2.7.2008
Húmor á Mogganum - nú hló ég!
Hinn nafnlausi Víkverjapistill í Morgunblaðinu sl. sunnudag vakti óskipta athygli mína. Þar var fjallað um hve blogg er ómerkilegt og illa skrifað. Ég tók pistlinum sem argasta gríni og minn gamli vinur, Sigurður Þór Guðjónsson, skrifaði um hann litla bloggfærslu í sínum persónulega stíl.
Mér fannst pistillinn svo skondinn að ég sendi Víkverja dagsins tölvupóst og þakkaði fyrir í þeim anda sem ég tók skrifum hans. Ekki bjóst ég við að fá svar, en rakst svo á það í morgun að bréfið mitt var birt í blaðinu - í Velvakanda á bls. 27. Ég skellihló þegar ég sá þetta og kann vel að meta húmorinn sem í því felst að birta bréfið frá mér.
En hver var þessi Víkverji sunnudagsins? Á Morgunblaðinu vinna margir eðalblaðamenn og sjálfsagt eru fjölmargir þeirra húmoristar. Var þetta Agnes? Ragnhildur? Kolbrún Bergþórs? Freysteinn? Steinþór? Marga fleiri mætti nefna. Hver er "snyrtipinni og safnar ekki drasli"? Ég hef ekki hugmynd um það - og mér er svosem slétt sama. Það sem mér finnst mest um vert er að Morgunblaðið hafi húmor og leyfi okkur hinum að njóta hans. Nóg er af alvörumálum í samfélaginu. Það er gott að fá að brosa og hlæja líka.
En Mogginn sleppti að birta hluta af undirskrift minni sem mér finnst auðvitað alveg ótækt, því þar kemur fram að ég er sjálf bloggari og fell augljóslega undir hina málefnalegu og skemmtilegu alhæfingu Víkverja, sem og eigið háð. Ég undirritaði bréfið nefnilega svona:
Lára Hanna Einarsdóttir
www.larahanna.blog.is
hvar hún hefur ekkert fram að færa
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Spaugilegt, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:56 | Facebook
Athugasemdir
Jenný Anna Baldursdóttir, 2.7.2008 kl. 12:18
Allir hafa skoðun á blogginu þó gagnrýna þeir mest sem ekki eru þar.....einn sagði við mig um daginn, hva er þetta ekki bara eins og að birta dagbókina sína?? Ég skil reyndar ekki það fólk sem pirrar sig á þessu en les samt daglega...
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 2.7.2008 kl. 13:49
góð
Brjánn Guðjónsson, 2.7.2008 kl. 15:04
Já, satt var orðið. Við erum bölvaðir vindbelgir þessir bloggarar og kunnum hvorki stafsetningu né málfræði.
Steingerður Steinarsdóttir, 2.7.2008 kl. 15:08
Nú, þeir hafa bara ekki viljað auglýsa "ósómann" þinn Lára mín Hanna!?
Sjálfur er ég bara tilgangslítill Túkall-með-gati, en kannski meir íllþenkjandi og hugsandi frekar en íllskrifandi!
Magnús Geir Guðmundsson, 2.7.2008 kl. 16:02
Blaðamenn þola illa samkeppni við fólkið í landinu, (bloggarana) það er þeirra vandamál en ekki okkar
Guðrún Sæmundsdóttir, 2.7.2008 kl. 16:09
Flott mótsvar hjá þér!!
DoctorE (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 16:12
Snilli!!
alva (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 16:30
Fallegt af þér að svara á svona jákvæðan hátt. Enda var Víkverji sérlega jákvæð(ur).
Alveg er eg viss um að Laxness hefði bloggað, hefði hann haft tækifæri til. Enda þótti Mogganum ekki alltaf mikið í hann varið.
En hvað um það, við bloggarar höldum áfram að rausa um ekkert á bjagaðri íslensku í stærsta bloggsamfélagi landsins, í boði Moggans.
Villi Asgeirsson, 2.7.2008 kl. 19:11
góð
MAGNUS FINNUR HAUKSSON (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 22:28
Og fékkstu þá ekkert persónulegt svar í pósthólfið þitt, hmmm?
Ég skrifaði hr. strætó í fyrrakvöld og rakti raunir mínar í fimm fyrirspurnum. Mér til mikillar undrunar var Einar Kristjánsson, sviðsstjóri þjónustusviðs, búinn að svara þegar ég kom á fætur í gærmorgun. Núna er ég sest niður til að þakka honum svörin.
Kvartanir og spurningar eru lesnar, svei mér þá. Stundum samt ekki á milli línanna ímynda ég mér.
Berglind Steinsdóttir, 2.7.2008 kl. 22:54
góð
Hólmdís Hjartardóttir, 3.7.2008 kl. 00:56
Frábært!
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 3.7.2008 kl. 00:59
Hvað ætli margir manntímar hafi glatast við að jarðarbúar lásu "Stríð og frið" ? Kostnaðurinn hlýtur að nema milljörðum! Getur fólk ekki notað tímann betur?
Kári Harðarson, 3.7.2008 kl. 15:48
Hérna kom Víkverji líka við sögu. En þá var bloggið ekki orðið svona mikið. Eða netnotkun yfirleitt.
Pétur Þorleifsson , 3.7.2008 kl. 17:00
En Lára Hanna. Þótt Vikverji segi bloggið á illra skrifaðri íslensku þá eru nú margar villur í þessari stuttu Víkverjaklausu.
Haraldur Bjarnason, 3.7.2008 kl. 18:19
Hahahahha, þetta hefur verið Kolla Bergþórs, ekki spurning. Hún þolir ekki blogg og svo fleygir hún bókum. Ég lánaði henni einu sinni bókina The Dark Half eftir Stephen King og hún henti henni í ruslið með viðbjóði þegar hún var búin að lesa hana (eða áður en hún kláraði), alveg búin að gleyma að ég átti hana ... mér fannst það bara fyndið og fyrirgaf henni alveg. Var ekki búin að lesa hana sjálf og langaði ekki til þess eftir þetta, treysti smekk hennar á Stefáni King, þetta er eflaust ein af lélegri bókunum hans.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 4.7.2008 kl. 23:28
Gurrí... ég hef Kollu Bergþórs líka grunaða og veit að hún hefur aldeilis fínt skopskyn þótt ekki sé hún allra. En ég fíla hana í tætlur, ræmur eða botn... eins og þar stendur. Ég hef lesið gríðarlega mikið eftir Stephen King og mér finnst Dolores Claiborne best. Myndin komst ekki með tærnar þar sem bókin hafði hælana. Hvet þig til að lesa Dolores. Sumar bækur hans hef ég lagt frá mér eftir mismargar síður en aldrei hent þeim því ég hef aldrei getað fengið af mér að henda aldrei.
Ég hvet fólk til að smella á slóðina sem Pétur linkar í og lesa það sem þar stendur. Mjög athyglisvert.
Kári nefnir glataða manntíma við að lesa "Stríð og frið" sem eru sjálfsagt gríðarlega margir og þá erum við bara að tala um EITT skáldverk. Bætum svo fleiri verkum við og þá fáum við út ótal mannár - ég reyni ekki að giska á hve mörg. Tímasóun? Varla.
Kjarri... ég veit ekki hvort blaðamenn telja sig vera í einhverri samkeppni við bloggara. Bloggið er misjafnt eins og gengur - enda ótrúlega margir við þá iðju. Þar er líka skrifað um hörmungar Britneyjar Spears og þvíumlík málefni og kannski eru góð, málefnaleg, vel skrifuð blogg í minnihluta. En ég hef að minnsta kosti fundið mörg sem ég les oft og væri tilbúin til að benda viðkomandi blaðamanni Morgunblaðsins á þau, en hver hefur sinn smekk og ekki víst að téðum blaðamanni myndi hugnast sömu blogg og mér.
Haraldur... enginn skrifar eða talar fullkomna íslensku mér vitanlega. Sem betur fer kannski því ég held að fátt sé hrútleiðinlegra en fullkomleiki á hvaða sviði sem er.
Hrafnhildur... ég skil ekki heldur af hverju sumir lesa blogg sem fer í taugarnar á þeim og kvarta svo sáran. Ég hef dottið inn á ýmis blogg sem pirra mig af ýmsum ástæðum og leysi málið einfaldlega með því að lesa þau aldrei aftur.
Berglind... nei, ég fékk ekki tölvupóst frá Víkverja dagsins en bréfið bar birt í blaðinu sem var nú ekki það sem ég ætlaðist til. En það er svar út af fyrir sig og eins og ég segi í pistlinum - stútfullt af húmor.
Hefði Laxness bloggað, Villi? Góður punktur, kannski hefði hann gert það og verið mikið lesinn. Þórbergur hefði síður bloggað, held ég. Hann var svo skrýtin skrúfa. Skemmtileg pæling samt - hver hefði bloggað og hver ekki. Hvaða rithöfundar blogga núna? Ekki margir, sýnist mér.
Lára Hanna Einarsdóttir, 6.7.2008 kl. 12:49
Ég held að margir rithöfundar líti niður á bloggið. Það er ekki nógu litterer.
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.7.2008 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.