Fréttafíkilsraunir, áhugatónlistarmenn og flugdólgur

Ég þurfti að bregða mér til Englands til að kveðja yndislegan, gamlan mann sem liggur banaleguna. Þetta var erfitt og tók mikið á, en dauðinn verður víst ekki umflúinn. Það er þó huggun harmi gegn að hann fær að deyja heima, umvafinn ást og umhyggju fjölskyldu sinnar.

JarðskjálftarÁ meðan ég var í burtu skalf jörð hér heima hressilega. Ég var nánast alveg netsambandslaus alla vikuna og fyrir fréttafíkil er það afleitt ástand, svo ekki sé minnst á þegar eitthvað gerist eins og jarðskjálftarnir hér í síðustu viku. Ég verð að viðurkenna að ég var gjörsamlega friðlaus og mér fannst ég stöðugt þurfa að fara í tölvuna og lesa, hlusta eða horfa á fréttir - en tengingin var vonlaus og ég varð alltaf að gefast upp. Svo var ég ítrekað spurð skjálftafrétta en ég vissi lítið meira en spyrjendurnir sem fengu sína vitneskju úr stuttum fréttum BBC. Fréttaskorturinn veldur því líka að mikið þarf að vinna upp þegar heim er komið. Dagurinn hefur bókstaflega farið í það hjá mér að hlaða niður dagblöðum, taka upp sjónvarpsfréttir heillar viku (er ekki byrjuð á útvarpinu) og innbyrða vikuskammtinn.

Svo varð lítill skjálfti klukkan hálfsjö í kvöld en ég fann hann ekki. Sá skjálfti virðist hafa átt upptök sín nær Reykjavík en skjálftarnir í síðustu viku, á því svæði sem fyrirhuguð Hverahlíðarvirkjun er áætluð, sem og hinar tvær sem eru á teikniborðinu í Gráhnjúkum og Litla-Meitli í Þrengslunum. En eins og komið hefur fram í fréttum er ekki vitað hvaða áhrif jarðskjálftarnir höfðu á borholur. Spurning hvort það sé nú klókt að reisa virkjanir þarna - nema reyndin sé sú að spennulosunin endist í einhverja áratugi. Aftur á móti segir Ingibjörg Elsa að Suðurlandsskjálftar hafi þann eiginleika að byrja austast í þverbrotabeltinu og færast síðan vestar - sjá hér. Þetta passar við skjálftann í kvöld sem var einmitt vestar en fimmtudagsskjálftarnir. Um einmitt þetta má líka lesa í fínum pistli Emils hér. Kannski við eigum eftir að fá skjálfta nær Reykjavík - ef ekki í þessari hrinu þá seinna, hver veit?

Skortur á almennilegu netsambandi olli því líka að ég gat ekki lesið nein blogg að gagni og ekki skrifað nema örfáar athugasemdir. Það kom fyrir að þegar ég var búin að lesa færslu og hugðist skrifa athugasemd - þá var tengingin rofin og ekkert hægt að gera. Ég hef lesið nokkur blogg í dag og gert eina athugasemd en ég sé nú að það er vonlaust verk að ætla að lesa aftur í tímann hjá öllum bloggvenzlum og þau blogg önnur sem ég er vön að fylgjast með. Ætli maður verði ekki að þjálfa sig í að geta kúplað út undir svona kringumstæðum og afskrifa bara þann tíma sem maður er ekki í sambandi í stað þess að rembast við að lesa 30 bloggfærslur hjá 50 bloggvinum plús athugasemdir auk allra fréttanna. Þetta er bara ekki vinnandi vegur!

Annars hef ég verið hugsandi eftir allar Englandsferðirnar undanfarið yfir aðstæðum áhugatónlistarmanna hér heima - sérstaklega þeirra í eldri kantinum - miðað við þar úti. Í Englandi er kráarmenning mikil eins og flestir vita. Mjög margar krár bjóða upp á lifandi tónlist, einkum um helgar. Þá eru fengin hin og þessi Bootlegbönd sem spila alls konar tónlist. Svo er algengt að fá hljómsveitir til að spila í afmælum, brúðkaupum og við alls konar tilefni, enda kostar það lítið. Þetta virðist vera upplagður vettvangur fyrir áhugamenn á öllum aldri til að spila fyrir áhorfendur - þeim sjálfum og öðrum til skemmtunar. Þetta tíðkast ekki hér á Íslandi. Hér hafa áhugamenn engan stað til að láta ljós sitt skína, spila saman og skemmta sér og öðrum. Einblínt er á ungar hljómsveitir og allt þarf að vera svo stórt, fínt, flott og fullkomið. Þetta er mikil synd. Ég veit um marga tónlistarmenn - bæði áhugamenn og fyrrverandi meðlimi í hljómsveitum - sem gætu vel hugsað sér að spila en hafa engan vettvang til þess.

Á föstudagskvöldið fór ég á krá þar sem ein svona áhugamannahljómsveit var að spila. Sveitin var sett saman í árslok í fyrra og hefur haft þokkalega mikið að gera við að spila á krám, í afmælum og víðar. Meðlimir eru allir í eldri kantinum, sá yngsti varð fimmtugur í fyrrahaust. Þeir kalla sig Bootleg og spila Bítlana, Stones, Van Morrison og fleira skemmtilegt. Það var fámennt á kránni en þeim var alveg sama - finnst þetta bara gaman, rétt fá fyrir kostnaði og láta sér það vel líka. Á Flickr-síðunni minni eru myndir af tveimur öðrum viðburðum frá í fyrra þar sem svona "eldriborgarabönd" koma við sögu, með nokkrum af sömu meðlimunum, enda eru sumir í fleiri en einu bandi. Mér finnst gaman að þessu, þetta er afslappað og skemmtilegt, kröfum er stillt í hóf og allir dansa og njóta kvöldsins - ekki síst hljómsveitarmeðlimirnir.

Ég kom heim í gærkvöldi með stórsködduð hné. Sat aftast í Flugleiðavélinni þar sem ekki er hægt að halla sætunum aftur. Fyrir framan mig sat kona sem skyndilega skellti sætisbakinu aftur með snöggum rykk. Mogginn sem ég var að lesa skall framan í andlitið á mér, ég saup hveljur hátt og snjallt en konan lét eins og ekkert væri. Ég sat pikkföst með konuna og sætisbakið í Flugleiðirfanginu og gat mig ekki hrært. En henni fannst greinilega ekki nógu langt gengið og hóf nú að reyna að skella sætisbakinu enn lengra aftur og virtist ekki sætta sig við að það færi bara ekki lengra. Þetta var þéttvaxin kona og hún beitti líkamsþunganum af fullu afli á sætisbakið - og mig. Ég er ágætlega leggjalöng og járnin í sætisbakinu skullu nú hvað eftir annað á hnjánum á mér og ég átti enga undankomuleið. Konan lét enn sem hún heyrði ekki sársaukahljóðin sem skruppu út úr mér og hætti ekki fyrr en ég hnippti í hana, bað hana að fara hægar í sakirnar og sagði að hún væri að misþyrma mér. Hún brást ævareið við, harðneitaði að hafa komið við mig og hreytti í mig ónotum. Ég held að ég hafi aldrei orðið vör við slíkan ruddaskap hjá neinum samfarþega mínum í flugvél. Í lok ferðarinnar var ég að spá í að sýna henni hnén á mér en lét kyrrt liggja. Það stórsér á þeim eftir lætin í henni, þau eru blá, marin og hrufluð. Ég kann konunni sem sat í 41D í FI 455 frá London 1. júní 2008 litlar þakkir fyrir samfylgdina og vona að ég þurfi aldrei að hitta þennan dónalega og tillitslausa flugdólg aftur neins staðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Velkomin heim,

Það er nú óþarfi að vera með mikið samviskubit þó örfá viskukorn bloggvina séu ekki lesin í þaula

Varðandi Flugleiðavélarnar þá er dóttir mín á því að það sé argasta ókurteisi að setja sætin aftur. Ég er hins vegar svo lappastutt að ég næ ekki niður, er oft dauðþreytt í baki eftir flug þar sem ég fæ engan stuðning af fótum, er reyndar farin að geyma bakpoka undir fótunum sem fótaskemil.

Kristjana Bjarnadóttir, 2.6.2008 kl. 22:26

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Mikið er nú gott að þú skulir vera komin heim aftur. Við skulum vona að hnén jafni sig fljótlega svo að þú getir farið að fara aftur niður á .... :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 2.6.2008 kl. 22:36

3 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Velkomin heim Lára Hanna, þetta hlýtur að hafa verið sárt úrþví þú ert blá og marin eftir lætin í konunni. - Þú ættir nú að láta "flugfélagið" vita af þessu, því þeir eru þá með alltof stutt á milli sætanna, sem þeir hafa komist upp með að gera ansi lengi.  -  Ætli þeir fari ekki bráðum að stafla í vélarnar til að fá sem besta nýtingu.  -  Ég vissi ekki að það væri lifandi tónlist á Kránni, er það kannski bara um helgar ?-

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 2.6.2008 kl. 23:54

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Velkomin heim Lára Hanna, mér var helst að detta í hug að þú værir farin á fjöll.

Samhryggist þér vegna vinar.

Það er lítil sem engin aðstaða hér á landi fyrir lifandi tónlist.  Merkilegur fjandi.

Dásamleg lífsreynsla að lenda í tillitslausu fólki með attitjúd í vindlahylkinu sem heitir flugvél.

Kveðjur inn í daginn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.6.2008 kl. 09:52

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég þori nú ekki fyrir mitt litla líf upp í svona vindlahylki sem heitir flugvél!

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.6.2008 kl. 15:31

6 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Velkomin heim. Ég fann til með þér þegar þú lýsti raunar þínar í vélinni. Hef lent einu sinni sjálf í aftasta röðinni og maður ætti að fara fram á að fá helmings afslátt þar. Þetta er manninum ekki bjóðandi, í alvöru.

já, meira lifandi tónlist á krám væri ekki verra. Þá myndi maður kannski drífa sig aftur út á lífið. En meðaljón nennir ekki að borga mörg þúsund krónur til þess að komast inn á veitingastað þegar einhver treður þar upp

Úrsúla Jünemann, 3.6.2008 kl. 15:36

7 Smámynd: Beturvitringur

Sæl þjáningasystkin. Ég, hávaxinn og lappalangur, veit sko að það er ekki tekið út með sældinni að kúldrast milli sætaraða, ÞÓTT EKKI REYNI NÚ einhverjir, hlunkar eða mjónur, að halla sér í fangið á manni - og lenda auðvitað bara á hnjám manns.

Hefur dottið í hug að leyfa afturábakhöllun í samvinnu, þ.e. ég fengi að leggja hnésbætur yfir fremra sætisbak og dingla mér beggja vegna við toppstykkið hins.

Í síðustu flugferð lenti ég í svona pyntingum en æjaði bara og stundiu kurteislega. Hallamaðurinn sagðist hafa borgað sinn miða fullu verði og mætti halla sér ef hann kysi. Þegar ég sagði honum að það væri bara ekki hægt, bífurnar á mér væru fastar við mig og ég fastur. Sessunautur minn var það hissa á frekjunni (og r.t.v. líka rolugangnum í mér) að hann kallaði í freyju, - sem eftir íhugun BAUÐ MÉR AÐ FLYTJA MIG um set.   Já, Bakari eða Smiður

Beturvitringur, 3.6.2008 kl. 18:24

8 Smámynd: Beturvitringur

Vinkona mín getur ekki á sér heilli tekið, lengi, lengi eftir eftir lengri eða skemmri fjarveru - hún þarf "aðeins að renna yfir" öll dagblöðin sem bíða hennar!

Beturvitringur, 4.6.2008 kl. 01:02

9 identicon

Velkomin heim, leitt að heyra með vin þinn :(

Vona að hnén batni fljótt.

alva (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 01:03

10 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Heil og sæl og velkomin aftur mín kæra!

Ég er nú ekki mikill ofbeldissinni, en hefði líklega lamið kellingarherfuna duglega fyrir þína hönd!

En ekki að spyrja að langlundargeði þínu og friðarást og það jafnvel þótt gerð sé tilraun til að gera þig að "Fatlafóli"!

Bestu bata og sumarkveðjur suður yfir heiðar!

Magnús Geir Guðmundsson, 4.6.2008 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband