Það er engin spilling á Íslandi, er það?

Þessi pistill er frá 10. maí 2008 og fjallar um spillinguna og múturnar í tengslum við virkjanamálin. Eigum við ekki bara að kalla þetta sínum réttu nöfnum í stað þess að fara eins og kettir í kringum heitan graut!

********************************************

Peningar Það er engin spilling á Íslandi, er það? Og hér tíðkast ekki mútur, er það? Hvaða vitleysa! Nýleg, erlend könnun sýnir Ísland í 6. sæti yfir minnsta spillingu í heiminum - hrapaði þó úr 1. sæti. Um það má lesa hér og skoða spillingarlistann í heild sinni. Fólk hlær almennt að þessu, því varla fyrirfinnst sá Íslendingur á fullorðinsaldri sem ekki hefur beina eða óbeina reynslu af spillingu á Íslandi í ýmsum birtingarmyndum, opinberri eða óopinberri. En það má bara ekki kalla það spillingu. Það má heldur ekki minnast á mútur, það er bannorð. Við greiðum ekki mútur og við þiggjum ekki mútur. Slíkur ósómi tíðkast bara í útlöndum. Á Íslandi er svoleiðis greiðasemi kölluð til dæmis "fyrirgreiðsla" eða spegilmyndin "að greiða fyrir málum". Fallegt og kurteislegt orðalag. En ekki mútur, alls ekki... það er ljótt og eitthvað svo óíslenskt. Eða hvað?

Svo eru það hagsmunaárekstrarnir og vanhæfið. Hvenær er maður vanhæfur og hvenær er maður ekki vanhæfur. Hagsmunaárekstrar og vanhæfi eru mjög viðkvæm mál á Íslandi - rétt eins og spilling og mútur - og ekki algengt að sá vanhæfi viðurkenni vanhæfi sitt. Hann þrjóskast við og neitar fram í rauðan dauðann þótt staðreyndir blasi við. Tökum tvö heimatilbúin (en möguleg) dæmi og eitt mjög raunverulegt.
Peningar
1. Lögfræðingur flytur mál fyrir héraðsdómi. Dæmt er í málinu og því áfrýjað til hæstaréttar. Í millitíðinni er lögfræðingurinn skipaður hæstaréttardómari. Má hann dæma í sama máli þar eða er hann vanhæfur? Ég hefði haldið það.

2. Jón á hlut í banka. Bara lítinn - svona stofnfjárhlut sem hann lagði til málanna þegar bankinn átti bágt, kannski 100.000 krónur eða svo. Mörgum árum seinna er Jón kosinn á þing og situr þar í nefnd sem á að ákveða hvort það má selja bankann og hvers virði hver hlutur er. Jón gæti hagnast um tugmilljónir með því einu að rétta upp hönd. Er hann vanhæfur við afgreiðslu málsins í nefndinni? Ég hefði haldið það.

Peningar 3. Sveitarstjóri gerir samning við fyrirtæki um framkvæmdir. Samningurinn er metinn á 500 milljónir - hálfan milljarð króna. Til að uppfylla ákvæði hans þarf að fara í gegnum alls konar lagalegt ferli, tímafrekt og leiðinlegt - en lög eru lög og ekki hjá því komist. Ein hindrunin er lög um mat á umhverfisáhrifum, en það er allt í lagi. Fyrirtækið sem sveitarstjórinn gerði samninginn við sér hvort sem er um matið og ræður auðvitað niðurstöðu þess, enda dómari í eigin máli. Ekki vandamál, bara svolítið tafsamt. Enginn vanhæfur þar, eða hvað?

Svo þarf að auglýsa breytingu á skipulagi og gefa einhverjum almenningi kost á að tjá sig og halda að hann hafi áhrif á niðurstöðuna. En það er allt í lagi, sveitarstjórinn er búinn að ákveða þetta og því verður ekki breytt. Það eru svo miklir peningar í húfi. Hvaða vit hefur þessi almenningur svosem á peningum? Ekki vandamál, bara svolítið tafsamt og stundum örlítið ergilegt. Sveitarstjórinn þarf kannski að svara óþægilegum spurningum fjölmiðla og svoleiðis. En þetta reddast að íslenskum sið og hvaða vit eða áhuga hefur svosem fjölmiðlafólk á slíkum alvörumálum? Það hefur bara áhuga á Britney Spears, Gilzenegger og þeim best eða verst klæddu!

Ein greinin í samningi sveitarstjórans og fyrirtækisins kveður á um að ár hvert, frá 2006-2012, borgi fyrirtækið sveitarstjórninni 7,5 milljónir í r Peningar eiðufé til að standa undir álaginu við að keyra þetta allt í gegn fyrir fyrirtækið - alls 52,5 milljónir á sjö árum. (Að ónefndum framkvæmdum við lagningnu ljósleiðara, byggingu hesthúsa, lýsingu vega og þannig smotterís.) Upplýsingar um í hvað allar milljónirnar fara liggja ekki á lausu en leiða má líkur að því, að þær fari í vasa einhverra, enda stendur orðrétt í samningnum "...að umsvif og álag á bæjarstjórn og bæjarstjóra mun fyrirsjáanlega aukast..." og samkomulag er um að fyrirtækið greiði sveitarfélaginu fyrir þann kostnað sem af þessu hlýst. Rúsínan í pylsuenda samningsins hljóðar síðan svo: "Þessar greiðslur verða notaðar til að kappkosta við að afgreiðsla umsagna og leyfa verði eins hröð og hægt er." Spilling? Nei, guð sé oss næstur! Ekki á Íslandi. Mútur? Þvílík firra! Íslensk stjórnsýsla er hrein og tær eins og fjallalækur. Er það ekki?

Engu að síður mætti ætla - miðað við lög og reglur - að sveitar- eða bæjarstjórinn og það af hans fólki sem þegið hefur hluta af fénu nú þegar, eða 14 milljónir samtals, væri vanhæft til að afgreiða umsagnir og leyfi þau sem hér um ræðir, þar sem búið er að semja fyrirfram um að umsagnir verði hliðhollar fyrirtækinu og leyfin verði samþykkt - hvað sem hver segir - enda byrjað að þiggja fyrir það fé - og enn eru 5 greiðslur eftir x 7,5 milljónir = 37,5 milljónir. Spilling og mútur? Auðvitað ekki! Þetta er Ísland, munið þið? 

Peningar Í 19. grein Sveitarstjórnarlaga nr. 45 frá 1998 er fjallað um hæfi sveitarstjórnarmanna. 1. málsgrein hljóðar svo: "Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af."

Ég hefði haldið að þegar umsagnir eru afgreiddar, ákvörðun tekin um réttmæti athugasemda og hvort veita eigi fyrirtækinu framkvæmdaleyfi, starfsleyfi eða hvaða leyfi sem er samkvæmt téðum samningi væru a) þeir sem skrifuðu undir samninginn við fyrirtækið og b) þeir sem hafa - eða hafa haft - beinan fjárhagslegan ávinning af samningnum fullkomlega vanhæfir til að fjalla um málið af þeirri fagmennsku og hlutleysi sem með þarf. Eða hvað? Er ég að misskilja eitthvað hérna? Er ég ekki nógu þjóðlega þenkjandi?

Til að bæta gráu ofan á svart eru 500 milljónirnar sem samningurinn er Peningar metinn á - þar af tugmilljónirnar sem verið er að greiða bæjarstjórn og bæjarstjóra vegna aukinna umsvifa og álags - í raun eign skattgreiðenda annars bæjarfélags. Þeir voru auðvitað aldrei spurðir hvort þeir kærðu sig nokkuð um að dæla öllu þessu fé í sveitarfélagið til að fyrirtækið fengi að ráðast í sínar framkvæmdir. Kannski hefðu þeir heldur viljað að 500 milljónirnar væru notaðar til að greiða niður þjónustu fyrirtækisins við þá. Hvað veit ég? Ég var ekki spurð.

Peningar En nú hef ég tækifæri til að segja skoðun mína og það ætla ég að gera. Ég ætla að senda inn athugasemd í mörgum liðum og mótmæla þessari spillingu og hinu sem má ekki nefna á Íslandi en byrjar á m.... Ég ætla að mótmæla því hryðjuverki sem á að fremja á undurfallegri náttúruperlu og menguninni sem af hlýst. Ég skora á fólk, hvar sem það býr á landinu, að gera slíkt hið sama. Nálgast má upplýsingar á Hengilssíðunni og í öðrum pistlum mínum á þessari bloggsíðu. Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út á þriðjudaginn, þann 13. maí. Ég er boðin og búin að aðstoða fólk ef með þarf.

Ef einhver er ekki búinn að átta sig á því - þá er ég auðvitað að tala um fyrirtæki okkar Reykvíkinga, Orkuveituna, Sveitarfélagið Ölfus og sveitarstjóra þess. Framkvæmdin er fyrirhuguð Bitruvirkjun og samninginn sem um ræðir má lesa í heild sinni hér. Mikið þætti mér fróðlegt að heyra álit lesenda þessa pistils á samningnum, lögmæti hans og framkvæmd og ef lögfróðir menn geta lagt sitt af mörkum hér eða í tölvupósti væri það vel þegið.

En það er samt engin spilling á Íslandi, er það? Né heldur hitt sem ekki má nefna en byrjar á m.... eða hvað?

Nátengdir pistlar m.a. hér, hér og hér og listi yfir fjölmarga pistla hér.


Bréf til Láru - frá Hveragerði

Hér er seinni Hveragerðispistillinn -  bréf frá áhyggjufullum Hvergerðingi sem sendi líka nokkrar fallegar myndir af þeim slóðum sem hann hefur þungar áhyggjur af.

***********************************************

Ég skrifaði um Hveragerði í síðasta pistli. Um að verið væri að stofna lífsgæðum og heilsu Hvergerðinga og annarra íbúa Suðvesturlands í hættu með því að dæla eiturefninu brennisteinsvetni út í andrúmsloftið í áður óþekktu magni í þágu virkjana og stóriðju. Eins og ég nefndi í pistlinum var minnst á fjölmargt annað á fundinum í Hveragerði - brennisteinsvetnismengun er aðeins eitt af mörgum atriðum sem spurt var um og gerðar athugasemdir við. Viðbrögðin við pistlinum hafa verið mikil og enn og aftur hef ég fengið tölvupóst og upphringingar frá óttaslegnu fólki sem líst ekki á blikuna.

Í dag fékk ég svo tölvupóst frá Hvergerðingi sem var á íbúafundinum á mánudagskvöldið. Hann sendi einnig fallegar myndir af fossum sem prýða  útivistarsvæðið ofan Hveragerðis, hann kallar þá fossana okkar. Ég sá ástæðu til að biðja hann um leyfi til að birta skrifin og myndirnar því hér kemur svo glögglega í ljós hve almenningur er mótfallinn því að láta hrekja sig í burtu frá náttúrunni, þangað sem fólk hefur árum og áratugum saman leitað sér hvíldar og skjóls frá amstri hvunndagsins til að endurnæra sál og líkama.

En hér er bréfið:

Heil og sæl Lára Hanna, Ármann Ægir Magnússon heiti ég og hef átt heima í Hveragerði lengi.         Djúpagilsfoss í þurrkatíð

Ég var á fundinum með OR í Grunnskóla Hveragerðis á dögunum. Á fundinum kom ég inn á vistkerfi Varmár. Hún er dragá sem getur orðið mjög lítil og heit en vaxið gífurlega í vorleysingum og rigningum.

Vármá mynda aðallega fjórar smærri ár, þ.e. Sauðá, Grændalsá, Reykjadalsá og sú lengsta, Hengladalaá.
Þær tvær síðastnefndu eru líklega vatnsmestar. Í Hengladalaá fyrir ofan Svartagljúfursfoss er urriði og lífverur sem hann nærist á, á meðan lækur rennur.

Í Djúpagili er Reykjadalsáin á um tveggja kílómetra kafla en þar er urriði sem er þar á milli fossana Fossdalafoss og Djúpagilsfoss hann lifir oft í ótrúlega litlu vatni og heitu. Urriðinn í þessum ám gengur niður árnar en kemst ekki upp fossana.

Þetta varnakerfi er stór hluti af vatna- og lífkerfi Ölfusfora. Í öllum ánum fjórum hefur verið straumönd sem fer með unga sína niður árnar þegar líður á sumarið.

Fossdalafoss Ég reyndi að spyrja um rannsóknir og þekkingu OR á þessum hlutum á fyrrnefndum fundi. Það kom í ljós að talsmaður OR, Ingólfur Hrólfsson, vissi ekkert um þetta og taldi sig ekki sjá að slys við framkvæmdirnar gætu breytt lífkerfinu. Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður OR, taldi að klórslysið sem varð í vetur þegar Varmáin var yfir meðallagi að vatnsmagni, væri það sem við Hvergerðingar þyrftum að varast.

Ég hef gengið oft um þetta svæði og tel mig þekkja það afar vel. Ég er sannfærður um að klórslysið er bara brotabrot af því sem Bitruvirkjun getur valdið, eða hefur nú þegar valdið á þessu svæði. Varmáin er okkur Hvergerðingum afar kær og því höfum við varið hundruðum milljóna í að hreinsa hana og verja.

Ég veit ekki til að Sveitafélagið Ölfus hafi varið krónu til að verja þetta mikla vatnakerfi okkar heldur leyft byggðakjarna sem notast við venjulegar rotþrær, fremur en að tengjast og taka þátt í hreinsistöð og verndarstarfi okkar.
 
Foss í Hengladalaá
Ég er ekki menntaður líffræðingur eða vatnalíffræðingur. Ég held að það sé afar brýnt að kalla eftir raunverulegum rannsóknum fræðimanna á þessu sviði. Rannsóknir sem Ingólfur minntist á voru rannsóknir á grunnvatnsstraumum sem náðu frá þessu svæði allt til Esju og Reykjaness. Það sjá það allir sem vilja að þetta geta ekki talist nákvæmar rannsóknir á vatnafari eða vistkerfi umhverfis Bitruvirkjun, Varmá eða áhrif á Ölfusforir. Ég er undrandi á að ekki hafi komið fram slíkar rannsóknir sem hljóta að vera til í einhverjum mæli. Ef ekki, þá hefur orðið slys á svæðinu nú þegar.
 

Ég hef gengið oft eftir þessum ám og um virkjanasvæði Bitru. Það verður að segjast eins og er að vegna allra framkvæmdanna á Hellisheiði hefur varla verið vært á svæðinu alla daga vikunnar, því hefur ferðum mínum á svæðið fækkað.
 

Ég sendi þér nokkrar myndir af fossunum okkar. Þetta eru Reykjafoss, Fossdalafoss, Djúpagilsfoss, Djúpagilsfoss í þurrkatíð og foss neðarlega í Hengladalaá. Þar fyrir innan er Svartagljúfursfoss.

Með kærri þökk fyrir baráttu þína, Lára Hanna.
Nú þurfa allir að leggjast á árarnar.

Ármann Ægir Magnússon,
íbúi í Hveragerði
**************************************

Já, nú þurfa svo sannarlega allir að leggjast á árarnar og hindra þann gjörning sem fyrirhugaður er með Bitruvirkjun. Í öðrum pósti sem Ármann Ægir sendi mér segist hann ekki vera á móti öllum virkjunum, en að þarna sé ekki verið að virkja rétt. Ég er heldur ekki á móti öllum virkjunum. Eins og ég sagði í þessum pistli er skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda nauðsynleg.

En það er alls ekki sama hvar virkjað er, hvernig, til hvers og hverju er fórnað í þágu hverra.

Reykjafoss


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stundum er erfitt að halda ró sinni...

...og höggva ekki mann og annan." Þannig hófst sá fyrri af tveimur pistlum sem ég kalla Hveragerðispistlana. Þar fjalla ég um þá hættu sem Hvergerðingum - og reyndar öllu suðvesturhorninu ef ekki verður brugðist við - stafar af eiturspúandi borholum við bæjardyrnar. Brennisteinsvetni er nefnilega eitur.

************************************************

23.4.2008

Stundum er erfitt að halda ró sinni...

...og höggva ekki mann og annan. Stundum langar mig að hrista fólk, taka á því eins og óknyttastrákum eða -stelpum og lesa því pistilinn ómengaðan. Stundum langar mig að vera einræðisherra á Íslandi og taka til hendinni, henda rusli og sópa úr skúmaskotum. En það er draumsýn og eina leiðin sem virðist fær er að reyna að nota mátt orðanna. En mig þekkja fáir og enn færri hlusta á mig. Þótt ég þoli ekki athygli vildi ég stundum óska þess að vera fræg. Ef ég væri fræg myndu fjölmiðlar kannski hlaupa upp til handa og fóta þegar ég munda lyklaborðið, taka við mig djúpvitur viðtöl og allir myndu hlusta í mikilli andakt. Annað eins hefur nú gerst þegar fræga fólkið tjáir sig. En ég er ekki fræg og fáir hlusta. Því miður. Ég auglýsi hér með eftir frægu fólki til að tala máli mínu. Það er sama hvaðan gott kemur - en hér ætla ég að láta vaða og taka stórt upp í mig.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hvergerðinga Ég fór á íbúafund í Hveragerði á mánudagskvöldið, þar var verið að fjalla um málefni sem ég hef mikinn áhuga á, fyrirhugaða Bitruvirkjun við Ölkelduháls og möguleg áhrif hennar á lífsgæði og heilsu Hvergerðinga. Reyndar á alla íbúa suðvesturhornsins, en Hvergerðingar eru næstir svæðinu. Salurinn var fullur út úr dyrum, um 100 manns mættu og það var spenna í loftinu. Augljóst að málið hvílir þungt á Hvergerðingum - skiljanlega. Það á nefnilega að eitra fyrir þeim og þeir geta enga björg sér veitt. Lesið pistil bæjarstjóra Hvergerðinga um fundinn hér.

Það væri allt of langt mál að tíunda allt sem gerðist á fundinum, en þarna voru þrír frummælendur - frá Orkuveitunni, Hveragerði og Landvernd. Fulltrúi Orkuveitunnar virtist hálfþreyttur, áhugalítill og var lítt sannfærandi, bæði í pistli sínum og þegar hann svaraði hinum fjölmörgu fyrirspurnum sem beint var til hans frá fundargestum. Mín tilfinning var sú að honum fyndist þetta óþarfa bögg og afskiptasemi. Okkur kæmi þetta ekkert við.

Um daginn var ég byrjuð að skrifa pistil um brennisteinsvetni, búin að afla mér heimilda um víðan völl og lesa mér til, en forgangsröðin breyttist stöðugt og alltaf frestuðust pistilskrifin. Nú er ég komin á þá skoðun að best sé að einfalda umfjöllunina og vera ekkert að flækja málið. En ég tek skýrt fram að þetta er miklu flóknara mál en hér kemur fram og langt í frá að ég viti eða skilji allt sem hægt er um efnið. En ég skil samt ýmislegt.

