Færsluflokkur: Sjónvarp

Ótrúlegur andskoti

Eitt af því sem talið er hafa valdið efnahagshruninu er andvaraleysi almennings á Íslandi. Almenningi til varnar skal rifjað upp að hann var blekktur og dreginn á asnaeyrunum. Aðallega af banka- og stjórnmálamönnum sem og eftirlitsaðilum sem fólk treysti til að vinna vinnuna sína.

En fjölmiðlar spiluðu þar stórt hlutverk. Ég minni á viðtölin við Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, um þátt fjölmiðla í aðdraganda efnahagshrunsins sem sjá má neðst í þessum pistli. Þar segir White m.a.: "Ein aðallexían sem á að koma út úr öllu þessu hræðilega ferli er sú, að fjölmiðlar eiga að tala máli þjóðfélagsins í heild. Þeir eiga að gegna þjóðfélagslegu hlutverki, vernda hagsmuni fólksins."

Því fylgir ábyrgð að reka fjölmiðil - ýmiss konar þjóðfélagsleg ábyrgð. Líka hjá þeim einkareknu. Í vetur hefur mikið verið kallað eftir fleiri fréttaskýringaþáttum í fjölmiðlum. Öflugri rannsóknarblaða- og -fréttamennsku. Fjárskorti er venjulega kennt um vöntun á slíku. Mér var því mjög brugðið þegar ég sá þessa frétt á DV.is í dag.

365 í útrás til Argentínu - DV.is 16.8.09

Ég þekkti ekki þættina sem þarna er vísað í - Wipeout. Leitaði á YouTube og fann t.d. þetta sýnishorn.

Er þetta álit 365 miðla á andlegu atgervi íslensku þjóðarinnar? Hafa þeir rétt fyrir sér? Vill fólk frekar svona sjónvarpsefni en t.d. efni á borð við Kompás eða Ísland í dag eins og sá þáttur var? Um áramótin var Ísland í dag lagt niður sem fréttaskýringaþáttur og léttmetið hefur ráðið þar ríkjum síðan með örfáum undantekningum. Kompási var hent út í janúar. 365 ver gríðarlegum fjárhæðum í enska boltann og annað íþróttaefni. Og samkvæmt frétt DV á nú að senda 120 manna hóp til Suður-Ameríku til að taka upp fíflalæti.

Þetta finnst mér undarlegur skilningur á þjóðfélagslegu hlutverki og ábyrgð fjölmiðla - og furðuleg meðferð á fjármunum.


Æmt og skræmt í eldhúsinu

Aparnir þrírÞað er ekki oft að ég nenni að horfa og hlusta á eldhúsdagsumræður - sem ég held að heiti "Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra" á virðulegu þingmáli í messu með hálstau. En það gerði ég í gærkvöldi - frá upphafi til enda. Vaðallinn í sumum fór reyndar inn um annað og út um hitt og mér finnst ótrúlegt að hlusta á fáfengilegt röflið í fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem áttu stærstan þátt í að koma þjóðinni á hausinn. Þeir skjóta eiturörvum út og suður og kvarta sáran yfir að ekki sé búið að moka flórinn sem flokkarnir þeirra sáu um að dreifa í tonnavís í 12 til 18 ár. Eins og það sé hægt á örfáum vikum eða mánuðum.

Þessi tvískinnungur minnir óneitanlega á framferði auðjöfranna og furðulegt nöldrið í þeim um "þjóðnýtingu" og "ríkissósíalisma" eins og Egill bendir á hér. Bjarni Ben var líka fyrirsjáanlegur þegar hann eyddi mestöllum ræðutíma sínum í að tala máli kvótakónganna. Ekkert nýtt þar.

Sigmundur Davíð kom mér á óvart... og þó ekki. Framsókn er Framsókn hvort sem um er að ræða nýja vendi eða gamlar, úr sér gengnar og rispaðar plötur. Hann var fram úr hófi æstur og einkennilega ómálefnalegur miðað við efni og aðstæður. Ef marka má framgöngu og orð Bjarna og Sigmundar Davíðs er lítil von um að allir flokkar taki höndum saman og bjargi þjóðinni. Þeir ætla ekki að vera samvinnufúsir og Bjarni er harðákveðinn í að vernda kvótakóngana sína.

Ég vil annars leiðrétta leiðan misskilning sem víða veður uppi. Margir tala Austurvöllur 25. janúar 2009um að búsáhaldabyltingin hafi breytt öllu. Sagt er að allt hafi gerst 20. janúar fyrir framan Alþingishúsið og síðan fyrir utan Þjóðleikhúsið... var það ekki kvöldið eftir? Að þessir atburðir hafi valdið stjórnarslitunum. Þetta er röng söguskoðun. Frá því í byrjun október stóð Hörður Torfason á hverjum degi á Austurvelli og mótmælti. Þau mótmæli þróuðust síðan í laugardagsfundina sem héldu áfram viku eftir viku, mánuð eftir mánuð.

Hægt er að rekja sögu laugardagsfundanna á blogginu mínu, ég hef skrifað um þá velflesta, held ég. Þessi pistill er frá 17. október og þar furða ég mig á slakri mætingu og viðhorfi til mótmæla. Þennan skrifaði ég 3 dögum seinna og gagnrýni fjölmiðlaumfjöllun og talningu. Hér er pistill um 21. janúar, búsáhaldabyltinguna, og hér skrifa ég um laugardagsfundinn þar á eftir, þann 25. janúar, sem var líklega sá fjölmennasti fram að því.

Kjarni málsins er, að mótmælin byggðust upp og mögnuðust. Róuðust í jólamánuðinum en urðu síðan æ öflugri og náðu hámarki í lok janúar. Samt fannst mér aldrei nógu margir mæta og ég skildi ekki af hverju öll þjóðin kom ekki á Austurvöll. En Búsáhaldabyltingin, Kryddsíldarmótmælin á gamlársdag og Þjóðleikhúsmótmælin voru afleiðing, ekki orsök. Það má ekki gleyma laugardagsfundunum á Austurvelli og hlutverki þeirra - og Harðar Torfasonar - þegar talað er um byltinguna. Svo ekki sé minnst á alla frábæru Borgarafundina sem Gunnar Sigurðsson og félagar stóðu fyrir. Og það var ekki bara fólkið í Borgarahreyfingunni eða kjósendur hennar sem gerðu þessa byltingu. Hreyfingin getur ekki eignað sér hana þótt fólkið innan hennar hafi verið duglegt að mótmæla og tala á fundum. Á mótmæla- og borgarafundina mætti fólk úr flestum flokkum, ef ekki öllum. Ævareiðir Íslendingar sem fannst á sér brotið og kröfðust réttlætis. Sem við höfum reyndar ekki fengið ennþá. En við sem mættum og létum í okkur heyra eigum öll hlutdeild í búsáhaldabyltingunni - hvort sem við erum innan flokka eða utan, hægri-, vinstri- eða miðjusinnuð. Eða bara ópólitísk með öllu.

En hér eru eldhúsdagsumræðurnar - klippt eftir flokkum. Sumir æmta og skræmta, aðrir tala af skynsemi og yfirvegun. Dæmi hver fyrir sig.

Borgarahreyfingin

 

Vinstri hreyfingin - grænt framboð

 

Samfylkingin

 

Framsóknarflokkurinn

 

Sjálfstæðisflokkurinn

 


Nærmynd af Jóhönnu Guðrúnu

Ég held það sé við hæfi að birta þessa nærmynd af Jóhönnu Guðrúnu úr Íslandi í dag 17. febrúar sl. - eftir að hún hafði unnið íslensku forkeppnina.



Svo er rétt að bæta þessu við - Fréttir RÚV 17. maí 2009.

 
 
Og auðvitað Kastljósinu sem efnt var til í tilefni dagsins.

 

2. sætið á 10 ára fresti...

...og úti þess á milli? Ég er einn minnsti Júróvisjónsérfræðingur landsins en þekki þó stigagjöfina nokkuð vel. Enda er hún það eina sem ég hef fylgst með nokkuð lengi. Fátt kom á óvart við stigagjöfina í kvöld en þó var ekki eins eindregin slagsíða á henni og undanfarin ár. Kannski er það vegna hins breytta fyrirkomulags.

Svo vill til að einu lögin sem ég hafði lagt mig eftir og hlustað/horft á voru einmitt íslenska og norska lagið. En í kvöld var maður í stofunni hjá mér sem kallaði og hrópaði álit sitt á hinum lögunum sem ég sinnti þrifnaði, svalaskrúbbi, gluggaþvotti og öðrum skemmtilegheitum. Hann hefur haft tónlist að aðalatvinnu mestallt sitt líf og honum fannst norska lagið langbest - tónlistarlega séð. Var reyndar líka mjög ánægður með það íslenska.

Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því, að Rybek - flytjandinn sjálfur - samdi bæði lag og texta norska lagsins. Hann var vel að sigrinum kominn, guttinn.

Ég hafði spáð íslenska laginu 3. - 7. sæti svo 2. sætið kom skemmtilega á óvart. Þökk sé Norðmönnum. En í ár eru einmitt 10 ár síðan Selma lenti líka í 2. sætinu, munið þið...? Heyrir einhver samhljóm með því og íslenska laginu í ár?

 Hér eru sigurlögin tvö - það norska og íslenska - og lokahnykkur atkvæðagreiðslunnar.



Ég má til með að setja hér inn íslenska framlagið frá 1989 - svona til að afsanna 10 ára "regluna". Takk fyrir að benda á þetta, Emil. Fengum við ekki 0 stig það árið?


Besta Júróvisjónatriðið - douze points

Ég sé á Fésbókinni að fólk er yfirkomið af tilfinningaþrunginni gleði yfir velgengni Jóhönnu og íslenska lagsins. Karlar (og konur) játa að hafa fellt tár, sem sumir vilja meina að þýði að þeir séu farnir að reskjast óhóflega. Og allir virðast hafa horft - eða flestir. En ekki ég.

Ég er greinilega kaldlynd og gjörsamlega laus við evrópska föðurlandsást. Nennti ekki að horfa á keppnina en sat fyrir úrslitunum og haggaðist ekki þegar Ísland datt inn í restina. Var slétt sama. Mér hefur alltaf fundist stigagjöfin skemmtilegust og mikil þjóða- og þjóðernisstúdía. Varð fyrir vonbrigðum að fá ekki þetta hefðbundna: "Cinq points, douze points..."

En svo sá ég þetta atriði í tölvunni og þarna fann ég mitt tólf stiga lag. Þetta er sko almennileg músík en ekki evrópskt glimmergaul, yfirgnæft af hálfberu, spriklandi plastfólki!


Man einhver eftir þessu?

Fyrst var það lauflétt æfing á unisex-klósettinu.

Síðan alvaran á barnum.


Silfur dagsins

Hér kemur Silfur dagsins með sérstakri kveðju til Íslendinga sem búsettir eru erlendis og virðast ekki geta horft á sjónvarpsstöðvarnar á netinu. Hvorki í beinni né eftir á. Gaman væri að vita hvað veldur þessu sambandsleysi og hvort það er mikið mál að ráða bót á því. En miðað við allan tölvupóstinn sem ég fæ frá þessum löndum okkar í útlöndum sem reyna að fylgjast með á þetta við um fólk víða um heim. Þeim bendi ég líka á þessa slóð.

Inn gægðist einn stjórnmálamaður, Sigurjón Þórðarson úr Frjálslynda flokknum og talaði um kvótamálin. Það þarf að ræða miklu meira um þau. Til dæmis hver á kvótann núna? Var hann ekki veðsettur í topp hjá bönkunum sem nú er búið að þjóðnýta? Er þá ekki kvótinn kominn í eigu þjóðarinnar aftur? Eða hvað?

Annars var þema þáttarins, ef þema skal kalla, spilling og sukk  útrásarbarónanna og hvernig þeir blekktu markaðinn með því að stofna alls konar skúffufyrirtæki og beita klækjum og svikum til að draga sér æ meira fé. Jón Steinsson kallaði þetta réttilega þjófnað. Símaviðtalið við Jón Steinsson gekk því miður brösuglega en hann var góður og Jón Daníelsson talaði um áhugaverða hluti - hlustum vandlega.

Vettvangur dagsins 1 - Baldur, Agnes, Þóra Kristín,  Birgir
Takið eftir ummælum Birgis um skilningsleysi á pólitískri ábyrgð

 

Vettvangur dagsins 2 - Sigurjón, Gerður Kristný, Einar Már

 

Óli Björn Kárason og bókin hans um FL Group. Ég vildi gjarnan lesa þessa bók og ég tek ofan fyrir þeim blaðamönnum sem bíða ekki eftir opinberum rannsóknum heldur rannsaka málin sjálfir. Vonandi gera það fleiri.

 

Símaviðtalið  við Jón Steinsson gekk brösuglega en Egill náði honum aftur í restina.
Þeir Jón Daníelsson höfðu margt að segja sem allir ættu að hlusta á af athygli.

 

Í beinu framhaldi af málflutningi Jóns Steinssonar bendi ég á grein eftir hann í Fréttablaðinu sl. miðvikudag - hún er hér.


Afsökunarfrétt, Einar Már og skrílslæti forsætisráðherra

Ég ætla að líta á þessa frétt sem afsökunarbeiðni RÚV fyrir fréttaflutninginn af mótmælunum á Austurvelli á laugardaginn og eru RÚVarar menn að meiri í mínum augum fyrir vikið.

Kastljós var stútfullt af áhugaverðu efni í kvöld. Nú veit ég ekki hvernig tengslum milli fréttastofu og Kastljóss er háttað en viðtalið við Einar Má var gott innlegg í mótmælaumræðuna. Ef einhver hefur misst af þrumugreinum hans eru þær allar í myndaalbúmi vinstra megin á síðunni merktu Einari Má.

En Geir H. Haarde er samur við sig og er næstum fullnuma í að tala niður til þjóðarinnar af hroka og sjálfumgleði. Davíð má vera stoltur af lærlingi sínum enda getur hann óhræddur gert hvaða mistök sem honum sýnist í Seðlabankanum án þess að hróflað sé við honum. Þá varðar engu þótt það bitni á allri þjóðinni og þjóðir heims vilji ekkert með okkur hafa á meðan þeir sitja sem fastast - þeir halda dauðahaldi í völdin og láta eigin hagsmuni ganga fyrir hagsmunum þjóðarinnar.

Og ekki vill Geir kosningar, hvað sem á dynur. Stjórnin sem nú situr er lömuð, vanhæf og trausti rúin jafnt innanlands sem utan. Þjóðin vill kjósa en Geir skellir skollaeyrum við vilja hennar. Það er svosem ekkert nýtt en nú er neyðarástand og það þarf að hefja undirbúning kosninga sem fyrst. Sama hvað Geir vill eða hvað Geir finnst. Það er lífsspursmál fyrir íslensku þjóðina að fá inn fólk sem getur leyst vandann og endurheimt trúverðugleika og traust, því augljóst er að núverandi stjórn ræður ekkert við ástandið.

Ég er ein þeirra sem kann forsætisráðherra litlar þakkir fyrir að kalla mig skríl og færi það hér með til bókar. En það var svosem viðbúið. Líkast til er hann dauðhræddur maður í vörn og þá er beitt ýmsum brögðum. Hræddur um að missa völd, við að Flokkurinn sé að klofna, hótanir Davíðs... hvað veit maður? En hér eru sýnishorn af skrílslátunum á Austurvelli. Tekið skal fram að enginn slasaðist og ekkert skemmdist.

Skrílslæti Sigrúnar á Austurvelli


Silfur dagsins

Þá er það Silfur dagsins. Gunnar Smári var kaldhæðinn að venju og sumu sem hann sagði var ég sammála, öðru ekki. Ég var aftur á móti ofboðslega hrifin af málflutningi Sigrúnar Elsu og Sveins Valfells. Þegar Sveinn sagði, eins og allir hagfræðingar og sérfræðingar í efnahagsmálum undanfarið, að virkjanir og stóriðja væri alls ekki það sem ætti að fara í nú um stundir sló mitt náttúrhjarta hraðar og Sveinn hitti mig þar í hjartastað - fyrir nú utan allt hitt sem hann sagði. Ég var ekki síður hrifin þegar í ljós kom að Sigrún Elsa átti stóran þátt í að forða orkuauðlindunum okkar frá útrásarbarónunum. Setti hana umsvifalaust á stall.

Næstur var Stefán Ólafsson sem fjallaði um "Finnsku leiðina". Mér finnst, og hefur alltaf fundist, Stefán magnaður. Hann er eldklár, hefur hjartað á réttum stað og þekkingu til að færa rök fyrir hverju einasta orði sem hann lætur út úr sér. Sáuð þið línuritið um skuldir þjóðarbúsins? Ótrúlegt. Egill birti það á blogginu sínu hér. Hlustum á Stefán - alltaf.

Hér brengla ég röðinni og tek Steingrím J. næst. Hann sagði margt sem mér líkaði vel. Kom mér á óvart. Til dæmis þetta: "Okkur er að bera af leið. Við erum að missa þessa hluti út í vitleysu. Það er verið að Ameríkanisera íslenskt samfélag á tvöföldum hraða. Við erum að hverfa frá þeim gildum sem best hafa gefist okkur, sem eru norrænt, samábyrgt velferðarsamfélag." Þetta er alveg hárrétt hjá Steingrími og það fyrsta sem mér dettur í hug er einkavæðing heilbrigðiskerfisins. Svo tek ég að sjálfsögðu undir lokaorðin hans - nema hvað!

Svo eru það hagfræðingarnir tveir, Gylfi Zoega og Jón Daníelsson. Ég legg til að fólk hlusti mjög vandlega á þá. Stoppi, spóli til baka, hlusti aftur og melti það sem þeir eru að segja. Egill minnist á grein sem þeir skrifuðu og var birt í Morgunblaðinu 27. október sl. Ég set hana inn hér fyrir neðan og kannski væri best að lesa hana fyrst og hlusta svo á þá félaga. Ég spurði Jón í dag hvort hann væri fáanlegur til að flytja heim og verða seðlabankastjóri og hann sagði ekki já - en hann sagði heldur ekki nei. Hann sagði aftur á móti ýmislegt annað.

  Gylfi Zoega og Jón Daníelsson - Mbl. 27. okt. 2008


Silfur Egils í dag

Góður þáttur. Enn gerir Egill lítið út mótmælunum í gær, blessaður. Og ég skil ekki af hverju Dr. Gunni lagði nafn sitt við mótmælin miðað við hvernig hann talaði um þau. Kristján Þór og Kristrún áttu bágt. Þau geta ekki varið flokkana sína á trúverðugan hátt - enda kannski ekki hægt. Úlfar var frábær! Ég tek undir allt sem hann sagði.

Vettvangur dagsins

 Einar Már Guðmundsson - alltaf góður

Jón Baldvin Hannibalsson - fer á kostum

 

Einar Már - Morgunblaðið 16. október 2008 - smellið til að stækka

Einar Már Guðmundsson - Mbl. 16. okt. 2008


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband