21.11.2007
Náttúran - náttúr(u)lega!
Mig langar að benda áhugasömum á afar fróðlegan vef - www.natturan.is - þar sem lesa má um allt milli himins og jarðar sem snertir náttúru, náttúruvernd, náttúrufæði, náttúrulyf og fleira og fleira.
Upplýsinga- og fróðleiksgildi vefjarins er ótvírætt og hann ætti að höfða til fjölmargra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.11.2007
Óvönduð vinnubrögð eru óviðunandi
Enn er bent á óvönduð vinnubrögð VSÓ ráðgjafafyrirtækisins, sem í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur sá um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar. Í þetta sinn er það Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Líffræðistofnun Háskóla Íslands, sem segir ófagra sögu. Það segja mér fróðir menn að hún sé þungavigtarmanneskja á sínu sviði. Áður hafði annar prófessor við HÍ, Gísli Már Gíslason, sagt frá því að upplýsingum hafi vísvitandi verið haldið leyndum við gerð frummatsskýrslunnar eins og sjá má hér.
Þóra Ellen segir meðal annars að Hengilssvæðið sé talið næstverðmætasta útivistarsvæðið á suðvesturhorninu á eftir Þingvöllum og mikilvægt hefði verið að gera matið yfir sumartímann. Það er auðvitað rökrétt í ljósi þess hve svæðið er hátt yfir sjávarmáli þótt það njóti sín engu að síður frábærlega vel á fallegum vetrardögum, þó að á ólíkan hátt sé.
Þetta næstverðmætasta útivistarsvæði á suðvesturhorninu á eftir Þingvöllum vilja Orkuveita Reykjavíkur og sveitarstjórn Ölfuss eyðileggja, gjörsamlega að ástæðulausu. Hvernig sem reynt er að réttlæta virkjun á þessu svæði hlýtur niðurstaðan alltaf að vera sú að hún er fullkomlega óþörf. Hvað ætli íbúum á þessu svæði finnist um málið ef þeir íhuga það í þessu samhengi - hvort sem þeir hafa séð þetta náttúrudjásn eða ekki?
Athugasemdir við frummatskýrsluna voru 678 samkvæmt lokatölum frá Skipulagsstofnun en þar skeikar þó sem nemur því, að þær athugasemdir sem undirritaðar voru af fleiri en einum voru aðeins metnar sem ein athugasemd. Eins og fram kemur hér var sú athugasemd undirrituð af 11 manns og fleiri voru víst þannig. Því má auðveldlega álykta að athugasemdirnar - talið í einstaklingum - hafi verið 700 eða fleiri.
Það þarf ekki að leggjast í tímafrekt grúsk eða vera mikill spekingur til að sjá að virkjanaframkvæmdir á þessu svæði eru út í hött og allir hagsmunaaðilar sem að málinu koma hafa lagst gegn hvers konar framkvæmdum þar.
Síðan kemur í ljós að matið á umhverfisáhrifum, sem unnið er af aðalframkvæmdar- og hagsmunaaðilanum og ætlað er að réttlæta virkjanaframkvæmdirnar, er illa unnið, illa kynnt, upplýsingar og gögn falin, sveitarfélaginu greiddar mútur til að flýta framkvæmdum og tryggja vildarvináttu og metfjöldi athugasemda og mótmæla berst við framkvæmdinni.
Hvernig er annað hægt en að hætta við... þótt ekki sé nema í ljósi þess að Ísland á að heita lýðræðisríki?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2007
Talað út um sjálfsagða hluti
Dæmi um nöfn á pistlunum eru: Ósýnilegt fólk, Miðaldra konur hverfa, Að skipta um skoðun, Frestunarárátta, Gerendur og "verendur", Jólastress, Hópsálir og einfarar... Alls eru 46 ólíkar hugleiðingar í bókinni og maður kannast einhvern vegin við þetta allt saman þótt maður hafi ekki hugsað út í hlutina á sömu nótum og Jónína. Nýtt sjónarhorn er alltaf hollt.
Í gærkvöldi las ég hugleiðingu sem Jónína kallar Sjálfsagðir hlutir. Þar leggur hún út frá öllu því sem við göngum að í lífinu og lítum á sem sjálfsagða hluti; rennandi vatn, heitt og kalt, hreina loftið á Íslandi, góða heilsu og sitthvað í þeim dúr.
Þessi hugleiðing hitti mig beint í hjartastað í umræðunni um virkjanir, náttúru, álver og fleira sem tröllríður íslensku þjóðfélagi um þessar mundir. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut að geta andað að okkur sæmilega ómenguðu lofti, notið óspilltrar náttúru, haft rafmagn og ómælt, hreint, rennandi vatn og sjaldan hugsum við út í fortíðina eða framtíðina. Hvað forfeður okkar og formæður þurftu að leggja á sig til að við gætum haft það svona gott. Hvað verður um afkomendur okkar ef við göngum svo á auðlindirnar að ekkert verður eftir handa þeim. Við hugsum bara um nútíðina og skyndigróðann.
Þær áætlanir sem eru á teikniborðinu núna um að virkja nánast alla orku sem í boði er og reisa álver, olíuhreinsunarstöðvar eða önnur stóriðjumannvirki vítt og breitt um landið verða æ fáránlegri þegar hugsað er lengra fram í tímann. Allt eru þetta skammtímaviðhorf og skyndilausnir sem taka ekkert tillit til búsetuskilyrða í landinu til frambúðar. Engin álver, engar virkjanir eða önnur stóriðja endist lengur en í nokkra áratugi.
Talið er að fyrirhuguð Bitruvirkjun endist í allt að 40 ár, hún á aðeins að framleiða rafmagn, ekki heitt vatn, og nýtingin verður að hámarki 12-15%. Eyðileggingin á ósnortinni, unaðslegri náttúruperlu yrði óafturkræf. Þetta á við svo ótrúlega margt en samt á að æða áfram, horfa hvorki til hægri né vinstri og alls ekki fram á við. Fyrir nú utan það hvað þetta er mikill óþarfi. Við þurfum ekki á þessu að halda, að minnsta kosti ekki Suðvesturlandið. Hvaða hagsmunir ráða ferðinni? Ekki mínir og afkomenda minna, það er ljóst.
Næst ætla ég að lesa kaflann Jólastress í bókinni hennar Jónínu - það eru jú jól fram undan eina ferðina enn. Eins og það er ótrúlega stutt síðan síðast. En væntanlega verður minna mál en oft áður að velja jólagjafir þetta árið því þessi bók verður í nokkrum jólapökkum frá mér í ár og notuð til tækifærisgjafa líka. Það er gott og þarft að láta ýta svona við sér eins og hugleiðingar Jónínu gera svo um munar og þær má lesa aftur og aftur... sem eru alltaf meðmæli með bókum. Vonandi er Jónína ekki búin að tala alveg út svo ég fái fleiri hugleiðingar að ári.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.11.2007
Hroki og hræðsluáróður
Mér var gróflega misboðið þegar ég las viðtal við Eirík Hjálmarsson, upplýsingafulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur, á bls. 8 í Fréttablaðinu í dag - sjá má viðtalið hér og neðst í þessum pistli. Þar er slegið upp í fyrirsögn orðum Eiríks sem segir: "Aðrir kunna að virkja ef OR hættir við". Eiríkur minnir einnig á: "...að hver sem er geti byggt virkjun, til dæmis stórkaupendur raforku". Hvað meinar maðurinn? Síðan hvenær getur hver sem er byggt virkjun á Íslandi? Á hann við að erlendu álrisarnir geti eyðilagt íslenska náttúru og byggt virkjun þar sem þeim sýnist ef þeim mislíkar við íslenskar orkuveitur?
Þarna reynir Eiríkur blygðunarlaust að blekkja almenning með hótuninni um að "ef við gerum það ekki þá gerir það bara einhver annar". Eins og hvaða fyrirtæki sem er geti byggt virkjun hvar og hvenær sem er ef því þóknast. Svona málflutningur ætti að vera fyrir neðan virðingu viti borins manns eins og Eiríks - hann veit betur.
Annað sem ég hnaut um í málflutningi Eiríks var af hvílíkum hroka hann talaði niður til þeirra fjölmörgu sem sendu inn athugasemdir við fyrirhugaðri Bitruvirkjun. Aldrei í Íslandssögunni hafa borist eins margar athugasemdir við neinni framkvæmd á landinu - alls 660. Til samanburðar bárust 372 athugasemdir við Kárahnjúkavirkjun, en þar sváfu Íslendingar á verðinum.
Eiríkur segir að af þessum 660 athugasemdum hafi "því miður" 540 verið samhljóða efnislega. Af hverju "því miður", Eiríkur? Eru þær ekki jafngildar öðrum athugasemdum af því þær voru samhljóða? Segir það Eiríki og yfirmönnum OR ekkert að 540 manns hafi haft fyrir því að kynna sér málið í stórum dráttum, taka afstöðu með náttúrunni, afrita athugasemdina af vefsíðunni www.hengill.nu og senda hana í eigin nafni til Skipulagsstofnunar og Sveitarfélagsins Ölfuss? Var þá með sömu rökum ekkert að marka t.d. undirskriftir þúsunda Suðurnesjabúa fyrir skömmu af því þeir skrifuðu allir undir sömu yfirlýsinguna?
Ég mótmæli þessum hrokafulla málflutningi og tel mig tala fyrir hönd þeirra sem sendu inn samhljóða athugasemdir - okkur er öllum fúlasta alvara og við krefjumst þess að tekið verði fullt tillit til athugasemda okkar, þótt þær séu samhljóða. Vægi þeirra er síst minna fyrir það. Við ætlumst einnig til þess að forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur sýni eigendum fyrirtækisins, Reykvíkingum, þá sjálfsögðu kurteisi að tala ekki niður til þeirra eins og þeir séu kjánar.
Reynslan hefur sýnt að þar sem reist er virkjun er náttúran nánast dauðadæmd og að jarðvarma- og jarðgufuvirkjanir eru alls ekki eins sjálfbærar og umhverfisvænar og af er látið. Virkjun getur aldrei verið "í sátt við náttúruna" eins og talsmenn Bitruvirkjunar hafa klifað á. Alltaf þarf að fórna einhverju og í tilfelli Bitruvirkjunar er fórnin einfaldlega allt of mikil. Svo virðist sem Íslendingar séu smátt og smátt að átta sig á og hafna yfirgangi álvera, annars orkufreks iðnaðar og orkuvera eins og OR og Landsvirkjunar. Þeir eru að vakna til vitundar um afleiðingar virkjanaæðisins - þau óafturkræfu spjöll á náttúrunni sem meirihluti þjóðarinnar er ekki tilbúinn til að samþykkja. Svo ekki sé minnst á efnahagslegu áhrifin, metþenslu hagkerfisins, verðbólgu, himinháa vexti og fjárhagslegt óhóf sem bitnar á almenningi í landinu.
Ég hlóð allri frummatsskýrslunni inn í tölvuna mína fyrir nokkrum vikum. Það tók þó nokkuð langan tíma og hún þurfti mikið pláss. Svo fór ég að skoða og ætla nú að tína til nokkrar staðreyndir um umfang skýrslunnar. Hún er gróflega flokkuð í fjóra hluta og sett fram á .pdf-sniði (Adobe Acrobat): Frummatsskýrsla, Samantekt, Kort og myndir og Viðaukar.
Frummatsskýrslan er 158 bls. - 4,45 MB
Samantektin er 13 bls. - 14,2 MB
Kort og myndir eru 26 skjöl - 68,1 MB
Viðaukar eru 20 skjöl, alls 546 bls. - að mestu leyti skýrslur fræðimanna - 336 MB
Alls eru þetta 422,75 MB - næstum hálft GB
Lesningin er alls 717 blaðsíður og þá eru kortin og myndirnar ekki taldar með.
Ég lagði ekki í að telja þann hluta.
Frummatsskýrslan umrædda, sem er mat á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar, er unnin af Orkuveitu Reykjavíkur, aðalhagsmuna- og framkvæmdaraðilanum, í samvinnu við VSÓ-ráðgjöf. Athugasemdir voru sendar til Skipulagsstofnunar og þar voru þær taldar og flokkaðar. Síðan á að dæma í málinu - fara yfir athugasemdirnar, vega þær og meta og semja lokamatsskýrslu með tilliti til þeirra. Og hver gerir það? Jú, aðalhagsmuna- og framkvæmdaraðilinn, Orkuveita Reykjavíkur, í samvinnu við VSÓ-ráðgjöf. OR og VSÓ eiga semsagt að dæma í eigin máli, meta hvort eitthvað sé að marka athugasemdir við eigin frummatsskýrslu sem fyrirfram er búið að dæma með þeim orðum að þær séu "því miður" flestar samhljóða.
Heldur virkilega einhver að eitthvað verði að marka dóm þessara fyrirtækja yfir sjálfum sér og eigin vinnubrögðum? Varla verður dómurinn hlutlaus, svo mikið er víst. Nú kemur til kasta Skipulagsstofnunar, umhverfisráðherra og nýrrar stjórnar OR að hindra þennan gjörning og Alþingis að breyta lögum um mat á umhverfisáhrifum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.11.2007 kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.11.2007
Enn ein athugasemdin
En ég tek fram, eins og ég gerði um umsögn Umhverfisstofnunar hér, að nauðsynlegt er að lesa athugasemdina í heild sinni til að fá samfellu og samhengi í hana. Þeir sem hafa áhuga á því fá örugglega góðar móttökur hjá Íslandsflökkurum eins og ég þegar ég falaðist eftir athugasemd þeirra til birtingar á útdrætti úr henni.
Íslandsflakkarar leggjast alfarið gegn því að reist verði virkjun á Bitru. Út frá legu virkjunarinnar og borplana sem og annarra mannvirkja er ljóst að áhrif á útivist og ferðaþjónustu eru veruleg og teljum við hjá Íslandsflökkurum að ekki verði við annað unað en að yfirvöld hafni alfarið virkjuninni og skilgreini svæðið til nota fyrir ferðaþjónustu og almenning, enda hefur verið gengið verulega á Hengilssvæðið nú þegar af Orkuveitu Reykjavíkur...
...Bygging nýrra álvera eða stækkun eldri vera, gengur þvert á hagsmuni ferðaþjónustunnar sem og annarra atvinnugreina auk þess sem stóriðja almennt fellur afar illa að þeirri ímynd náttúrfegurðar og hreinleika sem notuð er til að laða ferðamenn til landsins. Það hefur því stórkostlega neikvæð samfélagsleg áhrif að okkar mati að reisa slíkar verksmiðjur og orkuver til að framleiða rafmagn til þeirra...
...í skýrslunni virðist sem þekking á orkuforða svæðisins sé ansi gloppótt, og orð eins og líklega og sennilega benda til þess að ekki hafi verið gefin nægur tími til rannsókna. Væri betra að menn flýttu sér hægt þegar eyðaleggja náttúrlegt svæði sem jafnast á við það sem best gerist í öðrum löndum sem geta státað af álíka náttúrufyrirbærum sem heitum hverum...
...Í kafla 7.2.2 kemur fram að svæðið er á náttúruminjaskrá og að forsendur fyrir slíkri skráningu séu STÓRBROTIÐ LANDSLAG OG AÐ SVÆÐIÐ SÉ FJÖLBREYTT AÐ JARÐFRÆÐILEGRI GERÐ, M.A. JARÐHITI. Þetta er einmitt það sem gerir svæðið afar áhugavert til útivistar fyrir heimamenn og erlenda gesti...
... svæðið er á heimsmælikvarða og án efa með allra flottustu og fjölbreytilegustu hverasvæðum á Íslandi og þar að auki liggur svæðið í bakgarði fjölmennustu sveitafélaga á landinu...
...svæðið breytist úr náttúrulegu í manngert og ómögulegt verður fyrir framkvæmdaaðila að gera mannvirki af þessari stærðargráðu ósýnileg þrátt fyrir góðan frágang. Svæðið í heild breytist og upplifun þeirra sem ferðast um svæðið verður aldrei sú sama og í ósnortnu landi...
...Bitruvirkjunar er hvorki í sátt við umhverfi né samfélag. Ljóst er að Bitruvirkjun er umdeild og að verulegir hagsmunaárekstrar eru við nýtingu ferðaþjónustu og útivistarfólks á svæðinu...
...Hér virðist því vera á ferðinni einhverskonar skilningsleysi á hugtakinu sjálfbær þróun sem eðlilegt væri að OR aflaði sér upplýsingar um áður en lengra er haldið...
...Við spyrjum því hvort það sé alveg öruggt að það gerist ekki og hvort tryggt sé að ekki berist óæskileg efni í Þingvallavatn? Hafa nægilegar rannsóknir farið fram?...
...Við bendum í þessu sambandi á lokahluta kaflans (22.5 - Áhrif framkvæmdar á landslag) þar sem fram kemur að mannvirki Bitruvirkjunar muni valda talsverðum neikvæðum áhrifum á upplifun landslags á svæði sem í dag hefur ákveðið gildi og nýtur sérstöðu vegna þess að þar eru fá og lítt áberandi mannvirki. Ferðalangar sem í dag aka um veginn inn á Bitru koma skyndilega inn í litskrúðugt og fjölbreytt landslag og útsýni sem teygir sig yfir til Þingvallavatns og á góðum degi allt til Langjökuls. Þrátt fyrir núverandi vegsummerki af mannavöldum nokkrir staðir á svæðinu enn að geyma óvænta upplifun og þá tilfinningu að ekki hafi margir komið inn á þetta svæði...
...Við teljum áhrifin marktæk á svæðis-, lands- og heimsvísu, þau eru til langs tíma og óafturkræf, þau breyta einkennum umhverfisþáttar verulega og rýra verndargildi umhverfisþáttar verulega...
...Það er okkar mat að hávaðamengun sé VERULEG á framkvæmdatíma og TALSVERÐ til VERULEG eftir að framkvæmdum lýkur og bendum m.a. á að bora þarf nýjar holur með reglulegu millibili á starfstíma virkjunarinnar með tilheyrandi blæstri og hávaða...
...Í frummatsskýrslu er ekki vitnað í neinar rannsóknir á viðhorfum ferðamanna í skipulögðum ferðum og almennt virðist skorta allar aðrar rannsóknir en viðhorfskönnun sem gerð var á meðal ferðþjónustuaðila. Er þetta talsverður ljóður á frumatsskýrslunni, þar sem mikilvægar upplýsingar um möguleika svæðisins í ferðaþjónustu, með og án virkjunar, vantar algjörlega hérna...
...Það er nokkuð hvimleitt þegar það er talað er um að álíka margir séu fylgjandi og andvígir virkjun þegar tölurnar sýna að heldur fleiri eru móti en með. Hvetjum við til þess að þessi vinnubrögð séu ekki viðhöfð og orðalag ekki notað til að draga úr eða deyfa niðurstöðu óhagkvæmrar tölfræði...
...Skortur á rannsóknum vegna útivistar og ferðaþjónustu var gagnrýndur af Samtökum ferðaþjónustunnar, undirrituðum og fleiri aðilum með athugasemdum við matsáætlun og er enn full ástæða til að fara fram á frekari rannsóknir...
...Íslandsflakkarar fara fram á raunverulegar rannsóknir á afstöðu útivistarfólks og almennings til virkjunar á Bitru sem og mati á möguleikum svæðisins í ferðaþjónustu með og án virkjunar. Skortur á gögnum og rannsóknum gerir það að veigamikil atriði vantar í kafla 29 (Ferðaþjónusta og útivist) og er það okkar mat að þessum þætti umhverfismatsins sé verulega ábótavant...
...Þrátt fyrir minnkun framkvæmdasvæðis þá eru áhrif á ferðaþjónustu veruleg. Missi erlendir ferðamenn áhuga á svæðinu og færi sig um set er skaðinn verulegur og hæpið annað en að niðurstaðan sé VERULEG...
Niðurstaða:
Íslandsflakkarar telja að áhrif Bitruvirkjunar á útivist og ferðaþjónustu séu VERULEG vegna breytinga á landslagi, röskunar og hávaðamengunar í nágrenni vinsælla gönguleiða og náttúruperlna. Við leggjumst gegn framkvæmdinni og óskum að svæðið verði tekið frá fyrir ferðamennsku og útivist. Ekkert annað háhitasvæði, sem er jafn fjölbreytt og þetta, er jafn stutt frá Reykjavík og uppsveitum Suðurlands og jafnstutt frá þjóðvegi 1 auk þess sem svæðið í heild sinni, í austanverðum Henglinum, er einstaklega fallegt og fjölbreytilegt á heimsvísu.
Að auki virðist mikill asi á framkvæmdaraðila, sem enn er í mikilli óvissu um stærð og ástand jarðhitageymisins sökum skamms bor- og vinnslutíma á svæðinu. Íslandsflakkarar geta ekki með nokkru móti séð hvernig hægt er að fullyrða að áhrif framkvæmdarinnar á jarðhitageyminn séu óveruleg þegar jafn lítið er vitað um hann. Jafnframt er ljóst að framkvæmdaraðili getur ekki með góðu móti fullyrt að vinnsla orkunnar sé sjálfbær þar sem fram kemur að hún er ágeng.
Auk þess bendum við á mikla umræðu um nýja tækni sem betur nýtir jarðhita en nú er þannig að ef nýta á svæðið mætti hugsanlega innan fárra ára fá jafnmikla orku án þess að ganga jafn nærri svæðinu og nú er áætlað.
Af þessu verður ekki annað ráðið en að rétt sé að hafna virkjun á Bitru eða a.m.k. fresta henni um óákveðinn tíma, því 10 til 20 ár í bið geta gjörbylt þeirri tækni sem nú er til staðar í bormálum og orkuöflun og ef fram heldur sem horfir verður komin tækni þar sem hægt verður að nýta jarðhitann á svæðinu án þess að fara inn á svæðið sjálft með borplön og stöðvarhús.
Bloggar | Breytt 17.11.2007 kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.11.2007
Í tilefni dagsins...
Mér kenndi faðir
mál að vanda.
Lærði hann mig
þó latur væri.
Þaðan er mér kominn
kraftur orða
megin kynngi
og orðagnótt.
Þannig minntist Benedikt Gröndal áhrifa frá föður sínum, Sveinbirni Egilssyni, varðandi íslenskt mál.
Jónasarvefurinn er fallegur og vel þess virði að skoða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2007
Hvað á maður að halda?
Þessi frétt birtist á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Hún vekur margar, margar spurningar sem fróðlegt væri að fá skýr og afdráttarlaus svör við - og sjá greiðslukvittanir. Vonandi er bókhaldið í Ölfusi í góðu lagi.
Sem Reykvíkingi - og þar með einum eigenda Orkuveitu Reykjavíkur - finnst mér þetta alls ekki í lagi.
Bloggar | Breytt 17.11.2007 kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2007
Hvað er í gangi á Íslandi í dag?
Ferðaþjónusta á Íslandi er stórlega vanmetin atvinnugrein og tekjulind fyrir þjóðina, enda litið á hana af stjórnvöldum sem "hliðaratvinnugrein" og hún geymd í skúffum ráðuneyta hér og hvar í kerfinu. Það vantar mikið upp á að hún sé metin til fjár til jafns við aðrar atvinnugreinar á Íslandi. Samt sem áður er áætlað að hálf milljón erlendra ferðamanna sæki Ísland heim á þessu ári og gjaldeyristekjur af þeim verði um 60 milljarðar króna - sjá færsluna hér á undan um mótmæli Samtaka ferðaþjónustunnar gegn Bitruvirkjun.
Ég man mjög vel eftir því þegar fjöldi erlendra ferðamanna fór fram úr íbúafjölda landsins. Það var árið 2000. Á aðeins 7 árum hefur þeim fjölgað úr 300 þúsundum í 500 þúsund. Það er gríðarleg fjölgun á mjög skömmum tíma. Og af hverju? Kannanir hafa sýnt svo ekki verður um villst að erlendir ferðamenn sækjast fyrst og fremst eftir að upplifa ósnortna náttúru Íslands... víðáttuna... þögnina... hreinleikann... jarðfræðina... Náttúra Íslands er svo einstök upplifun fyrir íbúa iðnvæddra, fjölmennra ríkja að ef við viðhöldum henni eins ósnortinni og mögulegt er verður hún vaxandi tekjulind um ókomna tíð. Hér tala ég af eigin reynslu sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna til margra ára.
Engu að síður keppast menn við að leggja forsendur ferðaþjónustunnar í rúst - ósnortna íslenska náttúru. Og til hvers? Okkur vantar ekki störf, að minnsta kosti ekki hér á stór-suðvesturhorninu. Við þurfum að flytja inn tugþúsundir útlendinga til að sinna þeim störfum sem skapast hafa í ofurþenslunni undanfarin ár. Hvað með öll störfin við ferðaþjónustu sem við fórnum um leið og við fórnum náttúrunni - til að reisa virkjanir - til að afla orku til að keyra álver eða aðra stóriðju - til að veita fleiri útlendingum vinnu? Ætlar enginn að meta þann fórnarkostnað til fjár?
Okkur vantar ekki peninga - við erum með ríkustu þjóðum heims og eins og allir vita sem fylgst hafa með t.d. opnun leikfangaverslana undanfarnar vikur og fréttum um að nýlegir bílar séu settir í brotajárn og nýir keyptir ef smábilun finnst benda til þess að neysluæðið sé orðið gjörsamlega stjórnlaust. Hvar endar þessi geðveiki?
Hver verður arfleifð okkar sem nú lifum? Hverju ætlum við að skila komandi kynslóðum? Hvernig munu afkomendur okkar upplifa ljóð Jónasar Hallgrímssonar - sem við höfum tileinkað einn dag á ári - og annarra þjóðskálda sem ortu upphafin ljóð um náttúru Íslands? Munu þeir halda að þessir gæjar hafi bara verið á sýrutrippi? Ætlum við að búa þannig um hnútana að börnin okkar og barnabörnin hafi ekki hugmynd um hvað þessi stórskáld voru að yrkja um? Ætlum við að vera búin að ganga svo freklega á allar auðlindir landsins að það verður ekkert eftir handa þeim?
Spyr sú sem ekki skilur.
Bloggar | Breytt 17.11.2007 kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
SAF mótmæla Bitruvirkjun
Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent Skipulagsstofnun athugasemdir vegna Bitruvirkjunar en fyrir ferðaþjónustuna er Bitrusvæðið, Ölkelduhálsinn og dalirnir allt í kring mjög verðmætt svæði og vilja samtökin leggja höfuðáherslu á að þetta svæði verði afmarkað fyrir ferðaþjónustu og útivist eingöngu.
Athyglisvert er að VSÓ ráðgjöf bendir á í sinni frummatsskýrslu að áhrif Bitruvirkjunar á núverandi ferðaþjónustu og útivist verði talsverð. Sérstaða svæðisins er margs konar, þetta er mjög fjölskrúðugt hverasvæði, með fallegu og fjölbreyttu landslagi. Ferðaþjónustan á Íslandi er vaxandi atvinnugrein.
Á þessu ári er líklegt að nálægt hálfri milljón ferðamanna heimsæki Ísland og skapi allt að 60 milljarða króna í gjaldeyristekjur.
Samtök ferðaþjónustunnar vilja undirstrika að hér er um að ræða svæði í næsta nágrenni höfuðborgarinnar sem er eitt mikilvægasta svæði ferðaþjónustunnar vegna skemmri ferða. Almennt er dvalartími ferðamanna að styttast og eins er fjöldi funda og ráðstefnugesta vaxandi en þeir eru einmitt einn megin markhópurinn fyrir skemmri ferðir á lítt snortin svæði. Svæðið er líka mjög mikilvægt útivistarsvæði fyrir höfuðborgarbúa vegna nálægðar við Reykjavík.
Í kaflanum um ferðamál í ofangreindri skýrslu er vísað í könnun sem gerð var í júní - nóvember 2006 til að athuga viðhorf til línulagna. Af 162 svörum voru aðeins 64 svör frá Hellisheiði og nágrenni. Hins vegar voru 98 svör frá upplöndum Hafnarfjarðar. Ljóst er að rannsóknaraðferðum er ábótavant. Það verður að spyrja ferðafólk sem fer um Hellisheiðina um afstöðu þeirra til allra virkjananna og einnig hvort afstaða þeirra sé breytileg eftir því hvar þau eru á Hellisheiðinni að ferðast.
Samtök ferðaþjónustunnar geta ekki fallist á Bitruvirkjun að óbreyttu og leggja til að hún verði aflögð eða henni frestað um óákveðinn tíma.
Bloggar | Breytt 17.11.2007 kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2007
Heimska, skortur á yfirsýn eða græðgi?
Ef litið er á aðeins örfá atriði og nokkrar tölur er gjörningurinn fullkomlega óskiljanlegur og ekki nokkur leið að sjá að tekið sé tillit til allra þátta málsins og það skoðað í samhengi við annað sem er að gerast í þjóðfélaginu.
Sveitarfélagið Ölfus hefur ákvörðunarrétt um hvort Bitruvirkjun verður reist og ein fegursta náttúrperlan á suðvesturhorninu lögð í rúst. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru 1.911 íbúar í Sveitarfélaginu Ölfusi. Meirihluti sveitarstjórnar, alls 4 einstaklingar, hefur 495 atkvæði á bak við sig. Mótmæli sem bárust Skipulagsstofnun gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun eru hátt í 700 og aldrei í Íslandssögunni hafa borist fleiri athugasemdir við neina framkvæmd. Þessir 4 einstaklingar sem mynda meirihluta sveitarstjórnar Ölfuss með 495 atkvæði undir hafa vald til að svipta tæplega 200.000 Íslendinga sem byggja suðvesturhornið óspilltri náttúru og útivistarparadís og dæla brennisteinsvetni út í andrúmsloftið í áður óþekktu magni.
Og ef marka má orð Ólafs Áka Ragnarssonar, foringja fjórmenninganna, er hann ákveðinn í að fara sínu fram hvað sem hver segir, hversu margar athugasemdir sem berast, hversu öflug sem mótmælin verða. Þessu lýsti hann yfir opinberlega eins og sjá má hér og hótar blygðunarlaust að hunsa álit almennings og þeirra stofnana sem um málið eiga að fjalla áður en ákvörðun er tekin. Í löndum þar sem þokkalegt siðferði ríkir í stjórnsýslu yrðu þessir fjórmenningar látnir segja af sér öllum embættum umsvifalaust. Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur, (sem er í eigu Reykvíkinga, munið þið?) eru nefnilega búnir að lofa fjórmenningunum að gegn því að heimila Bitruvirkjun dæli þeir 500 milljónum í Sveitarfélagið Ölfus með ýmsum hætti. Peningum sem Reykvíkingar eiga. Þetta kallar Ólafur Áki að "búið sé að gefa vilyrði fyrir þessu rafmagni til uppbyggingar og álvers í Helguvík." Álvers sem er fyrirhugað að reisa - ekki ákveðið að reisa. Hvað segja Reykvíkingar við slíkri sóun á fjármunum þeirra? Má kalla þetta mútur?
Er ekki eitthvað bogið við lagasetningu sem heimilar að 4 einstaklingar með 495 atkvæði á bak við sig taki svo afdrifaríka ákvörðun sem snertir lífsgæði og jafnvel heilsu allra íbúa á suðvesturhorni landsins? Er þetta lýðræðið í verki eða eigum við að flytja inn fleiri banana?
Ein af röksemdarfærslum Ólafs Áka fyrir Bitruvirkjun og nokkurra suðurnesjamanna fyrir álveri í Helguvík er að það þurfi að skapa störf. Fyrir hverja? Á suðvesturhorni landsins er ekkert atvinnuleysi og við höfum ekki við að flytja inn vinnuafl frá útlöndum. Við erum farin að telja erlent vinnuafl í tugþúsundum, talan 17.000 var nefnd í fréttum fyrir nokkrum dögum. Margbúið er að reyna að benda yfirvöldum á að við erum ekki í stakk búin til að taka við svona mörgum útlendingum á svo skömmum tíma og margir þeirra búa við ómanneskjulegar aðstæður eins og lesa má um hér. Þetta er til háborinnar skammar og ber vott um ótrúlega og ófyrirgefanlega skammsýni yfirvalda.
Og þótt virkjað sé fyrir netþjónabú sem skapar 200 störf efast menn um að fólk fáist í öll þau störf eins og sjá má hér. Hvað skapar álver í Helguvík mörg störf í viðbót? Hvernig í ósköpunum ætlum við að manna bæði netþjónabúið og álverið? Hve miklu á að fórna og hver græðir? Ekki almenningur sem þarf að sjá á bak ósnortinni útivistarperlu og anda að sér áður óþekktu magni af brennisteinsvetni sem órannsakað er hvaða áhrif hefur til langframa.
Hvernig væri að íslensk stjórnvöld myndu venda sínu kvæði í kross og sýna nú einu sinni skynsemi og fyrirhyggju í áformum sínum um virkjanir og stóriðju? Það þarf nauðsynlega að breyta lögum sem heimila örfáum einstaklingum að taka gríðarlega stórar ákvarðanir sem hafa áhrif á tvo þriðju landsmanna. Slíkar ákvarðanir þarf að taka með hagsmuni heildarinnar í huga og í samhengi við aðrar framkvæmdir í landinu og afleiðingar þeirra.
Ef þessum lögum verður ekki breytt halda "mútugreiðslur" fjársterkra orkufyrirtækja til lítilla, fjárvana sveitarfélaga áfram að valda óbætanlegu tjóni í íslensku samfélagi og óafturkræfum spjöllum á ómetanlegri náttúru Íslands.
![]() |
Fyrirhugaðar framkvæmdir og orkusala haldast í hendur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2007 kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.11.2007
Þetta verða allir að lesa!
Lesið magnaða athugasemd Landverndar hér og ítarlega athugasemd Græna netsins hér.

Bloggar | Breytt 17.11.2007 kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.11.2007
Já en Össur minn...
Ég skil ekki þessa kátínu yfir ákvörðun Landsvirkjunar. Eyðileggingin á náttúrunni er alveg sú sama, hvort sem virkjað er fyrir álver eða netþjónabú. Það eina jákvæða við þetta er að netþjónabú mengar minna en álver.
Landsvirkjun var nefnilega ekki að lýsa því yfir að hún ætlaði að hætta við að virkja - bara að skipta um væntanlega viðskiptavini.
Og hvaða misskilningur er í gangi um að það þurfi að skapa störf á suðvesturhorninu? Er ekki staðreyndin sú að við þurfum að flytja inn útlendinga í tugþúsundatali til að vinna öll störfin sem í boði eru? Var ekki verið að nefna töluna 17.000 í fréttum í fyrradag, og þá eru ótaldir þeir sem enn eru óskráðir.
Hvernig er hægt að vera í slíkri mótsögn við veruleikann?
Við þurfum að skapa verðmæti, segja sumir. Hvaða verðmæti? Handa hverjum? Hverjir græða? Hver er fórnarkostnaðurinn? Náttúrunni blæðir, við sem nú lifum glötum ósnortinni náttúru og komandi kynslóðir fá kannski aldrei að kynnast henni.
Hvenær linnir þessari græðgisvæðingu og hvað ætla menn að fórna miklu á altari Mammons?
![]() |
Össur: Ekkert nema jákvætt við ákvörðun Landsvirkjunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.11.2007
Fjölbreyttar athugasemdir
Hér fyrir neðan eru mótmæli Björns, en undir þau skrifuðu 10 manns auk hans.
Efni:
Mótmæli við áformaðri Bitruvirkjun og nokkrar athugasemdir við frummatsskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur og VSO-ráðgjafar um þá ætluðu virkjun.
Það er okkar mat að Ölkelduháls og umhverfi hans eigi að friðlýsa.
Heimsóknir ferðamanna, innlendra og erlendra, á svæðið vaxa nú hröðum skrefum enda fjölbreytni þess næsta einstök. Það verður að skoðast sem mikil lífsgæði fyrir meirihluta landsmanna að eiga svæði sem þetta í næsta nágrenni. Þarna eru margir staðir með fjölbreyttu útsýni til margra átta, staðbundnar náttúruperlur svo sem hverir og laugar, eldvörp, heitir lækir og fleira. Þarna getur gesturinn notið sannrar öræfakyrrðar í fögru umhverfi.
Mannvirki, svo sem stöðvarhús og kæliturnar orkuvers, skiljustöðvar, borteigar og lagnir með tilheyrandi ökuslóðum, í sjónmáli frá bestu útsýnisstöðum munu spilla þessari öræfatilfinningu að mestu. Nú þegar veldur háspennulína sú, sem um svæðið fer, verulegum spjöllum á þeirri upplifun. Það er því meiri nauðsyn á því að gera þá lögn ósýnilega svo sem með jarðlögn frá Folaldahálsi á miðja Bitru eða helst vestur í Orustuhólshraun ef unnt er.
Athugasemdir:
Við skoðun skýrslunnar, sem er ekkert áhlaupaverk vegna mikilla endurtekninga, kemur oft í ljós takmörkuð þekking á staðháttum. Þar má t.d. nefna að Bitrunafnið er illa skilgreint. Jarðfræðingar tengja það gjarnan við svonefnda Bitrumyndun og miða þá við þau jarðefni sem til urðu í því gosi sem móberg, bólstra- og brotaberg og grágrýti. Sú myndun nær frá Kýrgilshnúkum í norðri og endar á Hamrinum í Hveragerði syðst. Örnefnið Bitra í munni smalans sem þar hefur farið um í aldir, miðast hins vegar við grágrýtisflákann sem takmarkast af Kýrgilshnúkum að norðan, Fremstadal og Svínahlíð að vestan, Smjörþýfi að sunnan og Ástaðafjalli, Hverakjálka, og Molddalahnúkum að austan. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er stöðvarhúsi virkjunarinnar ætlaður staður undir norðausturhorni Bitrunnar en ekki á henni.
Þá er sú staðhæfing í frummatsskýrslunni að þrjár borholur HE-2, -20 og -22 hafi þegar verið boraðar á Bitru augljóslega röng enda ein þeirra á Ölkelduhálsi og hinar tvær á austurjaðri Kýrgilshnúka. Þetta má greinilega sjá á korti 1 í skýrslunni. Samkvæmt því er 5 borteigum ætlaður staður á Bitru. Það eru B4, B5 og B6 og B8 og B9 á austurjaðri Bitru við Hverakjálka og Molddalahnúk vestari.
Í skráningu fornminja gætir einnig nokkurrar ónákvæmni þar sem leiðin frá Kolviðarhóli Milli hrauns og hlíðar er rakin austur yfir Bitru því þar segir: ...alla leið á Brúnkollublett nyrðri... Samkvæmt skráðum heimildum er þessi blettur nefndur Litli-Brúnkollublettur (Árbók FÍ 1936 bls.123). Brúnkollublettirnir munu a.m.k. vera tveir og sá nyrðri nokkru norðar á mörkum hreppanna (Örnefnaskrá Ölfusvatns, Guðmann Ólafsson).
Í frummatsskýrslunni er augljóslega viðurkennd neikvæð áhrif framkvæmdanna á upplifun ferðamanna á svæðinu jafnvel þó að sá feluleikur með lagnir og önnur mannvirki takist jafn vel og teikningar og lýsingar eiga að sannfæra lesandann um. Þá er áberandi að fræðimenn vilja ekki fullyrða að áhrif á staði í nágrenni, sem sagðir eru utan framkvæmdasvæða, verði engin. Þetta er eðlilegt svo sem vegna stuttrar reynslu af virkjunarframkvæmdum af þessum toga. Hitt mun hins vegar augljóst öllum þeim, sem kunnugir eru svæðinu umhverfis Hellisheiðarvirkjun, að umhverfisáhrifin þar eru mun meiri en reiknað var með.
Þar er líka margt ógert og mörgum spurningum ósvarað ennþá um umhverfisáhrif og mögulegar mótvægisaðgerðir. Meðan svo er getur ekki talist skynsamlegt að byrja fleiri virkjanir á svipuðum grunni svo sem við Hverahlíð eða hvað þá á jafn dýrmætu útivistarsvæði og Bitruvirkjun mun hafa áhrif á.
Sú vinnuaðferð að þessi frummatsskýrsla skuli tekin til afgreiðslu á undan þeim breytingum á aðalskipulagi svæðisins sem nauðsynlegar verða ef skýrslan verður samþykkt er ekki traustvekjandi. Það stefnir þá í að verða ómerkilegur sýndargjörningur.
Að lokum þetta:
Ætluð Bitruvirkjun mun skaða mjög dýrmætt útivistarsvæði. Það svæði óspillt er líklegt til að styrkja fólk í þúsundatali andlega og líkamlega á komandi tímum. Jafnframt mun það skila íslenskri ferðaþjónustu ómældum tekjum. Þannig mun svæðið mun betur nýtt heldur en t.d. til rekstrar einhvers prósentuhlutar í álverksmiðju.
Við mótmælum því í fullri einlægni auglýstum áætlunum um Bitruvirkjun.
Bloggar | Breytt 11.11.2007 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2007
Athyglisvert sjónarhorn
Talsmenn Orkuveitu Reykjavíkur tala af fyrirlitningu um að flestar athugasemdirnar séu staðlað bréf sem tekið sé af vefsíðunni www.hengill.nu rétt eins og eitthvað sé minna að marka það. Þeir gera sér augljóslega ekki grein fyrir, að fólk hefði ekki fyrir því að afrita bréfið, skrifa undir það og senda ef það væri ekki sammála því sem í því stendur.
Nokkrir hafa sent afrit af athugasemdum sínum til okkar sem að vefsíðunni standa og þar kennir ýmissa grasa. Ég hef þegar bent á athugasemd Gunnlaugs H. Jónssonar í fyrri færslu. Einnig birtir Sigurður Hr. Sigurðsson sína ljómandi góðu athugasemd á bloggsíðu sinni.
Svend-Aage veitti mér góðfúslegt leyfi til að birta sína athugasemd hér og er sjónarhorn hans mjög athyglisvert.
Reykjavík, 8. nóvember 2007
Málefni: Hugleiðingar vegna gufuaflsvirkjana á Reykjanesskaganum eins og á Hengilssvæðinu, Hellisheiði, Ölkelduhálsi og víðar.
Reykjanesskaginn í held er merkilegur og einstakur á heimsmælikvarða. Hann er hluti af neðansjávarhrygg, sem spannar öll heimshöfin, og er hvergi jafn sýnilegur ofansjávar og á Íslandi. Hryggurinn er brotabelti á flekaskilum landreks og þannig sérstakur í sinni mynd (jarðhiti, eldvirkni, hraun) og einn bakhjarla þekkingar á jarðskorpunni (landrek). Það var svo seint sem upp úr 1960 að jarðvísindin leiddu það í ljós með nokkuð óyggjandi hætti með mælingum á Reykjaneshrygg suðvestur af Íslandi.
Náttúrumyndanir á Reykjanesskaga eru því merkar á heimsvísu svo ekki sé höfðað til náttúrulegrar fegurðar hans.
Reykjanesskaginn býður þannig upp á einstakt umhverfi, ekki eingöngu fyrir jarðvísindin heldur og fyrir m.a. þéttbýlið í næstu nánd, þar sem læra má að lesa í jarðsögu landsins og njóta útivistar.
Þarna er m.a. að finna skíðaland höfuðborgarinnar (Bláfjöll) og einnig lögformlegan fólkvang (Reykjanesfólkvangur) með ákveðnum nýtingarreglum. Önnur svæði eru á náttúruminjaskrá og skilgreind sem útivistarsvæði á aðalskipulagi Ölfuss (Ölkelduháls, Bitra). Það er því mikið í húfi að vel sé vandað til verka á þessu merka svæði og að mið sé tekið af ásýnd landsins og þeim náttúrumyndunum sem ríkja á Reykjanesskaganum við ásókn í orkulindir landsins og landnám fyrir mengandi stóriðju. Flýtum okkur hægt í þeim efnum og stöndum vörð um ómanngerða ásýnd og víðáttur landsins.
Svo má að lokum vitna í nýjan og gamlan draum. Rætt hefur verið um að koma þeim hluta Reykjanesskagans sem liggur út í sjó - Reykjaneshryggur - á heimsminjaskrá UNESCO. Þá vaknar gamall draumur um að tengja hrygginn og fólkvanginn á Reykjanesskaga við þjóðgarðinn á Þingvöllum á einn eða annan hátt. Það væri nú aldeilis stórkostlegt.
Svo mörg vor þau orð.
Þegar þetta er skrifað eru ennþá rúmir þrír klukkutímar þar til frestur til að skila inn athugasemdum við fyrirhugaða Bitruvirkjun rennur út.
Farið inn á hengill.nu og skoðið leiðbeiningar um hvernig og hvert senda má athugasemd!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2007
Valdníðsla í Ölfusi
Einnig var eftirfarandi haft eftir forseta bæjarstjórnar Ölfuss í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 30. október sl.: "Birna Borg Sigurgeirsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Ölfusi, segir að staðið verði við virkjunarframkvæmdir. Það sé stefna bæjastjórnar að virkja í sveitarfélaginu."
Í Ölfusi eru innan við 2.000 íbúar og pólitískt kjörnir fulltrúar þeirra hafa vald til að ráðskast með svæði sem snertir beint eða óbeint um 200.000 Íslendinga!
Er ekki eitthvað bogið við þetta?
Hér er mjög góður pistill um málið.

Bloggar | Breytt 14.11.2007 kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2007
Er verið að gera grín að okkur?
Umsögnina verður í raun að lesa í heild sinni til að fá samfellu og samhengi í hana.
En hér eru nokkur atriði tínd til - orðrétt úr umsögninni.
Náttúruminjar
Framkvæmdasvæði Bitruvirkjunar er að mestu leyti á svæði á náttúruminjaskrá (númer 752)...
Einnig eru þar jarðmyndanir sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. Laga nr. 44/1999 um náttúruvernd svo sem hverir og aðrar heitar uppsprettur og hraun... Svæðið þar sem áætlað er að Bitruvirkjun muni rísa er mikilvægt svæði hvað varðar útivist og náttúruminjar eins og kemur ítrekað fram í frummatsskýrslunni. Umrætt svæði sem er á náttúruminjaskrá mun skerðast til muna við fyrirhugaðar framkvæmdir og þær munu hluta Hengilssvæðið í sundur. Væntanlegt framkvæmdasvæði sem er að miklu leyti lítt snortið fær ásýnd iðnaðarsvæðis...
Landslag
Mannvirki við Bitru munu rýra gildi landslags á svæðinu þar sem fyrirferðamikil mannvirki munu setja mark sitt á svæðið. Það er verið að fara inná svæði sem er á náttúruminjaskrá m.a. vegna landslags. Með virkjunum á svæðinu verður búið að hluta svæði á náttúruminjaskrá niður í margar einingar, en það er m.a. heildstætt svo til óraskað landslag sem gefur svæðinu gildi. Í frummatsskýrslunni kemur fram að neikvæð áhrif verði fyrst og fremst vegna sjónmengunar af mannvirkjum og röskunar ósnortinna svæða. Einnig kemur fram í frummatsskýrslu að "framkvæmdin muni raska landinu og gera landslagið manngert".Ferðaþjónusta og útivist
Hafa ber í huga að Hengilssvæðið er vinsælt útivistarsvæði. Gildi Hengilssvæðisins sem útivistarsvæðis rýrnar með tilkomu mannvirkjana og lítt snortnum svæðum fækkar talsvert, enda kemur fram í könnunum meðal útivistarfólks að landslag vegur þyngst í aðdráttarafli svæðisins. Virkjunin dregur til muna úr gildi svæðisins til útivistar fyrir þá sem vilja njóta útivistar í kyrrð og ósnortnu eða lítt snortnu umhverfi. Horfa þarf til þess að með Bitruvirkjun og háspennulínum er verið að hluta niður vinsælt útivistarsvæði.
Loftgæði
Þetta er langur kafli og verulega ógnvekjandi. Lesið hann allan.
Í honum kemur meðal annars fram að heildarlosun brennisteins á Hellisheiðarsvæðinu verður um sjö sinnum meiri en öll núverandi losun frá álverunum í Straumsvík og á Grundartanga og Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga samanlagt.
Hljóðvist
Í reglugerð nr. 933/1999 um hávaða er ekkert sérstakt viðmiðunargildi fyrir hávaða á útivistarsvæðum utan þéttbýlis en viðmiðunargildið fyrir útivistarsvæði í þéttbýli er 50 dB(A). Umhverfisstofnun hefur miðað við að almennt eigi að tryggja að hljóðstig á útivistarsvæðum fari ekki yfir 50 dB(A). Ljóst er að hávaði frá borholunum verður töluvert yfir þeim mörkum. Umhverfisstofnun telur að þar sem fyrirhugað framkvæmdasvæði er á svæði sem er vinsælt útivistarsvæði jafnt á sumri sem vetri, séu líkur á að hávaði frá borholum í blæstri muni valda þeim sem njóta vilja útivistar á svæðinu ónæði.
Margt fleira er fjallað um í umsögn Umhverfisstofnunar, s.s. jarðmyndanir, lífríki hvera, gróður og fleira.
![]() |
Umhverfisstofnun telur umhverfisáhrif Bitruvirkjunar ekki verða umtalsverð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 17.11.2007 kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.11.2007
Hreint land, heilnæmt land?
Athugasemdir við frekari virkjanir á Hengilssvæðinu
Sem íbúi Árbæjarhverfis geri ég alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæði og sérstaklega Bitruvirkjun með eftirfarandi atriði í huga:
1. Loftmengun af völdum brennisteinsvetnis er orðin óásættanleg í Árbæjarhverfi í hægum austlægum áttum vegna athafna Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu. Sem dæmi má taka fimmtudaginn 19. september 2006. Undirritaður fór í ferð austur fyrir fjall um kl 18. Þegar ekið var fram hjá Kolviðarhóli barst áberandi brennisteinslykt inn í bifreiðina. Við heimkomu að Árbæjarkirkju um kl 22 var brennisteinsmengunin það megn að undirritaður fékk óstöðvandi hósta er hann gekk fram hjá Árbæjarskóla og er þó ekki með asma eða annan alvarlegan lungnasjúkdóm. Undirritaður hefur heimsótt margar menguðustu stórborgir heimsins, Peking, Los Angeles, Tokyo og London, vann í síldarverksmiðju og við mælingar á hitastigi borhola Hitaveitu Reykjavíkur og háhitahola í Hveragerði á 7. áratugnum fyrir tíma mengunarvarna en þetta er versta loftmengun sem hann hefur upplifað. Þetta mikil loftmengun er óásættanleg fyrir íbúa Árbæjarhverfis og raunar hvern sem er.
2. Þegar ekið var yfir Hellisheiðina blasa við ryðgaðir burðarstaurar raflína Landsvirkjunar. Þetta er eini staðurinn frá Búrfelli að Geithálsi þar sem veruleg tæring hefur orðið á staurunum. Líklegasta orsökin er brennisteinssýrlingur sem berst frá borholum Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er aðeins ein af mörgum sýnilegum afleiðingum þeirrar mengunar sem fylgir borholum og jarðvarmavinnslu Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu.
3. Undirritaður hefur iðulega farið gangandi um Hengilssvæðið og Hellisheiðina og þá einkum á gönguskíðum að vetri til. Gufur úr borholum á svæðinu valda miklum óþægindum og nauðsynlegt er að forðast þau svæði sem gufa frá borholum leikur um. Þessi svæði hafa stækkað ár frá ári.
4. Orkuvinnslan á Hengilssvæðinu er þegar orðin langt umfram náttúrlegt varmastreymi á svæðinu. Það er því gengið á varmaforðann. Þessu má líkja við olíuvinnslu. Orkan á svæðinu mun minnka jafnt og þétt og eftir tiltölulega fáa áratugi mun aflið minnka þannig að virkjanirnar ganga ekki á fullu afli. Fleiri virkjanir munu flýta fyrir því að orkan og aflið minnki. Verði áformaðar 4 virkjanir allar byggðar á svæðinu í tiltölulega lítilli fjarlægð hver frá annarri, 10 km, munu áhrifasvæði þeirra (áhrif á gufu og jarðvatnsþrýsting) skarast og þær keppa hvor við aðra um jarðhitavökvann. Það leiðir til þess að þrýstingurinn minnkar fyrr en ella. Eftir standa fjórar virkjanir með tilheyrandi umverfisspjöllum sem ekki geta framleitt raforku á fullum afköstum. Það þarf að leiða í lög að lágmarksfjarlægð milli jarðvarmavirkjana til raforkuvinnslu sé um 20 km til þess að tryggja að jarðvarminn, orka og afl, endist lengur. Ekki viljum við sitja uppi með tugi af jarðvarmavirkjanalíkum um allt eldvirka beltið frá Reykjanestá að Kelduhverfi eftir öld eða svo. (Djúpboranir gætu leyft fleiri virkjanir).
5. Með því að framleiða þetta mikla raforku nú þegar verður ekki hægt að nýta lághitann (undir 80°C) nema að (litlum) hluta í hefðbundna hitaveitu. Mestum hluta orkunnar um 90% er því kastað út í loftið með kæliturnum. Þetta er sóun á orku sem að öðrum kosti myndi nýtast höfuðborginni og raunar höfuðborgarsvæðinu öllu næstu aldirnar.
6. Meðan endurnýjanleg vatnsorka rennur ónýtt til sjávar er siðferðilega rangt að sóa jarðhita til raforkuframleiðslu í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins með mikilli mengun og umhverfisáhrifum. Jarðhitann má geyma til betri tíma til nota í hitaveitu vaxandi höfuðborgar með raforkuframleiðslu sem búbót og með margfaldri nýtingu á orkunni (90%).
Niðurstaða: Þar til Orkuveita Reykjavíkur hefur ekki sýnt fram á að fyrirhuguð raforkuvinnsla á Hengilssvæðinu sé endurnýjanleg og sjálfbær og sýnt fram á að hún geti dregið verulega úr brennisteinsmenguninni frá því sem þegar er orðið ber skipulagsyfirvöldum og viðkomandi sveitarfélögum að stöðva frekari virkjun jarðvarma á Hengilssvæðinu til raforkuframleiðslu. Heilsa og velferð íbúa höfuðborgarsvæðisins, einkum þeirra er búi austan Elliðaáa, er í húfi.
Bloggar | Breytt 18.9.2008 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2007
Íslandsmetið slegið!
Þeir eru nú ekkert að hampa þessari frétt hjá Mogganum, setja hana inn klukkan 5:30 í morgun svo hún sé örugglega horfin í fréttagímaldið mikla þegar fólk vaknar að morgni og kíkir á vefinn. Vonandi bæta þeir um betur og hafa umfjöllun ásamt beittum fréttaskýringum í prentuðu útgáfunni á morgun. Ég hef trú á því.
Hins vegar var fréttastofa Ríkissjónvarpsins með beina útsendingu frá fundinum í Orkuveituhúsinu í kvöldfréttum sínum í gær og fær mikið hrós fyrir það.
Enn eru þrír dagar til stefnu til að senda inn athugasemdir.
Kynnið ykkur málið á www.hengill.nu og takið afstöðu.
![]() |
Metfjöldi athugasemda vegna Bitruvirkjunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 9.11.2007 kl. 05:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2007
Íslandsmet í uppsiglingu!
Nú geta allir landsmenn nær og fjær tekið þátt í að setja Íslandsmet.
Það er ekki á hverjum degi sem slíkt tækifæri veitist og um leið að leggja góðu málefni lið.
Lesið greinina í Fréttablaðinu í dag sem var birt hér að neðan - hún er á bls. 4 í prentuðu útgáfunni og hér í netútgáfunni: http://www.visir.is/article/20071106/FRETTIR01/111060127
Eins og sjá má kemur meðal annars fram í greininni að athugasemdir sem bárust Skipulagsstofnun við Kárahnjúkavirkjun voru 362 og var það Íslandsmet árið 2001. Nú þegar hafa borist rúmlega 300 athugasemdir við fyrirhugaða Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi. Verður metið slegið?
Þeir sem ætla á annað borð að senda inn athugasemd en hafa ekki drifið í því hafa nú ekki nema 4 daga til stefnu, fresturinn er til 9. nóvember svo tíminn er á þrotum. Ekki bíða - ekki hugsa: "Ég geri þetta á eftir/í kvöld/á morgun..." því hættan er sú að það gleymist þar sem tíminn líður með ógnarhraða eins og flestir vita.
Allar nauðsynlegar upplýsingar eru á heimasíðunni www.hengill.nu. Undir hlekknum "Gera athugasemd" er tilbúið bréf sem má nota óbreytt eða hnika til að vild. Netföng þeirra sem eiga að fá póstinn eru birt á síðunni, því það nægir að senda athugasemdina í tölvupósti. Á heimasíðunni eru einnig greinar, slóðir á blogg og ýmiss fróðleikur sem gæti hjálpað fólki að gera upp hug sinn. Einfaldara getur það ekki verið.
Takið þátt í að setja Íslandsmet og hafið áhrif á umhverfi okkar!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)