"Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi!"

Fyrir um það bil tveimur árum ætlaði ég að skrá öll málblómin og ambögurnar sem ég las og heyrði í fjölmiðlunum. Ég gafst fljótlega upp, þetta hefði verið full vinna. Þó var þetta löngu fyrir hrun og ekki hætt að prófarkalesa texta í jafnmiklum mæli og nú. Þegar peningar eru annars vegar og gróðinn minnkar er byrjað á að spara "ósýnilegu" störfin. Gallinn er bara sá að þá verða ambögurnar sýnilegri og skera augu og hlustir svo hvín í.

Ég hef marga hildi háð við íslenskuna á 22ja ára ferli við þýðingar, einkum skjátextagerð. Þó finnst mér ég ekki hafa náð nema þokkalegum árangri og öðlast sæmilegan orðaforða. Íslenskunám er ekki eitthvað sem maður afgreiðir þegar grunnskóla eða framhaldsnámi lýkur - það er lífstíðarglíma ef vel á að vera og bóklestur er þar besta námið. Ef bókin er vel skrifuð eða vel þýdd.

Flestir muna eftir umræðunni þegar bankamenn vildu gera ensku að ráðandi máli í bönkunum og jafnvel fleiri fyrirtækjum á Íslandi og alþingismaður nokkur stakk upp á að enska yrði jafnrétthá íslensku í stjórnsýslunni á Íslandi. Skiptar skoðanir voru um þetta en mig minnir að langflestum hafi þótt þetta fáránlegar hugmyndir - sem betur fer.

Þegar ég fór að lesa blogg kom mér skemmtilega á óvart hve margir voru vel ritfærir. Maður las ljómandi góðan texta eftir bláókunnugt fólk sem hafði loksins öðlast vettvang til að tjá sig opinberlega í rituðu máli. Það var verulega ánægjulegt að sjá hve margir lögðu metnað í að koma skoðunum sínum frá sér á góðri íslensku. Að sama skapi er sorglegt að lesa eða hlusta á fólk sem kemur varla frá sér óbrenglaðri setningu og grípur jafnframt hvað eftir annað til enskunnar þegar því er orða vant á móðurmálinu. Þetta er hættuleg gryfja sem smitar út frá sér og sorglegast er að verða vitni að þessu daglega í fjölmiðlunum. Enginn fjölmiðill er þar undanskilinn, en enginn er heldur fullkominn og ekki ætlast til þess. Slangur og slettur geta átt fullan rétt á sér í skemmtilega skrifuðum eða fluttum texta en þegar maður heyrir hluti eins og um "fráskildan" mann og að fólk hittist "í persónu" í fréttatímum er eiginlega of langt gengið. Öll gerum við mistök í meðferð móðurmálsins, það er óhjákvæmilegt og ekkert til að skammast sín fyrir. En er þetta ekki orðið of mikið... eða er ég bara svona gamaldags?

Ég flutti svolítinn pistil um íslenskuna á Morgunvaktinni á föstudaginn, hljóðskrá fylgir neðst. Ég gerði meira að segja mistök í þessum málfarspistli sem einn ágætur hlustandi benti mér á í tölvupósti og ég var honum mjög þakklát.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur,

Á tyllidögum er talað fjálglega um mikilvægi íslenskrar tungu og þátt hennar í menningu okkar, sjálfstæði og þjóðlegri reisn. Lögð er áhersla á nauðsyn þess að viðhalda tungunni og margar nefndir eru starfandi til að finna eða búa til ný íslensk orð yfir hvaðeina sem skýtur upp kollinum í tæknivæddu samfélagi nútímans. Sum nýyrðin verða töm á tungu og festa sig í sessi, en önnur hverfa og gleymast.

Semsagt - íslenskan er talin vera einn mikilvægasti þjóðarauður Íslendinga og eitt af því sem gerir okkur að þjóð. Gott og vel.

Ég efast ekki um að þjóðhöfðingjum og öðrum sem leggja áherslu á mikilvægi íslenskrar tungu í fortíð, nútíð og framtíð og lofa hana í hástert, sé alvara með orðum sínum. En gallinn er sá, að boðskapurinn nær sjaldnast lengra en í hástemmdar ræðurnar og honum er aðeins  hampað á eina degi ársins sem tileinkaður er íslenskunni, 16. nóvember, afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, þjóðskálds. Meira að segja þeir sem hafa vald til að gera eitthvað sitja með hendur í skauti og hafast ekki að til varnar móðurmálinu. Sagt var frá því, daginn fyrir Dag íslenskrar tungu fyrr í vikunni, að íslenska sé ekki lengur hluti af skyldunámi kennaranema. Það er dæmigert fyrir það kæruleysi og dugleysi sem einkennir allt sem snýr að verndun og viðhaldi tungunnar.

Í hinum áhrifamiklu fjölmiðlum er okkur boðið upp á málvillur, ambögur, stafsetningarvillur og ýmiss konar fáránlegan framburð og framsögn með ankannalegum og óþægilegum áherslum. Enda er prófarkalestri og málfarsráðgjöf ekki gert hátt undir höfði í fjölmiðlunum og víða virðist slíkum meintum óþarfa hreinlega hafa verið úthýst með öllu. Metnaður fjölmiðla til að vanda mál og framsetningu virðist vera að hverfa - þrátt fyrir áðurnefnd tyllidagaerindi og þennan eina dag á ári sem helgaður er móðurmáli Íslendinga.

Áhyggjur af framtíð íslenskunnar eru ekki nýtilkomnar. Fyrir rúmum 160 árum, í febrúar árið 1848, lét bæjarfógetinn í Reykjavík festa upp auglýsingu í bænum þar sem á var ritað: "Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi". Til áhersluauka gengu menn um bæinn, börðu bumbur og hrópuðu þessi hvatningarorð. Um kvöldið voru gefnar út nýjar reglur þar sem sagði meðal annars: "Næturvörður skal hrópa á íslenskri tungu við hvert hús". Á þessum tíma var íbúafjöldi í Reykjavík um ellefu hundruð manns og ýmsir höfðu áhyggjur af áhrifum dönsku herratungunnar á íslenskuna.

Svona uppákomur til málhreinsunar þættu hjákátlegar nú á dögum, en engu að síður er bráðnauðsynlegt að gera miklu meiri kröfur til móðurmálskunnáttu þeirra, sem tjá sig á opinberum vettvangi og þá einkum í útbreiddum fjölmiðlum. Stjórnendur miðlanna verða að gera sér grein fyrir áhrifamætti þeirra og gera íslenskri tungu mun hærra undir höfði en nú er gert. Málfarslegur sóðaskapur dregur úr trúverðugleika alls boðskapar - ekki síst frétta.

Enginn biður um fullkomnun, hún er ógerleg. Og lifandi tungumál breytist í áranna rás, þróast og þroskast. Það er ofureðlilegt. En öllu má ofgera og þegar kynslóðir eru hættar að skilja hver aðra og orðaforði, málskilningur og máltilfinning unga fólksins að hverfa, þá er mál að staldra við og hugsa sinn íslenskugang.

Við eigum að hafa 365 daga á ári Daga íslenskrar tungu og vernda móðurmálið okkar.

***********************************************

Spaugstofan gantaðist með þetta á laugardaginn eins og sjá má og heyra.

Spaugstofan 21. nóvember 2009

 

Þetta var útfærsla Spaugstofunnar á þekktu lagi eftir Atla Heimi Sveinsson við texta Þórarins Eldjárn. Það var notað í auglýsingu Mjólkursamsölunnar sem hefur verið dugleg við að hampa íslenskunni. Hér er frumgerðin, söngkonan unga heitir Alexandra Gunnlaugsdóttir.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Takk systir

Ég er orðlagt hrekkjusvín þegar ég heyri eða sé eitthvað sem mér mislíkar mikið. Kona skrifaði á Fésbók um daginn að nú væri jólamarkaður (e-s staðar) og hann opinn 24/7.  Í stökum kvikindisskap spurði ég hana af hverju hann yrði ekki opnaður fyrr en 24. júlí!  Hún sendi mér samúðarfulla leiðréttingu; að þetta þýddi.... eins og þú veist.

Eygló, 23.11.2009 kl. 04:18

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Æ, ekki finnst mér hún nú beint flæðandi flott íslenskan sem sýslumaður var að smyrja á Reykvíkinga fyrir 150 árum. Tungumálið er síkvikt og hefur þann tilgang einan að miðla hugmyndum og hugsun milli manna og varðveita þekkingu um þau viðfangsefni sem við er að fást á hverjum tíma. Það er samt rétt og ganglegt að veita því linnulaust aðhald m.a. vegna þess að samræmdur skilningur er grundvöllur nytsemdar málsins, en ekki vegna þess að einhver eldri útgáf íslenskunnar sé brúklegri, auðugri eða heilli en sú sem nútíma-íslendingar beita- síður en svo.

- Svo eru nú stafsetningareglunar kafli útaf fyrir sig, Blaðamannfélagið mælitst til þess fyrir 100 árum að teknar yrðu upp samræmdar stafsetningareglur því í gangi væru a.m.k. 10-20 sett af mismundi reglum og blöndur þar á milli, þó voru Íslendingar ekki nema um 100 þúsund þá, - og eftir það hafa svo samræmdu reglurnar sem teknar voru upp breyst mikið. - Þá voru þó auk þess sárafáir sem rituðu af einhverju marki miðað við allan þann fjölda sem dagsdaglega pikkar á tölvunar sínar í dag, glósar í öllum þessum háskólum, og skrifar ritgerðir af miklum móð að ekki ógleymdum SMS skilaboðum og allskyns smærri viðfangsefnum og svo lestur alls þess.

- Þrátt fyrir allt hefur þjóðin því í heild aldrei verið betur þjálfuð í beitingu málsins á alla mögulega vegu - og íslenskan sjálf aldrei verið jafn auðugt og heilsteypt tjáningatæki og hún er nú.

Helgi Jóhann Hauksson, 23.11.2009 kl. 05:24

3 identicon

Það er rétt Helgi. Það er ekki verið að tala um neina fortíðarhrifningu (mín þýðing á nostalgíu), heldur ættum við að hafa skynsamlega stjórn á þróun málsins með því að lagfæra galla. Ekki láta tilviljanakenda og kæruleysislega slettunotkun ráða ferðinni. Ég hef til dæmist barist fyrir því að notkun hugtaksins að leigja verði lagfærð og notað eins og hugtakið að lána. Ef sagt er að ég leigi íbúð, hvernig er hægt að vita hvort ég á hana og leigi hana út eða hvort ég bý í henni og borga fyrir?

Ef þetta er ekki vel orðað hjá mér þá yrði ég þakklátur ef einhver leiðrétti mig : )

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 16:56

4 identicon

Ég læt það oft fara í taugarnar á mér þegar fjölmiðlafólk skrifar eða talar slæma íslensku. Ég er stundum ekki viss hvort það er að aukast eða hvort það er einfaldlega að fara meira í taugarnar á mér með aldrinum.

Varðandi enskusletturnar þá get ég verið mjög slæm í þeim. Ég bjó í Bandaríkjunum í 7 ár og það hefur litað tungumál mitt mikið, bæði orðaforða og hvernig ég byggi setningar upp.  Ég er þó að koma til eftir tæplega 2ja ára veru á Fróni.

Sólveig Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 16:56

5 identicon

Hvað er að því að tala um fráskildan mann þótt oftar sé talað um fráskilinn? Er þér illa við að maður sé kallaður fráskilinn ef hann er skilinn við konu sína (fyrrverandi) og ekki tíðkist að tala um að hjón skilji hvort frá öðru, eða sé skilið hvort frá öðru? Viltu að maður í þessari stöðu sé kallaður viðskilinn? Eða er ef til vill best að kall hann skilinn?

Eða er þér illa við að notuð sé þolfallsmyndin -skildan? En þessi þolfallsmynd er harla gömul í málinu og eiginlega því á skrá yfir það sem fegurst getur talist í íslensku. Eins og til dæmis item.

 Það væri gaman að vita hvers vegna þessi frá- eða viðskilnaður olli þér svo miklu hugarangri að þú greipst til varna.

Jóhannes (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 19:25

6 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ættuð þið Leiður Tuðna nú & Ómur Grænn ekki bara að 'ztobbna zamtök málfarzfazizta' á Móbló bloggeríinu & reyna að útrýma okkur hinum, zem að erum meira fyrir að leza innihaldið, frekar en að velta okkur upp úr umbúðunum alla daga ?

~ezzgan~ ...

Steingrímur Helgason, 23.11.2009 kl. 23:33

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nei, Steingrímur minn...  ezzgan...  ekki ætla ég að stofna né vera með í zamtökum málfarzfazizta hér né þar. Geri aldrei athugasemdir við málfar fólk, skrif eða stíl og læt mér nægja að njóta eða pirrast með sjálfri mér. Sprakk aðeins núna af því ótrúlega mikill pirringur hafði safnast fyrir og segi nú ekki orð um íslenska tungu og meðferð hennar um sinn. Innihaldið er vissulega mikilvægt en stundum fer það forgörðum vegna umbúðanna, því miður.

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.11.2009 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband