14.9.2009
Innihaldið í sænsku skúffunni
Á morgun mun borgarstjórn Reykjavíkur ætla að taka endanlega ákvörðun um hvort skúffufyrirtækinu Magma Energy Sweden verður seldur hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Samkeppnisyfirvöld, með Pál Gunnar Pálsson Péturssonar framsóknarforkólfs frá Höllustöðum í forystu, höfðu úrskurðað að OR mætti ekki eiga nema 3% í HS Orku. Samkeppnisyfirvöld eru því að þvinga fram sölu á hlutnum - og mér er spurn: Eru líka framsóknarmenn á bak við kaupin? Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að siðlausir auðjöfrar séu á bak við einkavæðingu auðlindanna - samanber REI-málið - og ekkert hefur komið fram sem hefur haggað þeirri skoðun minni. Þeir eru innihaldið í skúffunni í Svíþjóð.
Nú er deilt um hvort salan til Magma Sweden sé lögleg, því ekki megi selja aðilum utan EES virkjunarrétt vatnsfalla og jarðhita. Þó sagði sérfræðingur í HR í RÚV-fréttum í kvöld að aðferð Magma í Kanada til að komast yfir auðlindir Íslendinga sé ekki ólögleg, þ.e. heimilisfesti skiptir máli, en ekki ríkisfang eigandans. Samkvæmt því geta hverjir sem er stofnað skúffufyrirtæki hvar sem er í EES eða ESB löndum og keypt sig inn í hvað sem er hér á landi, eða hvað? Engin starfsemi þarf að vera í skúffunni. Einmitt þannig fóru útrásardólgarnir að og gera væntanlega enn. Þeir notuðu skúffufyrirtæki grimmt til að ræna okkur.
Þetta minnti mig á Spegilsviðtal frá 30. apríl 2008 við Rafael Baron, rússneskan ráðgjafa í olíumálum, sem aðstoðaði íslensku olíufurstana sem vildu reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - og vilja kannski enn. Viðtalið er viðfest neðst í færslunni, en í því segir Baron m.a. að Rússarnir hafi stofnað skúffufyrirtæki á Írlandi með sáralítið hlutafé til að fara í kringum lög og reglur á Íslandi. Hann reyndi ekkert að leyna því. Hlustið bara á viðtalið.
Í tilfelli Magma er augljóst að um skúffufyrirtæki er að ræða, stofnað til að komast í kringum íslensk lög. Gott ef gerendur hafa ekki viðurkennt það og þeir neituðu að veita veð í móðurfyrirtækinu í Kanada. Þá er stóra spurningin hvort stjórnvöld ætli að láta það óátalið án þess einu sinni að reyna að hindra það. Ætla stjórnvöld að láta hinn nauma meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks komast upp með að selja stóran hluta í arðbæru orkufyrirtæki til skúrka sem ætla að græða á okkur - eða stöðva siðleysið hið snarasta. Þau geta það nefnilega.
Í 12. grein laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri nr. 34/1991 stendur m.a. þetta: "Nú telur viðskiptaráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvar slíka fjárfestingu, enda kunngjöri hann ákvörðun sína innan átta vikna frá því að honum berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 7. gr." Gylfi Magnússon getur semsagt stöðvað söluna samkvæmt þessu.
Vilmundur heitinn Gylfason er gjarnan sagður síðasti hugsjónamaðurinn á þingi. Hann mun fyrstur hafa talað um að eitthvað væri löglegt en siðlaust, en hann barðist fyrir bættu siðferði á þingi og í stjórnsýslunni. Vilmundur lést fyrir rúmum 26 árum og siðferðið hefur bara versnað ef eitthvað er. Það er sorgleg staðreynd. Eftir efnahagshrunið hrópaði almenningur hátt á betra siðferði - og gerir enn. Er ekki tími til kominn að hætta að einblína á lagatæknileg atriði og huga að siðferðinu? Ef eitthvað er fullkomlega siðlaust þá er það sala OR á hlutnum í HS Orku til skúffufyrirtækis sem stofnað er til að klekkja á íslenskum lögum og það fyrir opnum tjöldum. Miklar sögur ganga um hverjir eru ofan í skúffunni og opinberlega hafa tveir menn verið nefndir, annar úr Framsóknarflokknum og hinn fyrrverandi bankamaður. Báðir auðguðust gríðarlega á að féfletta þjóðina.
En skoðum fréttirnar frá í kvöld.
Og svo er ekki úr vegi að hlusta á myndbrotið sem Egill Helga sýndi í Silfrinu á sunnudaginn - hlustið á hvað Joseph Stiglitz segir um auðlindirnar og takið vel eftir viðbrögðunum. Það er augljóst að meirihluti þjóðarinnar vill að auðlindirnar - og nýtingarrétturinn - sé á hendi hins opinbera, ekki einkaaðila og ALLS EKKI þeirra sem féflettu þjóð sína og komu landinu á vonarvöl. Minnumst þess hvernig þeir ætluðu að spila í REI-málinu og af hverju þeir höfðu augastað á orkufyrirtækjunum. Til að græða. Sá gróði á að renna til þjóðarinnar, ekki örfárra auðmanna.
Borgarstjórn tekur málið fyrir á morgun, þriðjudag, og hefst fundurinn klukkan 14. Ég minni á orð Johns Perkins um að andstaðan við afsal á auðlindunum verði að koma frá fólkinu. Þetta er landið okkar, við búum í því. Forfeður okkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Við megum ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna okkur svona. En andstaðan verður að koma frá okkur, fólkinu í landinu. Mætum öll á pallana í ráðhúsinu á morgun, stöndum úti, berjum á potta og pönnur eða gerum hvaðeina til að lýsa andstöðu okkar við auðlindasöluna. Sameinuð sigrum við!
Að lokum langar mig að sýna ykkur nokkrar myndir sem ég klippti og skeytti saman af netinu um Magma Energy Sweden AB. Hér er deginum ljósara að engin starfsemi er í þessu fyrirtæki þótt útrásardólgar og spilltir stjórnmálamenn leynist í skúffum þess. Þarna sést m.a. að "fyrirtækið" er ekki skráð með neina skattskylda starfsemi og fulltrúar þess eru starfsmenn lögfræðistofu í Gautaborg. Aðalmaðurinn, Lyle Emerson Braaten, er sagður búsettur utan EES, enda einn af starfsmönnum Magma í Kanada eins og sjá má hér. Þetta minnir óhugnanlega á vinnubrögð þeirra manna sem féflettu Ísland.
Bloggar | Breytt 15.9.2009 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
14.9.2009
Megi réttlætið sigra að lokum
Ég er búin að skrifa svo mikið um þöggunina og hræðsluþjóðfélagið að mér fannst varla á það bætandi. Ég bætti nú samt á það í föstudagspistlinum á Morgunvakt Rásar 2 - og viti menn! Daginn eftir var skrúfað fyrir aðgang Jóns Jósefs að Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra þegar hann var að uppfæra gagnagrunn sinn. Án viðvörunar eða skýringa. Þó er gagnagrunnurinn í notkun hjá opinberum rannsóknaraðilum og Persónuvernd búin að hafa hálft ár til að skoða málið. Engu að síður herma nýjustu fréttir að lokað hafi verið fyrir aðganginn því skort hafi leyfi frá Persónuvernd. Maður spyr sig því hvort Persónuvernd hafi vald til að bregða fæti fyrir rannsókn á hruninu... eða hvort það sé bara fjölmiðlar og almenningur sem ekkert megi vita. Þetta hlýtur að koma í ljós við rannsókn fjölmiðla á málinu - en ég sakna þess mjög að heyra ekkert um þetta mál hjá Mogga, Stöð 2, Fréttablaðinu og Vísi.is. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál sem allir fjölmiðlar ættu að veita mikla athygli.
En hér er pistill föstudagsins. Í tilefni nafnlausu umræðunnar í síðustu viku var pistillinn alveg nafnlaus. Ég þakka hagyrðingnum, Gísla Ásgeirssyni, kærlega fyrir hans innlegg og vonast til að hann botni kvæðabálkinn í ljósi frávísunar Björns betri. Botninum verður þá náð og vitanlega bætt við. Hljóðskrá er hengd við neðst að venju ef fólk vill hlusta líka.
Áður en lengra er haldið skal tekið fram, að þessi pistill er nafnlaus. Þeim, sem telja sig þekkja röddina, skjátlast hrapallega.
Við höfum búið svo lengi í hræðsluþjóðfélagi þöggunar þar sem sannleikurinn hefur aldrei verið vel séður ef hann hróflar á einhvern hátt við ráðandi stéttum þjóðfélagsins, sjálfu valdinu. Lýðræðisleg, opin og gagnrýnin umræða hefur ævinlega verið í skötulíki á Íslandi. Upplýsingum er leynt fyrir fjölmiðlum og almenningi og beinlínis logið til um óþægilegar staðreyndir. Fólk sem býr yfir upplýsingum þorir ekki að greina frá þeim af ótta við hefndaraðgerðir - til dæmis yfirvalda eða vinnuveitenda. Og Alþingi segir upp áskrift að DV ef menn þar á bæ eru ágengir og upplýsandi. Svona andrúmsloft er líka kjörlendi fyrir Gróu kerlinguna á Leiti, sem kvartað er undan nú sem endranær.
Það vakti mikla ólgu í samfélaginu þegar Fjármálaeftirlitið kærði nokkra blaða- og fréttamenn fyrir að birta upplýsingar. Sérstakur saksóknari, sem víða er kallaður hinu notalega gælunafni Óli spes, vildi ekki aðhafast og þá var kært til setts ríkissaksóknara, Björns L. Bergssonar. Þær fréttir bárust í fyrradag að Björn hefði vísað málinu frá. Ég legg til að hann verði kallaður Björn betri. Ekki veit ég til þess að Óli spes og Björn betri krefjist nafnleyndar, þrátt fyrir að neita að draga sannleiksleitandi fjölmiðlafólk fyrir dóm.
Hagyrðingurinn Gísli Ásgeirsson, sem kýs að vera nafnlaus í þessum pistli eins og ég, orti eftirfarandi kvæði í tilefni af forgangsröð Fjármálaeftirlitsins.
Auðmannahjörðin okkar fól
erlendis mesta þýfið
í aflandsbankanna skattaskjól
skreppa þeir fyrir næstu jól.
Þar verður ljúfa lífið.
Rannsóknarnefndir rembast við
að rekja slóðir til baka
en þeir sem ætla að leggja lið
og leka gögnum í sjónvarpið
eru sóttir til saka.
Bíður og vonar barin þjóð
að búinn verði til listinn
yfir menn sem í okkar sjóð
auðinn sóttu af græðgismóð.
En fyrst þarf að kæra Kristin.
Fangelsið eigum fyrir þá
fúl er á Hrauninu vistin
en nú liggur ákæruvaldinu á
Agnesi að dæma og koma frá.
Helst þarf að hengja Kristin.
Ég óska Óla spes, Birni betri, fjölmiðlafólki, lýðræðinu, sannleikanum og íslenskum almenningi til hamingju með frávísanirnar og hvet uppljóstrara til dáða.
Megi réttlætið sigra að lokum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)