Sannleikanum verður hver sárreiðastur...

...og sumir Draumalandinu líka. Ég hef ekki ennþá getað skrifað um Draumalandið, slík áhrif hafði myndin á mig. Þarf að sjá hana að minnsta kosti einu sinni enn - ef ekki tvisvar. En ýmsir hafa tjáð sig um myndina og sumir hrósað, aðrir gagnrýnt. Það sem gagnrýnendur myndarinnar hafa helst út á hana að setja er hægt að draga saman í eitt orð: "Áróður". Í neikvæðri merkingu.

En hvað er áróður? Orðabókin segir: "umtal eða skrif til að fá menn til að taka afstöðu með eða móti einhverju eða einhverjum; málafylgja, fortölur". Neikvætt? Ekki endilega. Það hefur hingað til ekki þótt neikvætt að beita einhvern fortölum eða vera málafylgjumaður - fylginn sér. En einhvern veginn hefur maður alltaf á tilfinningunni að í notkun orðsins "áróður" felist að verið sé að ljúga að manni. Yfirleitt er það líka svo.

Draumalandið - Hvað áttu þegar þú hefur selt allt?En það er óralangt í frá að verið sé að ljúga í Draumalandinu. Þvert á móti - þar er sagður nakinn, harðneskjulegur, hrikalegur sannleikurinn. Og sannleikurinn hefur meðal annars þann eiginleika að afhjúpa. Það gerir Draumalandið. Myndin afhjúpar fáránleikann, ofstækið, niðurlæginguna, eyðilegginguna og firringuna í kringum aðdragandann að og vinnuna við Kárahnjúkavirkjun.

Sannleikurinn er svo sár að þótt ég hafi verið alfarið mótfallin framkvæmdunum tókst samt að láta mig skammast mín. Ég skammaðist mín fyrir þetta fólk, stjórnmálamennina og öfgamennina sem lögðust flatir fyrir erlendum auðhringum og keyrðu þetta verkefni áfram af mesta offorsi sem sögur fara af í íslenskri atvinnusögu. Og nú er þetta að endurtaka sig með álvershugmyndirnar í Helguvík og á Bakka. Öllu á að fórna, öllu að kosta til, eyðileggja allt sem fyrir er - fyrir nokkur störf í verksmiðju.

Draumalandið er ekki áróðursmynd. Hún er nákvæmlega það sem okkur vantaði - innsýn í hina hliðina. Hliðina sem var þagað um. Hliðina sem var falin þegar framkvæmdirnar voru keyrðar í gegnum kerfið, óhagstæðar rannsóknarskýrslur faldar, þaggað niður í þeim sem vissu hve fáránlegar framkvæmdirnar voru og hve hörmuleg áhrif þær hefðu á efnahag þjóðarinnar. Draumalandið er mynd, sem sýnir okkur upphafið að endalokunum. Sýnir okkur hluta firringarinnar sem varð Íslandi að falli - í alvörugefnum spéspegli.

Ef við Íslendingar værum skynsöm, klár þjóð myndum við sjá til þess að þetta gerðist aldrei, ALDREI aftur. En það á að endurtaka leikinn í Helguvík og á Bakka. Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir efnahaginn sem er í rúst, náttúruna sem á sér engan sinn líka í heiminum, orkuauðlindirnar sem eru ekki óendanlegar og orkan hvorki endurnýjanleg né hrein. Og við gefum erlendum auðhringum orkuna, eða því sem næst. Eða hvað? Við vitum það ekki. Við fáum ekki að vita á hvað orkan er seld og hve mikið heimilin í landinu þurfa að niðurgreiða hana. Hvað er fólk að hugsa? Hvað eru fjölmiðlarnir að pæla?

Snemma í mánuðinum las ég grein í Fréttablaðinu eftir Skúla Thoroddsen. Hann var ekki ánægður með Draumalandið og býr enda á Reykjanesi. Hann vill álver í Helguvík og engar refjar. Önnur grein birtist fyrir nokkrum dögum, líka í Fréttablaðinu, eftir Jón Kristjánsson. Hann var heldur ekki ánægður, enda fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins sem ber einna mesta ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun. Grein Skúla er hér og grein Jóns hér.

Í dag birtist svo grein eftir annan leikstjóra Draumalandsins, Þorfinn Guðnason, þar sem hann svarar þessum tveimur herramönnum á mjög sannfærandi hátt. Ég tek undir allt sem Þorfinnur segir.

Þorfinnur Guðnason - Fréttablaðið 20. maí 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég var ánægður með greinina frá Þorfinni, hún er jafn góð og greinar hinna voru slæmar. Hvergi í þessum greinum sá ég samt minnst á lélegu áróðursmyndirnar sem Landsvirkjun lét framleiða fyrir almannafé og RÚV var meðframleiðandi að, sjá hér. Reynt var að láta líta út fyrir að um hlutlausar heimildarmyndir væri að ræða en það leyndi sér ekki hver hafði síðasta orðið. Eitthvað af þessum myndum má skoða hér.

Reyndar finnst mér þáttur fjölmiðla í þessu máli ömurlegur eins og kemur skýrt fram í Draumalandinu og þeim til háborinnar skammar.  Fréttastofa RÚV hefur oftar en ekki verið eins og blaðafulltrúi Landsvirkjunar og Alcoa og skortur á gagnrýnni umfjöllun hrópandi á þeim bæ eftir að Ómari Ragnarssyni var bannað að fjalla um virkjanamál. Líklega voru stjórnmálamenn með byssuhlaupið í bakinu á stjórnendunum þar.

Annars vil ég nota tækifærið og benda á heimildarmyndina Kóngar um Fljótsdalsvirkjun sem blessunarlega var blásin af. Þeim sem séð hafa Draumalandið finnst eflaust áhugavert að skoða forsögu Kárahnjúkavirkjunar og hliðstæðu. Sigur umhverfisverndarsinna vegna Eyjabakka var þó skammvinnur því að Framsóknarmenn eins og Finnur Ingólfsson og Halldór Ásgrímsson hafa einbeittan brotavilja og hætta ekki fyrr en allt leikur í ljósum logum.

Sigurður Hrellir, 20.5.2009 kl. 23:49

2 identicon

Alveg hreint frábær grein hjá Þorfinni. Ég tek ofan. Takk fyrir að birta hana hér - ella hefði hún eflaust farið framhjá mér.

Alda Sigmundsdóttir (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 00:05

3 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Flott svör hjá Þorfinni, og allt hárrétt.

Sigurður Hrellir, ég held að Eyjabakkar hafi alltaf verið yfirvarp, aðalpakkinn átti að vera Kárahnjúkar, leyfa 'umhverfisofsatrúarfólkinu' að halda að það hafi unnið eitthvað með því að bjarga Eyjabökkunum.  Því miður.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 21.5.2009 kl. 00:11

4 identicon

Grein Skúla er sterk, römm og mögnuð í hreinskilni sinni. Kvikmyndaleikstjórinn er fremur illa skrifandi, greinin skrumkennd og grunnt á óhreinlyndi áróðursmannsins. Sú aðferð hans að níðast á óbrotnu alþýðufólki til að skora stig í áróðursstríði er svívirðileg. "Skapandi heimildamynd" - hefði hann gert aðsúg að þeim sem raunverulega voru ábyrgir fyrir þeim ófarnaði sem Kárahnjúkavirkjun er væri hægt að virða honum það til vorkunnar, en við höfum séð myndir eftir Michael Moore og Þorfinnur er enginn Michael Moore.

nonnih (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 00:50

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þessa mynd á fullan rétt á sér og hún er miklu frekar varnaróður heldur en áróður.

Emil Hannes Valgeirsson, 21.5.2009 kl. 00:52

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér fannst Draumalandið mjög upplýsandi heimildarmynd.  Svargrein Þorfinns er mjög góð. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.5.2009 kl. 01:06

7 Smámynd: Jóhannes Einarsson

Draumalandið kemur öllu brotnu og óbrotnu alþýðufólki með gramm af glóru til að spyrja sig spurninga og blikna af skömm. Var að horfa á Kónga og það var ekki illa farið með nætursvefninn því hann er hvort sem er ónýtur. Sveiattann framsóknarmenn allra flokka.

Jóhannes Einarsson, 21.5.2009 kl. 02:06

8 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Jón segir frá því að hann var einn þatttakenda í þessu máli og því málið skylt. Hann var í flokknum sem hafði frumkvæðið og sat í ríkisstjórninni sem

kom þessu á koppinn.

Hann saknar þess að „það er langt í frá að hún dragi fram heildarmynd af framvindu mála, á þann hátt sem ég hélt að

heimildamyndir ættu að gera“. Vegna þessa segir Jón að myndin sé ekki heimildamynd, hún sé fyrst og fremst áróðursmynd. Ennfremur skrifar Jón að hann „verði að viðurkenna að ég kann ekki að draga markalínur millin heimildamynda og áróðursmynda“

Það er ágætt að Jón viðurkenni hann hann er ekki óskeikull. Hann virðist vera fær um, að eigin mati, að flokka Draumalandið sem áróðursmynd

af því að hann telur að heimildamyndir eigi að vera si eða só. Hann er á villigötum varðandi skilgreiningu heimildamynd og

einnig þegar hann flokkar myndina sem áróðursmynd - þótt hann falli í þá gryfju að gera það.

Jón telur upp nokkur atriði sem hefðu átt að vera með að hans mati. Og hann byggir á sinni skilgreiningu hvernig heimildamyndir eiga

„að sýna heildarmyndina“. Hér er hann að rugla saman sagnfræðirit og heimildakvikmynd sem er gerð út frá sjónarmiði höfunda. Það er ekki hlutverk þeirra sem gerðu myndina Draumalandið að draga fra

allt það sem gerðist og allt það sem á eftir að gerast. Það er ekki hægta ða búa til heildamynd. Atburðirnir eru ekki enn til lykta leiddir.

Það er ekkert fjalað um áhrif ofurfjárfestinganna á ástand efnahagsmála eftir hrun. Það er ekkert fjallað um tómar blokkir

á Austfjörðum.

Heimildaqmyndir eru ekki það sama og fræðslu- eða fréttamyndir. Það sem þær eiga sameiginlegt er að þær fjalla um raunverulega

atburði. Þær falla ekki undir skáldað efni þótt Jón gæti haft þá skoðun á umræddri kvikmynd.

Heiumidamyndir eru myndir sem sýna afstöðu þeirra sem gera myndina. Þeir myndu ekki gera myndina nema vegna þess að þeir eru

að tjá sig með þessu listformi. Myndin er byggð á raunverulegum atburðum,meira að segja eru fjöldamörg fréttainnskot í henni,

en hún er ekki fræðslumynd.

Hjálmtýr V Heiðdal, 21.5.2009 kl. 06:05

9 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Furða mig enn  á því að heitasta baráttumanni  íslenskrar náttúru, Hjörleifi Guttormssyni, skuli ekki hafa tekist að kveða þetta "LSD" austfirðinga í kútinn. (LSD skilgreindi verkfræðingur vinur minn á austfjörðum sem lang stærsti draumurinn fyrir 2 áratugum eða svo)

Á enn eftir að sjá þessa mynd, enda ekki hæg heimatökin.  Get samt ekki sagt að ég býði í ofvæni eftir þeirri upplifun á aðra upplifun ofan.

Þessi Kárahnjúkavirkjun er hins vegar orðin heimsfræg, sá heimildarmynd um daginn um framkvæmdir virkjunar undir heitinu, "risaframkvæmdir".  Sat svo í sakleysi við morgunarverðarborð á litlu sveitahóteli nú um helgina við rætur Klettafjalla, og heimamenn sem eru í einlægni forvitnir og áhugasamir um "hreim" gestanna, rifjuðu strax upp þessa heimildamynd þegar talið barst að Íslandi og spurðu;  Did they finish the project?  It must be great to have such a big power plant to help the poor economy that Iceland is suffering now, right?

Yeah right? sagði ég

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.5.2009 kl. 07:05

10 identicon

 Leyfi mér að setja hér inn tilvitnun í færsluna þína hér að ofan, þar sem þér er svo annt um sannleikann, sbr. fyrirsögn hennar:

"Og nú er þetta að endurtaka sig með álvershugmyndirnar í Helguvík og á Bakka. Öllu á að fórna, öllu að kosta til, eyðileggja allt sem fyrir er - fyrir nokkur störf í verksmiðju. " (leturbr. mín)

 Þegar gríman fellur og ofsatrúin, blindir öfgar og staðreyndafælnin sem að baki leynast blasa við manni, verður erfitt að taka mark á viðkomandi í umræðunni.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 10:18

11 identicon

Það sem Hildigunnur Rúnarsdóttir segir hér í 3. athugasemd er nákvæmlega það sem ég hef haldið frá upphafi þessara framkvæmda. Að áætlanir um Eyjabakkastíflu hafi aðeins verið sviðsetning, til að geta látið líta svo út að Kárahnjúkastífla sé málamiðlun. Með því að segja að "verið sé að bjarga Eyjabökkum" með því að stífla við Kárahjúka, þá var auðveldara að fá stuðning við framkvæmdina.

Svo voru teknar með einhverjar ár fjarri stíflustæðinu og hefðu ekki skipt neinu máli fyrir virkjunina, svo Siv geti gert einhverjar kröfur og fegrað þannig eigið andlit í málinu.

Þegar landsvirkjun og aðrir hagsmunaaðilar hafa svona háþróaða tækni og endalaust af peningum til að byggja dýrar virkjanir við erfiðar aðstæður, því ætti þá ekki líka að vera háþróaðar aðferðir við að sannfæra almenning og fá vilja sínum framgengt, þegar þeir þurfa?

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 10:32

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst greinar Skúla og Jóns góðar en ekki svar Þorfinns. Þeir eru fremur hófsamir og reyna að benda á að myndin halli réttu máli og það sé áróðursblær á henni. Það er yfirlætislegur bragur á svari Þorfinns. Hann svarar tæplega efnislega heldur reynir að gera Skúla og Jón hlægilega, sérstaklega þetta með áróðurinn. Hins vegar ber að gæta þess að hann er að verja höfundarverk sitt og hleypur þess vegna kapp í kinn. En hvað mát teygja þetta með allt í lagi sé með áróðurinn langt, hve nær finnst mönnum allt í lagi með Sigur viljans eftir Lenu Rifensthal sem menn eru sammála um að sé kvikmyndalegt meistaraverk? Enn ein gagnrýni hefur nú birst á myndina. En hún er eftir forstjóra Alcoa á Íslandi svo sumir munu eflaust vísa henni átómatískt á bug. Greinarhöfudnur talar um ómaklegar árásir á einn mann í myndinni. Ég tek það fram að ég er ekki stuðningsmaður stjórnvalda í þessu máli en menn verða að geta talað saman og mér finnst harðir andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar ekki geta talað við nokkurn mann sem ekki er þeim sammála í einu og öllu. Alir þeir sem ekki vilja lofsyngja kvikmyndina Draumalandið eru bara snúnir niður á augabragði. Engin andstaða er leyfð og krítikleysið á Andra Snæ og hans menn er algjört. Þessi mynd hefur fengið á sig trúarbragakennda helgimynd. Ég veit ekki hvorr eru hvimleiðari, stjórnvöld sem framkvæmdu virkjunina eða halalújasöfnuður Draumalandssinna. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.5.2009 kl. 11:15

13 identicon

Hef ekki séð myndina og veit ekki hvort ég geri, sé ekki tilgang í fortíðarfirru.  Núið er minn "raunveruleiki" og í núinu er ég í "Draumalandinu", ennþá.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 11:26

14 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

"22.04.2009

DRAUMALANDIÐ
* * * *
Ísland 2009. Ls: Þorfinnur Guðnason og Andri Snær Magnason. Háskólabíó. 1:30 klst.
Draumalandið er að mörgu leyti heilsteyptasta og markvissasta heimildamyndin í okkar fábreyttu kvikmyndasögu. Bragðsterkt handritið byggist á samnefndri metsölubók Andra Snæs sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2006 í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Þorfinnur leggur til merkilega og í raun óviðjafnanlega reynslu sína í heimildamyndagerð þar sem skáldlegt flug og tilbúningur svifta raunsæisverkefnum í viðbótarvíddir. Umfjöllun Draumalandsins felst að stærstum hluta í afhjúpandi gagnrýni á verkefni og aðferðir í virkjanamálum hérlendis, með skærustu kastljósi á Kárahnúkavirkjun og samskiptin við ál- og vopnaframleiðandann Alcoa. Sú varnarbarátta fyrir vistkerfunum sem þarna birtist spennir umfjöllunina um umhverfismál upp í finþátta tilfinningalegar kenndir. En það sem ræður úrslitum um ferskan og lífgandi ilm Draumalandsins er hvernig atburðir og þróun síðustu ára eru af listfengi og þrótti sett í víðara íslenskt og erlent samhengi, alveg frá síðari heimsstyrjöld og lýðveldisstofnun 1944. Verkið rímar og stuðlar af margvíslegri kímni - og á köflum hlakkandi kaldhæðni - persónum strítt af því þær sögðu það sem sögðu og gerðu það sem þær gerðu. Tónlistarhlið verksins er magnað stuðlaberg út af fyrir sig hjá Valgeir Sigurðssyni. Um áróðursþætti verksins sér náttúran sjálf.
ÓHT, Rúv Rás 2, Sdú, 17. apríl 2009." Kvikmyndagagnrýni síðdegisútvarpsins á Rás 2.

GRÆNA LOPPAN, 21.5.2009 kl. 12:43

15 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ertu búinn að sjá myndina, Siggi (aths. nr. 12)?

Páll... Ég mæli eindregið með því að þú sjáir myndina. Umfjöllunarefnið gæti kannski kallast fortíðarfirra að því leytinu að um er að ræða firru í liðinni tíð, en við verðum að læra af mistökunum og forðast að gera þau aftur - og aftur. Enda sjáum við ekki fyrir endann á afleiðingum og áhrifum þessara framkvæmda, hvorki á efnahags- né vistkerfið.

Ég las grein forstjóra Alcoa í morgun. Ljóst má vera öllum þeim sem hafa séð myndina að misskilningur hans er mikill. Í myndinni er alls ekki ýjað að því, að maðurinn sem um ræðir hafi þegið mútur.  Þar er heldur ekki farið með neinar dylgjur. Fyrir þá sem ekki hafa séð myndina er atriðið sem forstjórinn vísar í þannig, að John Perkins lýsir dæmigerðu ferli þegar auðhringar koma sér fyrir. Í myndinni er svo sýnt fram á hvernig lýsingar hann smellpassa við það sem gerðist fyrir austan. Þarna er ekki dylgjað um mútur. Miklu frekar er þetta umbun fyrir "vel" unnin störf - eftir á - og hlutverk við að sannfæra næsta bæjarfélag um nauðsyn þess að reisa álver þar líka.  Það er aftur á móti athyglisvert að forstjóri Alcoa skuli skilja það sem svo. Segir það ekki einhverja sögu?

Ef fólk vill í alvöru kynna sér málflutning aðstandenda myndarinnar bendi ég á þessi blaðaviðtöl og greinar:

Sigurður Gísli Pálmason - Moggi 7.4.09
Jóhann Bjarni Kolbeinsson - Moggi 8.4.09
Sigurður Gísli Pálmason - Fréttablaðið 11.4.09
Andri Snær Magnason - Moggi 2.5.09

Ég hef örugglega misst af mörgum greinum og viðtölum, eða gleymt að klippa út. Þætti vænt um að fá ábendingar.

Auk þess bendi ég á þessi myndbönd:
Andri Snær Magnason og Þorfinnur Guðnason í Kastljósi 2.4.09
Draumalandið - kynningarmyndband

Ef fólki finnst að einhverjum vegið í myndinni er því til að svara, eins og mig minnir að komi fram í viðtalinu við Andra og Þorfinn, að sá hinn sami sá alveg um það sjálfur að gera sig að athlægi, niðurlægja sig eða hvað sem fólk vill nefna það. Eins og kemur glögglega fram í fréttaúrklippunum í myndinni.

Ég hef málstað að verja. Ég hef náttúru að verja. Ég hef land mitt að verja og lífsskilyrði afkomenda minna í því landi. Ef það er "hvimleiður, trúarbragðakenndur halelújasöfnuður" sem það gerir - þá verður bara svo að vera. Enginn þarf að lesa skrif mín sem ekki vill það eða finnst þau hvimleið.

Enn og aftur hvet ég þá sem ekki hafa séð Draumalandið að drífa sig. Enginn ætlast til að allir séu samþykkir öllu sem þar kemur fram enda lítur hver sínum augum silfrið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.5.2009 kl. 12:46

16 Smámynd: Guðmundur Guðmundsson

Man einhver eftir því að Skúli Thoroddsen og Jón Kristjánsson hafi stungið niður penna þegar áróðursmyndir Landsvirkjunnar dundu á þjóðinni kvöld eftir kvöld? Það hafa sennilega verið „heimildarmyndir“.

Sigurður Þór Guðjónsson veit ekki hvor hópurinn er hvimleiðari, stjórnvöld sem reistu Kárahnúkavirkjun eða „halelújasöfnuður Draumalandssinna“. Um smekk tjáir ekki að deila, en hvorn hópinn telur Sigurður skaðlegri íslenskri náttúru og íslensku samfélagi?

Grein forstjóra Alkóa er skrifuð til varnar öðrum starfsmanni sama fyrirtækis. Forstjórinn segir hann hafa verið ráðinn vegna þekkingar sinnar á austfirsku samfélagi og reynslu af sveitastjórnarmálum. Það er sjálfsagt rétt og ekki í neinu ósamræmi við það sem fram kemur í kvikmyndinni. Það er alkunna að álfyrirtækið ætlar sér enn stærri hlut í orkuauð Íslendinga og hefur því mikla þörf fyrir reynda áróðursmenn sem þekkja til og vita hvernig á að liðka fyrir í sveitastjórnum. Þar duga ekki einhverjir fordekraðir forstjórar sem tolla ekki í sveitinnni og flytja á mölina strax og tækifæri gefst.

Guðmundur Guðmundsson, 21.5.2009 kl. 13:11

17 identicon

Aftur tek ég tilvitnun í þig og get ekki annað;

“Ég hef málstað að verja. Ég hef náttúru að verja. Ég hef land mitt að verja og lífsskilyrði afkomenda minna í því landi.”

Þetta er sannanlega göfugur málstaður sem þú lýsir þarna og notar til varnar hans alla miðla og meðul. Vönduð sem óvönduð því tilgangurinn helgar þín meðul.  Það leynist engum.

 En það eru fleiri málstaðir sem verja þarf í þessu tilliti.  Ég þekki fólk sem sömuleiðis er að verja landið sitt, umhverfi sitt, mannlífið kringum sig, eignir sínar, húsin sín, lífsskilyrði afkomenda sinna í byggðarlaginu sínu og landinu sínu og vill verjast þess að afkomendurnir sjái sér ekki annað fært en að flytja suður, því örlög þeirra sjálfra verða þá einnig þau þegar börnin eru farin.  Það hugnast þeim ekki.  Heldur ekki að sjá byggðina sína leggjast af smátt og smátt eins og verið hefur að gerast síðustu 30 árin vegna þess að afkomumöguleikana skortir og þeim meinað að nýta þau sóknarfæri sem finnast ríkulega í kring um það vegna þess að Reykvíkingum, fyrst og fremst, hugnast það ekki. Það er hrokafullur misskilningu, eða kannski er það bara sjálfbirgingsleg forsárhyggja beeservissersins, að ætla það að heimamenn hafi ekki hugsun á því að vernda umhverfi sitt, ganga um það af virðingu og láti sér ekki annt um það. En það keyrir hreinlega um þverbak þegar Reykvíkingar, einkum og sér í lagi þeir úr 101 telja sig þess umkomnir að kenna öðrum hvernig ganga beri um umhverfi sitt, vernda það og viðhalda.

Já - það hafa fleiri málstað að verja Hanna Lára.  Finnst þér hann eitthvað ógöfugri?

Það finnst mér ekki.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 15:09

18 identicon

Ég fór á þessa mynd með útlending og við vorum bæði sammála um að hún væri frekar illa skipulögð og dálítið kraðakskennd. Ég tek alveg undir hluta skilaboðanna sem hún kemur með en myndin er þó alltof einhliða til að verða trúverðug sem heimildarmynd. Þetta er eiginlega áróðursmynd og snjallari handritshöfundur hefði getað gert hana betri sem slíka.

Fyndnust var þó byrjunin þegar Andri fer að ræða um hve forfeður hans höfðu haft það gott fyrir daga vélbúnaðarins. eiginlega yfirlýsing um sérvitrinshugsjón höfundar sem gerir hann marklausan sem nokkurskonar fulltrúa framtíðardrauma.

Átrúnaður fjölda fólks á þann mann er mér hulin ráðgáta því hann er ekki framúrskarandi rithöfundur eða hugsjónasjení. Myndin bendir ekki á neinar lausnir heldur heldur endalaust áfram að lemja á hinum illu orkufulltrúum. það rýrir gildi hennar endanlega í flokk heimildarmynda.

Þetta er bara óraunsæ draumsýn metnaðarlítils sérvitrings og það er synd að náttúrusinnar íslands hafi ekki getað fundið sér öflugri hálfguð því Andri er jú bara vælkenndur orðstaglari.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 15:54

19 Smámynd: Jóhannes Einarsson

Nú er illt í efni. Hann Gylfi með athugasemdina hér fyrir ofan hefur svo sannarlega slegið mig útaf laginu. Mér láðist alveg að fara með útlending á myndina. Hefði líklega séð hana í allt öður ljósi. Meiri afdalahátturinn í manni að fara með íslensku fólki að sjá myndina.

Jóhannes Einarsson, 21.5.2009 kl. 16:31

20 identicon

Já Jóhannes, það var nefnilega afar sniðugt að bjóða útlending í bíó í þetta sinn því manneskjan sú var ekki búin að mynda sér skoðanir á höfundinum eða taka þátt í íslenskum umræðum sem gaf henni það forskot að dæma myndina frá myndarinnar verðleikum en ekki hinni alþekktu Andradýrkun sem yfirskrifar gagnrýna og eðlilega hugsun.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 18:03

21 Smámynd: AK-72

Núnú, var þetta útlendingur sem er búsettur hér?

AK-72, 21.5.2009 kl. 20:25

22 identicon

Óþarft að þvæla málin piltar. Mín einu skilaboð voru á þá leið að hér er í gangi ákveðin höfundardýrkun sem kemur fram í óverðskuldaðri upphafningu á mynd sem er marklaus sem heimildarmynd vegna einhliða málflutnings, og fjarri því öflug áróðursmynd því af nægu hráefni var að taka.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 20:40

23 Smámynd: AK-72

Þá hlýtur þú þá að vera á því að myndin sem Landsvirkjun framleiddi væri marklaus heimildarmynd vegna einhliða málflutnings.

En mig langar að vita meir um þennan útlending, er viðkomandi búsettur hér á landi og hversu lengi hefur sá verið búsettur hér á landi?

AK-72, 21.5.2009 kl. 20:51

24 Smámynd: AK-72

Annars velti ég því fyrir mér, miðað við orð þín Gylfi, hversvegna heimildarmynd eigi að velta fram lausnum. Er það hlutverk heimildarmynda sérstaklega að koma með lausnir? Eiga ekki heimildarmyndir að fókusera á viðfangsefni sitt sem í þessu tilfelli var stóriðjuvæðingin. Og er það eina sem þú getur notað sem rök, að fólk sé blint af einhverri Andra-dýrkun þó það finnist myndin sterk og það veki það til umhugsunar?

AK-72, 21.5.2009 kl. 20:59

25 identicon

Ég sá aðeins hluta þeirrar myndar en auðvitað bar hún taum höfunda sinna. Viðkomandi útlendingur hefur búið hér í 9 ár og er með ríkisborgararétt. Dömunni fannst lítið til myndarinnar koma, rétt eins og mér. Okkur fannst þetta vera linnulaus stappa af einhliða áróðri sem lamdi mann allan tímann.

Ég var alltaf að bíða eftir því að myndin kæmi með tillögur eða lausnir því mér finnst það vera grundvallarábyrgð áróðursmeistara að reyna svo. Svo var ekki og því fannst okkur myndin vera frekar gremjukennt fálm náttúruverndarsinna og minnisvarði um árangursleysi þeirra gagnvart t.d. Kárahnjúkamálinu.

Ég styð og hef ætíð stutt að orkunýtingu verði að hámarka og tek undir margt sem umhverfissinnað fólk segir um landnýtingu. Margt við málstað þeirra á fullan rétt á sér en ef þetta er það besta sem þeir geta dregið upp í áróðursskyni þá eru þeir ekki í góðum málum.

Byrjunarsjónarmið Andra í upphafi myndar er sérvitringslegt viðhorf manns sem hefur ekki hæfileika til að ná jafnvægi á milli náttúru og skynsamlegrar náttúrunýtingar. Mér er óskiljanlegt hví hann hefur hlotið sinn háa stall á meðal náttúruverndarsinna því árangur þeirra byggir á málamiðlunum og skynsemi, frekar en fortíðarkenndri draumsýn.

Náttúruverndarinnar höfðu fínt tækifæri til að spila úr með þessar mynd en það er orðið ljóst að hún hefur hvorki vakið upp hugsarfarsbreytingu eða byltingu.

Þetta er bara áróðursræma allt að því trúarleg viðhorf til landsins sem þó breytir sér sjálft með árunum og það án heimilda frá umhverfisstofnun. Hún býður enga sátt, engar lausnir heldur gremju fárra aðila sem telja sig eiga meiri rétt en mig til að hafa skoðanir á orkunýtingu.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 21:21

26 identicon

Talandi um halelújasöfnuð! Ég fór eitt sinn á fund hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem forstjóri Landsvirkjunar var með fyrirlestur. Hann fór strax að fjalla um Álframleiðslu. (þó Landsvirkjun í eigu almennings sé orkufyrirtæki en ekki álfyrirtæki) Hann sagði: "Álið hefur víðast hvar verið kallað hinn græni málmur, vegna möguleika á að framleiða léttari farartæki sem brenna minna af jarðefnaeldsneyti". Fólkið í salnum kinkaði kolli samtaka. Fyrir utan húsið voru eingöngu jeppar af stærstu og þyngstu gerð, álíka margir og fundarmenn og með stórum dekkjum, enginn fólksbíll. Semsagt einn maður í hverjum bíl og ég get fullyrt að flestir, ef ekki allir fundarmenn voru á þeim þyngsta bíl sem þeir höfðu átt. Geta menn nefnt dæmi um að áliðnaðurinn hafi orðið til þess að létta farartæki?

Að álið sé hinn "græni málmur" !!!! Það fer margfallt meiri orka í að framleiða ál en til dæmis stál og fleiri efni og þar að auki miklu meiri loftmengun við sjálfa álbræðsluna.

Hann sagði líka um Kárahnjúka og Eyjabakka: "Það vissi enginn um þetta svæði fyr en Landsvirkjun fór að hafa áhuga á því". Þá fór ánægjukliður um salinn með svolitlum hæðnishlátri. Fleira var í þessum dúr, sem mynnti mig svolítið á eitthvað sem ég hafði séð á sjónvarpsstöðinni Omega.

Sjálfur kom ég gangandi á þennan fund, lengri vegalengd en flestir fundarmanna.

Af hverju þarf að stilla málum svo upp að það megi ekki vera á móti þessari stóriðjustefnu nema að hafa LAUSNIR? Fyrir daga Kárahnjúkavirkjunar var hér mikil velmegun og atvinna sú mesta í heiminum. Það þurfti að flytja inn erlent vinnuafl, mest í sjávarútveg á Ausfjörðum en hvernig er staðan núna?

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 01:43

27 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Góð svargreinin hans Þorfinns Guðnasonar, við dapurlegum greinum þeirra Skúla og Jóns Kristjánssonar.  Ég sá Draumalandið á páskadagskvöld og bloggaði um þá upplifun mína, 13.apríl sl.

   Myndin hafði verulega mikil áhrif á mig, svo mikil,  að ég er ekki enn búin að jafna mig!  -  Ég varð reið, ég hló,  og ég grét af reiði, og ég grét af sorg, þegar myndinni lauk,  á meðan ég horfði á kreditlistann renna á tjaldinu.  - En á heimleið var ég döpur, og enn daprari verð ég þegar ég hugsa til þess að enn skuli vera til fólk sem ver gjörðir þeirra ráðamanna sem hér réðu ríkjum og knúðu fram þessa virkjun á sínum tíma með offorsi og látum

. Og að fólk skuli enn verja þessar gjörðir eftir að hafa séð myndina og horft upp á ráðamenn hlæja að þessum einföldu Íslendingum sem þau plötuðu upp úr skónum og fengu þannig sitt fram. - HVERNIG GETUR FÓLK VERIÐ SVONA BLINT? - EÐA ER ÞAРSVONA KÚGAÐ?

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 22.5.2009 kl. 01:44

28 identicon

Dálítið hjákátlegt að Alcoa forstjórinn skrifar hlýlega um heimamenn á Austurlandi en treystir sér ekki að búa þar lengur, hann flutti suður fyrir nokkru,  þrátt fyrir álverið...

HStef (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 18:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband