8.10.2008
Ábyrgð stjórnvalda og þýlund þjóðar
Íslenska þjóðin á að: "Standa saman, slíðra sverðin, þreyja þorrann og góuna, sýna stillingu og yfirvegun, bíta á jaxlinn og bölva í hljóði, hugsa í lausnum en ekki vandamálum, láta ekki hugfallast, styðja hvert annað með ráðum og dáð, bíta í skjaldarrendur, sýna æðruleysi, snúa bökum saman, halda ró sinni, ekki horfa um öxl og leita að sökudólgum, sýna samstöðu..." En síðast en ekki síst megum við ekki bregðast trausti stjórnvalda. Kanntu annan, Gísli Marteinn?
Þessi orð hafa dunið á okkur undanfarna daga í sjónvarpi, útvarpi, blöðum og á bloggsíðum og ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Eiginlega er þetta bara fyndið, í það minnsta grátbroslegt. Það er búið að brjótast inn hjá okkur og stela öllu steini léttara, við stöndum eftir berstrípuð - í besta falli á brókinni - en það er ætlast til þess að við þegjum, látum okkur bara hafa það og brosum í gegnum tárin. Svona eins og þegar við vorum þegnar Danakonungs sem hirti af okkur allt fémætt til að heyja stríð eða byggja hallir á meðan við horfðum upp á börnin okkar svelta heilu hungri og deyja drottni sínum.
Þessi sömu stjórnvöld hafa brugðist þjóðinni hrapallega. Þau nánast gáfu bankana okkar pólitískum vinum sínum, seldu frá okkur m.a. Landssímann með grunnetinu inniföldu og eru nú hægt og bítandi að einkavæða heilbrigðis- og menntakerfið sem forfeður okkar og formæður börðust fyrir með blóði, svita og tárum. Allt í boði frjálshyggjunnar.
Nú heyrist mér stjórnvöld ætla að redda málunum í hvelli með því að fórna framtíð komandi kynslóða, stunda rányrkju á orkuauðlindum okkar, fórna náttúrunni, virkja allt sem hægt er eða bara selja allt klabbið úr landi eins og Pétur Blöndal og fleiri hafa stungið upp á. Nú skal gjörnýta orkuauðlindirnar, kýla á nýtt fyllerí í timburmönnunum, og væntanlega verður fólk sem kemur til með að berjast gegn eyðileggingunni og rányrkjunni með kjafti og klóm kallað landráðamenn. Það kæmi mér ekkert á óvart. Við eigum nefnilega að slíðra sverðin og láta allt sem stjórnvöldum dettur í hug yfir okkur ganga. Nú á aldeilis að nota tækifærið á meðan þjóðin er eins og barinn harðfiskur og sjálfsagt er einhverja farið að klæja í loðna lófana.
Framsóknarflokkurinn ber fulla ábyrgð á þessum ósköpum ásamt Sjálfstæðisflokknum eftir 12 ára stjórnarsetu þrátt fyrir kolryðgaða geislabauga Guðna og Valgerðar sem þau grófu upp á einhverju saggafullu háalofti og nú virðist Samfylkingin hafa slegist í einkavæðingar-, virkjana- og stóriðjuhópinn gagnrýnislaust.
Ég kaupi þetta ekki. Ansi er ég hrædd um að þetta fólk geri það ekki heldur. Eða grunlausir hluthafar bankanna og aðrir, sem fjárfestu ævilangan sparnað en hafa nú misst aleiguna. Stjórnvöld brugðust öllu þessu fólki og líka okkur hinum sem ekkert áttum og missum því ekkert. Þessi kona slapp, enda með góð sambönd. Kannski fleiri sem við vitum ekki um. Láta stjórnvöld rannsaka svona mál? Það efa ég.
Flestir hafa eflaust tekið eftir að í viðtölum við stjórnmálamenn og forkólfa atvinnulífsins undanfarna daga er talað um verðmætar orkuauðlindir okkar, að nú verði að hraða virkjana- og stóriðjuframkvæmdum, Árni Sigfússon er búinn að bretta upp ermarnar og heitir álveri með hraði ef næg orka fæst (les.: Bitruvirkjun verði að veruleika) og Óli Björn Kárason vill láta afnema lög um mat á umhverfisáhrifum. Eins og þau séu undirrót vandans eða komi honum nokkurn skapaðan hlut við! Og ég sem hélt að Óli Björn væri klár strákur.
Þetta sama fólk talar fjálglega um að aðgerðir í efnahagsmálum núna séu aðallega fyrir komandi kynslóðir. Við megum ekki láta þær sitja uppi með skuldir sem þær ráða ekki við en það er tilbúið til að ræna af þessum sömu komandi kynslóðum auðlindum og náttúru landsins síns og rusla upp mengandi stóriðju úti um allar koppagrundir. Þetta heitir á læknamáli að vera kleyfhugi (schizophrenic).
Gerð hafa verið mistök á mistök ofan í efnahagsstjórn landsins en ennþá hefur enginn þurft að taka pokann sinn, hvorki stjórnmálamenn né bankastjórar. Enginn er ábyrgur fyrir blóðsúthellingum heillar þjóðar. Þvílíkur farsi! Hvenær ætla Íslendingar að vakna af sinnuleysisdvalanum og hætta að kyssa vöndinn? Lesum pistilinn hennar Bergþóru aftur... og aftur og lítum svo í spegil.
Ég skal svo sannarlega vera með og leggja mitt af mörkum, en ekki á þessum forsendum.
Svo kom Davíð í Kastljósið í gærkvöldi og fór mikinn eins og honum er lagið. Var sjálfum sér líkur og ekkert vantaði upp á mælskuna. Hann er einn aðalhöfundur handritsins og hafði a.m.k. einn fínan ráðgjafa við skriftirnar. En nú vill hann lítið kannast við króann, finnst ekki sanngjarnt að hann beri ábyrgð og þótt hann sé minntur á pólitískan feril sinn virðist hann engu að síður líta á sig sem vitran höfðingja á friðarstóli sem horfir með ástúð og dálitlum votti af vorkunn á þegna sína steypa sér í glötun. Hann lemur höfðinu við steininn og þekkir ekki sinn vitjunartíma þrátt fyrir ótal skilaboð frá Íslendingum jafnt sem útlendingum. Nú segist hann hafa varað við þessu en enginn hlustað. Af hverju talaði hann þá ekki hærra eða hrópaði ef þess þurfti? Nógu er hann mælskur, blessaður. Ef hann væri ekki svona blindur á sjálfan sig þætti mér líklega svolítið vænt um hann, þótt ekki sé nema vegna þess hvað hann hefur fylgt mér lengi í lífinu. En ég finn til með honum. Niðurlæging hans verður mikil í sögubókum framtíðarinnar.
Ég skil vel að Davíð sé vonsvikinn. Frjálshyggjan virkaði ekki, hún er gjaldþrota. Fall hennar er stórt. Alveg sama hve hátt Hans hægri hönd, Hannes Hólmsteinn, hrópar á torgum að "Kapítalismi er ekki það sama og kapítalistar". Kjaftæði. "Í draumi sérhvers manns er fall hans falið" orti Steinn Steinarr sem Egill ætlar að fjalla um í Kiljunni í kvöld í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá fæðingu Steins. Draumur Davíðs og Hannesar gekk ekki upp frekar en draumur annarrar útópíu, sósíalismans. Einfaldlega vegna þess að í slíkum útópíum eða hugmyndakerfum er aldrei gert ráð fyrir mannlegu eðli. Ekki frekar en í hagtölum.
Steinn orti líka:
Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
Og allt með glöðu geði
er gjarnan sett að veði.
Og þótt þú tapir það gerir ekkert til
því það er nefnilega vitlaust gefið.
Það var einmitt vitlaust gefið og getið þið hver gaf...
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 22.10.2008 kl. 12:10 | Facebook
Athugasemdir
Amen!
Við þurfum að losna við D listann. Við þurfum að losna við B listann. Og... samfó er ekki að standa undir væntingum.
Þetta með að losna við B og D listann... Það er ekki umsemjanlegt. Það bara *verður* að gerast!
Síðan vil ég breyta stjórnarfyrirkomulagi hér á landi... ég vil að það verði meira kosið um fólk, og minna um flokka!
Annars er spurning hvort maður íhugi það að flytja út, og heimsækja síðan rústirnar hérna á ísaköldu landi, þegar stóriðju...(mafían?) er búin að virkja og byggja og skemma og menga, og menga, og menga, og menga.....
Einar Indriðason, 8.10.2008 kl. 07:30
„Ekki benda á mig, segir varðstjórinn“. (Davíð = varðstjórinn)
Kjartan Pétur Sigurðsson, 8.10.2008 kl. 07:33
Frábær pistill ég linka á hann við mína færslu sem er ca. um það sama.
Ég hjó sérstaklega eftir þessu hjá Óla Birni. Vó, sumir kunna faktískt ekki að skammast sín.
Jenný Anna Baldursdóttir, 8.10.2008 kl. 08:33
Vá, hollur og góður pistill. Takk fyrir að vera til!!!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 8.10.2008 kl. 09:22
Góð samantekt.
Hjálmtýr V Heiðdal, 8.10.2008 kl. 09:28
Takk fyrir. Þessu þarf að halda til haga. Það er svo skrýtið hvernig lúbarin þjóðin leyfir þessum mönnum að drulla yfir okkur aftur og aftur.
Fjölmiðlamenn eru ótrúlega lélegir á Íslandi.
Hvernig á annað að vera þegar þeir eru:
a) á lágum launum
b) ráðnir vegna flokksskírteina, fjölskyldutengsla eða klíku, eins og viðgengst að vísu út um allt í þessu samfélagi. En í fjölmiðlum er það alvarlegra því þar þurfa menn að ljúga útí eitt eða þegja.
Munið þið þegar Gísli Marteinn varð spjallþáttastjórnandi á Ríkisútvarpinu aðeins barnungur? Og sótti vini sína sem töluðu um að lögleiða hass?
Rósa (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 09:29
Ég var í sundi í morgun að taka mína 500 metra, fór svo í pottinn að því loknu.
Þar voru samankomnir nokkrir andans menn að spuglera í málin, þottust hafa vit á hinu og þessu. Þegar kom að því að ræða veru Davíðs í kastljósinu, þá fékk einn greinilega nóg
Þegar einn þeirra rétti út höndina til að fá orðið, hinir þögnuðu með andakt, sagði maður þá: Hann Davíð hann róaði mig hann róaði mig alveg. Allir meðræðumenn samþykktu það.
það var mikið kurrað og cóað, þá stóð einn, sem hafði setið og fylgst með, upp og ruddist upp úr pottinum, sneri sér við og sagði hátt og snjallt:Nýju fötin keisarans eru helvíti flott.
Steinþór Ásgeirsson, 8.10.2008 kl. 09:51
Lára Hanna..... þú ert milljón. Takk
Heiða B. Heiðars, 8.10.2008 kl. 09:57
Góður pistill hjá þér. Það átti ENGINN von á þessu mikla eyðslufylleríi og bruðli, þegar bankarnir voru einkavæddir. Ef þú ert stjórnandi fyrirtækis og skaffar þér ofurlaun þá aukast skuldir í takt. "Það eyðist sem af er tekið", sagði amma. Þó faðir hafi rekið fyrirtæki vel í mörg ár þá er ekki þar með sagt að sonur hans hafi þá hæfileika og oftar en ekki nær græðgispúkinn tökum á syninum og hann keyrir fyrirtækið í gjaldþrot.
Elinóra Inga Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 09:58
Augu íslenskrar alþýðu eru loks að ljúkast upp fyrir því, hve gjörspillt og getulaus stjórnvöld hafa verið í gegnum tíðina. Getulaus og auðsveip auðvaldinu. Þessir menn þurfa að víkja sem fyrst, það er til nóg af góðu og gegnu fólki til að taka við af þessum „landsölumönnum“. Vonandi verður ekki blóði úthellt og vonandi hafa þessir „ráðamenn“vit á að stíga til jarðar og láta sig hverfa.
Ásgeir Kristinn Lárusson, 8.10.2008 kl. 10:04
Frábær pistill og samantekt. Ekki síst fyrir manneskju eins og mig sem nær aldrei að hafa yfirsýn yfir allt þetta rugl.
Nýju fötin keisarans... mikið afskaplega var þetta vel að orði komist
Jóna Á. Gísladóttir, 8.10.2008 kl. 10:06
Góð samantekt...gb
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 10:07
Takk fyrir þetta, góð skrif að vanda Lára Hanna!!
alva (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 10:26
Hvert verður lánstraust þjóðarinnar erlendis eftir öll þessi gjaldþrot - og við ákveðum að borga ekki krónu til skulunauta. Útrásarvíkingarnir sem voru vopnaðir ICASAVE - net maskínunni- gerðu strandhögg í hérðumum Bretlands- hirtu sparifé 300 þúsund innfæddra og hurfu síðan með allan sjóðinn. Eftir stendur væntanleg milliríkjadeila milli Bretlands og lands víkinganna hé á Íslandi um tryggingabætur fyrir innrásina,
Hvert veður lánstraust okkar næstu áratugina , erlendis ? Við þurfum lán erlendis frá til að nýta orkuauðlindir okkar- hvort sem þær eru skynsamlegar eða ekki.
Álverð fellur á heimsmarkaði- Alcoa tilkynnir 52% fall á hagnaði og dregur úr framleiðslu. Auðvitað minnkar öll neysla í heiminum við þetta efnahagshrun. Orkuver okkar er miðað við heimsmarkasverð á áli . Falli það niðurfyrir 1700 UDS förum við að greiða með öllum okkar orkusölum . Þða skipti ekki miklu meðan álverið litla í Straumsvík var bara eitt og sér - en ú erum við með þrjú stór álver og nýja stóra virkjun alla í skuld.
Eru tímar gjaldeyrisskömmtunnar og á aðfluttri vöru að renna í garð ?
Sævar Helgason, 8.10.2008 kl. 10:30
Vandaður pistill, takk fyrir.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 8.10.2008 kl. 10:34
Hverju orði sannarra - ógeðslega góður pistill
halkatla, 8.10.2008 kl. 10:58
Takk fyrir mig Lára Hanna. Það segir þetta enginn betur en þú.
Sigrún Jónsdóttir, 8.10.2008 kl. 11:23
Góður pistill. Við verðum pöbullinn að reyna að sjá til þess að stokkað verði upp á nýtt. Það þarf að greina þetta kerfi sem elur af sér þennan óskapnað - losa okkur undan áhrifavaldi þeirra manna sem gagnrýnislaust hylla það - og nota í eigin þágu. leita að nýrri leið. Það er mikil vinna fyrir höndum.
María Kristjánsdóttir, 8.10.2008 kl. 11:47
Ég hef verið fyrir talsverðu tjóni af óhæfum mönnum sem stjórnuðu landið (og stjórna enn). Fjárglæframenn fengu að valsa hér um og stálu öllu verðmæti sem var hægt að komast í. Ég get ekki þagað yfir þessu og horfa bara fram á veginn. Þátíðin skiptir einnig máli, þó ekki væri nema að læra af mistökunum. Og ég er langrækin og mun aldrei gleyma hvernig farið var með okkur almennum borgurunum hér í byrjun þessara öld.
Takk Lára Hanna fyrir þennan pistil, ég hef aldrei verið meira sammála þér eins og núna.
Úrsúla Jünemann, 8.10.2008 kl. 11:59
Við megum ekki gleyma því að þjóðin kaus þessa stefnu, að minsta kosti síðustu tvö kjörtímabil. Ögmundur og Steingrímur voru??? á þjóðminjasafninu með sínar skoðanir. Samfylking kaus að mynda stórn með íhaldinu án þess að breyta nokkru í stjórnarstefnu síðustu ríkisstjórnar. Þau m.a. fórnuðu Þórunni, sú sem var þeirra heiðarlegust ásamt Jóhönnu. Frjálshygja Davíðs var mjög röng en það vissu það flestir, nema Samfylkingin.
Davíð Seðlabankastjóri er hinsvegar að gera rétt, sem löngu hefði átt búið að vera gera. Stóra lánið, 500 milljarðar, það hefði allt verið tapað fé núna og þar að leiðir ekkert svigrúm til að bjarga almenningi, ekkert. Samfylkingin - Framsókn, "what makes the diff....???". Aðeins vinstri grænir stóðu vaktina en fæstir vilja viðurkenna það. Auðveldast er að rífa kjaft, miklu auðveldara en að skammast sín fyrir sinn hlut af vitleysunni. Váaa ESB og EVRA??, er Evrópski seðlabankinni að bjarg einhverju í dag??????????????????. Ef kallinn í brúnni hefði verið verið liðleskja þá væri í dag okkar Gjalderissjóður ásamt mjög stórum erlendum lánum einskis virði og Þá ????? Hver ætti okkar erlendu lán????? Allavega ekki íslenska ríkið og Seðlabankinn. Þeir sem gagnrýna Davíð í dag ættu a.m.k. athuga sín lán áður en þeir rífa kjaft. Slæmt væri það ef RSB ætti þau t.d eða einhver vogunarsjóður sem er stjórnað af hrægömmum frjálshyggjunnar; þá fyrst gætu skuldarar farið með bænir sínar.
Sá yðar sem syndlaus kasti fyrsta steininum. Við hin þurfum að spá í hver gerir réttu hlutina í dag.
OG (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 12:52
Vísa í þetta prontó!
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 8.10.2008 kl. 13:06
Takk og amen eftir efninu.
Rut Sumarliðadóttir, 8.10.2008 kl. 13:08
Já, og svo eru Norður-Kórea, Sovétríkin og Kúba fullkomin dæmi um sósíalisma í framkvæmd, meðan þetta ástand kemur frjálshyggju og kapítalisma ekkert við ...
Hversu heimsk halda þeir að við séum? Við erum að minnsta kosti ekki jafn heimsk og þeir ...
Elías Halldór Ágústsson, 8.10.2008 kl. 13:15
mikið er eg sammala Laru...sem betur fer á eg ekki heima þarna lengur!
sigurður örn brynjólfsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 15:18
Þvílíkur dugnaður og vandvirkni Lára Hanna! Hvernig hefur þú tíma til að skrifa svona marga og góða pistla? Ég kemst varla yfir að lesa þetta allt.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 15:21
Þó skömm sé frá að segja las ég pistilinn skellihlæjandi,
takk fyrir, hláturinn lengi lifi,
Hermann Bjarnason, 8.10.2008 kl. 16:02
Takk fyrir góðann pistil.
Kv. Örvar
Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 18:17
Heyr heyr!
Georg P Sveinbjörnsson, 8.10.2008 kl. 18:36
Takk fyrir góðan pistil
Hólmdís Hjartardóttir, 8.10.2008 kl. 18:54
Flottur pistill hjá þér - en ég verð að vera ósammála sumum athugasemdum hér á undan. Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hafa verið í stjórnarsamstarfi síðan 2007 og allan þann tíma hafa samfylkingarmenn s.s. Björgvin G. og Ágúst Ólafur haldið því fram - þrátt fyrir að sjálfstæðismenn hafi reynt að segja þeim að þegja - að hér þurfi róttækar breytingar í efnahagsmálum. Því er það sorglegt að það skuli svo lenda á þeim að þrífa upp æluna eftir frjálshyggjufylleríið. Ekki gleyma því hver gaf út brennuleyfið fyrir þá sem Davíð Oddson kallar nú brennuvarga, það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Ekki falla í þá gryfju að segja að allir stjórnmálamenn séu eins, höldum því til haga hver stóð vaktina hvenær og hvað hver gerði á sinni vakt.
Guðrún Helgadóttir, 8.10.2008 kl. 21:28
Já mín kæra! Það var vitlaust gefið!
Anna Karlsdóttir, 8.10.2008 kl. 21:54
Skemmtilegur pistill. Veit ekki hvernig Guðrún fær það út að Samfylking sé stikkfrí. Kannski fyrir að gera ekki neitt. Það er skoðun út af fyrir sig.
Víðir Benediktsson, 8.10.2008 kl. 21:57
Þúsund þakkir (dugar varla minna í verðbólgunni). Sárgrætilega sannur og skarplegur pistill hér að vanda.
baun (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 22:06
Góður pistill. Það er einmitt alveg ótrúlegt að enginn ætli að viðurkenna mistök sín og taka pokann. Seðlabankastjóri kemur í sjónvarp og rífur bankaleynd til hægri og vinstri, blammerar vinaþjóðir vegna þess að þær buðu honum ekki það sem hann bað um heldur vildu senda íslenska hagkerfið í meðferð, kallar menn óráðsíumenn og þykist vera slökkviliðsstjóri þegar í reynd hann var brennuvargurinn. Burt með Davíð ekki seinna en strax.
Marinó G. Njálsson, 8.10.2008 kl. 22:21
Snilldar færsla Lára Hanna. Eins og þín var von og vísa.
Góða nótt.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.10.2008 kl. 23:43
100. gr.a hgl um þá sem bera ábyrgðina - stjórnendur banka, fjármálastofnana, fjárfestingarsjóða og annarra slíkra sem hafa farið mikinn og veikt svo um munar efnahagslegar stoðir íslenska ríkisins.
Þrátt fyrir góðan pistil sem endranær sakna ég þess að menn skoði þá sem að þessu stóðu, mjólkuðu allt úr aðframkominni kýrinni og héldu partí aldarinnar.
því miður var bara elítunni boðið - rest hafði ekkert um þetta að segja - FME máttlítið auk þess sem í grunninn var þetta að mestu löglegt.
Stjórnmálamenn bera þennan bagga þrátt fyrir að hafa af gáleysi sofið þetta af sér - aðrir höfðu grandsemi en reyndu að leyna. Þykir ekki líklegt að þessi ríkisstjórn hafi í fórum sínum svo skelleggan leiðtoga að teknar verði ákvarðanir sem duga til. Fagna þó þeim veikburða tilraunum sem hafa komið til sl. tvo sólarhringa.
Það er ódýrt að kenna Davíð um þessar ófarir - ég vil sjá eignir forkólfanna frystar m.t.t. síðustu 2 ára að minnsta - þetta er fjandi einhlít umræða um aumingja þá sem töpuðu bréfpeningum sínum sem fengust margir hverjir fyrir lítið fyrir ekki svo löngu.
Skemmtilegar fréttir af þeim sem slapap af erlendis fjarri skarkalanum hér heima. Stingur svolítið í þeim glundroða sem þeir tóku þátt í að skapa.
En allar sögur hafa í að minnsta tvær hliðar.
Verst að sannleikurinn verður seint uppi í þessu máli.
Vona að þetta verði að minnsta til þess að athafnamenn okkar læri meira en menn lærðu af því sem gerðist 1929.
vcd
Bragi Þór Thoroddsen, 9.10.2008 kl. 00:00
Takk fyrir frábæran pistil.
Davíð Oddson er búinn að valda íslensku þjóðinni tugmilljarða tjóni siðasta
sólarhring. Fréttin um um lánið frá Rússlandi var komin út um allan heim
áður en hún var afturkölluð.
Trúverðugleiki Seðlabankans var endanlega lagður í rúst.
Blaðrið í Kastljósinu sem eyðilagði algjörlega alla viðskiptavild
íslendinga erlendis.
Gordon Brown fékk útskrift af Kastljósþættinum þegar hann kom í vinnuna á
miðvikudagsmorguninn og gerði tafarlaust viðeigandi ráðstafanir til að
tryggja hagsmuni breskra sparifjáreigenda.
Þar á meðal ákvörðun um lögsókn á hendur íslendingum fyrir svik.
Davíð Oddson er óhæfur og á ekki að vera í stjórnunarstöðu
http://www.dv.is/brennidepill/2008/10/8/afn/
http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/10/08/hrydjuverkalog_gegn_landsbanka/
http://www.dv.is/frettir/2008/10/8/ummaeli-davids-i-likingu-vid-ummaeli-
byltingastjorna/
Vona að sem flestir skrifi undir þetta
http://www.PetitionOnline.com/fab423/
Ragnar (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 00:33
- Úrdr. úr X. kafla almennra hegningarlaga -
91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.
Hafi verknaður sá, sem í 1. og 2. mgr. hér á undan getur, verið framinn af gáleysi, skal refsað með …1) fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.
Við skulum vona fyrir hönd allra hlutaðeigandi að þeir muni geta borið við gáleysi þegar þar að kemur.
Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2008 kl. 00:54
Marteinn Mosdal á vel við núna Einn banki- Ríkisbanki. Ein verslun- ríkisverslun. O.s.f.v
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.10.2008 kl. 02:41
Guð hjálpi okkur öllum. En áfram höldum við að verðlauna skúrkana, bankaguttarnir eru enn við völd, þeir sömu og komu okkur í þessa stöðu, við erum enn með sömu stjórnmálamenn við völd og sköpuðu þessar aðstæður. Ætli við kjósum þá ekki aftur enda ekki annað í boði eða hvað???
Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 08:50
Nú ætla ég að taka það fram að mér var alls ekki kært til Kaupþings, ég fór með alla bankaþjónustu mína þaðan á sínum tíma. Ég er hins vegar nægjanlega skynsamur til að sjá að Davíð Oddson er að skilja eftir sig slóð eyðileggingar út um allt. Kastljósviðtal hans var eingöngu ástæða fyrir því hvernig komið er fyrir Kaupþingi í dag. Hvað sem okkur finnst um Kaupþing þá hljótum við að skilja að það tapast hundruðir eða jafnvel þúsundir miljarða út úr þjóðarbúinu þegar fyrirtæki af þeirri stærðargráðu eru hreinilega tekin af lífi. Ég trúði því að Kaupþing væri nógu sterkt til að standa af sér þetta fárviðri. Breska stjórnin lokaði allri starfsemi Kaupþings á Bretlandi beinlínis sem viðbrögð við kastljósviðtalsins dæmalausa.
Ein spurning af hverju er ekki Seðlabankinn löngu búin að lækka stýrivexti niður í 6-8%??? Það er algerlega óskiljanlegt. Eina skýringin er sú að Davíð Oddsson getur ekki verið með réttu ráði. Hann er eins og Neró forðum hann horfir á landið brenna ofan úr turni Seðlabankans og ætli hann sé stoltur af gjörðum sínum???
Ég held að seinna meir mundi sagan dæma DO á hrikalegan hátt þó ég kenni honum alls ekki algerlega um þá stöðu sem við erum í. Hann er sannarlega olían á eldinn sem þurfti til að brenna alla fjármálastarfsemi í landinu til grunna. Nú er ég ekki úf fjármálageiranum og hef oft hneykslast á ofurlaununum þar. Hins vegar ofbýður mér algerlega fjármunirnir sem hafa tapast úr landinu við þessa aftöku bankana sem voru alls ekki illa staddir. Ég fullyrði að ef farið væri að öllum bönkum í Evrópu eins og farið var með bankana þrjá(aðförin) þá mundu meira en 90 % af bönkum í Evrópu fara í þrot.
Varðandi Kastljósviðtalið þá er ekkert skrítið að Sigmar hafi lítið haft sig í frammi. DO sér til þess að það sé tryggt að Spyrillinn sem er að spyrja hann spyrji hann enga óvænta spurningu þegar í viðtalið er komið. Hann er búin að undirbúa svör sín fyrirfram. Sigmar sleppti svo augljósum spurningum að það var sláandi. Spurningum eins og hvor eftirlitsskylda FME og Seðlabankans hafi brugðist.
Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 09:57
Ég nennti nú ekki að lesa alla þessa færslu þína en eftir ca helminginn gat ég nú ekki annað en látið heyra í mér.
Villtu kenna stjórnvöldum um það að þú eignaðist börn of ung ?-
-Ég meina þeir hefðu átt að eyða meiri peningum í getnaðarvarnir og hafa vit fyrir okkur
Villtu kenna stjórnvöldum um það að þú keyrðir á og lentir í bílslysi ?
-þeir ættu nú að vera löngu búnir að taka út öll gatnamót og byggja mislæg gatnamót.
Villtu ekki líka kenna stjórnvöldum um að sumt fólk er alltof feitt ?
- Það er nátturulega stjórnvöldum að kenna að fólk er gráðugt og étur of mikið og nennir ekki að hreyfa sig!
Villtu ekki líka kenna stjórnvöldum um að fólk fremji afbrot ?
- Refsingar eru als ekki nógu harðar og það ætti sko að kenna þessum mönnum rækilega lexíu strax við fyrsta brot.
Ég gæti haldið endalaust áfram með svona fáránlegar ásakanir á stjórnvöldin okkar.
Það sem að stjórnvöldin eru að segja er að við Íslendingar verður að standa saman allir sem einn og sýna bróðerni núna.
Hætta að hugsa um rassgatið á sjálfum okkur og halda áfram því þetta er enginn heimsendir.
Ef að við ætlum að hafa þetta eins og þú ert að leggja til allir öskrandi á alla og allir benda á hinn og þennan í staðin fyrir að draga hausinn út úr rassgötunum á okkur og drullast til að vinna okkur út úr þessu.
Ef það sem að þarf til að þú lifir af þessa kreppu er að þú vinnir aðeins lengur á daginn eða jafnvel tekur þér aukavinnu þá er það það sem þú þarft að gera. Um leið og við höldum áfram að lifa eðlilga og stöndum saman sem þjóð um það að fara ekki á hausinn þa´byrjar boltinn að rúlla aftur.
Ef við stöndum endalaust og bíðum eftir að stjórnvöldin bjargi okkur þá eigum við eftir að fá að standa í ansi langann tíma.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 13:45
Arnar Geir... Þú segir á blogginu þínu að þú sért ungur maður á uppleið. Ég vona þín vegna að það sé rétt. En leyfðu mér að ráða þér heilt til að forða þér frá því að hrasa á uppleiðinni:
Kynntu þér málin áður en þú dæmir. Þú segist ekki hafa nennt að lesa nema helminginn af færslunni en telur þig samt þess umkominn að dæma það sem í henni stendur. Láttu aldrei standa þig að slíkum mistökum aftur með nokkurn hlut.
Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma séð neinn misskilja orð mín eins hrapallega og þú gerir hér - ekki einu sinni Gunnar Th. og þá er mikið sagt.
Andaðu djúpt, teldu upp að tíu, lestu þér til, kynntu þér menn og málefni - svo skaltu mynda þér skoðun og tjá hana, fyrr ekki.
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.10.2008 kl. 13:52
Arnar Geir, skipstjóri sem sefur við stýrið og siglir því beint inn í næsta skerjagarð á ekki að stjórna skipi áfram, það verður að passa að þeir sem sem komu okkur á kaldan klaka komi hvergi nærri í framhaldinu, hvaða sauður sem er skylur það þó.
Georg P Sveinbjörnsson, 9.10.2008 kl. 16:02
Mig langar að benda hinum "viti borna manni" á, að yfirskrift pistilsins, eða kjaftæðis höfundar eins og hann kýs að kalla hann, er "Ábyrgð stjórnvalda og þýlund þjóðar". Ekki "Ábyrgð Baugsmanna eða Jóns Ásgeirs". Því ætti að vera öllum ljóst um hvað pistillinn fjallar og hvað ekki.
Ég hef áður fjallað um ábyrgð Baugsmanna, FL Group manna og annarra og mun gera það aftur. Hinum "viti borna manni" bendi ég í því sambandi á þessa færslu, þessa, þessa, þessa og þessa. Og ég er aldeilis ekki hætt.
Ábyrgð þeirra er gríðarleg - en ábyrgð stjórnvalda ekki síður og sjálfsagt að fjalla um hana líka. Ég hef gagnrýnt það sem mér finnst gagnrýnisvert, burtséð frá því hvaða stjórnmálaflokkum fólk tilheyrir.
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.10.2008 kl. 22:59
Það er alrangt hjá þér að sala bankanna hafi verið eðlilegur gjörningur eins og hún fór fram. Þar með er ég ekki að segja að ekki hafi verið rangt að selja þá heldur hvernig staðið var að því og hverjir fengu þá upp í hendurnar. Ég held að við þurfum ekkert að ræða það neitt frekar, þú veist alveg jafn vel og aðrir hvað ég er að meina.
Í framhaldi af þessu láðist síðan stjórnvöldum að setja reglur, veita aðhald og halda uppi öflugu eftirliti. Það er vítavert og má ekki líðast framvegis ef bankarnir verða seldir aftur.
Við ættum því kannski að breyta líkingunni eitthvað á þá leið að stjórnvöld hafi opnað upp á gátt bankahirslur ríkisins þar sem verðmæti þjóðarinnar voru geymd og þeim trúað fyrir. Þeir vissu vel af þjófagenginu sem beið færis úti en hirtu ekki um að láta setja upp öryggiskerfi, eftirlitsmyndavélar eða gera aðrar ráðstafanir til að vernda verðmætin - og skelltu sér svo í frí til Flórída.
Þjófarnir gengu rösklega til verks og af því fjárhirslurnar voru ólæstar með öllu þá þurftu þeir ekki einu sinni að nota kúbein.
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.10.2008 kl. 23:32
Vitiborni maður, ef það hefur farið fram hjá þér er kapítalisminn í fjörbrotunum og flestum orðið augljóst að frasinn þreytti að græðgi sé góð er með þeim heimskari sem borinn hefur verið á borð, brauðmolakenningin er búin að vera...og farið hefur fé betra.
Georg P Sveinbjörnsson, 10.10.2008 kl. 05:55
Veistu það að meira segja ég getið tekið undir 50% af því sem þú segir.
Það er stórt uppgjör framundan í Sjálfstæðisflokknum. Ástæðan er sú að fyrir 17 árum var þeim Sjálfstæðisflokki, sem ég gekk í fyrir um 30 árum síðan rænt eða réttara sagt "hijacked"!
Allir stjórnmálaflokkar skiptar í a.m.k. þrjá hópa:
Í okkar tilfelli tóku öfgamennirnir völdin í kjölfar mikilla efnahagserfiðleika og lofuðu lausnum. Að hluta til virkuðu þær lausnir og munu einnig gera það í framtíðinni. Þetta jók enn á vinsældir öfgamannanna og fjöldi meðreiðarsveina þeirra jókst. Þeim tókst meira að segja að hluta til að sannfæra mig. Þótt aldrei hafi ég yfirgefið mitt fólk í flokknum og aðhyllst RÚV og að heilsugæslan og menntakerfið ættu að meginstofni til að vera hjá ríkinu. Þetta geta þeir vitnað um, sem til mín þekkja í flokknum og utan hans. Undanfarin 1-2 ár hef ég einnig verið hlynntur aðildarviðræðum við ESB.
Fyrir ofangreindur skoðanir hef ég verið hart gagnrýndur og kallaður bölvaður hægri krati og sumir jafnvel ýjað að því að ég ætti alls ekki heima í Sjálfstæðisflokknum.
Ég segi nú bara að ef okkur "hægri krötunum" yrði hent út núna við þessar aðstæður er hætta á að allir meðreiðarsveinarnir fylgi með! Það færi um ýmsa, þegar Sjálfstæðisflokkurinn væri kominn með 5-10%, því meira fylgi hefur hinn frábæri fyrrum foringi okkar og Hannes Hólmsteinn og meðreiðarsveinar þeirra á þingi ekki í dag.
Nú er kominn tími til að við tökum aftur völdin í okkar gamla flokki með hjálp meðreiðarsveinanna og að hægri menn - því þeir eru og verða alltaf til - hjálpi til við enduruppbyggingu landsins.
Auðhyggjan er ekki dauð úr öllum æðum frekar en félagshyggjan, en hins vegar eru nýfrjálshyggjan og kommúnisminn svo steindauð, að allar endurlífgunartilraunir eru gjörsamlega gagnslausar.
Lifi hið "blandaða hagkerfi", þar sem ríkisafskipti eru notuð af skynsemi til að leiðrétta markaðsbresti!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.10.2008 kl. 07:11
Lára: Það sem að ég átti við með þessari færslu minni er að það skiptir bara nákvæmlega engu máli hver er sökudólgurinn. Og eins og ég sé það þá er það alls ekki ríkistjórnin. Ég hinsvegar tek undir með þér að það var mjög kjánalegt hvernig var staðið að því að selja bankana og eins má segja um kvóta kerfið.
Það er hinsvegar staðreynd að Davíð var búinn að vara alla bankastjórana við þessu og þeir létu sér það engu skipta. Baugsmenn og fleiri auðfýkingar eru stæðstu sökudólgarnir í þessu máli. Það eina sem þeir hugsa um er að græða sjálfir og þeim er skítsama um alla sem að þeir skipta við.
Hinsvegar á það ekki eftir að koma okkur langt að standa og benda á hvort annað. Í fyrsta skipti á minni æfi er ég sammála Steingrími J. Sigfússyni um að nú þurfum við Íslendingar að standa saman að því að vinna okkur útúr þessu. Ástæðan fyrir því að ég las ekki alla færsluna er einfaldlega sú að mér þótti hún soldið föst í því að vera að benda a hinn og þennan.
Ég bara spyr þig. Hvað kemur ástandið til með að batna þótt við finnum út hver er sökudólgurinn ???
Eyðum orkuni í að vinna okkur útúr vandanum þegar vandinn er leystur þá getum við skoðað þetta mál betur. Þangað til þá er þetta sóun á púðri sem að kemur okkur ekkert áfram.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 09:45
Ástandið kemur til með að batna þegar trúverðugt fólk tekur við stjórninni. Það er tímaeyðsla að bíða eftir því að þreyttir stjórnmálamenn viðurkenni mistök sín og einmitt þess vegna þarf í snatri að ráða nýtt fólk í Seðlabankann. En auðvitað þurfa allir að standa saman á tímamótum sem þessum.
Nú er því miður farið að koma í ljós hvað einkavinavæðingin gæti kostað okkur. Ef sala bankana hefði verið eðlilega skipulögð og erlendum aðilum boðið að taka þátt hefði hrunið stóra mögulega ekki farið stað. Sökudólgarnir eru eflaust margir og tíminn mun leiða í ljós hverjir léku stærstu hlutverkin í bankabrennunni miklu.
Sigurður Hrellir, 10.10.2008 kl. 10:18
"Ég bara spyr þig. Hvað kemur ástandið til með að batna þótt við finnum út hver er sökudólgurinn ???"
Það er þá hægt að halda honum/þeim frá því að vera með puttana í ákvörðunum um framhaldið, þegar menn gera jafn afdrifarík mistök sem setja þjóðina á hausinn eiga þeir ekki koma nokkur staðar nálægt lausnunum, þeir sem reynast óhæfir og hafa greinilega ekki valdið starfinu eins og Davíð eiga að sjá sóma sinn í því að segja af sér og þvælast ekki frekar fyrir.
Heldur ætlar arfleifð Davíðs að verða snautleg þegar upp er staðið, af hverju í ósköpunum settist maðurinn ekki á helgan stein meðan hann gat, það geta ekki verið góð skipti fyrir hann að breytast úr "landsföður"(sic) í vanhæfan aula sem skorti nauðsynlega yfirsýn til að valda starfi sínu...með hrikalegum afleiðingum fyrir þjóðina. "Útrásarvíkingarnir líta ekki heldur vel út þessa dagana, við þekkjum nöfn þeirra og til lítils að vera í einhverjum póllýönnuleik, það þarf að tryggja að þeir séu ekki að lauma þýfi undan.
Georg P Sveinbjörnsson, 10.10.2008 kl. 10:30
Ok Georg, ef við komumst að samkomulagi um hverjum þetta er að kenna er málið þá bara leyst ? Kreppan búin og allir ánægðir ?
Það er algert aukaatriði hver varð til þess að koma þessu ástandi á. Finnum sameiginlega lausn á þessu máli, lögum ástandið og komum á stöðugleika í þessu landi og síðan getið þið asnast í þessum nornaveiðum ykkar.
Það er lítið mál að laga þetta ástand á 2-3 mánuðum ef að menn standa saman, hinsvegar ef allir standa og benda á hvorn annan þá er lítið sem við getum gert annað en að bíða eftir að ástandið lagist á erlendum mörkuðum og jafnvel eftir að það gerist þá værum við ennþá svo fáránlega vitlausir að menn myndu sniðganga okkur í einu og öllu.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 13:51
Ég verð því miður að hryggja þig með því Arnar Geir að heimskreppan er ekki að fara neitt á næstunni, henni lýkur ekki fyrr en stærstu hákarlarnir eru búnir að sópa til sín á spottprís öll þau fyrirtæki og banka sem verða á brunaútsölu og eignir millstéttanna, enda kreepur skapaðar af þeim akkúrat til þess, en það er kannski ekki von að þú áttir þig á þeirri staðreynd, fæstir gera það. Hvað er ég að meina?
Lestu þessa mögnuðu bók og þú munt skilja betur hráskinnaleikinn, kreppan 1929 ver "sköpuð" og þessi heimskreppa er það líka, fólk verður að fara að átta sig á því til að vera umræðuhæft um þær. Mikilvægast verkefni þessara daga er að fletta ofan af ástæðum kreppunar og fyrri kreppna svo að hægt sé að halda þjófahyskinu siðblinda frá því að leika sama leikinn aftur og aftur.
Georg P Sveinbjörnsson, 10.10.2008 kl. 17:13
Jóhannes Björn sem seðlabankastjóra segi ég! Sofandi fólk á ekki að stjórna einu né neinu.
Ef ég heiri Geir Hilmar segja einu sinni enn í sauðshætti sínum að enginn hefði getað séð þessi ósköp öll fyrir fyrir er mér öllum lokið, þvílík steypa.
Georg P Sveinbjörnsson, 10.10.2008 kl. 17:17
Ég var heldur ekkert að tala um að við myndum leisa heimsvandann. En við getum komið okkar þjóð í ásættanlegt ástand.
Ef við styrkjum gengi krónunar þá lækka lánin og fólk verður ekki í sömu vandræðum. Þó við séum kannski ekki að fá sömu erlendu lán.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 17:58
Ég veit ekki mikið um efnahagsmál en ég skil ekki hvernig stjórnvöld og bankar gátu ekki séð allavega brot af þessu fyrir.
Í allri þessari þenslu síðastliðið ár að common sense hefði sagt þessum mönnum að what goes up must go down.
ég held að engin hefði séð fyrir að eitthvað svona mikið að myndi gerast en þau hefðu átt að gera varúðaráðstafanir.
hildur (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 19:22
Davíð Oddsson er maðurinn sem eyðilagði Ísland.
Þegar ég hugsa um Davíð Oddsson sé ég fyrir mér
í huganum þessa mynd.
http://www.schikelgruber.net/images/lastpic.jpg
Þarna er Davíð ásamt yfirhugmyndafræðingi sínum Hannesi Hólmsteini
kominn upp úr bunker Seðlabankans.
Hann er að virða fyrir sér árangur verka sinna og að fá sér frískt loft.
NB! Á þessari mynd eru statistar.
Maðurinn til hægri sem lékur Davíð Oddsson heitir Adolf Schickelgruber eða öðru nafni Adolf Hitler.
Sá sem leikur Hannes Hólmstein heitir Jósef Göbbels.
Rústirnar eru ekta.
Myndin er tekin seinnipart apríl árið 1945.
Ragnar (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 03:50
Það sem mer finnst hrikalegast að við skulum hafa treyst þessum háttsettum herramönnum að stjóra landi og þjóð. Ég vil sjá nýtt fólk taka her við. Flott að fá þetta beint í æð á einu bretti. Með bestu kveðju.
Anna , 22.10.2008 kl. 11:03
Mín spurning er hvernig ætlum við svo að borga þessi erlend lán sem þjóðin er að taka. Það er ekki fræðilegur möguleiki að við getum það. Þjóðarframleyslan er svo lítill. Þetta hlýtur að vera "joke" ársins.
Anna , 22.10.2008 kl. 11:10
Anna Björg, með fullri virðingu fyrir Láru Hönnu þá ertu ekki að fá neitt gagnlegt á einu bretti hérna, þó það leynist að sjálfsögðu sannleikskorn inná milli í þessari færslu hennar þá er þetta eitt mesta þvaður sem ég hef lesið lengi. Og það er einmitt þessi hugsanaháttur hennar sem að heldur okkur frá því að vinna okkur útúr þessari kreppu.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 11:12
Anna Björg þú hittir naglann á höfuðið þegar þú sagðir að þjóðarframleiðslan væri of lítil til að takast á við allar þessar skuldbindingar hérna er pistill á grein sem ég skrifaði um þá möguleika sem þjóðin hefur.
Það er hinsvegar deilumál um það hvort við eigum að vera að taka á okkur þessar skuldbindingar yfir höfuð. en það er önnur saga.
http://a2.blog.is/blog/a2/entry/675362
Ætla að taka það framm áður en einhver fer að skjóta því að þetta er enginn allsherjar lausn eflaust eru til nokkrar aðferðir en þetta er lausn sem er þó í rétta átt.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 11:15
Arnar Geir... Sælir eru einfaldir, svo mikið er víst. Nú skaltu einbeita þér að því að vaxa úr grasi, þroskast og verða fullorðinn. Lesa mikið, mennta þig og þjálfa í gagnrýnni hugsun. Þetta tekur þó nokkur ár, kannski ekki ýkja mörg ef einhver snefill af greind og skynsemi er fyrir hendi hjá þér.
Þangað til þessu takmarki er náð skaltu fara ofurvarlega í skítadreifinguna og þegja frekar en gaspra um hluti sem þú hefur ekki hundsvit á.
Lára Hanna Einarsdóttir, 22.10.2008 kl. 12:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.