30.8.2009
Lýðræðisleg rökræða og gagnrýnin hugsun
Ég sé að orð mín í síðustu færslu um að þjóðin sé kannski ekki nógu þroskuð og skynsöm til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu hafa farið fyrir brjóstið á einhverjum. En setjið þau í samhengi við það sem ég segi aðeins seinna um hvernig ástatt er fyrir þjóðarsálinni. Þessi hugleiðing mín á ekkert skylt við "þið eruð ekki þjóðin" né heldur vil ég gera lítið úr lýðræðinu. Langt í frá. Ég bíð spennt eftir efndum um stjórnlagaþing, nýja stjórnarskrá og virkara lýðræði.
Ég veit ekki hvort ég get útskýrt almennilega hvað ég á við og þar spilar ýmislegt inn í. Ég heyrði sagt eða datt sjálfri í hug um daginn að "þar sem tveir Íslendingar koma saman, þar er ágreiningur". Gott og vel - við erum fólk með miklar og sterkar skoðanir. En hvaðan koma þessar skoðanir? Hafa þær mótast og styrkst í framhaldi af upplýsingum og rökræðum? Hafa þær myndast í framhaldi af öflugum fréttaflutningi, góðum upplýsingum og útskýringum á flóknum fyrirbærum svo allir skilji? Höfum við þær skoðanir af því einhver einstaklingur eða hópur sem við tilheyrum hefur þær? Höfum við mótað skoðanir okkar út frá eigin hagsmunum, flokkshagsmunum eða samfélagslegum hagsmunum? Höfum við þessar skoðanir af því einhver leiðtogi sem við dýrkum sagði okkur að hafa þær? Höfum við þær "bara af því bara"? Fleiri möguleika mætti eflaust tíunda.
Umræðan í þjóðfélaginu hefur ekki verið beysin undanfarin ár og áratugi. Það vita allir sem vilja vita. Hér hefur ríkt þöggun, bæði meðal almennings og fjölmiðla. Ekki mátti fjalla um viss mál af því valdhöfum hugnaðist það ekki. Ekki mátti segja sannleikann um viss mál af því eigendum fjölmiðla þóknaðist það ekki. Fólki var (og er?) refsað harkalega ef það sagði eitthvað sem kom stjórnvöldum (yfirmönnum, flokki o.s.frv.) illa eða gekk gegn stefnu þeirra. Hér var hræðsluþjóðfélag og enn eimir töluvert eftir af því. Netmiðlar og blogg hafa þó opnað umræðuna mjög og upplýsingastreymið er orðið meira og hraðara en nokkru sinni. Vonandi til frambúðar.
Það eru einkum skoðanakannanir og niðurstöður þeirra undanfarið sem hafa valdið mér heilabrotum. Og reyndar líka að hluta úrslit kosninganna í vor. Ég hélt fyrir kosningar að nokkuð ljóst væri hverjir og hvað olli hruninu. Engu að síður fengu "hrunflokkarnir" ótrúlega mikið fylgi þótt ekki hafi þeir náð meirihluta. Fjölmargir kjósendur virðast halda með "sínum flokki" eins og fótboltaliði - gjörsamlega burtséð frá því hvaða stefnu flokkurinn hefur, hverjir eru þar í forystu, hvaða fortíð bæði menn og málefni hafa og hvaða framtíð þeir sjá fyrir sér. Ég hef þekkt fólk árum og áratugum saman sem kýs sinn flokk jafnvel þótt það sé hundóánægt bæði með fólkið og stefnuna. En að kjósa hann ekki væru einhvers konar drottinsvik. Þetta skelfir mig.
Það er þetta allt sem ég á við þegar ég tala um að þjóðin sé ekki nógu þroskuð og skynsöm til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um mál eins og t.d. Icesave. Það er svo stórt og flókið og afleiðingar þess - hvort sem um er að ræða að hafna samningnum eða samþykkja hann - eru svo gríðarlegar að ég leyfi mér að efast um að við gerum okkur almennt grein fyrir því. Erum við nógu upplýst um lagatæknileg atriði, alþjóðasamninga, EES-vinkilinn og ýmsar aðrar hliðar samningsins til að taka afstöðu? Hverjir hafa verið mest áberandi í umræðunni og hvaða hagsmuni hafa þeir aðilar haft að leiðarljósi? Eiginhagsmuni, flokkshagsmuni eða afdrif íslensks samfélags? Hvernig stendur á því að þeir sem upphaflega skrifuðu upp á ábyrgðina hafna henni nú? Flokkspólitískar skotgrafir og lýðskrum eða einlæg sannfæring? Hverjir hafa verið fremstir í flokki og stýrt umræðunni um Icesave, haft hæst og því kannski náð til flestra? Hvernig er fréttamat fjölmiðla og hverjir hafa náð eyrum þeirra - og þar með þjóðarinnar? Maður spyr sig...
Ísland er ungt lýðveldi og fróðir menn segja að hér hafi lýðræðisleg rökræða og gagnrýnin hugsun aldrei fengið að þroskast sem skyldi. Flokkspólitískir- og eiginhagsmunir "elítunnar" og peningaaflanna hafi ráðið mestu um þróun umræðunnar og enn eru þeir hagsmunir firnasterkir. En fólk er farið að sjá þetta og skynja. Umræðan í vetur hefur borið þess merki. Æ fleiri hafa fengið tækifæri til að taka þátt í umræðu um aðskiljanlegustu mál, einkum í gegnum bloggið og netmiðlana. En stundum er þó ansi stutt í upphrópanir, ofstæki, flokkspólitíska sleggjudóma og rökþrot. Sumir halda því fram að þeir sem ekki eru hagfræðimenntaðir eigi ekki að tjá sig um eða hafa skoðanir á efnahagsmálum eins og hér sést. Þetta er dæmi um hættulega skoðanakúgun þar sem þess er krafist að "faglegur bakgrunnur" verði að vera til staðar til að geta tjáð sig um mál af skynsemi og gert lítið úr skoðunum þeirra sem ekki hafa þann bakgrunn. Ég er ekki hagfræðingur, stjórnmálafræðingur eða guðfræðingur og hef ekki faglegan bakgrunn í þeim fræðum. Má ég þá ekki tjá mig um eða hafa skoðun á efnahagsmálum, stjórnmálum eða trúmálum?
Ef ég ætti að kjósa um Icesave-samninginn í nánustu framtíð væri ég í vandræðum. Þó hef ég fylgst nokkuð vel með umræðunni þótt ég hafi ekki blandað mér í hana. Ég hef ekki ennþá hugmynd um hvað það myndi þýða fyrir framtíð okkar ef ég samþykkti hann - né heldur ef ég hafnaði honum. Á okkur öllum hafa dunið misvísandi upplýsingar og afar ólíkar skoðanir. Og við vitum ekki ennþá hvort allar upplýsingar hafa komið fram - hvort einhverju er enn haldið leyndu. Ennþá, tæpu ári eftir hrunið, erum við sár og reið. Við höfum ekki ennþá séð glitta í réttlæti og nær daglega fáum við fréttir af þjófnaði, misnotkun, spillingu, siðleysi og óréttlæti. Ekki hefur verið hróflað við þeim sem bera ábyrgð á Icesave - eða hruninu yfirleitt. "Af hverju eigum við að gjalda gjörða þeirra," spyrjum við réttilega og reiðin magnast með hverjum deginum. Mér líður a.m.k. þannig og eflaust ansi mörgum.
Við erum þjóð í uppnámi. Að mörgu leyti stöndum við nú í rústum samfélags sem afar okkar og ömmur, langafar og langömmur og aðrir forfeður þræluðu sér út til að byggja upp. Flestum sárnar hvernig farið hefur verið með samfélag sem var að mörgu leyti mjög gott þótt á því hafi verið stórir gallar - en hefði getað orðið enn betra ef öðruvísi hefði verið staðið að málum. Ef annars konar "trúarbrögð" og annað fólk hefði ráðið för. Ef stakkur hefði verið sniðinn eftir vexti. En svo fór sem fór og ég horfi með hryllingi á allt of marga hugsa og framkvæma eins og ekkert hafi í skorist og sjálfsagt sé að halda áfram á sömu braut. Sjáið bara Magma og HS Orku málið.
En kannski á þetta með þroskann og skynsemina aðeins við um sjálfa mig, ekki aðra. Ef ég hef sært einhverja með þessum orðum biðst ég afsökunar. En ég mæli með hlustun á þessi viðtöl hér að neðan til frekari áréttingar meiningum mínum.
Vilhjálmur Árnason í Silfri Egils 9. nóvember 2008
Páll Skúlason hjá Evu Maríu á RÚV 28. desember 2008
Viðtal við Vilhjálm Árnason á kosningavef RÚV í byrjun apríl
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:20 | Facebook
Athugasemdir
Svo sammála, svo sammála!
Þessi svakalega hollusta við "leiðtogann" er skelfileg. Það virðist vera alveg sama hvað gerist, eða gerist ekki... alltaf er það einhverjum öðrum að kenna heldur en "leiðtoganum". Það má ekki einu sinni koma með ábendingar, þá er ráðist á þær af gjammandi hundastóði. Kannast fólk við söguna um "Nýju föt keisarans"? Og hvað var þetta með bjálkann og flísina? Nei... sumir eru bara svo gjörsamlega vissir um að það sé *ekkert* að hjá þeim sjálfum, þetta kallast afneitun.
Og, enn... tæpu ári eftir hrunið, þá er ekki einu sinni búið að setja fólk í farbann, hvað þá gæsluvarðhald, til að "spilla ekki rannsóknarhagsmunum", eins og sagt er. Mér finnst það ekkert skrýtið að almenningur sé ólgandi. Ég er ólgandi líka.
Argh!
Einar Indriðason, 30.8.2009 kl. 15:10
Ég sé ekki annað en að þjóðaratkvæðagreiðsla myndi verða til þess að þetta pukur og viðbjóður myndi hætta amk. í þessu máli og ráðamenn neyddust til að fara að tala við þjóðina. Það er ekki þar með sagt að fyrirvararnir virki ekki, kannski nægja þeir og hafa breytt þessum afleik sem samningurinn áður var yfir í nýjan. Ég er bara ekki viss og ég er ekki viss um að þeir séu sjálfir vissir um það.
Mér er það enn hulin ráðgáta af hverju ráðamenn í Bretlandi komust upp með að setja á okkur hryðjuverkalög án þess að við (lesist fyrrverandi og núverandi stjórnvöld) æmtum yfir því. Mig er farið að renna í grun um að það hafi kannski verið fullgild ástæða fyrir því að þeir settu á þjóðina hryðjuverkalögin og ég vil þeir segji okkur ástæðuna. Sú skýring á sennilega heima í rannsókninni og spurning er hvort að sú skýring myndi breyta afstöðu okkar í að skrifa undir samningana.
Sú virðing sem þú berð fyrir ráðamönnum um að þeir einir geti samið og að við séum of reið og illa að okkur finnst mér brosleg. Ef líf mitt lægi við þá man ég aðeins eftir tveimur stjórnmálamönnum sem ég gæti treyst. Munurinn hins vegar á þjóðinni og spilltum stjórnmálamönnum (með örfáum undantekningum) er hins vegar sá að ég treysti þjóðinni betur. Þar erum við ósammála og allt í lagi með það.
Anna María (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 15:18
Lára Hanna ég játa að frammistaða þín að undanförnu hefur ollið mér vonbrigðum.
Þú segir að þjóðin sé kannski ekki nógu þroskuð og skynsöm til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er einmitt rökin í alræðisríkjunum, þar sem þeir þroskuðu eiga að hafa skoðanir fyrir okkur hina. Það er einmitt á þessum slóðum þar sem markaðsvæðing og einkavæðing er alfarið talin af hinu illa.
Þú segir að sumir segja að þeir sem séu ekki hagfræðimenntaðir, telji að eigi ekki að hafa skoðanir á efnahagsmálum. Þú hlýtur að hafa verið að eiga skoðanaskipti við ,,suma" sem vilja einmitt þjóðfélag þar sem sumir fái að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu og aðrir ekki. Ég vil ekki slíkt þjóðfélag. Hins vegar vil ég þroskaða umræðu.
Um allt land er fullt af fólki sem er að selja heilsuvörur í pýramídasölu. Það fer á kvöldnámskeið og eftir það veit allt um næringarfræði. Næringarfræðingar þurfa oft að taka til fótanna þegar þeir hitta þessa ,,sérfræðinga". Sumir þeirra kalla sig næringaþerapista, hvað sem það nú þýðir.
Það sama á um lögfræði, hagfræði og fleiri greinar. Mjög oft koma gagnlegir punktar frá fólki með bakgrunn úr öðrum greinum, en þegar fólk hefur litla þekkingu, þá vill oft vera að það þykist vera orðið sérfræðingar og þá er þekkingin orðin hættuleg þekking. Dæmi um þetta er þegar Ragnar Hall gerði athugasemdir við Icesave samninganna spruttu upp ótal sérfræðingar hér á blogginu og gerðu lítið úr Ragnari. Við afgreiðslu á þessu Icesavedæmi er ljóst að tekið hefur verið tillit til allra athugasemda Ragnars. Fagleg sjónarmið hafa verið sett í öndvegi.
Ég hef oft átt mjög ánægjulegar viðræður við fólk sem hefur lítinn sem engan hagfræðigrunn. Tel mjög mikilvægt að allir þeir sem vilja geti tekið þátt í slíkri umræðu. Það er hins vegar mikilvægt að fara rétt með hvað sagt er, en hliðra ekki til sannleikanum til þess að komast hjá því að geta rökrætt.
Þú hefur nokkrum sinnum rætt um þá flokka sem stóðu að hruninu. Mér finnst þú oftar en ekki gleyma þætti Samfylkingarinnar í því efni. Getur verið að það hafi með pólitíska valskynjun að ræða.
Það er mikilvægt að kryfja þetta hrun, en ekki síður að skipuleggja þá framtíð sem hér á að byggja á. Ef almenningur er tekinn inn í þá umræðu á tel ég líklegra að niðurstaðan verði í einhverja þá átt sem við viljum sjá hana. Við þurfum að treysta lýðræðinu. Hún er örugglega ekki fólgin í því að selja auðlyndir okkar og hún er heldur ekki fólgin í því að skrifa undir samning eins og Icesave og fá hann samþykktan (án fyrirvara) eins og þau Steingrímur Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir lögðu mikla áherslu á að yrðu samþykktir á Alþingi. Það eru engin rök fyrir mig að einhverjir einstaklingar í Framsóknarflokknum eða Sjálfstæðisflokknum hafi tekið rangar ákvarðanir fyrir einhverjum tíma. Ég leyfi mér að taka ákvarðanir hvað ég kýs, eftir frammistöðu stjórnmálamanna á hverjum tíma og þá vel ég þann flokk sem uppfyllir væntingar mínar.
Sigurður Þorsteinsson, 30.8.2009 kl. 15:33
Við vitum ekkert hvað var og er í gangi;og því ekki tímabært að skrifa undir eitt né neitt!
Kalikles.
Kalikles, 30.8.2009 kl. 15:44
Takk fyrir þennan pistil Lára, ég hef sjálf oft fundið fyrir því ef ég ljái máls á 'óvinsælum efnum' að ég er umsvifalaust flokkuð í hólf (stundum nokkuð vafasöm hólf meira að segja).
Það er kannski aðeins eitt sem bæta má við pistilinn þinn: Við Íslendingar erum afar vel menntuð þjóð. Við fylgjumst almennt vel með, þ.e. mun betur en gengur og gerist í mörgum öðrum ríkjum. Við höfum því allar forsendur til að geta beitt gagnrýnni hugsun og rökhyggju. En samfélag sem mótast hefur af ættarveldum og vinaklíkum á e.t.v. erfitt með að hreinsa hugann og leggja kalt mat á hlutina...
Aðalheiður Ámundadóttir, 30.8.2009 kl. 15:45
Sæl Aðalheiður,
Svo að ég vitni í athugasemd þína hér að ofan:
"Það er kannski aðeins eitt sem bæta má við pistilinn þinn: Við Íslendingar erum afar vel menntuð þjóð. Við fylgjumst almennt vel með, þ.e. mun betur en gengur og gerist í mörgum öðrum ríkjum. Við höfum því allar forsendur til að geta beitt gagnrýnni hugsun og rökhyggju. En samfélag sem mótast hefur af ættarveldum og vinaklíkum á e.t.v. erfitt með að hreinsa hugann og leggja kalt mat á hlutina... "
Við erum sem sagt afskaplega vel þroskuð þjóð sem að hefur samt sem áður ekki þroska til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu að þínu mati. Við þurfum að hreinsa hugann. Já, nú er það áskorun til okkar allra að hreinsa hugann.... jamm og málið er dautt. Hugleiðsla er málið.
Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 16:41
Anna María... Ef þú hefur lesið skrif mín um eitthvert skeið ættirðu að hafa séð að ég ber enga virðingu fyrir ráðamönnum eða valdhöfum yfirhöfuð. Og alls ekki stjórnmálaflokkum. Ég ber virðingu fyrir nokkrum einstaklingum í stjórnmálum, takmarkaða þó, en þeir eru ansi fáir.
Sigurður... Ég ætla ekki að þrasa við þig um útúrsnúninga. Þér lætur mjög vel að taka stakar setningar og snúa út úr þeim. Það hefurðu alltaf gert, a.m.k. hér á mínu bloggi. Hvað orð þín um að ég gleymi Samfylkingunni sýna þau að þú hefur lítið lesið af skrifum mínum. Frá því ég byrjaði að blogga 1. nóvember 2007 hef ég ítrekað gagnrýnt Samfylkinguna harkalega - fyrir allt mögulegt. Strangt til tekið mætti flokka hana sem einn "hrunflokkanna" vegna aðgerðarleysisins eftir hrun og hrun(a)dansins eftir að hún komst í stjórn fyrir hrun. En oftast er talað um Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk sem hrunflokkana. Samfylkingin er þar á hliðarlínunni en þó vel sýnileg. Þessa dagana hef ég gagnrýnt báða stjórnarflokkana fyrir aðgerðir þeirra eða aðgerðaleysi í málum HS Orku.
Þórkatla... Menntun og sá þroski sem hér um ræðir haldast ekki endilega alltaf í hendur. Horfðu og hlustaðu t.d. á þetta. Við erum vel menntuð þjóð eins og Aðalheiður nefnir, en höfum ekki fengið tækifæri til að ástunda gagnrýna hugsun og opna, lýðræðislega rökhugsun. Athugasemd þín um orð Aðalheiðar er mjög gott dæmi um hvernig umræðan hefur verið en ætti einmitt alls ekki að vera. Ómálefnalegur útúrsnúningur án þess að minnsta tilraun sé gerð til að skilja eða fjalla um það sem um er rætt.
Lára Hanna Einarsdóttir, 30.8.2009 kl. 17:08
Ekki má fjalla um mörg mál enn sem komið er og því síður segja sannleikann. Hér ríkir þöggun. Hver er staða LSR svo dæmi sé tekið?
http://gunnaraxel.blog.is/blog/gunnaraxel/entry/692239/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 17:12
Lára Hanna,
Ég beindi mínum orðum til Aðalheiðar en ekki til þín. Hún hlýtur að vera manneskja til að svara fyrir sig. Ekki vil ég trúa öðru eftir orðum hennar hér ofar að dæma.
Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 17:18
Athyglisverðir punktar með flokkshollustuna og allt það.
Mig langar til að rifja örlítið upp: Fyrir nokkrum árum ritaði undirritaður grein í Morgunblaðið um naujðsyn þess að settar yrðu ákvæði um stjóirnmálaflokka í stjórnarskrán þar sem þeim væri settur viss lagarammi. Þá var minnst á nauðsyn þess að með sérstökum lögum yrði kveðið á um skyldu stjórnmálaflokkanna að gera opinbera grein fyrir uppruna og not þess fjár sem þeir hefðu undir höndum.
Þáverandi gjaldkeri Framsóknarflokksins tók þessu mjög illa enda var þáverandi stjórn mjög upptekin við að sannfæra þjóðina um að óvíða í heimininum væri jafnlítil spilling og hér á landi. Þetta var liður í að draga athyglina frá raunveruleikanum enda brjálæðið, dansinn kringum gullkálfinn tengdum Kárahnjúkum og einkavæðingu bankanna kominn á fullan skrið.
Fyrir síðustu kosningar núna í vor átti Sjálfstæðisflokkurinn erfitt með að gera grein almenningi fyrir vissum greiðslum í hærri kantinum sem flokkurinn hafði þegið. Nú eru þessi fyrirtæki ýmist komin á hausinn eða eru í greiðslustöðvun.
Bloggið mitt nefnist Siðfræði í stjórnmálum. Þar hefur oft verið bent á sitthvað sem betur mætti fara og sumt verið gagnrýnt rækilega.
Bestu kveðjur
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 30.8.2009 kl. 17:24
Sæl Lára Hanna,
Þú vænir mig um málefnalegan útúrsnúning í svari sem að í raun ætti að koma frá Aðalheiði en ekki þér. Svo skrítið sem það er.
Málefnalegur útúrsnúningur, já vel að merkja, ég fór þess oft á leit við þig s.l. vikur að þú birtir klippur frá yfirlýsingum Steingríms J. um Icesavemálið, fyrir og eftir ráðherradóm. Mér hefur ekki enn orðið við þeirri bón minni en veit sem er að þú hefur mikið að gera.
Bestu kveðjur.
Þórkatla Snæbjörndóttir (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 17:28
Og ég beindi orðum mínum til þín, Þórkatla. Áttu kannski við að ég megi ekki tjá mig á mínu eigin bloggi um orð þeirra sem skrifa hér athugasemdir - að hverjum svo sem þeir beina eiturörvum sínum? Aðalheiður er pottþétt manneskja til að svara fyrir sig, það efast ég ekkert um. En ég sá ástæðu til að taka athugasemd þína sem skólabókardæmi um fáránleika þeirrar umræðu sem tíðkast hefur.
Elín... þetta mál sem þú nefnir er eitt fjölmargra sem lítið eða ekkert hefur verið fjallað um. Það á alveg eftir að eiga sér stað umræða um fjárfestingar lífeyrissjóðanna - allra. Ég ætla bara rétt að vona að sú umræða eigi sér stað og það fyrr en síðar. Bendi þó á bloggsíðu Ragnars Þórs sem hefur reynt að vekja athygli á málefnum Lífeyrissjóðs Verslunarmanna.
Lára Hanna Einarsdóttir, 30.8.2009 kl. 17:29
Sæl Lára Hanna,
Vitna hér í athugasemd þína hér að ofan:
"En ég sá ástæðu til að taka athugasemd þína sem skólabókardæmi um fáránleika þeirrar umræðu sem tíðkast hefur."
Tilvitnun 2
"Þórkatla... Menntun og sá þroski sem hér um ræðir haldast ekki endilega alltaf í hendur. Horfðu og hlustaðu t.d. á þetta. Við erum vel menntuð þjóð eins og Aðalheiður nefnir, en höfum ekki fengið tækifæri til að ástunda gagnrýna hugsun og opna, lýðræðislega rökhugsun. Athugasemd þín um orð Aðalheiðar er mjög gott dæmi um hvernig umræðan hefur verið en ætti einmitt alls ekki að vera. Ómálefnalegur útúrsnúningur án þess að minnsta tilraun sé gerð til að skilja eða fjalla um það sem um er rætt."
Ég vil minna þig á Lára Hanna að þú leyfðir hér botnlaust andlegt ofbeldi gagnvart mér og syni mínum fyrir nokkrum vikum síðan. Þú stoppaðir þa ekki af. Þegar að slíkt byrjar á mínu bloggi stoppa ég það af.
Gangi þér síðan bara sem best í lífinu.
Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 17:43
Eins og flest sem Lára Hanna fitjar upp á er hér imprað á mjög athyglisverðu vandamáli.
Við lifum í lýðveldisríki og þjóðin er vel "menntuð". Hátt hlutfall hennar er hámenntað og þó nokkuð eimir enn eftir af menntunar og fróðleiksþránni sem einkenndi kynslóðina sem fæddist á fyrstu áratugum seinustu aldar. Það er því athyglisvert hvað lýðveldið virðist hafa verið illa undir það búið að takast á við afleiðingar "hrunsins" hvað þá heldur taka varúðarráðstafanir áður en það skall á. Kannski erum við ekki eins "menntuð" og við höldum?
Ég er alls ekki viss um að við virðum málefnalegar og rökrænar umræður um þjóðfélagsmál og margir virðast m.a.s. forðast "óþægileg" umræðuefni eins og heitan eldinn.Við höfum mörg okkar mjög ákveðnar skoðanir en virðumst ófús til að verja þær eða endurskoða og sínum lítinn áhuga á skoðunum annara. Ég sé líka ekki betur en það sé mjög algengt að "óþægilegar" spurningar séu hundsaðar eða túlkaðar sem árás. Mig grunar líka að það gæti flokkast sem dónaskapur að endurtaka spurninguna (kannski bara að hluta til, með breyttu orðalagi eða áherslum) eða spyrja frekar um hluta svarsins.
Áhugi á og virðing fyrir skoðunum annara og vilji til að skilja þeirra sjónarmið án þess að vera endilega sammála finnst mér skorta áberandi í okkar lýðræðisþjóðfélagi og ef þessi grunnur er ekki fyrir hendi er ég svartsýn á að okkur takist að temja okkur "Lýðveldislega rökræðu og gagnrýna hugsun".
Það þarf að greina vandann og gjarnan orsakir hans áður en maður getur byrjað að takast á við hann.
agla (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 17:53
Afstaða Steingríms í Magma málinu er sömuleiðis á reiki. Hvert ætlar maðurinn eiginlega?
http://eyjan.is/blog/2009/08/30/skilar-steingrimur-audu-orkuveitan-aetlar-ad-selja-magma-hlutinn-i-hs-orku-a-morgun/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 18:16
Ekki er ég móðgaður :)
Ekki veit ég hvað ræður afstöðu stjórnmálaflokkanna í icesave-hneykslinu, en hingað til hafa almannahagsmunir iðulega mátt víkja fyrir flokkshagsmunum og öðrum sérhagsmunum. Valdafíkn. Allt hið pólitíska kerfi rær nú lífróður til að bjarga eigin skinni. Tortryggnin er ekki fullkomin, en ég hef efasemdir líkt og landslýður allur.
Almenningur mun þurfa að una við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Enginn er því líklegri til að taka ábyrga afstöðu í málinu. Landið er ekki komið í efnahagslegt þrot vegna þess að almenningur hafi verið hafður um of með í ráðum, heldur þvert á móti.
Icesave er ekki fyrst og fremst tæknilegt mál heldur pólitískt. Ég treysti íslenskum almenningi alveg jafnvel til að ráða úrslitum um afdrif icesave-frumvarpsins eins og Árna Johnsen, Sigmundi Erni, Jóni Bjarnasyni, Bjarna Benediktssyni, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Birgittu Jónsdóttur, Þráni Bertelssyni ... .
Almenningur á kvölina. Hann á að eiga völina líka. Það er farsæl leið út úr krísunni. Að öðrum kosti verður þú, Lára Hanna súperbloggari, að blogga um icesave til ársins 2024, að minnsta kosti.
www.kjosa.is
P. S. Almenningur er ekki jafnvitlaus og sumum kann stundum að virðast eða vilja hafa fyrir satt. Ef fólk er ósátt við niðurstöður síðustu alþingiskosninga, þá ætti það að leita orsakanna í hinu pólitíska kerfi. Ef til vill er það komið á leiðarenda.
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 19:00
Já það var þetta með lýðræðislega rökræðu og gagnrýna hugsun. Snýst hún um það að vísa í Pál Skúlason. Merkileg rökræða það! Er það e.t.v. ekki tilviljun að ofurlýðræðisást stjórnarflokkanna eftir búsáhaldabyltingu, þar sem aðeins átti að þurfa undirskrift 15% landsmanna til þess að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Strax eftir kosningar eru öll stóru málin of flókin fyrir almenning og aðeins vitringarnir á þingi hafa vit til þess að greina og meta málin.
Í gegnum árin hefur maður séð nemendur sem fara of hratt upp, þá vill það gerast að nefið á þeim leitar um of til himna. Þá er hrokinn ekki langt undan.
Sigurður Þorsteinsson, 30.8.2009 kl. 19:27
Steingrímur segist ekki hafa lagalega heimild til að kaupa hlutinn. Er hann ekki í meirihluta á þingi? Getur hann ekki sett bráðabirgðalög? Hvaða rugl er þetta?
http://www.visir.is/article/20090830/FRETTIR01/763257772/-1
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 19:42
Jédúddamía, Lára ef þú ættir síðasta kommentið við þessa færslu gæti það verið einfalt:
"I rest my case"
Umræðurnar hér sanna mál þitt (svo langt sem þær ná)
Sé þess óskað að ég svari kommenti Þórkötlu þá er svarið eftirfarandi:
Ég var að tala um staðreyndir, það er staðreynd að við erum vel menntuð þjóð þ.e. sé háskólamenntun íslendinga borin saman við aðrar þjóðir. Íslendingar fylgjast líka almennt vel með, þ.e. sá hluti þjóðarinnar sem fylgist ekkert með þjóðfélagsumræðu, er ekki stór.
Ég talaði hins vegar ekkert um 'þroska þjóðarinnar'
Með kommentinu vildi ég koma þeirri furðu minni á framfæri að jafn vel menntuð þjóð og Íslendingar eru, ætti jafn erfitt með gagnrýna hugsun og raun ber vitni.
Þá benti ég á að hugsanlega gæti ættar og vinasamfélagið átt þar hlut að máli. (þetta er hins vegar ekki staðreynd heldur aðeins vangavelta)
En ég stend við það sem ég sagði. Íslendingar þurfa á 'heilaþvotti' að halda. Það þarf að hreinsa óendanlega flokkshollustu og foringjadýrkun út. Ég er ekkert að meina að slíkt eigi við um alla.
En hitt er svo aftur líka hundleiðinlegt að fólk geti ekki rætt og skipst á skoðunum um þjóðfélagsmál án þess að fara í skítkast hvert við annað. Það er einmitt það sem torveldar okkur alla lýðræðislega rökræðu, þegar fólk fer í manninn en ekki málefnið.
Hugleiðsla er örugglega ekkert verri en hvað annað. Var ekki einhver frægur leikstjóri hér um daginn að kenna þjóðinni að hugleiða, með það að leiðarljósi að 'hugleiða okkur út úr vandanum'
Aðalheiður Ámundadóttir, 30.8.2009 kl. 19:48
Lára Hanna, það stendur í þessari 26. grein íslensku stjórnarskrárinnar, að
ef forseti Íslands synji frumvarpi staðfestingar, þá skuli fara fram
þjóðaratkvæðagreiðsla innan tveggja vikna. Svipað á við um
IceSavesamninginn. Áðurnefnd grein segir ekki til um hvort við séum þróuð
eða vanþróuð. Hér á Íslandi er stjórnarfarið lýðræði, hvort við séum þróuð
eða vanþróuð, og varðandi IceSavesamninginn, þá má forseti Íslands nýta sér
Málskotsréttinn, þ.e.a.s. að synja staðfestingar IceSavesamningsings, og skjóta honum í þjóðaratkvæðagreiðslu, óháð þróun lýðræðisins á Íslandi. Bíddu við, Lára Hanna, búum við í
Sovétríkjunum?
Jóhann Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 20:01
Góður pistill Lára Hanna.
Það vantar mikið uppá að þjóðin taki almennt vel ígrundaða afstöðu ... ekki einu sinni í málum þar sem ýtarlegar upplýsingar liggja fyrir. Ónei, oftast eru tilfinningarnar látnar ráða, og/eða hinir ýmsustu flokkadrættir. Ekki vantar upphrópanirnar en vitið virðist oft af skornum skammti.
Icesave-málið er mjög vandasamt og því fer fjarri að nægar upplýsingar liggji opinberlega fyrir. Því hentar þetta mál engan veginn þjóðaratkvæðagreiðslu.
Elfa Jóns (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 20:07
Bíddu sjálfur við, Jóhann Ingi... Þetta er í annað sinn sem þú spyrð sömu spurningar hér inni. Ég get ekki með nokkru móti séð að þessi athugasemd þín komi innihaldi pistilsins nokkurn skapaðan hlut við né heldur þeim hluta umræðna í athugasemdunum sem mark er á takandi. Hér er hvergi verið að tala um þróuð eða vanþróuð ríki eða 26. grein stjórnarskrárinnar. Þú virðist misskilja bæði pistilinn og umræðuna hrapallega.
"I rest my case", Aðalheiður. Rétt hjá þér.
Lára Hanna Einarsdóttir, 30.8.2009 kl. 20:09
Ég vil benda Elfu Jónsdóttur, Láru Hönnu og Aðalheiði á að málið er stærra en Steingrímur Joð og egó hans og vinstri grænna. Við skulum vona að fyrirvararnir sem að Ögmundur og félagar settu haldi en það er ekki víst. Það kemur í ljós.
Það kemur einnig í ljós hvort að vinstri grænir munu beygja sig í Magma málinu. Ef það verður þá er orðið lítið eftir af hugsjónum þessa flokks.
Anna María (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 20:27
Lára Hanna ég játa að frammistaða þín að undanförnu hefur ollið mér vonbrigðum.
Alveg fæ ég aulahrolls gæsahúð af því að lesa komment þessa manns Sigurðar nr 3.
hilmar jónsson, 30.8.2009 kl. 20:54
Alveg er það nú merkilegt, að í hvert skipti sem hinn ágæti síðuhaldari hérna hún Lára Hanna,leyfir sér örlítið að líta yfir sviðið og ræða í rólegum en jafnframt yfirveguðum tón um þjóð sína og hennar heill, spretta fram alls kyns útúrsnúninga- og orðleiðamenn og reyna gagngert að skemma fyrir, að því er virðist bara í þeim tilgangi, "að snapa sér fæting"!H'er er Lára Hanna svo augljóslega að staldra við og íhuga með okkur hvernig best og mest skynsemin geti úr þessu ráðið för, þar sem mikilvægi lýðræðislegrar rökræðu og gagnrýninnar hugsunar spili meginrullu.En vþí miður, sumir gera sitt besta til að snúa já út úr eða ala á neikvæðni með öllum hætti, svo ekki sé nú minnst á norpandi og nagandi nöldurskjóður eins og Þórkötlu,s sem hér sem svo oft áður hagar sér eins og ólundarbarn er endalust heimtar athygli frá móðurinni og hangir í pilsfaldinum hennar! Gremjulegt að verða vitni af slíku og á LH það ekki skilið, ekki hvað síst í ljósi þess, að hun hefur sýnt mikið langlundargeð og þolinmæði og ekki lokað á neinn svo ég viti og vill það í lengstu lög ekki! en þórkatla og Sigurður Þ. kannski, eru e.t.v.einmitt að leika sér vísvitandi að þeim eldi, en munu svo væla og skæla sem aldrei fyrr á annara og eigin vettvangi ef af höfnun á þeim yrði?
Magnús Geir (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 21:26
Ég vil taka undir með Aðalheiði í færslu 19.
Efalaust hefur fámenni landsins, og þau ættar og vinatengsl sem því fylgja, mikið að segja í sambandi við hvað umræðurnar snúast oft um menn en ekki málefni.
Mig grunar samt líka að skólakerfi okkar geri ekki mikið til að þjálfa nemendur (á öllum námsstigum) í rökrænni hugsun. Það er t.d. áberandi að íslensk börn rökstyðja yfirleitt ekki skoðanir sínar en bresk og amerísk börn segja flest: Mér finnst........ AF ÞVÍ AÐ.......!
Fjölmiðlar okkar gætu líka gefið betra fordæmi og gert strangari kröfur til starfsmanna sinna og viðmælenda þeirra um rökræna og skíra hugsun og framsetningu.
agla (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 21:33
Þegar ákveðnir aðilar skrifa athugasemdir hérna, dettur mér í hug að hér séu á ferð leigupennar sem hafa það að markmiði að þagga niður í Láru Hönnu.... að hún sé farin að skrifa óþægilega nærri sannleikanum og að farið sé að hitna undir einhverjum.
Sumir munu nota ótuktarlegar aðferðir til að verja spillinguna.
Anna Einarsdóttir, 30.8.2009 kl. 22:12
Lára þarf nú ekki mikið að óttast ef að nöldur dúóið Sigurður og Þórkatla eru send henni til höfuðs.
Þau fínir fulltrúar náhirðarinnar og gefa orðum Láru aukið vægi ef eitthvað er.
hilmar jónsson, 30.8.2009 kl. 22:16
Anna Einarsdóttir,
Tilvitnun í orð þín hér að ofan.
"Þegar ákveðnir aðilar skrifa athugasemdir hérna, dettur mér í hug að hér séu á ferð leigupennar sem hafa það að markmiði að þagga niður í Láru Hönnu.... " (leturbreyting mín)
Mér þætti vænt um að fá að vita hvort að þú sért að beina orðum þínum til mín. Dylgjur hafa aldrei þótt smekklegar.
Og Hilmar, sama til þín:
Tilvitnun frá þér:
"Lára þarf nú ekki mikið að óttast ef að nöldur dúóið Sigurður og Þórkatla eru send henni til höfuðs."
Anna og Hilmar, það vill svo til að það mun aldrei nokkur maður fá mig til að skrifa eitthvað sem að mér ekki finnst. Þetta eru ósmekklegar dylgjur sem að ég frábið mér. Ég held allir þeir sem að þekkja mig vissu, að ég væri nú síðasta manneskjan til að taka þátt í slíku atferli.
Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 09:10
Þórkatla.
Þú skrifar "það mun aldrei nokkur maður fá mig til að skrifa eitthvað sem að mér ekki finnst"
Hafa þá ekki aðrir sama rétt til að skrifa það sem þeim finnst ?
Mér finnast skrif sumra.... og ég ætla ekkert að nefna nein nöfn..... bera þess vott að vera beinlínis ætluð til að fá Láru Hönnu til að hætta að blogga. Þú ræður alveg sjálf hvort þú tekur það til þín eða ekki.
Anna Einarsdóttir, 31.8.2009 kl. 12:01
Anna Einarsdóttir,
Hef ég verið með dylgjur um það að þú sért leigupenni. Ef að eitthvað er, skuldar þú mér afsökunarbeiðni.
Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 14:33
Þar sem ég hef ekki skrifað neitt sem beinist til þín, nema þú kjósir að taka það til þín,.... skulda ég þér ekki neitt.
Anna Einarsdóttir, 31.8.2009 kl. 16:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.