.
- Viðskiptamennirnir sem settu landið á hausinn grenja nú undan umræðunni, heimta lockdown" á slíkt því það á ekki að líðast að þeir sem borga skaðann eftir þá fái að tala um gjörðir þeirra. Við bætist að viðskiptamenn vilja að sjálfsögðu stjórna algjörlega umræðunni um sitt fyrirtæki eða útrásarvíkinganna sem eiga fyrirtækin en kveinka sér undan neikvæðri umræðu, umræðu sem þeir geta ekki stjórnað og tengist oft á tíðum hvernig þeir haga sér. Nei, hegðun þeirra er alltaf til fyrirmyndar enda eru það bara eðlileg viðskipti að ræna fólk ævisparnaðinum og setja heila þjóð á hausinn.
- Blessaðir fjölmiðlarnir sem þegja margir hverju þunnu hljóði yfir því að FME gangi harkalega fram til að þagga niðri í þeirra stétt fyrir að kjafta frá glæpum eigenda fjölmiðlanna. Nei, þá er betra að vera hlýðinn og þægur hvutti, styggja ekki eigendur og stjórnarmenn sem eiga fjárhagslega hagsmuni undir t.d. brunaútsölu á orkuveitum.
Þó er kannski hræsni fjölmiðlageirans mest pirrandi því þar stíga fram sjálfumglaðir fjölmiðlamenn sem riddarar réttlætisins gagnvart nafnlausum netverjum og setja sig á háan stall en gæta sín ekki að þeir standa á klettabrún tvískinnungsins. Tvískinnungsins sem felst í nafnlausum áróðurs og árásardálka sem kallast Staksteinar eða Fuglahvísl, nafnlausar ritstjórnagreinar og kjallaragreinar Svarthöfða og Velvakanda. Ekki sjá þeir neitt að allskonar slíkum meinfýsnum og jafnvel skítlegum dálkum því eins og fuglar AMX sem hvísla hvað meinfýsilegast, þá horfa þeir bara með augum ránfuglsins illa og hlæja illlýsislega líkt og hýenur viðskiptalífsins sem þeir þjóna.
Nei, það sem fer fyrir brjóstið á þessum þremur vandlætingarhópum er fyrst og fremst að allt sé ekki eins og það á að vera, að umræðan sé stjórnuð að hætti hins gamla Íslands þar sem stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn sitja eins og þægir seppar við matardallinn frá húsbændum sínum úr yfirstéttinni, í þeirri von um að fá að pissa á gullskreyttu klósetti húsbóndans einn daginn. Þeirra gremja er fyrst og fremst ein, að almenningur hafi skoðanir, að almenningur sé hættur að skilja að hans hlutverk sem hálfmenni þrælastéttar sé að halda kjafti, borga skuldir yfirstéttarinnar og vera niðurlægð fótþurrka valdsins um ókomna tíð.
Og hvað þá með bloggara marga sem koma fram undir nafni? Margir þeirra öskra og æpa um hryðjuverkamenn, asna, fávita geðveiki, föðurlandsvik og fleira í þeim dúr undir nafni, oft á tíðum með helbláan fálkann sitjandi á öxlinni, sama fálka og hefur rifið landið á hol og kjamsar nú á vænum kjötbita rifnum úr holdi almennings. Margir þeirra eru engu betri en verstu nafnleysingjarnir, flokksdindlar til hægri og vinstri sem jarma möntruna sem kokkuð er upp á flokkskrifstofum, en hneykslast nú á þeim sem skrifa nafnlaust, nafnleysingjum sem skrifa jafnvel mun betra og fágaðra en heimskuleg níðskrif margra nafngreindra fréttabloggara eru. Margir nafnleysingjana skrifa betri orðræðu, skila skýrari hugsunum og fallegra máli en fréttabloggarinn illræmdi, margir þeirra rökræða og það er aðeins háttur þess sem er komin í rökræðulegt gjaldþrot að byrja að tala um að fólk sé ekki marktækt í skrifum ef það sé nafnlaust.
Að lokum að þegar litið er yfir sviðið og nafnleysingjarnir eru skoðaðir í samanburði við þá nafngreindu, þá kemur oft í ljóst að fámennur hópur nafnleysingja er með níðið en þeir sem raunverulega eru verstir eru innantómir fréttabloggarar og heimskuleg skrif nafngreindra kjaftaska sem geysast fram með svívirðingum um allt og alla sem varla er samhengi í. Níðskrifin ógeðfelldu sem gagnrýnd eru nú blikna oft í samanburði við níðskrif hinna nafngreindu og nafnlausu sem þóttu flott og fín af þeim þríhöfða þurs valdsins áður á meðan það beindist gegn mótmælendum síðastliðinn vetur eða öðrum þeim sem "gamla Ísland" taldi óvin sinn.
Þó eru nafnleysingjarnir svínslegu eða orðljótustu nafngreindu netverjarnir ekki mesta hættan við lýðræðislega umræðu eða svartasti bletturinn á henni því þá er alltaf hægt að hundsa. Nei, þeir sem eru svarti bletturinn og ógn við málefnalegar umræður og lýðræðislegar rökræður, eru flokksdindlarnir og leiguþý auðmanna sem geysist um víðan völl í vernd fyrir húsbændur sína með heimtingum um ritskoðun og þöggun á þeim sem ekki hafa réttar" skoðanir.
Þeir eru nefnilega fulltrúar hins gamla, spillta Íslands sem vill ná völdum á ný.
30.8.2009
Lýðræðisleg rökræða og gagnrýnin hugsun
Ég sé að orð mín í síðustu færslu um að þjóðin sé kannski ekki nógu þroskuð og skynsöm til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu hafa farið fyrir brjóstið á einhverjum. En setjið þau í samhengi við það sem ég segi aðeins seinna um hvernig ástatt er fyrir þjóðarsálinni. Þessi hugleiðing mín á ekkert skylt við "þið eruð ekki þjóðin" né heldur vil ég gera lítið úr lýðræðinu. Langt í frá. Ég bíð spennt eftir efndum um stjórnlagaþing, nýja stjórnarskrá og virkara lýðræði.
Ég veit ekki hvort ég get útskýrt almennilega hvað ég á við og þar spilar ýmislegt inn í. Ég heyrði sagt eða datt sjálfri í hug um daginn að "þar sem tveir Íslendingar koma saman, þar er ágreiningur". Gott og vel - við erum fólk með miklar og sterkar skoðanir. En hvaðan koma þessar skoðanir? Hafa þær mótast og styrkst í framhaldi af upplýsingum og rökræðum? Hafa þær myndast í framhaldi af öflugum fréttaflutningi, góðum upplýsingum og útskýringum á flóknum fyrirbærum svo allir skilji? Höfum við þær skoðanir af því einhver einstaklingur eða hópur sem við tilheyrum hefur þær? Höfum við mótað skoðanir okkar út frá eigin hagsmunum, flokkshagsmunum eða samfélagslegum hagsmunum? Höfum við þessar skoðanir af því einhver leiðtogi sem við dýrkum sagði okkur að hafa þær? Höfum við þær "bara af því bara"? Fleiri möguleika mætti eflaust tíunda.
Umræðan í þjóðfélaginu hefur ekki verið beysin undanfarin ár og áratugi. Það vita allir sem vilja vita. Hér hefur ríkt þöggun, bæði meðal almennings og fjölmiðla. Ekki mátti fjalla um viss mál af því valdhöfum hugnaðist það ekki. Ekki mátti segja sannleikann um viss mál af því eigendum fjölmiðla þóknaðist það ekki. Fólki var (og er?) refsað harkalega ef það sagði eitthvað sem kom stjórnvöldum (yfirmönnum, flokki o.s.frv.) illa eða gekk gegn stefnu þeirra. Hér var hræðsluþjóðfélag og enn eimir töluvert eftir af því. Netmiðlar og blogg hafa þó opnað umræðuna mjög og upplýsingastreymið er orðið meira og hraðara en nokkru sinni. Vonandi til frambúðar.
Það eru einkum skoðanakannanir og niðurstöður þeirra undanfarið sem hafa valdið mér heilabrotum. Og reyndar líka að hluta úrslit kosninganna í vor. Ég hélt fyrir kosningar að nokkuð ljóst væri hverjir og hvað olli hruninu. Engu að síður fengu "hrunflokkarnir" ótrúlega mikið fylgi þótt ekki hafi þeir náð meirihluta. Fjölmargir kjósendur virðast halda með "sínum flokki" eins og fótboltaliði - gjörsamlega burtséð frá því hvaða stefnu flokkurinn hefur, hverjir eru þar í forystu, hvaða fortíð bæði menn og málefni hafa og hvaða framtíð þeir sjá fyrir sér. Ég hef þekkt fólk árum og áratugum saman sem kýs sinn flokk jafnvel þótt það sé hundóánægt bæði með fólkið og stefnuna. En að kjósa hann ekki væru einhvers konar drottinsvik. Þetta skelfir mig.
Það er þetta allt sem ég á við þegar ég tala um að þjóðin sé ekki nógu þroskuð og skynsöm til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um mál eins og t.d. Icesave. Það er svo stórt og flókið og afleiðingar þess - hvort sem um er að ræða að hafna samningnum eða samþykkja hann - eru svo gríðarlegar að ég leyfi mér að efast um að við gerum okkur almennt grein fyrir því. Erum við nógu upplýst um lagatæknileg atriði, alþjóðasamninga, EES-vinkilinn og ýmsar aðrar hliðar samningsins til að taka afstöðu? Hverjir hafa verið mest áberandi í umræðunni og hvaða hagsmuni hafa þeir aðilar haft að leiðarljósi? Eiginhagsmuni, flokkshagsmuni eða afdrif íslensks samfélags? Hvernig stendur á því að þeir sem upphaflega skrifuðu upp á ábyrgðina hafna henni nú? Flokkspólitískar skotgrafir og lýðskrum eða einlæg sannfæring? Hverjir hafa verið fremstir í flokki og stýrt umræðunni um Icesave, haft hæst og því kannski náð til flestra? Hvernig er fréttamat fjölmiðla og hverjir hafa náð eyrum þeirra - og þar með þjóðarinnar? Maður spyr sig...
Ísland er ungt lýðveldi og fróðir menn segja að hér hafi lýðræðisleg rökræða og gagnrýnin hugsun aldrei fengið að þroskast sem skyldi. Flokkspólitískir- og eiginhagsmunir "elítunnar" og peningaaflanna hafi ráðið mestu um þróun umræðunnar og enn eru þeir hagsmunir firnasterkir. En fólk er farið að sjá þetta og skynja. Umræðan í vetur hefur borið þess merki. Æ fleiri hafa fengið tækifæri til að taka þátt í umræðu um aðskiljanlegustu mál, einkum í gegnum bloggið og netmiðlana. En stundum er þó ansi stutt í upphrópanir, ofstæki, flokkspólitíska sleggjudóma og rökþrot. Sumir halda því fram að þeir sem ekki eru hagfræðimenntaðir eigi ekki að tjá sig um eða hafa skoðanir á efnahagsmálum eins og hér sést. Þetta er dæmi um hættulega skoðanakúgun þar sem þess er krafist að "faglegur bakgrunnur" verði að vera til staðar til að geta tjáð sig um mál af skynsemi og gert lítið úr skoðunum þeirra sem ekki hafa þann bakgrunn. Ég er ekki hagfræðingur, stjórnmálafræðingur eða guðfræðingur og hef ekki faglegan bakgrunn í þeim fræðum. Má ég þá ekki tjá mig um eða hafa skoðun á efnahagsmálum, stjórnmálum eða trúmálum?
Ef ég ætti að kjósa um Icesave-samninginn í nánustu framtíð væri ég í vandræðum. Þó hef ég fylgst nokkuð vel með umræðunni þótt ég hafi ekki blandað mér í hana. Ég hef ekki ennþá hugmynd um hvað það myndi þýða fyrir framtíð okkar ef ég samþykkti hann - né heldur ef ég hafnaði honum. Á okkur öllum hafa dunið misvísandi upplýsingar og afar ólíkar skoðanir. Og við vitum ekki ennþá hvort allar upplýsingar hafa komið fram - hvort einhverju er enn haldið leyndu. Ennþá, tæpu ári eftir hrunið, erum við sár og reið. Við höfum ekki ennþá séð glitta í réttlæti og nær daglega fáum við fréttir af þjófnaði, misnotkun, spillingu, siðleysi og óréttlæti. Ekki hefur verið hróflað við þeim sem bera ábyrgð á Icesave - eða hruninu yfirleitt. "Af hverju eigum við að gjalda gjörða þeirra," spyrjum við réttilega og reiðin magnast með hverjum deginum. Mér líður a.m.k. þannig og eflaust ansi mörgum.
Við erum þjóð í uppnámi. Að mörgu leyti stöndum við nú í rústum samfélags sem afar okkar og ömmur, langafar og langömmur og aðrir forfeður þræluðu sér út til að byggja upp. Flestum sárnar hvernig farið hefur verið með samfélag sem var að mörgu leyti mjög gott þótt á því hafi verið stórir gallar - en hefði getað orðið enn betra ef öðruvísi hefði verið staðið að málum. Ef annars konar "trúarbrögð" og annað fólk hefði ráðið för. Ef stakkur hefði verið sniðinn eftir vexti. En svo fór sem fór og ég horfi með hryllingi á allt of marga hugsa og framkvæma eins og ekkert hafi í skorist og sjálfsagt sé að halda áfram á sömu braut. Sjáið bara Magma og HS Orku málið.
En kannski á þetta með þroskann og skynsemina aðeins við um sjálfa mig, ekki aðra. Ef ég hef sært einhverja með þessum orðum biðst ég afsökunar. En ég mæli með hlustun á þessi viðtöl hér að neðan til frekari áréttingar meiningum mínum.
Vilhjálmur Árnason í Silfri Egils 9. nóvember 2008
Páll Skúlason hjá Evu Maríu á RÚV 28. desember 2008
Viðtal við Vilhjálm Árnason á kosningavef RÚV í byrjun apríl
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
17.8.2009
Ísland getur ekki borgað
"Þjóðir spyrja ekki bara hvort greiða eigi skuldir, heldur líka - eins og á Íslandi - hvort hægt sé að greiða þær. Ef það er ekki hægt, þá leiðir tilraun til að greiða þær einungis til frekari efnahagssamdráttar og hindrar lífvænlega þróun hagkerfisins." Þetta segir Michael Hudson meðal annars í grein sem birtist í Financial Times og Global Research í dag og mikið hefur verið fjallað um í íslenskum fjölmiðlum. Eins og allir vita er enn ekki ljóst hvernig Bretar og Hollendingar taka fyrirvörum við Icesave-samninginn.
Ísland og Lettland geta ekki borgað, og borga því ekki
eftir Michael Hudson í þýðingu Gunnars Tómassonar
Geta Ísland og Lettland greitt erlendar skuldir fámenns hóps einkavina valdhafa?
Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa sagt þeim að umbreyta einkaskuldum í opinberar skuldbindingar og endurgreiða þær með hækkun skatta, niðurskurði ríkisútgjalda og eyðingu sparifjár almennings.
Reiði fer vaxandi ekki einungis í garð þeirra sem söfnuðu skuldunum - Kaupþing og Landsbanki í gegnum Icesave og einkaaðilar í löndunum við Eystrasalt og í mið-Evrópu sem veðsettu fasteignir og einkavæddar ríkiseignir langt úr hófi fram - heldur líka gagnvart erlendum lánardrottnum sem þrýstu á stjórnvöld að selja banka og aðra helztu innviði hagkerfa til innherja.
Stuðningur við aðildarumsókn Íslands að ESB hefur minnkað í um þriðjung þjóðarinnar og Harmony Center flokkurinn, sem studdur er af stórum hluta rússnesku-mælandi Letta, hefur náð meirihluta í Riga og stefnir í að verða vinsælasti flokkurinn á landsvísu. Í báðum tilfellum hafa mótmæli almennings skapað vaxandi þrýsting á stjórnmálamenn að takmarka skuldabyrði við eðlilega greiðslugetu landanna.
Um helgina skipti þessi þrýstingur sköpum á Alþingi Íslendinga. Þar varð samkomulag, sem kann að verða frágengið í dag, um skilyrði fyrir verulegum endurgreiðslum til Bretlands og Hollands vegna útborgana þeirra á innistæðum þarlendra eigenda Icesave reikninga.
Mér vitanlega er þetta fyrsta samkomulagið frá þriðja áratug síðustu aldar sem takmarkar afborganir af skuldum við greiðslugetu viðkomandi lands. Greiðslur Íslands takmarkast við 6% af vexti vergrar landsframleiðslu miðað við 2008. Ef aðgerðir lánardrottna keyra íslenzka hagkerfið niður með óvægnum niðurskurði ríkisútgjalda og skuldaviðjar kynda undir frekari fólksflutninga úr landi, þá verður hagvöxtur enginn og lánardrottnar fá ekkert greitt.
Svipað vandamál kom til umræðu fyrir liðlega 80 árum vegna skaðabótagreiðslna Þýzkalands vegna fyrri heimsstyrjaldar. En margir stjórnmálamenn átta sig enn ekki á því að eitt er að merja út afgang á fjárlögum og annað að geta greitt erlendar skuldir. Hver sem skattheimta stjórnvalda kann að vera þá er vandinn sá að breyta skatttekjum í erlendan gjaldeyri. Eins og John Maynard Keynes útskýrði, ef skuldsett lönd geta ekki aukið útflutning sinn verða greiðslur þeirra að byggjast á lántökum eða eignasölu. Ísland hefur núna hafnað slíkum eyðileggjandi valkostum.
Greiðslugetu hagkerfis í gjaldeyri er takmörk sett. Hærri skattar þýða ekki að stjórnvöld geti umbreytt auknum skatttekjum í erlendan gjaldeyri. Þessi staðreynd endurspeglast í afstöðu Íslands gagnvart Icesave skuldum, sem áætlað er að nemi helmingi af vergri landsframleiðslu þess. Með þessari afstöðu sinni mun Ísland væntanlega leiða önnur hagkerfi í pendúlssveiflu frá þeirri hugmyndafræði sem telur endurgreiðslu allra skulda vera helga skyldu.
Fyrir hagkerfi landa sem losnuðu undan stjórn Sovétríkjanna felst vandinn í því að vonir brugðust um að sjálfstæði 1991 hefði í för með sér vestræn lífsgæði. Þessi lönd jafnt sem Ísland eru enn háð innflutningi. Hnattræna eignabólan fjármagnaði hallann á viðskiptajöfnuði - lántökur í erlendri mynt gegn veði í eignum sem voru skuldlausar þegar löndin urðu sjálfstæð. Nú er bólan sprungin og komið að skuldadögum. Lán streyma ekki lengur til Eystrasaltslanda frá sænskum bönkum, til Ungverjalands frá austurrískum bönkum, eða til Íslands frá Bretlandi og Hollandi. Atvinnuleysi eykst og stjórnvöld skera niður útgjöld til heilbrigðis- og menntamála. Í kjölfarið fer efnahagslegur samdráttur og meðfylgjandi neikvæð eignastaða fjölda fyrirtækja og heimila.
Óvægnar niðurskurðaráætlanir voru algengar í löndum þriðja heims frá 8. til 10. áratugar síðustu aldar, en evrópsk lýðræðisríki hafa takmarkað þolgæði gagnvart slíku verklagi. Eins og málum er nú háttað eru fjölskyldur að missa húsnæði sitt og fólksflutningar úr landi eru vaxandi. Þetta voru ekki fyrirheit nýfrjálshyggjunnar.
Þjóðir spyrja ekki bara hvort greiða eigi skuldir, heldur líka - eins og á Íslandi - hvort hægt sé að greiða þær. Ef það er ekki hægt, þá leiðir tilraun til að greiða þær einungis til frekari efnahagssamdráttar og hindrar lífvænlega þróun hagkerfisins.
Munu Bretland og Holland samþykkja skilyrði Íslands? Keynes varaði við því að tilraun til að knýja fram erlenda skuldagreiðslu umfram greiðslugetu krefðist stjórnarfars á sviði fjárlaga og fjármála sem er þjakandi og óvægið og gæti hvatt til þjóðernissinnaðra viðbragða til að losna undan skuldakröfum erlendra þjóða. Þetta gerðist á þriðja áratug 20. aldar þegar þýzka hagkerfið var kollkeyrt af harðri hugmyndafræði um ósnertanleika skulda.
Málið varðar praktíska meginreglu: skuld sem er ekki hægt að greiða verður ekki greidd. Spurningin er einungis hvernig slíkar skuldir verða ekki greiddar. Verða þær afskrifaðar að miklu leyti? Eða verður Íslandi, Lettlandi og öðrum skuldsettum löndum steypt í örbirgð til að merja út afgang í tilraun til að komast hjá vanskilum?
Síðarnefndi valkosturinn getur knúið skuldsett lönd til stefnubreytingar. Eva Joly, franski saksóknarinn sem aðstoðar við rannsókn á íslenzka bankahruninu, hefur varað við því að svo gæti farið að Ísland stæði uppi með náttúruauðlindir og mikilvæga staðsetningu sína: Rússlandi gæti til dæmis fundist það áhugavert." Kjósendur í löndum sem losnuðu undan stjórn Sovétríkjanna gerast æ meira afhuga Evrópu vegna eyðileggjandi hagstjórnarstefnu sem nýtur stuðnings ESB.
Eitthvað verður undan að láta. Mun ósveigjanleg hugmyndafræði víkja fyrir efnahagslegum staðreyndum, eða fer það á hinn veginn?
Höfundur er hagfræðiprófessor við University of Missouri
Rifjum upp viðtal Egils Helgasonar við Michael Hudson í Silfrinu 4. apríl 2009
Hudson svaraði spurningum í beinni hér á síðunni í vor. Samantekt má sjá hér og spurningar og svör í íslenskri þýðingu hér.
Fréttir RÚV í kvöld, 17. ágúst 2009
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.8.2009
Blekkingavefur - viðvaranir hunsaðar
Það er fróðlegt að grúska og rifja upp hvað sagt var fyrir hrun. Hvernig fólk upplifði það sem var að gerast og hver sagði hvað. Við megum ekki gleyma þessu. Hér eru þrú dæmi. Hvers vegna í ósköpunum var öllum viðvörunum vísað á bug, ekkert gert og almenningi talin trú um að allt væri í lagi? Yfirvöld vissu vel í hvað stefndi og höfðu haft nægan tíma til að bregðast við. Þess í stað var gefið í, ferðast um heiminn og logið til um bankana og efnahaginn á Íslandi. Ef marka má það sem Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir í nýútkominni bók sinni voru íslensku bankarnir dauðadæmdir í árslok 2007. Skömmu eftir útsendingu efsta viðtalsins var Icesave í Hollandi opnað.
Botninum náð - Stöð 2, RÚV og Geir Haarde í Kastljósi 1. apríl 2008
Jón Steinsson, hagfræðingur, í Kastljósi 18. ágúst 2008
Björn Ingi Hrafnsson og Vilhjálmur Bjarnason í Kastljósi 15. september 2008
Ég minni líka á fróðlega, samanklippta umfjöllun um efnahagsmál frá janúar til mars 2008 sem ég birti hér. Þar kemur aldeilis ýmislegt fram sem er áhugavert, ekki síst í ljósi þess sem Ásgeir Jónsson fullyrðir nú í bók sinni og vísað er í hér að ofan.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þetta er titill á pistli þar sem sem Egill Helga birtir bréf frá ónefndum manni. Ég tek ekki undir allt sem í honum stendur, en fannst hann þess virði að fá leyfi til birtingar hér líka. Einkum vegna Nóna Sæs, litla drengsins sem örkumlaðist í bílslysi þar sem litla systir hans lést. Lagatæknilegt réttlæti íslenskra dómstóla hefur dæmt Nóna Sæ til ævilangrar fátæktar á meðan bankaræningjar Íslands baða sig í illa fengnu fé og þurfa ekki að hafa fjárhagsáhyggjur á meðan þeir tóra. Banamaður systur Nóna Sæs og sá sem örkumlaði hann slapp með ótrúlega vægan dóm miðað við alvarleika brota hans. Löglegt? Eflaust. Óréttlátt og siðlaust? Hvort það er!
Saga Nóna Sæs - Kastljós 19. febrúar 2009
"Annars vegar var að kennslan í Lagadeild HÍ var fyrir neðan allar hellur. Þar voru nokkrir æviráðnir gjörsamlega óhæfir prófessorar sem ýmist kunnu ekkert í lögfræði eða höfðu tileinkað sér það sem ég kýs að kalla tæknilögfræði. Hún gengur út á það að lögfræði hafi ekkert með réttlæti eða sanngirni að gera, heldir sé eingöngu að skilgreina lagatexta tæknilega og þá helst reyna að finna einhverja formgalla á máli. Það eru einmitt fylgismenn þessarar lagatækni sem hefur snjóað inní Hæstarétt undir dómsmálaráðherraforystu Sjálfstæðisflokksins. Fyrir vikið er oft nánast útilokað að fá barnaníðinga dæmda og endalaust verið að vísa málum frá eða senda þau aftur í héraðsdóm. Og þess vegna slapp t.d. Jón Ásgeir að mestu í Baugsmálinu.
Fyrir íslenskum dómstólum skiptir réttlæti engu máli. Lögfræðin á Íslandi hefur umhverfst í einhverja undarlega lagatækni, sem oft virðist á skjön við réttlætistilfinningu þjóðarinnar. Þessu þarf að breyta. Það þarf að endurmanna lagadeildir Háskólanna sem eru fullar af lagatæknifræðingum og lærisveinum þeirra. Því miður eru engar horfur á að slíkar breytingar verði í bráð.
Hins vegar eru Alþingismenn eins og fífl gagnvart dómsvaldinu. Setja því afskaplega undarlegar leikreglur. Sá fáránleiki birtist m.a. í því að lögin (og dómaframkvæmd) eru þannig úr garði gerð að menn sem ganga í skrokk á öðrum með misþyrmingum, fá álíka eða jafnvel miklu vægari dóm heldur en menn sem flytja til landsins fíkniefni. Vissulega eru afleiðingar fíkniefna oft andstyggilegar en lógíkin þarna er vandséð. Sennilega væri miklu nær að þyngja dóma í líkamsárármálum o.þ.h., en lögleiða væg fíkniefni; þar með myndi eftirspurn eftir sterkari efnum hrynja og ríkisvaldið hefði góða yfirsýn yfir fíkniefnasöluna rétt eins og áfengissölu. Þess í stað er búið að koma hér á kerfi þar sem fíkniefnasmyglarar fá álíka dóma - eða jafnvel þyngri dóma - heldur en þeir sem nauðga ungum stúlkum eða drengjum og eyðileggja sálarlíf manneskju til allrar framtíðar.
Svo er líka alveg makalaust hvaða fyrirkomulag hefur myndast hér þegar líkamstjón eða miski er metin til fjár. Í huga íslenskra dómara og íslenskra alþingismanna, sem hafa það hlutverk að setja landinu lög og stjórnarskrá, virðist sem mannslífið sé afskaplega lítils virði. Ég bara nenni ekki að fara að ræða þau málefni; þá fer ég að öskra af reiði. Verð þó að nefna hvernig Alþingi, fyrir þrábeiðni tryggingafélaganna, ákvað að dæma öll íslensk börn sem lenda í örkumlum til ævilangrar fátæktar. Þessu voru reyndar gerð athyglisverð skil í Kastljósinu síðasta vetur, þar sem rætt var við föður drengs, sem var farþegi í bíl sem brjálæðingur ók á með þeim afleiðingum að drengurinn lamaðist og systir hans lést. Svo sitja þessi aumingjar niðri á þingi, bora í nefið og samþykkja lög sem draga stórkostlega úr þeim bótum sem barnið ella fengi og viðmiðunin er að barnið hefði hvort sem er alltaf bara orðið láglaunaplebbi og eigi alls ekki neitt annað skilið en að veslast upp lamað í fátækt.
Þetta er svo ömurlegt að það nær ekki nokkurri átt. En vart nokkur starfandi lögmaður virðist hafa sérstakan áhuga á að þessu verði breytt, né alþingismenn. Þetta, eins og svo margt annað, sýnir hversu íslenska þjóðin er dofin og sljó og hversu alþingismenn Íslendinga eru upp til hópa skyni skroppnir bjánar. Enda situr Árni Johnsen á þingi og fólkið kýs hann. Segir kannski allt sem segja þarf?
Íslenskar lagavenjur eins og þær hafa myndast og þróast fyrir tilverknað lagatæknifræðinga og óhæfra alþingismanna eru svo sannarlega eitthvert sorglegasta fyrirbæri sem hér hefur orðið."
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.8.2009
Spegill, spegill herm þú mér...
Ætli það sé ekki best að skella inn síðasta Morgunvaktarpistli áður en þeim næsta verður útvarpað í fyrramálið. Svo mikið hefur gengið á að ég var satt að segja búin að steingleyma pistlinum - en var minnt á hann í dag. Það er þetta með orðhengilsháttinn og tittlingaskítinn... Hljóðskrá fylgir neðst í færslunni.
Ágætu hlustendur...
Ég býst við að flestir eigi spegil og líti í hann endrum og eins. Sumir með aðdáun og ánægju, aðrir með hryllingi og jafnvel skömm. En hvað sjáum við þegar við horfum í spegil? Sjáum við aðeins umbúðirnar - útlitið? Eða eru einhverjir svo hugaðir að þeir þori að kafa dýpra, skoða sálina og spyrja: "Hver er ég?"
Skömmu fyrir hrun las ég pistil eftir Bergþóru Jónsdóttur, blaðamann á Mogganum. Ég klippti hann út, birti á blogginu mínu og endurbirti hann seinna. Bergþóra þorði nefnilega að kafa dýpra og skoða sálina - og það þjóðarsálina. Hún segir meðal annars þetta:
"Íslenska þjóðin er skrýtin skepna. Hún veður áfram í dugnaði; er framsækin, menntuð, nútímaleg, tæknivædd og vinnusöm. Í útlöndum heyrir maður að Íslendingar séu eftirsóttir í vinnu, og það finnst íslensku þjóðinni gott að heyra - eins og allt annað hrós um sjálfa sig.
Það er stutt í pirringinn ef Íslendingurinn er ekki bestur í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Íslenska þjóðin stærir sig af landinu sínu; blámanum, hreina vatninu og náttúrufegurðinni, fiskinum og lambinu og öllum framkvæmdunum sem fleyta henni í röð mest velmegandi þjóða heims.
Samt er eitthvað að.
Íslendingar eiga erfitt með að tjá sig og andmæla sjaldan þegar yfir þá er vaðið. Þeir lúffa fyrir valdinu og þora ekki eða nenna ekki að hafa sig í frammi þegar þeim er innst inni misboðið. Þeir trúa því að glæpur sé ekki glæpur - segi valdið það. Þeir gapa af undrun þegar einkabankarnir fá óvart gefin listaverkin þeirra - gera samt ekkert. Þeir hneykslast á dómum í dómskerfinu en hafa ekki döngun í sér til að þrýsta á um breytingar. Þeir hafa ekki neytendavitund, láta okur og óréttmæta viðskiptahætti yfir sig ganga. Þeir bölva, en eru fljótir að gleyma. Þeir agnúast út í stjórnvöld en kjósa sífellt annað eins yfir sig aftur."
Svo mælti Bergþóra. Mér hefur oft orðið hugsað til orða hennar í vetur, nú síðast þegar birtar voru niðurstöður úr skoðanakönnun sem sýndu, að sá flokkur sem ber langmesta ábyrgð á hruninu hafði bætt við sig fylgi. "Hvað er að?" spurði ég sjálfa mig, en fátt varð um svör. Er svona auðvelt að sannfæra Íslendinga? Láta þá kyssa vöndinn, þakka fyrir hýðinguna og biðja um meira.
Hvers vegna getum við ekki rætt málin af skynsemi og yfirvegun og komist að sameiginlegri niðurstöðu með hagsmuni allrar þjóðarinnar í huga, ekki aðeins útvaldra sérhagsmuna? Hvar er samfélagsvitund Íslendinga; meðvitundin um að við búum í samfélagi þar sem okkur ber að hlýða reglum og taka tillit til náungans? Var þeirri vitund útrýmt af skefjalausum heilaþvotti nýfrjálshyggjunnar um að hver væri sjálfum sér næstur? Hvernig stendur á að sumir alþingismenn nota ræðustól Alþingis til að gjamma eins og unglingar í ræðukeppni í grímulausri sérhagsmunagæslu í stað þess að leysa risavaxin vandamál þjóðarinnar í sameiningu?
Í Innansveitarkróníku sagði Halldór Laxness: "Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls."
Þetta er skrifað fyrir 40 árum og ekkert hefur breyst. Er ekki kominn tími til að leggja orðhengilsháttinn og tittlingaskítinn á hilluna, líta í spegil og endurskoða þjóðarsálina?
En við skulum byrja á okkur sjálfum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.8.2009
Bretarnir rannsaka málin
Kastljósið er komið úr fríinu og var fullt af allskonar efni. Ég hjó sérstaklega eftir þessum búti úr viðtalinu við Rowenu Mason, blaðakonu hjá Daily Telegraph.
Svo birtist þetta á vef blaðsins fyrr í kvöld. Efnahagsbrotadeild Breta, Serious Fraud Office (SFO) er að rannsaka íslensku bankana og Kaupþingslekinn veldur því að deildin ætlar að gefa í.
Efnahagsbrot eru litin alvarlegri augum í Bretlandi en á Íslandi eins og hefur komið margoft fram í pistlum Sigrúnar Davíðsdóttur - t.d. þessum. Svo er ekki úr vegi að lesa (og hlusta á) þennan pistil Sigrúnar þar sem hún fjallar einmitt um SFO og segir frá fjársvikum Allen Stanford. Í lánabók Kaupþings er annar Stanford, Kevin, stór þánþegi Kaupþings í Lúx. Kevin þessi Stanford er annar stofnenda Karen Millen verslanakeðjunnar og tengist því Baugi og Jóni Ásgeiri a.m.k. í þeim bransa.
Dægurmál | Breytt 5.8.2009 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.8.2009
Að ræna banka og rýja þjóð
"Bankaránið" í Kaupþingi er orðið eitt þekktasta mál hrunsins, þökk sé lögbannskröfu Nýja Kaupþings og skilanefndar þess gamla á fréttaflutning RÚV. Vonandi láta aðrir bankar - og útrásarauðmenn - þetta mál sér að kenningu verða. Hin svæsna lánabók Kaupþings er líklega orðin ein mest lesna bók ársins, a.m.k. sú víðlesnasta, enda á alþjóðlegu tungumáli.
Ég minnist þess ekki að hafa orðið vör við eins mikla samstöðu meðal almennings út af neinu máli - ef frá er talin gríðarleg ánægja með grein Evu Joly sem birtist í íslenskum og erlendum blöðum. Allir lögðust á eitt við að birta slóðir og upplýsingar á bloggi, Facebook, Twitter og víðar. Og senda slóðirnar til erlendra fjölmiðla og skrifa um málið á ýmsum tungum. Enda hefur fiskisagan flogið hraðar og víðar en aðrar sögur, sem betur fer. Svona á að gera þetta, gott fólk! Sameinuð sigrum við. Og Kaupþing dró í land, enda ekki stætt á öðru.
Þegar ég sá forsíðu þýsku útgáfu Financial Times með fyrirsögninni "Eigendur rændu Kaupþing" varð mér hugsað til Williams Black, sem heimsótti Ísland í maí sl. Ég birti viðtal við hann úr bandarískum fjölmiðli hér sem eins konar inngang að viðtali Egils við hann í Silfrinu. William Black skrifaði nefnilega bók sem heitir "Besta leiðin til að ræna banka er að eiga hann". Við vitum nú að það er hverju orði sannara.
Mér finnst ekki úr vegi að minna á viðtalið við William Black eftir hremmingar og uppljóstranir síðustu daga og vikur. Hér er hann hjá Agli í Silfrinu 10. maí sl. Nú ættu allir að geta tengt það sem Black segir við Kaupþingsatburðina undanfarna daga og verið viðbúnir birtingu lánabóka hinna bankanna.
Hér er stutt frétt RÚV sama kvöld um viðtalið í Silfrinu.
Black hélt síðan fyrirlestur í Háskóla Íslands daginn eftir. Ég fékk upptöku af honum hjá Viðskiptadeild HÍ - en hef ekki birt hana áður. Yfirskrift fyrirlestrarins var "Why economists must embrace the "F" word" og vísar F-ið í orðið Fraud, eða (fjár)svik. Sökum lengdar skipti ég upptökunni í tvennt.
William Black - fyrirlestur á vegum Viðskiptadeildar HÍ - 11. maí 2009
Fyrri hluti
Seinni hluti
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)