Áríðandi skilaboð til þjóðarinnar

Íslenska þjóðin hefur verið á hraðnámskeiði í hagfræði undanfarna þrjá mánuði. "Fræðunum" hefur verið troðið ofan í kok á okkur, nauðugum viljugum í ljósi efnahagshruns og aðstæðna. Við vitum margfalt meira núna en í september en örugglega er ótalmargt sem við hvorki vitum né skiljum ennþá. Og til að skilja er nauðsynlegt að fræðast.

Borgarafundur 24.11.08Í kvöld, mánudagskvöld, er borgarafundur í Háskólabíói klukkan átta. Þetta er 8. borgarafundurinn og sá 3. í Háskólabíói. Fólki er eflaust í fersku minni fundurinn 24. nóvember þegar við troðfylltum bíóið og anddyrið var stútfullt. Þá sátu ráðherrar fyrir svörum, gáfu innantóm loforð og sögðu okkur ekki vera þjóðina. Við lærðum heilmikið þótt ekki væri nema hvert viðhorf valdhafa er til fólksins í landinu.

Einmitt vegna þess hve nauðsynlegt er að fræðast og skilja orsakir og afleiðingar skiptir sköpum að fjölmiðlar sinni mótmæla- og borgarafundum. Það komast ekki nema visst margir inn í Háskólabíó. Hvers eiga hinar tugþúsundirnar (eigum við að segja hundruð þúsunda?) að gjalda sem annaðhvort komast ekki vegna aðstæðna eða búsetu eða ekki er pláss fyrir. Ég skora á RÚV eða Stöð 2 að sjónvarpa beint frá fundinum og útvarpsstöðvar að útvarpa frá honum líka! Fjölmiðlarnir eiga að sjá sóma sinn í að styðja almenning í landinu með því að auðvelda aðgengi að upplýsingum og aðgerðum. Þegar RÚV sýndi beint frá fundinum í sjónvarpi 24. nóvember mældist gríðarlegt áhorf. Við, fólkið í landinu, eigum RÚV. Sendið þeim ykkar skilaboð og hjálpið mér og öllum hinum að vekja athygli á fundinum. Skrifið bloggfærslur, tengið í þessa færslu, talið við samstarfsfólkið... hvernig sem þið farið að.

Viðbót mánudag kl. 12:28: Var að heyra í hádegisfréttum RÚV að fundurinn yrði tekinn upp og sýndur með íslenskum texta eftir tíufréttir á miðvikudagskvöld.

Fundurinn í kvöld verður alveg einstaklega fróðlegur og ég skora á alla sem mögulega geta að mæta! Að þessu sinni verður fjallað um íslenskt atvinnulíf í aðdraganda kreppunnar, spurt hvað fór úrskeiðis og fjallað verður um hriplekt lagaumhverfi og veikar eftirlitsstofnanir. Formönnum stjórnmálaflokkanna og stjórn Viðskiptaráðs Íslands hefur verið boðin þátttaka í pallborðsumræðum. Komið hefur fram nokkuð víða, síðast í Silfrinu í gær, að Viðskiptaráð hefur verið öflugur þrýstihópur og fengið um 90% af baráttumálum sínum í gegn hjá ríkisstjórnum fyrr og nú, m.a. afnám regluverks í fjármála- og viðskiptalífinu - með afleiðingum sem öllum eru kunnar. Ábyrgð þeirra er mikil. Þetta er fundur sem við getum öll lært af, m.a. til að tryggja að sömu mistökin verði ekki gerð aftur, t.d. að einkavæða heilbrigðisþjónustuna eða orkuauðlindirnar og gefa auðmönnum.

Frummælendur á borgarafundinum verða:
Robert Wade - prófessor í stjórnmálahagfræði við London School of Economics
Raffaella Tenconi - hagfræðingur hjá Straumi fjárfestingabanka í London
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir
- stjórnsýslufræðingur
Herbert Sveinbjörnsson - heimildamyndagerðarmaður og aðgerðasinni

Raffaellu veit ég ekkert um en þegar maður gúglar hana virðist hún vinna hjá Dresdner Kleinwort sem líkast til er samstarfsaðili Straums. Sigurbjörg var í Silfri Egils 30. nóvember sl., sjá neðsta myndbandið hér. Herbert var í Silfrinu í gær, sjá næstefsta myndbandið hér.

Robert Wade ætti að vera mörgum Íslendingum kunnur. Hann hefur haldið fyrirlestra í Háskóla Íslands og í byrjun júlí sl. skrifaði hann grein í Financial Times, biblíu fjármálamanna, sem hann nefndi Iceland pays price for financial excess. Greinin er neðst í færslunni í Word-skjali. Forsætisráðherra var ekki hrifinn og líkti grein Wades við aðsenda grein í DV eða einhverju slíku blaði og talaði niður til hans eins og heyra má í þessari úrklippu úr Íslandi í dag frá 3. júlí 2008.

 

Greinin vakti talsverða athygli hérlendis. Ég skrifaði lítinn pistil með slóðum og þessari frétt sem birtist í tíufréttum RÚV 1. júlí. Hér er umfjöllun Vísis.is um greinina. Skyldi spáin um stjórnarslit fara að rætast fljótlega? Takið sérstaklega eftir lokaorðunum.

Skömmu eftir hrunið, eða 7. október, var viðtal við Robert Wade í fréttum RÚV. Aftur skrifaði ég pistil og vakti athygli á málflutningi Wades.

 

Á borgarafundinum í kvöld verður sýnd um 10 mínútna annáll um fundina sem haldnir hafa verið. Ég veit þó ekki hvort sá á fimmtudagskvöldið er með, hann er svo nýr. En fundirnir hafa verið hver öðrum betri og áhugaverðari. Í Silfrinu í gær var sýnt þetta sýnishorn úr annálnum. Heiða skessuskott er þar í stóru hlutverki, enda skörungur sem leggur sitt af mörkum til betra samfélags.

 Borgarafundur í Háskólabíói 12. janúar 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Eini borgarafundurinn sem var í beinni útsendingu var sendur út í vinnunni minni á barnum, allir viðstaddir lögðu við hlustir og góð umræða skapaðist eftir fundinn.  Ég vona bara að fundurinn verði sendur út á morgun, þar sem ég verð í vinnunni minni. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.1.2009 kl. 02:18

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Vonandi troðfyllum við húsið

Hólmdís Hjartardóttir, 12.1.2009 kl. 07:23

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Það væri æðislegt ef fundurinn yrði sendur út í sjónvarpinu. Horfði síðast og fannst frábært að vera gefið tækifæri sem landsbyggðartúttu til að fá að vera með. Ekki séns fyrir mig að komast en vinkona mín ætlar að fara og ég veit um marga, marga aðra, held að Háskólabíó springi.

Baráttukveðjur af Skaganum, sjáumst á Austurvelli á laugardaginn!!!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 12.1.2009 kl. 08:51

5 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Takk fyrir adressurnar, ég er búin að senda áskorun:) Ef ég byggi í Rvk myndi ég mæta á hverjum mánudegi!

Harpa Oddbjörnsdóttir, 12.1.2009 kl. 08:51

6 Smámynd: Anna

Sæl, flott myndbands klippur. Verst að geta ekki sent Geir blessaðum eintak af þeim. Hann virðist hafa verið í einhverjum blekkingarheimi fyrr á árinu. Ég vona að sjónvarpið sýni af fundinum fyrir þá sem búa erlendis. Rúv.is hefur skorið niður á netinu því miður. Sendi baráttukveðjur.

Anna , 12.1.2009 kl. 10:50

7 Smámynd: Héðinn Björnsson

Maður ehfði nú haldið að RÚV tæki fegins hendi við ókeypis frétta- og fréttaskýringarefni á tímum þegar verið er að skera niður.

Ég hlakka til fundarins og vona að ég verði einhverju nær um stöðu þjóðarinnar á eftir. Upplýsingaröflun hefur verið aðal styrkur brogarafundanna og er ég a.m.k. margs vísari eftir þá fundi sem ég hef komist á.

Hlakka til að sjá ykkur! 

Héðinn Björnsson, 12.1.2009 kl. 12:23

8 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Búin að senda póst.

Rut Sumarliðadóttir, 12.1.2009 kl. 12:26

9 identicon

Hafið með ykkur í nestið á borgarafundinn í kvöld

Stiglitz ráðlagði Seðlabankanum og stjórnvöldum árið 2001:

4. Mikilvægustu fyrirbyggjandi aðgerðir sem stjórnvöld geta gripið til eru þær sem minnka sveiflur í flæði fjármagns, s.s. skattar á fjármagnsflutninga, upplýsingaskylda og reglur sem setja bönkum skorður (sjá umfjöllun hér að ofan). Lausafjárkvaðir sem Seðlabankinn setti á árið 1999 höfðu jákvæð áhrif. Stjórnvöld ættu að íhuga víðtækari reglur af sama tagi sem taka tillit til gjaldeyrisáhættu skuldunauta bankanna.

5. Stjórnvöld ættu einnig að setja nýjar reglur um upplýsingaskyldu þeirra sem skulda í erlendri mynt.

6. Takmörk á hraða útlánaaukningar einstakra banka eru ef til vill einnig heppileg, sérstaklega í ljósi þess að hraður vöxtur útlána virðist oft hafa verið ein af meginorsökum fjármálakreppu á síðari árum og að öryggisnet fjármálakerfisins hvetur banka til að taka áhættu að hluta til á kostnað almennings. Slíkar hraðatakmarkanir gætu verið í formi reglna og/eða skatta. Til greina koma hærri eiginfjárkröfur, hærri innborganir í innlánstryggingarkerfi eða meira eftirlit hjá þeim stofnunum sem þenjast út hraðar en tiltekin mörk leyfa.

7. Hækkað lágmark eiginfjárhlutfalls banka er ef til vill einnig heppilegt um þessar mundir. Slík stefna hefur samt ókosti, og því má ekki leggja of mikið upp úr henni. Þar að auki er mikilvægt að hafa það í huga að ef hagkerfið lendir í samdrætti getur ósveigjanlegt lágmark á eigið fé banka haft slæm áhrif.

http://sedlabanki.is/?pageid=13&NewsID=149&templateid=7

Boðorð Viðskiptaráðs 2007:

“Sjálfsprottnar reglur
Höftum og íþyngjandi reglum verði aflétt af öllum atvinnuvegum og viðskiptalífinu verði í auknum mæli gefinn kostur á að setja sér sjálft reglur.”

http://www.vi.is/news.asp?ID=526&type=one&news_id=536


Ísland er öðruvísi (ekki trúa blaðrinu í Valgerði Sverrisdóttur um hið gagnstæða):

"Nei, það er ekki hér. Nei, svoleiðis löggjöf er ekki hér á landi. Nei, stjórnvöld á Íslandi hafa ekki sett slík lög eins og stjórnvöld annarra ríkja."

Þetta var viðkvæði fyrrum ríkisskattsstjóra, Indriða H. Þorlákssonar, í hvert sinn sem Egill spurði út í lagaramma um starfsemi fjármálafyrirtækja.

Íslensk stjórnvöld gáfu einkavinum sínum bankana. Síðan gáfu þeir sömu einkavinum sínum veiðileyfi á íslenskan almenning. Óreiðumennirnir höfðu af almenningi æru og eignir.

Sjáið viðtalið við Indriða hér:

http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/744451/

Rómverji (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 13:20

10 identicon

Sæl Lára og takk fyrir þitt frábæra innlegg hér. Mig langar til að benda á frábærar hugmyndir hans Njarðar P. Njarðvík í Silfri Egils í gær. Væri ekki hægt að koma þessum hugmyndum á fót? Á bloggi hjá Ólínu hafa verið umræður um möguleika á þessu. Tökum öll þátt í þessu og hjálpumst að, að koma á nýju líðveldi á Íslandi.

Bjarni Már Bjarnason (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 13:58

11 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég mæti...með lambhúshettu

Heiða B. Heiðars, 12.1.2009 kl. 14:41

12 Smámynd: Anna

Er sammála Bjarna. Væri hægt að bjóða Nirði P. Njarðvík á næsta borgarafund. Hann hefur mart gott til málanna að leggja. 

Spurning til stjórnmálamanna á fundinum. Ef einhver vildi leggja þessa spurningu fram.

Hvað er framtíðarsýn Ríkisstjórnarinnar

Nú spyr ég eins og Njörður.

Anna , 12.1.2009 kl. 14:41

13 Smámynd: Sigurður Hrellir

Fundurinn var frábær! Mikið rosalega má Geir skammast sín fyrir þessi ummæli. Ég skil það vel að hann hafi ekki þorað að mæta á fundinn í kvöld og enginn úr hans fúla flokki. Er enginn heiðvirð manneska í þeirra þingflokki?

Sigurður Hrellir, 13.1.2009 kl. 00:27

14 identicon

Já. Fundurinn var mjög fínn og var ég ánægður með ræðu og tal Wade's . Vona að stjórnmálamenn og hrokagikkirnir í stjórninni sem þykjast allt vita hafi nú hlustað og nagað í handabökin. Því bæði Wade og erlenda konan (man ekki nafn) töluðum einnig um aðgerðir og lausnir úr vandanum á meðan flest allt tal fjallar enn um skammir og ástæður.

Ég er sammála því að fyrir næsta borgarafund ætti að kalla á Njörð P. Njarðvík að mæta til þess að tala um nýtt lýðveldi. Hann kom  með frábærar pælingar í Silfri Egils um daginn. Mér finnst alltof lítið talað við fólk sem hefur hugmyndir um lausnir og aðgerðir.

 Að lokum þá þarf nauðsynlega að skipta um fundarstjóra á þessum borgarafundum. Hann er að sjúga til sín allt of mikla athygli, er alltof dónalegur og uppstökkur. Höndlar þetta ekki.  Ef maður á pollrólegur að geta horft og hlustað á þetta þá þarf að fá einhvern sem hefur vott af sympatíu eða snert af yfirvegun. 

Zúri (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 09:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband