Dúllurassinn Davíð

Síðast þegar ég reyndi að grínast og vera kaldhæðin misheppnaðist það gjörsamlega. Kjarni pistilsins fór alveg fram hjá lesendum og ég tók á það ráð að endurbirta hann næstum strax. Ég var tekin alvarlega og hét sjálfri mér að reyna þetta aldrei aftur. Þetta er því ekki kaldhæðinn pistill. Seiseinei. Algjör misskilningur.

Davíð Oddsson dúllurassEn Davíð Oddsson er dúllurass. Ég komst að því á sunnudaginn var þegar ég las leiðarann hans í Mogganum sem bar yfirskriftina "Um bloggara og gleðigjafa". Þessi elska var að dásama bloggara, þar á meðal mig. Ég tók þetta allt til mín... eðlilega. Ég fékk auðvitað bakþanka vegna þess sem ég hef skrifað um Davíð og spurði sjálfa mig hvort ég ætti að fá samviskubit. Hvernig getur mér mislíkað Davíð fyrst hann er svona hrifinn af mér?

Í leiðaranum kallar Davíð mig skynsama og velmeinandi og segir að bloggið mitt sé læsilegt og að ég sé góður penni. Hann segir mig grandvara og fróða og að ég komi að upplýsingum í skrifum mínum sem ekki hafi ratað inn í venjulega fjölmiðla. Að umræður sem spinnast af skrifum mínum hafi í einstökum tilfellum haft áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru í þjóðfélaginu eða opni augu manna fyrir nýjum sannindum.

Og Davíð heldur áfram að mæra mig af sinni alkunnu snilld. Hann segir að ég haldi úti vefsíðu af miklum myndarskap og hafi með skarplegum athugasemdum heilmikil áhrif á umræðuna.

Ég roðnaði þegar ég las þetta. Var upp með mér og fann svolítið til mín. Svona eins og þegar barni er hrósað fyrir að taka fyrstu skrefin. Þessi elska erfir ekki alla skammarpistlana mína og finnst ég bara helvíti góð. Aldrei hefði ég trúað þessu upp á þennan krúttmola. En svo bregðast krosstré...

Leiðari Morgunblaðsins 4. október 2009 Morgunblaðið 4. október 2009 - Leiðari Davíðs Oddssonar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Alger rassgatarófa. Það er satt.

Ég tek þetta allt til mín líka, því ég fell í allar kategoríurnar, sem hann nefnir.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.10.2009 kl. 03:57

2 Smámynd: Kama Sutra

Og ég sem hef staðið í þeirri meiningu og hefði getað svarið að téður krúttmoli () væri að tala um bloggið mitt!

Kama Sutra, 7.10.2009 kl. 04:00

3 identicon

Í alvöru Lára Hanna, tekur þú virkilega mark á þessu skjalli Davíðs. Hann er með patróna stæla og af hverju áttu að vera upp með þér af hrósi þessa manns. Hann er slægur og leggur fólk undir sig með skjalli. Varaðu þig!

DB (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 06:51

4 identicon

Davíð er góður penni það vefst ekki fyrir neinum:

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 07:38

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ó, nú fatta ég, hann er auðvitað að tala til mín líka.  Takk fyrir að benda á þetta LH.

Til glöggvunar:

DJÓK

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.10.2009 kl. 09:02

6 identicon

"Þá er allstór hópur manna sem heldur úti vefsíðum af miklum myndarskap og hefur með skarplegum athugasemdum heilmikil áhrif á þjóðfélagsumræðuna, sem kórstjórar bloggsóðanna hafa sem betur fer ekki." Hann hlýtur að eiga við klappstýrurnar sínar á amx.is

Kári (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 12:09

7 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þó það nú væri að bloggarar þurfi ekkert endilega að hafa áhrif á þjóðfélagið með skrifum sínum í sjálfboðavinnu.........

.......... verra er ef Davíð hefur haft eins lítil áhrif undanfarna tvo áratugi og hann vill sjálfur láta í veðri vaka.

Maðurinn var borgarstjóri í Reykjavík, formaður Sjálfstæðisflokksins, Forsætisráðherra og Seðlabankastjóri - en ber ekki nokkra einustu ábyrgð á hvernig komið er fyrir Íslandi !   Það er afrek út af fyrir sig.

Anna Einarsdóttir, 7.10.2009 kl. 13:14

8 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þetta var afskaplega veik vörn hjá Dabba kallinum. Semsagt, bara þeir sem hafa skemtipistla og auðvitað óháða fá stjörnu (vonandi ekki gyðingastjörnu).

Ég nota það sem mér finnst nytsamlegt í framboðs-pislunum hans og geri góðlátlegt grín að svikaáróðri mbl. sem ég les á förnum vegi t.d. bókasafninu  Svo fæ ég alltaf framboðslista ókeypis inn um lúguna sem ber nafnið Fréttablaðið og illa líkar mér að láglaunastéttir landsins þurfi að borga fyrir áróðurinn.

Já þeir halda að þeir standi sig vel, vinirnir Davíð og Jón Ásgeir á sinn hvorri hliðinni á mjólkurkúnni á kosnað þræla þessa lands.

Hef gerst áskrifandi DV og ekki seinna vænna í þessu áróðurssamfélagi svikaranna. DV stundar rannsóknarfréttamennsku að mínu mati og full þörf á. Gangi þeim vel að upplýsa svikin. Þeir hafa minn stuðning.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.10.2009 kl. 16:12

9 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Eftir að Dabbi sýndi lífsmark á ný kom ég mér snarlega upp eins konar altari á kontórnum mínum sem er helgað Dabba og Hannesi Hólmsteini og Margaret Thatcher. Jafnframt hef ég búið til mjög sætar plastaðar smámyndir af Dabba, sem henta vel til að bera í jakkavasa við hjartastað, og gefið þær mörgum eðalíhaldsmanninum. Á árum áður þegar leiðtoginn var á hátindi ferilsins dreifði hann myndum af sér ásamt undirskrift (hrafnaspark sem engin leið er að lesa annað úr en Guðmann eða jafnvel Guðssonur, af eðlilegum ástæðum) og þetta hefur sem betur fer farið beint á netið og nú get ég notað það til að efla okkar dásamlega leiðtoga. Hann mun koma aftur hvort sem ykkur líkar betur eða verr.

Baldur Fjölnisson, 7.10.2009 kl. 20:05

10 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Var þessi leiðari ekki endanleg sönnun þess hve höfundur hans er hipp og kúl ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 7.10.2009 kl. 20:09

11 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Guðmundur Jónsson, 7.10.2009 kl. 20:57

12 Smámynd: Guðmundur Jónsson

linkurinn var vitlaus

Skemtileg tölfræði 

Guðmundur Jónsson, 7.10.2009 kl. 21:02

13 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Ég er beinlínis brjáluð, karlinn víkur ekki orði að mér, ekki ein tilvísun í snilldina sem ég hef sett á bloggið, kveðið vísur meira að segja. Fari hann bölvaður, ekki skal ég skrifa stakt orð um hann aftur (í bili).

Sumt þarf að segja beint
segja það alveg hreint.
En viljir þú hantera hrós
helst skaltu tal'undir rós.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 9.10.2009 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband