8.10.2009
Framsýni, virðing og óábyrgt raup
Það er ekki seinna vænna að setja þennan Morgunvaktarpistil hér inn því nýr kemur á morgun. Hann var hluti af baráttunni í síðustu viku en ég steingleymdi að birta hann. Pistillinn stendur engu að síður fyrir sínu þótt fresturinn til að gera athugasemdir við Bitruvirkjun sé útrunninn. Hljóðskrá er viðfest neðst.
Ágætu hlustendur...
Tvær helstu sjálfstæðishetjur Íslendinga voru samtímamenn. Þetta voru 19. aldar mennirnir Jón Sigurðsson, kallaður forseti, og Jónas Hallgrímsson, skáld. Margar kynslóðir Íslendinga hafa alist upp við undurfögur ljóð Jónasar og frásagnir af hvatningarorðum og skörungsskap Jóns.
Meðal þess sem einkenndi ljóð og málflutning þessara tveggja manna var framsýni, ættjarðarást og umhyggja fyrir komandi kynslóðum - okkur, meðal annars. Þeir boðuðu virðingu fyrir náttúrunni og frelsi þjóðarinnar.
Ólíkt hafast menn að nú til dags. Það er ótrúlegt að horfa upp á hamslausa frekju og yfirgang misvitra stjórnmálamanna, hagsmunaafla og þrýstihópa. Ekki hvarflar að þessum mönnum að sýna framsýni eða skynsemi gagnvart landinu og komandi kynslóðum. Eigin stundargróði er það eina sem kemst að hjá þeim þó að ljóst megi vera hverjum sem nennir að kynna sér málin, að fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir fyrir tvö álver þurrausi orkuauðlindir okkar nær algjörlega og ekkert verði eftir í aðra atvinnustarfsemi eða handa afkomendum okkar.
Ómar Ragnarsson, sá mæti baráttumaður, hefur oft sagt söguna af því þegar hann spurði - fyrir margt löngu - einn helsta ráðamann þjóðarinnar sem var illa haldinn af virkjanafíkn, hvað gerðist þegar orkan væri öll uppurin. Sá svaraði um hæl: "Það verður vandamál þeirra sem þá verða uppi." Mig hryllir við slíkum hugsunarhætti sem afhjúpar sérgæsku, fyrirhyggjuleysi og fullkomið virðingarleysi fyrir komandi kynslóðum.
Ég er alin upp við mikla ást og aðdáun á Íslandi og móðir mín þreyttist aldrei á að tala um hve heppin við værum að vera Íslendingar, eiga þetta dásamlega land með hreinu lofti, tæru vatni og óviðjafnanlegri náttúru. Mér var líka kennt að við ættum landið öll saman og séum samábyrg fyrir framtíð þess. Rétt eins og íbúum á landsbyggðinni kemur við hvað gert er í höfuðborginni þeirra, þá kemur mér við hvernig þeir fara með landið mitt. Svo einfalt er það.
Nú biðla ég til þjóðarinnar - eða þess hluta hennar sem lætur sér annt um náttúruna, tæra vatnið og hreina loftið - Bitruvirkjun er aftur komin á dagskrá. Sveitarfélagið Ölfus er enn með á prjónunum að breyta náttúruperlunni Ölkelduhálsi í iðnaðarsvæði. Frestur til að skila inn athugasemdum við gjörninginn rennur út á morgun, 3. október. Þið getið lesið allt um málið á bloggsíðunni minni - larahanna.blog.is - og ég hvet alla sem þykir vænt um landið sitt og vilja ekki gera Ísland að sóðalegri verksmiðju þakið háspennumöstrum, til að taka þátt í andófinu.
Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur, skrifaði stórfína grein í vefritið Smuguna í gær og sagði meðal annars: "Því miður er það svo að stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands er tómt plat. Þetta eru skýjaborgir sem byggðar eru á raupi óábyrgra manna sem ógerlegt er að vita hvort eða hvað hugsa. Það er fráleitt að æða út í framkvæmdir við álver eins og gert er í Helguvík og halda að það "reddist einhvern veginn" þegar fyrirsjáanlegt er að það reddast ekki."
Stöndum með okkur sjálfum, landinu okkar og komandi kynslóðum Íslendinga.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Samgöngur, Tónlist, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Takk
Ásdís Sigurðardóttir, 8.10.2009 kl. 16:06
Í grein tveggja "sérfræðinga" um þessi mál í Morgunblaðinu er svonefnd "ágeng nýting jarðvarmasvæða" réttlætt með því, að ef það kemur í ljós að orkan fari minnkandi, sé einfaldlega hægt að draga úr dælingunni. Þetta sýnir best hve röng sú núverandi stefna er sem felst í framangreindri lýsingu og gleymir að geta þess, að með virkjuninni fylgir bindandi samningur til minnst 40 ára um afhendingu á orkunni til stóriðju í stað þess að fara hægar og öruggar í sakirnar.
Ómar Ragnarsson, 8.10.2009 kl. 20:10
Hvenær var þessi grein í Mogganum, Ómar?
Lára Hanna Einarsdóttir, 8.10.2009 kl. 20:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.