14.6.2009
Hver gætir hvaða hagsmuna?
Nokkrir Pressupennar hafa lagt sig í líma í vikunni við að ófrægja Evu Joly og grafa undan trúverðugleika hennar. Það hefur ekki tekist því fólk sér almennt í gegnum svona hræsnisfullt skítkast. Það er ekki eins auðvelt að ljúga að okkur og áður því nú eru allir á verði og netið sér til þess að upplýsingar berast manna á milli á ljóshraða. Íslenska þjóðin virðist hafa slegið skjaldborg um Evu Joly og ver hana með kjafti og klóm. Enda gerði hún samning við þjóðina eins og hún segir í viðtali í helgarblaði DV. Þar segir Eva m.a.: "Ég lít svo á að ég hafi ekki gert samning við stjórnvöld heldur við þjóðina..." og hún segir jafnframt: "Og ég er þeirrar skoðunar að það sé einmitt í krafti almenningsálitsins sem unnt er að fylgja eftir rannsókninni á bankahruninu." Þetta verðum við öll að taka til okkar. Við erum almenningur og almenningsálitið sem Eva talar um er álit okkar. Við verðum að átta okkur á styrkleika okkar og valdi sem sameinaður hópur. Sundruð fáum við engu framgengt.
Í umfjöllun um þær brigður sem bornar hafa verið á hæfi hennar og Sigríðar Benediktsdóttur vegna almennra orða þeirra um hrunið segir Eva Joly: "Það að mega tjá skoðanir sínar opinberlega eru grundvallarréttindi. Og það má alltaf gera ráð fyrir því að þeir sem mögulega hafa framið efnahagsbrot og eiga hagsmuna að gæta haldi uppi vörnum með ógnunum og tilraunum til þöggunar. Þeir óska þess, sem eru vitanlega draumórar, að reglan um að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð komi í veg fyrir grunsemdir og rannsókn mála. En þannig er þetta ekki í raunveruleikanum". Þetta er gott viðtal, ég mæli með því.
Ég mæli líka með að fólk lesi frábæran bloggpistil Jóhanns Haukssonar, Mengun hugarfarsins. Þar veltir Jóhann fyrir sér orðaparinu hæfi-vanhæfi, setur það í samband við völd og áhrif og leggur út af niðurstöðunni. Jóhann vitnar í grein eftir Carsten Valgreen, hagfræðing hjá Danske Bank, sem birtist í Fréttablaðinu 10. janúar sl. Greinina má lesa í heild sinni hér. Jóhann vitnar í þessi orð Carstens: "Ísland er lítið, einsleitt samfélag þar sem innbyrðis tengsl eru mikil. Þetta er bæði mikill styrkleiki og veikleiki. Þetta er rót kreppunnar. Slík samfélagsgerð virkar næstum eins og fjölskylda eða eitt fyrirtæki. Útilokun tiltekinna vandamála og ákvörðun um að þagga þau niður þróast mjög auðveldlega, og af því leiðir að erfitt er að grípa inn í þegar þau hafa hreiðrað um sig."
Carsten Valgreen tók þátt í að skrifa rannsóknarskýrslu um uppsveifluna á Íslandi í mars 2006. Ætli okkur rámi ekki flest í viðbrögð íslenskra stjórnvalda og viðskiptalífsins. Það varð allt vitlaust. Danirnir voru ófrægðir í bak og fyrir, sagðir öfundsjúkir og fleira miður fallegt. Bankarnir fengu menn til að skrifa mótvægisskýrslur og Viðskiptaráð fékk m.a. Tryggva Þór Herbertsson, nú alþingismann Sjálfstæðisflokks, til að skrifa um "fjármálastöðugleikann" á Íslandi. Um þessi viðbrögð segir Carsten meðal annars: "Þetta kom mér þannig fyrir sjónir að allir, þar með talið allir embættismenn, væru staðráðnir í að taka ekki á ástandinu á yfirvegaðan og hlutlægan hátt. Þess í stað gáfu viðbrögð flestra, meðal annars opinberra stofnana til kynna útbreidda hjarðhegðun og hugarfar sem einkenndist af "við á móti þeim" viðhorfi."
Ég hef á tilfinningunni að ófrægingarherferð sú sem nú á sér stað gegn Evu Joly og Sigríði Benediktsdóttur sé í eðli sínu náskyld hinum hörðu viðbrögðum við skýrslu Danske Bank í mars 2006. Afneitun og ófræging. En við höfum lært af reynslunni, er það ekki? Nú spyrjum við gagnrýnna spurninga eins og t.d.: "Hverjir eru það sem ófrægja þær og af hvaða hvötum gera þeir það?" Mér finnst svarið nokkuð augljóst, a.m.k. í sumum tilfellum.
Sigurður G. Guðjónsson er lögmaður Stoða (Jóns Ásgeirs og co.), fyrrverandi stjórnarmaður í Glitni sem var í eigu m.a. Jóns Ásgeirs og nátengdur Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans. Í sameiningu hafa þeir félagar nú orðið uppvísir að þessu og þessu - fyrir utan allt annað, s.s. Icesave. Eins og sjá má hér eru "lánin" ekki tekin úr einkasjóði Sigurjóns eins og Sigurður G. Guðjónsson hélt fram heldur úr Fjárvörslusjóði Landsbankans sem á fjórða þúsund manns áttu hlut í árið 2007. Sigurður er auk þess svili Björgvins G. Sigurðssonar, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sem jós útrásina lofi og hafðist ekki að í aðdraganda hruns og eftir það. Auðvitað vill Sigurður G. Guðjónsson enga rannsókn á hruninu.
Hér er gott dæmi um það sem Jónas Kristjánsson kallar "kranablaðamennsku". Fréttamaður segir "netverja klóra sér í kollinum" (ég brást reyndar allt öðru vísi við) og segir frá 40 milljóna láninu til Sigurjóns. Fréttamaður talar við Sigurð G. sem segir Sigurjón eiga sinn eigin lífeyrissjóð sem lánið er tekið hjá. Fréttamaðurinn kannar málið ekkert frekar, leitar ekki sannleikans í þessu furðulega máli, en tekur orð Sigurðar G. góð og gild. Þeir sem ekki lesa netmiðla og blogg gætu trúað þessu. Stórhættuleg fréttamennska.
Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, klagaði Sigríði Benediktsdóttur, sem situr í Rannsóknarnefnd Alþingis, fyrir að viðhafa almenn orð um græðgi og andvaraleysi í aðdraganda hrunsins í skólablaði Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Eitthvað sem við höfum öll verið að ræða í allan vetur og er á allra vitorði. Egill Helgason orðaði það einhvern veginn þannig um daginn að Sigríður gæti allt eins hafa sagt að sólin kæmi upp í austri eða að það rigndi oft á Suðurlandi. Jónas Fr. Jónsson gegndi stóru og mikilvægu hlutverki í aðdraganda hrunsins og steinsvaf á verðinum. Það er hreint ótrúlegt að tekið skuli mark á klögumálum hans. Auðvitað vill hann ekki láta rannsaka hrunið.
Ólaf Arnarson á ég ekki eins gott með að skilja. Jú, hann var starfsmaður banka og útrásardólga. Er hann að verja sína gömlu félaga - meðvitað eða ómeðvitað? Ég veit það ekki. Hann talar um misheppnað plott, oflof og að við tilbiðjum Evu Joly. Því er ég ekki sammála. Traust okkar á Evu Joly kemur tilbeiðslu ekkert við. Og hvernig hann dregur trúverðugleika trúnaðarmanna Joly í efa finnst mér eiginlega svolítið skondið. Á sama tíma og hún og Sigríður liggja undir ámæli fyrir að viðhafa almæltan sannleika um hrunið er spurt hvort trúnaðarmenn Evu Joly hafi hagsmuna að gæta. Hvaða hagsmuna? Hvernig dettur Ólafi í hug að konan velji sér trúnaðarmenn sem gætu mögulega haft aðra hagsmuni en þjóðin sjálf - almenningur? Hagsmuni réttlætis. Hvaða hagsmuna er Ólafur að gæta þegar hann dregur dómgreind og hæfi Evu Joly í efa á þennan hátt? Ólafur tjáði sig líka um þetta í Kastljósi föstudagsins - sjá hér.
Valtýr Sigurðsson er sérkapítuli. Ég fjallaði um hann hér og um embættismannakerfið sem hann tilheyrir hér. Þetta viðtal við Valtý verður honum - meðal annars - til ævarandi hneisu.
Agnes Bragadóttir skrifar þessa grein í Sunnudagsmoggann og segir Evu Joly hafa lög að mæla.
Brynjari Níelssyni, hæstaréttarlögmanni, botna ég ekkert í. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma getað tekið undir neitt sem hann segir. Kannski misminnir mig. Í þessari grein í Fréttablaðinu frá í nóvember talar hann um að innviðir samfélagsins séu meira virði en verðbréf sem tapast höfðu. En við höfum aldeilis komist að því, að innviðirnir eru feysknir og fúnir - og viljum nýja innviði. Hann vill ekki kyrrsetja eigur auðmanna eða stofna embætti sérstaks saksóknara. Brynjari finnst kerfið okkar hafa virkað vel. En við höfum komist að því, að það virkaði bara alls ekki. Hér viðrar Brynjar vanþóknun sína á Evu Joly og hér segir hann Evu vera í pólitískri herferð! Í öllum bænum... ég bið þá sem skilja þennan mann að útskýra fyrir mér hvað honum gengur til. Hvers konar manneskja hann er og hvaða hagsmuni hann er að verja - ef einhverja.
Ég held að stjórnvöld og óvildarmenn Evu Joly verði að gera sér grein fyrir að það er rétt sem hún sagði í viðtalinu við DV. Hún gerði samning við þjóðina. Íslenska þjóðin krefst réttlætis og Eva Joly er holdgervingur þess réttlætis. Hún er tákn vonarinnar og þjóðin stendur þétt að baki henni. Hver sá sem reynir að grafa undan rannsókninni með því að ófrægja hana, rægja eða vinna gegn henni er um leið að ófrægja, grafa undan og vinna gegn þjóðinni og réttlætiskennd hennar. Eva Joly á nákvæmlega engra hagsmuna að gæta, en hún er heiðarleg og vill leita sannleika og réttlætis. Samskiptin og upplýsingaflæðið á netinu sér til þess að duldir hagsmunir gagnrýnenda hennar eru grafnir upp og auglýstir rækilega. Almenningur ætlar að standa saman þar til réttlætinu er fullnægt.
Fögur er hlíðin, segir Björg Eva í stórfínum pistli sem ég hvet fólk til að lesa.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál, Dægurmál | Breytt 15.6.2009 kl. 10:44 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir góða og nauðsynlega umfjöllun. Ólafur Arnarsson er leigupenni, Sigurður G. þarf ekki að fjölyrða um og síst eftir fregnir dagsins af snilldarlegri útfærslu á lífeyrissjóði. Jónas Fr. Jónsson er brandari ásamt restinni af FME pre-bankahrun.
Það mun verða ráðist að rannsakendum aftur og aftur. Það verður að vernda þá og geta bloggarar gert sitt í því, þeir Sigurður og Ólafur fá að finna fyrir því og um að gera að láta menn sem fara með dylgjur á hendur Evu Joly eða öðrum sem að þessu koma, finna til tevatnsins og að það sé ekki eftirsóknarvert athæfi. Veltum þessum töppum upp úr hveiti og steikjum á pönnu.
sandkassi (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 03:14
Þetta er vönduð samantekt sem ætti að taka af allan vafa um tilgang allra vandlætingarjarmaranna sem reyna með aulalegum heilaþvottaaðferðum að gera lítið úr þeim almenningi sem er að kikna undan afleiðingum græðginnar sem auðmannaklíkan hefur valdið henni. Það fer ekkert á milli mála hvar þeir standa en ég veit ekki fullkomlega hver ástæðan fyrir afstöðu þeirra er. Það kemur margt til greina: þeir eru heilaþvegnir, meðvirkir, skyldir, innvinklaðir o.s.frv. Hver sem ástæðan kann að vera fyrir ófrægingu þeirra og lygum þá er ljóst að þeir verðskulda ekki lengur að á þá sé hlutstað!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.6.2009 kl. 03:33
Þetta er frábær samantekt hjá þér, takk fyrir mig.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.6.2009 kl. 03:45
Nú er spunamaskína spillingarelítunnar á yfirsnúningi og Sigurður G. spunameistarinn. Hann hefur heila fjölmiðlasamsteypu til afnota. Mbl. er í sömu klóm. Hér er bullandi spuni, lygar, ófræging og þöggun í gangi og engu að treysta lengur. Svo eru spunameistarar evrópusambandsaðildar og Samfylkingar gersamlega búnir að leggja undir sig RUV.
Nú ætti fólk að segja upp öllum blöðum og reiða sig á frjálsari fjölmiðla. Þeir eru þó ekki ósmitaðir af þessum viðbjóði og meira að segja Egill Helga af öllum mönnum virðist smitaður af þessum vírus, nema að hann fái einhvern bónus, fyrir að mæla með Icesave samningi.
Segja upp öllum fjölmiðlum núna.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.6.2009 kl. 03:51
Já Lára Hanna og öll þið varðsveinar og meyjar réttlætis.
Við höfum öll fundið auka óþægillega hjartslætti þessa vikuna, við að upplifa í reynd, það sem Eva Joly málaði fyrir okkur lið fyrir lið, þá er hún tók að sér þetta stórasta verkefni Evrópu, nefninlega að uppræta og koma böndum á glæpagengið, svo að réttlætið sem allir þrá að sjá, hvenær sem sá dagur rýs, og ekki síst sátt við orðinn hlut, fyrir okkur sem þjóð svo við getum öll haldið áfram að berjast fyrir reisn okkar og virðingu, sem þjóðar.
Varðhundar hafa farið hamförum fyrir og eftir miðnætti, með litlum sóma þó. Það sjá allir í gegnum þá, enda er hjúpurinn um þá óðum að leysast upp í illa lyktandi skítafýlu.
Ætla bara að fá að þakka þér Lára Hanna fyrir verk þín, seinna auga fyrir auga, en veit innst inni að þú skilur og finnur huginn, enda ertu ekki sú manneskja sem mærist og sperrist yfir verðlaunaglingri eins og sumir.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 14.6.2009 kl. 03:55
Ólafur er ekkert annað en hluti af spunabatteríinu. Við verðum a fara að sjá í gegnum þetta. Slagsíðan er algerlega orðin útrásar og spillingarelítunni í við.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.6.2009 kl. 04:00
Þetta er mögnuð samantekt hjá þér. Ég sagði skoðun mína á greinum Sigurðar og Ólafs í stuttum pistli.
Skammt er að minnast Baugsmálsins sem er líklegast örverpi að öllu umfangi m.v þessi ósköp en tók samt tímann sinn. Það virðist stefna í móður allra málaferla sem geta staðið yfir í áratug eða meira og klofið samfélagið í búta og það ball er að byrja.
Ólafur Eiríksson, 14.6.2009 kl. 04:37
Takk fyrir Lára Hanna.
Það er með ólíkindum hvað skussar og glæpamenn þessa land fá að vaða uppi og viðhalda völdum.
Hvað er Jónas Fr. að gera í rannsóknarnefnd Alþingis svona sem dæmi. Það er einmitt eins og þú segir erfitt að hreinsa skemmdina út úr kerfinu og á meðan hún er þar þá blæðir fólkinu í landinu , nota bene þá tel ég ekki meinsemd eins og Brynjar Níelsson til manneskna.
Margrét (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 09:56
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna lýsir yfir stuðningi við störf Evu Joly í þágu réttarkerfis þjóðarinnar og þannig almennra hagsmuna. Í ljósi viðtala og yfirlýsinga frú Joly er það mat stjórnar HH að hún hafi notað áhrif sín til að halda rannsókn sérstaks saksóknara á réttri braut. Rannsóknin er ef að líkum lætur mikilvægasta aðgerð íslenska réttarkerfisins frá upphafi og mun hafa áhrif langt út fyrir landsteinana. Eva Joly nýtur óskoraðs trausts okkar.
http://www.heimilin.is/varnarthing/
Þórður Björn Sigurðsson, 14.6.2009 kl. 09:59
Við meirihluti íslensk almennings trúðum næstum öllu því sem Sigurður G. Guðjónsson matreiddi ofan í okkur í fjölmiðlamálinu þegar hann var áróðursmeistari Baugs og forstjóri Norðurljósa. Maður skammast sín ekki lítið fyrir afstöðu sína í því máli.
Með þennan Ólaf Arnarsson þá finnst mér það fjölmiðlum til skammaar að þeir bjóði okkur almenningi upp á þessa málpípu útrásarvíkinga og kynni hann til leiks eiginlega eins og fræðimann bara af því hann skrifaði eina bók um bankahrunið sem er algjör hvítþvottur og málsvörn útrásarvíkinga.
að lokum þessi Valtýr. Hann skal víkja hið snarasta. Fyrst fannst mér Eva Joly alltof hörð í afstöðu gagnvart honum en eftir viðtal á mbl.is þá hefur hann grafið sína gröf sjálfur.
Guðrún (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 10:02
Kærar þakkir fyrir þetta Lára Hanna. Bestu baráttukveðjur,
Hlynur Hallsson, 14.6.2009 kl. 10:13
Við ættum að fara út á torg og hrópa niður Ríkissaksóknarann! Það er næsta skref í búsáhaldarbyltingunni, ekki Icesafe samningurinn. Síðan bíð ég eftir því hverning hinn margívitnaði rannsóknarblaðamaður Agnes Bragadottir á eftir að skrifa um Evu. Það er sýruprófið á stemninguna hjá raunverulegum eigendum Moggans.
Gísli Ingvarsson, 14.6.2009 kl. 10:23
Fyrigefið Agnes var þarna eftir allt saman!
Gísli Ingvarsson, 14.6.2009 kl. 10:25
Agnes brást ekki!
Gísli Ingvarsson, 14.6.2009 kl. 10:29
Mig langar að byrja að þakka þér Lára Hanna fyrir að halda úti besta fjölmiðli landsins. Ég er þess fullviss að margir af þeim sem eiga í hlut skoði síðuna þína reglulega og hræðist hana mjög.
Því er bráðnauðsynlegt fyrir þig að halda áfram að berjast í þessu.
Ég held að þjóðin skiptist í nokkrar fylkingar og fólk er sennilega hreyfanlegt þar á milli. Fyrsta fylkingin samanstendur af glæpamönnunum sjálfum, þar sem Sigurjón Árnason, Sigurður G. Guðjónsson, Sigurður Einarsson, Jón Ásgeir, Ólafur Ólafsson, Hannes Smárason, Björgólfarnnir og slíkir sitja. Þeir eru aðal sökudólgarnir. Næsta fylking samanstendur af embættismönnum og örfáum pólitíkusum sem hafa hangið í pilsfaldinum á þessum hópi og hefur mjög hátt um þessar mundir, hafa líklega ekki viðhaft glæpsamlegt athæfi en eru um margt vanhæfir í sínu starfi. Þessi hópur er líklega hópurinn sem hefur hvað hæst núna, á töluverðra hagsmuna að gæta því í rannsókninni kemur vanhæfi þeirra í ljós, óheiðarleiki og hagsmunatengsl. Jafnvel glæpsamlegt athæfi einhverra þó ólíklegt sé. Þetta eru þá Jónas Fr. Jónsson, Valtýr og Brynjar, jafnvel Björgvin G., herra Ólafur Ragnar Grímsson, seðlabankastjórar og stjórn Seðlabankans auk skilanefnda, og efri laga bankanna fyrir hrun. í sjálfu sér er frekar óljóst hvar þessi hópur endar en vonandi kemur það smám saman í ljós. Ég held að menn eins og Sigurður G. hafi verulegra hagsmuna að gæta og þess vegna koma yfirlýsingar hans ekkert á óvart.
Næsta fylking er síðan fjölmiðlarnir og klappstýrur, þeir sem reyna að blekkja þjóðina, t.d. fréttastofa Stöðvar tvö og Rauðsól öll, líklega pressan.is (ég hef þó aldrei skoðað þá síðu), líkega Morgunblaðið (utan Agnesar), amx.is og án efa margir fleiri miðlar. Ég átta mig ekki á hvar RÚV stendur, hef grun um að þeir reyni að halda hlutleysi en þeir eru sama marki brenndir og aðrir hefðbundnir fjölmiðlar að vera ófærir um að kafa djúpt í hlutina og fylgja eftir sögum, bera saman komment og hrekja þau, líkt og þú gerir hér ótt og títt.
Síðasta fylkingin sem skiptir máli í þessu sambandi eru venjulegir stjórnmálamenn, sem líklega hafa lítið sem ekkert til saka unnið annað en að vera jafnvel stjórnarþingmenn á röngum tíma, hafa ekki vitað meira um ástandið en við hin. Þetta er samt sem áður hópur sem ber nokkra ábyrgð á því grandvaraleysi sem ríkti hér á landi fyrir hrun.
Mikilvægasti hópurinn, sem telur næstum því alla nema kannski 200 manns erum svo við hin sem munum bera byrðarnar. Við verðum að láta í okkur heyra og styðja Evu Joly og Sigríði Benediktsdóttur og þá sem liggja undir gagnrýni vegna rannsóknarinnar. Þó ber að varast að hér fari fram nornaveiðar þannig að allir banka- og stjórnmálamenn verði dæmdir sekir. Þá má dómstóll götunnar ekki ná völdum í landinu og dæma menn án nauðsynlegra gagna. Mig hefur þó alloft langað að fara heim til þessara manna og brjóta og bramla, jafnvel hirða verðmæti frá þeim en hingað til hef ég haft hemil á mér og við verðum að gera það áfram. Ef hins vegar rannsóknin verður í skötulíki þá verður hér blóðug, raunverulega blóðug bylting.
Ívar Örn Reynisson (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 10:46
Brynjar Níelsson hef ég aldrei skilið. Mjög furðulegur maður. Hann vill ekkert gera og ekkert rannsaka og er einn af þeim sem hefur reynt að gera Evu Joly tortryggilega... það er eins og Brynjar hafi eitthvað að fela.
Þessir menn verða að fara að skilja það að almenningur er hættur að hlusta á vitleysuna í þeim.
Brattur, 14.6.2009 kl. 10:55
Takk takk takk.
Edda Agnarsdóttir, 14.6.2009 kl. 11:14
Takk fyrir þennan stórgóða pistil og samantekt.
Það eru fáir sem skilja Brynjar og það er mér líka óskiljanlegt afhverju fjölmiðlar eru yfir höfuð að ræða við manninn.
Óskar Þorkelsson, 14.6.2009 kl. 11:19
Óttaslegin og útí horni útrásartröll eru líklega hættulegust núna! Verum því vel á verði næstu vikur og mánuði.
Arinbjörn Kúld, 14.6.2009 kl. 11:38
Talað úr mínu hjarta:
http://herbja.blog.is/blog/herbja/entry/896410
Hermann Bjarnason, 14.6.2009 kl. 11:38
Það er á þessari síðu sem fróðleikinn er að finna. Hér endurspeglast skoðanir almennings og þú vísar á svo marga góða linka Lára Hanna, að maður verður margs vísari eftir lesturinn.
Ákveðnir menn munu gera allt sem þeir geta til að koma Evu Joly og Sigríði Benediktsdóttur frá. Það gera þeir vegna þess að þeir eru hræddir við færni þeirra til að rannsaka mál.
Stöndum vörð um réttlætið því það er nánast það eina sem við eigum eftir.
Ég sting upp á samstöðufundi á Austurvelli.
Þjóðin stendur með Evu Joly og Sigríði Benediktsdóttur.
Anna Einarsdóttir, 14.6.2009 kl. 11:40
Sigurður G. Guðjónsson var kosningastjóri Ólafs Ragnars Grímssonar og skv. hluthafaskrá 2008 var Guðrún Tinna Ólafsdóttir í stjórn Haga. Er ekki rétt að halda þessu til haga líka - Lára Hanna?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 11:44
Þeir þekkja vel markmið laganna ráðgjafar fjárglæframannanna. En þeir virðast því miður hafa enn þá meiri áhuga á því hvernig hægt sniðganga lög og skatta í þágu umbjóðenda sinna.
Ef saksóknarar og dómstólar starfa eftir anda laganna og alþjóðalögum þá þurfa þessi fjármálafól og leppar þeirra ekki að kemba hærurnar.
Ef við hefðum eitt stk. Joly okkur til ráðgjafar í IceSave þá værum við í góðum málum!
TH (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 11:57
Takk fyrir góða samantekt, hjartanlega sammála hverju einasta orði hjá þér.
Annað, var að skoða samþykktu fjárlögin fyrir 2009. Finnst mjög merkilegt að rannsóknarnefnd Alþingis fær 150 milljónir úthlutað en embætti sérstaks saksóknara 50 milljónir. Segir það ekki allt sem segja þarf um hvaða áhuga fyrri ríkisstjórn hafði á að rannsaka málið? Það áhugaleysi er að sjálfsögðu ekki horfið hjá vissum aðilum í þjóðfélaginu.
ASE (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 12:07
Alltaf fróðlegt að lesa pistlana þína, Lára Hanna, og þessi er með þeim betri. Takk fyrir.
Marinó G. Njálsson, 14.6.2009 kl. 12:22
Frábær samantekt hjá þér Lára Hanna. Við sem höfum megin-myndina fyrir framan okkur sjáum auðvitað í gegnum það hvernig nokkrir af nánustu samstarfsmönnum og lögfræðingum útrásardólgana reyna nú að hafa áhrif á framgang réttvísinnar. Þessir menn hafa lengi vanist því að geta hagrætt hlutunum eins og skjólstæðingum þeirra og kunningjum hentar best - sem nú sér fyrir endann á. Þeir vita að þeir hafa ekki lengur sömu áhrif á athurðarásina og því skal reynt að hafa áhrif á almenningsálitið - með þeim aðferðum sem þeir best kunna.
Atli Hermannsson., 14.6.2009 kl. 12:23
Sæl Lára Hanna,
Nú reynir á alla að slá skjaldborg utan um Evu Joly og verja hana fyrir aðför meðreiðarsveina útrásarliðsins. Pistill þinn er mikilvægur í þessum tilgangi, takk fyrir það. Ég er hins vegar ekki vongóður að árangur náist miðað við árangur rannsóknar stjórnvalda á bankahruninu til þessa og að hér er íslenska elítan undir rannsókn. Sjá blogg mitt um það: Eva Joly eltist við íslensku elítuna.
Jón Baldur Lorange, 14.6.2009 kl. 12:34
Þrusugóð grein hjá Agnesi og ekki bjóst ég við að geta hrósað henni. Aldrei að segja aldrei... Synd að geta ekki lesið viðtalið í DV. Bendi á skemmtilega bloggfærslu Jenný Önnu: Strengjabrúður?
GRÆNA LOPPAN, 14.6.2009 kl. 12:56
Bestu þakkir fyrir að setja alla þessa hörmung i samhengi.
Við verðum að halda þessu til haga - og því miður verðum við að leggja alla þessa skömm á minnið.
Stjórnmálafólk verður núna að hafa þetta allt saman í huga, nota dómgreindina sem aldrei fyrr en fyrst og fremst siðferðilegan kompáss.
Höldum áfram að safna þessari dellu saman, varpa ljósi á spillinguna, lygina og glæpina & tölum bara nógu mikið um þetta, þá hlýtur sannleikurinn að mjakast inn.
Já, Eva Joly er okkar sterkasta von.
Sigrún (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 12:59
Þakka þér enn og aftur fyrir frábært innlegg í þessa umræðu Lára Hanna og aðrar sem þú hefur tekið saman fyrir okkur þjóðina! Þessi síða hjá þér er að verða einhverskonar alfræðiorðasafn kreppunar og hér er hafshaugur af upplýsingum sett saman til að gera þennan hrærigraut bankahrunsins skiljanlegan!
p.s. Ég vona að allt þetta efni sé vel geymt annarsstaðar en hérna á blogginu! Við vitum jú hvaða aðilar stálu Árvaki! Það gæti óvart komið upp tæknivilla einn daginn og allt efnið á síðunni glatast. Passaður upp á þetta Lára.
Þröstur Halldórsson (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 13:06
Lára Hanna,
Ég vil fá þig á þing.
Sigurður (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 13:15
Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður er mjög vandur að sinni virðingu og er eldskarpur fræðimaður í sinni grein. Hann stendur ætíð fast á sinni sannfæringu og er ekki að eltast við það sem hann telur vinsælast.
Við skulum gera okkur grein fyrir því að í því fjölmiðlafári sem nú ríður yfir er mikilvægt að tapa ekki áttum þó mönnum sé mikið niðri fyrir.
Ragnar (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 13:32
"Ólaf Arnarson á ég ekki eins gott með að skilja. Jú, hann var starfsmaður banka og útrásardólga. Er hann að verja sína gömlu félaga - meðvitað eða ómeðvitað? Ég veit það ekki."
Ólafur Arnarson Clausen og Örn Clausen eru bræðra synir. Örn er fóstursonur Björgólfs Guðmundssonar.Arnþór (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 14:07
Flott grein hjá þér.
Þeir sem ófrægja Evu Joly og reyna að grafa undan trúverðugleika hennar, gæti verið að þeir "óttuðust" eitthvað um sinn hag. Ég get varla komið auga á aðra skýringu, því ættu þeir annars að gagnrýna jafn virta konu og Evu Joly, sem sögð er mjög fær í sínum rannsóknarstörfum og hefur örugglega áður tekist á við jafn "vafasama" menn og hafa þrifist hér á landi síðustu ár/áratugi. Það er kannski það sem þeir óttast ? Vinnubrögð Evu Joly eru nýlunda hér á Íslandi, eitthvað sem gerir þessa menn áttavillta og skelfda, er það vegna þess sem þeir ráðast þannig að hennar persónu.
Er ekki alveg upplagt að kíkja aðeins í bókhaldið hjá þessum körlum, mér finnst þeir gefa færi á sér sjálfir með skrifum sínum um Evu Joly.
Páll A. Þorgeirsson, 14.6.2009 kl. 15:26
Viðbót við þetta sem Arnþór segir.
Ólafur Arnarson og Erlendur Hjaltason forstjóri Exista eru systrasynir.
Ólafur Arnarson er giftur konu sem er föðursystir Hreiðars Más sem var forstjóri Kaupþings.
Það sést að maðurinn er bullandi vanhæfur til umræðna um bankahrunið og allt tengt því en samt eru fjölmiðlar að kynna hann eins og hlutlausan fræðimann og hann er orðinn einn helsti álitsgjafi fjölmiðla og grefur undan fólki eins og Evu Joly. Fólk sér í gegnum svona blekkingar.
Guðrún (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 15:38
Langar nú til að bæta við í þennan fríða hóp fótgönguliða og sporgöngumanna útrásarvíkinga, bankamanna, spilltra embættismanna og stjórnmálamanna, einum aðila sem gjammar á fullu í kór með Pressu-pennum. Það er Vef-Þjóðviljinn sem er samansafn stuttbuxnaklæddra kjötlurakka nýfrjálshyggjunar, sem gelta að öllu sem gagnrýnir eða ógnar Foringjanum, FL-okknum og Fyrirtækjaræðinu.
Einnig má sjá á AMX reglulega vegið að öllum þeim sem gagnrýna eða vega að þessari heilögu þrenningu nýfrjálshyggjunar, fyrir utan skilgreinda óvini FL-okksins í gegnum tíðina. Þá eina telja nýfrjálshyggjumennirnir að lög eigi að ná yfir, ásamt almenningi. Elíta Björgúlfa, Bakkabræðra, bankamanna, auðmanna og mikilvægra FL-okksmanna, sé að öðru leyti hafin yfir lög, líkt og um herraþjóð sé að ræða.
AK-72, 14.6.2009 kl. 16:42
að heyra öll þessi nöfn, færi mig aftur í tímann. Sigurður G. í Silfrinu. Ólafur R. G. að ferðast í einkaþotum.
mmmm. svo yndislega mikið 2005.
Dabbi sagði að hér væri góðæri.
hvar er góðærið og hvar er Dabbi?
Brjánn Guðjónsson, 14.6.2009 kl. 16:45
Enn einn glæsipistillinn frá þér Lára með tenglum á flest sem vert er að vita um þetta málefni. Takk fyrir.
Guðl. Gauti Jónsson, 14.6.2009 kl. 16:54
Frábær grein hjá þér Lára Hanna.
Eva Joly hefur sýnt að hún er traustsins verð. Þjóðin verður að halda áfram að sýna henni stuðning.
Hrannar Baldursson, 14.6.2009 kl. 17:00
Takk fyrir þessa mjög svo fróðlegu samantekt. Það er sérlega ánægjulegt að smám saman kemur sannleikur málsins í ljós.
Það er alveg sama við hvern ég tala, það eru allir miður sín á stöðunni hér - og sérstaklega þó spillingunni hér. Óhuggulegrar spillingar sem hefur grafið um sig í gegnum árin m.a. í skjóli öflugrar samtryggingar og markvissrar þöggunar. Hér verður breyting að eiga sér stað og það er eitthvað að mjakast.
Bendi á hóp á Fecebook: Fáum Evu Joly til að aðstoða við rannsókn á hruninu!
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 17:29
Takk, takk, Lára Hanna
Hallgrímur Óskarsson (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 17:40
Glæsilegt Lára Hanna. Ég hef ekki lesið betri pistil á netinu. Skrifa undir hvert orð þitt
Tryggvi Marteinsson (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 17:48
Auðvita stendur þjóðin vörð um að Eva Joly starfi hér áfram. Og ég er sammála ummælum Hönnu um alla þessa aðila sem hafa dregið hæfi henna og Sigríðar í efa.
En í tengslum við þetta langar mig að benda fólki á það sem Eva sagði í síðustu viðtölum og er gott fyrir Íslendinga að hafa bak við eyrað. Ég er nefnilega hræddur um að fólk eigi eftir að missa þolinmæðina varðandi þessa rannsókn. Við höfum tilhneigingu til að gera það.
En sem sagt Eva Joly sagði að þessi rannsókn yrði að vera vönduð, hún ætti eftir að taka langan tíma og að hennar mati ætti hún að snúast sem mest um rannsókn á stóru aðilunum í þessum málum. Smærri málin mættu liggja á milli hluta.
Er nefnilega hræddur um í haust þá byrji kórinn á netinu um að ekkert sé verðið að gera og þessi og hinn gangi enn laus. Minni fólk á að í Enron málinu tók 3 ár og lengur að rannsaka og sakfella menn. Þetta eins og margt annað sem er í gangi hér tekur tíma. Og það er því um að gera að gefa þessu þann tíma sem þarf.
Magnús Helgi Björgvinsson, 14.6.2009 kl. 18:03
Á meðan beðið er efitr að rannsókn klárist og dómstólar hefjist handa, þá má benda á þetta skemmtilega orðatiltæki úr engilsaxneskju:"There's more than one way to skin a cat". Það á sama við útrásarvíkinga og bankamenn og því ber að hefja sókn gegn þeim á öllum vígstöðvum, með öllum tiltækum ráðum m.a. eignafrystingu og að þeim verði ekki gert kleift að starfa hér á landi, sitja í ábyrgðarstöðum né koma nálægt fjárfestingum eða öðru í atvinnulífinu nema sem klósetthreinsar á McDonalds. Eina sénsinn sem ber að gefa þeim, er að koma með allt fé sitt til baka og afhenda þjóðinni án nokkura skilyrða, sérstaklega þeir sem gerðu okkur að Ísþrælum(IceSlaves).
AK-72, 14.6.2009 kl. 19:10
Áfram Lára Hanna, þú ert frábær.
HF (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 20:03
Takk og aftur Takk, takk Lára Hanna!
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 14.6.2009 kl. 20:09
Takk fyrir stórgóða samantekt Lára Hanna! Vildi svo innilega fá þig á þing.
Berglind Rúnarsdóttir (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 20:12
Á ekki orð,en vitið hvað ég meina(-: Tilheyri 4. fylkingunni,sem Ivar Örn telur upp,hugnast það betur en að tilheyra flokki,stjórnmálaflokki. Bestu þakkir Lára Hanna, gagnlegt að lesa og svo allar ath.semdirnar.
Helga Kristjánsdóttir, 14.6.2009 kl. 20:30
Bestu þakkir. Frábær samantekt.
Baldur Kristjánsson, 14.6.2009 kl. 21:14
Þakka þér þessa góðu og vönduðu samantekt Lára Hanna. Þú lætur svo sannarlega ekki þitt eftir liggja til að höfða til og auka á samstöðu þjóðarinnar.
Ég bið þér og þínum Guðs blessunar.
Þórólfur Ingvarsson, 14.6.2009 kl. 21:26
Þetta er frábær pistill hjá þér og sýnir þessa atburði, hver sagði hvað, hvenær og hversvegna í skýrara ljósi
Við, almenningur í þessu landi þurfum að láta stjórnvöld vita af því að við stöndum við bakið a Evu Joly. Það er ekki hægt að sjá á þeirri þátttöku sem verið hefur í mótmælastöðu vegna IceSave að þetta skipti þjóðina máli. Sýnum samstöðu með Evu og hennar sjálfsögðu ábendingum, verum sýnileg og sýnum að okkur er ekki sama
Stryker (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 21:31
Það þarf að reka þessar klíkur úr þessum embættum.Það kemst ekkert lag á hlutina nema hundruð klíkuembættismanna verða látnir taka pokann sinn.Þetta er allt ein spilling.Svo hefur Jonas Jónsson sýnt á ser retta andlitið. Þvílikt bull hja honum.Maðurinn sem brást i embætti.Nú fara að mætast stálinn stinn í þjóðfélaginu.
Árni Björn Guðjónsson, 14.6.2009 kl. 22:33
Sá einhver formála Ingva Hrafns aö einhverju Hrafnaþinginu í vikunni þar sem hann engdist af uppgerðar- fyrirlitningarhlátri á Evu Joly, sem hann kallaði kerlingarálft og frekjudós eða eitthvað álíka? Ég gat ekki horft lengur en 20 sek. á hann þannig að ég missti sjálfsagt af mesta skítkastinu.
Þorgeir Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 22:59
Áfram Lára Hanna segi ég bara líka.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 14.6.2009 kl. 23:18
Enginn nýtur meiri hylli á Íslandi en Eva Joly. Enginn á það fremur skilið.
Við búum ekki í óspilltasta landi í heimi. Soldið fyndið, en það var lygi. Haugalygi Siðvillt fólk og glæpamenn eru allsstaðar, og allsstaðar eins. Ekki gera ráð fyrir öðru.
Villidýrið er hættulegast þegar það finnur sig afkróðað. Verum viðbúin. Barnaleg en ekki einföld.
Gerum hrunið upp. Mokum flórinn. Stofnum Nýja-Ísland.
Rómverji (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 23:20
Ég vil þakka fyrir þennan pistil sem og aðra sem ég hef lesið síðan himnarnir hrundu síðasta haust. Við saklausir borgarar þessa lands erum oft ginnkeypt fyrir því sem skrifað stendur. Mörg okkar vitum ekki að verið er að segja okkur hálfsannleika, lítinn sannleika eða bara verið að ljúga beint að okkur. Hvað eigum við að gera ef fjölmiðlarnir bregðast okkur, margir hafa engan aðgang að netinu, kunna ekki einu sinni á tölvu. Þeir eru mataðir af sjónvarpi, útvarpi og blöðum. Ég sé að sumir eru að skora á þig að fara á þing. Í guðanna bænum slepptu því, mér virðist að allir þeir sem á þing setjast lokist eins og skeljar. Ekkert fáum við að vita, enginn segir okkur neitt. Við fyllumst hræðslu og byrjum eðilega að smíða samsæriskenningar. Nú er kominn tími til að hreinsa út úr þessum graftarkýlum sem við höfum þurft að lifa við, oft á tíðum án þess að hafa hugmynd um það. Leyfum Evu að vinna sitt verk, ef vinstri stjórn hefur ekki kjarkinn til þess, þá hljóta þeir að hafa eitthvað að fela sjálfir. Og hana nú.
Halldóra Þórðardóttir (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 23:57
Heil og sæl; Lára Hanna - sem þið önnur, hver geymið hennar síðu, og brúkið !
Þakka þér; ágæta tölu, sem samantekt vísa, Lára Hanna.
En; ..... hræsnarar; sem ''stjórnar''liðarnir, Hlynur Hallsson (no. 11) - Gísli Ingvarsson (no. 12 - 14) - Magnús Helgi Björgvinsson (no. 43) og Síra Baldur Kristjánsson, Ölvesinga klerkur (no. 49), svo taldir séu, ættu að hafa vitsmuni til, að þegja, og láta ekki sín ófrómu orð, sjást hér, á síðu þinni.
Öllum ykkur; til upplýsingar nokkurrar, sókti ég heim, síðdegis; Sturlu bifr. stjóra Jónsson, einn ötulustu baráttumanna réttlætis og drengskapar, í okkar samfélagi, og náði ég, að kasta kveðju á hann - hvar hann hyggst; í Austurveg (til Noregs) halda, á Þriðjudag komandi, til starfa þar, hjá skikkanlegum verktaka, ytra.
Sturla hefir; hóflegar væntingar, vægt til orða tekið, til betri stjórnarhátta, hér á Fróni, og er sýn hans; því miður, myrk mjög, á framvindu mála allra, þá nær dregur hausti, og skelfingin ein, muni við blasa - hrindi Íslendingar ekki frá, þessum dauðyflum, hver nú pranga um völd og áhrif, hér heima fyrir, gott fólk.
Ef eitthvað er; er ég, persónulega, hálfu svartsýnni, en Sturla, á farsælar lyktir mála - meðan makræðið, sem síngirni ráðandi afla, fá öllu meir, hér um vandkvæðin vélað - og raunar; stórhætta, á ferðum, hvar Stjórnarráðs liðar, sem þingsetar, við Austurvöll Reykvízkra, fá að svamla um, í dammi sínum, óáreitt - að óbreyttu !
Með; hinum beztu kveðjum - sem oftar og fyrri, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 00:30
Takk fyrir að hjálpa okkur að halda vöku gagnvart siðspilltu kerfinu. Eva Joly á stuðning allra okkar sem vilja glæpamennina burt.
Margrét Sigurðardóttir, 15.6.2009 kl. 00:30
Sæl
Mjög góð samantekt og nauðsynleg, vona að þú hafir sent þessa grein á öll dagblöð í landinu.
Hvert einast blað í landinu á að birta þessa grein þína.
Jolly good fellow er það lélegast sem ég hef heyrt hingað til frá þessum mönnum sem átta sig ekki á að sá tími er vonandi búin á okkar ágæta landi og við Íslendingar byrjum á að taka upp venjulegar viðskiptavenjur og siðferði.
Við höfum hingað til úthrópað fólki sem hefur verið með athugsemdir við viðskipta og siðferðishætti okkar í viðskiptum með von um að við förum að fylgjast með og gera kröfur á þessa aðila sem eru að fara með almannafé og eignir í okkar ágæta landi.
Frábært framtak hjá þér takk fyrir
Þórunn
Þórunn Reynisdottir (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 00:52
Þetta er bara byrjunin, þegar liðið verður komið út horn verður virkilega farið glefsa. Bæði opið og dult.
Reyndar finnst líklega mörgum sem sveigðu reglurnar að geðþótta að lögin séu álíka sveigjanleg...fyrir sig.
Það er bráð nauðsyn að fá til samstarfs erlenda aðila, ótengda og reynslumikla á þessu sviði til að, ef ekki vinna beint með rannsóknaraðilum, þá allavega vera til ráðgjafar og eftirlits. Þá er ég að meina fasta starfsmenn, aðgengilega öllum stundum. Ekki meint til lasts þeim sem nú eru, en reynslan í svona málum er bara ekki fyrir hendi hér og bróðir, dóttir, frændi, eru hér hvert um annað þvert. Að maður tali ekki alla skóla- klíku- og golffélagana...
Eva Joly hefur sagst getað komið á slíkum samböndum. Eins fær og hún er þá getur hún eingöngu komið annað slagið og miðlað reynslu og gefið ráð en hún hefur ekki tíma til að vinna á fullu hér stóð það aldrei til. (Því miður!)
Vonandi verður það þegið og sett í það fé að nýta sambönd hennar við rannsóknaraðila sem ekki eiga hagsmuna að gæta. Annars verður tortryggni og vantraust hangandi yfir öllu ferlinu og niðurstaðan litast af því um ókomna tíð. Hrollvekjandi til þess að hugsa.
Solveig (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 00:56
Takk Lára Hanna. Haltu svona áfram því okkur veitir ekki af þínum líkum.
Helga Þórðardóttir, 15.6.2009 kl. 00:57
Takk Lára Hanna. Þú ert meiri háttar fyrirmyndar manneskja. Þér og þínum til mikils sóma. Vona bara að þú getir haldið þessu áfram því nýtt Ísland verðum við að fá.
Rúnar Vernharðsson (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 01:46
Sæl aftur!Einhver stakk upp á Láru Hönnu á þing. Eins og ástatt er þar núna er eins og að óska að hún gangi í björg. Vil ekki missa hana þangað ef ég hef eitthvað um það að segja. En skundum á Þingvöll og treystum vor heit. Þar mundi ég sverja HÖNNU LÁRU hollustu minni. Bestu kveðjur.
Helga Kristjánsdóttir, 15.6.2009 kl. 02:03
Lára Hanna! ef einhver á heiðurslaun skilið þá ert það þú
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.6.2009 kl. 03:03
Er ekki réttara hollustu mína,er oft að klúðra (vanhæf?)
Helga Kristjánsdóttir, 15.6.2009 kl. 03:11
Sennilega í hundraðasta skipti þá vil ég biðja fólk að taka frá um 3 tíma til að horfa á eftirfarandi mynd til enda. Hún er lykilatriði í að skilja hvað vofir yfir og hvert hið stóra samhengi hlutanna er.
The Money Masters.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.6.2009 kl. 05:10
Sammála Helgu Kristjánsdóttur, viljum ekki að Lára Hanna breytist í "steintröll" eins og flestir sem ganga þar innum dyrnar. Það þarf að vera jafnvægi í umræðunni; þeir sem hafa frelsi til að tjá sig; og þeir sem eru bundnir í flokksklafa þöggunnar og málamiðlunar, en vil þó benda á að Borgarahreyfinging Birgitta og Þór hafa staðið sig prýðilega vel í að upplýsa hvað fer þarna fram innan þykkra múrveggja.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 15.6.2009 kl. 05:51
Já - það er bæði óhuggulegt og sorglegt að það skuli hafa þurft bloggið til að Landsbankinn bakkaði með þessa lánveitingu.
Ekki dettur mér í hug eina mínútu að þetta “hafi verið” í rannsókn hjá þeim áður - einfaldlega vegna þess að ég tel að þeir hafi vel vitað af gjörningnum.
Hvergi á vefsíðu bankans er minnst á þessa þjónustu, svo sennilega er hún fyrir fáa útvalda, og vel í vitund bankastjóra.
Tel ég kominn tíma til að rætt verði opinberlega við Ásmund Stefánsson og væri þá sennilega Kastljós eini vettvangurinn, þar sem öðrum fréttamönnum virðist ekki vera að dreifa hér á landi lengur.
Fjármálastofnanir mættu hjá þingnefnd Alþingis um daginn til að mótmæla auknu gegnsæi í skattamálum. Það er meir en lítið undarleg staða í landinu að fjármálastofnanir, sem eru í eigu ríkisins, þ.e. okkar, skuli, á launum frá okkur, mótmæla því að reynt sé að setja hér reglur, sem gera einstaklingum erfiðar fyrir að svíkja undan skatti.
Einhvernveginn hefur maður á tilfinningunni að það fólk, sem á fundinn mætti, starfi ekki af heilindum og alls ekki í þágu allrar þjóðarinnar.
Þar, eins og í Landsbankanum, virðist hagsmunir fárra útvalda, ráða
gerðum manna.
Það er skömm að svona og ríkisstjórnin ætti að losa sig við þetta fólk sem allra fyrst.
Þó það séu erfiðir tímar fyrir þjóðina hljóta að finnast hér einstaklingar, sem eru bæði nógu hæfir og heiðarlegir, til að taka að sér yfirstjórn Landsbankans.
Það er komið nóg.
Margrét (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 07:02
Lára Hanna, mig langar til þess að þakka þér fyrir að leggja vinnu í þessa öflun upplýsinga og koma þessu svona vel á framfæri.
Þú ert að vinna óeigingjarnt og gott starf með þessu sem þú hefur verið að gera.
Takk segi ég fyrir mig og mína íslensku fjölskyldu.
Eva (ókunnug)
Eva (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 08:00
Sæl Hanna Lára.
Frábær samantekt.
Takk kærlega að kynna okkur þetta betur.
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 10:36
Takk enn og aftur fyrir að vera virkasti og virtasti fjölmiðill landsins.
Ævar Rafn Kjartansson, 15.6.2009 kl. 11:29
Lára Hanna, þú ert frábær bloggari og rannsóknir þínar á heimildum mættu fjölmiðlar taka sér til fyrirmyndar. Tek undir með síðasta ræðumanni: Takk enn og aftur fyrir að vera virkasti og virtasti fjölmiðill landsins.
Erna (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 13:13
Glæsileg grein hjá þér og flott samantekt!
Anna Margrét Bjarnadóttir, 16.6.2009 kl. 00:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.