1.10.2009
Bréf til Láru - frá Hveragerði
Ég skrifaði um Hveragerði í síðasta pistli. Um að verið væri að stofna lífsgæðum og heilsu Hvergerðinga og annarra íbúa Suðvesturlands í hættu með því að dæla eiturefninu brennisteinsvetni út í andrúmsloftið í áður óþekktu magni í þágu virkjana og stóriðju. Eins og ég nefndi í pistlinum var minnst á fjölmargt annað á fundinum í Hveragerði - brennisteinsvetnismengun er aðeins eitt af mörgum atriðum sem spurt var um og gerðar athugasemdir við. Viðbrögðin við pistlinum hafa verið mikil og enn og aftur hef ég fengið tölvupóst og upphringingar frá óttaslegnu fólki sem líst ekki á blikuna.
Í dag fékk ég svo tölvupóst frá Hvergerðingi sem var á íbúafundinum á mánudagskvöldið. Hann sendi einnig fallegar myndir af fossum sem prýða útivistarsvæðið ofan Hveragerðis, hann kallar þá fossana okkar. Ég sá ástæðu til að biðja hann um leyfi til að birta skrifin og myndirnar því hér kemur svo glögglega í ljós hve almenningur er mótfallinn því að láta hrekja sig í burtu frá náttúrunni, þangað sem fólk hefur árum og áratugum saman leitað sér hvíldar og skjóls frá amstri hvunndagsins til að endurnæra sál og líkama.
En hér er bréfið:
Heil og sæl Lára Hanna, Ármann Ægir Magnússon heiti ég og hef átt heima í Hveragerði lengi.Ég var á fundinum með OR í Grunnskóla Hveragerðis á dögunum. Á fundinum kom ég inn á vistkerfi Varmár. Hún er dragá sem getur orðið mjög lítil og heit en vaxið gífurlega í vorleysingum og rigningum.
Vármá mynda aðallega fjórar smærri ár, þ.e. Sauðá, Grændalsá, Reykjadalsá og sú lengsta, Hengladalaá. Þær tvær síðastnefndu eru líklega vatnsmestar. Í Hengladalaá fyrir ofan Svartagljúfursfoss er urriði og lífverur sem hann nærist á, á meðan lækur rennur.
Í Djúpagili er Reykjadalsáin á um tveggja kílómetra kafla en þar er urriði sem er þar á milli fossana Fossdalafoss og Djúpagilsfoss hann lifir oft í ótrúlega litlu vatni og heitu. Urriðinn í þessum ám gengur niður árnar en kemst ekki upp fossana.
Þetta varnakerfi er stór hluti af vatna- og lífkerfi Ölfusfora. Í öllum ánum fjórum hefur verið straumönd sem fer með unga sína niður árnar þegar líður á sumarið.
Ég reyndi að spyrja um rannsóknir og þekkingu OR á þessum hlutum á fyrrnefndum fundi. Það kom í ljós að talsmaður OR, Ingólfur Hrólfsson, vissi ekkert um þetta og taldi sig ekki sjá að slys við framkvæmdirnar gætu breytt lífkerfinu. Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður OR, taldi að klórslysið sem varð í vetur þegar Varmáin var yfir meðallagi að vatnsmagni, væri það sem við Hvergerðingar þyrftum að varast.
Ég hef gengið oft um þetta svæði og tel mig þekkja það afar vel. Ég er sannfærður um að klórslysið er bara brotabrot af því sem Bitruvirkjun getur valdið, eða hefur nú þegar valdið á þessu svæði. Varmáin er okkur Hvergerðingum afar kær og því höfum við varið hundruðum milljóna í að hreinsa hana og verja.
Ég veit ekki til að Sveitafélagið Ölfus hafi varið krónu til að verja þetta mikla vatnakerfi okkar heldur leyft byggðakjarna sem notast við venjulegar rotþrær, fremur en að tengjast og taka þátt í hreinsistöð og verndarstarfi okkar.
Ég er ekki menntaður líffræðingur eða vatnalíffræðingur. Ég held að það sé afar brýnt að kalla eftir raunverulegum rannsóknum fræðimanna á þessu sviði. Rannsóknir sem Ingólfur minntist á voru rannsóknir á grunnvatnsstraumum sem náðu frá þessu svæði allt til Esju og Reykjaness. Það sjá það allir sem vilja að þetta geta ekki talist nákvæmar rannsóknir á vatnafari eða vistkerfi umhverfis Bitruvirkjun, Varmá eða áhrif á Ölfusforir. Ég er undrandi á að ekki hafi komið fram slíkar rannsóknir sem hljóta að vera til í einhverjum mæli. Ef ekki, þá hefur orðið slys á svæðinu nú þegar.
Ég hef gengið oft eftir þessum ám og um virkjanasvæði Bitru. Það verður að segjast eins og er að vegna allra framkvæmdanna á Hellisheiði hefur varla verið vært á svæðinu alla daga vikunnar, því hefur ferðum mínum á svæðið fækkað.
Ég sendi þér nokkrar myndir af fossunum okkar. Þetta eru Reykjafoss, Fossdalafoss, Djúpagilsfoss, Djúpagilsfoss í þurrkatíð og foss neðarlega í Hengladalaá. Þar fyrir innan er Svartagljúfursfoss.
Með kærri þökk fyrir baráttu þína, Lára Hanna.
Nú þurfa allir að leggjast á árarnar.
Ármann Ægir Magnússon,
íbúi í Hveragerði
Já, nú þurfa svo sannarlega allir að leggjast á árarnar og hindra þann gjörning sem fyrirhugaður er með Bitruvirkjun. Í öðrum pósti sem Ármann Ægir sendi mér segist hann ekki vera á móti öllum virkjunum, en að þarna sé ekki verið að virkja rétt. Ég er heldur ekki á móti öllum virkjunum. Eins og ég sagði í þessum pistli er skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda nauðsynleg.
En það er alls ekki sama hvar virkjað er, hvernig, til hvers og hverju er fórnað í þágu hverra.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er ekki talið að urriðinn hafi verið hér í ám og lækjum síðan eftir síðustu ísöld?
Og komum við ekki hingað 874?
Og á svo urriðinn að vera alveg réttlaus?
Það er nú meiri dónaskapurinn og tillitsleysið.
Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 21:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.