1.10.2009
Stundum er erfitt að halda ró sinni...
23.4.2008
Stundum er erfitt að halda ró sinni...
...og höggva ekki mann og annan. Stundum langar mig að hrista fólk, taka á því eins og óknyttastrákum eða -stelpum og lesa því pistilinn ómengaðan. Stundum langar mig að vera einræðisherra á Íslandi og taka til hendinni, henda rusli og sópa úr skúmaskotum. En það er draumsýn og eina leiðin sem virðist fær er að reyna að nota mátt orðanna. En mig þekkja fáir og enn færri hlusta á mig. Þótt ég þoli ekki athygli vildi ég stundum óska þess að vera fræg. Ef ég væri fræg myndu fjölmiðlar kannski hlaupa upp til handa og fóta þegar ég munda lyklaborðið, taka við mig djúpvitur viðtöl og allir myndu hlusta í mikilli andakt. Annað eins hefur nú gerst þegar fræga fólkið tjáir sig. En ég er ekki fræg og fáir hlusta. Því miður. Ég auglýsi hér með eftir frægu fólki til að tala máli mínu. Það er sama hvaðan gott kemur - en hér ætla ég að láta vaða og taka stórt upp í mig.
Ég fór á íbúafund í Hveragerði á mánudagskvöldið, þar var verið að fjalla um málefni sem ég hef mikinn áhuga á, fyrirhugaða Bitruvirkjun við Ölkelduháls og möguleg áhrif hennar á lífsgæði og heilsu Hvergerðinga. Reyndar á alla íbúa suðvesturhornsins, en Hvergerðingar eru næstir svæðinu. Salurinn var fullur út úr dyrum, um 100 manns mættu og það var spenna í loftinu. Augljóst að málið hvílir þungt á Hvergerðingum - skiljanlega. Það á nefnilega að eitra fyrir þeim og þeir geta enga björg sér veitt. Lesið pistil bæjarstjóra Hvergerðinga um fundinn hér.
Það væri allt of langt mál að tíunda allt sem gerðist á fundinum, en þarna voru þrír frummælendur - frá Orkuveitunni, Hveragerði og Landvernd. Fulltrúi Orkuveitunnar virtist hálfþreyttur, áhugalítill og var lítt sannfærandi, bæði í pistli sínum og þegar hann svaraði hinum fjölmörgu fyrirspurnum sem beint var til hans frá fundargestum. Mín tilfinning var sú að honum fyndist þetta óþarfa bögg og afskiptasemi. Okkur kæmi þetta ekkert við.
Um daginn var ég byrjuð að skrifa pistil um brennisteinsvetni, búin að afla mér heimilda um víðan völl og lesa mér til, en forgangsröðin breyttist stöðugt og alltaf frestuðust pistilskrifin. Nú er ég komin á þá skoðun að best sé að einfalda umfjöllunina og vera ekkert að flækja málið. En ég tek skýrt fram að þetta er miklu flóknara mál en hér kemur fram og langt í frá að ég viti eða skilji allt sem hægt er um efnið. En ég skil samt ýmislegt.
Í Wikipediu stendur þetta: "Brennisteinsvetni eða vetnissúlfíð (H2S) er litlaus, eitruð gastegund. Megn lykt er af brennisteinsvetni þó magn þess sé lítið í andrúmsloftinu, það er brennisteinsvetni sem veldur lykt af fúleggjum og jöklafýlu sem gjarnan fylgir hlaupum í jökulsám. Lyktin hverfur hins vegar þegar styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti eykst og það verður lífshættulegt. Það eykur einnig á hættu að brennisteinsvetni er þyngra en andrúmsloftið og getur því lagst í dældir eða safnast fyrir í botnum á geymum og tönkum..." Þar segir ennfremur: "Um 10% af losun á H2S í heiminum er af mannavöldum. Í iðnaði er það einkum í olíuhreinsunarstöðvum. H2S finnst þar sem brennisteinn kemst í samband við lífrænt efni, sérstaklega ef um er að ræða hátt hitastig." Læt þetta nægja í bili en slóðin á þennan og meiri fróðleik er hér.
Semsagt... prumpufýlan sem maður finnur þegar farið er fram hjá t.d. skíðaskálanum í Hveradölum og víðar er brennisteinsvetni að kenna. Líka sú sem við finnum þegar við skrúfum frá heita vatninu í krananum hjá okkur - eftir því hvar við búum. Við erum vön þessari lykt, höfum alist upp við hana og finnst hún bara frekar fyndin. Erlendir gestir hafa gjarnan orð á lyktinni því hún er þeim framandi. En þótt brennisteinsvetni sé eitur er það ekki alvont efni. Það gerir sitt gagn í náttúrunni og jafnvel fyrir mannslíkamann - í hóflegu, náttúrulegu magni.
Við erum nú með fjórar jarðhitavirkjanir (samheiti mitt yfir jarðgufu- og jarðvarmavirkjanir sem eru ólíks eðlis) á suðvesturhorni landsins. Svartsengi og Reykjanesvirkjun á Reykjanesi, Nesjavallavirkjun við Þingvallavatn og hina nýju Hellisheiðarvirkjun við rætur Hellisheiðar. Allar losa þær gríðarlegt magn af brennisteinsvetni út í andrúmsloftið, vitanlega umfram allt sem náttúrulegt getur talist. Reykvíkingar eru þegar farnir að finna fyrir útblæstrinum úr Nesjavalla- og Hellisheiðarvirkjunum. Fólk í eystri byggðum Reykjavíkur finnur fyrir áhrifum hans á augu, lungu og öndunarfæri. Bloggvinkona mín, Lilja Guðrún, skrifaði fínan pistil um barnabörnin sín og sjálfa sig í andnauð og kenndi um svifryki af völdum nagladekkja. Fleiri taka undir og lýsa sinni reynslu, sumir eflaust í austurhluta borgarinnar. Það er örugglega alveg rétt að svifryk eigi sinn þátt í andnauðinni, en gætu þessi áhrif á öndunarfærin verið í bland frá brennisteinsvetni? Spyr sú sem ekki veit.
Neðst í pistlinum eru, auk fréttaumfjöllunar um fundinn í Hveragerði, tveir pistlar úr Speglinum frá í nóvember. Í öðrum er talað við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun og í hinum Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í lungna-, atvinnu og umhverfissjúkdómum. Báðir fjalla um hættuna sem getur skapast af of miklu brennisteinsvetni í andrúmsloftinu. Hlustið á þá.
Styrkur brennisteinsvetnis í Reykjavík er aðeins mældur á Grensás. Það er nú því sem næst í miðri Reykjavík. Engir mælar eru austar og nær Hellisheiðarvirkjun þar sem tugþúsundir búa. Enginn mælir er í Hveragerði. Eins og fram kemur í máli Þorsteins er styrkurinn ekki orðinn mikill ennþá, en langtímaáhrif af litlum styrk eru ekki þekkt, hvað þá af miklum styrk. Þorsteinn segir einnig að það sé alls ekki sjálfgefið að fólk stundi útivist nálægt blásandi borholum. Í máli Þorsteins kemur fram að hægt sé að hreinsa útblástur brennisteinsvetnis frá virkjununum. Upphaflega stóð ekki til hjá Orkuveitu Reykjavíkur að hreinsa hann, en nú hafa þeir vent kvæði sínu í kross og segjast ætla að hreinsa útblásturinn.
Á því loforði Orkuveitu Reykjavíkur eru þrír stórkostlegir gallar. Í fyrsta lagi sá, að þeir þurfa þess ekki og það er kostnaðarsamt. Engin lög ná yfir takmörkun á losun brennisteinsvetnis út í andrúmsloftið. Því verður að breyta. Í öðru lagi kom greinilega fram í máli fulltrúa OR á fundinum í Hveragerði að hreinsun brennisteinsvetnisins er á tilraunastigi. Þeir vita semsagt ekki ennþá hvort það tekst og hafa ekki prófað aðferðina sem þeir hyggjast nota. Samt á að virkja og treysta á guð og lukkuna. Í þriðja lagi kom líka fram að brennisteinsvetni verður ekki hreinsað úr útblæstri neinna borhola á framkvæmdatímanum - það eru mörg ár og fjölmargar holur. Aldrei verður heldur hreinsaður útblástur úr holum sem þarf stöðugt að bora og láta "blása", eins og þeir orða það (ég kann ekki tækniskýringu á því).
Á fundinum í Hveragerði kom fram að suð-austasta borholan á áætluðu virkjanasvæði Bitruvirkjunar er aðeins 4.560 metra frá efstu húsunum í Hveragerði. Bitruvirkjun yrði í um 4 ár í byggingu og allan þann tíma myndu borholur spúa eitri yfir Hvergerðinga og aðra íbúa suðvesturhornsins, því ekki verður hreinsað á framkvæmdatíma. Svo verða um 3 holur látnar blása í einu, óhreinsaðar, næstu áratugina - ef ég skil þetta rétt - og spúa meira brennisteinsvetni yfir okkur. Miðað við orð Þorsteins og Sigurðar í Spegilsviðtölunum og óvissuna um langtímaáhrif brennisteinsvetnis í andrúmloftinu, jafnvel í litlu magni, geta t.d. astma-, lungna- og öndunarfærasjúklingar - og barnafólk - ekki búið í Hveragerði og jafnvel ekki í austurhluta Reykjavíkur. Ekki væri æskilegt að beina ferðafólki nálægt svæðinu svo Reykjadalurinn fagri fyrir norðan Hveragerði legðist af sem útivistarsvæði, svo og allt svæðið í kringum náttúruperluna Ölkelduháls. Þetta er ófögur framtíð fyrir fallegan, lítinn bæ í fögru umhverfi og áhyggjur Hvergerðinga skiljanlegar.
En á fundinum var dreift tillögu til þingsályktunar um takmörkun á losun brennisteinsvetnis af mannavöldum í andrúmslofti. Fyrsti flutningsmaður er Álfheiður Ingadóttir og þetta er mjög þarft framtak, það verður að koma böndum á losunina. Vonandi bera þingmenn allra flokka gæfu til að samþykkja þingsályktunartillöguna hið snarasta.
Reykvíkingar fá þetta eitur líka yfir sig áfram, því auk Bitruvirkjunar er enn ein jarðhitavirkjunin áætluð í Hverahlíð, sunnan við þjóðveg nr. 1 sem liggur um Hellisheiðina. Þá væru virkjanir á svæðinu orðnar fjórar og tvær í viðbót á teikniborðinu, alls sex jarðhitavirkjanir á sama blettinum.
Fjölmargt fleira kom fram á fundinum í Hveragerði, ég hef eingöngu fjallað um einn þátt af mörgum sem þar var minnst á. Íbúar eru felmtri slegnir og alls ekki að ástæðulausu. Að sumu leyti eru þeir að berjast fyrir lífi sínu - en hafa engin vopn. Þeir eru algjörlega berskjaldaðir. Reykvíkingar líka.
Mig langar stundum að missa mig, hrista virkjanasinna duglega og lesa þeim pistilinn. Hvað á svona nokkuð að þýða? Hvernig dettur þeim í hug að fara svona með náungann... og sjálfa sig? Og hvernig voga þeir sér að sýna slíkt fyrirhyggjuleysi gagnvart afkomendum okkar og komandi kynslóðum? Hvernig stendur á því að óspillt náttúra er ekki metin að verðleikum? Af hverju á að göslast áfram og ana út í óvissu sem getur stofnað heilsu og jafnvel lífi samborgaranna í hættu og stela frá okkur náttúruperlum sem enginn hefur haft rænu á að meta til fjár?
Svarið er í raun einfalt: Til að framleiða raforku fyrir eiturspúandi, erlenda stóriðju og græða peninga.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
í sjálfu sér, er það ekki neikvætt að græða peninga, enda kostar rekstur hagkerfisins allnokkrar krónur.
Á hinn bóginn, er mikilvægustu spurningarnar 2., þ.e. hvor minni verðmætum sé hent fyrir meir og hvort brennisteins mengunin, sé alvarlegur hlutur.
Hvað mengunina varðar, er sennilega rétt, að krefjast aðgerða til að hreinsa þá mengun út, áður en gufu er hleypt út í andrúmsloftið.
Varðandi vermæta mat, þá er það mjög djúp pæling, sem snýst meira um gildismat en flest annað, þ.s. t.d. svokölluð sjónræn verðmæti, eru fullkomlega ómælanleg, þ.s. þau snúast um smekk og skoðanir.
Sumir geta einfaldlega aldrei sætt sig við neinn afslátt, varðandi sitt sjónræna verðmætamat. Á hinn bóginn, eru aðrir sem hafa engan áhuga á slíku. Á milli skoðanahópa er gjá, íllbrúanleg.
Einhvern veginn, þarf að ná sáttum, um framtíðar stefni, í náttúruverndarmálum.
Sennilega hefur Ómar frændi rétt fyrir sér, að mikil fjárhagsleg verðmæti geti falist í annarri tegund nýtingar. En þá verða menn einnig að sætta sig við, að viðkomandi svæði verða aldrei algerlega ósnortin.
Önnur nýting, er þá helst til ferðamennsku, en fjölda-ferðamennska krefst umtalsverðrar uppbyggingar líka, því meiga menn ekki heldur gleyma.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 1.10.2009 kl. 18:05
Góður pistill Lára Hanna. Ég tek undir með þér: Hvernig stendur á því að óspillt náttúra er ekki metin að verðleikum? Af hverju á að göslast áfram og ana út í óvissu sem getur stofnað heilsu og jafnvel lífi samborgaranna í hættu .....
Mér finnst þetta dæmi um Bitruvirkjun svo augljóst að það ætti ekki að þurfa að ræða það frekar. Slá þessi áform af. Alltof nálægt Hveragerði þar sem íbúar óttast með réttu afleiðingar slíkra framkvæmda á heilsu sína og verðmæta eigna sinna. Það hlýtur að búa eitthvað þarna að baka sem við vitum ekki um. Einhverjir gráðugir sem toga í alla spotta sem mögulegt er að toga í. Maður er orðinn svolítið paranoid eftir allt það sem gengið hefur á! Ekki furða enda raunveruleikinn okkar landana undarlegri en nokkur raunveruleikaþáttur!
Auður M (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 18:55
Ef að Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun verða reistar, þá hljómar það eins og hver önnur öfugmælavísa að hafa Heilsustofnun náttúrulækningafélagsins staðsetta áfram í Hveragerði.
Fyrir utan hvað þetta verður gjörsamlega óboðlegt fyrir íbúana þar.
HVG (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 21:20
Það fer væntanlega eftir því, hvort hægt er að gera ráðstafanir, til að draga úr eða jafnvel fjarlægja alveg, þessa brennisteins mengun.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 1.10.2009 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.