8.1.2009
Hryðjuverk heilbrigðisráðherra
Eins og allir vita er Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi heilbrigðisráðherra íslensku þjóðarinnar, sjálfstæðismaður. Og ekki nóg með það - hann er frjálshyggjumaður. Fulltrúi þeirrar stefnu í stjórnmálum sem er rétt nýhrunin til grunna. Hann hefur talað grimmt fyrir því "frelsi án hafta" sem leitt hefur Íslendinga til glötunar og örugglega fleiri þjóðir. Guðlaugur Þór og skoðanabræður hans vilja gefa allt frjálst, einkavæða alla hluti, hafa "frjálsa samkeppni" sem víðast - sama hvaða nöfnum það nefnist. Hann segir að ríkið eigi ekki að vera að vasast í rekstri á einu eða neinu, allt eigi að vera í höndunum á einkaaðilum. Allt. En sjálfur er hann auðvitað á öruggum launum hjá ríkinu eins og fleiri frjálshyggjupostular og einkavæðingarsinnar og eftirlaunin verða með eindæmum góð.
Ég skrifaði svolítinn einkavæðingarpistil í júlí í framhaldi af umræðu um pistilinn þar á undan og hef ekki skipt um skoðun á því sem ég sagði þar og geri líklega aldrei = Það má alls ekki einkavæða grunnþjónustu og -stoðir þjóðfélagsins! Þar er að sjálfsögðu heilbrigðisþjónustan innifalin.
Ég vonaði að fólk hefði lært eitthvað á efnahagshruninu, en nei - ekki Guðlaugur Þór. Hann vinnur nú markvisst að því að einkavæða sinn málaflokk, heilbrigðismálin. Ég efast nefnilega ekki eitt sekúndubrot um að aðgerðir hans séu beinlínis undirbúningur undir einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Þær eru hagsmunapólitík eins og einn viðmælandinn í myndbandinu hér að neðan fullyrðir.
Um leið og heilbrigðisráðherra setur á ný gjöld og hækkar önnur fækkar hann heilbrigðisstofnunum á landinu úr 23 í 6. Ég endurtek: Heilbrigðisráðherra fækkar heilbrigðisstofnunum á landinu úr 23 í 6! Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum og eyrum. Þetta er hryðjuverk á heilbrigðisþjónustunni, ekkert minna. Í anda frjálshyggjunnar og einkavæðingarinnar sprettur svo væntanlega upp einkarekin heilbrigðisþjónusta - þar sem menn telja sig geta grætt á henni. Og það verður örugglega ekki í fámennari sveitarfélögum landsins, svo mikið er víst. En Guðlaugur Þór er búinn að setja kúrsinn, nú skal borgað fyrir alla hluti heilbrigðisþjónustunnar (sem var nógu dýr fyrir) og því verður mun auðveldara fyrir einkaaðilana að verðleggja sig þegar þeir þeir spretta upp. Síðan kemur gamli söngurinn: "Ríkið á ekki að vera í samkeppni við einkaaðila." Kannist þið ekki við hann?
Guðlaugi Þór virðist líka vera mikið í nöp við samráð og réttar upplýsingar til þeirra aðila sem málið við kemur. Ekkert samráð við heilbrigðisnefnd Alþingis, nefndarmenn heyra um gjörðir hans í blöðunum. Ekkert samráð við stéttarfélög eða starfsmannafélög, bæjarstjórnir eða aðra aðila sem málið snertir. Og hann er að flýta sér einhver ósköp. Af hverju þessi flýtir, Guðlaugur Þór? Það hefur tekið marga áratugi, jafnvel heila öld, að byggja upp heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Hvers vegna að leggja hana í rúst á nokkrum vikum? Hver er tilgangurinn?
St. Jósefsspítali í Hafnarfirði er rómað sjúkrahús fyrir góða þjónustu og alveg einstaklega gott og hæft starfsfólk. Stolt Hafnarfjarðar. Ég veit um marga sem, þegar þeir hafa haft val, hafa valið að leggjast þar inn frekar en á önnur sjúkrahús. Nú á að breyta honum í öldrunarstofnun. Sumt starfsfólk verður væntanlega eftir, annað flyst á Landsspítala og rúsínan í pylsuendanum er sú að skurðstofustarfsfólkið getur fengið vinnu í Keflavík - af öllum stöðum. Ekki á Landsspítalanum, heldur í Keflavík.
Bíðum nú við. Er þetta hagsmunapólitíkin sem minnst var á? Ég veit það ekki, það er að minnsta kosti vond lykt af þessu. Árni Sigfússon, bæjarstjóri þar, er sjálfstæðismaður. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, er í Samfylkingunni. Er heilbrigðisráðherra að gera samflokksmanni sínum pólitískan vinargreiða með því að senda skurðstofustarfsfólkið til Keflavíkur, þar sem nýverið þurfti að loka skurðstofum vegna samdráttar? Kaupa vinsældir fyrir flokksbróður sinn svo hann verði endurkjörinn? Hvaða vit er í því að keyra fram og til baka Keflavíkurveginn með sjúklinga, ýmist í einka- eða sjúkrabílum? Aukin umferð og mengun og jafnvel gæti fjarlægðin skilið milli lífs og dauða. Hver veit? Og hver á að borga brúsann? Kannski auðjöfurinn sem fréttist af nýlega að skoða skurðstofurnar í Keflavík og sagðist hafa áhuga á loftræstikerfinu þar? Og sem var í notalegri nærmynd í Íslandi í dag á þriðjudagskvöldið. Á kannski að fara að selja inn á skurðstofurnar? Kannski er ég alveg úti að aka í þessum ályktunum - kannski ekki. Það kemur í ljós.
En nú spyr ég: Hvar eru alþingismenn? Hvar er stjórnarandstaðan? Hvar eru þeir sem vilja hag heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem mestan? Hvar eru þeir sem vilja og geta staðið vörð um hana? Af hverju í ósköpunum gerir fólk ekki allt vitlaust þegar verið er að leggja heilbrigðiskerfið okkar í rúst? Ég skil þetta ekki. Það nægir engan veginn að koma í örstutt viðtöl í sjónvarpið og segjast hafa verið blekkt eða að ekki sé haft samráð. Ætla alþingismenn virkilega að láta þessa eyðileggingu viðgangast? Ég hef enga trú á því að almenningur eða heilbrigðisstarfsfólk vilji láta einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Við höfum séð afleiðingar þess t.d. í Bretlandi, þær eru skelfilegar. Og við eigum að vita, ef við horfum eitthvað út fyrir hlaðvarpann heima, að hin einkarekna heilbrigðisþjónusta í Bandaríkjunum er eitt hræðilegasta dæmið um mismunun sem um getur. Horfið á heimildamynd Michaels Moore, Sicko - 1. hluti hér og restin er þarna líka. Fengum við ekki nóg af skefjalausri mismunun í gróðærinu?
En hér eru samanklipptar fréttir frá 2. til 7. janúar 2009 um hryðjuverk heilbrigðisráðherra.
Það vantar peninga, gott og vel. Ég sting upp á léttum samvæmisleik, t.d. í athugasemdakerfinu við þennan pistil. Við getum kallað hann "Tapað - fundið". Guðlaug Þór vantar 1.300 milljónir segir í einni fréttinni. Það eru 1,3 milljarðar. Finnum Finn... þá fyrir hann. Neðst í pistlinum hengdi ég Fjárlögin 2009. En ég skal byrja.
Bjarni Ármannsson, sem reyndi að kaupa sér aflausn á fölskum forsendum í vikunni, fékk að sögn um 1 milljarð við starfslok. Hann seldi líka hlutabréfin sín á yfirverði og hresstist við það pyngja hans um 7 milljarða. Bjarni segist hafa "skilað" 370 milljónum en sú tala hefur verið dregin mjög í efa. Engu að síður getur Bjarni lagt að minnsta kosti 7 milljarða í púkkið. Að eigin sögn þráir hann að taka þátt í að byggja samfélagið upp aftur, þetta er kjörið tækifæri. Svo á hann rándýra íbúð í London sem hann getur selt og látið okkur fá andvirðið. Þetta er feykinóg fyrir Guðlaug Þór og gott betur - en ég ætla að nefna eitt í viðbót af því ég hef það á hraðbergi.
Hér er grein úr Mogganum í gær um Kjalar, félag í eigu Ólafs Ólafssonar - sem ásamt Finni Ingólfssyni (fann einhver Finn?) fékk Búnaðarbankann að gjöf sem varð svo Kaupþing. Lesið greinina. Ég fæ ekki betur séð en að Ólafur sé að krefja ríkið (okkur) um greiðslu á hvorki meira né minna en 190 milljörðum króna! Ég trúi ekki að maðurinn þurfi á öllum þessum peningum að halda, þetta er bara hreinræktuð græðgi. Hann getur vel séð af svona, ja... að minnsta kosti 50 milljörðum til samfélagsins sem hann blóðmjólkaði. Smáaurar.
Auk fjárlaganna set ég hér inn myndband úr Íslandi í dag í gærkvöldi. Þar var rætt við Agnesi Braga og Andrés Jónsson um starfslokasamninga og nokkrir slíkir eru listaðir á skjánum. Eitthvað hlýtur að fást hjá því góða fólki sem örugglega vill leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Varla hugsar þetta fólk aðeins um að skara eld að eigin köku lengur og skilur okkur hin eftir í skítnum, því trúi ég ekki.
Mér sýnist ég vera búin að finna um það bil 60 milljarða fyrirhafnarlaust, hef þó bara nefnt tvo menn á nafn og ekki snert fjárlögin. Skoðið endilega málið, komið með tillögur og hvetjið aðra til þess líka - svo tek ég þetta saman. Málinu reddað, kreppan búin - eða hvað? Ég minni á að milljarðatugir auðmannanna eru í raun okkar peningar. Þeir rændu þjóðina með fölsunum, lygum og blekkingum svo við skulum óhrædd vera frek á féð.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 03:36 | Facebook
Athugasemdir
Hef ekki kynnt mér tillögurnar ýtarlega en við fyrsta yfirlestur eru þær skynsamlegar og praktískar. Vinsælar verða þær ekki og það hefði ekki skipt neinu máli hverjar þær hefðu orðið.
Það er eins og að ætla sér að slátra heilagri indverskri kú að ætla að breyta einhverju í því kerfi. Þar eru kóngar og drottningar á hverju horni og allir verja sitt vígi sem mest þeir mega.
Bara það að færa starfsemi milli hæða og endurskipuleggja eina litla 30 rúma stofnun úti á landi með stækkun og endurgerð á húsi, getur verið stórmál. Ég þekki slíkt af eigin raun og tel mig því vita nokk um hvað málið snýst.
Það skal tekið fram að þessar breytingar tókust sérlega vel, svo ekki sé meira sagt. Nú er þessi stofnun sérlega notaleg og þægileg í alla staði, aðstaða vistmanna fyrir og eftir breytingar er eins og svart og hvítt.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.1.2009 kl. 04:03
Einkavæðing....... Hverjir verða ríkir í þetta skipti ??? Það verður auðvita að hækka laun forstjóra spítalana það var gert við bankastjórana, og svo verða þeir að fá starfslokasamning og auðvita fara þeir á hlutabréfamarkað, og þjóðin eignast nýja milljónamæringa.....
Eru þessir menn gjörsamlega búnir að tapa glórunni, á að ganga á sama veggin aftur og aftur, það verður að koma þessum mönnum frá og það strax.
Sigurveig Eysteins, 8.1.2009 kl. 05:41
Hanna það er ekki verið að tala um að fækka stofnunum niður í 6. Það er verið að tala um að sameina stofnanir í hverju heilbrigðisumdæmi svo að betri yfirsýn og heildrænt skipulag náist. Sjáum hvað hann er að hugsa áður en við förum að öskra eldur eldur. Heilbrigðiskerfið okkar er í sárri þörf fyrir endurskipulagningu og gæðastjórnun enda enginn þorað að snerta við því í áratugi. Ég fullyrði að enginn Íslendingur vill fá fram einkarekstur á því formi sem þú óttast en mjög margir sem hafa kynnt sér málin eru opnir fyrir að skoða ólík rekstrarform svo lengi sem sömu reglur og skilyrði séu til staðar fyrir hvort form um sig. Taiwan gerði endurskipulagningu á heilbrigðiskerfi sínu fyrir nokkrum árum sem varð til þess að þeir eru með ódýrustu og bestu þjónustuna fyrir almenning í heiminum að margra mati og hún er svo til öll í einkarekstri. Rekstrarformið þarf því ekki að skipta máli heldur verðum við að vera viss um hvert við erum að stefna. Ætlum við að ná fram sem bestu þjónustu fyrir sem flesta á sem minnstan pening eða ætlum við að fljóta áfram stefnulaust því enginn þorir að fara í að ná fram sparnaði?
Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 07:34
Óþarfi er að láta eins og íslenskum stjórnvöldum sé treystandi þegar kemur að einkavæðingu. Sex árum eftir að einkavæðingu bankanna lauk stöndum við í rústum íslensks fjármálakerfis. Með hroðalegum afleiðingum.
Við höfum haft fyrir satt að íslenskt heilbrigðiskerfi sé gott, og það er rétt að mörgu leyti. Þess vegna ættum við að taka mið af reynslu annarra þjóða þegar uppi eru hugmyndir um einkavæðingu þess. Einkavæðingu sem þjóðin er nánast einhuga um að vilja ekki.
Lakast af öllu er að standa hjá og horfa "bláeyg og saklaus" upp á frjálshyggjutrúðboða eins og heilbrigðisráðherra athafna sig. Áfengi í matvöruverslunum er sannarlega aðför að heilbrigði þjóðarinnar, en heilbrigðiskerfi að hugmyndum Guðlaug Þórs Þórðarsonar er hrollvekja.
Lærum af reynslu annarra:
http://www.bsrb.is/files/101108906Pollockbaeklingur.pdf
Rómverji (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 09:28
akkúrat! Lærum af reynslu annarra þjóða og þar sem best hefur tekist til er heilbrigðiskerfið blanda einkarekstrar og opinbers rekstrar. Ágóði í heilbrigðisþjónustu á að vera samfélagsins en ekki ákveðinna einstaklinga ólíkt öðrum viðskiptamótelum. Því þurfum við að skoða með opnum huga hvað sé hagkvæmast til lengri tíma litið. Hér þarf því að læra af hruni sósíalismans annars vegar og fjármálakerfisins hinsvegar. Hvað gerðist við einkavæðingu bankakerfisins? Algerlega vantaði markmiðsetningu, reglugerðir og eftirlit. Setjum því skýr markmið, reglur og eftirlit því við höfum ekki efni á því að velta ekki fyrir okkur hverri krónu og gæta þess að henni sé vel varið í heilbrigðiskerfinu okkar. Sárlega þarf að hagræða í því til að nýta peningana betur og minnka sóun ekki bara núna heldur áfram um ókomna tíð. Við náum ekki mikið frekari hagræðingu með lokunum og fækkun starfsfólks heldur þurfum við að endurskoða skipulag og verkferla. Færa stjórn peninga til stjórna innan hvers heilbrigðisumdæmis því heimamenn vita hvar þeirra er helst þörf. Setjum skýr markmið og finnum svo út hvernig og hver nær þeim helst.
Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 09:41
Það hefur sýnt sig að hæstur meðalaldur og lægstur barnadauði næst fyrir minnst fjárútlát í löndum með samfélagslega reknu heilbrigðiskerfi. Það er ekki skrýtið þar sem sparnaður á einu sviði getur valdið verulegum fjárútlátum á öðrum og þar sem eftirlit með reikningum getur verið erfit að framfylgja.
Héðinn Björnsson, 8.1.2009 kl. 10:18
Þegar talað er um að gjaldið sé helmingi hærra en upphaflega var talað um er rétt. Það er rangt að segja að það hafi átt að vera helmingi lægra. Ef þú vilt tala um hversu mikið lægra það átti að vera þá er rétt að segja þriðjungi lægra! 50% af 6000kr eru 3000kr en 150% af 4000kr eru 6000kr.
Anna (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 10:33
Adda, hvaða ágóði er af einkavæðingu? Er samkeppni meðal t.d. tannlækna, sem eru einkavæddir? Eru neytendur í góðri aðstöðu til að bera saman verð og gæði? Til hvers einkavæðing ef eðlileg samkeppni getur ekki komist á. Einkavæðing er óhagkvæmari ef ekki kemur til samkeppni, það segja þeir frjálshyggjupésar sem vita hvað þeir eru að tala um.
Að tala um kerfi eins og er á Taiwan er bara rugl. Þar voru einkavæddir spítalar sósíalíseraðir. Það er, stórir einkavæddir spítalar fá nú pening frá ríkinu skv. töxtum, en áður borguðu heilsutryggingar til þeirra og mikill hluti þjóðarinnar var án trygginga. Þar eru samlegðar áhrif til staðar. Það er enginn að fara einkavæða stóru spítalana hér og ég sé ekki hvaða hagnaður er af einkastofum.
Það sem Taiwanir gerðu, sem var fínt var að þeir bjuggu til mjög skilvirkt kerfi til að halda utan um báknið. Það má alveg draga lærdóm af því. Það er líka fáránlegt hversu mikil skammtímahugsun er í gangi á Íslandi.
Sjúkranuddarar voru reknir frá spítulunum, því þeir eru svo dýrir. Verkjalyfjakostnaður fór upp, umfram sparnað. Komugjöld á heilsugæslustöðvar tekin upp. Stefán Ólafsson hefur sýnt fram á að það leiði til aukinna útgjalda vegna þess að fólk kemur ekki fyrr en það er hundveikt og það kostar meira að lækna það. Aðhald í launamálum sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga sem leiðir til aukinnar yfirvinnu lækna sem er miklu dýrara.
Það þarf vissulega að skera þetta upp. En ég sé ekki að einkavæðing hjálpi nokkuð.
Nonni, 8.1.2009 kl. 10:35
Er þetta sem er að gerast ekki að kröfu frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum?


Á meðan Gulli vann sín myrkraverk í kyrrþey var þjóðin haldið uppi með ESB umræðu og hver gengu inn og úr Framsóknarflokknum.
Eru allir búin að gleyma því að Framsókn var í stjórn með Sjálfstæðisflokknum í 12 ár og tóku þátt i spillingunni. Hver "keypti" Búnaðarbankann? Það voru tveir farmsóknarmenn. Framsóknarráðherrann Finnur Ingólfs var einn þeirra og sagt var að þeir fengu lán í Búnaðarbankann til kaupanna.
Milliarðanna sem fólk fengu eða tóku á spillingartímanum, voru ekki annað en gúmmítékkar, sem nú eru komnir til innheimtu hjá þjóðinni.
Heidi Strand, 8.1.2009 kl. 10:45
Finnur Ingólfs er aftur kominn á kreik með yfirtökur,nú Framsókn í gegnum Sigmund.
ST. Jóseps v/ Árni Sigfús. Minnir svolítið á FL.Group Stoðir o.s.fv. Taka skortstöðu, vafningar og hvað þetta heitir allt saman
Syndaaflausn BÁ miðað við lágmarkslaun bankastarfsmanns ( ca 200.00 ) er sambærilegt að sá hinn sami greiddi rúmar 1.700 ísl.kr. Þetta eru tölur sem við skiljum betur.
Ég sá þennan trúverðuga útreikning í bloggheimi, en þvi miður finn ég ekki síðuna aftur.
Hildur (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 11:01
Þetta er með ólíkindum, í fyrst sinn í sögu Íslands þarf fólk að greiða gjald til að komast á sjúkrahús. hreppaflutningar á gamalmennum osfrv. Hvað gengur þessu fólki til? vill það að Ísland verði litla Ameríka? Þar sem þú getur drepist ef þú getur ekki borgað, þarf eflaust ekki að tíunda ástandið þar. Það hlýtur einhver að fara að taka fram kindabyssuna, þá fyrst verður ameríski draumurinn að veruleika.
Rut Sumarliðadóttir, 8.1.2009 kl. 11:30
Nonni, ágóði í heilbrigiðisþjónustu er öll sú umframþjónusta sem fæst með minni sóun og betri verkferlum. Hverri krónu sem veitt er í ákveðið verk þarf að taka frá öðru mögulegu verki. Það vita það allir að heilbrigðiskerfið hefur verið ósnertanlegt svo lengi vegna mikilla tilfinninga og pólítíkur. Meðan svo til allar aðrar stéttir hafa innleitt gæðastjórnun og endurskipulagningu. Við sem samfélag þurfum að skoða hvernig við náum markmiðum okkar sem best og getum veitt sem flestum fullnægjandi þjónustu. Ég var ekki að leggja til að við tækjum upp kerfið sem Taiwan er með heldur var ég eingöngu að benda á að það kostar minnst af vergri þjóðarframleiðslu, er öflugt, fyrir alla og gengur á einkarekstri meðan USA sem einnig er með einkarekstur er dýrast, nýtist ekki öllum þegnum og er óréttlátt í því að veitir fáum of dýra þjónustu meðan aðrir fá hana ekki. Gömlu kerfin þar sem eingöngu er opinber rekstur er ekki heldur góður vegna skorts á samkeppni og metnaði og þar verður oft stöðnun. Því er rétt sem þú segir að samkeppnin verður að vera til staðar. Ef ríki kaupir þjónustu eftir ákv gæðastöðlum af einkaaðilum eða stofnunum t.d. sem eru sjálfseignarstofnanir í samkeppni við hvorn annan og opinberan rekstur verður samkeppninn um kúnnan því allir fengu sama verð fyrir sömu þjónustu. Tannlæknar eru ekki í sjúkratryggingakerfinu svo að ég skil ekki hvernig þú dregur þá inn í þetta. Það hlýtur alltaf að verða pólítísk ákvörðun við hverja skuli semja og ríkið hefur ekki sýnt áhuga á að niðurgreiða alla tannlæknaþjónustu. Ef þjónustan er ekki niðurgreidd í samningum við starfsstéttir er viðkomandi starfsstéttum að sjálfsögðu frjálst að verðleggja þjónustu sína sjálfir. Mér finnst þú líka rugla saman hagræðingu og einkarekstri. Hagræðing á allstaðar við hvort sem við förum í einkarekstur eða ekki. Ég er einfaldlega að halda því fram að rekstrarformið eigi ekki að skipta máli svo lengi sem við fáum þau gæði og þjónustu sem við ætlum okkur fyrir sem minnst verð.
Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 11:41
Héðinn, ég er sammála þér. Mesta hagræðingin virðist vera í samfélagslega rekinni heilbrigðisþjónustu. Það verður samt að átta sig á því að einkarekstur á alveg ágætlega heima í samfélagsrekinni heilbrigðisþjónustu og flest þessi lönd sem best koma út hafa einkarekstur að stórum hluta. Öfugt við það sem fólk heldur er umfangsmikill einkarekstur í heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem vinnur samkvæmt samningi við TR. Aðalatriðið er að kaupandinn af þjónustunni sé samfélagið gegnum Tryggingastofnun hver svo sem veitir hana.
Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 11:51
Ok, Adda ég held við séum sammála að því leyti að kerfið eigi að fara í gegnum ríkissjúkratryggingar óháð rekstrarformi . Mér fannst það ekki koma skýrt fram hjá þér, en líklega lokaði ég augunum fyrir því. Biðst afsökunar.
Ég er reyndar ósammála því að einkarekstur muni fela í sér meira hagræði. Ég sé fyrir mér að einfaldara sé að hafa yfirlit með þessum gæðastöðlum ef þessar stofnanir eru ekki í einkarekstri. Ég er heldur ekki viss um að það verði nein alvöru samkeppni, væntanlega vegna skorts á upplýsingum til neytenda. Það er þessi skortur á upplýsingum til neytenda sem ég var að vísa til þegar ég nefndi tannlæknana. Þeir komu málinu við því ég hélt þú værir að tala um frjálsan markað gagnvart neytendum. Getur fólk eitthvað "sjoppað aránd" í svona sérhæfðri þjónustu? Verða kannski ekki þeir læknar sem ávísa mestu lyfjunum samkeppnishæfastir? Þeir sem "gera eitthvað"?
Annað, er að stjórnvöld á Íslandi, óháð flokki, hafa sýnt einbeittan vilja til að koma kostnaði á sjúklinga. Þetta skrifast náttúrulega mikið á lydduskap Íslendinga, en ég held það væri mun auðveldara að gera svona í skjóli einkareksturs.
Nonni, 8.1.2009 kl. 12:52
Nonni þar sem ég rek fyrirtæki sem er í einkarekstri með samning við Tryggingastofnun þykist ég fullviss um að opinber stofnun gæti ekki verið rekin á sömu forsendum og mitt fyrirtæki því svo mikið er lagt í vinnu sem ekki er greitt fyrir. Við sem erum heilbrigðismenntuð og störfum í einkarekstri gerum það til að hafa frelsið sem ekki býðst inn á stofnunum og vegna fleiri ástæðna svo sem starfsanda. Við gerum okkur öll grein fyrir að við verðum seint rík á þessu. Vegna þess að ég er í svona rekstri veit ég jafnframt að meiri kröfur og meira eftirlit er með mínum rekstri en öðrum sambærilegum innan stofnana. Það er enginn einn stór sannleikur í því hvort heldur eigi að vera með einkarekstur eða opinberan. Við þurfum bara að ákveða hvernig þjónustu og gæði við ætlum að veita, hverjum og hvar og leita svo allra leiða til að ná fram markmiðinu. Grunnatriðið sem við fylgjum verður að vera að einn kaupandi sé að þjónustunni, samfélagið, sem njóti ágóðans á formi meiri möguleika til að veita fleirum þjónustu.
Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 13:11
Allar þessar breytingar í heilbrigðiskerfinu er ákveðnar án samráðs við stofanirnar sem við á . Vinnubrögðin er ásættanleg. Innritunargjald á sjúkrahúsin er algerlega óásættanlegt.
Hólmdís Hjartardóttir, 8.1.2009 kl. 13:16
Það á að setja hryðjuverkalög á Guðlaug Þór ekki seinna en strax. Málum er nú þannig komið hérna að gamalt fólk getur ekki lifað á bótunum sínum og nú á að fara að krefja það um greiðslu ef það veikist. Hvað með krabbameinssjúklinga sem fara reglulega í lyfjameðferð og þurfa þá að leggjast inn í smátíma. Verða þeir rukkaðir fyrir hverja einustu komu? Það er andskoti hart ef maður hefur ekki efni á því að veikjast.
Helga Magnúsdóttir, 8.1.2009 kl. 13:17
Veit nú ekki hvort þetta séu hryðjuverk, minnir mann meir á Helför gegn sjúklingum. Svo sér mðaur svona fáránlega hluti:
"Málefni sjúkraflutningamanna á landsbyggðinni komu sérstaklega til umræðu en brögð eru að því að verið er að fækka þeim þannig að einungis sé einn sjúkraflutningamaður á bíl í stað tveggja."
En hey, einhverjir verða að drepast svo vinir Gulla geti grætt. Er ekki málið að St. Jósefs var lagður niður og allt fært til keflavíkur, svo Róbert Wiessmann geti eignast þetta. Allavega virðist vera planið það að koma þessu í hendur auðmanna.
AK-72, 8.1.2009 kl. 13:33
Hvaða bull er þetta í þér Adda ég held að þú ættir að kynna þér málið, það er verið að tala um að spara, en það er ekki verið að spara með því að fara með skurðstofur frá St. Jósefsspítala og yfir til Reykjanesbæjar, ef eitthvað er, er þetta aukin kostnaður, þetta er pólitík, Árni í Reykjanesbæ er með allar klær úti til að auka atvinnu þar á bæ, þetta er afsakað með því að skurðstofurnar í Reykjanesbæ séu nýjar, þær eru líka nýjar í Hafnarfirði, og þar er starfsfólkið sem er búið að þjálfa mikið upp, ennn í Reykjanesbæ er þetta starfsfólk ekki og ég veit það fyrir víst að hvorki læknar né hjúkrunarfræðinga á St. Jósefsspítala, eru að fara að vinna suðurfrá. Með þessum aðgerðum Heilbrigðiráðherra er verið að auka kostnað á fólk og lengja biðtímann á að komast í aðgerðir, hvað heldurðu að það kosti að þjálfa upp fólk, og hvað með kostnað við sjúkraflutninga, þeir eiga eftir að stór aukast, St. Jósepsspítali er sjálfsagt eini spítalinn sem hefur skilað hagnaði, málið er að þessir ráðamenn eru lausna-lausir,ef á að skera niður verða menn að vita hvað þeir eru að gera og vera í samráði við sjúkrahúsin, en æða ekki bar um stjórnlaus. það er skorið niður þar sem á ekki að skera niður, það hefur sýnt sig að það eikur aðeins kostnað á öðrum stöðum. þeir sem verða mest fyrir þessum niðurskurði eru aldraðir og geðsjúkir því þeir eiga ekki möguleika á að svara fyrir sig, og víst að þetta Taivan kerfi er svona gott af hverju er það ekki komið út um allan heim ???? Og allir veikir Íslendingar á leið til Taivans ???
Sigurveig Eysteins, 8.1.2009 kl. 14:13
Það á auðvita að standa þarna , eru ekki að fara að vinna suðurfrá.
Sigurveig Eysteins, 8.1.2009 kl. 14:17
Sigurveig ég var að ræða um endurskipulagningu og hagræðingu í heilbrigðiskerfinu en var að sjálfu sér ekkert að ræða sérstaklega um St. Jósephsspitala. Ég er hlynnt þessum breytingum sem hann er að boða á landsvísu og tel nauðsynlegt að heilbrigðisumdæmin hafi allar stofnanir innan sín undir einni stjórn. Ég tel mig hafa kynnt mér heilbrigðiskerfi um allan heim ágætlega enda í meistaranámi á þessu sviði. St. Jósepsspítali hefur verið til fyrirmyndar á margan hátt og þar er gott að dvelja og starfa. Hann ætti t.d. að vera fyrirmynd um æskilegan starfsanda og starfsánægju. Ég er einfaldlega að segja að við þurfum að velta hverri krónu tvisvar fyrir okkur og athuga hvernig best er að dreifa þjónustunni og kostnaðinum á sem sanngjanastan hátt. Vonandi er þessi ákvörðun um St. J'oseps tekinn að vel ígrunduðu máli og með hagræðingu fyrir samfélagið í heild en ekki bara fyrir starfsfólk St.Jósepsspítala að leiðarljósi. Vissulega finnst mér þetta samt sorglegt eftir áratuga farsælt starf og frábæran starfsanda. Ef þú vinnur þarna áttu samúð mína alla. Þú skammar mig fyrir að nefna Taiwan. Kannski er Taiwanskt kerfi það sem koma skal :) en ég var ekkert sérstaklega að hvetja til þess hér að ofan. Svo finnst mér að megi alveg benda á að gríðarstór hluti af starfsemi St.Jóseps er einkarekstur.
Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 14:41
Já...það hefur einmitt sýnt sig að stjórnvöld, og sérstaklega ráðherrar taka ekki ákvarðanir nema að ígrunda þær sérlega vel með hag almennings í huga.
Enda höfum við Íslendingar það svo glimmrandi fínt í dag.
Heiða B. Heiðars, 8.1.2009 kl. 15:23
Adda, ég skil hvað þú segir. Og ég skil að þú ert ekki að taka afstöðu gegn St. Jósepsspítala, heldur með hagræðingu, hvernig svo sem hún á að nást. Ég held bara að mjög fáir treysti samt Guðlaugi Þóri fyrir því að taka skynsamlegar ákvarðanir í þágu samfélagsins.
Best væri náttúrulega ef allir sem vinna og allir sem hafa nýtt sér þjónustuna á sjúkrahúsum, ekki bara læknarnir og ráðherran myndu vinna að góðri og skynsamlegri ákvörðun.
Nonni, 8.1.2009 kl. 15:42
Ein af meginorsökum þess að samfélagið er hrunið er sú staðreynd að undanfarin ár hefur aðeins einn mælikvarði verði lagður á hlutina - hinn efnahagslegi. Allt átti að vera "hagkvæmt" og "borga sig". Sjúklingar áttu að koma sér upp kostnaðarvitund og hagræðing var mantra dagsins.
Við þurfum að spyrja okkur þeirrar grundvallarspurningar hvernig samfélag það er sem við viljum!
Það er fáránlegt að ætla núna að fara út í meiriháttar breytingar á heilbriðskerfinu - og ekki með þessum vinnubrögðum. Þetta er allt unnið á leynifundum.
Á sama tíma fréttist af fulltrúum ráðuneytisins með eigendum Salt Invest í könnunarleiðangri á Heilbrigðsstofnun Suðurnesja!
Það vita allir hvernig fór með Heilsuverndarstöðina - þar var einkavinavæðing aldeilis í forgrunni.
Guðlaugur Þór er "poster boy" frjálshyggjumanna - Hann hefur bara eitt markmið: afhenda vinum sínum heilbrigðiskerfið. Við skulum athuga að þetta er sama fólkið og einkavæddi bankana!
Nú er nóg komið!
Jón (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 16:18
Hvað gerist með fólki sem á ekki fyrir inngöngumiða á spítala?


Mótmælum öll!
Er hægt að kaupa klippikort?
Það þarf góð heilsa og góð fjárhag til þess að verða veikur.
Burt með spillinguna.
Heidi Strand, 8.1.2009 kl. 16:42
Það virðist vera einhver keppni í gangi milli ráðherranna um hver þeirra sé mesta fíflið. Guðlaugur kemur sterkur inn með þessum „skemmtilega“ afleik óhugsuðum útfrá öðru en tölfræðikúnstum frjálshyggjunnar. Hvort Geir eða Grani (BB) eigi svo vinninginn eða dýralæknirinn ætla ég ekki að dæma um en Ingibjörg með sína skoðun á hverjir séu þjóðin og nýjasti álhausinn í Iðnaðarráðuneytinu fylgja þeim fast á eftir. Eina leiðin fyrir Kristján Möller til að komast inn í leikinn er að grafa göng til Eyja!
Ævar Rafn Kjartansson, 8.1.2009 kl. 16:46
Framsóknar menn vöruðum við þessu þeir þekktu áhuga Sjálfstæðismanna á þessu og það fór mikið af vinnu flokksins á stjórnartímabili þeirra flokka að standa á því prinsipp að þetta mætti ekki gerast og þegar Samfylkingin var komin í stjórn með Sjálfstæðisflokknum þá var voðin vís Samfylkingin hafði nokkrum sinnum rætt þessi mál í þinginu á þeim nótum að það væri bara holt að einkavæða hluta af heilbrigðisþjónustunni, en hvar verður stoppað? Nú er fjandinn laus og það er með þessa einkavæðingu að hún endar eins og bankarnir endar með skelfingu.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 8.1.2009 kl. 18:26
Sæl Lára Hanna.
Þetta er bara rosalegt það hringja allar viðvörunarbjöllur velferðarkerfisins.
Þeir sem eru fátækir og minna mega sín komast ekki á sjúkrahús eiga ekki fyrir gjaldinu.
Og svo endar öll sérfræðiþjónusta Í Reykjavík
Þar sem einkavæðingarvinirnir bíða, ekki satt ?
Mér finnst það liggja beint við.
Guðmundur Óli Scheving, 8.1.2009 kl. 18:30
Ég er með fína lausn fyrir sjálfstektina hér :
http://skari60.blog.is/blog/skari60/entry/766071/
Óskar Þorkelsson, 8.1.2009 kl. 18:36
Orð eru dýr. Hryðjuverk er sterkt orð. Ekki er ætlun mín að réttlæta hugmyndir Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum en ég vil vara við einu: Við skulum ekki ekki útiloka að stundum séu það ekki hagsmunir sjúklinga sem ráða skoðunum fólks heldur hagsmunir starfsfólks. Rétt í þessu var ég að hlusta í útvarpinu (texti ríkissjónvarps) á orð yfirlæknis kvenna- og fægðingardeildar Lsp. sem telur enga hættu stafa af flestum fyrirhuguðum lokunum vegna fæðingaruppskurða. Ég þekki þennan mann fyrir heiðarleika.
Það er margt kúnstugt í margri umræðu. E.t.v.miklvægasti hluti heilbrigðarþjónustunnar hefur alla tíð verið einkavæddur og það er mest öll starfsemi sérfræðilækna. Ég er þeirra skoðunar að starfsemi þessara lækna og greiður aðgangur að henni eigi hvað stærstan þátt í tiltölulega góðu heilbrigðisástandi Íslendinga. Ég þekki kerfið bæði í Danmörku og Svíþjóð og með samanburði veit ég að sérfræðiþjónustan er bæði betri og kostnaðarminni hér á landi. Um þetta eru Danir sem ég hef rætt við og hafa notið hér læknisþjónustu mér fyllilega sammála. Einn kveðst ekki vera lengur í lifandi tölu hefpði hann lent með hjratáfall í skriffinnskulerfinu í Danmörku. Sænsk yfirvöld eru nú að loka burðarmikilli sérfræðiþjónustu á spítölum og færa hana á einkareknar sjúkrastofur lækna. Einkavæðinmg?!?
Má minna á það að langt fram á 8unda áratuginn voru næstum allar heimilislækuingar á höfuðborgarsvæðinmu einkareknar. Var slíkt til skaða?
Mér finnst fyirhugaða inntökugjaldið á spítala vera smálegt og út í hött. Þannig að sumar "nýjungar" í heilbrigðiskerfinu má vissulega gagnrýna.
Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 19:41
Eins og talað frá mínu hjarta! Leyfði mér að c/p færslunni á Facebook , vona að þú hafir ekkert við það að athuga.
Bestu þakkir.
Bára (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 19:44
Þú ert mögnuð
Heimir Eyvindarson, 9.1.2009 kl. 00:03
Þakka þér fyrir þennan pistil Lára Hanna. Það er ömurlegt til þess að hugsa að það sitji einstaklingur í valdastöðu sem hefur engan áhuga á lýðheilsu né heldur lætur stjórnast af sjónarmiðum almannaheilla.
Græðgissjónarmiðin ráða þarna einu.
Ég held að markmið sjálfstæðismanna sé að nýta sér ástandið sem þeir hafa skapað til þess að koma hér á últrakapítalisma.
ÞETTA VERÐUR AÐ STOPPA
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 9.1.2009 kl. 01:20
Ástandið hér er í raun verra en í Ameríku því þar hafa menn þó sjúkratryggingar ef þeir hafa atvinnu. Hér eru engar slíkar tryggingar þannig að þegar ríkið neitar að borga þá verðum við að borga sjálf ef við erum þess umkomin.
ÞETTA ER VELFERÐAKERFI Í RÚST...
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 9.1.2009 kl. 01:24
Mikið er ég feginn að það skuli vera fleiri sem hafa þá skoðun að verið sé að femja hryðjuverk á Heilbrigðiskerfinu okkar sem talið var með því besta sem gerist í heiminum, en ekki lengur því miður
Jón Svavarsson, 9.1.2009 kl. 04:06
Góð spurning (í feluleik):
http://gm.eyjan.is/2009/01/09/spurt-og-svarad-a-althingi/
Rómverji (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 12:58
Þessi sami yfirlæknir kvenna- og fæðingadeildar Lsp sagði fyrir mörgum árum, þegar fæðingaheimilið var enn starfrækt, að það væri of áhættusamt að flytja konur sem lentu í erfiðleikum í fæðingum yfir götuna á fæðingadeild Lsp, fæðingaheimilinu var lokað, en nú er í lagi að keyra með þær 30 mín frá Keflavík eða 45 mín frá Selfossi, eru þetta hagsmunir sjúklinga eða hagsmunir þess sem fær allt fjármagnið eftir þessar breytingar.
Til eru skjólstæðingar St.Jósefsspítala í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi sem koma þangað reglulega í blóðprufur og blóðþynningarmeðferðir, þetta eru aldraðir einstaklingar sem sumir treysta sér einungis að keyra um í sínu bæjarfélagi sem er oft hluti af sjálfstæði þeirra nú á þetta fólk væntanlega að fara inn á Lsp í þessar meðferðir, ég er viss um að þetta er ekki gert til að auðvelda þessu fólki skrefin.
Getur Lsp tekið við allri þeirri starfsemi sem er á St.Jó???? og án skerðingar við sjúklinga? leyfi mér að efast um það.
Guðlaugur Þór talaði við starfsfólk St.Jósefsspítala í gær, hafði lofað þeim skýringu, en það komu engar nýjar skýringar. Tilfinningin var sú að hann og hans ráðgjafar hafa enga hugmynd um hvaða starfsemi stofnunin býður upp á.
sparnaðurinn verður ekki eins mikill og talið er þegar St.Jó verður breytt í öldrun því það mun kosta.
Berry (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 13:04
Hér fyrir ofan ritar Gísli um einkavæðingu á Heimilislæknaþjónustu og hún sé búin að vera við lýði í ára raðir. Vissulega og ekki verið slæm, en takið eftir hún er greidd að mestum hluta af sjúkrasamlaginu (núna TR) og það gjald sem við greiðum við komu þar er málamyndagjald, sem oft er veið að reyna að hækka. Kenni menn sér einhvers meins þá fara þeir oftast fyrst til heimilislæknis ( en þeir eru mis glöggir) sem síðan stundum vísa áfram á sérfræðinga og oft í framhaldi þarf að leggja inn á spítala, til frekari rannsókna og aðgerða. Þegar þarna er komið sögu, er í dag kanski búið að innheimta þúsundir af viðkomandi auk komugjalds á sjúkrahús. Hér áður voru menn lagðir inn aðeins ef ástæða var til, nú fara menn kanski að leggja fólk inn til að fá gjöldin? Þetta getur allt verið svo tvíbennt.
Á Íslandi höfum við búið við það, að það er ekki farið í manngreiningar álit um hvejir fá þjónustu á sjúkrahúsum og hverjir ekki (amk ekki svo vitað sé um) en samt vilja menn einkavæða sjúkrahús og bjóða uppá eðalþjónustu (sem er nú þegar á sjúkrahúsum landsins) og gefa auðmönnum tækifæri á að kaupa sér forgangs meðferð! Það er í sjálfu sér ekkert mál, ef önnur almenn þjónusta er ekki fyrir borð borinn. Ef ég lendi í slysi eða bráðaveikindum þá á ég ekki að þurfa að eiga yfirhöfði mér rukkun fyrir tugi þúsunda og jafnvel innheimtuaðgerðim ef ég get ekki greitt!
Jón Svavarsson, 9.1.2009 kl. 13:27
Jón, mér sýnist við öll vera sammála um það að kostnaður á ekki að falla á sjúklinga, þó við séum ekki öll sammála um rekstarformið. Guðlaugur er held ég bara ekki neitt sammála okkur.
Eitt svívirðilegasta dæmið um gjaldtöku sem ég veit um, var fyrir kreppuna. Kona sem ég þekki, lenti í því að það var tekið utanlegsfóstur hjá henni. Hún þurfti að borga 20000 krónur fyrir aðgerð sem hún hélt að væri ókeypis, út af nýrri reglugerð sem er þannig að maður tekur mjög mikinn þátt í aðgerðum, ef maður liggur ekki inni. Hún lá samt meira að segja inni í eina nótt, vegna þess að það voru pínu komplikasjónir. En nei, aðgerðin var skilgreind sem svona aðgerð. 20000 takk.
Kannski er gott að hún átti ekki von á þessari gjaldtöku. Það er eins líklegt að hún hefði harkað þennan massífa túrverk af sér, þar til allt hefði farið til fjandans.
Út af þessum letjandi áhrifum, sem eiga eftir að kosta okkur sárlega (líka í peningum, Guðlaugur, ef þú ert að lesa), má þetta ekki gerast.
Nonni, 9.1.2009 kl. 14:56
Lára Hanna og aðrir! Lesið nýjan pistil hjá mér og skoðið endilega myndir sem ég tók á einu sjúkrahúsinu, þar sem sjúklingur er látinn liggja inni á klósetti, sem einnig er notað sem ruslageymsla!
Himmalingur, 9.1.2009 kl. 16:00
Niðurskurðlækningar Það eru voðalega margir sem finna voðalega til og vilja magnyl. Svo eru til konur sem aldrei gera gagn. Ég gef þeim ylmagn. Margir eru ógurlega veikir, því er ver. Ég þá upp sker. Og svo eru þeir sem eru skaddaðir að skalla að hupp. Þá sker ég upp. En nú skal minnka eyðslu á allan mögulegan hátt. Í því tek ég þátt. Ef heilbrigðisráðherra kæmi til mín yrði ég því miður að skera hann niður.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 9.1.2009 kl. 17:29
Jón, ég var ekki að ræða um einkavæðinguna á heimilislækningum. Það kom skýrt fram að ég var að ræða um sérfræðilæknisþjónustuna sem hefur aðeins að litlu leyti verið í höndum opinberra aðila alla tíð hér á landi; læknar hafa sjálfir verið fjárhagslega ábyrgir fyrir rekstri hennar. Annars virðist þú almennt hafa lesið athugasemdir mínar illa eða ekki skilið þær.
Auðvitað greiðir Tryggingarstofnun stóran (stærsta?) hluta sérfræðiþjónustu lækna. Það gerist þó þannig að fyrir fyrstu skiptin greiðir sjúklingur stærsta hlutann en fær síðan afsláttarkort þannig að eftir það greiðir sjúklingur þriðjung kostnaðar sé hann/hún hvorki ellífeyrisþegi eða öryrki.
Ég og kona mín erum á þeim aldri að heilbrigðisþjónustan við okkur er að mestu leyti í höndum sérfræðilækna. Við erum fegin því hve greiður aðgangur er að sérfræðilæknum hér á landi miðað við flest önnur lönd en ég átta mig á því að þetta frelsi skapar ríkinu aukakostnað sem eðlilegt er að sjúklingar greiði. Og eins og ég nefndi í fyrri grein minni vekur þetta fyrirkomulag öfund meðal Dana og Svía sem hafa búið við lélegan aðgang að sérfræðiþjónustu m.a. vegna yfrþyrmandi skriffinnsku. Og í Svíþjóð, þar sem skriffinnskan var ekkert smáræði! (ég bjó þar í níu ár), og var nær öll á spítölum, er verið að flytja hana til einkarekinna læknastofa, ekki í sparnaðarskyni heldur til að bæta þjónustuna.
Rétt er að vekja athygli á því að öryrkjar og elllíeyrisþegar greða miklu minna fyrir sérhæfða læknisþjónustu, svo og aðra læknisþjónustu, en aðrir.
E.t.v. hefur Jón ruglast á því að ég nefndi heimilslækningar fram á 8unda áratuginn en þá voru þær reknar fyrir reikning lækna, yfirleitt með góðum árangri. En ítrekum líka að kostnaðurinn var þá að mestu leyti í höndum Sjúkrasamlaga.
Kjarni málsins er þessi: Frá sjónarhóli sjúklinga er rekstrarform í heilbrigðisþjónustu víðast hvar, en ekki alls staðar, aukaatriði. Aðalatriðið er hver greiðir reikninginn. Sem félagshyggjumaður vil ég að sjálfsögðu að hið opinbera greiði meginhluta þessa kostnaðar og ég vil vekja athygli á því að ekki er verið að breyta þessu grundvallaratriði núna fyrir utan fremur lágkúruleg inntökugjöld á spítala.
Dæmið sem Nonni nefnir um konuna sem greidii 20.000 kr. fyrir fjarlægingu utanlegsfósturs er hörmulegt en ég bið um upplýsingar. Þá var í gildi reglugerð um að ef viðkomandi greiddi meira en 18.000 kr.allt árið fyrir læknisþjónustu alls, skyldi sami fá þriðjung alls kostnaðar endurgreiddan. Ég tel ólíklegt að þessi kona hafi ekki verið búin að greiða talsverða upphæð áður í sérhæfða læknisþjónustu. Nú er það svo að margr vita ekkert um rétt sinn í málum sem þessum og ekki er hægt að hrósa öllum heilbrigðisstarfsmönnum fyrir góða upplýsingagjöf um þennan rétt. Aö minnsta kosti hef ég þurft að gefa mörgum ráð í þessum efnum, og það sem meira er, hef stundum þurft að sækja tilskilinn rétt af hörku en ávallt með árangri. Upplýsingar, takk fyrir! Lára Hanna veit tölvufang mitt og símanúmer.
Rétt er það sem Berry segir hér að ofan að mótsagnir eru tíðar í umsögnum lækna um nauðsyn bráðaaðgerða í fæðingum. Þetta má að miklu leyti útskýrast með því að tíðar en tiltölulega auðveldar aðgerðar er auðvitað best að framkvæma á sama sjúkrahúsi og fæðing á að fram en flóknar aðgerðir eiga helst heima á hátæknisjúkrahúsi. Hér þarf að finna einhvern gullinn milliveg. Raunar er því miður ekkert öruggt um góðan árangur við fæðingu hvort sem sjúkrahús er vel tæknivætt eða ekki. Hér skiptir oft meira máli að læknar/ljósmæður hafi við forskoðun sinnt verki sínu vel, t.d. mælt rétt mjaðmagrind kvenna skömmu fyrir barnsburð.
Ég er alls enginn læknir! Ég er prófessor í sagnfræði á eftirlaunum en þykist fylgjast sæmilega með allra handa hlutum.
Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 20:29
Hel... fokking, fokk, fokk
Ráðherrar standa þessa dagana í átökum við að framfylgja ákvörðunum Alþingis um sparnað hér og þar í ríkisgeiranum. Ríkisstyrkir til stjórnmálaflokkanna sjálfra sluppu hins vegar alveg undan niðurskurðarhnífnum. Styrkirnir byggja á þriggja ára gömlum lögum en samkvæmt þeim þarf flokkur að hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum til að fá styrk. Fjárhæðinni úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn. Samkvæmt þessu ákvæði skipta flokkarnir á þessu ári 371 og hálfri milljón á milli sín.
Þessu til viðbótar fá þingflokkar 65 milljónir króna til ráðstöfunar beint frá Alþingi og 70 til 80 milljónir króna fara á árinu í launagreiðslur til aðstoðarmanna þingmanna og flokksformanna. Fjárstyrkir ríkissjóðs til stjórnmálaflokka hafa snarhækkað á undanförnum árum, úr 295 milljónum króna árið 2006 og upp í 510 milljónir króna. Hækkunin nemur 73 prósentum. Þetta eru ekki einu opinberu styrkirnir til flokkanna því sveitarfélögum hefur með lögum frá Alþingi verið gert skylt að styrkja stjórnmálin. (Fréttir á stöð 2 09.01.2009)
Eru þarna einhversskonar útrásar-stjórnmál á ferðinni? Getur verið að hin umtalaða græðgisvæðing hafi læðst inn í hið há alþingi og byrgt mönnum heilbrigða sýn? Hverjir voru við völd fyrir þremur árum og svo nú? Hvar er stjórnarandstaðan? Ég tel að þurfi að rannsaka þessi mál og fá þau upp á borðið eins og sagt er, og þá sérstaklega hvaða hvatir liggja þarna að baki?
Er það hræðsla, ótti, græðgi, stórmennska, heimska?
Er alþingi treystandi?
Nei, rauða spjaldið strax á allan skarann.
kolbrún Bára (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 22:22
Sæll Gisli, (afsakaðu Lára að ég ræni smá svæði hér hjá þér)
Það er óhætt að segja að vegir gjaldskrár TR séu órannsakanlegir. Það er erfitt að fylgjast með þeim tíðu breytingum sem þar verða. Þú kallar eftir upplýsingum um gjaldskrá TR. Hámarks upphæð til afsláttarkorts er 25.000 kr. Það hækkaði sumsé nú um áramótin og var 21.000 á síðasta ári. Vandinn við afsláttarkortin er auðvitað að þau eru einmitt það - afsláttarkort. Það er hægt að verða fyrir umtalsverðum kostnaði þó maður hafi afsláttakort. Einhverjar vonir getur maður þó bundið við nefnd Péturs Blöndal, sem mun ætla breyta kerfinu með þeim hætti að um hámarksgreiðslu verði að ræða en ekki afsláttarkort.
Almennt varðandi innritunargjöld sjúkrahúsa þá verð ég nú að segja að mér finnast þau í sjálfu sér ekki ósanngjörn, en klárlega stríðir það gegn ýmsum hugmyndum sem maður hefur um velferðarsamfélagið. Vonandi er það einhverjum huggun harmi gegn að elli-og örorkuþegar með afsláttarkort greiða 1000 kr. mest einu sinni í mánuði. Þar sem stór hluti innlagðra sjúklinga er úr þessum hópi á maður eftir að sjá að þarna sé einhver verulegur tekjustofn á ferðinni. Hreinlega spurning hvort það taki því.
Anna Sigrún Baldursdóttir (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 22:24
Ég þakka Önnu Sigrúnu Baldursdóttur fyrir gagnlegar uppýsingar. Tryggingarstofnun þarf að senda ítarlegar og góðar upplýsingar um allra handa réttindi og afslætti í upphafi hvers árs á öll heimili.´
Þú fylgist augljóslega með þróuninni, Anna Sigrún. Og fyrirgefðu, Lára Hanna, ef við erum að snúa þessum dálki þínu í upplýsingar um sjúlkingaafslætti! En þannig fer oft umræðan í undarlegar áttir.
En er ekki almennt samþykki með þessari skoðun minni: Meginmálið fyrir sjúlkinga er ekki rekstarform sjúkrastofnana heldur að gæðin séu góð, þau séu jöfn fyrir alla og að meginhluti sjúkrakostnaður sé á félagslegum grunni.
Að lokum: Þegar mikið er um bölv og ragn í umræðu hætti ég að lesa innleggið. Ég veit að fleiri eru á svipuðum nótum og ég í þessum efnum.
Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 23:49
Fannst þetta áhugavert:
ÍSLAND BRETLAND
Solveig (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 01:41
Ég er nú ekki fróð um heilbrigðiskerfið og einkavæðingu þess, en þó veit ég að tilraun er nú gerð með að einkavæða læknaritun ákveðinna deilda Landspítala Háskólasjúkrahúss. Til þess að það sé gerlegt fær einkafyrirtæki úti í bæ aðgengi að gögnum/gagnagrunnum sem hingað til hafa verið innan sjúkrastofnananna. Persónuvernd var látin leggja mat á málin og gaf samþykki sitt. Þó er nokkuð augljóst að þarna eru viðkvæmar upplýsingar í meiri hættu að lenda í höndum/tungum óvandaðra en áður var. Vissulega eru allir sem að þessu starfi koma bundnir trúnaði að forminu til, en ég veit af reynslu að þeir sem hafa svo árum skiptir starfað innan sjúkrahúsanna eru meira meðvitaðir um gildi þess að upplýsingar séu meðhöndlaðar af varkárni en þeir sem ekki hafa starfað innan slíkra stofnana. Bara starfsumhverfið og aðrir starfsfélagar og viðhorf þeirra (læknar, hjúkrunarfólk) auka öryggið og samheldnina í því. Ritarar sem eru ráðnir í einkafyrirtæki úti í bæ munu aldrei geta haft viðlíka forsendur í trúnaði sínum, starfsmannavelta gæti verið örari (til að hámarka gróða af fyrirtækinu þarf að halda launakostnaði niðri) og margt annað gæti hjálpað til við að gera þessa tilraun áhættusama. Þessi hljóðlega tilraun við að einkavæða læknaritunina er aðeins upphafið að því sem Guðlaugur Þór boðar í sinni frjálshyggjuhugmyndafræði......
Harpa Björnsdóttir, 10.1.2009 kl. 02:06
Ég vona bara að ég og börnin mín þurfum ekki að sækja þjónustu sjúkrahúsanna eða heilsugæslunnar á næstunni, ég hef ekki efni á því.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.1.2009 kl. 02:51
Enginn þarf nokkru sinni að biðjast afsökunar á að nota þennan vettvang til skoðanaskipta - bara svo það sé á hreinu.
Innlegg Hörpu nr. 50 finnst mér sérlega athyglisvert.
Lára Hanna Einarsdóttir, 10.1.2009 kl. 03:09
Harpa þarna er mál sem þarf að huga vel að, þetta er eitt af því sem við ætlumst til að sé í lagi. Hvað segði Guðlaugur ef sjúkraskýrsla hans yrði gerð opinber og allt um hann yrði á milli varana á almenningi? Hvað þá?
Jón Svavarsson, 10.1.2009 kl. 03:10
Það sem Harpa skrifar um einkavæðingu læknaritunar er nauðsynleg gagnrýni á nýja skipan í heilabrigðiskerfinu. Þar sem ég þekki til erlendis er starf læknaritara háð sérmenntun því að það er vtalið vera mjög annars eðlis en almennt ritarastarf. Læknaritarar þurfa t.d. að kunna "læknamálfar", þurfa t.d. á vissri latínuþekkingu að halda. En meðan erlendis er verið að sérmennta læknaritara inn á sjúkrastofnunum, er verið að einkavæða þá á Íslandi!
Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 06:19
Bara smá innlegg, það er verið að mennta læknaritara í Ármúlaskóla, og hefur verið gert í nokkur ár. Og það fer ekki hver sem er í þetta starf, þú verður að vera með ákveðna menntun, þetta með einkavæðingu (útboð) á læknariturum er annað mál, það þarf að athuga það.
Sigurveig Eysteins, 10.1.2009 kl. 13:54
Ég þakka Sigurbjörgu þessar upplýsingar. Þetta gerir ráðningu ritara utan spítala enn þá undarlegri því að sjúkraritari er mjög sérhæft starf. Er hér e.t.v. að ræða ráðningu í sérstök innsláttarverkefni SEM FRAMKVÆMD ERU UNDIR EFTITLITI SJÚKRARITARA? En eins og Sigurveig segir: Það þarf að athuga.
Mér er kunnugt um sjúkraritaranámið/starfið því að ein dóttir mín er í slíku námi í Danmörku. Fyrst þurfti hún að læra latínu eingöngu í nokkra mánuði og síðan að læra önnur sérheiti sem læknar nota. Sem sagt: Hún þarf að kunna sértakt tungumál, læknamál, mjög vel. Hún þarf ekki aðeins að þjálfa sig að skrifa allt mögulegt sem læknar vilja að sé skrifað um sjúklinga, bæði af míkrófón og kroti, því að umfram allt þarf læknaritarinn að kunna allra handa skjalavörslu bæði í tölvum og utan þeirra. Tölvur eru eðlilega notaðar æ meira og þá þarf að skanna alls kyns skrár á réttum stöðum og á réttan hátt.
Skjalavarsla er oft í voðalegu ástandi í íslenskri heilbrigðisþjónsutu eins og mörg ykkar vita. Ég þekki lækni sem setur allar sjúklingaskrár í lokaða geymslu séu þær eldri en þriggja mánaða! Þar sem sjúklingaskrár eiga að vera tölvugeymdar eins og á Lsp. finnast yfirleitt engar skrár sem eru eldri en 2-3 ára og fylgiskrár eins og röntgenmyndir/ómskoðunarmyndir eru geymdar á allt öðrum stað og yfirleitt ekki skannaðar á sama stað og læknaskýrsla um myndirnar. Annars notar meirihluti lækna ekki tölvur til að geyma skrár.
Rannsóknir hafa sýnt að mjög stór hluti læknamistaka stafar af því að skrár um rannsóknir finnast ekki af einhverjum ástæðum. Þá er ótalin vinnan sem einstakir læknar sem ekki hafa komist upp á lag með að nýta störf læknaritara þurfa að inna af hendi! Það er ekki aðeins að hæfileikinn að skrifa langar skýrslur á leturborð með tveimur fingrum, hvorn á sitthvorri hendi, er tímafrek iðja, heldur er og skipulagning skjalavörslunnar mjög erfið. Ég þurfti einu sinni að ræða um mál (alls óskyld læknisfræði) við lækni um kl. 17 en hann hafði ekki tíma til þess því að hann þurfti að fara á skrifstofuna sína til að vinna til miðnættis við skýrslugerð og skjalahald. Einu sinni þurfti ég að bíða í 4 mánuði eftir mikilvægri læknisskýrslu því að læknirinn, sem nýtti þó míkrófón, fann ekki ritara til að skrifa textann. Þetta gerðist á Lsp.
Eiginlega ætti læknir ekki að þurfa að koma nálægt endanlegri skýrslugerð hvað þá skjalahaldi. Þeir eiga að eyða dýrum tíma sínum í lækningar. Hver læknir á að hafa aðgang að læknaritara sem sér um skýrslumálin alfarið. En þessi þróun gengur seint fyrir sig vegna efnahagsreglu sem ég nefni RÆSTINGARKONULÖGMÁLIÐ. Það er á þá leið að stofnun er gert að spara. Þeir sem eiga að skipuleggja sparnað gæta þess vandlega að spara lítið eða ekkert hjá sjálfum sér né annarra ráðamanna sem bera mestan kostnað. Hins vegar er athyglinni beint að þeim sem lægstir eru eða nýjastir í píramídanum, fyrst ræstingarfólkið, síðan ritarar o.s. frv. Útkoman er smásparnaður sem orsakað talsvert minni afköst og nýjar kröfur eru þá gerðar um sparnað!!
Ég gerði eitt sinn um það tillögu að við næsta sparnaðarátak í heilbrigðisþjónustu yrðu sjúkraliðar látnir ráða einir um allan sparnað. Tillagan hlaut engan stuðning!
En alla vega: Það þarf að skylda alla lækna til að færa mikinn hluta núverandi starfa sinna til læknaritara. Einkavæðing á störfum læknaritara á sjúkrahúsum er aðeins endurspeglun á úreltri píramídastjórnun stofnananna.
Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.