Ég veit ekki hver(jir) er(u) á bak við Svarthöfðann í DV, en fjári er hann oft góður. Eins og skrifaður á mitt eigið lyklaborð núna síðast. Er það minnimáttarkennd sem fær Íslendinga til að halda sig besta, klárasta, flottasta og stórasta? Sjálfbirgingurinn ríður oft ekki við einteyming og ef engin er ástæðan til að berja sér á brjóst - þá er hún nánast búin til og síðan blásin upp. Baldur lýsir þessu þannig að margir Íslendingar séu eins og Pollýanna á sterum. En hér er Svarthöfðapistillinn og forsíðan sem hann vitnar í.
EINSTAKUR ÁRANGUR
Einhverjir vilja meina að mikilmennskubrjálæði hafi komið Íslendingum í þá ömurlegu stöðu sem nú blasir við gjaldþrota þjóð. Þetta er alrangt eins og allir sem þekkja sitt heimafólk hljóta að gera sér grein fyrir. Frumforsendan fyrir hallærinu er alls ekki stórmennskubrjálæði heldur þvert á móti sígild íslensk minnimáttarkennd sem brýst því miður fram í sameiginlegri þjóðarfirringu um að Íslendingar séu sterkastir, fallegastir, snjallastir og bestir í öllu.
Þessi firnasterka sjálfsblekking sem auminginn fyllir heimsmynd sína með til þess eins að kikna ekki algerlega undan eigin vanmætti er svo yfirþyrmandi að Íslendingar telja sig alltaf vera sigurvegara og langbesta. Jafnvel þegar þeir ná aldrei lengra nema í allra besta falli að vera næstbestir.
Samkvæmt íslenskum mælikvörðum er annað sætið sigursæti og FL Group og deCODE verðmæti. Fólk með óskerta sjálfsmynd bölvar þegar það lendir í öðru sæti, spýtir svo í lófana og strengir þess heit að gera betur næst og vinna. Þetta hvarflar ekki að Íslendingum. Þeim nægir að vera næstbestir vegna þess að þá eru þeir bestir. Þetta hljómar eins og mikilmennskubrjálæði en undir kraumar minnimáttarkenndin og vissan um að þeir geti aldrei orðið bestir.
Fyrir skömmu krækti landslið Íslands í handknattleik í silfur á ólympíuleikum og þjóðin trylltist. Landið varð stórasta land í heimi og ekki hefði verið hægt að fagna ákafar þótt gullið hefði unnist.
Ísland var þó ekki stórasta landið lengi og nokkrum vikum seinna rann stund sannleikans upp. Við erum smáð þjóð í gjaldþrota landi. Því miður fengum við ekki að búa lengi við leiðrétta sjálfsmynd þar sem Jóhanna Guðrún varð næstbest í Júróvisjón og sjálfsblekkingin skaut aftur upp kollinum. Við erum best og nú er þetta allt að koma. Svarthöfði er kominn með svo mikið ógeð á þessum hugsunarhætti vegna þess að við munum ekki ná okkur á strik fyrr en við gerum okkur grein fyrir að við erum dvergar og meðalmenni á alþjóðlegan mælikvarða þrátt fyrir höfðatölu.
Svarthöfði seldi því bókstaflega upp þegar hann sá forsíðu Fréttablaðsins í gær þar sem greint var frá einstöku afreki Eiðs Smára. Á yfir- og aðalfyrirsögn mátti skilja að hann hefði nánast sigrað í meistaradeild Evrópu einn síns liðs fyrir Barcelona. Vissulega er einstakt að landa svona stórum titli með því að sitja á varamannabekk en fyrr má nú fyrr vera. Heimspressan hefur aðra og réttari sýn á málið og Eiður sést einungis fagna sigrinum á síðum íslenskra blaða þannig að úti í hinum stóra heimi virðist hann ekki vera þessi lykilmaður sem Íslendingar vilja vera láta.
Við erum í svakalega vondum málum ef fjölmiðlar ætla ekki að fara að hysja upp um sig og byrja að endurspegla raunveruleikann frekar en búa til heimsmynd sem er lesendum þeirra og áhorfendum þóknanleg og í takt við landlæga minnimáttarkennd.
Ætla mætti miðað við þessa umfjöllun að Eiður Smári hafi unnið Meistaradeildina einn síns liðs og hjálparlaust. En eins og allir vita sem fylgst hafa með boltanum hefur hann sáralítið fengið að spila með um langa hríð og á því lítinn þátt í titlinum. Enda hefur mikið verið rætt um að hann skipti um lið. En þetta er dæmigerð þjóðrembuumfjöllun og svona hugsunarháttur stendur okkur fyrir þrifum í ýmsum málum - nú sem endranær.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 12:40 | Facebook
Athugasemdir
svoooo satt
Hólmdís Hjartardóttir, 30.5.2009 kl. 12:22
"Einhverjir vilja meina að mikilmennskubrjálæði hafi komið Íslendingum í þá ömurlegu stöðu sem nú blasir við gjaldþrota þjóð. Þetta er alrangt eins og allir sem þekkja sitt heimafólk hljóta að gera sér grein fyrir. Frumforsendan fyrir hallærinu er alls ekki stórmennskubrjálæði heldur þvert á móti sígild íslensk minnimáttarkennd sem brýst því miður fram í sameiginlegri þjóðarfirringu um að Íslendingar séu sterkastir, fallegastir, snjallastir og bestir í öllu."
Þetta segir eiginlega allt sem segja þarf! Nema náttúrulega fyrir utan þann einstaka árangur að vinna "single handed" meistaradeildina sitjandi á bekknum
Hrönn Sigurðardóttir, 30.5.2009 kl. 13:17
Svo hjartanlega sammála og hef sjálf haldið þessu fram.
Rut Sumarliðadóttir, 30.5.2009 kl. 13:31
Gleymduð þið nokkuð að miða við höfðatölu????
Helga Kristjánsdóttir, 30.5.2009 kl. 13:36
Skemmtileg grein.
Það er stundum eins og við Íslendingar séum stórveldið í heiminum. Okkur finnst það. En mikið er gott að komast frá þessu á "erlenda grund", laus við íslenskar fréttir, íslenska pólitík og að sjá hversu "agnarsmá" við í raun erum. Bara eins og ein gata í meðal-stórri borg. Gæti það verið að "hreina loftið" fari svona í okkur.
Páll A. Þorgeirsson, 30.5.2009 kl. 17:11
en sorfretinn, nei meiona forsetinn, segir hallelúja. þá er allt í fína og við lang stórust.
má ekki gara gefa fólkinu kökur, sem á ekki brauð?
Brjánn Guðjónsson, 30.5.2009 kl. 18:35
Íslendingar hafa ekki alltaf verið svona. Fyrir hálfri öld var fólk niðri á jörðinni og gat unnið sigra í íþróttum. Helga, í aths. 4, mynnist á höfðatölu. Ef fólk athugar það mál er samanburðurinn heldur ekki góður fyeir íslendinga. Norðmenn eru 18 sinnum fleiri en íslendingar og það vantar mikið upp á að Ísland hafi unnið eitt ólympíugull á móti hverjum 18 sem þeir hafa unnið og eistar eru 5 sinnum fleiri og hafa unnið talsvert meira en fimm sinnum fleiri ólympíu og heimsmeistara titla en íslendingar. Samt er fólk í þessum löndum miklu jarðbundnara en íslendingar. Það sem útlendingar reka helst augun í er helst bíladellan og neysluæðið í landsmönnum og að íslendingar kalli það útivistarfólk sem ekur um á jeppum með stórum dekkjum á meðan það fólk sem við sjáum helst gangandi í óbyggðum er erlendir ferðamenn.
Íslendingar eru orðnir eins og skopstæling af bandaríkjamönnum. "Hverjir eru bestir???!!!"
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 19:28
Innlitskvitt og ljúfar kvöldkveðjur :)
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 30.5.2009 kl. 23:51
Ég er nú ekkert sérstaklega mikið fyrir þjóðrembu og tel að hún sé ekki mjög holl fyrir land og þjóð. En mér finnast þessi svarthöfðaskrif hrokafull og yfirlætisfull vitleysa. Er ekki annað sætið í Eurovision og á sjálfum Ólympiuleikunum bara fjandi gott fyrir míkróríkið Ísland. Af hverju megum við ekki monta okkur svolítið af því og gera okkur glaðan dag? Við eigum fólk sem er framúrskarandi á einhverjum sviðum og það er bara hvetjandi að fylgjast með því. Hrífur það ekki bara okkur hin með?
Hvort sem fótboltamaðurinn Eiður Smári hefur spilað í vetur eða ekki, er hann stórt nafn og fyrirmynd margra ungmenna hér á landi sem líta upp til hans. Og hvernig sem fjölmiðlar slá fram fréttum skulum ekki gera lítið úr árangri Eiðs Smára eða annarra íþróttamanna! Það er staðreynd að íþróttir halda mörgum unglingnum frá allskyns vitleysu og viðhalda heilbrigði!
Jóhanna Guðrún er líka bara 18 ára og þvílíkur árangur! Hún gerði meira fyrir ímynd Íslands heldur en þessi sauðir sem stjórna landinu hafa gert frá bankahruni!
En þetta er kannski allt bara minnimáttarkennd (a la Svarthöfði í 101 Reykjavík)? Af því að bankarnir fóru á hausinn erum við glötuð að eilífu því Ísland var bara Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn!! Við eigum að kveikja í þjóðfánanum og lýsa því yfir að Íslendingar séu heimskir hálfvitar með ofurminnimáttakennd gagnvart umheiminum af því að þeir hafa ekki hundsvit á bankarekstri og búa við úrelt og rotið stjórnkerfi!
Svarthöfði hefði kannski átt að skrifa eitthvað jákvætt (sem er mun erfiðara) í stað þess að "pönkast" á sinni eigin þjóð sem er á í nógu miklum erfiðleikum um þessar mundir! Við þurfum eitthvað uppbyggjandi en ekki Svarthöfða með hroka og yfirlæti gagnvart samborgurum sínum! Nóg er nú komið af pistlum um hvað Íslendingar eru óheyrilega heimskir og vitlausir (sem við sannarlega erum ekki þótt við höfum sofnað á verðinum!). Það er vissulega eitthvað afskaplega mikið af stjórnarfari og siðferði í þessu landi, en ég hef fulla trú á því að við munum þroskast og bæta úr því!
Helgi (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 04:18
Þetta væri varla frétt ef umræddur leikmaður léki ekki knattspyrnu eða ætti ég að segja, sæti ekki á bekk á meðan knattspyrnuleikir fara fram. Þetta er flottur árangur hjá honum blessuðum en fólk ætti að róa sig aðeins. En ætli þetta verði ekki til þess að umræddur leikmaður verði valinn íþróttamaður ársins af hinni veruleikafirrtu knattspyrnuelítu fréttamanna hér á landi.
Ísland á marga frábæra aðra íþróttamenn sem fá mun minni umfjöllun og endurgjöf fyrir það sem þeir afreka. Handboltamennirnir okkar sem dæmi eru með þeim bestu (já, með sanni) og við Íslendingar eigum líklega einn besta þjálfara heims þar. Tennisfólk gerir það gott, badminton, sund, fatlaðir íþróttamenn, körfuboltafólk og fleira og fleira.
Þessi grein þarna sem vitnað er í er afar gott dæmi um arfaslaka fréttamennski á Íslandi og þar setja íþróttafréttamenn nýjar víddir í lélegheitum.
ArnarG (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 09:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.