Til íslenskra yfirvalda og löggjafans

Eins og þið vitið öll er hrópað á réttlæti - og það hátt. Eitt af því sem veldur andstöðu almennings við Icesave-samninginn er að höfundar hans og ábyrgðarmenn ganga allir lausir og baða sig í ríkidæmi - fé sem þjóðin lítur á sem illa fengið. Þó að bresk stjórnvöld séu kannski ekki hátt skrifuð hjá öllum um þessar mundir, hvort sem þau verðskulda það eður ei, má ýmislegt læra af þeim engu að síður.

Ég legg til að þið lesið og hlustið á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur sem hún flutti í Speglinum á föstudaginn, þann 3. júlí. Hljóðskráin er viðfest neðst í færslunni. Ég ætla að leyfa mér að birta hann hér og feitletra sérstaka kafla til áhersluauka. Pistillinn fjallar um frystingu eigna. Ég legg líka til að þið lærið af þessu og útvegið ykkur heiðarlega lögfræðinga sem ekki eru tengdir vafasömum mönnum til að semja og/eða útfæra lög um frystingu eigna. Nú þegar. Slík aðgerð myndi strax slá eitthvað á ólguna í samfélaginu.

Sigrún Davíðsdóttir - Pistlar í Speglinum á RÚV
Frysting eigna

Frysting eigna er svo öflug aðgerð að meðal enskra lögfræðinga er henni líkt við kjarnorkuvopn - og þeim er að sjálfsögðu ekki beitt af neinu kæruleysi. Frysting eigna fæst með dómsúrskurði. Þegar eignir Landsbankans hér voru frystar var það gert með dómsúrskurði.

Frystingu eigna er þó hægt að beita við ýmis tækifæri, bæði í málum sem einstaklingar höfða, í málum sem hið opinbera höfðar - og svo er frysting eigna notuð þegar felldir hafa verið dómar til að koma í veg fyrir að dæmdir glæpamenn geti áfram notað illa fengið fé.

Tökum fyrst dæmi um þetta síðasta: nýlega var lögfræðingur dæmdur fyrir innherjaviðskipti ásamt tengdaföður sínum. Lögfræðingurinn vann í fyrirtæki og frétti þar að verið væri að selja fyrirtækið. Það var því ljóst að hlutabréf í fyrirtækinu ættu eftir að hækka verulega. Tveimur dögum áður en tilkynnt var um kaupin keypti tengdafaðir lögfræðingsins hluti í fyrirtækinu. Tengdafaðirinn hafði aldrei áður keypt hlutabréf og græddi 50 þúsund pund, rúmar tíu milljónir króna.

Nokkrum mánuðum síðar fékk lögfræðingurinn ávísun upp á helming þeirrar upphæðar frá tengdaföðurnum. Fjármálaeftirlitið lét frysta afrakstur hlutabréfakaupanna meðan málið var í rannsókn. Í vor voru tengdafeðgarnir á endanum dæmdir í átta mánaða fangelsi - já hvorki meira né minna - fyrir þessi innherjaviðskipti.

Dómurinn þykir mjög strangur en er liður í því að taka innherjaviðskipti og annað markaðssvindl föstum tökum. Afraksturinn var gerður upptækur á endanum. Viðkomandi menn eru engir stórkarlar í ensku viðskiptalífi svo fréttir um fangelsun þeirra lenti ekki á neinum forsíðum. Það er hins vegar athyglisvert hvað dómurinn er þungur: átta mánaða fangelsi fyrir innherjaviðskipti í eitt skipti og illa fengnar tíu milljónir króna. Fjármálaeftirlitið hér hefur lýst því yfir að dómurinn og fleiri innherjaviðskipti sem eru í rannsókn sé ábending um að eftirlitið ætli að taka hvers lags markaðsmisnotkun mjög föstum tökum.

Einkaaðilar sem fara í mál geta farið fram á frystingu eigna rétt eins og opinberir aðilar. En svona kjarnorkuvopni má ekki veifa af neinni léttúð. Það eru ýmislegar kringumstæður sem getur leitt til þess að þetta öfluga vopn er notað. Þegar verið er að höfða mál gegn aðilum sem áður hafa orðið uppvísir að svikum eða glæpsamlegu athæfi, eða sem hafa sýnt tilburði til að koma eignum undan er þessi leið farin. Þá er viðkomandi einfaldlega ekki treyst.

En þar sem frysting getur valdið fjárhagslegum skaða verður sá sem fer fram á eignafrystingu að borga kostnaðinn sem hlýst af ef í ljós kemur að frystingin var ekki réttmæt. Og vei þeim sem brýtur gegn eignafrystingu! Það fellur undir að sýna dómstól fyrirlitningu og er einfaldlega mjög alvarlegur glæpur.

Það hefur vakið athygli að eignir bandaríska svikahrappsins Bernard Madoff voru frystar meðan mál hans var í rannsókn. Nú verða eignirnar gerðar upptækar þar sem hann hefur verið dæmdur, í 150 ára fangelsi eins og kunnugt er. Kona hans fær þó að halda eftir eignum sem eiga að duga henni til framfærslu.

Hér í Englandi hafa ekki komið upp nein svona stór fjársvikamál svo það er ekki hægt að benda á neinar hliðstæður. En kjarnorkuvopnið er til og það er notað. Lögunum var breytt fyrir nokkrum árum sem gera það að verkum að það er auðveldara en áður að bæði frysta eignir og síðan að gera þær upptækar. Áður var það flókið og seinlegt ferli að fá dómsúrskurð. Nú er þetta aðgerð sem hægt er að fá skorið úr með hröðum og einföldum hætti. Það hefur því haft í för með sér að það er nú orðið algengara að frystingu sé beitt.

Og frysting gildir ekki aðeins eignir sem viðkomandi á þegar frystingu er komið á heldur eignir sem hann fær eftir það. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að viðkomandi hafi minnsta möguleika á að selja eða eiga önnur viðskipti með eignir sem grunur er á að séu annaðhvort fengnar með sviksamlegum hætti eða eigi að fara upp í gjaldþrotakröfur eða aðrar kröfur.

Það sem menn hérlendis verða að taka með í reikninginn er að eignir þeirra geta verið frystar meðan mál eru í rannsókn. Þeir geta því vel átt von á því að einn góðan veðurdag birtist fulltrúar laganna og taki eignir eins og bíla, loki bankareikningum og öðrum aðgangi að eigum. Saksóknari þarf aðeins að færa rök fyrir að eignirnar séu hugsanlega afrakstur ólöglegrar starsemi. Þau rök þurfa ekki að vera jafn veigamikil og forsendur sem eru notaðar í rétti.

Eins og áður er nefnt eru engin stór fjársvikamál hér sem gætu verið hliðstæður mála sem hugsanlega gætu komið upp á Íslandi. Serious Fraud Office, stofnunin sem rannsakar viðamikil efnahagsafbrot, nýtir óspart frystingu eigna þar sem það þykir eiga við.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Vonandi fáum við svipaðar aðgerðir hérna á Íslandi á næstunni, frysting eigna er nauðsynleg aðgerð.  Þegar fólk hefur rakað að sér fé, með svikum og prettum.  Annarra manna fé. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.7.2009 kl. 01:48

2 Smámynd: Dúa

Það er heimild í lögunum um meðferð sakamála til að kyrrsetja eigur. Þannig getur lögregla krafist kyrrsetningar eigna til hjá sakborningi ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Þannig er hægt að kyrrsetja eignir til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings, sem aflað hefur verið með broti. Þetta er allt hluti af rannsóknarferli sem vonandi er í gangi núna.

Það er ekkert hægt að hendast til og heimta frystingu eigna hjá einhverjum nema það sé opinber rannsókn í gangi eða ákæra.

Enda sé ég ekki að Serious Fraud Office frysti eigur fólks nema sem hluta af aðgerðum sem heimilaðar eru í opinberri rannsókn.

"The Serious Fraud Office is an independent government department that investigates and prosecutes serious or complex fraud. It is part of the UK criminal justice system."

"Once the case has been investigated, we will, before instituting any criminal proceedings, consider whether on the evidence against each potential defendant there is a realistic prospect of securing a conviction and whether the public interest requires a prosecution. We follow the principles outlined in the Code for Crown Prosecutors, which also applies to CPS decisions whether to prosecute."

Stanford var ákærður í febrúar og frysting eignanna gerð í apríl.

Reyndar þekki ég ekki þessa stofnun til hlítar en sé samt hvergi heimild hennar til frystingar nema það sé hluti af opinberri rannsókn.

Sama gildir þegar hér á landi.

Kannski er ég eitthvað að misskilja þessa færslu en ég skil ekki alveg áskorunina.

Viltu að það sé hægt að frysta eigur manna án þess að opinber rannsókn á þeirra málum sé hafin eða viltu vita hvort það sé verið að rannsaka mál þeirra og þá í leiðinni hvort þegar hafi verið gripið til þessara ráðstafana?

Í máli Stanfords var ekki upplýst um frystinguna þegar hún átti sér stað vegna rannsóknarhagsmuna. Íslenskir rannsóknaraðilar, lögregla eða saksóknari, myndu heldur ekki upplýsa um slíkar aðgerðir í miðri rannsókn. Upplýsingalögin ná ekki til rannsóknar sakamála.

Og einstaklingar geta ekki höfðað slík mál nema viðkomandi hafi þegar verið dæmdur sekur eins og fram kemur í pistli Sigrúnar.

Og aftur : heimild til "frystingar" er þegar í lögum hér á landi

Dúa, 6.7.2009 kl. 02:39

3 identicon

Það voru akkúrat loforð Steingríms, að brúka þessi lög og kyrrsetja þessa menn og eignir þeirra. Ásamt því að hefja alvöru óháða rannsókn á öllu batteríinu, sem kom honum í stjórn. Og algjört gagnsæi og samvinna við þjóðina.

Þetta hefur ekki gengið eftir. Og þjóðin sér eingöngu ótrúlega vinnu og pressu, að þjóðin samþykki að greiða skuldir þessara óreiðumanna.

Þetta gengur ekki! Við verðum að fá að sjá alvöruna í þessum loforðum ef að stjórnin á að vera trúverðug. Og rannsóknin verður að hafa vald til að beinast að hverju og hverjum sem er. Forsetar, Flokksforystur, Dómarar, Ráðherrar, Þingmenn, Útrásarvíkingar, allir jafnir. Hvar er styrkurinn í rannsókninni? Hvar eru allir sérfræðingarnir sem átti að ráða? Af hverju er ekki búið að koma strax í gegn um Alþingi frumvarpi um 3 sérstaka saksóknara og ráða þá? Af hverju er búið að handtaka, frysta eignir, og dæma Madoff í Bandaríkjunum en hér stendur alt í stað. Eða ef að eitthvað er að ske, af hverju er því haldið leyndu fyrir þjóðinni.

Þessi leynd kemur mér svo sem ekkert á óvart. Hvernig á þessi stjórn svo sem að geta sett alvöru rannsókn upp á borðið. Þegar svo margir einstaklingar sem sátu í síðustu stjórn, sem átti svo stóran hlut í að koma okkur í skítinn, sitja í þessari eða á þingi. Eins og T.D. fyrrverandi viðskiptaráðherra. Hans viðurkenningu á vanhæfi Fjármálaeftirlitsins vegna skorts og smæðar og persónuleg loforð um að styrkja það. Og skapa "Skilvirkt og gott lagaumhverfi utan um fjármálastarfsemina"  Sem alt var brotið, og samkvæmt hans eigin orðum. Ráðuneytinu breytt í Útrásar Ráðuneyti.    ( Má alt sjá í fyrsta viðtalinu við Björgvin G. Sem Viðskiptaráðherra frá 29 mai 2007.  við Lóu Pind. Á stöð 2)

http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/740998/

Nei nú er tími til kominn fyrir Steingrím og Jóhönnu að sýna að þeirra kosningaloforð séu eitthvað merkilegri en orðin ein. 

Alt upp á borðið, sama hverra flokka og manna sökin er, og kyrrsetningarlög í notkun strax.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 04:53

4 identicon

http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/740998/

Þarna ætti linkurinn að koma réttur. 

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 04:58

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta er alveg laukrétt hjá þér auðvitað eiga allir sem eru sekir um þjófnað, landráð og landráð af gáleysi að vera settir inn þar á meðal þingmenn og ég er ekki að tala um þann sem nú þegar hefur tekið út sína refsingu. Vandamálið er af tvennum toga sumir þessara manna eru enn við stjórnvölinn og þess utan eigum við ekki nógu mikið fangelsisrými, síst af öllu á Kvíabryggju þar sem fínni menn eru vistaðir.

Eftir nýjustu tíðindi frá Hollandi þá er Icesave samningurinn úr sögunni einhverskonar ekkifrétt gærdagsins. Þær upphæðir sem sendur til að stefna Íslendingum fyrir eru stjarnfræðilegar.  Ef Íslendingar tapa þeim málum ásamt Icesave er það vegna aðgerða eða aðgerðaleysis stjórnmálamanna þar ber hæst: Neyðarlögin, aðgerðaleysi fjármálaeftirlitsins og yfirlýsingar ráðamanna.

Íslendingar sem þjóð bera aftur á móti enga ábyrgð á einkabönkum aðra en eftirlitshlutverk og þeir bera alls enga ábyrgð á gallaðri Evrópulöggjöf sem við vorum þvinguð til að taka upp. 

Sigurður Þórðarson, 6.7.2009 kl. 06:42

6 identicon

Þetta pakk sem kom þjóðinni í þessar botnlausu skuldir bæði leynt og ljóst er fyrir löngu búið að KAUPA sér friðhelgi,það eru styrkir í prófkjör,beint til flokkana og svo framv.það var og er allt falt...so sorry

Björn.

Bon Scott (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 11:09

7 identicon

Yfirvöld eru á vissan hátt samsek icesave-ruddunum, bankaskrílnum:

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1290673

Yfirvöld vilja því helst skrifa undir strax og koma málinu "út úr heiminum". Eg legg þetta til heldur:

www.kjosa.is

Rómverji (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 11:38

8 Smámynd: Finnur Bárðarson

Sigmundur Davíð og Birgir Ármannsson hafa lýst því yfir opinberlega að þeir séu alfarið á móti frystingu eigna. Þetta er væntanlega skoðun flokkssystkina þeirra líka.

Finnur Bárðarson, 6.7.2009 kl. 12:09

9 identicon

Ef þetta er rétt hjá þér Finnur þá liggjum við ylla í því, og orðið lífsnauðsyn fyrir samfélagið að losna við fjórflokkinn. Því Samspilling vill auðsjáanlega ekki frysta neitt fyrir styrkgjöfum sínum og VG geldir í þessu máli.

Alt bara innantóm loforð. Og augljóst að ekki er pólitískur vilji að finna einn einasta sökudólg. Eða koma nokkru réttlæti til leiðar, hvort heldur sem er hjá útrásarbófunum eða flokka klíku pólitíkusunum sem gerðu þjófnaðinn mögulegan.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 12:28

10 Smámynd: ThoR-E

enda þá kannski ekki skrítið að nokkrir útrásarvíkingarnir hafi verið að flytja tugmilljóna glæsibifreiðar úr landi í gámum á dögunum.

þeir vita eflaust hvað bíður þeirra ... en þeir hafa bara fengið svo mikinn tíma til að koma undan eignum og fjármunum að ... hvað kemur út úr þessu á endanum ... það er ómögulegt að vita.

ef hæft fólk hefði verið fengið í þessa rannsókn strax í Nóvember ... erlendis frá helst .. að þá væru hlutirnir eflaust öðruvísi ... það þurfti sjónvarpsmann meðal annars til að fá Evu Joly til landsins ... hvernig væri þetta hér ef hún væri ekki í ráðgjafastöðu þarna... 

ég er bara ansi hræddur um að spillingin nái það hátt .. að það verði lítið gert á endanum... kannski einhverjir skilorðsbundnir dómar hjá peðum sem fórnað verða. Ef þá það.

ThoR-E, 6.7.2009 kl. 18:29

11 identicon

Hvenær á að taka til baka undanskot Baugs á eigum síðastliðið sumar - þarna vissu eigendur Baugs í hvað stefndi og þessi undanskot eru grunnur eigna þeirra í dag.

Hér er frétt af vísir (tók hana af google cache því visir.is er búinn að eyða fréttinni af sinni síðu, skiljanlega):

Baugur til Bretlands
mynd

Baugur Group verður flutt úr landi til Bretlands. Gengið var frá sölu allra eigna Baugs á Íslandi í gærkvöldi.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. Um er að ræða einhverjar mestu eignatilfærslur í íslenskri viðskiptasögu. Fjárfestingarfélagið Gaumur, sem Jón Ásgeir Jóhannesson á ásamt konu sinni, systur og foreldrum hefur keypt Haga sem rekur meðal annars Bónus og Hagkaup. Nafni FL Group var breytt í Stoðir sem síðan seldi 34,8% hlut sinn í Northern Travel Holding til Fons sem er í eigu Pálma Haraldssonar.

Northern Travel er móðurfélag flugfélaganna Iceland Express og Sterling auk fleiri fyrirtækja í ferðamannaiðnaðinum. Eftir breytinguna verður meginstarfsemi Baugs í London. Alls vinna um 50 þúsund starfsmenn hjá félögum í eigu Baugs í 3.900 verslunum víða um heim.

http://74.125.77.132/search?q=cache:zHlKWxoHEaQJ:www.visir.is/article/20080704/VIDSKIPTI06/941243597/-1/VIDSKIPTI+baugur+group+seldi+haga&cd=7&hl=en&ct=clnk&gl=is

Arnbjörn (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 18:39

12 Smámynd: Gerður Pálma

Spyr sá sem ekki veit

Gerður Pálma, 8.7.2009 kl. 11:24

13 Smámynd: Gerður Pálma

athugasemdin slapp frá mér... spurning er, hvað er í vegi fyrir frystingu eigna þar sem þess er þörf? Lögum er hægt að breyta, og það á mjög skömmum tíma, hvað er í veginum? Núna erum við með ´vini alþýðunnar´ við stjórn (þoli ekki vini litla mannsins, hver er minni en hver?)

krefjum lagabreytingar til þjónustu við þau vandamál sem að þjóðinni steðjar úr öllum áttum.

Núna VERÐUR AÐ LOKA fyrir útflutning á vatni þar sem tekjurnar lenda ekki í ríkiskassanum, vatnið, súrefnið, orkan er grunnur íslenskrar farsældar.

Gerður Pálma, 8.7.2009 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband