Færsluflokkur: Dægurmál
31.7.2008
Miðborgarrölt í hitasvækju
Ég fattaði fyrir löngu af hverju ég valdi að fæðast á Íslandi... ja, sumir segja að maður velji sér foreldra og fæðingarstað, hvað svo sem til er í því. Ástæðan hlýtur að vera sú að ég þoli ekki hita. Um leið og hitastigið er komið yfir 20 gráður verður mér ómótt, ég verð máttlaus, finnst ég ekki geta andað og heilastarfsemin hrynur. Sellurnar bráðna líklega. Þetta er ekki þægilegt. Maður getur þó klætt af sér fjárans kuldann.
Mér var of heitt í gær og ég fann fyrir verulegri vanlíðan og heiladoða. Ég gat ekki með nokkru móti unnið og viftan sem ég hef alltaf í gangi í vinnuherberginu gerði ekkert gagn. Það endaði með því að ég fór út og tók Kötlu hvolp með mér. Katla er Vestfirðingur, alsystir Skutuls, flutti til mín 4. júlí og er að venjast borgarlífinu. Ég hélt að kannski yrði auðveldara að anda úti. Það reyndist tálvon.
Ég kippti myndavélinni með og tók nokkrar myndir af því sem á vegi mínum varð í hverfinu mínu, miðbænum.
Það er mikið rætt um nýjan Listaháskóla og hve illa byggingin passar inn í götumyndina við Laugaveg. Hér er slíkt dæmi sem er langt komið - skrímslið á bak við Naustið við Vesturgötuna. Ég mun aldrei skilja af hverju þetta var leyft.
Þegar búið var að rífa kofaskriflin sem voru á bak við Naustið kom í ljós einstaklega falleg bakhlið sem ég vonaði að fengi að vera í friði. En svona lítur svo bakhlið nýbyggingarinnar út - norðurhliðin Tryggvagötumegin, og felur hina fallegu bakhlið Naustsins. Mikið er Reykjavík að verða grá, svört og glerjuð. Allur sjarmi að hverfa.
Hann Hjálmtýr V. Heiðdal sendi mér nokkrar myndir sem hann tók af bakhlið Naustsins sem ég minnist á að ofan. Hér sést svo greinilega hvað hún er skemmtileg - með kvistum, kýraugum og ég sé ekki betur en að grunnar allra húsanna séu hlaðnir. Er þetta nú ekki fallegri sjón og betur við hæfi í þessum borgarhluta en svarta báknið í myndinni á undan?
Við gerðum okkur ferð inn í Alþingisgarðinn. Hann er mjög gróinn og fallegur, algjör vin í miðbænum. Þar sat einn maður á bekk og las. Á Austurvelli sást hins vegar varla í gras, svo þéttsetið var þar. Inn í garðinn kom svo fólk sem var að leita að bekk í skugga... á Íslandi.
Þetta fólk horfði út um gluggann á Alþingishúsinu í átt að Ráðhúsi Reykjavíkur og hugsaði sjálfsagt sitt í hitasvækjunni.
Öndum og gæsum við Ráðhúsið virtist standa alveg á sama um borgarstjórnarraunir mannfólksins og voru afslappaðar við sólböð undir suðurgluggum hússins.
Hér hefur hjólreiðamaður komið sér vel fyrir á bekk í Fógetagarðinum og fengið sér lúr. Þetta er sjaldgæf sjón í Reykjavík.
Katla gerði sér dælt við hjólabrettastráka á Ingólfstorgi og einn vildi leyfa henni að prófa. Hún þorði ekki og forðaði sér bara í skuggann. Henni var líka heitt.
Í Fischersundi gerði svart villidýr árás úr launsátri á Kötlu. Það var með naumindum að mér tókst að bjarga henni frá klóm fnæsandi, svarta kattarins sem virðist ráða þar ríkjum. Við vorum báðar dauðskelkaðar og ætlum að muna að fara ekki aftur á þessar slóðir.
Við enduðum göngutúrinn á Landakotstúni sem oftar. Þótt Kristskirkja sé falleg bygging finnst mér gamla kirkjan eiginlega fallegri - á sinn hátt.
Að lokum - Katla að spóka sig á Austurvelli.
Dægurmál | Breytt 4.8.2008 kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Hinn þreytti frasi virkjana- og álverssinna um að virkjað sé "í sátt við náttúruna" er alveg einstaklega kaldhæðnislegur. Þeim finnst allt í lagi að stúta náttúrunni og virkja bæði jarðhita og fallvötn - af því það er svo mikið "í sátt við náttúruna". Náttúran er semsagt mjög sátt við að láta leggja sig í rúst. Jæja, já.
Ég hafði ekkert sett mig inn í virkjanamálin í neðri hluta Þjórsár en vitað af umræðunni. Hef haft meira en nóg á minni könnu við að kynna mér og skrifa um virkjanir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu auk þess að fylgjast með umræðunni um fyrirhugaða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Inn á milli reyni ég svo að finna tíma til að vinna fyrir mér.
En mér var boðið austur í síðustu viku til að kynna mér málið svolítið og ég hef eiginlega verið í hálfgerðu sjokki síðan. Ekki vitað hvernig ég ætti að nálgast málið, svo skelfilegt er það. Svo las ég viðtal í Morgunblaðinu á sunnudag við Björn Sigurbjörnsson í Gróanda, Grásteinum í Helgadal. Í viðtalinu segir Björn m.a. frá því þegar faðir hans, sem stundaði garðyrkju í Fossvoginum eða á Bústaðablettinum, var hrakinn frá lífsstarfi sínu af yfirvöldum í Reykjavík, þá 65 ára að aldri. Þetta var árið 1966 og það átti að byggja. Jarðýtur óðu yfir æskuheimili Björns.
Ég sé ekki betur en að svipað sé að gerast við Þjórsá. Þar er valtað yfir bændur og aðra landeigendur, þeir þvingaðir til að samþykkja að landinu þeirra verði drekkt og smánarlegar bætur greiddar af Landsvirkjun, sem hefur her lögfræðinga til að neyða fólk til samninga. Einhverjir bændanna þurfa að hætta búskap um nokkurra ára skeið á meðan framkvæmdir standa yfir en er sagt að þeir geti svo komið aftur og haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Semsagt - hypjaðu þig að heiman og frá lífsviðurværinu, svo geturðu komið aftur þegar við erum búnir að athafna okkur. Hvað á að gera við féð og kýrnar á meðan? Getur bóndi, kannski á efri árum, bara farið sisvona og komið svo aftur seinna og tekið upp þráðinn? Hve mikið af landi hans, túnum og ökrum verður þá komið undir vatn? Eitthvað hljómar þetta nú ólíklega.
Hér er nefnilega ekki verið að tala um virkjanir og uppistöðulón í óbyggðum eins og Kárahnjúka, heldur í byggð - og það fallegri og blómlegri byggð. Þjórsá er lengsta fljót á Íslandi, um 230 km. Það er mun lengri vegalengd en frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal (186 km) og örlítið styttri en frá Reykjavík til Blönduóss (244 km). Nokkrar virkjanir eru í efri hluta Þjórsár, næst hálendinu, en nú er ætlunin að virkja á láglendi - í byggð. Áhrifin ná alla leið suður fyrir þjóðveg nr. 1 þar sem Urriðafoss drynur skammt sunnan við nýju Þjórsárbrúna. Hann mun hverfa.
Hópnum sem ég var í samfloti með var boðið í mat á lífræna búinu í Skaftholti. Hjónin Guðfinnur Jakobsson og Atie Bakker voru höfðingjar heim að sækja og mig langar að koma þangað aftur... og aftur. Eftir matinn komu heimamenn til skrafs yfir kaffisopa og einn af þingmönnum Sunnlendinga, Björgvin G. Sigurðsson (sá sem tók skóflustunguna, munið þið?) mætti og ræddi stuttlega við fólkið áður en hann rauk í burtu aftur. Björgvin kvaðst mótfallinn virkjunum í neðri hluta Þjórsár - en tók engu að síður skóflustungu að álverinu í Helguvík sem mögulega gleypir orkuna sem framleidd verður í þeim virkjunum. Skrýtið.
Ýmislegt kom fram á þessum stutta fundi með heimamönnum og greinilegt að þeir voru mjög ósáttir við framgang Landsvirkjunar og málið allt. Hver vill sjá heimahögunum og lifibrauðinu drekkt með uppistöðulóni? Landsvirkjun hefur auk þess komið þannig fram við fólk að enginn treystir fyrirtækinu eða orðum lögfræðingahers þeirra. Nú þegar hafa þeir gengið á bak orða sinna - af því eitthvað hentar þeim betur en það sem áður var lofað. Traust fyrirtæki?
Sem dæmi um slíkt er fyrirhugað Hagalón. Upphaflega var áætlað að það yrði 114 metra (yfir sjávarmáli) en Landsvirkjun breytti því í 116 af því það hentaði þeim betur. Það munar um tvo metra. Gerir fólk sér grein fyrir hvað 116 metrar eru gríðarlegt dýpi? Snúum þeim yfir á borgarmál. Flestir íbúar höfuðborgarsvæðisins kannast við glerturninn sem reistur hefur verið við Smáratorg í Kópavogi. Hæð hans er 78 metrar. Hallgrímskirkjuturn er 72 metrar. Ef gert er ráð fyrir um 3 metrum á hverja hæð jafnast 116 metra djúpt lón á við 38 hæða íbúðarhús. Það er ekkert smáræði.
Hér er mynd af svæðinu sem drekkt verður fyrir Hagalón. Þarna eru ægifagrar, vel grónar eyjar úti í ánni þar sem búfé hefur aldrei verið beitt svo gróður hefur fengið að vaxa þar óáreittur. Aðeins smábrot af stærstu eyjunni mun standa upp úr lóninu eins og agnarlítið sker því þarna verður lónsdýptin 10-12 metrar (4 hæða hús). Vinstra megin, þar sem birtan hamlar sýn, er Hekla og horft er til suðurs.
Miðað við þær upplýsingar sem fram komu, og þær voru töluverðar, er Þjórsármálið afskaplega flókið og að mörgu að hyggja. Ég þekki ekki nema brotabrot af því - en það brotabrot nægir mér til að ákveða að leggja mitt af mörkum. Ég er ekki nema eitt atkvæði, eitt bréf, ein athugasemd - en við höfum séð nú þegar hverju samtakamátturinn getur áorkað. Íbúar við Þjórsá þurfa hjálp og stuðning okkar hinna. Og eins og segir í auglýsingunni um breytingu á aðalskipulagi Flóahrepps: "Þeir sem ekki gera athugasemdir innan tilskilins frests teljast samþykkir tillögunni". Ég vil alls ekki teljast samþykk tillögunni og skora á alla sem vilja það ekki heldur að senda inn athugasemd. Þetta tekur kannski 10-15 mínútur af lífi ykkar, kostar ferð í pósthús eða póstkassa og eitt frímerki.
Mér skilst að það sé of seint að gera athugasemdir við framkvæmdir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi - norðan þjóðvegarins - en ekki sunnan hans, í Flóahreppi þar sem Urriðafossvirkjun er fyrirhuguð. Tillagan gengur í stórum dráttum út á að heimila virkjun og allt það rask sem henni fylgir. Hér er vefur Flóahrepps og þar getur fólk kynnt sér tillöguna nánar. Hér er Þjórsárvefurinn þar sem hægt er að lesa sér til um málið og framgöngu þess. Hér getur fólk séð uppkast af athugasemd við tillögunni til að senda Flóahreppi. Skriflegum athugasemdum skal skila til Flóahrepps, Þingborg, 801 Selfoss - merkt aðalskipulag - fyrir 1. ágúst 2008. ÞAÐ ER NÆSTA FÖSTUDAG! Nú þarf að hafa hraðar hendur og drífa í þessu.
Ég byrjaði pistilinn á að tala um frasann "að virkja í sátt við náttúruna". Ég hef aldrei heyrt talað um "að virkja í sátt við fólkið í landinu". Aldrei. Er ekki kominn tími til að taka tillit til fólksins í landinu (kjósendanna - atkvæðanna) og ná sáttum við það? Er ekki kominn tími til að spyrja til hvers á að virkja og fyrir hvern áður en ætt er áfram og einstök náttúra Íslands lögð í rúst? Það finnst mér.
Eins og ég sagði fyrr í pistlinum hef ég ekki sett mig nægilega vel inn í Þjórsármálin svo ég á ekki mikið ítarefni um þau. En þetta átti ég - álit Ragnhildar Sigurðardóttur, vistfræðings, um mögulegt hrun laxastofnsins í Þjórsá ef af virkjun verður. Þetta er aðeins ein af mörgum viðvörunum sem komið hafa fram varðandi afleiðingar virkjana í neðri hluta Þjórsár.
Ég átti líka í fórum mínum þessa frétt um kostnað við störf í stóriðju - því auðvitað fer rafmagnið sem framleitt verður í Þjórsá til stóriðju. Stóriðjusinnar sjá ekkert annað, engar aðrar lausnir.
Hér er svo samantekt úr fréttum af moldroki við Hálslón. Þetta er fylgifiskur uppistöðulóna. Viljum við að hin búsældarlegu héruð á Suðurlandi hverfi í þykkan mökk? Hvað segja nágrannasveitarfélögin um það?
Dægurmál | Breytt 9.8.2008 kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
24.7.2008
Er þetta tilviljun eða árangur?
Ég hætti mér ekki út í þær heimspekilegu hugleiðingar hvort eitthvað sé tilviljunum háð eða ekki - hvort tilviljun sé til eða ekki. Engu að síður hvarflar það að mér þegar ég lít um öxl og skoða mál sem ég hef skrifað um og framvindu þeirra. Er þetta tilviljun eða árangur? Blanda af hvoru tveggja? Eða bara hrein og klár slembilukka? Ég hef ekki hugmynd um það.
Ég er ekki svo vitlaus að halda að ég ein geti lyft einhverju grettistaki enda hafa fleiri tjáð sig um málin sem ég tíni til hér að neðan og kannski myndað þrýsting. En ég held aftur á móti að ef fólk hefur skoðanir, rökstyður þær á sannfærandi hátt, kemur þeim á framfæri og stendur saman - þá sé hægt að hafa áhrif. En hver sem skýringin er finnst mér pælingin skemmtileg.
Hvað sem gagnrýnendur bloggsins segja, og þá kannski sérstaklega þeir sem hafa horn í síðu Moggabloggsins, er bloggið orðinn öflugur miðill og góður vettvangur til að vekja athygli á ýmsum málum sem fólki finnst að betur mætti fara eða séu vel gerð. Blogg er ekki bara "...skammir eða raus á fremur illa skrifaðri íslensku..." eins og Víkverji sunnudagsins 29. júní sagði í Morgunblaðinu. Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé á blogginu eins og annars staðar og áhugamál bloggara margvísleg, en það er auðvelt að vinsa úr og finna þá sem maður vill lesa - hvort sem þeir eru skoðanabræður og -systur eður ei.
Sveitarstjórnarkosningar verða eftir tæp tvö ár og við getum búist við að stjórnmálamenn fari að brosa við okkur eftir kannski eitt og hálft. Þá verður gott að geta flett upp í blogginu og hermt upp á þá sitthvað sem hefur bjagast, afbakast eða ekki verið efnt á kjörtímabilinu. Þetta verða fyrstu kosningarnar þar sem þetta verður hægt með þessu móti vegna þess hve margir blogga og blogglestur orðinn almennur. Kannski er liðin tíð að stjórnmálamenn geti treyst á gullfiskaminni kjósenda.
En ég ætlaði að fara í örlitla upprifjun, tína til nokkur mál og vera svolítið sjálfhverf. Margt hefur gerst á stuttum tíma og margir lagt hönd á plóginn. Lítum á málið...
Ég skrifaði m.a. þetta (sjá listann) og þetta og þetta - svo gerðist þetta:
Ég skrifaði þetta og birti myndband. Síðan skrifaði ég þetta og birti annað myndband. Í framhaldi af því gerðist þetta og þá var auðvitað upplagt að gera þetta:
Það er ekki langt síðan ég skrifaði þetta og birti myndbönd með pistlinum. Skömmu seinna kom þetta:
Enn styttra er síðan ég skrifaði þennan pistil og í framhaldinu gerðist þetta:
Eins og ég sagði hér að ofan er ég ekki svo vitlaus að þakka sjálfri mér þetta allt saman. En ef þetta er ekki tilviljun ætti ég kannski að árangurstengja bloggið mitt. Ætli það sé hægt - og þá hvernig?
Dægurmál | Breytt 8.8.2008 kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Þetta var yfirskrift pistils sem ég skrifaði 5. desember sl. og fjallaði m.a. um hina yfirgengilegu peningadýrkun í samfélaginu. Hún kemur fram alls staðar - það er varla til neinn þáttur í umhverfinu sem ekki er smitaður af peningadýrkun sem ég vil frekar kalla græðgisvæðingu.
Í framhaldi af myndbandinu í síðasta pistli varð mér hugsað til þess sem ég skrifaði fyrir tæpum 8 mánuðum - fyrir gengisfall, hrun á verð- og hlutabréfamarkaði, svokallaðan samdrátt og krepputal - en eftir a.m.k. eitt stjörnuhrap. Ég ákvað að endurbirta pistilinn og um leið vara við hugtakinu "fjárfestir" og tengdum orðum - hvort sem sá er innlendur eða erlendur. Fjárfestum fylgir alltaf krafan um hámarkshagnað af viðkomandi fjárfestingu og þar eru hagsmunir almennings aldrei hafðir í huga. Svokölluð samkeppni verður fyrr en varir að fákeppni, verð hækkar og þjónusta versnar. Slíkt virðist vera eðli einkavæðingar þrátt fyrir fögur fyrirheit einkavæðingarsinna um annað.
Í þessu sambandi bendi ég á athugasemdir nr. 1 og 11 við síðasta pistil eftir þá Sævar og Bjarna. Ef þetta er satt sem þeir segja voru óprúttnir menn ansi nálægt því að selja og einkavæða orkuauðlindir okkar. Hrollvekjandi tilhugsun. Verum á verði, vörumst spillta stjórnmálamenn og gráðuga, samviskulausa eiginhagsmunaseggi. Eins og Ásgeir segir í athugasemd nr. 8 við áðurnefndan pistil er það OKKAR að breyta ástandinu með aðhaldi, þrýstingi og atkvæðum okkar.
_________________________________________________
Ég hef lengi furðað mig á fréttamati fjölmiðla hvað varðar peninga og auðmenn. Allt annað í lífinu virðist vera hjóm eitt hjá því hver græðir hve mikið og á hverju, hver hlutabréfavísitalan er eða hvað þær nú heita þessar úrvalsauravísitölur, hvað hefur hækkað og hvað lækkað hverju sinni.
Sérstök innslög eða fréttatímaaukar eru um "markaðinn" eins og t.d. hjá Stöð 2 í kringum hádegið - kl. 12:15 í dag var Markaðurinn hádegi og kl. 12:31 var Hádegisviðtal markaðarins. Síðan var Markaðurinn kl. 18:20.
Bankar og aðrar fjármálastofnanir eru með fréttir oft á dag um hvernig peningamarkaðurinn er að gera sig þá stundina og fréttir af hve margar milljónir, milljónatugir eða milljarðar gengu kaupum og sölum þann daginn tröllríða öllum fréttatímum á öllum fjölmiðlum. Það þótti auk þess tilefni í sérstaka frétt þegar viðskiptaþátturinn Í lok dagsféll niður kl. 16:20 þann 3. des. sl. eins og sjá má hér.
Í gærkvöldi var fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins mannaskipti auðmanna hjá FL Group. Það var þriðja frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fyrsta frétt í sexfréttum Ríkisútvarpsins.
Menn hverfa frá störfum með tugmilljóna starfslokasamninga, sagt er frá þeim nýjasta hér. Þó var maðurinn sagður með 4 milljónir á mánuði á meðan hann gegndi starfinu og hefði líkast til getað lagt aura til hliðar fyrir mögru árin eins og við hin þurfum að gera.
Á sama tíma les maður þetta... og þetta... og þetta... svo dæmi séu nefnd. Þessar sögur nísta í gegn um merg, bein og hjarta og maður spyr sig hvað þarf til að snerta við réttlætiskennd almennings og fjölmiðlafólks. Af hverju er svona mikið fjallað um auðmennina í fjölmiðlum en svona lítið um fátæktina... um þá sem minna mega sín og þjóðfélagið kemur illa fram við?
Ísland best í heimi... hvað?
Ég hef verið að reyna, ásamt mörgum öðrum, að benda á þá firringu sem á sér stað í virkjanafíkn og stóriðjuæði vissra aðila í þjóðfélaginu og afleiðingar þeirrar skammsýni. Afleiðingarnar snerta hvert einasta mannsbarn á Íslandi í formi loftmengunar, lyktmengunar, eyðileggingar á þeirri dásamlegu náttúru sem við höfum öll hlotið í arf frá forfeðrum okkar og -mæðrum ásamt þenslu, verðbólgu, hækkandi vöxtum, innflutningi tugþúsunda erlendra verkamanna og almennt versnandi lífskjörum. Fáir hlusta og fjölmiðlar sofa á verðinum. Enginn fjölmiðill virðist tilbúinn til að kryfja málið og fjalla um það á vitrænan hátt og í heildstæðu samhengi. Fréttablaðið hefur gert heiðarlegar tilraunir, en þær nægja ekki til að gera svo gríðarlega alvarlegu og yfirgripsmiklu máli nauðsynleg og verðskulduð skil.
Ég minni á að fyrir síðustu alþingiskosningar var eftir því tekið að upp spruttu umhverfisverndarsinnar í öllum flokkum sem mærðu náttúruvernd og lofuðu öllu fögru. Nauðsynlegt er að breyta lögum, að minnsta kosti tvennum, en hver er að sinna því? Enginn á þingi eftir því sem ég best veit.
Árið 2004 kom út merkileg ljóðabók eftir Sigfús Bjartmarsson sem hann kallaði Andræði. Bókin er leikur með orð og Sigfús leikur af mikilli snilld. Bókin skiptist í 11 kafla og hver kafli hefur inngangsljóð. Ég ætla að leyfa mér að birta hér tvö ljóð ásamt inngangsljóðum hvors kafla. Það var erfitt að velja því ljóðin eru hvert öðru betra og beinskeyttara.
5
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá hlutafjármarkaðarins hástökksmethafa
í flokki hörmangarafélaga vann:
Sá skal mæra samkeppnina
sem hana kaupir upp.
Og ljóðið sjálft er svona og ég tileinka það Hannesi Smárasyni og öðrum tugmilljóna-auðmönnum:
Vit er
veraldar
gengi.
Og
gott
er hátt
gengi en
hættar þó
en lágu við
að lækka
lengi.
Jú
vit er
vandmeðfarið
og valt.
Kúlið
getur óðara
orðið svo
kalt.
9
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá innsta aðstoðarkoppi æðstaráðsritara
landseigendaflokksins vann:
Fjórðungi bregður til flokks
en frekar bregður hinum
til hagsmuna
hans.
Ljóðið hljóðar svo - ég tileinka það Alþingi og ríkisstjórn, sem með réttu ættu að fara með stjórnartaumana - og sem lofa öllu fögru fyrir kosningar:
Í upphafi
skal efndirnar
skoða.
Jú
fagurt
galar formaður
sem fögnuðinn vill
fólki sínu
boða.
Og
ljúft er
að leggja svo
með lygasögnum
slag eftir
slag.
Jú
sjaldan
lifir kosningaloforð
kjördag.
Og
marga
mun sverja
eiðana sá
sem alla
svíkja
má.
Jú
enginn
tryggir atkvæðin
eftir á.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.7.2008
Ábyrgðarleysi og sóðaskapur
Leiðsögumenn erlendra ferðamanna eru þeir sem kynnast ferðamönnunum best á meðan þeir staldra við, áhuga þeirra á landinu, ánægju með það - og kvörtunum yfir því. Leiðsögumenn þurfa að leysa hvers manns vanda, fræða, skýra, svara, hugga, græða og almennt redda því sem redda þarf hverju sinni. Þeir gegna jöfnum höndum hlutverki sálfræðinga, fræðara og reddara. Leiðsögumenn eru á ferðinni um allt land og koma á flesta þá staði sem heimsóttir eru í skipulögðum - og óskipulögðum ferðum ferðaskrifstofa og annarra.
Yfirvöld ferðamála ættu því að leggja eyrun við þegar leiðsögumenn tala og taka fullt mark á þeim. Þeir vita nákvæmlega hvernig ástandið er á öllu mögulegu um allt land.
Í sumar hafa heyrst fjölmargar kvartanir frá leiðsögumönnum um ástand salerna víðs vegar um landið. Þau eru lokuð, biluð eða jafnvel ekki fyrir hendi á fjölförnum stöðum þar sem margir rútufarmar af ferðamönnum staldra við á hverjum degi til að njóta náttúrufegurðar Íslands - og þá eru ótaldir allir sem ferðast um á einkabílum eða bílaleigubílum. Við Íslendingar erum auðvitað sjálfir þar á meðal. Hversu viljugir og fjölhæfir sem leiðsögumennirnir eru geta þeir ekki leyst þetta tiltekna vandamál.
En þeir geta látið vita af vandanum og hafa gert það af miklum krafti það sem af er sumri, m.a. í viðtölum við fjölmiðla. Nokkrir leiðsögumenn hafa einnig skrifað um málið á bloggsíður sínar og nægir þar að nefna Úrsúlu, Guðjón og Berglindi. Fjallað var um málið í hádegisfréttum RÚV núna áðan og í Fréttablaðinu í morgun var viðtal við Börk Hrólfsson, leiðsögumann, sem ég set inn hér að neðan. Börkur er þekktur fyrir að tala tæpitungulaust og það gerir hann hér sem endranær.
Takið eftir svörum ferðamálastjóra: "....þótt Ferðamálastofa sjái um uppbyggingu salerna sé það ekki hennar hlutverk að sjá um rekstur þeirra." Hvers hlutverk er það þá? Við hvern á að tala? Hver ber ábyrgð á því að náttúruperlur okkar séu ekki útmignar og -skitnar og mishuggulegur pappír fjúkandi um allar grundir? Spyr sú sem ekki veit og ég vildi gjarnan sjá fjölmiðla grafa það upp og halda áfram að spyrja.
Í tónspilaranum ofarlega til vinstri eru samanklipptar tvær fréttir um málið, önnur frá 3. júlí sl. og hin frá í hádeginu í dag - merkt: Fréttir - RÚV - 3. og 14.7.08 - Salernismál í ólestri - Kári Jónasson, leiðsögumaður og Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Bretar eru miklir húmoristar, það held ég að sé nokkuð óumdeilt. Við sjáum allt of lítið af bresku efni í íslensku sjónvarpi. Amerískir veruleikaþættir hafa tröllriðið dagskrá flestra sjónvarpsstöðva undanfarin ár. Það er helst Ríkissjónvarpið sem býður upp á breskt efni, bæði drama og grín, og það er geysivinsælt. En meðalaldur sjónvarpsáhorfenda er að hækka eins og fram kom í þessari frétt, svo væntanlega endurspeglar dagskráin það fljótlega með þáttum fyrir fullorðna.
Bretar ganga oft mjög langt í sínu gríni og miðað við viðbrögð sumra við gríni hérlendis yrðu þeir líklega snarvitlausir ef okkar grínistar myndu hamast jafn miskunnarlaust á jafnvel viðkvæmum málum og þeir bresku gera gjarnan. Þeim virðist fátt vera heilagt.
Ekki hafa Bretar farið varhluta af efnahagskreppunni sem geisað hefur þótt þær vaxta- og verðbólgutölur sem þeir glíma við séu snöggtum lægri en þær sem við Íslendingar sjáum hér. Í ljósi þess er kannski skiljanlegt að eitt stærsta fyrirtæki landsins hafi séð sér leik á borði og flutt aðsetur sitt til Englands þótt ekki sé það stórmannlegt. Eigendurnir fleyttu rjómann af góðærinu en stinga svo af þegar kreppir að. Þannig lítur málið út í mínum augum, en ég viðurkenni að vera illa að mér í völundarhúsi fjárfestinga og Group-mála, svo vel má vera að þetta sé rangt mat.
Bankar, verktakar og ýmis fyrirtæki emja líka sáran. Á meðan græðgin réð för og allt lék í lyndi, bankar græddu á tá og fingri, verktakar færðust allt of mikið í fang og fyrirtækin slógu lán á báða bóga var íhlutun eða afskipti ríkisvaldsins harðlega fordæmd. Allt átti að vera svo einkavætt og frjálst, öllum heimilt að gera það sem þeim sýndist í opnu hagkerfi og frjálsu samfélagi. Ríkisvaldið mátti hvergi koma þar nærri - ekki einu sinni til að vara menn við því að óráðsían væri feigðarflan og farin úr böndunum. Ríkinu kom þetta bara ekkert við... þá.
Svo sprakk blaðran eins og hún hlaut auðvitað að gera eftir allt sukkið. Þá kom skyndilega allt annað hljóð í strokkinn. Nú á ríkið (við skattborgarar) að redda hlutunum, slá erlend lán upp á hundruð milljarða á gengi dagsins, bjarga óforsjálum verktökum frá gjaldþroti vegna offjárfestinga, breyta gjaldmiðlinum, ganga í ESB og síðast en ekki síst - virkja allar orkuauðlindir okkar strax til að byggja verksmiðjur ("mannaflsfrekar framkvæmdir", svokallaðar). Fyrirhyggjuleysið kristallast í orðum talsmanns greiningardeildar Glitnis sem lesa má í þessu morgunkorni þar sem fyrirhuguð eyðilegging á íslenskri náttúru er dásömuð af því hún færir aur í kassann hjá bönkunum:
"Segja má að álframleiðsla og annar orkufrekur iðnaður sé leið Íslendinga til að flytja út orku með hliðstæðum hætti og olíuríki selja afurðir sínar á heimsmarkaði, og hátt orkuverð er að öðru óbreyttu jákvætt fyrir arðsemi af slíkum orkuútflutningi. Í því ljósi, og með hliðsjón af því hversu fjárfestingarstig í hagkerfinu virðist nú lækka hratt, má segja að ofangreindar framkvæmdir séu heppilegar og líklegar til þess að vega gegn verulegum samdrætti í innlendri eftirspurn á næstu misserum."
Takið eftir niðurlaginu - það er verið að tala um misseri, ekki ár eða áratugi. Framtíðarsýn peningaaflanna er aðeins nokkur misseri. Bankarnir bara að bjarga sjálfum sér fyrir horn. Þetta er óhugnanlega dæmigert fyrir íslenskan hugsunarhátt og pólitík. Stjórnmálamenn hugsa í kjörtímabilum, þá helst aðeins um sitt eigið kjördæmi og eru á stanslausum atkvæðaveiðum. Hagsmunir og framtíð heildarinnar hverfa í skuggann á pólitískum skammtímaframa stjórnmálamanna. Bankar og önnur fyrirtæki - og reyndar almenningur líka - hugsa bara um morgundaginn, í besta falli næsta ársuppgjör eða næstu mánaðamót. Ég vildi óska að hér ríkti meiri langtímahugsun í stjórn landsins, viðhorfi banka, fyrirtækja og almennings og umhyggja fyrir heildarhagsmunum í stað sérhagsmuna. Það er ekki vænlegt til árangurs að hugsa alltaf eingöngu um rassinn á sjálfum sér.
En ég ætlaði ekki að skrifa svona mikið heldur koma með sýnishorn af breskum húmor. Þau tengjast öll efnahagskreppunni og þarfnast ekki frekari skýringa. Þriðja og síðasta myndbandið birti ég hér fyrir nokkrum mánuðum - en góð vísa er sjaldan of oft kveðin.
Dægurmál | Breytt 6.7.2008 kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Nú gengur maður undir manns hönd að skrifa blaðagreinar og dásama fyrirhugað álver á Bakka og gósentíðina sem það mun hafa í för með sér fyrir byggðarlagið. Oddviti Sjálfstæðismanna í Norðurþingi skrifaði í 24stundir í gær og sveitarstjóri Norðurþings í Morgunblaðið. Þeir eiga ekki nógu hástemmd lýsingarorð til að dásama mannlífið í kringum væntanlegt álver og bjarta framtíð ef það verður reist. Gjarnan er bent á hve blómlegt er nú á Austfjörðum eftir byggingu virkjunarinnar miklu og tilkomu álversins á Reyðarfirði. Allt annað líf... eða hvað?
Sannleikurinn virðist vera allt annar. Sem dæmi má nefna eru verktakafyrirtæki á förum eða farin, Síminn lokaði einu verslun sinni á Austurlandi, ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins á Austurlandi var lokað fyrir um mánuði (opnaði 2003), RÚV sagði upp manni á Austurlandi sl. mánudag og Iceland Express hætti beinu flugi frá Egilsstöðum til útlanda. Bætið við dæmum ef þið hafið þau. Það er ekki ýkja langt síðan ég sá frétt á annarri sjónvarpsstöðinni þar sem farið var um Austfirði og talað við fólk sem bar sig fremur illa. Það sagði eitthvað á þá leið að ef það vildi ekki flytja til Reyðarfjarðar og vinna í álinu hefðu þessar framkvæmdir engin áhrif á þeirra byggðarlag, því það er auðvitað langt í frá að allir Austfirðir séu eitt atvinnusvæði. Það eru Vestfirðir ekki heldur.
"Sá þig auglýsa á amk einum stað eftir fleiri dæmum um það, sem ekki hefur gengið eftir í kjölfar virkjana í fyrirheitna landinu á Austfjörðum. Nógu mörg slík dæmi hafa nú bæði þú og aðrir talið upp, en ég bendi samt á nýlega frétt um stóraukna tíðni hjónaskilnaða fyrir austan. (Sjónvarp; RÚV eða Stöð 2)."
Það virðist semsagt ekkert vera að gerast á Austurlandi lengur. Búið að reisa Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði og þá er pakkað saman, læst á eftir sér og lyklinum væntanlega fleygt í uppistöðulón. Hvað stóð gósentíðin lengi yfir? Fjögur ár? Kannski fimm? Hve miklir peningar skiluðu sér í kassann af öllum erlendu verkamönnunum sem sendu hýruna sína heim og fóru svo? Það er erfitt að játa að maður hafi haft rangt fyrir sér og Austfirðingar eru almennt ekki tilbúnir til þess ennþá. En hinkrum aðeins - þeir leysa frá skjóðunni fyrr eða síðar.
Af öllum þeim atburðum sem þessum framkvæmdum hafa fylgt er mér tvennt efst í huga: Eyðilegging náttúrunnar og meðferðin á erlendu farandverkamönnunum. Verkalýðsfélög höfðu sig mjög í frammi og mótmæltu hástöfum en ég veit ekki hvort lögum og reglum hafi verið breytt til að koma í veg fyrir að slík níðingsverk verði framin aftur við næsta verkefni, hvert sem það verður.
Kveikjan að þessum pistli var grein eftir unga konu frá Austurlandi sem birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 2. júlí, Hildi Evlalíu Unnarsdóttur, og hún segir ekki fagra sögu af ástandinu á Austfjörðum. Hún segist hafa flutt frá Austfjörðum á Suðvesturhornið til að stunda frekara nám eftir framhaldsskóla. Henni þykir augljóslega vænt um sína heimabyggð og hver veit nema hún hefði verið um kyrrt ef henni hefði staðið til boða að stunda sitt nám fyrir austan? Hvað hefur ekki háskólinn á Akureyri gert fyrir Norðurland? Hafa Austfirðingar engan áhuga á að lokka ungt fólk til sín eða halda í unga fólkið sitt með því að bjóða því upp á menntunarmöguleika í heimabyggð? Ég held að það væri nær - og ekki bara fyrir Austfirðinga. Eða hve margir starfsmenn álversins á Reyðarfirði eru áður brottfluttir Austfirðingar sem eru að koma aftur heim? Það væri gaman að vita. En hér er þessi athyglisverða grein Hildar Evlalíu.
Þeir sem talað hafa máli olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum hafa uppi svipaðan málflutning og Norðlendingar um álverið á Bakka. Þeir minnast ekki á þau gríðarlegu, skaðlegu áhrif sem framkvæmdirnar hafa, heldur veifa framan í Vestfirðinga "500 störfum og enn fleiri afleiddum störfum". Það er greinilega vel geymt leyndarmál að í fyrsta lagi yrðu störfin aldrei svona mörg miðað við fjölda starfa í öðrum olíuhreinsistöðvum, einkum þeim nútímalegu og tæknivæddu sem þeir dásama svo mjög.
Í öðru lagi hefur hvergi verið minnst á hve mörg störf glatast ef olíuhreinsistöð yrði reist á Vestfjörðum því hún yrði í mikilli andstöðu við ýmsa aðra atvinnustarfsemi. Væntanlega yrðu þó nokkuð margir annað hvort að loka sinni sjoppu og fara - eða vinna í olíuhreinsistöð. Hefur einhver gert könnun á því hve margir Vestfirðingar vilja í raun vinna í olíuhreinsistöð sjálfir? Eða yrði að manna stöðina með erlendum farandverkamönnum eins og byggingu hennar? Við skulum ekki láta okkur dreyma um að hún verði reist með innlendum mannafla - það þætti allt of dýrt. Munum Kárahnjúka.
Svo eru það goðsagnirnar. Ein gengur út á það, að ef olíuhreinsistöð verði reist á Vestfjörðum fái Íslendingar ódýrt eldsneyti. Lesið um það hjá Ylfu Mist hér. Hvernig konunni datt þetta í hug veit ég ekki. Skyldi einhver hafa logið þessu að henni til að kaupa velvild hennar? Konan getur lítið gert annað en að skammast í sínu horni þegar hún er búin að greiða atkvæði með olíuhreinsistöðinni og kemst síðan að því að hún fær ekki krónu í afslátt af bensínverðinu.
Lífseigasta goðsögnin fjallar um hve stór hluti álútflutningur er af tekjum þjóðarbúsins. Sagt hefur verið að hann sé meiri en af fiskveiðum og margfaldur á við ferðaþjónustuna. Það var vel geymt leyndarmál að þetta er lygi, en var afhjúpað í 24stundum í gær með afgerandi hætti. Auk þess seljum við þessum fyrirtækum hina verðmætu orkuauðlind okkar á útsöluverði í blússandi orkukreppu! Ég ímynda mér að svipað myndi gilda um olíuhreinsistöð þar sem, eins og í álinu, hvorki hráefnið né unna afurðin verður í eigu Íslendinga - og heldur ekki stöðin sjálf. En hér er fréttin sem afhjúpaði leyndarmálið og lygarnar.
Kæru Vestfirðingar og Norðlendingar - hugsið málið, setjið hlutina í samhengi og látið ekki ljúga að ykkur lengur. Áttið ykkur á að þessi mál snúast um svo miklu, miklu meira en að reisa eitt álver eða eina olíuhreinsistöð. Fórnirnar eru ótrúlega miklar, eyðileggingin gríðarleg og að flestu leyti óafturkræf. Ekki láta blekkjast af fagurgala manna sem hafa það eitt að leiðarljósi að hagnast sjálfir og er alveg sama um ykkur og okkur hin og látið ykkur ekki detta í hug að við fáum ódýrt eldsneyti þótt hér verði reist olíuhreinsistöð.
Hugsið um þau tækifæri sem þið væruð að svipta komandi kynslóðir með því að ganga svo á orkuauðlindir landsins að ekkert yrði eftir handa þeim eða stofna fiskimiðum, fuglabjörgum og hreinni ímynd Íslands í stórhættu. Hlustið á málflutning manna eins og Stefáns Arnórssonar sem ég vitnaði í hér og þið getið hlustað á í Spegilsviðtali í tónspilaranum ofarlega til vinstri á þessari síðu. Skoðið hug ykkar og íhugið orð Stefáns sem segir að þegar upp er staðið sé þetta spurning um siðferði.
Og þið getið verið viss um að eftir fjögurra til fimm ára fjör hjá fáum og fullt af peningum í vasa enn færri - ef af framkvæmdum verður - fer fyrir ykkur eins og Austfjörðunum og þá er betur heima setið en af stað farið.
Viðbót: Það var gaman að lesa grein Dofra Hermannssonar í Morgunblaðinu í morgun, en þar skrifar hann á svipuðum nótum og ég í þessum pistli, þótt hann beini augum að álveri í Helguvík. Dofri setti greinina á bloggið sitt áðan - sjá hér.
Dægurmál | Breytt 6.7.2008 kl. 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (52)
3.7.2008
Forsætisráðherra og fjölmiðlarnir
Það var aldrei meiningin að fara út í mikla myndbandagerð, en ég ræð ekkert við hugmyndaflæðið; fjölmiðlarnir og þjóðmálin eru endalaus uppspretta hugmynda og gagnrýni. Ég hef ekki tíma til að vinna úr nema brotabroti af öllum þeim hugmyndum sem ég fæ. Oft spilar margt saman og í þetta sinn var það lítill pistill á baksíðu 24stunda þriðjudaginn 1. júlí og nokkrar fréttaúrklippur af viðtölum við forsætisráðherra.
Í mars sl. skrifaði ég þennan pistil, sem ég kallaði "Fjölmiðlar, fjórða valdið og fyrirlitning í framkomu ráðamanna". Tilefnið var tilsvar forsætisráðherra þegar fréttakona spurði hann spurningar - eða réttara sagt, reyndi að ganga á eftir því að hann svaraði spurningu. Forsætisráðherra var aldeilis ekki á því og hreytti í hana ónotum. Hann hefur verið áberandi ergilegur undanfarið, blessaður, og gjarnan svarað með skætingi.
Svo sá ég þennan pistil á baksíðu 24stunda á þriðjudaginn og ákvað að búa til nýtt myndband.
Mér til dálítillar furðu bættist við enn eitt myndbrotið áður en ég byrjaði á myndbandinu - í hádegisfréttum Stöðvar 2 í gær, miðvikudag. Að sjálfsögðu tók ég það með. Athygli vekur að svona myndbrot hafa aðeins birst í fréttum Stöðvar 2. Hvað þýðir það? Að forsætisráðherra svari ekki fréttamönnum Ríkissjónvarpsins á þennan hátt - eða eru tilsvör hans bara ekki sýnd þar? Það langar mig að vita.
Geir Haarde er vel gefinn maður og hér áður fyrr naut hann álits, trausts og virðingar langt út fyrir raðir síns flokks. Er valdið að fara svona með hann eða er eitthvað annað að gerast? Af hverju sér þessi áður fyrr prúði og kurteisi maður sig knúinn til að koma fram eins og forveri hans í embætti sem kunni sér ekkert hóf í framkomu sinni og talaði alltaf niður til þjóðarinnar? Ég neita að trúa að Geir sé strengjabrúða seðlabankastjóra, sem virðist ráða því sem hann vill ráða þótt hann eigi að heita hættur í stjórnmálum. Breytir hann hegðan sinni fyrir næstu kosningar? Verður hann þá eins og Halldór Ásgrímsson sem sást aldrei brosa nema í kosningabaráttu? Eða er Geir búinn að fá leið á vinnunni sinni eins og George Constanza sem Atli Fannar skrifar um?
Með samsetningu þessa myndbands vil ég hvetja fjölmiðlafólk til að láta stjórnmálamenn ekki komast upp með að svara ekki spurningum eða hreyta í það ónotum þegar það reynir að gera skyldu sína gagnvart almenningi - að upplýsa þjóðina um atburði líðandi stundar. Og birta svör þeirra eins og Stöð 2 hefur gert. Fjölmiðlar eru fjórða valdið í þjóðfélaginu og þeim ber að sinna skyldu sinni gagnvart þjóðinni. Vonandi ber þeim gæfa til að inna það starf eins vel af hendi og kostur er.
Dægurmál | Breytt 9.7.2008 kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
2.7.2008
Húmor á Mogganum - nú hló ég!
Hinn nafnlausi Víkverjapistill í Morgunblaðinu sl. sunnudag vakti óskipta athygli mína. Þar var fjallað um hve blogg er ómerkilegt og illa skrifað. Ég tók pistlinum sem argasta gríni og minn gamli vinur, Sigurður Þór Guðjónsson, skrifaði um hann litla bloggfærslu í sínum persónulega stíl.
Mér fannst pistillinn svo skondinn að ég sendi Víkverja dagsins tölvupóst og þakkaði fyrir í þeim anda sem ég tók skrifum hans. Ekki bjóst ég við að fá svar, en rakst svo á það í morgun að bréfið mitt var birt í blaðinu - í Velvakanda á bls. 27. Ég skellihló þegar ég sá þetta og kann vel að meta húmorinn sem í því felst að birta bréfið frá mér.
En hver var þessi Víkverji sunnudagsins? Á Morgunblaðinu vinna margir eðalblaðamenn og sjálfsagt eru fjölmargir þeirra húmoristar. Var þetta Agnes? Ragnhildur? Kolbrún Bergþórs? Freysteinn? Steinþór? Marga fleiri mætti nefna. Hver er "snyrtipinni og safnar ekki drasli"? Ég hef ekki hugmynd um það - og mér er svosem slétt sama. Það sem mér finnst mest um vert er að Morgunblaðið hafi húmor og leyfi okkur hinum að njóta hans. Nóg er af alvörumálum í samfélaginu. Það er gott að fá að brosa og hlæja líka.
En Mogginn sleppti að birta hluta af undirskrift minni sem mér finnst auðvitað alveg ótækt, því þar kemur fram að ég er sjálf bloggari og fell augljóslega undir hina málefnalegu og skemmtilegu alhæfingu Víkverja, sem og eigið háð. Ég undirritaði bréfið nefnilega svona:
Lára Hanna Einarsdóttir
www.larahanna.blog.is
hvar hún hefur ekkert fram að færa
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
1.7.2008
Fuglalíf og svolítil nostalgía
Ég var að horfa á og taka upp tíufréttirnar í Ríkissjónvarpinu áðan og heillaðist af lokamínútunum. Þar voru lómur og kjói við Héraðsflóa í aðalhlutverki ásamt ungunum sínum. Mér finnst að báðar sjónvarpsstöðvarnar mættu sýna svona náttúrulífsbrot í lok allra fréttatíma í sjónvarpi. Á báðum stöðvunum vinna kvikmyndatökumenn sem geta, ef sá gállinn er á þeim og þeir fá tækifæri til, verið listamenn á sínu sviði eins og þetta myndbrot ber með sér.
Mér varð hugsað til bernskunnar og lags sem ég grét yfir í hvert sinn sem það var spilað í útvarpinu. Mikið svakalega fannst mér það sorglegt. Það var á þeim árum þegar útvörp voru risastórar mublur, helst úr tekki, og maður var sannfærður um að fólkið sem talaði eða söng væri inni í tækinu. En aldrei skildi ég hvernig heilu hljómsveitirnar og kórarnir komust þar fyrir - og skil ekki enn.
Lagið setti ég í tónspilarann - það er gullaldarlagið "Söngur villiandarinnar", sungið af Jakob Hafstein af yndislegri innlifun og tilfinningu. Ég gleymi aldrei hvernig mér leið þegar ég hlustaði á það "í den". Og það vill svo skemmtilega til að sonur og alnafni söngvarans er nú afskaplega kær fjölskylduvinur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)