Færsluflokkur: Lífstíll
Fyrir um það bil tveimur árum ætlaði ég að skrá öll málblómin og ambögurnar sem ég las og heyrði í fjölmiðlunum. Ég gafst fljótlega upp, þetta hefði verið full vinna. Þó var þetta löngu fyrir hrun og ekki hætt að prófarkalesa texta í jafnmiklum mæli og nú. Þegar peningar eru annars vegar og gróðinn minnkar er byrjað á að spara "ósýnilegu" störfin. Gallinn er bara sá að þá verða ambögurnar sýnilegri og skera augu og hlustir svo hvín í.
Ég hef marga hildi háð við íslenskuna á 22ja ára ferli við þýðingar, einkum skjátextagerð. Þó finnst mér ég ekki hafa náð nema þokkalegum árangri og öðlast sæmilegan orðaforða. Íslenskunám er ekki eitthvað sem maður afgreiðir þegar grunnskóla eða framhaldsnámi lýkur - það er lífstíðarglíma ef vel á að vera og bóklestur er þar besta námið. Ef bókin er vel skrifuð eða vel þýdd.
Flestir muna eftir umræðunni þegar bankamenn vildu gera ensku að ráðandi máli í bönkunum og jafnvel fleiri fyrirtækjum á Íslandi og alþingismaður nokkur stakk upp á að enska yrði jafnrétthá íslensku í stjórnsýslunni á Íslandi. Skiptar skoðanir voru um þetta en mig minnir að langflestum hafi þótt þetta fáránlegar hugmyndir - sem betur fer.
Þegar ég fór að lesa blogg kom mér skemmtilega á óvart hve margir voru vel ritfærir. Maður las ljómandi góðan texta eftir bláókunnugt fólk sem hafði loksins öðlast vettvang til að tjá sig opinberlega í rituðu máli. Það var verulega ánægjulegt að sjá hve margir lögðu metnað í að koma skoðunum sínum frá sér á góðri íslensku. Að sama skapi er sorglegt að lesa eða hlusta á fólk sem kemur varla frá sér óbrenglaðri setningu og grípur jafnframt hvað eftir annað til enskunnar þegar því er orða vant á móðurmálinu. Þetta er hættuleg gryfja sem smitar út frá sér og sorglegast er að verða vitni að þessu daglega í fjölmiðlunum. Enginn fjölmiðill er þar undanskilinn, en enginn er heldur fullkominn og ekki ætlast til þess. Slangur og slettur geta átt fullan rétt á sér í skemmtilega skrifuðum eða fluttum texta en þegar maður heyrir hluti eins og um "fráskildan" mann og að fólk hittist "í persónu" í fréttatímum er eiginlega of langt gengið. Öll gerum við mistök í meðferð móðurmálsins, það er óhjákvæmilegt og ekkert til að skammast sín fyrir. En er þetta ekki orðið of mikið... eða er ég bara svona gamaldags?
Ég flutti svolítinn pistil um íslenskuna á Morgunvaktinni á föstudaginn, hljóðskrá fylgir neðst. Ég gerði meira að segja mistök í þessum málfarspistli sem einn ágætur hlustandi benti mér á í tölvupósti og ég var honum mjög þakklát.
Ágætu hlustendur,
Á tyllidögum er talað fjálglega um mikilvægi íslenskrar tungu og þátt hennar í menningu okkar, sjálfstæði og þjóðlegri reisn. Lögð er áhersla á nauðsyn þess að viðhalda tungunni og margar nefndir eru starfandi til að finna eða búa til ný íslensk orð yfir hvaðeina sem skýtur upp kollinum í tæknivæddu samfélagi nútímans. Sum nýyrðin verða töm á tungu og festa sig í sessi, en önnur hverfa og gleymast.
Semsagt - íslenskan er talin vera einn mikilvægasti þjóðarauður Íslendinga og eitt af því sem gerir okkur að þjóð. Gott og vel.
Ég efast ekki um að þjóðhöfðingjum og öðrum sem leggja áherslu á mikilvægi íslenskrar tungu í fortíð, nútíð og framtíð og lofa hana í hástert, sé alvara með orðum sínum. En gallinn er sá, að boðskapurinn nær sjaldnast lengra en í hástemmdar ræðurnar og honum er aðeins hampað á eina degi ársins sem tileinkaður er íslenskunni, 16. nóvember, afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, þjóðskálds. Meira að segja þeir sem hafa vald til að gera eitthvað sitja með hendur í skauti og hafast ekki að til varnar móðurmálinu. Sagt var frá því, daginn fyrir Dag íslenskrar tungu fyrr í vikunni, að íslenska sé ekki lengur hluti af skyldunámi kennaranema. Það er dæmigert fyrir það kæruleysi og dugleysi sem einkennir allt sem snýr að verndun og viðhaldi tungunnar.
Í hinum áhrifamiklu fjölmiðlum er okkur boðið upp á málvillur, ambögur, stafsetningarvillur og ýmiss konar fáránlegan framburð og framsögn með ankannalegum og óþægilegum áherslum. Enda er prófarkalestri og málfarsráðgjöf ekki gert hátt undir höfði í fjölmiðlunum og víða virðist slíkum meintum óþarfa hreinlega hafa verið úthýst með öllu. Metnaður fjölmiðla til að vanda mál og framsetningu virðist vera að hverfa - þrátt fyrir áðurnefnd tyllidagaerindi og þennan eina dag á ári sem helgaður er móðurmáli Íslendinga.
Áhyggjur af framtíð íslenskunnar eru ekki nýtilkomnar. Fyrir rúmum 160 árum, í febrúar árið 1848, lét bæjarfógetinn í Reykjavík festa upp auglýsingu í bænum þar sem á var ritað: "Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi". Til áhersluauka gengu menn um bæinn, börðu bumbur og hrópuðu þessi hvatningarorð. Um kvöldið voru gefnar út nýjar reglur þar sem sagði meðal annars: "Næturvörður skal hrópa á íslenskri tungu við hvert hús". Á þessum tíma var íbúafjöldi í Reykjavík um ellefu hundruð manns og ýmsir höfðu áhyggjur af áhrifum dönsku herratungunnar á íslenskuna.
Svona uppákomur til málhreinsunar þættu hjákátlegar nú á dögum, en engu að síður er bráðnauðsynlegt að gera miklu meiri kröfur til móðurmálskunnáttu þeirra, sem tjá sig á opinberum vettvangi og þá einkum í útbreiddum fjölmiðlum. Stjórnendur miðlanna verða að gera sér grein fyrir áhrifamætti þeirra og gera íslenskri tungu mun hærra undir höfði en nú er gert. Málfarslegur sóðaskapur dregur úr trúverðugleika alls boðskapar - ekki síst frétta.
Enginn biður um fullkomnun, hún er ógerleg. Og lifandi tungumál breytist í áranna rás, þróast og þroskast. Það er ofureðlilegt. En öllu má ofgera og þegar kynslóðir eru hættar að skilja hver aðra og orðaforði, málskilningur og máltilfinning unga fólksins að hverfa, þá er mál að staldra við og hugsa sinn íslenskugang.
Við eigum að hafa 365 daga á ári Daga íslenskrar tungu og vernda móðurmálið okkar.
Spaugstofan gantaðist með þetta á laugardaginn eins og sjá má og heyra.
Spaugstofan 21. nóvember 2009
Þetta var útfærsla Spaugstofunnar á þekktu lagi eftir Atla Heimi Sveinsson við texta Þórarins Eldjárn. Það var notað í auglýsingu Mjólkursamsölunnar sem hefur verið dugleg við að hampa íslenskunni. Hér er frumgerðin, söngkonan unga heitir Alexandra Gunnlaugsdóttir.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.11.2009
Lágkúrufjölmiðlun
Um daginn var mikið talað um lágkúrufjölmiðlunina sem hefur færst mikið í vöxt undanfarin ár. Slík tegund fjölmiðlunar birtist einkum í raunveruleikaþáttum og fíflagangi í sjónvarpi, gaspri og flissi í útvarpi og skrifum í ýmsa miðla um ófarðaðar stjörnur að kaupa í matinn, fitukeppi, appelsínuhúð eða lafandi brjóst svo eitthvað sé nefnt. Svo ekki sé minnst á auglýsingarnar sem fylgja þessum ósköpum.
Ímyndasmiðir nútímans koma úr ýmsum áttum og keppast við að stýra neyslu fólks og útliti og búa til gerviþarfir til að selja óþarfa. Oft er höfðað til lægstu hvata mannskepnunnar og allt er leyfilegt. Gjarnan er þeim mest hampað sem eru kjaftforastir, hneyksla mest og ganga lengst og þau gerð að ímyndum "fallega fólksins", "sannra karlmanna", "kynþokka" og þar fram eftir götunum. Þegar þetta fólk opnar munninn kemur ekki óbrenglað orð út úr því og ekki vottar fyrir heilbrigðu lífsviðhorfi, skynsemi eða sæmilega virkri heilastarfsemi. Um eitt þessara fyrirbæra kvenkyns var sagt nýverið: "Verðugur fulltrúi klámkynslóðarinnar, sem hlutgerir kvenlíkamann og lætur ungum stúlkum líða eins og þær þurfi að afklæðast til að hljóta viðurkenningu." Séðogheyrtþáttur Stöðvar 2 hefur verið iðinn við að kynna þessa tilteknu konu ásamt fleira svona fólki og hampa því sem fyrirmyndum... ja, hverra? Unglinganna? Maður spyr sig...
Þeir sem standa fyrir svona fjölmiðlun afsaka sig með því að þetta vilji fólk horfa og hlusta á eða lesa um. Þó var ritstjóri Vísis ansi vandræðalegur í viðtali um málið við Kastljós um daginn og í mikilli vörn. Ef það er satt sem þau segja - hvað er það í mannlegri náttúru sem gerir það að verkum að fólk nýtur þess að sjá náungann niðurlægðan? Getur einhver sagt mér það?
Kastljós 26. október 2009
Ég fjallaði um þessa lágkúrufjölmiðlun í Morgunvaktarpistlinum fyrir viku, föstudaginn þrettánda. Hljóðskrá viðfest neðst í færslunni.
Ágætu hlustendur...
Hvað er það í eðli mannskepnunnar sem veldur því að hún gleðst yfir óförum annarra? Það hlakkar í fólki þegar einhver er niðurlægður og margir borga jafnvel háar upphæðir fyrir að horfa á sjónvarpsefni þar sem fólk er ýmist rifið niður eða troðið í svaðið.
Fjölmiðlar hafa verið einn mesti áhrifavaldur undanfarinna áratuga og eru enn. Áhrifum fylgir ábyrgð og hún er afar vandmeðfarin. Þess vegna vakti mikla furðu í þjóðfélaginu þegar Stöð 2 tók upp á því, aðeins þremur mánuðum eftir efnahagshrunið, að gera fréttamagasínþáttinn Ísland í dag að ábyrgðalausu þunnildi. Einmitt þegar þjóðin þurfti sem mest á beittri og gagnrýninni fjölmiðlun að halda.
Raunveruleikaþættir, sem margir ganga út á að niðurlægja fólk á einhvern hátt, hafa tröllriðið sjónvarpsdagskrám. Á fjölmiðlunum situr fólk á fullum launum við að gera grín að appelsínuhúð, lafandi brjóstum eða fitukeppum á þekktum einstaklingum. Svo ekki sé minnst á of litla eða of stóra rassa eða óeðlilegan hárvöxt á viðkvæmum stöðum. Sérstaklega er svo tekið fram ef myndir af ósköpunum fylgja.
Sumir fjölmiðlar hafa verið duglegir við að reka sitt reyndasta og oft besta fólk í nafni niðurskurðar, en ráða í staðinn óreynd, ótalandi og óskrifandi ungmenni sem væntanlega er auðveldara að stjórna. Í september sagði einn fjölmiðillinn meira að segja upp blaðamönnum á sjötugsaldri sem áttu eftir örfá ár í eftirlaun og höfðu alið mestallan sinn starfsaldur hjá blaðinu. Siðleysið var algjört.
Ég hef spurt marga hvað óábyrgum stjórnendum þessara fjölmiðla gangi til. Hvers vegna hið vitræna sé skorið niður á meðan hlaðið er undir lágkúru og fíflagang. Margir botna ekkert í þessu frekar en ég og enn aðrir segja: "Þetta er það sem fólk vill." En það er ég alls ekki sannfærð um. Hefur fólk eitthvað val?
Ég held stundum að með því að halda þessari tegund fjölmiðlunar að almenningi séu óprúttnir aðilar meðvitað að búa til einhvers konar heilalaust lágkúrusamfélag með það fyrir augum að ef hægt er að koma í veg fyrir að fólk hugsi sé auðveldara að stjórna því. Segja því hvað það vill og hvað ekki, hvað má og hvað ekki - og hverjir mega hvað og hverjir ekki. Láta fólk svífa gagnrýnis- og hugsunarlaust í gegnum lífið, til þess eins að vera örsmátt tannhjól í æðra ætlunarverki valdhafanna.
Unga fólkið er sérstaklega viðkvæmt fyrir slíkri fjölmiðlun. Við hverju er að búast af fullorðnum einstaklingi sem alinn er upp við endalaust gláp á raunveruleikaþætti í sjónvarpi og útlitsfjölmiðlun, sem rífur látlaust niður sjálfstraust fólks og veikir sjálfsmynd þess? Valdhafa sem hegna fólki fyrir að hugsa og gagnrýna í stað þess að ýta undir heilbrigð skoðanaskipti og rökhugsun.
En mannskepnan hlær að niðurlægingu náungans og í höfði hennar bærist engin hugsun.
Jóhann Hauksson skrifaði frábæra bloggfærslu á svipuðum nótum um daginn sem hann svo breytti og bætti og birti í DV. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Lífstíll | Breytt 22.11.2009 kl. 02:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
23.10.2009
Svívirða, sársauki, sorg og söknuður
Ég hef verið að velta ýmsu fyrir mér, rifja upp, pæla í þjóðarsálinni, merkingu orðanna, skilning okkar á þeim og samhengi hlutanna. Ég hef verið að hugsa um fólk og hvernig það upplifir kreppuna. Ég hitti lítinn hóp af góðu fólki eitt kvöldið í vikunni. Þar sagði ung kona: "Þetta er velmegunarkreppa". Það má til sanns vegar færa - a.m.k. hjá sumum. Önnur kona sagði reynslusögu. Hún var í apóteki og fyrir framan hana í röðinni var gömul kona að sækja lyfin sín. Þegar verið var að afgreiða gömlu konuna fór hún að skjálfa - hún grét. Þarna stóð hún með aleiguna í höndunum, 12.000 krónur. Lyfin kostuðu 9.000. Átti hún að borga lyfin og eiga bara 3.000 krónur til að lifa af út mánuðinn eða...? Þessi gamla kona var ekki að upplifa velmegunarkreppu.
Eflaust er þetta veruleiki margra þótt eldri borgarar séu kannski í meirihluta af því þeir hafa ekki tök á að auka tekjur sínar á neinn hátt. En þetta er gömul saga og ný. Það hefur alltaf verið til fátækt á Íslandi og alltaf hefur verið stéttskipting í okkar "stéttlausa", litla þjóðfélagi. Kannski er þetta meira áberandi nú en alla jafna, ég veit það ekki. Maður spyr sig hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að jafna lífsgæðin betur í örsamfélagi eins og okkar - af hverju þeir sem hafa yfrið nóg og gott betur geta ekki hunskast til að hjálpa sínum minnstu bræðrum og systrum. Af hverju nokkrum einstaklingum finnst bara sjálfsagt að velta sér upp úr peningum eins og Jóakim aðalönd á meðan aðrir eiga ekki til hnífs og skeiðar.
Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki slíkan þankagang - hef aldrei gert og mun aldrei gera. Mér finnst þetta svívirðilegt og óafsakanlegt.
Svo er það sársaukinn. Við vorkennum okkur alveg óskaplega. Okkur finnst illa með okkur farið af alþjóðasamfélaginu svokallaða. Fólk, sem fætt er með silfur- eða jafnvel gullskeiðar í munni og hefur ekki hugmynd um hvað það er að líða skort eða þurfa að neita sér um nokkurn hlut, lætur eins og heimurinn sé að farast af því það fær ekki sínum prívatvilja framgengt í öllum málum svo það geti hlaðið enn meira undir sig og sína.
Mér hefur æ oftar, í öllum ósköpunum sem hafa gengið á, orðið hugsað til forsíðumyndar á tímariti sem ég kom auga á fyrir margt löngu. Ég keypti tímaritið og geymdi forsíðumyndina. Ég gerði það til að minna sjálfa mig á hvað ég hef það helvíti gott - hvað sem á gengur og þrátt fyrir allt og allt. Til að minna sjálfa mig á hve kvartanir okkar Íslendinga yfir léttvægum, efnislegum lífsgæðum eru í raun fáránlegar þegar upp er staðið. Þetta var í ágúst árið 1992 og myndin var á forsíðu The Economist. Stríðið í Bosníu var í algleymingi og þar átti fólk um sárt að binda. Ég gróf þessa forsíðu upp og skannaði hana inn í tölvuna. Sjáið þið það sem ég sá þá og sé enn? Hvað erum við að kvarta?
Ég hef líka verið að hugsa um stjórnmálin og stjórnmálamennina og -konurnar. Reyni öðru hvoru að fylgjast með umræðunum á Alþingi en gefst alltaf upp. Þvílíkur farsi! Þvílíkar gervimanneskjur og gervimálstaður sem þar er á ferðinni! Hvaða fólk er þetta eiginlega sem kosið var til að leiða þjóðina á erfiðum tímum? Gjammandi gelgjur og útblásnar blaðurskjóður? Það er undantekning ef einhver kemur í ræðustól og talar af hugsjón, skynsemi og sannfæringu. Þá hugsa ég til Vilmundar Gylfasonar og hans stutta en minnisstæða ferils á þingi. Og ég sakna heiðarlegra hugsjónamanna og -kvenna sem hægt er að treysta.
Vilmundur lést langt fyrir aldur fram og hans var sárt saknað af ótalmörgum. Blöðin voru uppfull af minningargreinum um hann, en ein er mér minnisstæðust þeirra allra. Það var persónulegasta og stórkostlegasta minningargrein sem ég hafði lesið á þeim tíma, og hún var eftir Guðrúnu Helgadóttur sem þá sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið.
Guðrún sagði m.a. í minningargrein sinni, sem bar hinn einfalda titil Til Vilmundar og birtist í Þjóðviljanum á útfarardegi Vilmundar 28. júní 1983: "Þú þoldir svo miklu meira en ætla mátti, vegna þess að þú varst svo heiðarlegur og sanntrúaður á málstað þinn, og svo ótrúlega lítið kænn. Fyrir þá eiginleika kveðja þig í dag þúsundir Íslendinga í einlægri sorg. Þeir vita að við eigum kappnóg af kænu fólki." Svo segir Guðrún seinna: "Sannleikann í þér tókst þér aldrei að dylja. Þess vegna þótti svo mörgum vænt um þig, og þess vegna var ýmsum ekkert hlýtt til þín. Sannleikurinn er ekki öllum fýsilegur fylgisveinn." (Af hverju tengi ég þessi orð við Bjarna Ben og Sigmund Davíð... og fleiri af þeirri sort?) Í grein sinni minnist Guðrún á ræðu ræðanna á Alþingi - ræðu sem enn þann dag í dag er talin sú besta sem þar hefur verið flutt. Takið eftir ummælum Vilmundar um nýja stjórnarskrá og varðhunda valdsins. Ég hengi ræðuna neðst í færsluna.
Það er þetta með stjórnmálamenn, heiðarleikann og sannleikann. Hve marga stjórnmálamenn sem nú sitja á þingi væri hægt að skrifa slík eftirmæli um?
Lífstíll | Breytt 24.10.2009 kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
16.8.2009
Gróðafíknin og hið helga fé
Við þekkjum öll þá réttlætingu að ofurlaunin hafi tíðkast vegna þess að ofurlaunaþegarnir báru svo gríðarlega mikla ábyrgð. Jájá. Við vitum að þetta er kjaftæði. Engir ofurlaunaþegar hafa axlað neina ábyrgð - ennþá. Réttlætið felst meðal annars í að þeir verði látnir axla ábyrgð og það frekar fyrr en síðar.
Lesendur síðunnar vita að ég grúska gjarnan og finn stundum ýmislegt forvitnilegt - að mínu mati. Í þetta sinn fann ég alveg óvart tvær greinar í sama Mogga - frá 11. janúar 2004. Fyrri greinin heitir Um gróðafíkn og er skrifuð af Guðmundi Helga Þórðarsyni, fyrrverandi heilsugæslulækni. Um hann veit ég ekkert. Í greininni fjallar hann um gróðafíkn og veruleikafirringu ofurlaunamannanna sem missa allt jarðsamband í ásókn sinni eftir meiri peningum. Ég tek ofan minn ímyndaða hatt fyrir Guðmundi Helga fyrir greinina. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Seinni greinin er eftir fjárhirðinn Pétur Blöndal og heitir Hið helga fé sparisjóðanna. Mér skilst á mér fróðari mönnum að Pétur hafi leikið stórt hlutverk í þeirri þróun sem leiddi að lokum til falls Byrs, SPRON og fleiri sparisjóða. Greinin gæti verið innlegg í þá umræðu. Ég tek ekki ofan fyrir Pétri Blöndal fyrir greinina þótt ég játi að stöku sinnum finnist mér Pétur tala skynsamlega. En ekki mjög oft. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.7.2009
Geðveiki gróðærisins
Ég sá aldrei þessa þætti en frétti af nokkrum, meðal annars þessum. Þessi talsmáti, hugsunarháttur og lífsstíll virðist hafa verið ríkjandi meðal hóps fólks í gróðærinu. Mér finnst þetta jaðra við geðveiki.
19.6.2009
Þeir kýldu á það
Ég tek ofan fyrir þessum höfðingjum. Nú opnast fyrir þeim nýr heimur sem þeir geta nýtt sér til fróðleiks og skemmtunar. Gott hjá þeim!
Tíufréttir RÚV 18. júní 2009
Ég veit ekki hver(jir) er(u) á bak við Svarthöfðann í DV, en fjári er hann oft góður. Eins og skrifaður á mitt eigið lyklaborð núna síðast. Er það minnimáttarkennd sem fær Íslendinga til að halda sig besta, klárasta, flottasta og stórasta? Sjálfbirgingurinn ríður oft ekki við einteyming og ef engin er ástæðan til að berja sér á brjóst - þá er hún nánast búin til og síðan blásin upp. Baldur lýsir þessu þannig að margir Íslendingar séu eins og Pollýanna á sterum. En hér er Svarthöfðapistillinn og forsíðan sem hann vitnar í.
EINSTAKUR ÁRANGUR
Einhverjir vilja meina að mikilmennskubrjálæði hafi komið Íslendingum í þá ömurlegu stöðu sem nú blasir við gjaldþrota þjóð. Þetta er alrangt eins og allir sem þekkja sitt heimafólk hljóta að gera sér grein fyrir. Frumforsendan fyrir hallærinu er alls ekki stórmennskubrjálæði heldur þvert á móti sígild íslensk minnimáttarkennd sem brýst því miður fram í sameiginlegri þjóðarfirringu um að Íslendingar séu sterkastir, fallegastir, snjallastir og bestir í öllu.
Þessi firnasterka sjálfsblekking sem auminginn fyllir heimsmynd sína með til þess eins að kikna ekki algerlega undan eigin vanmætti er svo yfirþyrmandi að Íslendingar telja sig alltaf vera sigurvegara og langbesta. Jafnvel þegar þeir ná aldrei lengra nema í allra besta falli að vera næstbestir.
Samkvæmt íslenskum mælikvörðum er annað sætið sigursæti og FL Group og deCODE verðmæti. Fólk með óskerta sjálfsmynd bölvar þegar það lendir í öðru sæti, spýtir svo í lófana og strengir þess heit að gera betur næst og vinna. Þetta hvarflar ekki að Íslendingum. Þeim nægir að vera næstbestir vegna þess að þá eru þeir bestir. Þetta hljómar eins og mikilmennskubrjálæði en undir kraumar minnimáttarkenndin og vissan um að þeir geti aldrei orðið bestir.
Fyrir skömmu krækti landslið Íslands í handknattleik í silfur á ólympíuleikum og þjóðin trylltist. Landið varð stórasta land í heimi og ekki hefði verið hægt að fagna ákafar þótt gullið hefði unnist.
Ísland var þó ekki stórasta landið lengi og nokkrum vikum seinna rann stund sannleikans upp. Við erum smáð þjóð í gjaldþrota landi. Því miður fengum við ekki að búa lengi við leiðrétta sjálfsmynd þar sem Jóhanna Guðrún varð næstbest í Júróvisjón og sjálfsblekkingin skaut aftur upp kollinum. Við erum best og nú er þetta allt að koma. Svarthöfði er kominn með svo mikið ógeð á þessum hugsunarhætti vegna þess að við munum ekki ná okkur á strik fyrr en við gerum okkur grein fyrir að við erum dvergar og meðalmenni á alþjóðlegan mælikvarða þrátt fyrir höfðatölu.
Svarthöfði seldi því bókstaflega upp þegar hann sá forsíðu Fréttablaðsins í gær þar sem greint var frá einstöku afreki Eiðs Smára. Á yfir- og aðalfyrirsögn mátti skilja að hann hefði nánast sigrað í meistaradeild Evrópu einn síns liðs fyrir Barcelona. Vissulega er einstakt að landa svona stórum titli með því að sitja á varamannabekk en fyrr má nú fyrr vera. Heimspressan hefur aðra og réttari sýn á málið og Eiður sést einungis fagna sigrinum á síðum íslenskra blaða þannig að úti í hinum stóra heimi virðist hann ekki vera þessi lykilmaður sem Íslendingar vilja vera láta.
Við erum í svakalega vondum málum ef fjölmiðlar ætla ekki að fara að hysja upp um sig og byrja að endurspegla raunveruleikann frekar en búa til heimsmynd sem er lesendum þeirra og áhorfendum þóknanleg og í takt við landlæga minnimáttarkennd.
Ætla mætti miðað við þessa umfjöllun að Eiður Smári hafi unnið Meistaradeildina einn síns liðs og hjálparlaust. En eins og allir vita sem fylgst hafa með boltanum hefur hann sáralítið fengið að spila með um langa hríð og á því lítinn þátt í titlinum. Enda hefur mikið verið rætt um að hann skipti um lið. En þetta er dæmigerð þjóðrembuumfjöllun og svona hugsunarháttur stendur okkur fyrir þrifum í ýmsum málum - nú sem endranær.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.5.2009
Nærmynd af Jóhönnu Guðrúnu
Ég held það sé við hæfi að birta þessa nærmynd af Jóhönnu Guðrúnu úr Íslandi í dag 17. febrúar sl. - eftir að hún hafði unnið íslensku forkeppnina.
Svo er rétt að bæta þessu við - Fréttir RÚV 17. maí 2009.
Og auðvitað Kastljósinu sem efnt var til í tilefni dagsins.
Lífstíll | Breytt 18.5.2009 kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2009
Kolbrún og smásálirnar
Sú var tíðin að Kolbrúnu Bergþórsdóttur tókst hvað eftir annað að koma mér á óvart í pistlum sínum. Það var einkum mannfyrirlitning hennar sem mér fannst undarleg, sem og sýn hennar á íslensku þjóðarsálina. En ei meir, ei meir. Ég hef líklega metið Kolbrúnu rangt - á einn eða annan hátt. Svona hljóðar pistill hennar í Mogga dagsins. Nú er þjóðarsál í kreppu orðin smásál dauðans að hennar mati. Æ, æ, Kolla...
Svona skrifaði Kolbrún í desember.
Og hér ver Kolbrún ofurlaunin - réttlætir þau m.a. með ábyrgð. Hvaða ábyrgð?
Fleiri pistla Kolbrúnar má sjá hér. Ég uppfæri öðru hvoru.
4.5.2009
Ég kolféll fyrir honum þessum
Ég held að ég hafi aðeins einu sinni áður sett hér inn tónlistarmyndbrot úr Kastljósi, jólalag Baggalúts fyrir síðustu jól. Og ég held að ég hafi heldur aldrei sett tónlist í tvær færslur í röð - en ég stenst ekki mátið núna.
Ég kolféll fyrir þessu sjarmatrölli og hæfileikabúnti sem kom fram í Kastljósi kvöldsins. Hann heitir Helgi Hrafn Jónsson og það skein í gegn hve mjög hann nýtur þess sem hann gerir. Það hefur áhrif.
Annars er ég að undirbúa svolítið stórmál fyrir morgundaginn. Stand by me...
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)