Borholur á Skarðsmýrarfjalli Í Wikipediu stendur þetta: "Brennisteinsvetni eða vetnissúlfíð (H2S) er litlaus, eitruð gastegund. Megn lykt er af brennisteinsvetni þó magn þess sé lítið í andrúmsloftinu, það er brennisteinsvetni sem veldur lykt af fúleggjum og jöklafýlu sem gjarnan fylgir hlaupum í jökulsám. Lyktin hverfur hins vegar þegar styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti eykst og það verður lífshættulegt. Það eykur einnig á hættu að brennisteinsvetni er þyngra en andrúmsloftið og getur því lagst í dældir eða safnast fyrir í botnum á geymum og tönkum..." Þar segir ennfremur: "Um 10% af losun á H2S í heiminum er af mannavöldum. Í iðnaði er það einkum í olíuhreinsunarstöðvum. H2S finnst þar sem brennisteinn kemst í samband við lífrænt efni, sérstaklega ef um er að ræða hátt hitastig." Læt þetta nægja í bili en slóðin á þennan og meiri fróðleik er hér.

Semsagt... prumpufýlan sem maður finnur þegar farið er fram hjá t.d. skíðaskálanum í Hveradölum og víðar er brennisteinsvetni að kenna. Líka sú sem við finnum þegar við skrúfum frá heita vatninu í krananum hjá okkur - eftir því hvar við búum. Við erum vön þessari lykt, höfum alist upp við hana og finnst hún bara frekar fyndin. Erlendir gestir hafa gjarnan orð á lyktinni því hún er þeim framandi. En þótt brennisteinsvetni sé eitur er það ekki alvont efni. Það gerir sitt gagn í náttúrunni og jafnvel fyrir mannslíkamann - í hóflegu, náttúrulegu magni.

Við erum nú með fjórar jarðhitavirkjanir (samheiti mitt yfir jarðgufu- og Borhola á Skarðsmýrarfjalli jarðvarmavirkjanir sem eru ólíks eðlis) á suðvesturhorni landsins. Svartsengi og Reykjanesvirkjun á Reykjanesi, Nesjavallavirkjun við Þingvallavatn og hina nýju Hellisheiðarvirkjun við rætur Hellisheiðar. Allar losa þær gríðarlegt magn af brennisteinsvetni út í andrúmsloftið, vitanlega umfram allt sem náttúrulegt getur talist. Reykvíkingar eru þegar farnir að finna fyrir útblæstrinum úr Nesjavalla- og Hellisheiðarvirkjunum. Fólk í eystri byggðum Reykjavíkur finnur fyrir áhrifum hans á augu, lungu og öndunarfæri. Bloggvinkona mín, Lilja Guðrún, skrifaði fínan pistil um barnabörnin sín og sjálfa sig í andnauð og kenndi um svifryki af völdum nagladekkja. Fleiri taka undir og lýsa sinni reynslu, sumir eflaust í austurhluta borgarinnar. Það er örugglega alveg rétt að svifryk eigi sinn þátt í andnauðinni, en gætu þessi áhrif á öndunarfærin verið í bland frá brennisteinsvetni? Spyr sú sem ekki veit.

Neðst í pistlinum eru, auk fréttaumfjöllunar um fundinn í Hveragerði, tveir pistlar úr Speglinum frá í nóvember. Í öðrum er talað við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun og í hinum Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í lungna-, atvinnu og umhverfissjúkdómum. Báðir fjalla um hættuna sem getur skapast af of miklu brennisteinsvetni í andrúmsloftinu. Hlustið á þá.

HveragerðiStyrkur brennisteinsvetnis í Reykjavík er aðeins mældur á Grensás. Það er nú því sem næst í miðri Reykjavík. Engir mælar eru austar og nær Hellisheiðarvirkjun þar sem tugþúsundir búa. Enginn mælir er í Hveragerði. Eins og fram kemur í máli Þorsteins er styrkurinn ekki orðinn mikill ennþá, en langtímaáhrif af litlum styrk eru ekki þekkt, hvað þá af miklum styrk. Þorsteinn segir einnig að það sé alls ekki sjálfgefið að fólk stundi útivist nálægt blásandi borholum. Í máli Þorsteins kemur fram að hægt sé að hreinsa útblástur brennisteinsvetnis frá virkjununum. Upphaflega stóð ekki til hjá Orkuveitu Reykjavíkur að hreinsa hann, en nú hafa þeir vent kvæði sínu í kross og segjast ætla að hreinsa útblásturinn.

Á því loforði Orkuveitu Reykjavíkur eru þrír stórkostlegir gallar. Í fyrsta lagi sá, að þeir þurfa þess ekki og það er kostnaðarsamt. Engin lög ná yfir takmörkun á losun brennisteinsvetnis út í andrúmsloftið. Því verður að breyta. Í öðru lagi kom greinilega fram í máli fulltrúa OR á fundinum í Hveragerði að hreinsun brennisteinsvetnisins er á tilraunastigi. Þeir vita semsagt ekki ennþá hvort það tekst og hafa ekki prófað aðferðina sem þeir hyggjast nota. Samt á að virkja og treysta á guð og lukkuna. Í þriðja lagi kom líka fram að brennisteinsvetni verður ekki hreinsað úr útblæstri neinna borhola á framkvæmdatímanum - það eru mörg ár og fjölmargar holur. Aldrei verður heldur hreinsaður útblástur úr holum sem þarf stöðugt að bora og láta "blása", eins og þeir orða það (ég kann ekki tækniskýringu á því).

Hellisheiðarvirkjun Á fundinum í Hveragerði kom fram að suð-austasta borholan á áætluðu virkjanasvæði Bitruvirkjunar er aðeins 4.560 metra frá efstu húsunum í Hveragerði. Bitruvirkjun yrði í um 4 ár í byggingu og allan þann tíma myndu borholur spúa eitri yfir Hvergerðinga og aðra íbúa suðvesturhornsins, því ekki verður hreinsað á framkvæmdatíma. Svo verða um 3 holur látnar blása í einu, óhreinsaðar, næstu áratugina - ef ég skil þetta rétt - og spúa meira brennisteinsvetni yfir okkur. Miðað við orð Þorsteins og Sigurðar í Spegilsviðtölunum og óvissuna um langtímaáhrif brennisteinsvetnis í andrúmloftinu, jafnvel í litlu magni, geta t.d. astma-, lungna- og öndunarfærasjúklingar - og barnafólk - ekki búið í Hveragerði og jafnvel ekki í austurhluta Reykjavíkur. Ekki væri æskilegt að beina ferðafólki nálægt svæðinu svo Reykjadalurinn fagri fyrir norðan Hveragerði legðist af sem útivistarsvæði, svo og allt svæðið í kringum náttúruperluna Ölkelduháls. Þetta er ófögur framtíð fyrir fallegan, lítinn bæ í fögru umhverfi og áhyggjur Hvergerðinga skiljanlegar.

En á fundinum var dreift tillögu til þingsályktunar um takmörkun á losun brennisteinsvetnis af mannavöldum í andrúmslofti. Fyrsti flutningsmaður er Álfheiður Ingadóttir og þetta er mjög þarft framtak, það verður að koma böndum á losunina. Vonandi bera þingmenn allra flokka gæfu til að samþykkja þingsályktunartillöguna hið snarasta.

Reykvíkingar fá þetta eitur líka yfir sig áfram, því auk Bitruvirkjunar er enn ein jarðhitavirkjunin áætluð í Hverahlíð, sunnan við þjóðveg nr. 1 sem liggur um Hellisheiðina. Þá væru virkjanir á svæðinu orðnar fjórar og tvær í viðbót á teikniborðinu, alls sex jarðhitavirkjanir á sama blettinum.

Fjölmargt fleira kom fram á fundinum í Hveragerði, ég hef eingöngu fjallað um einn þátt af mörgum sem þar var minnst á. Íbúar eru felmtri slegnir og alls ekki að ástæðulausu. Að sumu leyti eru þeir að berjast fyrir lífi sínu - en hafa engin vopn. Þeir eru algjörlega berskjaldaðir. Reykvíkingar líka.

Mig langar stundum að missa mig, hrista virkjanasinna duglega og lesa Frá Ölkelduhálsi þeim pistilinn. Hvað á svona nokkuð að þýða? Hvernig dettur þeim í hug að fara svona með náungann... og sjálfa sig? Og hvernig voga þeir sér að sýna slíkt fyrirhyggjuleysi gagnvart afkomendum okkar og komandi kynslóðum? Hvernig stendur á því að óspillt náttúra er ekki metin að verðleikum? Af hverju á að göslast áfram og ana út í óvissu sem getur stofnað heilsu og jafnvel lífi samborgaranna í hættu og stela frá okkur náttúruperlum sem enginn hefur haft rænu á að meta til fjár?

Svarið er í raun einfalt: Til að framleiða raforku fyrir eiturspúandi, erlenda stóriðju og græða peninga.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sjónarspil eða svikamylla - breytir engu

Þessi pistill frá 15. mars 2008 er í beinu framhaldi af þeim fyrri eins og sjá má. Hér ávarpa ég og svara þeim sem gerðu athugasemdir við hann og nauðsynlegt að lesa hann og allar athugasemdirnar við hann til að ná merkingu þessa pistils. Og lesa jafnframt athugasemdirnar við þennan.

*********************************************
Skaftafell

Ég sé mig knúna til að taka aftur til máls í tilefni af sumum athugasemdunum við færsluna hér á undan, jafnvel þótt ég þurfi að endurtaka bæði það sem ég skrifaði í færslunni, sem og eigin svörum í athugasemdunum þar. Sumir virðast bara ekki lesa það sem á undan er komið, eða skauta svo hratt yfir að kjarninn fer fram hjá þeim og þeir misskilja allt - viljandi eða óviljandi. Þetta málefni er einfaldlega of mikilvægt til að hægt sé að leiða slíkt hjá sér.

Dynjandi Ég var búin að skrifa þetta mestallt í athugasemdakerfið en minnug orða bloggvinar míns,  Sæmundar Bjarnasonar, sem segir að maður eigi ekki að sólunda löngu máli í athugasemdir heldur nota það frekar í nýja færslu, ætla ég að gera það. Þeir sem lesa þessa færslu þurfa því að lesa þessa fyrst - og allar athugasemdirnar við hana - til að skilja hvað ég er að fara.

Það gladdi mig mjög að sjá og heyra Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, tjá sig um gjörninginn í Helguvík í fréttum aðeins nokkrum klukkustundum eftir að ég setti inn síðustu færslu. Hún kallaði þetta sjónarspil og vafasama stjórnvaldsákvörðun og var varkárari í orðum en ég, en meining okkar var nákvæmlega sú sama. Enn er því von.


Ég finn ekki til með þeim sem vilja virkja og nýta orkuauðlindir, Örvar Þór. Þeim er engin Hænuvík við Patreksfjörð vorkunn nema kannski að því leytinu til að þeir virðast hafa misst af þeirri upplifun sem að mínu mati er nauðsynleg og ómetanleg - að kunna að meta ósnortna náttúru landsins síns, sérstöðu hennar og mikilvægi þess fyrir efnahag, framtíðina og komandi kynslóðir að ganga hægt um gleðinnar stóriðjudyr og gá að sér. Auðvitað þarf alltaf að virkja eitthvað, skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda er nauðsynleg. En það sem hefur einkennt virkjanaæði og stóriðjufíkn undanfarinna ára er hve menn einblína á stundarhagsmuni og skyndigróða, sýna fullkomið fyrirhyggjuleysi í framkvæmdum og vanvirðingu við afkomendur okkar. Það á ekki að skilja neitt eftir handa þeim. Því get ég ekki með nokkru móti verið sammála. Þetta er kallað rányrkja þegar auðlindir hafsins eru annars vegar og fordæmt harðlega. Nákvæmlega sama máli gegnir um orkuauðlindirnar.

Látrabjarg Stóriðja er ekki, getur ekki verið og má ekki vera eina lausn Íslendinga á byggðavanda. Margt annað kemur til sem þarf að skoða betur áður en stokkið er til og plantað álverum eða olíuhreinsistöðvum í firði og flóa þessa fallega lands. Sjáið bara hvað Hornfirðingar eru að gera! Þeir eru frábærir og hugmyndaríkir.

Í einhverjum athugasemdum er ég kölluð, að því er virðist mér til hnjóðs, "menntakona", "vel lærð á bókina" (eins og það skipti einhverju máli hér) og sögð sýna "menntahroka". Í því sambandi er vert að geta þess að ég er algjörlega ómenntuð. Ekki einu sinni með stúdentspróf. Eina prófgráðan sem ég get státað mig af er próf úr Leiðsöguskóla Íslands þar sem sú ást og aðdáun á náttúru Íslands sem ég hlaut í uppeldi mínu fékk aukinn byr undir báða vængi og gott ef ekki stél líka. Að öðru leyti hefur lífið verið minn skóli og ég endurtek það sem ég sagði í athugasemd minni (nr. 12) við síðustu færslu: "...ég hef enga fordóma gagnvart starfsfólki í neinni atvinnugrein. Ég var alin þannig upp að það sé sama hvað fólk gerir - ef það er heiðarlegt og sinnir sínu af alúð og samviskusemi." Ég hef haft þann boðskap foreldra minna í heiðri hingað til og hyggst gera hér eftir." Ég endurtek líka, að ég sagði að ég þekkti engan sem langaði að vinna í álveri. Það þýðir síður en svo að enginn vilji gera það - aðeins að ég væri ókunnug þeim sem hefðu þær hugmyndir um framtíðina. Sjálf hef ég aldrei verið hálaunakona. Útgjöldin sem fylgja aukinni þenslu, vaxtaokri og verðbólgu, m.a. vegna stóriðjuframkvæmda, eru að sliga mig. En ég hafna því algjörlega að fórna náttúrunni til að ég geti fengið nokkrum krónum meira í budduna, keypt mér nýrri bíl eða farið í fleiri utanlandsferðir. Mér finnst það einfaldlega ekki þess virði og ég vil skila landinu eins ósnortnu og gjöfulu og frekast er unnt til komandi kynslóða.

Þorsteinn Valur talar um "sovét hugsun" um stofnun og rekstur fyrirtækja og að Norðurál Í Vigur starfi samkvæmt lögum og sé frjálst að hefja framkvæmdir og eitthvað fleira sem ég fæ ekki almennilegt samhengi í. Þorsteinn Valur virðist ekki átta sig á því frekar en Árni Árnason, að álver í Helguvík er alls ekki einkamál
Reyknesinga, Suðunesjamanna eða erlendra auðhringa sem vilja græða meiri peninga. Síður en svo. Því til stuðnings vísa ég í færsluna sjálfa og svör mín í athugasemdakerfinu - og reyndar athugasemdir annarra s.s. Eggerts Vébjörnssonar og Gunnars Jónssonar - þar sem bent er á að tengdar framkvæmdir og neikvæðar afleiðingar þeirra snerta hvorki meira né minna en 2/3 landsmanna, íbúa alls suðvesturlands. Meðal annars þess vegna er svo mikilvægt að fram fari umhverfismat á öllum tengdum framkvæmdum sem einni heild eins og ég minnist á í færslunni. Þess vegna lagði Landvernd fram kæru sem á eftir að úrskurða um og þess vegna átti Árni Sigfússon að bíða þess úrskurðar en ekki að einblína á eigin pólitíska framtíð. Þess í stað kjósa álverssinnar á Suðurnesjum að ana út í óvissuna, sannfærðir um að þrýstingurinn sem þeir skapa með því nægi til að þagga niður í þeim sem átta sig á óhæfuverkinu.

Dverghamrar á Síðu Það virðist vera einhver lenska um þessar mundir að stóriðjusinnar á landsbyggðinni segi að okkur hér í Reykjavík komi ekkert við það sem þeir eru að bralla í sínum landshlutum. Þeir geti bara gert það sem þeim sýnist og "liðið í 101" eigi ekkert með að hafa skoðanir á því, hvað þá að skipta sér af. Engu að síður fá Reykvíkingar reglulega skilaboð eins og nú síðast frá bæjarráði Fljótsdalshéraðs, þar sem þess er krafist að borgarstjórn heimili uppbyggingu á aðstöðu við Reykjavíkurflugvöll því Reykjavík sé fyrir landsmenn alla. Ég efast reyndar um að landsbyggðarfólk átti sig á álaginu sem fylgir því að hafa flugvélagný yfir höfðinu daga og nætur inni í miðri íbúðabyggð, en það er önnur saga.

Ég er alin upp við mikla ást og aðdáun á Íslandi og móðir mín þreyttist aldrei á að tala Drangaskörð um hve heppin við værum að vera Íslendingar, eiga þetta dásamlega land með hreinu lofti, tæru vatni og óviðjafnanlegri náttúru. Aldrei vottaði fyrir þeirri hugsun hjá henni að einn landshluti væri betri eða fallegri en annar, þótt sterkustu taugarnar væru til Vestfjarða þar sem hún fæddist og ólst upp. Þangað var farið á hverju ári og auk þess í a.m.k. eina eða tvær hálendisferðir á sumri með Ferðafélagi Íslands. Þessa hugsun hlaut ég í arf og er mjög þakklát fyrir. Ég hrekk í kút og mér sárnar þegar því er slengt framan í mig að mér komi ekki við þegar Austfirðingar, Vestfirðingar, Norðlendingar eða Reyknesingar ætla að leggja dásamlega náttúru Íslands í rúst til að reisa eiturspúandi verksmiðjur í fallegum fjörðum í þágu erlendrar stóriðju. Í mínum huga er Ísland okkar allra, rétt eins og Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna eins og bæjarráð Fljótsdalshéraðs bendir réttilega á. Við höfum öll ástæðu og leyfi til að hafa skoðanir á því hvað gert er við landið og náttúru þess, við eigum þar öll hagsmuna að gæta.


Sólarlag í Hænuvík Misvitrir stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina att landshlutunum hverjum gegn öðrum með  eigin hagsmuni í huga, meðal annars í krafti misvægis atkvæða í kosningum. Nýjasta dæmi um slíkt er t.d. sú ákvörðun að í kjölfar Héðinsfjarðarganga skuli byrjað á Vaðlaheiðargöngum. Með fullri virðingu fyrir Norðlendingum hefði ég heldur kosið að þeim peningum væri varið í uppbyggingu samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum og íbúum þar gert kleift að ferðast á milli norður- og suðurhluta kjálkans svo þeir geti orðið eitt atvinnusvæði. En mönnum virðist svo tamt að hugsa bara um naflann á sjálfum sér og telja hann miðju alheimsins en gleyma því að aðgerðir þeirra hafa áhrif á ótalmarga utan þeirrar miðju - oftar en ekki alla landsmenn á einn eða annan hátt.

Fjallsárlón


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Svikamyllan á Suðurnesjum

Í þessum pistli frá 12. mars 2008 fjallaði ég um hinn endalausa blekkingarleik sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar hefur viðhaft í sambandi við álversframkvæmdir í Reykjanesbæ. Þessi vinnubrögð hafa reyndar einkennt alla framgöngu virkjana- og álverssinna. Framkvæma fyrst, hugsa svo og verða síðan brjálaðir ef þeir fá ekki allt sem þeir vilja og það strax! Ekki beint skynsamleg vinnubrögð. Miklar umræður eru í athugasemdunum við upprunalega pistilinn sem vert er að lesa.

*********************************

Árni Sigfússon Það er hreint með ólíkindum að hlusta á málflutning Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, þessa dagana og vikurnar. Hann slær um sig með stórkarlalegum yfirlýsingum um fyrirhugað álver í Helguvík, framkvæmdaleyfi, útboð og fleira án þess að nokkur innistæða sé fyrir kokhreystinni. Það vantar bara upp á að sjá hann með skóflu í hönd að taka fyrstu stunguna með glott á vör.

Staðreyndin er nefnilega sú að lausir endar eru enn svo margir og svo gríðarlega mikilvægir, að það er fullkomið ábyrgðarleysi og sóun á skattpeningum íbúa Reykjanesbæjar og Garðs að stinga skóflu í svörð eins og staðan er.  Þótt Árni segi þeim ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir er sannleikurinn engu að síður sá, að enn sem komið er hlýtur framkvæmdin að teljast fullkomlega óraunhæf.  Stundum er sagt að hlutirnir séu "talaðir niður" en í þessu tilfelli er verið að "tala upp", þ.e. láta líta út eins og allt sé í lagi þótt álversmenn á Suðurnesjum séu með allt niðrum sig.

Lítum nánar á málið.

Í fréttum í gær kom fram að búið væri að samþykkja nauðsynlegt deiliskipulag, bæði í Garði og Reykjanesbæ, til að framkvæmdir gætu hafist við að reisa álverið í Helguvík.  Gott og vel.  En varla er nú skynsamlegt að reisa álver án þess að hafa tryggt sér tilskylda orku.  Til að Helguvík hægt sé að reka skepnuna þarf gríðarlega mikla orku og hana þarf að flytja frá viðkomandi virkjunum. Ekki nema lítið brot af nauðsynlegri orku fæst úr virkjunum á Reykjanesi.  Af þeim 260 MW sem talin eru upp í töflu Skipulagsstofnunar um "líklegustu virkjunarkosti Hitaveitu Suðurnesja" eru líklega að minnsta kosti um 115 MW óraunhæf sökum umdeildra orkuflutninga og/eða andstöðu við markmið Suðurlinda, sem er að nýta orkuna heima í héraði.  Raunhæf orkuöflun í héraði er því í besta falli 145 MW - en til að keyra skrímslið þarf 435 MW.  Eftir er þá að afla 290 MW - sem er nákvæmlega tvöfalt það magn sem Reyknesingar geta sjálfir skenkt sér í álverið.

Álversfíklar Suðurnesja hyggjast þá leita á náðir Reykvíkinga með orkuöflun og þiggja orku frá Orkuveitu Reykjavíkur, einkum úr virkjunum sem hvorki er búið að veita leyfi fyrir né byrjað að reisa.  Þar er fyrst að nefna Bitruvirkjun sem rísa myndi á Ölkelduhálsi, skammt fyrir norðan Hellisheiði.  Gríðarleg andstaða er gegn þeirri virkjun, bæði meðal almennings, fjölmargra borgarfulltrúa í Reykjavík og þingmanna.  Ölkelduháls og umhverfi hans er náttúruperla sem væri glæpur að hrófla við.

Ásta Þorleifsdóttir Í því sambandi er vert að nefna, að í viðtali í 24 stundum 16. febrúar sl. sagði Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður stjórnar OR: "Ég mun ekki styðja neitt sem ógnar Ölkelduhálsi og Klambragili og þessum mjög svo mikilvægu útivistar- og fræðslusvæðum."  Á forsíðu Fréttablaðsins 22. febrúar sl. sagði forstjóri OR að fyrirtækið selji ansi mikla orku til álvera og ekki sé heppilegt að hafa öll eggin í sömu körfu.  Í áformum Norðuráls er gengið út frá því, að 175 MW fáist frá OR en aðeins hefur verið samið um 100 MW.  Ef marka má orð forstjóra OR verður ekki samið um meira á þeim bænum.  

Gríðarlega umdeildir orkuflutningar í gegnum mörg sveitarfélög gera alla orku á Hengilssvæðinu að óraunhæfum valkosti fyrir álver í Helguvík.  Mörg þessara sveitarfélaga hafa þegar lýst því yfir að engar háspennulínur verði lagðar í þeirra landi.

Ég hef áður skrifað um þann reginmisskilning sem sífellt er hamrað á, að jarðgufu- eða jarðvarmavirkjanir séu hrein og mengunarlaus orkuöflun.  Nú þegar hefur brennisteinsvetnismengun frá Hellisheiðarvirkjun einni farið yfir hættumörk á höfuðborgarsvæðinu.  Verði af fleiri virkjunum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði eykst sú mengun til mikilla muna.  Fram hefur komið, m.a. í Speglinum á Rás 1 þann 7. nóvember sl. að ef Bitru- og Hverahlíðarvirkjanir bætist við verði losun brennisteinsvetnis frá þessum þremur virkjunum orðin ríflega FIMMFALT meiri en öll náttúruleg losun brennisteinsvetnis frá jarðvarmasvæðum landsins.  Langtímaáhrif á heilsu fólks eru ekki þekkt svo þarna væri rennt staurblint í sjóinn og jafnvel tekin óviðunandi áhætta með líf og heilsu íbúa á suðvesturhorni landsins.

Í þessum sama Spegli, þar sem rætt er við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Frá Ölkelduhálsi Umhverfisstofnun, kemur einnig fram að óæskilegt sé að beina ferðafólki inn á þessi svæði ef virkjanirnar verða að veruleika.  Þorsteinn segir að þessi mikla losun brennisteinsvetnis fari ekki saman við ferðamennsku með tilliti til mögulegra áhrifa á heilsufar fólks.  Og sama er sagt gilda um náttúruna og fólkið - langtímaáhrif mengunarinnar eru ekki kunn.  Þetta ættu að vera fullkomlega nægjanleg rök gegn þeirri fullyrðingu virkjana- og álversfíkla að allt sé þetta nú gert í fullri sátt við umhverfið, því hvað er umhverfi annað en náttúran og fólkið sem vill njóta hennar?

Sem sagt - Árni Sigfússon og félagar ætla samt að byrja að reisa álver og æða áfram með frekju og yfirgangi, enda þótt þeir séu langt í frá búnir að tryggja sér þá orku sem til þarf til að reka það.  Væntanlega er þeim líka slétt sama um þótt þeir stefni mögulega heilsu ríflega helmings landsmanna í hættu með brennisteinsvetnismengun og leggi ósnortnar náttúruperlur í rúst.  Í mínum huga heitir þetta glæpsamlegt athæfi óforsjálla manna, sem eins og sannir fíklar hugsa ekki um neitt nema fix dagsins í dag og skyndigróðann á kostnað bæði okkar og komandi kynslóða.

Árni Sigfússon hefur oft lýst því yfir í fjölmiðlum að álver í Helguvík sé lífsspursmál fyrir Suðurnesjamenn því það vanti svo sárlega störf eftir að herinn fór.  Þetta er bull sem mjög auðvelt er að hrekja.  Atvinnuleysi á Suðurnesjum er í lágmarki og þar, eins og á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið flutt inn erlent vinnuafl í stórum stíl því heimamenn anna ekki þeim störfum sem í boði eru.  Fram kom í frétt 4. mars sl. að samkvæmt samantekt Hagstofunnar hafi íbúum fjölgað mest á Suðurnesjum af öllum landshlutum í fyrra.  Ekki bendir það beinlínis  til að erfitt sé að fá vinnu við hæfi á svæðinu.

Bergur Sigurðsson Það er nóg annað um að vera á Suðurnesjum.  Eins og fram kom í grein eftir Berg Sigurðsson, framkvæmdastjóra Landverndar, í Morgunblaðinu 23. febrúar sl. drýpur smjör af hverju strái á Suðurnesjum.  Hann nefnir t.d. 200 störf tengd nýju hóteli við Bláa lónið, 90 störf við fyrirhugaða kísilverksmiðju, nokkur hundruð störf til að þjónusta hið nýja háskólasamfélag á flugvallarsvæðinu, 150 störf við netþjónabú auk 60-70 nýrra starfa á ári í tengslum við aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli.  Bergur telur að fjöldi þessara starfa samsvari starfsmannafjölda u.þ.b. þriggja ávera.

Árni hefur nú gert sér grein fyrir því að hjalið um skort á störfum og atvinnuleysi er ósannfærandi þvættingur.  Hann veit sem er að ekki þýðir að ljúga þessu lengur og er nýlega búinn að skipta um plötu á fóninum.  Nú heitir þetta "að skapa vel launuð störf", eins og hann sagði í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær.  Aldrei hef ég heyrt minnst á að almennt starfsfólk álvera sé hátekjufólk.  Það er að minnsta kosti ekki talið upp með skattakóngum og -drottningum landsins.  Ja... kannski forstjórarnir.  Aukið menntunarstig íslensku þjóðarinnar hefur aukinheldur leitt til þess að fæstir geta hugsað sér að eyða vinnuævinni í álveri, hvað þá að þar sé framtíð barna okkar og barnabarna.

Hverjir halda menn að starfi við að reisa álverin og virkjanirnar?  Eru það vel launuðu störfin handa Suðurnesjamönnum og öðrum Íslendingum?  Ef marka má framkvæmdir undanfarinna ára verða fluttir inn erlendir farandverkamenn í þúsundatali til að vinna við byggingarframkvæmdirnar við misjafnar undirtektir heimamanna.  Þessir verkamenn búa við  óviðunandi aðbúnað eins og margoft hefur komið fram, þar sem þeim er hrúgað saman í hesthús eða iðnaðarhúsnæði eins og sauðfé og ekki hirt um annað en að kreista út úr þeim sem mesta vinnu fyrir ómannsæmandi laun.  Þetta er ekkert annað en nútíma þrælahald sem við ættum að skammast okkar fyrir.

Ég gæti haldið endalaust áfram að tína til alls konar atriði sem hanga í lausu lofti og eru Landvernd ókláruð en VERÐA að vera í lagi áður en hafist er handa við að reisa álver í Helguvík.   Umhverfisráðherra á til dæmis eftir að úrskurða um kæru Landverndar þar sem farið er fram á heildstætt umhverfismat á áhrifum álvers í Helguvík.  Þetta þýðir einfaldlega að Landvernd fer fram á að öll framkvæmdin verði metin í einu lagi - allar tengdar framkvæmdir metnar sem ein heild - virkjanir, raflínur og álver.  Slíkt heildarmat ætti vitaskuld að vera sjálfsagt og eðlilegt, því allt hangir þetta saman og myndar órjúfanlega heild.

Norðurál hefur ekki fengið úthlutað mengunarkvóta eða losunarheimild fyrir álver í Helguvík, við eigum hann ekki aflögu.  Nóg mengum við samt og erum næstum búin með kvótann sem okkur er heimilaður.  Getur "hreina, græna Ísland" vera þekkt fyrir að menga andrúmsloftið svo gríðarlega að það þurfi að kaupa mengunarkvóta til viðbótar við þann sem við höfum?  Hvaða áhrif ætli það hefði á sívaxandi ferðaþjónustu sem dælir peningum inn í þjóðarbúið?

Annan álíka pistil mætti skrifa um efnahagsleg áhrif framkvæmdarinnar.  Um þann þátt berast mjög misvísandi skilaboð þar sem ljóst er að stóriðjusinnar ætla að tala yfir okkur kreppu - ef ekki verði reist nokkur álver og helst olíuhreinsistöð líka.  Sú hlið á málinu er rannsóknarefni út af fyrir sig sem ég fer ekki út í hér.

Niðurstaða:

Starfsleyfi fyrir álver í Helguvík liggur ekki fyrir.  Breytt skipulag allra þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli liggur ekki fyrir.  Leyfi þeirra til orkuflutnings og lagningar háspennulína liggur ekki fyrir.  Losunarheimild liggur ekki fyrir.  Starfa við álver er ekki þörf, hvorki við byggingu né rekstur.  Úrskurður um umhverfismat virkjana og heildarmat álversframkvæmda liggur ekki fyrir.

Frá Ölkelduhálsi Æðibunugangur Árna Sigfússonar og Norðuráls er óskiljanlegur í ljósi þess að nánast ekkert af því sem til þarf er í höfn.  Menn eru með allt niðrum sig, næstum allt er óklárt.  Hver er þá tilgangurinn með þessu háværa gaspri?  Af hverju láta fréttamenn Árna komast upp með bullið án þess að upplýsa sannleikann um á hve miklum brauðfótum yfirlýsingagleðin stendur?  Hér er verið að blekkja almenning á svívirðilegan hátt, láta fólk halda að allt sé klárt, ekkert til fyrirstöðu, bara kýla á þetta þótt engin nauðsynleg leyfi eða heimildir séu fyrir hendi.  Svo þegar byrjað er að framkvæma verður sagt:  "Það er of seint að snúa við!"  Þá verður beitt óbærilegum þrýstingi til að fá hlutina í gegn og helst á hraða ljóssins sem gerir öðrum hagsmunaaðilum ókleift að láta rödd sína heyrast í öllum gauraganginum.  Ef orðið "stjórnsýsluofbeldi" er til á það prýðilega við hér.

Er það þetta sem kallað er "klækjastjórnmál"?  Ég veit það ekki, en hitt veit ég að það er óbærileg skítalykt af þessu máli.  Það er blekkingarleikur og svikamylla í gangi á Suðurnesjum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 1. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband