Færsluflokkur: Bækur

Hundgá úr annarri sveit

Eyþór Árnason"Þessi er líka gamall vinnufélagi og nýbyrjaður að blogga. Hann er með yndislegri mönnum og bloggið hans eftir því. Hann segir þannig frá, að fyrr en varir er maður kominn á staðinn og sér atburðina ljóslifandi fyrir sér. Skrifin hans virka á mig eins og prósaljóð. Hann á að skrifa ljóðabækur." Þessa umsögn skrifaði ég í nóvember 2007, þá nýbyrjuð að blogga sjálf.

Hann hefur verið latur við bloggið upp á síðkastið og tregur til að "yfirgefa fjörið og hlýjan faðm Feisbúkk og fara í einsemdina á blogginu", eins og hann gantaðist með um daginn. Því miður - ég sakna pistlanna hans og það gera örugglega fleiri. En nú vitum við hvað hann hefur verið að sýsla undanfarið.

Við höfum ferðast með honum vítt og breitt um landið, farið með honum í göngur, niðurrekstur, réttir, eftirleitir og veiði. Við höfum borðað ljúffenga kjötsúpu hjá foreldrum hans í Skagafirðinum og hafragraut í eldhúsinu hjá honum sjálfum. Allt í huganum á vængjum myndrænna lýsinganna á blogginu hans. Svona skrifaði hann um réttirnar í september 2007:

Réttir, bara þetta orð, hljómurinn og lyktin og áður en þú veist af ert þú staddur í réttinni miðri umvafinn sauðfé og einblínir á mörkin. Pabbi stendur við dilkinn og segir manni til: "Þarna er ein kollótt, þessi gamla hornbrotna, þarna upp við vegginn, móflekkóttur hrútur"... og svo framvegis.  Þetta er gaman. Einu sinni fór í taugarnar á mér þegar verið var að kalla á mann og segja manni að taka nú þessa kind, því mér fannst ég vera fullfær um að finna þær sjálfur. Það fer ekki í taugarnar á mér lengur.  Enda búinn að Réttirviðurkenna fyrir sjálfum mér að karl faðir minn hefur sérstakan radar í hausnum þegar sauðfé er annars vegar. En ég var seigur núna, nokkuð fljótur að sjá mörkin og svo eru allir bæir með númer nú til dags. Svo var ég ansi lipur við að ná fénu og þar hef ég sko engu gleymt! Ég geng rólega um réttina, miða út ærina eða lambið og geri svo leifturárás. Mér finnst ég vera snillingur í þessu! En þegar maður var lítill gátu svona árásir endað á því að liggja á bakinu í drullunni og allir hlógu, en maður stóð upp aftur. Og fer aftur í réttir. Réttir. Það er eitthvað við þetta orð. Það er dregið sundur, spjallað við sveitungana og það sést ekki vín á nokkrum manni, bara skroppið í kaffi í skúrinn hjá kvenfélaginu og féð síðan rekið heim þar sem bíður heit kjötsúpa. Réttir. Þar sá maður fyrst á ævinni fullan mann, almennilegan hundaslag, menn að skamma fjallskilastjórann og fólk sem maður vissi ekki að væri til í sveitinni.  En það var ekki mikið sungið. Það var á gangnasunnudaginn sem var sungið, þá var sungið meðan einhver rödd var til. En það er önnur saga og efni í annan pistil. En ég held að Akrahreppsbúar ættu að halda sinni gömlu Silfrastaðarétt aðeins lengur. Fara fram í kofa á fimmtudagskvöldi. Smala föstudag og laugardag og reka niður. Rétta síðan á sunnudegi. Ég hef trú á því að þeir sem vilja fara í göngur fái frí á föstudegi. Það er einhvern veginn léttara að fá frí á föstudegi en mánudegi. Og ég ætla að mæta í réttir að ári, þó að ég sé ekki lengur skrifaður fyrir markinu mínu í markaskránni, en það er í góðum höndum hjá Drífu og Fúsa. Réttarstígvélin eru enn í bílnum... ég þvæ þau bráðum...

Við komumst ekki á gangnafundinn á góunni frekar en hann - en fórum samt því hann skrifaði bréf og skyndilega vorum við komin norður. Og hann bauð okkur með sér á ættarmót í júlí og fyrr en varði vorum við orðin vel málkunnug ættingjum hans og forfeðrum - okkur var kippt inn í fjölskylduna og við fundum að við vorum velkomin. Hlýjan og húmorinn skín út úr öllumEyþór Árnason tekur við bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar - Ljósm. Mbl. Kristinn - 13.10.09 hans skrifum, hvað sem hann fjallar um hverju sinni og í ofanálag er hann feykilega góður hagyrðingur og skellir stundum á bloggið svona líka sallafínum kveðskap .

Og eins og ég stakk upp á í nóvember 2007 þá skrifaði Eyþór Árnason ljóðabók og í gær voru honum veitt verðlaun fyrir hana - eða óprentað handrit að henni. Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Fyrir fyrstu ljóðabókina sína! Þegar fréttin kom í sjónvarpinu rétti ég úr mér í sófanum, brosti út að eyrum og svei mér ef það glitraði ekki lítið tár á hvarmi. Ég klökknaði og var feykilega stolt af "mínum manni". Hvernig líður þá fólkinu hans - fjölskyldunni hér syðra og ættboganum í Skagafirði sem maður kannast svo vel við frá skrifum hans? Ég er ekki búin að sjá bókina, enda er hún ekki komin út. En ef ég fæ mér einhverja bók á næstunni þá verður það ljóðabókin hans Eyþórs - Hundgá úr annarri sveit. Eftir að hafa lesið hvern dýrindis prósann á fætur öðrum á blogginu hans veit ég fyrir víst að þetta eru eðalbókmenntir. Til hamingju með viðurkenninguna, Eyþór minn. Megirðu skrifa margar, margar bækur sjálfum þér og okkur hinum til gleði og ánægju.

Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 13. október 2009

 

Eyþór Árnason - Glaður og auðmjúkur - Moggi 14. október 2009


Hrunið og feigðarósinn

Þessa ætla ég að lesa.

Þessa er ég að lesa.


Bækur á óskalistann

Ég lærði að lesa í laumi þegar ég var fimm ára. Eldri systir mín var í sex ára bekk í Landakotsskóla og ég fékk að fylgjast með þegar hún æfði sig gegn því að ég væri þæg og þegði. Þess vegna vissi enginn fyrr en ég var allt í einu orðin læs. Síðan hef ég verið með nefið ofan í bókum - og það er óralangt síðan ég var fimm ára.

Þessa bók nefndi ég nýverið, þá nýbyrjuð að lesa hana. Hún veldur mér engum vonbrigðum og stendur fyllilega undir væntingum. Hér er umsögn um hana á Smugunni. Ég held að flestir dómar um bókina hafi verið í þessa veru.

Ofsi - Einar KárasonÉg vinn hjá sjálfri mér og auðvitað gaf vinnuveitandinn starfsmanninum afmælisgjöf um daginn. Það var Ofsinn hans Einars Kárasonar sem ég hlakka mikið til að lesa. Ég fékk fyrstu Sturlungabók Einars, Óvinafagnað, þegar hún kom út fyrir mörgum árum og það var geggjuð bók. Hér er Víðsjárviðtal við Einar frá 2. des. sl. (aftast í þættinum) þar sem Einar segir m.a. frá tilurð þriggja orða kaflans í Óvinafagnaði. Hann hélt að enginn hefði tekið eftir þessari snilld, en það er aldeilis ekki rétt! Ég spái því að þetta verði trílógía hjá Einari.

Þar kom að því að maður fengi áhuga á Sturlungu. Sami vinnuveitandi gaf sama starfsmanni síðan bráðskemmtilegt þriggja kvölda námskeið hjá Endurmenntun þar sem Einar fór á stökki yfir Sturlungu og leiðbeindi um hvernig þægilegast væri að lesa hana. Vonandi hef ég tíma til þess þegar og ef um hægist. Ofsi hefur fengið einróma lof og síðast í gær valdi starfsfólk bókaverslana bókina bestu skáldsögu ársins. Gerður Kristný var svo með bestu barnabókina. Kastljós sýndi frá afhendingu viðurkenninganna.

Í einni af gramsferðum mínum í bókabúðir fann ég litla bók sem vakti athygli mína. Hún var svo skemmtileg og svo ódýr að ég keypti fjórar. Gaf þrjár í afmælisgjafir en hélt eftir eintaki fyrir sjálfa mig. Þetta er bókin Jólasveinar - af fjöllum í fellihýsi - Magnea J. MatthíasdóttirJólasveinar - af fjöllum í fellihýsi eftir Magneu J. Matthíasdóttur með myndskreytingum eftir Ólaf Pétursson. Í bókinni er fjallað um nútímavæðingu jólasveinanna í bundnu máli, listilega gert. Það er ekki oft sem bækur henta öllum aldurshópum en það gerir hún þessi. Dæmi um minn gamla uppáhaldsjólasvein, Kertasníki, með leyfi höfundar:

Kertasníkir um kerti bað
er kom hann mannabyggðum að,
í hellinum vild'ann hafa bjart
og hrekja burt vetrarmyrkrið svart.

(Nú þjóðar velferð hann þættist styrkja
og þyti upp á heiðar að virkja.)

En ein er sú bók sem ég ágirnist einna mest og höfðar ótrúlega sterkt til sagnfræðinördsins í mér. Ég skil ekkert í mér að hafa ekki lært sagnfræði. Það er bók með því stóra nafni Saga mannsins - frá örófi fram á þennan dag, hvorki meira né minna. Ég er búin að fletta henni í bókabúð og sökk ofan í hana á staðnum. Bókin er byggð á erlendu verki sem komið hefur út í ýmsum löndum, en ritstjóri íslensku útgáfunnar er Illugi Jökulsson. Vanur maður á þessu sviði sem öðrum. Illugi ritstýrir líka hinu bráðskemmtilega tímariti Sagan öll sem ég hef verið áskrifandi að frá fyrsta tölublaði. Hér er smá sýnishorn af opnu úr bókinni.

Saga mannsins - opna

Illugi var í Mannamáli á sunnudaginn að ræða um bókina, en því miður náðu Kiljuspekúlantar ekki að fjalla um hana nema í mýflugumynd í síðustu Kilju fyrir jól í gærkvöldi. Þau verða eiginlega að taka hana eftir áramót, því svona bækur eru sígildar og eilífar. Miklu meira en bara jólabækur.

Ef jólasveinar eru til í alvörunni, eins og grunur leikur á, hlýt ég að fá þessa í skóinn.


Mikið svakalega hlakka ég til...

Nýja Ísland - listin að týna sjálfum sér...að lesa þessa bók. Er reyndar byrjuð og strax í fyrsta kafla datt ég í þvílíka nostalgíu og gleymdi mér alveg í barnæskunni og uppvextinum. Við Guðmundur hljótum að vera á svipuðum aldri því upplifunin af fortíðinni er mjög svipuð hjá okkur báðum. Endurlitið er því eðlilega með sömu formerkjum. Ég er þegar búin að gefa systursyni mínum eintak í afmælisgjöf og kannski splæsi ég í jólagjafir líka. En fyrst ætla ég reyna að finna mér tíma til að klára bókina.

Ólína Þorvarðar skrifaði um bókina hér en hún hefur það fram yfir mig að vera búin að lesa hana. Guðmundur var í Silfrinu fyrir réttum mánuði síðan, 26. október, að ræða við Egil um bókina. Sú umræða kveikti hjá mér áhuga á henni og því sem Guðmundur er að skrifa um. Ég hef líka mikinn áhuga á sagnfræði og að skoða hlutina í ljósi sögunnar, þróunina og tengja við nútímann. Það er einmitt það sem mér heyrist í viðtalinu að Guðmundur sé að gera, enda er maðurinn sagnfræðingur. Hér er bloggfærsla höfundar frá 23. okt. þegar bókin var að koma í búðir. Hann er nú farinn að blogga hér. En hér er þetta fína viðtal við Guðmund Magnússon í Silfrinu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband