19.9.2009
Ráðherrasamviskan og ábyrgðin
Ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn virðast aldrei hafa neitt slæmt á samviskunni. Jafnvel þótt sýnt sé og sannað að samviska þeirra ætti að vera kolsvört. Þeir vita sem er, að pólitísk og siðferðileg ábyrgð tíðkast ekki á Íslandi og þeir eru ósnertanlegir - líka þótt þeir brjóti lög. Í krafti þeirrar vitneskju axla stjórnmálamenn aldrei ábyrgð á gjörðum sínum, sama hve fáránlegar, glannalegar, heimskulegar, hrokafullar og afdrifaríkar þær eru fyrir þjóðina. Þeir fara sínu fram hvað sem tautar og raular. Þessi staðreynd er stór hluti af vanda íslensks samfélags.
Geir H. Haarde var í viðtalsþætti í gærkvöldi sem sýndur var bæði í norska og sænska sjónvarpinu. Hann var með hreina samvisku. Illugi skrifaði kjarnyrtan pistil um málið og ég hef engu við hann að bæta.
Geir H. Haarde hjá Skavlan 18. september 2009
Birgir Hermannssonum pólitíska ábyrgð í Silfrinu 7. desember 2008
Stutt umfjöllun RÚV um ábyrgð frá 29. desember 2008
Hér er frægt dæmi um alls konar framferði eins ráðherra frá í mars 2008. Augljóst var um hvað málið snerist og hvernig var staðið að því. Ráðherrann reif bara kjaft og sat sem fastast. Neðst í færslunni er viðfest hljóðskrá af Spegilsviðtali við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor, þar sem hann segir framkomu ráðherra og aðdróttanir gagnvart Umboðsmanni Alþingis fordæmislausa. Ekkert var aðhafst og gjörningurinn stóð óhagganlegur.
Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 27. og 28. mars 2008
Geir H. Haarde var gestaritstjóri (editor) í útvarpsþætti hjá BBC 18. ágúst sl. Það var fróðlegt, en jafnframt svolítið hrollvekjandi að hlusta á hann. Í sama þætti var stutt viðtal við Öldu Sigmundsdóttur, sem bloggar á ensku á Iceland Weather Report vegna einnar bloggfærslu hennar. Hljóðskrá úr þættinum viðfest neðst í færslunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.9.2009
Skelfilegt sinnuleysi
Ágætu hlustendur...
Ég veit ekki lengur mitt rjúkandi ráð. Hvernig er hægt að vekja mína ástkæru þjóð af Þyrnirósarsvefninum? Hvernig er hægt að beina athygli fólks að því, hvernig verið er að fara með landið okkar, auðlindirnar og okkur sjálf - fólkið sem byggir þetta harðbýla en yndislega land? Er fólki virkilega sama? Ég vil ekki trúa því.
Hve margir horfðu á myndina í sjónvarpinu í fyrrakvöld - Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls? En hve margir horfðu á myndina Einkavæðing og afleiðingar hennar sem sýnd var á RÚV í lok maí? Innihald þessara mynda passar bara vel við það sem er að gerast á Íslandi.
Ég fæ orðið klígju þegar alls konar spekingar nefna sem lausn á vanda þjóðarinnar: "... að við eigum svo miklar auðlindir". Við þurfum bara að nýta þær og þá er allur okkar vandi leystur. Auðlindum sjávar sé svo vel stjórnað og orkuauðlindirnar endurnýjanlegar og tandurhreinar. Þetta er blekking og þeir sem vita betur hafa ítrekað reynt að koma því á framfæri.
Fiskurinn í sjónum er bókfærð eign kvótakónga og veðsettur upp í rjáfur í erlendum bönkum af því strákana langaði svo að leika sér og kaupa einkaþotur, þyrlur og annan lúxus. Afganginn geyma þeir á leynireikningum í útlöndum og við borgum skuldirnar þeirra. Þó að ákvæði sé í lögum eða stjórnarskrá um að þjóðin eigi auðlindir sjávar er nákvæmlega ekkert að marka það. Nú eru þær í eigu erlendra banka eða erlendra kröfuhafa bankanna. Merkilegt að strákarnir skuli samt fá að halda kvótanum.
Orkuauðlindirnar - sem eru hvorki endurnýjanlegar né tandurhreinar eins og reynt er að telja þjóðinni og útlendingum trú um - er verið að einkavæða og selja frá þjóðinni fyrir slikk. Engu að síður er vitað að verðmæti þeirra getur ekki annað en aukist næstu ár og áratugi. Arðurinn af þeim fer úr landi og almenningur ber æ þyngri byrðar fyrir vikið. Hér á líka við að eignarhald þjóðarinnar á pappírunum er einskis virði ef nýtingarréttur og yfirráð eru í höndum einkaaðila.
John Perkins, fyrrverandi efnahagsböðull og aðalpersóna myndarinnar í fyrrakvöld, varaði okkur við. Hann sagði að þetta snerist allt um auðlindir. Hann sagði líka þetta: "Andstaðan verður að koma frá fólkinu. Við getum ekki búist við að leiðtogarnir búi yfir kjarki eða getu til að koma á breytingum nema við, fólkið, krefjumst þess. Hér á Íslandi verðið þið Íslendingar að krefjast þess að þið eigið auðlindirnar. Þetta er landið ykkar. Þið búið í því. Forfeður ykkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Þið megið ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna ykkur svona. En það verður að koma frá ykkur." Sagði John Perkins.
Á þriðjudaginn fór fram auðlindasala í Ráðhúsi Reykjavíkur í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Það var rækilega auglýst í fjölmiðlum og á Netinu. Þegar mest var voru á annað hundrað manns að mótmæla auðlindasölunni. Hvenær gerir fólk sér grein fyrir því, að verið er að selja Ísland, éta okkur með húð og hári - beint fyrir framan nefið á okkur?
Sinnuleysi Íslendinga er skelfilegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)