Hvað kemur þeim stjórnarskráin við?

Century AluminiumKarlanefndin um stjórnarskrána sem skipuð var í mars sl. leitaði eftir umsögnum eins og nefndir Alþingis gera gjarnan. Það sem vekur sérstaka athygli við listann yfir þá sem leitað var umsagna hjá er að þar eru nokkur erlend álfyrirtæki. Hanna St. Þorleifsdóttir vakti athygli á þessu í athugasemd við þessa bloggfærslu mína. Hvað í ósköpunum kemur erlendum álrisum stjórnarskrá Íslendinga við þótt þeir séu hér með þrjú útibú? Hvað gekk nefndinni til?

Ætli sjálfstæðismenn séu búnir að tuða um þetta mál í yfirstandandi maraþonatkvæðaveiðum á þinginu? Ef ekki lægi mikið við myndi ég líklega óska þess að þeir héldu svona áfram. Maður sér næstum með eigin augum atkvæðin hrynja af þeim frá klukkutíma til klukkutíma - og þeir skammast sín ekkert fyrir að tefja áríðandi þjóðþrifamál og fara svona með þjóð sína og gegn eindregnum vilja hennar. Svo ætlast þeir til þess að við berum virðingu fyrir þeim og kjósum þá jafnvel. Ja, svei!

Það er deginum ljósara að sjálfstæðismenn vilja ekki að auðlindir okkar séu í þjóðareign. Enda kom greinilega fram á landsfundi þeirra nýverið í hverra eigu þeir telja fiskinn í sjónum vera eins og sjá má og heyra hér. Þeim til varnar má svosem minna á að þröngsýni þeirra er slík að þeir telja Flokkinn vera þjóðina - sjá hér. Og maðurinn sem uppgötvaði fé án hirðis og einkavæddi það með hörmulegum afleiðingum er ekki líklegur til að láta þar við sitja. Hér má heyra um hugmyndir hans, sem hann tjáði í Silfri Egils 5. október sl., um hvað gera má við auðlindir án hirðis.

Áttum okkur strax á því, að merkilegt nokk eru ótalmargir sjálfstæðismenn sama sinnis og þessi ágæti frjálshyggjuauðlindahirðir. Og rétt eins og með aðrar eigur þjóðarinnar sem þeir hafa einkavinavætt, gefið eða selt útvöldum gegn hóflegu gjaldi myndu þeir ekki hika við að losa þjóðina við allar auðlindir án hirðis sem þeir gætu komist yfir.

Viðbót: Smugan minnti mig á þetta viðtal við sjálfstæðismanninn Jón Gunnarsson. Jóni finnst sjálfsagt að afhenda eigendum Krónubréfa (hver á þau bréf?) orkuver og önnur mannvirki á Íslandi. Er það rétt sem fram kemur í fréttinni að núverandi ríkisstjórn sé í samningaviðræðum um þetta í samráði við Seðlabankann og AGS?

Össur Skarphéðinsson, hinn gallharði virkjana- og álverssinni og ráðherra Samfylkingarinnar, hefur greinilega kíkt á Silfur Egils og hlýtt á málflutning þeirra Hudsons og Perkins, ólíkt þingmanninum og sjálfstæðismanninum Jóni Magnússyni sem sagði í þingtuði (já, tuði - þetta eru ekki ræður sem fluttar eru af sjálfstæðismönnum á Alþingi þessa dagana) kl. 19.20 í kvöld: "Silfur Egils horfði ég nú ekki á. Hafði nú annað og merkara við tímann að gera heldur en að hÖssur í góðum félagsskap hjá Kaupþingi í Katarlusta á þann innihaldsrýra sleggjudómaþátt eins og hann hefur þróast í vetur undir forystu þess stjórnanda". Jón Magnússon hlustar semsagt hvorki á almenning né sérfræðinga - fólkið í landinu sem hefur verið á gestalista Silfursins í vetur. Gott að vita það, einkum fyrir þá sem hugðust kjósa nýja flokkinn hans. Hann hefur þá ekkert lært í vetur af öllu því fróða, eldklára fólki sem við hin höfum borið gæfu til að horfa og hlusta á, þökk sé "þeim stjórnanda".

En Össur virðist hafa kíkt á Silfrið og fer mikinn á bloggsíðu sinni í dag. Þar ber virkjana- og álverssinninn sér á brjóst og segist hafa barið í gegn Orkulög. Þau lög geri það að verkum að orð Hudsons og Perkins um að íslenska þjóðin geti misst orkuauðlindir sínar í gin erlendra auðhringa séu dauð og ómerk. Það geti aldrei gerst, þökk sé Össuri. Þeim sama Össuri og reynir nú með fulltingi gamla samstarfsflokksins, Sjálfstæðiflokks, að berja í gegn lög um fjárfestingarsamning við Century Aluminium auðhringinn um ýmiss konar hlunnindi, skattaafslátt, fríar mengunarheimildir (og gjafverð á rafmagni?), bara ef álrisinn vill reisa risaálver í Helguvík sem þurreys allar orkuauðlindir suðvesturhornsins og dælir eitri yfir íbúa þessa þéttbýlasta svæðis landsins. Sumir flokka nefnilega rányrkju og eiturmengun sem "skynsamlega nýtingu auðlinda".

Það sem Össur virðist ekki skilja er að þau öfl sem þeir Hudson og Perkins tala um svífast einskis. Þau staldra ekki við í dyrunum, hringja bjöllunni og spyrja kurteislega hvort þau megi koma inn. Hvort það séu nokkur lög í landinu sem hindri þau í að gera það sem þau ætla sér. Nei, þau vaða inn á skítugum skónum, segja okkur skulda þeim stórfé (þau eru hirðirinn) og nú sé komið að skuldadögum. Auðlindirnar eða lífið. Engin orkulög sem barin eru í gegn um örþingið á Íslandi fá nokkru um það breytt.

Enda lútum við nú þegar svo lágt að biðja erlenda álversauðhringa um álit á breytingum á íslensku stjórnarskránni. Hvort við megum náðarsamlegast hnika til ákvæðum um eignarhald á auðlindunum þannig að við eigum þær sjálf - eða hlut í þeim. Aumt.

Ég trúi miklu frekar þeim Hudson og Perkins en Össuri Skarphéðinssyni í þessum málum. Þeir eru fagmenn og reynsluboltar. Össur er doktor í kynlífi fiska. Síðast þegar erlendir sérfræðingar reyndu að vara okkur við var ekki hlustað og viðvaranir þeirra skotnar í kaf af íslenskum ráðamönnum. Við megum ekki gera sömu mistökin aftur. Hlustum á þá og tökum mark á þeim.



Umsögn Century Aluminium um breytingar á stjórnarskrá Íslands


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Vá! Lára Hanna! Þetta er frábært blogg! Ég sé að þér er virkilega misboðið en þér tekst samt svo snilldarvel að færa rök fyrir máli þínu að ég vona að Össur lesi þetta og átti sig á því hvað hann gerir lítið úr sjálfum sér með því að véfengja álit þeirra Hudsons og Perkings. Ég hef minni trú á því að Jón kunni að skammast sín en það væri skemmtileg tilbreyting ef svo kann að reynast. Ærin er ástæðan til að hann og flokkssystkini hans skömmuðust sín!!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.4.2009 kl. 00:26

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir þessa færslu, mál þróast hratt þessa dagana.  Erlendir auðhringir hafa greinilega meiri völd hérna er almenningi er talið trú um. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.4.2009 kl. 00:43

3 identicon

Þú klikkar ekki. Takk fyrir þetta.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 00:51

4 identicon

Bestu þakkir fyrir enn eina samantekt. Þú gerir það sem opinberir fjölmiðlar svíkjast um að gera. Ég vona sannarlega að Össur sjái að sér. Þjóðarheill er dýrmætari en fljótfærnisleg ákvörðun hans. Jón Magg er bara Jón Magg og ekki meira um hann að segja.

Kolla (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 00:58

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það er merkilegt hvað stjórnmálamenn eins og Össur telja sig vera klára og geta hunsað orð sérfræðinga. Það er einmitt þess ofurtrú á eigin snilld sem gerir þessa menn stórhættulega.

Þeir hugsa sig ekki tvisvar um.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.4.2009 kl. 01:14

6 identicon

" Mikilvægt er að mati Norðuráls, að skýrt sé kveðið á í stjórnskipunar lögum að á engan hátt sé verið að raska eignarréttindum einstaklinga og lögaðila. Norðurál telur jafnframt mikilvægt að ákvæði stjórnarskrár séu skýr. Hvað varðar takmörkun á notkun  auðlinda varðar. Þannig verði atvinnu og eignarréttindum þeirra sem nýta auðlindir Íslands tryggð stjórnarskrárvernd. Og ákvæði sem þetta séu ekki til fyrirstöðu því að einkaaðilum verði veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar auðlinda með skynsamlegum hætti"

Hver er þessi  Ragnar Guðmundsson?  Skynsamlegar að hvers áliti?

Halló Nú er ég búinn að fá nóg! Stjórnlagaþing fólksins strax.  Og enga flokkaklíkur eða stóriðju  oligarcka með puttana í því.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 01:41

7 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég er líka búin að fá nóg......upp með pottana

Hólmdís Hjartardóttir, 7.4.2009 kl. 01:51

8 Smámynd: Baldvin Jónsson

Baldvin Jónsson, 7.4.2009 kl. 01:55

9 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Er ekki í lagi............ erum við búin að selja okkur ??? Hvar er sama sem merki á milli Norðuráls og Stjórnaskrá ???  Hver er það sem ræður hér á landi ???  Hvað eru það margir (fyrirtæki) sem þurfa að samþykkja aðgerðir á alþingi ??? Við skulum bara rétt vona að ég sé í martröð og sé að vakna núna.......núna....... núna.................

Sigurveig Eysteins, 7.4.2009 kl. 03:20

10 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Flott skrif.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 7.4.2009 kl. 05:40

11 identicon

Mikið væri gaman að vita hvaða snillingur það var í nefndinni sem fékk þá hugmynd að senda álverunum fyrirspurnina?

Valsól (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 06:47

12 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka þér fyrir Lára Hanna - við verðum nú að gera allt sem í okkar veldi stendur til að vekja athygli á þeirri stöðu sem við erum í - ef við gerum það ekki munum við glata öllu - tökum okkur ríki Latnesku-Ameríku til fyrirmyndar - myndum bandalag við þau og fáum ráð hjá þjóð sem voru næstum búin að glata öllu en fólkið í þessum löndum náði að snúa blaðinu við - við getum það líka. Spörkum í sköflunginn á IMF og sjáum hvernig þeir bregðast við - krefjumst þess að allri leynd verði létt og að við fáum að semja upp á nýtt - enda er ljóst að Geir og Co skrifuðu bara undir án þess að berjast fyrir okkur eins og aðrir þjóðhöfðingjar hafa gert.

Birgitta Jónsdóttir, 7.4.2009 kl. 06:52

13 Smámynd: Gerður Pálma

Ekki gleyma hver á Alcan, RIO TINTO, eitt alræmdasta fyrirtæki veraldar, kíkið á ferilsögu þess fyrirtækis, má finna á www.SAVING ICELAND.org

Rio Tinto var (er?) að skoða hugsanleg kaup á hluta OR Í Hitaveitu Suðurnesja, og enginn hrekkur við. Hversu fast ætlum við að sofa á meðan við rennum á botnin og eigum aldrei aftur snúið.

Kínverjar eru sömuleiðis að íhuga kaup stórum hlut í RIO TINTO, hvaða ´framfarir´ í atvinnu- og efnahagsmálum sjáum við þá?

Gerður Pálma, 7.4.2009 kl. 07:03

14 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Ég hef nú  orðað þetta þannig að: Sum blogg eru bara betri en önnur.

Lára Hanna, þú átt skilið allan þann heiður sem íslenska þjóðin getur veitt þér. Það hefur verið magnað að fylgjast með síðunni þinni undanfarið.

Baldvin Björgvinsson, 7.4.2009 kl. 08:34

15 Smámynd: Anna

Ég þakka fyrir bloggið. Þessir tveir menn eru komnir hér til þess að tala við ríkisstjórnina  Við skulum vona að hun hlustar. AÞG, engin hefur átta sig á hvernig þeir vinna. Ekki við í þessu litla landi.  Þeir sem hafa hlustað á Silfrið síðan í oktober. Þá hafa fræðimenn komið og farið á Silfrinu og sagt " TÖKUM EKKI ÞETTA L'AN; BORGUM EKKI ÞESSAR SKULDIR" 

Nú vil ég fá að vita. Er búið að selja allar auðlindir landsins til auðmanna og erlenda lánadróttna. Eru íslendinar vikilega svo vitlausir.

Anna , 7.4.2009 kl. 08:59

16 identicon

Hugsunin á bakvið breytingarnar á orku og vatnalögum (sjá hér) er í sjálfu sér nokkuð góð. Opnað er fyrir möguleika á að fela öðrum en núverandi orkufyrirtækjum nýtingu á auðlindum í eigu ríkis og sveitarfélaga.

Össur hittir oft naglann á höfuðið en í þetta skipti missti hann marks og hitti eigin þumla með hörðum hamri. Hann segir, "Það er því grundvallarmisskilningur hjá þeim félögum Perkins og Hudson að skuldastaða þjóðarinnar geti leitt til þess að orkulindir verði teknar upp í skuld – eða seldar með einhverjum hætti." Málið er að þetta er grundvallar misskilningur hjá Össuri sjálfum, enginn er að tala um að auðlindir fari í EIGU útlending, heldur það að orkufyrirtæki sem nú þegar hafa fengið úthlutað afnotarétti á þessar sömu auðlindir fari í annarra eigu. Afgangurinn af bestu virkjanakostun er einnig kominn undir núverandi orkufyrirtæki í formi rannsóknarleyfa eða virkjanaleyfa s.s. jarðhiti á Norðurlandi og vatnsafl í neðri-Þjórsá.

Fyrir nokkrum mánuðum var hugmyndin um "dreifð" afnot bara skrambi góð. Í því neyðarástandi sem nú hefur skapast jaðra slíkar hugmyndir við landráð. Og af hverju segi ég það, jú ríkið er í bullandi vörn, orkufyrirtækin á barmi hengiflugs, halda menn þá að hægt sé að ná einhverjum sérstaklega góðum samningum eða að hægt verði að setja á einhvern verulegan skatt á þessar opinberu auðlindir?  Nei ef við pössum okkur ekki núna þá fer afnotarétturinn á mikilvægustu auðlindum okkar beint á hendur aðila sem borga litla sem enga skatta, rentan af auðlindinni verður lítil og hinir miklu tekjumöguleikar sem slíkar auðlindir gætu gefið gufa upp í marga áratugi.

Ef menn trúa þessu ekki þá ættu þeir hinir sömu að kynna sér sögu olíuiðnaðar í heiminum og þá sérstaklega því sem gerðist í Rússlandi á mótum Jeltsín og Putin. Hvað gerðu Rússar þegar þeir sáu hve illa hafði til tekist við einkavæðinguna, jú þeir réðust í gríðarlega óvinsæla þjóðnýtingu á mikilvægustu gas og olíu auðlindum. Enn í dag er þessi þjóðnýting efniviður í umræður um spillingu, morð og glæpi.

Það er gott að vera bjartsýnn og opinn fyrir nýjum hugmyndum en einfeldningsháttur á erfiðum tímum er ekki það sem Íslendingar þurfa.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 09:40

17 identicon

Ég veit ekki hvernig Össur ætlar að segja lánadrottnum að þessi veð sem að þeir séu búnir að taka í virkjunum og orkufyrirtækjum voru nú bara upp á djókið. Það hafi aldrei verið meiningin að þeir gætu fengið veðin. Ég held að það séu nú veðsvik af dýrustu sort.

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 09:41

18 Smámynd: Alfreð Símonarson

Spurt er : "Eru íslendingar virkilega svo vitlausir?" Ef fólk veit ekki af einhverju, þá hvernig átti það að geta brugðist rétt við? Flest ykkar eru ný búin að heyra sannleikann um IMF og AGS án þess að dæma þær viðvaranir dauðar og ómerkar samsæriskenningar. Spillingin er til staðar, ráðamenn eins og Össur eru að reyna að fegra sín fyrri störf sem klappstýrur erlendra risafyrirtækja, sem sum hver hafa verið tengd valdaránum og nauðgunum þjóða sem IMF hafa "lánað". John Perkins sagði það skýrt á fyrirlestrinum í gær að þegar fólkið getur ekki borgað þá taka þeir náttúruauðlindirnar auk annarra verðmæta. Þetta er leikur sem IMF og AGS (sem nota bene eru bandarísk einkafyrirtæki) hafa leikið oft áður en við hljótum þann vafasama heiður að vera fyrsta þróaða ríkið sem festist í dauðavef þessara stofnanna. Ég tók upp fundinn og læt ykkur vita þegar ég er búinn að henda þessu inn á netið.

Alfreð Símonarson, 7.4.2009 kl. 09:42

19 Smámynd: Neo

Sæl Lára hanna, ég fjallaði einmitt um þessi mál þegar ríkisstjórnin var í þann mund að skrifa undir samning við AGS. Ég notaði einmitt þessa ræðu þar sem Pétur Blöndal er að tala um að selja auðlindir hæstbjóðanda. Það er deginum ljósara hvað Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér í þessum málum. Við verðum að hlusta á það sem Perkins og Hudson eru að segja!

Ég vísa í fyrri færslur mínar um IMF sem meðal annars hafa verið birtar á vefsíðu DV: (þegar þeir þorðu...núna heyrist ekkert frá þeim bæ)

Í ljósi þessa verð ég nú samt að viðurkenna að ég er ekki nógu ánægður með VG miðað við málflutning Ögmundar í ofangreindum færslum. Ef ég kýs samkvæmt sannfæringu (en ekki þar sem atkvæðinu mínu er best komið til að koma í veg fyrir að ránfuglinn komist aftur til valda sem hefði þá verið VG) þá verð ég að kjósa Borgarahreyfinguna. Ég er virkilega ánægður með Egil að fá þessa menn í þáttinn sinn, og þakka þér kærlega Lára Hanna fyrir frábært blogg!

Neo, 7.4.2009 kl. 09:42

20 Smámynd: Alfreð Símonarson

HVAR ERU FJÖLMIÐLARNIR???!?!??? Fokking flokkspólitíkusahórur sem hafa haldið okkur frá sannleikanum öll þessi ár!!!!

Alfreð Símonarson, 7.4.2009 kl. 09:47

21 Smámynd: Neo

Hlekkirnir misfórust eitthvað í athugasemdinni hér að ofan, hér koma þeir réttir:

Neo, 7.4.2009 kl. 10:10

22 identicon

Efast að hinir erlendur sérfærðingar hafi lesið orkulögin, geri eiginlega ráð fyrir að orkulögin hafi farið farið framhjá þessum sérfræðingum. En við eigum eftir að verja fiskinn og auðlindirnar í kringum landið, eigum við ekki að sameinast um að verja þær auðlilndir? Að einhverjir auðhringar geti vaðið hingað inn á skítugum skónum finnst mér rökleysa. Það er þá komið stríð og landið hertekið, það er bara önnur ella.

Hins vegar get ég tekið undir það að leita álits Norðuráls á stjórnskipunarlögum er ákaflega langsótt, en ég gerir ráð fyrir því að það hafi verið gert að kröfu Sjálfstæðismanna.  Önnur álfyrirtæki höfðu vit á því að skila ekki inn álitsgerð, það má virða það.

Sigurður (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 10:11

23 identicon

Er enginn þarna úti? Þetta blogg er svo mikil vitleysa. Staðreyndavillurnar hjá Hudson og Perkins yfirgengilegar. Hér kommentar ekki einn aðili með eitthvað skynsamt fram að færa eða málefnalega gagnrýni á þessa skoðun Láru. Hvað er í gangi? Hvaða máli skiptir hvort stærstu notendur orku á Íslandi fái til umsagnar stjórnarskrárfrumvarp sem gerir ráð fyrir ákvæði í STJÓRNARSKRÁ um náttúruauðlindir. NB Landsvirkjun, HS orka og fleiri voru einnig til umsagnar. Þetta er bara tortryggnisrugl.

Birgir (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 10:19

24 identicon

Stýrivextir AGS eru að kyrkja atvinnulífið. Jafnvel þó að við myndum sleppa við að borga allar skuldirnar eftir hrunið, Icesave, bankana, Landsvirkjun og fleira, þá yrði þjóðin lengi að rétta sig af.

Ef að við eigum að borga allar þessar skuldir, sem flestar eru eftir óreiðumenn, þá endar það með því að við getum ekki borgað með neinu nema auðlindum þjóðarinnar og þá er ég að tala um að borga fyrir nauðsynjar eins og lyf, olíu, hveiti og sykri og öðru sem við getum ekki lifað án.

Steingrímur J. og Gylfi Magnússon, sem í gær neituðu alfarið að hætta að borga munu þá verða krossfestir þegar fram í sækir eins og Davíð Oddsson. Verst að þjóðin verður þá öll krossfest þeim til samlætis.

Davíð Pálsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 10:26

25 Smámynd: Anna

Lýðræðisleg lágmarks krafa að við fáum að vita um eign þjóðarinnar. Hvessu mikið eiga erlendir aðilar. Og hvessvegna er verið að selja orku á lámarkverði. Íslenskir samningaraðilar eru vitleysíngar. Hvessvega eruð þið að fegra þessa menn. Það virðist sem þeir hafa selt ofan af okkur þjóðina. Ekkert eftir nema steinsteyptu húsin sem bankinn er á leið, að taka.

Anna , 7.4.2009 kl. 10:28

26 identicon

Flott hjá þér Lára haltu áfram að veiða og setja bloggið  þitt það virkar og ég get sagt þér að það er mikið lesið,og það eru marir að hugsa sinn gang um hvað á eiginlega að kjósa í vor,ég er að benda fólki á að skoða borg barahreyfinguna í alvöru og kjósa hana frekar en að skila auðu,það eru nefnilega margir sem hugsa þannig.

Ég hef sagt við fólk að hver maður eða kona sem kemst inná þing fyrir borgarahreyfinguna skipti höfuðmáli núna,einhverja rödd sem stendur vörð um lýðræðið og lætur stöðugt heira í sér og það sem meira er við erum ekki hætt að mótmæla eða hvað,og þá er gott að hafa málsvara á þingi hvort sem þeir eru 1 eða 10 bara að röddin heyrist á réttum stað sem er alþingi.

Þess vegna kjósum við borgarahreyfinguna núna.

H.Pétur Jónsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 10:56

27 identicon

Hudson þekki ég ekki til en ég tek málflutning John Perkins með miklum fyrirvara.

Í fyrsta lagi þá er hann gríðarlega umdeildur mjög víða, ekki bara hjá þeim stofnunum sem hann ræðst á.

Í öðru lagi stenst þetta varla um að Ísland hafi orðið fyrir þessum "efnahagsböðli" í kringum Kárahnjúkavirkjun því mesti þrýstingurinn á stjórnvöld að virkja og selja orkuna kom frá Austfirðingum sjálfum, það þekki ég mæta vel því ég bjó á Egilsstöðum og gerði heiðarlega tilraun til að vera á móti framkvæmdunum.

Í þriðja lagi, og það eru kannski ákveðnir fordómar í mér gagnvart honum, en þá lék hann stórt hlutverk í Zeitgeist Addendum en sú mynd lýgur miskunnarlaust t.a.m. um seðlabanka Bandaríkjanna og túlkar peningamálastefnu gjörsamlega fáránlega. Ég á því erfitt með að taka mark á honum eftir að hann kom fram í þeirri mynd en eins og ég segi, það eru mínir fordómar gagnvart honum útaf framsetningu myndarinnar.

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 11:44

28 identicon

Í fréttatilkynningu frá Hitaveitu Suðurnesja frá því 1. desember sl. í tengslum við uppskiptingu fyrirtækisins kemur eftirfarandi fram " Til að eignarhald núverandi auðlinda fyrirtækisins verði í almannaeigu í samræmi við anda laganna er gengið útfrá því að auðlindaréttindi fyrirtækisins verði seld til sveitarfélaga, sem síðan leigir HS Orku þau aftur til 65 ára"

Þetta verður líklega aðferðafræðin sem notuð verður við að koma orkuauðlindunum í hendur erlendra peningaafla. Orkuauðlindirnar verða með þessu að nafninu til í eigu almennings en þau verða bundin langtímanýtingarétti tiltekinna orkufyrirtækja. Þessi orkufyrirtæki geta síðan gengið kaupum og sölum til innlendra eða erlendra fjárfesta. Það er væntanlega ekkert í títtnefndum orkulögum sem hindrar það. 

Sú þróun er þegar hafin samber frétt á RÚV þann 9. mars þegar rætt var við Lúðvík bæjarstjóra Hafnarfjarðar um áhuga Bandarískra fjárfesta á kaupum á 30% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Og frétt á mbl 2. apríl um erfiða stöðu Landsvirkjunar þar sem fullyrt er að viðræður eigi sér stað milli stjórnvalda og Landsvirkjunar um að fé bundið í jöklabréfum verði notað til að liðka fyrir fjármögnun Landsvirkjunar http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/04/02/stada_landsvirkjunar_erfid_ad_mati_fjarfesta/

Er þetta ekki bara upphafið?

Helgi Hilmarsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 12:03

29 identicon

Jú Helgi, þetta er upphafið og einnig endirinn.

Það er hins vegar alls ekki ómögulegt að þetta sé góð hugmynd, þ.e. að aðrir en ríki og sveitarfélög reki orkufyrirtæki fyrir einstaka kaupendur. Það er augljóst að á þeirri vegferð er Alþingi og einstaka ráðherrar samber umsögn Alcoa að lagabreytingunum sem nefndar eru hér að ofan. Mér dettur ekki í hug að halda því fram eins og sumir að þessi skoðun eða stefna eigi bara við Sjálfstæðisflokk eða Framsókn, stuðningurinn er miklu víða samber Össur og Helga Hjörvar.

En tímapunkturinn nú varðandi slíkar hugmyndir er rangur. Samningsstaðan er skelfileg. Allar hugmyndir um aðkomu annarra en ríkis og sveitarfélaga á að blása samstundis út af borðinu. Endurmeta þarf orku og vatnalögin og setja á mjög há gjöld líkt og gert var í rannsóknarútboðinu fyrir Drekasvæðið. Annars fer fyrir okkur eins og öllum fyrrum nýlendulöndum og fátækum ríkjum,...  ekkert stendur eftir nema skuldir.

Það er þetta sem Perkins og Hudson voru m.a. að reyna að segja, þegar lítil ríki liggja flöt fyrir skuldum þá koma hákarlarnir og hrifsa bestu bitana, áratuga nánast frjáls afnot af einhverjum flottustu auðlindum á Jörðinni.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 12:33

30 identicon

Hættum þessum vangaveltum fram og til baka um hvað er satt og hvað er logið.Það sem skiptir mestu máli núna eru kosningarnar í vor og förum bara eftir því sem við trúum sjálf hættum að láta endalaust mata okkur á sannleikanum frá mjög misvitrum stjórnmálamönnum sem eru orðnir gjörspilltir af langri setu á alþingi,þeirra sannleikur er eins og við vitum það sem hentar hverju sinni.

Annað hvort trúum við þeim mönnum sem vilja okkur vel eð ekki,það er augljóst mál að þessir menn sem hafa verið að aðvara okkur og seigja okkur að ég held sannleikann um peningastjórnun heimsins eiga engra hagsmuna að gæta hjá okkur eða hvað?

Ég held líka að fólk sem er að tjá sig um þessi mál verði að sjá sannleikann í víðara samhengi en bara í sjálfsins nafla,við erum nefnilega partur af öllum heiminum eða hvað?

Ef við lítum upp úr drullunni hérna heima þá sjáum við að viðbjóðurinn er miklu miklu meiri víðast hvar í heiminum en hjá okkur,og ég held að ef við skoðum þetta í víðu samhengi þá förum við að trúa þessum mönnum sem hafa verið að vinna fyrir þessar glæpaklíkur  sem virðast ráða gangi mála í heiminum í dag.

Sem sagt hættum karpinu og förum að snúa okkur að kosningaáróðri fyrir borgarahreyfinguna,og Lára þú ert hér með tilnefnd sem áróðursmeistari borgarahreyfingarinnar.

MBK DON PETRO

H.Pétur Jónsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 12:50

31 Smámynd: Haraldur Baldursson

Pétur er nú ekki öllu rændur...hann kom með þá gleggstu lausn á kvótakerfinu sem ég hef séð (sjá hér), þar sem hann leggu til að hver landsmaður fái ávísun á kvóta í upphafi hvers úthlutunartímabils og geti selt hana á markaði. Hagnaður hans af þeirri sölu yrði skattlagður og þannig fengi ríkið sinn skerf líka. Endusnýjun í flotanum væri tryggð og umsýslan félli eins og flís í rass á skattkerfinu.

Haraldur Baldursson, 7.4.2009 kl. 14:41

32 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Frábært blogg að vanda. Takk fyrir, snillingur.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 7.4.2009 kl. 20:11

33 Smámynd: Alfreð Símonarson

Var að setja fyrirlesturinn í gær (6. apríl 2009) inn http://malacai.blog.is/blog/malacai/entry/847929/

Alfreð Símonarson, 7.4.2009 kl. 21:08

34 Smámynd: Þorsteinn Guðnason

Þakka þér vandaðan pistil að venju. Ég er ekki sannfærður um að þessir erlendu fræðimenn hafi rétt fyrir um samsæri í tilviki Íslendinga en allur er varinn góður. Ég er áskrifandi að bloggi þínu þó ég sé ekki sammála þér um margt. Takk fyrir mig. 

Þorsteinn Guðnason, 7.4.2009 kl. 22:58

35 identicon

Takk fyrir þetta. Össur segir að við þurfum ekkert að óttast, það eru lög sem vernda okkur.....Það eru líka lög sem vernda okkur gegn markaðsmisnotkun, einokun og fleiru og eins og alþjóð veit reyndust þau okkur "skotheld" vörn á síðasta ári.. :-(

Nei tölum bara áfram við "góðu kallana" sem vilja hjálpa okkur að "skapa störf" (þoli ekki þetta orðfæri, mér var kennt að einungis guð skapaði) í álverum .

Þetta eru sannir heiðursmenn sem aldrei myndu láta sér detta í hug  að fara á svig við lög, eða hvað?

Mér finnst svo sorglegt hvað við virðumst vera að læra lítið af kreppunni. Maður hélt að nú myndu menn læra að staldra við og meta hvort um stundarhagsmuni eða langtímahagsmuni væri að ræða, en nei.. hvert málið á fætur öðru sem á að afgreiða í óðagoti. Reisum álver í Helguvík án þess að hugsa um orkuverð, markaðsmál eða fjármögnun, byggjum hesthús á árbökkum Elliðaáa og vonum að hrossin skíti ekki í ána, veiðum hvali án þess að kanna hvort við getum selt afurðirnar, aukum þorskkvótann þó verðið sé óhagstætt..o.s.frv.

Með hverjum deginum sem líður langar mann minna og minna til að búa hér áfram.

Hrönn (IP-tala skráð) 8.4.2009 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband