Áfangasigur og áskorun

Áfangasigur vannst 19. maí 2008 þegar Skipulagsstofnun birti álit sitt á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar. Stofunin lagðist eindregið gegn því. Ekkert hefur breyst síðan í maí 2008. Ekki hefur farið fram nýtt mat á umhverfisáhrifum svo hið gríðarlega neikvæða álit Skipulagsstofnunar stendur enn. Sendið athugasemd í pósti í dag, sjá neðst í færslunni!

*******************************************

Skipulagsstofnun var að birta álit sitt á mati á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar og leggst afdráttarlaust og eindregið gegn byggingu hennar. Þetta eru kærkomin tíðindi - gríðarlega mikilvægur áfangasigur í baráttunni fyrir náttúruperlunni á Ölkelduhálsi og raunar öllu Hengilssvæðinu.

Frá Ölkelduhálsi Þetta ferli er búið að standa lengi yfir. Hengilssíðan var sett upp í lok október sl. og fólk hvatt til að senda inn athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum. Sett var Íslandsmet - aldrei áður höfðu borist eins margar athugasemdir við neinni framkvæmd í Íslandssögunni - en athugasemdirnar voru hátt í 700. Skipulagsstofnun flokkaði og taldi þær en sendi síðan til Orkuveitu Reykjavíkur, framkvæmdaraðilans. Upp úr miðjum mars sl. sendi OR síðan lokamatsskýrslu sína til Skipulagsstofnunar sem var að kveða upp álit sitt fyrir stundu.

Skjalið, þar sem Skipulagsstofnun færir rök fyrir áliti sínu er langt, 43 síður. Ég festi það við þessa færslu ásamt matsskýrslunni og umsögnum og athugasemdum sem bárust. Þessi skjöl er einnig hægt að nálgast á heimasíðu Skipulagsstofnunar - hér. Ég ætla aðeins að hafa hér eftir kaflann "Helstu niðurstöður" úr álitinu. Hann hljóðar svo (leturbreytingar mínar):

"Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa Frá Ölkelduhálsi á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og býr svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis.

Skipulagsstofnun telur ljóst að upplifun ferðamanna innan áhrifasvæðis Bitruvirkjunar myndi gerbreytast þegar horft er til umfangs fyrirhugaðra framkvæmda og þeirra ásýndarbreytinga sem þær hefðu í för með sér. Stofnunin telur að í ljósi þess yrði ferðaþjónusta og útivist eins og hún er stunduð í dag samkvæmt framlögðum gögnum ekki lengur möguleg innan áhrifasvæðis virkjunarinnar. Stofnunin telur að ráða megi bæði af umfjöllun í matsskýrslu sem og í umsögnum og athugasemdum að um verði að ræða mikil neikvæð, óafturkræf og varanleg áhrif á ferðaþjónustu og almenna útivist vegna breyttrar ásýndar svæðisins og verulegs ónæðis af völdum hávaða bæði á framkvæmda- og rekstrartíma.

Stofnunin telur að ekki sé gerlegt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á framangreinda umhverfisþætti með mótvægisaðgerðum þannig að hún teljist ásættanleg.

Frá Ölkelduhálsi Þá telur stofnunin ljóst að ef litið er til samlegðaráhrifa Bitruvirkjunar með núverandi virkjunum, háspennulínum og fyrirhugaðri virkjun við Hverahlíð á Hengilssvæðið í heild sinni, nái þessi áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu til enn umfangsmeira svæðis og áhrifin verði að sama skapi umtalsvert meiri og neikvæðari. Skipulagsstofnun telur ljóst að með auknu raski á Hengilssvæðinu fari verndargildi lítt snortinna svæða þar vaxandi.

Varðandi áhrif Bitruvirkjunar á aðra umhverfisþætti þá liggur fyrir að mikil óvissa er um áhrif á jarðhitaauðlindina, áhrif á lofgæði ráðast alfarið af virkni hreinsibúnaðar fyrir brennisteinsvetni sem fyrirhugað er að koma upp og áhrif á grunnvatn ráðast af því að skiljuvatni verði veitt um fóðraðar niðurrennslisholur niður fyrir grunnvatnsborð.

Óvissa er um breytingar á yfirborðsvirkni á áhrifasvæði virkjunar á Bitru. Skipulagsstofnun telur að komi til aukinnar virkni geti það leitt til neikvæðra áhrifa á jarðmyndanir, örverulíf hvera, gróður og smádýralíf.

Reykjavík, 19. maí 2008"

Svei mér ef þetta er ekki næstum eins og afritað upp úr pistlunum mínum á þessu bloggi. Mikið svakalega erum við innilega sammála, Skipulagsstofnun og ég! Og álit þeirra er ekki á neinni tæpitungu - þar er fast að orði kveðið, það er ákveðið og afdráttarlaust.

En baráttunni er engan veginn lokið, athugið það. Í mínum huga hljóta næstu skref að vera þau, að Orkuveita Reykjavíkur hætti alfarið við að reisa Bitruvirkjun og að Sveitarfélagið Ölfus dragi breytingu á aðalskipulagi - þar sem breyta á Bitru/Ölkelduhálssvæðinu í iðnaðarhverfi - til baka. Síðan kæmi til kasta þar til bærra aðila að friðlýsa svæðið.

Það er ástæða til að óska Skipulagsstofnun og þjóðinni allri til hamingju. Það er líka ástæða til að þakka öllum þeim tæplega 700 sem sendu inn athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum í haust. Við getum haft áhrif ef við tökum höndum saman og notum samtakamáttinn.

Takið þátt í áskorun á Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus með því að setja inn athugasemd við þessa færslu! 

"Við skorum á Orkuveitu Reykjavíkur að hætta við að reisa Bitruvirkjun og Sveitarfélagið Ölfus að hætta við að breyta svæðinu í iðnaðarsvæði!"

Fréttir Ríkissjónvarpsins í kvöld

 

************************************************

Daginn eftir sló Orkuveita Reykjavíkur áformum um Bitruvirkjun á frest. Hætti ekki alfarið við eins og nú hefur komið í ljós. Munið að athugasemdafresturinn er að renna út - hafið hraðar hendur!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ég skora á Orkuveitu Reykjavíkur að hætta við að reisa Bitruvirkjun. Svæðið þarna í kring er með betra útivistasvæðum á Suðvesturhorninu. Jafnvel á versta krepputímabilinu ætti öllum Íslendingum að vera ljóst að náttúruperlur eiga ekki að verða stundahagnaði að bráð. Við verðum að hugsa lengra fram á við heldur bara næstu 10 ár eða svo. Höfum við ennþá ekkert lært? Erum við ennþá að eltast við stóriðjudraugana fortíðarinnar?

Úrsúla Jünemann, 2.10.2009 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband