25.11.2008
Magnaður borgarafundur
Borgarafundurinn síðasta mánudagskvöld sem fjallaði um fjölmiðlana var magnaður (sjá tónspilara). Fundurinn í gærkvöldi var aldeilis ekki síðri. Ánægjulegt hve margir þingmenn og ráðherrar mættu og húsið var kjaftfullt. En Davíð Oddsson lét ekki sjá sig. Ég verð að játa að ég bjóst ekki við svona mikilli mætingu en hún sýnir hug og líðan almennings. Andrúmsloftið var rafmagnað og fólki var mikið niðri fyrir. Ég held að ég hafi aldrei upplifað andrúmsloft eins og á mótmælafundunum á Austurvelli og borgarafundunum. Íslendingar eru ekki mikið gefnir fyrir að láta heyra of mikið til sín, en á þessum fundum er hrópað, blístrað, klappað, púað og tjáningin í botni. Mér líkar þetta vel.
Ræðumenn voru allir frábærir, Einar Már gaf lífinu lit og Gunnar stjórnaði af mikilli festu og enginn komst upp með múður eða langlokur - hann reyndi eins og hann gat að kreista skýr svör upp úr ráðherrunum með misjöfnum árangri þó.
Ráðherrarnir stóðu sig misvel. Lítið reyndi á Einar K., Kristján Möller og Þórunni en hin voru plássfrekari og fleiri beindu orðum sínum til þeirra. Þorgerður var sköruleg en innihaldið ekki alltaf samkvæmt því. Össur gerði misheppnað grín að öllu. Geir og Ingibjörg Sólrún voru pólitíkusar fram í fingurgóma og gátu ekki með nokkru móti svarað neinu skýrt og skorinort, fóru alltaf út og suður í svörum sínum.
RÚV á mikið hrós skilið fyrir að senda beint út af borgarafundinum í Háskólabíói. Fyrir fundinn var umfjöllun um hann í Kastljósi og eftir fundinn í Tíufréttum. Frábærlega að verki staðið EN... ég fékk aftur tölvupóst frá Friðrik Berndsen, þeim sama og ég birti bréf frá hér. Friðrik segir m.a.:
"Hef verið að reyna horfa á útsendinguna úr Háskólabíói. Hún byrjaði vel í þetta skiptið, mynd ágæt og hljóð einnig, en svo var eins og menn hættu á vaktinni klukkan 21, því þá náðist bara ekki samband við RÚV lengur.
Erum hérna nokkrir íslendingar sem hópuðumst saman til að fylgjast með útsendingunni, bæði ferðalangar og aðrir sem starfa hér í Asíu, og vonbrigði voru mjög mikil með að þeim tækist ekki að klára þetta.
Ath: Útsendingin fór fram um miðja nótt hér svo fólk lagði á sig að vaka til að geta séð þetta."
Þetta kannast ég vel við, sérstaklega í beinum útsendingum af áhugaverðum atburðum. Þegar Geir og Björgvin voru með fundina í október klikkaði netútsending RÚV ansi oft. Það var eins og kerfið þyldi ekki álagið. Vill kannski einhver vekja athygli þeirra á RÚV á þessu og biðja einhvern sem hefur með málið að gera að skjóta hér inn athugasemd og útskýra hvað veldur þessu. Það er miklu auðveldara að skilja og jafnvel sætta sig við þetta ef fólk veit hvað veldur. Vonandi verður RÚV með beina útsendingu aftur af næsta fundi, mánudagskvöldið 8. desember. Þá verður kastljósinu beint að verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðunum.
En hér er allt um fundinn frá RÚV í kvöld - Kastljós, fundur og tíufréttir. Fundinum sjálfum skipti ég í 3 nokkuð jafnlanga hluta. Ég varð ekki vör við að Stöð 2 minntist einu orði á fundinn að þessu sinni. En hér er heilmargt um fundinn.
Kastljós fyrir fundinn
Borgarafundur í Háskólabíói - fyrsti hluti
Borgarafundur í Háskólabíói - annar hluti
Borgarafundur í Háskólabíói - þriðji hluti
Tíufréttir eftir fundinn - Hlustið vel eftir viðhorfum ráðherrana,
hvað þau segja og hvernig þau segja það. Mér var ekki skemmt.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:45 | Facebook
Athugasemdir
Mér var ekki skemmt heldur. Það er stöðugt verið að gera lítið úr þessari vakningu almennings.
Hvað ætli það þurfi að vera margir samankomnir til að þetta ráðherrapar hætti að gera lítið úr mætingunni?
Takk fyrir síðast.
Jenný Anna Baldursdóttir, 25.11.2008 kl. 01:12
Mér fannst svör stjórnarinnar slök........held að mannfjöldinn hafi komið þeim i opna skjöldu.
Hólmdís Hjartardóttir, 25.11.2008 kl. 01:33
ég var nú ekki viðstaddur, en sá fundinn sendan gegn um gagnaveitu Símans. það kom mér þægilega á óvart að hæstráðendur Íslands skyldu drattast ti að mæta og sitja fyrir svörum. ég átti, satt að segja, ekki von á því. vitanlega mætti Dabbo af Svörtuloftum ekki, enda er hann eymingi og larður fyrir allan peninginn
Brjánn Guðjónsson, 25.11.2008 kl. 01:36
Ég held að þeir hjá RUV viti vel hvað Netútsendingin er misheppnuð hjá þeim. Þeir þykjast alltaf vera að því komnir að kippa þessu í lag og kenna ýmsu um glappaskotin. Aðallega þó peningaleysi. Bloggvinur minn Gunnar Hrafn Jónsson vinnur þarna og það mætti reyna að hafa samband við hann.
Sæmundur Bjarnason, 25.11.2008 kl. 01:40
Ég held að vandamálið við beinar útsendingar á netinu sé það, að í útlöndum eru ekki áskrifendur og það er ekki lögð áhersla á því að halda því uppi. Vinkona mín í Finnlandi getur yfirleitt ekki horft á neitt nema gamalt efni á RUV og það gengur líka illa hjá henni.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.11.2008 kl. 02:13
Ég var að horfa á þetta áðan á netinu í frábærum mynd og hljóð gæðum.
Líklega mun Dabbi "biðjast afsökunar á að hafa ekki mætt"
Það var svar frá Þórunni sem mér fannst ágætt: Þegar hún var spurð að því hvort alþjóða gjaldeyrissjóðurinn muni vilja fara illa með auðlindir landsins. "Við höfum hingað til verið full fær um það sjálf"
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 04:21
Ég hef alltaf talið skýringuna á vandamálum við beinar vefútsendingar tengjast því að of margir reyna að sækja þær í einu. Ég náði að horfa á brot, en gafst upp þegar hún hoppaði til baka á upphafspunkt.
Hins vegar er allt í ólestri hjá RÚV með þessi mál, helgin var hljóðlaus fyrst, en nú hef ég hljóð án myndar.
Kristín í París (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 06:48
Lára Hanna... ég rétt missti af þér í gær... sá þig svífa framhjá mér, og ég var of seinn að taka við mér.
En, já. Bæði Geir og Solla virtust koma af fjöllum með fjöldann. Og að reyna svona að strjúka fullt, og ég meina sko FULLT Háskólabíó, svona eins og rykkorn af öxlinni.... með þeim orðum að þetta sé ekki rödd þjóðarinnar....
Ég segi eins og viðmælandi út í sal: "Hvað þarf virkilega til, til að þið (Geir og Solla) áttið ykkur á þessu?"
Einar Indriðason, 25.11.2008 kl. 08:26
Frábært framtak hjá þeim sem komu þessum fundi á laggirnar. Þeir eiga mikið hrós skilið. Framsögur voru góðar og þá sérstaklega hjá Þorvaldi. Fundarstjórinn skemmtilegur en það er nú yfirleitt ekki talið við hæfi að fundarstjóri noti sína aðstöðu til að baða sig í sviðsljósinu.
Þórir Kjartansson, 25.11.2008 kl. 08:49
Gunnar er miklu meira en fundarstjóri, hann er hvatamaður að fundunum, ábyrgðarmaður og hugsanlega sá sem situr uppi með reikningana af leigunni fyrir Háskólabíó eða fundarstaðnum hverju sinni. Hann hefur sagt skilmerkilega að hann sé að þessu til að leita svara og upplýsinga og mér finnst aðferðin hans að minnsta kosti ekki síðri en hjá öðrum. Ég þekki hann ekki neitt þannig að ég ber bara blak af honum af því að mér finnst hann einmitt skýr, skilmerkilegur - og skemmtilegur. Ekki vanþörf á þessu síðasa.
Berglind Steinsdóttir, 25.11.2008 kl. 08:56
Frábærir ræðukonur og menn! Frábær samstaða hjá fólkinu í salnum og maður sér hvernig Íslendingar standa þétt saman þessa dagana! Ömurleg frammistaða ráðherra. Best finnst mér að Imba haldi því fram að meiri hluti þjóðar vilji ekki kjósa uppá nýtt... Hún vil setja fólkið fyrst og svo flokkinn og eigin hagsmuni heldur betur sem hún gerir það...
Unnsteinn Jóhannsson (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 09:12
Dæmalaus viðbrögð Geirs og Ingibjargar eftir fundinn.
Þessi tvö andlit Ríkisvaldsins voru hrokinn og afneitunin uppmáluð. Veikt fólk þarf að víkja!
Ásgeir Kristinn Lárusson, 25.11.2008 kl. 09:23
Þetta var frábær og magnaður fundur. Ræður Þorvalds og Einars Más ótrúlega góðar - þeim tekst að segja það sem okkur mörgum býr í brjósti á eftirminnilegan og áhrifaríkan hátt. Gefur okkur von um að eitthvað nýtt geti fæðst úr þessum hörmungum.
Fundarstjórinn er skemmtilegur maður og frábært framtak að koma þessum fundum af stað. Hafðu þökk fyrir það og vonandi lögðum við fundargestir nógu mikið í föturnar til að hann þurfi ekki að borga leiguna úr eigin vasa. Á næsta fundi myndi ég vilja að hann gæfi fundarmönnum sem allra mest af fundartímanum, en stillti sig um að tala mikið sjálfur.
Helga Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 10:25
Það er makalaust hvað fjölmiðlafólk á erfitt með að telja. Kastljóskynnirinn sagði að allavega 1.000 manns væru mættir þó svo að öll sæti væru setin, gangar troðfullir og andyri sömuleiðis. Sætin í stóra salnum eru rétt um 1.000. Andyrið rúmar sömuleiðis a.m.k. 1.000 manns. Þá eru gangarnir í salnum ótaldir. Réttara hefði því verið að segja að allavega 2.000 manns væru mættir.
Fréttablaðið sagði að um 1.500 manns höfðu lagt leið sína í Háskólabíó. Þar er sömuleiðis verið að gera lítið úr fjöldanum því að augljóslega voru margir sem sneru heim fyrst að bæði salurinn og andyrið var troðfullt. Moggann hef ég ekki séð en mbl.is sagði í gærkvöldi að húsfyllir væri á staðnum.
Ég skrifaði áðan færslu um að varað væri við því að yfirvöld taki ekki mark á margendurteknum friðsamlegum mótmælunum fjölda fólks. Það væri trúlega ekki sjálfgefið að þau héldu áfram að vera friðsamleg ef engin umtalsverð viðbrögð verða við kröfunum. Ég býst ekki við að mörg okkar vilji sjá bardaga á götum úti, brennandi bíla og sérsveitarmenn með kylfur, piparúða og táragas svo ekki sé talað um gúmmíkúlur eða rafmagnsbyssur.
Sigurður Hrellir, 25.11.2008 kl. 11:04
Hér má gefa Ríkisstjórninni stjörnu í kladdann fyrir vel unnin störf.
http://www.photo.is/rikisstjorn.html
Smá vísir að kosningakerfi sem koma skal þar sem auðvelt er að kjósa um menn og málefni.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 25.11.2008 kl. 11:16
Fólkið var frábært, ríkisstjórnin var að venju algerlega ömurleg... ISG framdi pólitískt sjálfsmorð að mínu mati.
Muna þetta krakkar... ISG er alveg jafn ömurleg og allir í xD.... ég fékk móral fyrir hönd þessa fólks sem telur sig vera stjórnmálamenn... en eru í raun vitleysingar.
Já það vantaði eina spurningu til þessara gúbba: Eruð þið öll vitleysingar?
DoctorE (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 11:51
Annars fannst mér viðbrögð Geirs og ISG í seinni fréttum verst af öllu. Mér var heldur ekki skemmt frekar en þú Lára Hanna. Geir sagði að þetta væri enginn þjóðarpúls og gaf í skyn með lélegum brandara að tómir vinstri menn hefðu verið á fundinum. Ingibjörg hélt því fram að fólki væri ekki heitt í hamsi - skrýtið að það hafi enn ekki komist til skila. Reyndar sagði hún að enginn einstaklingur, heldur ekki hún sjálf, hefði umboð til að tala fyrir hönd þjóðarinnar allrar. Þar er ég sammála henni - umboð þeirra frá síðustu kosningum er siðferðislega útrunnið.
Sigurður Hrellir, 25.11.2008 kl. 11:56
Held að þau séu bæði heyrnarlaus og sjónlaus! Hvar, ef ekki á borgarafundi, er hægt að heyra og sjá vilja almennings!!
Rut Sumarliðadóttir, 25.11.2008 kl. 12:51
Geir og Solla voru afburða slöpp, miðað við myndbandið að ofan. Kannski ekki skrítið.
Ég efast um að þú (Lára) geri þér grein fyrir hversu mikils virði bloggið þitt er.
Villi Asgeirsson, 25.11.2008 kl. 12:54
Frábær fundur! Davíð var örugglega heima að strjúka norska skógarkettinum.
Fá allir næst.
Heidi Strand, 25.11.2008 kl. 12:58
Fundurinn var frábær og mig langar að koma á framfæri þakklæti til Gunnars Leikstjóra. Hann er einn af okkur..einn af þeim sem sat heima og var búinn að fá nóg af því að fá engin svör og vera algerlega hundasðuir svo hann ákvað að gera eitthvað í því. Og þetta er afraksturinn. Troðfullt háskólabíó og fólkið að mæta til að tjá sig, ráðamenn sitja fyrir svörum,,,má nú deila um hvort þetta voru nokkur svör...og öllu sjánvarpað beint um allt land. Geri aðrir betur!! Svona á fólk að vera.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 25.11.2008 kl. 13:09
úpps..afsakaðu þetta stóra letur hér fyrir ofan..veit ekki hvað gerðist Og fyrst ég er nú hérna aftur. Þá átt þú þakkir skildar Lára Hanna fyrir þitt framlag. Hvar værum við án svona frumkvöðla og lýðræðiselskandi fólks. Gefur manni von að sjá alla þessa grósku sem nú birtist í samfélaginu og hvað við eigum mikið af hæfileikaríku og kláru fólki. Og GÓÐU!!
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 25.11.2008 kl. 13:12
Til að láta þetta fólk njóta sannmælis, þá eiga þeir ráðherrar og þingmenn sem mættu hrós skilið fyrir að mæta og þora að standa fyrir máli sínu. Nokkuð sem margir áttu ekki von á. Vonandi heldur þetta áfram. það er ljós punktur í öllum þessum ósköpum. Þeim er þá ekki alls varnað.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 17:05
Lára Hanna, þú ert ein af bestu bloggurum - gott að hafa þig í storminum!
Mér telst það til að nú berjist stjórnmálastéttin fyrir lífi sínu og Ingibjörg gerði að mínu viti svolítið "faux pas" með því að segja að kosningar nú búi til nýja stétt. Menn verða ekki stétt á einu eða tveimur kjörtímabilum, og það ætti hún, gamla kvennaflokkskonan að vita.
Ég segi fyrir mitt leiti þetta: drífum okkur í gömlu flokkana, kjósum gömlu niður um nokkur sæti í næstu prófkjörum! Minna má það ekki vera.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 19:55
Ætla hér að lýsa yfir hamingju minni að lesa yfir öll þessi vitrænu blogg. Mér er nefnilega mjög heitt í hamsi. Svo heitt, að ljósmynd af sjálfri mér vildi ekki inn. Ljósmynd af hafinu fannst mér því vera vel við hæfi.
Yndislegt að þið skuluð vera til.
Ingibjörg SoS, 26.11.2008 kl. 02:15
Hlustið aftur á ræðu Benedikts Sigurðarsonar. Hún var frábær.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 02:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.