Lögmál Murphys og stóriðja í íslenskri náttúru

Ég hef fengið ótrúlega mikil viðbrögð við færslunum hér að neðan um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Fyrir utan athugasemdir hef ég fengið tölvupóst og símtöl, auk þess sem aðrir bloggarar hafa ýmist tengt á færslurnar mínar eða afritað í heild sinni eins og bloggvenzli mín, Bryndís og Einar.

Í framhaldi af þessu rifjaði ég upp lögmál Murphys sem hljóðar þannig samandregið: "Allt sem getur farið úrskeiðis gerir það, fyrr eða síðar". Hér má lesa meira um Murphy þennan og lögmál hans. Samkvæmt þessu þurfum við ekkert að fara í grafgötur með það, að ef olíuhreinsistöð verður reist á Íslandi þá verður slys - fyrr eða síðar - og þá er græðgin orðin enn dýrara verði keypt en áður.

Myndina hér að neðan fékk ég senda í tölvupósti. Hún er af olíuhreinsistöð í Texas sem brennur þessa dagana. Sjá meira um eldsvoðann hér og hér. Myndbandið af Youtube sá ég hér hjá Níels A. Ársælssyni, Arnfirðingi sem er annt um umhverfið og fjörðinn sinn. Það sýnir slys sem varð í olíuhreinsistöð BP í Texas fyrir þremur árum. Í því slysi létust 15 manns og 170 slösuðust. Lesa má meira um það hér og hér.

Hugsið málið - í fúlustu alvöru!

                                        2008                                                                                        2005

Texas_USA


Látum myndirnar tala

Myndir segja meira en mörg orð og hér fyrir neðan eru myndir af sunnanverðum Arnarfirði annars vegar og olíuhreinsistöðvum víða um heim hins vegar. Myndirnar fann ég með því að gúgla orðin "oil refinery".

Talað hefur verið um að reisa olíuhreinsistöðina í Hvestudal sem er annar dalur frá Bíldudal. Ég var þarna á ferð í fyrrasumar, keyrði út alla Ketildalina (samheiti yfir dalina í sunnanverðum Arnarfirði) og út í Selárdal sem er ysti dalurinn. Selárdalur er þekktur fyrir listaverk Samúels Jónssonar, listamannsins með barnshjartað, og Gísla á Uppsölum sem Ómar Ragnarsson kynnti fyrir þjóðinni endur fyrir löngu í einni af Stiklunum sínum. Ef olíuhreinsistöð yrði reist við Hvestu yrðu ferðalangar að keyra fram hjá henni til að komast í Selárdal. Hún myndi einnig blasa við frá Hrafnseyri, handan fjarðarins, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar sjálfstæðishetju Íslendinga.

Arnarfjörður er með fallegri fjörðum landsins, jarðfræðileg perla og löngum hefur verið talað um fjöllin þar sem vestfirsku Alpana. Þau eru ekkert tiltakanlega há, um 550-700 m, en því fegurri eru þau og hver dalurinn á fætur öðrum skerst eins og skál inn í landslagið út fjörðinn. Við dalsmynnin er falleg, ljós sandfjara og fuglalíf blómstrar hvarvetna.

En látum myndirnar tala. Reynið að ímynda ykkur landslagið með olíuhreinsunarstöð, olíutönkum og olíuskipum siglandi inn og út fjörðinn. Ég get ekki með nokkru móti séð fyrir mér slíkan óskapnað í þessum undursamlega fjallasal - og reyndar hvergi á okkar fagra landi. En sjón er sögu ríkari, dæmi nú hver fyrir sig.

Arnarfjörður-1

Arnarfjörður-2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Arnarfjörður-4

Arnarfjörður-3

 

 

 

 

 

 

 



Arnarfjörður-6-Hvesta

Arnarfjörður-7

 

 

 

 

 

 

 

 

Hampshire UK

Óþekkt staðsetning

 

 

 

 

 

 

 

Qatar

Indiana, USA

 

 

 

 

 

 

 

 




Kalifornía

Kanada

 

 

 

 

 

 

 




Kanada

Venezuela

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Stundum kviknar í olíuhreinsistöðvunum...

EnglandOklahoma_USA
 

 

 

 

 

 

 

 

 

Er þetta sú framtíðarsýn sem Vestfirðingar og aðrir landsmenn vilja Íslandi til handa? Því trúi ég aldrei. Látið þetta ganga til annarra, sendið í tölvupósti til vina og vandamanna, vekið athygli á málinu.


Viðhorf Helgu Völu - Þetta er ekkert grín!

Hér fyrir neðan er úrklippa úr 24 stundum í dag þar sem Helga Vala Helgadóttir varar við sinnuleysi fólks gagnvart þeirri hugmynd að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, annaðhvort í Arnarfirði eða Dýrafirði.

Helga Vala lýsir yfir áhyggjum sínum af hugmyndinni og sinnuleysinu og vitnar í orð fólks sem segir að það taki því ekki að ergja sig yfir þessari umræðu - þetta sé bara grín.

EN ÞETTA ER EKKERT GRÍN!

Ekki frekar en þær hugmyndir að reisa álver í Helguvík, eyðileggja náttúruperlur á suðvesturhorninu með óarðbærum, brennisteinsspúandi jarðvarmavirkjunum, leggja háspennumöstur um þvert og endilangt Reykjanesið og flytja inn enn fleiri erlenda farandverkamenn eins og Helga Vala kallar þá réttilega. Svo ekki sé minnst á þensluna, vaxtaokrið og verðbólguna sem óhjákvæmilega fylgir öllum þessum framkvæmdum.

Íslendingar verða að átta sig á því, að mönnum sem haldnir eru virkjana- og stóriðjufíkn er fúlasta alvara. Þeim er ekkert heilagt. Þeim virðist vera nákvæmlega sama um hvers konar mengun af völdum framkvæmdanna og þeir hafa sannfært sjálfa sig um að þetta sé "þjóðhagslega hagkvæmt" (aur í eigin vasa?). Og að það þurfi "að skapa störf" í þjóðfélagi þar sem er ekkert atvinnuleysi og fluttir hafa verið inn um eða yfir 20.000 erlendir farandverkamenn á örfáum árum til að þræla á lágum launum svo græðgisvæðingin geti orðið að veruleika og sumir fengið meira í vasann.

Ætla mætti að þjóðin sé reynslunni ríkari eftir Kárahnjúkaklúðrið - það var alvara þó að fáir tryðu því til að byrja með. Við verðum að taka mark á svona fyrirætlunum og kæfa þær í fæðingu. Náttúra Íslands er of stórfengleg og dýrmæt til að henni sé hvað eftir annað fórnað á altari gróðahyggjunnar og Mammons.

Vestfirðirnir eru dýrgripur sem við eigum öll að standa vörð um ásamt öðrum náttúrugersemum á Íslandi. Getur einhver með góðu móti séð fyrir sér Kría_í_Arnarfirðispúandi olíuhreinsunarstöð í þessu umhverfi hér á myndinni?



 

 




 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég tek heilshugar undir orð Helgu Völu í greininni hér að neðan, færi henni mínar bestu þakkir fyrir að halda vöku sinni, og skora á alla sem hafa skoðun á málinu að taka þetta mjög alvarlega, eigi síðar en strax, og láta í sér heyra - hátt og snjallt.

Viðhorf Helgu Völu Helgadóttur


Auglýsingar á Moggabloggi

Mér var bent á fréttina hér að neðan í Fréttablaðinu í morgun og ég varð mjög kát að lesa þessi ummæli Árna Matthíassonar. Sjálf er ég alfarið á móti auglýsingunum og hef lokað á þær í mínum tölvum svo ég sé þær ekki. Það er mjög auðveld aðgerð sem hefur þann kost í för með sér að loka á allt sem hreyfist - því hreyfiauglýsingar þoli ég alls ekki af líkamlegum ástæðum sem ég kann ekki að skýra. Ég fæ einhvers konar riðu eða jafnvægistruflun sem veldur því að ég get ekki skoðað vefsíður með hreyfiauglýsingum. Fyrir nú utan það sem bloggvenzli mitt, Steingrímur Helgason, skrifar um hér og ég tek heilshugar undir.

Fleiri hafa skrifað um þessi auglýsingamál og þar fer þar fremstur meðal jafningja annað venzli mitt og gamall vinur, Sigurður Þór Guðjónsson með þessari færslu sem ég er líka innilega sammála. Sumir láta sér hins vegar fátt um finnast og segjast ekki taka eftir þessu.

Enn aðrir hafa hætt að skrifa á Moggabloggið og þeir eru fleiri en þessir fjórir eða fimm sem Árni nefnir í viðtalinu. Auk þess sem nokkrir hafa sett Moggabloggið á "skilorð" - ætla að hætta að skrifa ef auglýsingin verður ekki fjarlægð innan einhvers ákveðins tíma.

Alveg væri ég til í að borga hóflegt árgjald fyrir bloggsíðuna mína auglýsingalausa þótt ekki hafi ég bloggað mikið eða lengi. Ekki væri úr vegi að miða t.d. við árgjaldið á 123.is blogginu sem er rétt innan við 3.000 krónur á ári.

Ég skora á forsvarsmenn mbl.is og blog.is að leyfa bloggurum að velja um hóflegt árgjald fyrir síðuna sína annars vegar - eða auglýsingar hins vegar!

Moggablogg_augl


Hvað er ólýðræðislegt við að láta í sér heyra?

MótmæliMikið hefur verið fjallað um hinn sögulega borgarstjórnarfund á fimmtudaginn og mótmælin sem þar voru viðhöfð og sýnist sitt hverjum. Ég hef sett inn athugasemdir á ýmsum bloggsíðum þar sem ég fagna þessum mótmælum og finnst þau alls ekki í ætt við skrílslæti eins og sumir vilja vera láta. Ég sat límd fyrir framan sjónvarpið á meðan á þessu stóð, skipti ört milli stöðva og fannst risið ekki hátt á forsvarsmönnum nýja meirihlutans. Loksins, loksins lét fólk í sér heyra og það eftirminnilega, enda þorra Reykvíkinga, og reyndar landsmanna allra, gróflega misboðið með valdaráninu. Frekar ætti að kenna valdaránið við skríl en mótmæli almennings sem hefur fengið sig fullsaddan af siðlausum embættisveitingum, baktjaldamakki, hrossakaupum, ábyrgðarleysi stjórnmálamanna og fáránlegri sóun á skattpeningum.

Í Vikulokunum á Rás 1 í morgun var Hallgrímur Thorsteinsson með þrjá gesti, þau Kjartan Magnússon úr Sjálfstæðisflokki, Oddnýju Sturludóttur úr Samfylkingu og Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðing, sem væntanlega var þar sem hlutlaus áhorfandi. "Hvað finnst ykkur um það sem gerðist þarna?" spurði Hallgrímur viðmælendur sína. Þau Kjartan og Oddný höfðu skiljanlega ólíka sýn á atburðinn.

EinarMarSvo spurði hann Einar Mar "Var þetta vanvirða við lýðræðið?" og Einar Mar svaraði eitthvað á þessa leið: "Nei, veistu ég held ekki. Ég er nú svolítið hrifinn af svona mótmælum og þegar almenningur lætur til sín taka. Við köllum þetta óhefðbundna stjórnmálaþátttöku... (Innskot Oddnýjar: Borgaralega óhlýðni.) ...eða borgaralega óhlýðni í stjórnmálafræðinni. Íslendingar eru alveg rosalega latir að láta til sín taka og alveg ómögulegir í þessari borgaralegu óhlýðni. Þannig að ég eiginlega bara dáist að fólki þegar það mætir svona og lætur í sér heyra. Mér finnst það bara hið besta mál."

Ég sá einhvers staðar að Jenný Anna, sá stórkostlegi nýyrðasmiður, kallar þetta "hljóðsettan lýðræðisgjörning" sem á jafnvel enn betur við hér en borgaraleg óhlýðni eða óhefðbundin stjórnmálaþátttaka.

Þetta finnst mér vera kjarni málsins og til að bæta um betur birti ég hér að neðan pistil Illuga Jökulssonar úr 24 stundum í dag. Ég hef verið mikill aðdáandi Illuga um langt árabil þótt ekki þekki ég hann neitt persónulega. Honum er einkar lagið að orða hlutina þannig, að mér finnst hann hafa lesið hug minn og hjarta og það gerir hann nú sem endranær.

Vonandi var atburðurinn í Ráðhúsi Reykjavíkur á fimmtudaginn bara forsmekkurinn að því sem koma skal - að landsmenn noti lýðræðið og taki virkan þátt í að móta líf sitt og umhverfi.


Pistill Illuga
 


Oft ratast kjöftugum satt á munn!

Æði margt hefur verið að gerast í íslensku þjóðfélagi upp á síðkastið og mig hefur oft langað að leggja orð í belg en ekki haft tíma til þess. Hef það reyndar ekki ennþá en ég get bara ekki orða bundist þegar kjöftugum ratast svo dagsatt á munn sem nú.

Hannes Hólmsteinn GissurarsonÉg hef iðulega furðað mig á því dálæti sem sumir fjölmiðlamenn hafa á Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni – en skilið það líka í aðra röndina því þeir þurfa svo lítið að hafa fyrir honum. Það þarf sko ekki aldeilis að draga orðin upp úr honum, hvað þá að undirbúa gáfulegar spurningar og slíkt. En það þýðir heldur ekkert að mótmæla Hannesi eða koma með mótrök, hann hlustar ekki, heldur bara áfram að tala. Hannes er svo sannfærður um eigið ágæti og réttmæti skoðana sinna að engu skiptir þótt allt aðrar staðreyndir blasi við. Ef einhver viðmælandi hans reynir að benda á, þó ekki sé nema annan vinkil, kaffærir Hannes hann í málæði svo til hans heyrist ekki einu sinni.

Gunnar í KrossinumHannes Hólmsteinn og Gunnar í Krossinum eiga margt sameiginlegt að þessu leyti. Báðir eru innilega sannfærðir um að þeirra skoðanir séu þær einu réttu og engar aðrar eigi einu sinni rétt á sér. Allir sem eru þeim ekki sammála eru kjánar sem skilja ekkert hvað skiptir máli og hvað ekki í lífinu. Báðir eru Hannes og Gunnar ofstækisfullir öfgamenn, hvor á sínu sviði. Ég verð að viðurkenna, þótt það sé mér þvert um geð, að ég hef lúmskt gaman af þeim báðum en verð engu að síður óskaplega pirruð þegar ég hlusta á þá. En á eftir finnst mér ég vera alveg einstaklega heilbrigð, víðsýn, fordómalaus og skynsöm. Að því leytinu láta þeir mér líða vel.

Kannski er það líka þessi eiginleiki sem heillar fjölmiðlamennina sem fá þá í þættina sína. Þeir vekja athygli fyrir öfgafullar skoðanir sínar og athygli er þáttastjórnendum lífsnauðsynleg. Hvaða skýring önnur gæti verið á því, að Egill Helgason bauð upp á Hannes Hólmstein í Silfrinu til að tala um loftslagsbreytingar seinni part árs í fyrra? Eða núna síðast í Kiljunni, sem annars er ágætur bókmenntaþáttur, þar sem Hannes og Egill skoðuðu saman myndir af lífsferli Davíðs Oddssonar og Hannes flutti fjálglegar skýringar með myndunum. Þótt ég túlki hugtakið bókmenntir mjög vítt fæ ég ekki séð að þessi myndaskoðun geti á neinn hátt flokkast undir bókmenntir, jafnvel þó að Hannes sé að gefa út myndabók um ofurhetjuna sína.

Davíð OddssonEins og allir vita hefur Hannes Hólmsteinn verið einn alharðasti talsmaður og verjandi Davíðs Oddssonar um áratugaskeið og Sjálfstæðismaður nánast frá frumbernsku. Eins og sjá mátti í fyrrnefndri myndasýningu í Kiljunni eru þeir einnig klíkubræður og hafa fylgst að hönd í hönd frá unga aldri. Ef Davíð hefur verið gagnrýndur, sem hefur vitanlega gerst ansi oft, stekkur Hannes til, ver hann með kjafti og klóm og réttlætir allar hans gjörðir og hvert orð sem af vörum hans hrýtur. En auðvitað þekkir og skilur Hannes Hólmsteinn Sjálfstæðismenn mjög vel af óralangri reynslu.

Í þættinum Mannamál á Stöð 2 síðastliðinn sunnudag gerðist merkilegur atburður sem ég hef þó ekki séð mikið fjallað um. Hannes Hólmsteinn Gissurarson skilgreindi þar mjög skýrt og skilmerkilega hvað í því felst að vera Sjálfstæðismaður, sem líkast til nær yfir alla þá, sem eru skráðir í þann flokk og/eða kjósa hann. Ég var búin að horfa á þáttinn á Netinu, en yfirlætislaus og skemmtileg færsla hjá bloggvenzli mínu, Steingrími Helgasyni, varð til þess að ég horfði aftur og hlustaði betur. Ég fékk hugljómun.

Þar sem ég hef sjálf betra sjónminni en heyrnar, og reikna með að fleiri séu þannig gerðir, tók ég á það ráð að skrifa niður skilgreiningu Hannesar Hólmsteins á Sjálfstæðismönnum orð fyrir orð. Hún hljómar svona:

SjálfstæðisflokkurinnHannes Hólmsteinn: Sjálfstæðismenn eru mjög foringjahollir og það er dálítill munur kannski ef maður tekur þetta svona... Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og vinstri flokkana hins vegar þá er... í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt. Það hljómar dálítið einkennilega kannski en... og ég á kannski ekki að segja það svona, en til einföldunar má segja að Sjálfstæðismenn eru menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin. Vinstri menn eru menn, sem halda að með masi og fundahöldum þá sé... og sko ljóðalestri, þá sé hægt að leysa einhverjar lífsgátur. Þarna er dálítill munur. Þannig að vinstri menn eru miklu pólitískari heldur en hægri menn. Þess vegna eru þeir ekki eins foringjahollir. Hægri mennirnir, þeir eru bara að reka sín fyrirtæki, þeir vilja leggja á brattann, þeir vilja bæta kjör sín og sinna, þannig að þeim finnst hérna... gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá og Davíð var slíkur maður.

Þar höfum við það svart á hvítu. Slóð á þennan hluta Mannamáls er hér ef einhver vill líka horfa, hlusta og sannreyna orð Hannesar Hólmsteins. Hann sagði þetta - í alvöru.

Skýrara og skilmerkilegra getur það ekki verið. Sjálfstæðismenn eru ekki pólitískir, fylgja bara sínum foringja eins og sauðkindur sínum forystusauð. Þeir hafa bara áhuga á því að græða og grilla og hugsa um það eitt að bæta kjör sín og sinna, láta foringjann um pólitíkina. Væntanlega er þeim slétt sama um alla hina. En vinstrimenn, sem virðast samkvæmt skilgreiningu Hannesar einmitt vera allir hinir, eru pólitískir upp til hópa og reyna að leysa lífsgáturnar, að líkindum þjóðfélagsmál sem þarf að íhuga, ræða og afgreiða.

Mig grunar að þarna sé Hannes Hólmsteinn að orða, svona líka snilldarlega, það sem ansi margir vissu almennt fyrir og eru búnir að vita lengi, lengi.


Áramótakveðjur

Sendi öllum sem þetta lesa bestu óskir um gleðilegt og hamingjuríkt nýtt ár með þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða...

Kveðjur frá Langtbortistan.

Wizard


Hátíð kristni eða sólstöðuhátíð

Vetrarsólstöður (eða vetrarsólhvörf) eru á tímabilinu 20. - 23. desember.  Breytileiki dagsetningarinnar mun fyrst og fremst stafa af hlaupársdögum en oft er einfaldlega miðað við 21. desember í daglegu tali.  Á vetrarsólstöðum er dagurinn stystur, síðan fer hann að lengja smátt og smátt og það grillir í vorið handan við sjóndeildarhringinn þótt erfiðir og jafnvel hundleiðinlegir vetrarmánuðir séu fram undan.  Hér er skemmtileg umfjöllun Almanaks Háskóla Íslands um hænufetið, en ein merking orðsins er einmitt lenging sólargangsins dag frá degi eftir vetrarsólstöður.

Sumum líkar myrkrið vel, öðrum illa, mörgum er slétt sama um það.  Myrkrið í umhverfinu má auðveldlega lýsa upp en þeir eru verr settir sem upplifa myrkur í sálartetrinu líka.  En hver hefur líklega sinn háttinn á að eiga við það eins og annað.

Kannski væri öllum hollt að setja ytra myrkrið sem við upplifum í samhengi við söguna.  Ísland hefur verið byggt í rúm 1100 ár.  Við höfum haft rafmagn í tæp 100 ár.  Það er um 9% af þeim tíma sem landið hefur verið í byggð.  Vetrarmyrkrið sem við búum við í raflýstri veröld nútímans hefði líklega verið sem sólbjartur sumardagur í augum forfeðra okkar.  Við erum lánsöm og okkur ber að þakka þeim sem byggðu þetta land og þraukuðu í kulda og myrkri með því að bera tilhlýðilega virðingu fyrir sögunni í víðasta skilningi þess orðs.

Forfeður okkar, frumbyggjar Íslands, vissu hvað um var að vera í náttúrunni á þessum árstíma og héldu hátíð sem síðar breyttist í kristna jólahátíð.  Það er svo sem sama hvaðan gott kemur og upplagt að gleðjast í skammdeginu og fagna hækkandi sól, hvað sem við köllum þessa ágætu hátíð.

Gleðileg jól, njótum sólstöðuhátíðarinnar.


Við skulum ekki vetri kvíða

Við skulum ekki vetri kvíða,
vænn er hann á milli hríða.
Skreyttur sínum fannafeldi,
fölu rósum, stjörnueldi
dokar hann við dyrastaf.
Ekkert er á foldu fegra,
fagurhreinna, yndislegra
en nótt við nyrzta haf.

Við skulum ekki vetri kvíða,
vorið kemur innan tíða.
Undan fargi ísaþagnar
eyjan græna rís og fagnar,
líkt og barn, sem lengi svaf.
Kviknar landsins ljósa vaka.
Ljóð og söngva undir taka
himinn, jörð og haf.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.  Síðustu ljóð, 1966.


Háð getur verið hárbeitt gagnrýni

Vefsíðan www.hengill.nu var sett upp 30. október sl. til að vekja athygli á fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum á Hengilssvæðinu og hvetja fólk til að senda inn athugasemdir við þær.  Það tókst svo vel að Skipulagsstofnun bárust um 700 athugasemdir sem var Íslandsmet.  Í framhaldi af Hengilssíðunni opnaði ég þessa bloggsíðu til að hnykkja enn frekar á málefninu og ýmsu því tengdu.

Fjöldi manns hefur einnig haft samband við okkur persónulega, ýmist hringt eða sent tölvupóst.  Sumir til að sýna stuðning, aðrir til að veita upplýsingar.  Sumir óska nafnleyndar, aðrir ekki.

Eins og greinilega hefur komið fram mjög víða er sveitarstjóri Ölfuss ábyrgur fyrir ýmsu sem þykir vægast sagt gagnrýnisvert og eru virkjanamálin aðeins einn angi af því öllu saman.  Nýlega var mér bent á grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir rúmu ári, nánar tiltekið 2. desember 2006.  Hún er eftir Jóhann Davíðsson og fjallar í háðskum tón um afrekaskrá sveitarstjórans í Ölfusi og hvernig hann hefur æ ofan í æ klúðrað málefnum Þorlákshafnar- og Ölfusbúa.  Það er ofar mínum skilningi hvers vegna íbúar Sveitarfélagsins Ölfuss eru ekki löngu búnir að taka sig saman og stöðva sveitarstjórann.  Skyldi það eitthvað hafa með hræðsluna og nafnleyndina að gera sem fjallað er um í færslunni hér á undan?  Það kæmi mér alls ekkert á óvart.

Jóhann Davíðsson veitti mér leyfi til að endurbirta greinina sína.  Háðið getur verið hárbeitt vopn eins og hér má sjá:

Laugardaginn 2. desember, 2006

Til hamingju, Þorlákshafnarbúar

Jóhann Davíðsson fjallar um málefni sveitarfélagsins í Þorlákshöfn

Jóhann DavíðssonÍBÚAR Þorlákshafnar hafa verið svo lánsamir að njóta forystu Ólafs Áka Ragnarssonar bæjarstjóra í eitt kjörtímabil og eru að upplifa annað með þessum framtakssama manni. 

Hann er röskur, selur 1544 hektara jörð, Hlíðarenda, sem nota átti sem útivistarsvæði, m.a. til skógræktar og breytir í iðnaðarsvæði. Eiginlega er ekki hægt að kalla þetta sölu, heldur svona góðra vina gjöf, en það gerðu oft höfðingjar til forna, gáfu vinum sínum ríkulega og nískulaust. 

Bæjarstjórinn bar hag eigenda vel fyrir brjósti, þ.e. íbúa sveitarfélagsins, og setti enga óþarfa fyrirvara eða kvaðir í kaupsamninginn, t.d. hvað um jörðina verður ef ekki kemur til reksturs vatnsverksmiðju. Hefur kaupandinn fimm ár til að hugsa það án fjárútláta og vonandi verða stjórnendur fyrirtækisins ekki andvaka vegna vaxtanna. 

Kaupandinn þarf ekki að greiða krónu fyrir vatnið en annars átti vatnsfélagið að greiða bæjarfélaginu fyrir vatnsnotkun. Þetta sýnir hve útsjónarsamur bæjarstjórinn er í rekstri sveitarfélagsins og skýrir væntanlega hækkun meirihlutans á launum hans. 

Þá var hann ekkert að bíða eftir formlegum leyfum, enda er það tafsamt fyrir duglegan bæjarstjóra heldur gaf mönnum góðfúslega leyfi til að atast í vatnslindinni og fjallshlíðinni fyrir ofan bæinn með stórvirkum tækjum áður en hann seldi jörðina enda vissi hann sem var að fáir höfðu skoðað þetta og enn færri hugmynd um, hvað jörðin hefur að geyma. Þar hlífði hann mörgum íbúum við að sjá hverju þeir voru að missa af. Sú tillitssemi hans er virðingarverð. 

Þetta var fjárhagslega hagkvæmt enda kostar skógrækt og annað stúss við svona útivistarsvæði ómælt fjármagn. Þá losar hann Þorlákshafnarbúa við fjárútlát vegna um 100 ára gamals húss á bæjarstæðinu, en einhver sérvitringurinn gæti látið sér það til hugar koma að gera upp húsið, þar sem það tengist mjög náið sjávarútvegi og sögu Þorlákshafnar og er elsta húsið í sveitarfélaginu. Bæjarstjórinn er séður, nefnir ekki húsið einu orði í sölusamningnum. 

Það er gott hjá honum að hafa ekki látið minnast á sölu stórs hluta af upplandinu, m.a. þeirra fjalla sem blasa við frá Þorlákshöfn, á fréttavef bæjarfélagsins, Ölfus.is. Einhverjir gætu orðið sárir vegna sölunnar en Ólafur Áki er friðsemdarmaður og vill hlífa mönnum við óþægilegum fréttum. Betra að fólk lesi þar um nýjan slökkvibíl og bangsadaga í bókasafninu. 

Ólafur Áki er hamhleypa til verka. Búinn að ákveða að selja land undir álverksmiðju í Þorlákshöfn. Til að milda skap þeirra íbúa sem finnst nóg komið af slíkum í landinu, og kæra sig ekkert um eina við bæjardyrnar, bendir bæjarstjórinn réttilega á að þetta er ekki álverksmiðja heldur svona smá álverksmiðja. 

Sveitarfélagið hefur selt land undir golfvöll og land úti á Bergi. 

Stefnir í að bæjarstjórinn verði búinn að losa sig við allt land sveitarfélagsins fyrir næstu jól og er það rösklega gert þar sem bærinn var með þeim landmestu á landinu. 

Þessi forystusauður hefur lýst áhuga sínum á að íbúar höfuðborgarsvæðisins losni við úrgang sinn í Þorlákshafnarlandið. Á það eflaust eftir að efla jákvæða ímynd bæjarfélagsins.

Hópur fólks kom til Þorlákshafnar s.l. vor. Mætti honum mikill fnykur og þegar spurt var hvað annað væri í boði var sagt að í bænum væru þrjár hraðahindranir. Þarna tel ég að bæjarstjórinn hafi sýnt hyggjuvit til að laða að ferðamenn, sparað auglýsingakostnað og vitað sem var að betra er illt umtal en ekkert. 

Í framtíðinni geta svo ferðamenn skoðað, væntanlega fyrir sanngjarnt gjald, hvernig skemma má án nokkurra leyfa gróna fjallshlíð, barið augum iðnaðarhús á útivistarsvæði, séð lítið og sætt álver og notið ilmsins af sorphaugi. Allt í anda "metnaðarfullrar stefnu í umhverfismálum", með "áherslu á að gengið verði um landið og auðlindir þess af varfærni og virðingu" og þess að náttúran og íbúarnir hafa lengi og vel notið "vafans áður en ákvörðun er tekin" eins og segir á vef Sjálfstæðisfélagsins Ægis. 

Íbúar Árborgar hljóta að vera ánægðir með skreytinguna á Ingólfsfjalli enda er hún gerð með metnaðarfullri varfærni og virðingu. 

Nýyrðasmíði bæjarstjórans er uppspretta peninga. Þannig fann hann upp nýyrðið "Bráðabirgða framkvæmdaleyfi" og lét Orkuveitu Reykjavíkur greiða 500 milljónir fyrir. Sannast þar hið fornkveðna: "Dýrt er drottins orðið". 

Einnig virðist hann hafa breytt merkingu orðsins "íbúalýðræði" sem var talið þýða að haft væri samráð við íbúana um málefnin, í: "Bæjarstjórinn ræður".

Þótt hann hafi örlítið hagrætt geislabaugnum fyrir kosningar og verið með orðhengilshátt við gamla Hafnarbúa, má ekki dæma hann hart. Hann var að safna atkvæðum og þar helgaði tilgangurinn meðalið. 

Enda er gaman að stjórna og fá að tylla, þótt væri ekki nema annarri rasskinninni í bæjarstjórastólinn, um stund.

Hvar eru teiknibólurnar? 

Enn og aftur, til hamingju. 

Höfundur er lögreglumaður, bjó á B-götu 9 Þorlákshöfn og er félagi í Græna bindinu.


Hræðslan og nafnleynd

Þetta var fyrirsögn í leiðara Morgunblaðsins síðastliðinn mánudag, 10. desember.  Leiðarinn er birtur hér að neðan.  Umrædd hræðsla er ekki ný af nálinni.  Agnes Bragadóttir skrifaði langa grein um hræðsluna í Morgunblaðið 12. nóvember sl. og Ómar Ragnarsson bloggar um hana sama dag hér.

Við sem höfum reynt að berjast gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi, og bent á vægast sagt vafasamar aðferðir sem viðhafðar hafa verið af þeim sem að virkjuninni standa, höfum aldeilis fundið fyrir þessari hræðslu.  Fólk, sem er innilega sammála okkur og býr jafnvel yfir upplýsingum, þorir ekki að leggja nafn sitt við málið af ótta við einhvers konar refsingu eða aðrar afleiðingar þess að láta skoðanir sínar í ljós.  Þetta er óhugnanlegt.

Í þessari færslu lýsti ég eftir lýðræðinu á Íslandi.  Nú lýsi ég eftir skoðana- og málfrelsinu.

Leidari_Moggi_101207


Nú er mér ekki skemmt

Ég er ekkert sérstaklega viðkvæm og finnst sjálfsagt að fólk hafi ólíkar skoðanir á hlutunum, en í greininni hér að neðan úr 24 stundum 12. desember sl. fer formaður Húseigendafélagsins óralangt yfir strikið. Hér með er áætlunum um að ganga í téð félag frestað um óákveðinn tíma.

Í grein formannsins er nánast hver einasta setning árás á mig og mína og aðra líkt þenkjandi, auk þess sem orðbragðið er síst til fyrirmyndar.  Þegar sjálfum formanni Húseigendafélagsins finnst sjálfsagt að banna fólki að elda tiltekinn mat innan veggja eigin heimilis og reykja á bak við luktar dyr er þess skammt að bíða að fleira bætist á bannlistann.

Ég er alin upp við að borða skötu einu sinni á ári. Foreldrar mínir og amma, sem bjó á heimilinu, ÞÓTTUST ekki vera að Vestan - þau VORU að Vestan. Og það var ekkert barbarískt við matargerð móður minnar eða neyslusiði okkar, hvort sem um var að ræða skötu, siginn fisk, svið, rauðmaga eða annað sem sumum fannst herramannsmatur en öðrum ómeti. 

Ég var frekar matvönd í æsku, en skatan fannst mér alltaf góð, ólíkt mörgum börnum, og ég hef alltaf haft skötu á borðum á Þorláksmessu og hyggst halda í þá hefð til dauðadags.  Vei þeim formanni sem reynir að banna mér það.  Ég get ekki með nokkru móti séð að þar með sé ég að skerða rétt annarra til að lifa eðlilegu og heilbrigðu lífi eins og formaðurinn segir.  Ég ólst upp í sambýlishúsi, bý enn í sambýlishúsi og hef aldrei fengið kvörtun frá nágrönnum yfir skötulykt, enda er opnanlegt fag á eldhúsglugganum hjá mér og auk þess vifta yfir eldavélinni.  

Ég áskil mér þann rétt að meta sjálf hvað mér finnst óætur viðbjóður og hvað ekki.  Þar í flokki er ýmislegt sem öðrum þykir herramannsmatur, s.s. gellur, sniglar, ýmsir pastaréttir og fleira.  En ekki hvarflar að mér að banna fólki að borða það þótt mér þyki það ógeðslegt.  Mér finnst líka frekar ókræsilegt að ganga fram hjá hitakössum með sviðahausum í búðum og finna fýluna af þeim, ekki sérlega lystugur matur fyrir minn smekk, en fyrr skal ég dauð liggja en kvarta og hafa sviðin af þeim sem finnast þau góð.

Skötumáltíð er órjúfanlegur hluti af jólunum hjá mér eins og rjúpur og hangikjöt.  Lyktar- og bragðsmekkur fólks er einstaklingsbundinn og sitt sýnist hverjum í þeim efnum.  Sumum finnst hangikjötslykt ógeðslega vond, vill formaðurinn banna það líka?  Sjálf kúgast ég ef ég kem nálægt þar sem verið er að gera slátur - þoli ekki lyktina.  Á þá ekki að banna sláturgerð í mínu húsi? Mér finnst lykt af alls konar mat ógeðsleg, öðrum sjálfsagt líka, og ef hlustað væri á svona blaður gæti endað með því að enginn mætti elda neitt sem nágrönnunum þykir vont eða illþefjandi. 

Ég hlýt að vera mikill syndaselur í augum formannsins, því auk þess að elda skötu einu sinni á ári þá reyki ég alla daga ársins - en aðeins innan veggja heimilisins - ekki í sameigninni, hvað þá að ég liggi á skráargötum nágranna minna og blási reyknum inn til þeirra.  Það væri eina leiðin til að þeir yrðu fyrir ónæði af mínum reykingum.

Ef formaðurinn og hans líkar vilja banna fólki að elda og borða tiltekinn mat og reykja tóbak inni á heimilum sínum, hvað kemur þá næst? Hvað fleira vill formaður húseigendafélagsins banna fólki að gera innan veggja eigin heimila?  Hvernig ætlar hann að fylgjast með? Hafa eftirlitsmyndavélar á hverju heimili?

Það er í hæsta máta óeðlilegt og raunar argasti skandall að Sigurður sé með slíkt óþverraorðbragð og geri svona lítið úr fjölda fólks opinberlega þar sem hann er í forsvari fyrir félag sem tekur við alls konar kvörtunum yfir nágrönnum, hversu alvarlegar eða léttvægar þær kunna að vera.  Hann er hér að stimpla sig rækilega inn sem fordómafullur maður sem dæmir samkvæmt eigin smekk og getur því aldrei talist hlutlaus í neinum málum héðan í frá.

Ég er búin að lesa greinina þrisvar og verð reiðari við hvern lestur. Mér finnst maðurinn gera sig að fífli og óviðurkvæmilegt orðbragðið lýsir ótrúlega mikilli mannfyrirlitningu og er formanni Húseigendafélagsins ekki sæmandi.


Skata_24_121207-80

Löglegt en siðlaust... eða kolólöglegt og siðlaust í þokkabót?

Hér fyrir neðan er samkomulag það, sem Orkuveita Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus gerðu með sér í apríl 2006 þar sem OR kaupir blygðunarlaust samvinnu sveitarstjórnar og loforð þess efnis að framkvæmdaleyfi verði veitt fyrir virkjunum og greitt fyrir flýtimeðferð gegn því að OR kosti ýmsar framkvæmdir í Ölfusi. Samkomulagið er gert löngu áður en lögbundið ferli hófst við umhverfismat og breytingu aðalskipulags sem krafist er við svona miklar framkvæmdir, svo ekki sé minnst á hvað þær eru umdeildar.

Samkomulagið er metið á 500 milljónir króna sem eru greiddar úr vasa Reykvíkinga - þeir eiga jú Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki lækka orkureikningar þeirra við það. Matsupphæðin er fengin úr fundargerð Sveitarfélagsins Ölfuss sem sjá má hér undir lið g.

Í viðtali í kvöldfréttum Sjónvarpsins 1. desember sl. gagnrýndi Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sveitarstjórnir harðlega fyrir að taka ekki nægilegt tillit til náttúruverndarsjónarmiða við skipulagsákvarðanir. Hún sagði jafnframt að náttúrunni væri of oft fórnað fyrir atvinnusjónarmið. Orðrétt sagði Þórunn einnig: "Ég fæ ekki séð hvernig fyrirtæki, hvort sem það er ríkisfyrirtæki eða annað, geti lofað þjónustubótum sem eru í raun á hendi ríkisins."

Samkomulag OR og Ölfuss er nákvæmlega svona. Þarna er opinbert fyrirtæki í eigu Reykvíkinga að lofa sveitarfélagi ljósleiðara, uppgræðslu, hesthúsum, raflýsingu á þjóðvegum og fleiru og fleiru til að horft verði fram hjá skaðsemi framkvæmdanna og öllu ferlinu flýtt eins og kostur er.

Nú þegar hefur verið bent á gríðarlega lyktarmengun sem hljótast mun af þessu virkjanaæði. Ólíft getur orðið í Hveragerði 70 daga á ári. Reykvíkingar hafa nú þegar fundið fyrir töluverðri lyktarmengun og magn brennisteinsvetnis í mælingum við Grensásveg hefur farið yfir hættumörk þótt enn sé aðeins búið að reisa tvær virkjanir af fimm eða sex fyrirhuguðum. Virkjanirnar endast ekki nema í 40 ár, nýting þeirra einungis 12-15% þannig að 85-88% fer til spillis og aðeins er fyrirhugað að framleiða rafmagn, ekki heitt vatn til húshitunar eða annarra verkefna. Þetta eru því jarðgufuvirkjanir, ekki jarðvarmavirkjanir.

En hér er samkomulagið - dæmið sjálf hvort þetta séu siðlausar mútur eða eðlileg meðferð á fjármunum Reykvíkinga. Ég ætla að taka fyrir einstakar greinar í seinni færslum og kryfja þær nánar. Allar frekari upplýsingar, studdar gögnum, væru vel þegnar.
___________________________________________________

Samkomulag milli Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss um ýmis mál sem tengjast virkjun á Hellisheiði

1. grein
Orkuveita Reykjavíkur er að reisa fyrsta áfanga Hellisheiðarvirkjunar og stefnir að enn frekari uppbyggingu orkuvera á Hellisheiði og Hengilssvæðinu.  Um er að ræða framkvæmdir vegna stækkunar virkjunar og framkvæmdir vegna nýrra virkjana til raforku- og varmaframleiðslu.  Fyrirséð eru mannvirki tengd vélbúnaði og stjórnstöð, borteigar, safnæðar, skiljustöðvar, aðveituæðar, kæliturnar og önnur mannvirki aukist á svæðinu.  Framkvæmdin felur í sér vinnslu jarðhita, vegi, borholur, vatnsöflun, gufuveitu, stöðvarhús, kæliturna, niðurrennslisveitu og efnistökusvæði.  Framkvæmdatími getur numið allt að 30 árum og stærð virkjana orðið samtals um 600 - 700 MW.

2. grein
Bæjarstjórn Ölfuss veitir framkvæmdaleyfi og greiðir fyrir skipulagsmálum eins hratt og unnt er vegna umræddra framkvæmda enda byggi þær á lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrir hvern áfanga og viðkomandi verkþætti.  Orkuveita Reykjavíkur greiðir Sveitarfélaginu Ölfuss skv. 11. grein fyrir aukið álag og vinnu sem framkvæmdirnar kalla á hjá sveitarfélaginu.  Þetta gerir sveitarfélaginu kleift að hraða öllum umsögnum og leyfisveitingum sem þörf er á.

3. grein
Orkuveita Reykjavíkur sér um og ber allan kostnað af hugsanlegum málaferlum og skaðabótakröfum sem rekstur og framkvæmdir tengdar Orkuveitu Reykjavíkur leiða til, sama hvaða nafni þær nefnast.  Þetta á einnig við um hugsanleg skaðabótamál á hendur Sveitarfélaginu Ölfuss sem rekja má til virkjunarframkvæmda og orkuvera á Hellisheiði.

4. grein
Aðilar eru sammála um að sérstök ráðgjafanefnd sem skipuð verði um uppgræðsluverkefni skili tillögum til beggja aðila um uppgræðslu í Sveitarfélaginu Ölfusi.  Ráðgjafanefndin verði skipuð þremur aðilum, einum frá Orkuveitu Reykjavíkur, einum frá Sveitarfélaginu Ölfusi og aðilar koma sér saman um einn fulltrúa eftir nánara samkomulagi.  Fulltrúi Sveitarfélagsins Ölfuss verður formaður nefndarinnar.  Um er að ræða uppgræðsluverkefni í sveitarfélaginu, til að mæta bæði því raski sem verður vegna virkjana og til almennra landbóta.  Miðað er við að Orkuveita Reykjavíkur verji til þessa verkefnis 12,5 milljónum á ári fram til 2012.  Þá verði leitast við að fá fleiri aðila að verkinu.  Þá mun Orkuveita Reykjavíkur leggja að auki til starf unglinga til landbóta í sveitarfélaginu.  Haft verður í huga í landgræðsluverkefnunum að vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

5. grein
Vegna framkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur tekur hún að sér að byggja upp nýja fjárrétt og hesthús við Húsmúla sem notuð er til smölunar á afrétti Ölfusinga skv. fyrirliggjandi teikningum.  Orkuveita Reykjavíkur mun annast viðhald þessara mannvirkja.  Þessi aðstaða nýtist fyrir ferðamennsku á svæðinu í annan tíma.  Þá sér Orkuveita Reykjavíkur um að byggja upp og lagfæra það sem snýr að smölun og afréttarmálum sem virkjunarframkvæmdirnar hafa áhrif á.  Miða skal að 1. áfanga verksins þ.e.a.s. bygging fjárréttar, verði lokið fyrir göngur haustið 2006.

6. grein
Orkuveita Reykjavíkur gerir Sveitarfélaginu Ölfuss tilboð í lýsingu vegarins um Þrengsli, frá Suðurlandsvegi í Þorlákshöfn fyrir 14 milljónir á ári (verðtryggt með neysluvísitölu, janúar 2007).  Innifalið er lýsing á veginum með ljósum sem eru með 50 m millibili, allur fjármagnskostnaður, orka og viðhald er innifalið í tilboðinu.  Fylgt verður kröfum og reglum Vegagerðarinnar.  Verkinu verði lokið á árinu 2006 að því tilskyldu að öll leyfi liggi tímanlega fyrir.

7. grein
Orkuveita Reykjavíkur mun greiða Sveitarfélaginu Ölfuss fyrir jarðhitaréttindi í afréttinum á Hellisheiði samkvæmt sömu reglum og notaðar voru við önnur landa- og réttinda kaup af landeigendum í Ölfusi.  Þetta verður gert ef og þegar óbyggðanefnd eða eftir atvikum dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að afrétturinn sé fullkomið eignarland sveitarfélagsins, allur eða að hluta.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af 3 manna gerðardómi þar sem hvor aðili skipar einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

8. grein
Verði niðurstaða óbyggðanefndar, eftir atvikum dómstóla, sú að afrétturinn allur eða að hluta sé þjóðlenda mun Orkuveita Reykjavíkur bæta tjón vegna jarðrasks, missi beitilanda, umferðarréttar, og röskunar á afréttinum eftir nánara samkomulagi.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af þriggja manna gerðardómi þar sem hvor aðili um sig skipi einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

9. grein
Á árinu 2008 hafi Orkuveita Reykjavíkur lokið lagningu ljósleiðara um þéttbýli í Þorlákshöfn og fyrir árið 2012 verði lagningu ljósleiðara lokið um aðgengilegan hluta dreifbýlis Ölfuss skv. nánara samkomulagi er liggi fyrir áramót 2006/2007.

10. grein
Kannað verði til hlítar hvort aðkoma Orkuveitu Reykjavíkur að Sunnan 3 sé áhugaverður kostur fyrir verkefnið og þá aðila sem að verkefninu standa.  Markmið verkefnisins er að nota rafrænar lausnir til að efla búsetuskilyrði á svæðinu.

11. grein
Aðilar eru sammála um að bæjarstjórn Ölfuss þurfi að fylgjast með reglubundnum hætti með virkjunarframkvæmdum innan sveitarfélagsins m.a. til að geta svarað spurningum sem upp kunna að koma og beint verður til bæjarstjórnar.  Í þessu skyni koma aðilar sér saman um að halda reglulega fundi á framkvæmdatíma, allt að 4 fundum á ári, þar sem m.a. verður farið í skoðunarferðir um vinnusvæðið.  Aðilum er ennfremur ljóst að umsvif og álag á bæjarstjórn og bæjarstjóra Ölfuss mun fyrirsjáanlega aukast meðan framkvæmdir við virkjanir á Hengilssvæðinu standa yfir í sveitarfélaginu.  Samkomulag er um að Orkuveita Reykjavíkur greiði Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir þann kostnað sem af þessu hlýst með fastri heildargreiðslu, kr. 7,5 milljónir á ári árin 2006 til 2012, 1. september ár hvert.  Þessar greiðslur verða notaðar til að kappkosta við að afgreiðsla umsagna og leyfa verði eins hröð og hægt er. 

Ölfusi 28. apríl 2006 

Undir skrifa Ólafur Áki Ragnarsson og Hjörleifur Brynjólfsson fyrir hönd Ölfuss og Guðmundur Þóroddsson og ólæsileg rithönd fyrir hönd OR.

_________________________________________________


Ég kref Orkuveitu Reykjavíkur svara við því, hvernig hún telur sig þess umkomna að gefa Sveitarfélaginu Ölfusi 500 milljónir - hálfan milljarð - af peningum Reykvíkinga. Orkuveita Reykjavíkur er opinbert fyrirtæki í eigu útsvarsgreiðenda í Reykjavík og þeir eiga heimtingu á að fá skýr svör frá OR.

Svo væri einnig mjög fróðlegt að vita nákvæmlega í hvað gjafaféð sem þegar hefur verið reitt af hendi hefur farið. Það þykir mér forvitnilegt og nú stendur upp á sveitarstjórn Ölfuss að gefa nákvæmar skýringar á hverri einustu krónu.

Eins og fram kom í einni af fyrri færslum mínum er meirihlutinn í Sveitarstjórn Ölfuss skipaður 4 einstaklingum sem hafa alls 495 atkvæði á bak við sig. Athugasemdir við og mótmæli gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun voru rétt um 700. Ef allt er talið snertir ákvörðunin um virkjanir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu um það bil 200.000 manns beint í formi spilltrar náttúru, lyktar-, loft- og sjónmengunar og alla landsmenn í formi ofurþenslu, verðbólgu og vaxtahækkana.

Ég lýsi eftir lýðræðinu í þessum gjörningi.


Í beinu framhaldi af síðustu færslu

Jón Steinar var að kenna mér að setja inn mynbönd af Youtube og mér finnst upplagt að byrja á þessu - svona í framhaldi af síðustu færslu um auðmennina. Skyldu þeir vinna svona?

 


Peningar um peninga frá peningum til hvers?

Ég hef lengi furðað mig á fréttamati fjölmiðla hvað varðar peninga og auðmenn. Allt annað í lífinu virðist vera hjóm eitt hjá því hver græðir hve mikið og á hverju, hver hlutabréfavísitalan er eða hvað þær nú heita þessar úrvalsauravísitölur, hvað hefur hækkað og hvað lækkað hverju sinni.

Sérstök innslög eða fréttatímaaukar eru um "markaðinn" eins og t.d. hjá Stöð 2 í kringum hádegið - kl. 12:15 í dag var Markaðurinn hádegi og kl. 12:31 var Hádegisviðtal markaðarins. Síðan var Markaðurinn kl. 18:20.

Bankar og aðrar fjármálastofnanir eru með fréttir oft á dag um hvernig peningamarkaðurinn er að gera sig þá stundina og fréttir af hve margar milljónir, milljónatugir eða milljarðar gengu kaupum og sölum þann daginn tröllríða öllum fréttatímum á öllum fjölmiðlum. Það þótti auk þess tilefni í sérstaka frétt þegar viðskiptaþátturinn Í lok dags féll niður kl. 16:20 þann 3. des. sl. eins og sjá má hér.

Í gærkvöldi var fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins mannaskipti auðmanna hjá FL Group. Það var þriðja frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fyrsta frétt í sexfréttum Ríkisútvarpsins.

Menn hverfa frá störfum með tugmilljóna starfslokasamninga, sagt er frá þeim nýjasta hér. Þó var maðurinn sagður með 4 milljónir á mánuði á meðan hann gegndi starfinu og hefði líkast til getað lagt aura til hliðar fyrir mögru árin eins og við hin þurfum að gera.

Á sama tíma les maður þetta... og þetta... og þetta... svo dæmi séu nefnd. Þessar sögur nísta í gegn um merg, bein og hjarta og maður spyr sig hvað þarf til að snerta við réttlætiskennd almennings og fjölmiðlafólks. Af hverju er svona mikið fjallað um auðmennina í fjölmiðlum en svona lítið um fátæktina... um þá sem minna mega sín og þjóðfélagið kemur illa fram við?

Ísland best í heimi... hvað?

Ég hef verið að reyna, ásamt mörgum öðrum, að benda á þá firringu sem á sér stað í virkjanafíkn og stóriðjuæði vissra aðila í þjóðfélaginu og afleiðingar þeirrar skammsýni. Afleiðingarnar snerta hvert einasta mannsbarn á Íslandi í formi loftmengunar, lyktmengunar, eyðileggingar á þeirri dásamlegu náttúru sem við höfum öll hlotið í arf frá forfeðrum okkar og -mæðrum ásamt þenslu, verðbólgu, hækkandi vöxtum, innflutningi tugþúsunda erlendra verkamanna og almennt versnandi lífskjörum. Fáir hlusta og fjölmiðlar sofa á verðinum. Enginn fjölmiðill virðist tilbúinn til að kryfja málið og fjalla um það á vitrænan hátt og í heildstæðu samhengi. Fréttablaðið hefur gert heiðarlegar tilraunir, en þær nægja ekki til að gera svo gríðarlega alvarlegu og yfirgripsmiklu máli nauðsynleg og verðskulduð skil.

Ég minni á að fyrir síðustu alþingiskosningar var eftir því tekið að upp spruttu umhverfisverndarsinnar í öllum flokkum sem mærðu náttúruvernd og lofuðu öllu fögru. Nauðsynlegt er að breyta lögum, að minnsta kosti tvennum, en hver er að sinna því? Enginn á þingi eftir því sem ég best veit.

Árið 2004 kom út merkileg ljóðabók eftir Sigfús Bjartmarsson sem hann kallaði Andræði. Bókin er leikur með orð og Sigfús leikur af mikilli snilld. Bókin skiptist í 11 kafla og hver kafli hefur inngangsljóð. Ég ætla að leyfa mér að birta hér tvö ljóð ásamt inngangsljóðum hvors kafla. Það var erfitt að velja því ljóðin eru hvert öðru betra og beinskeyttara.

5
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá hlutafjármarkaðarins hástökksmethafa
í flokki hörmangarafélaga vann:
Sá skal mæra samkeppnina
sem hana kaupir upp.

Og ljóðið sjálft er svona og ég tileinka það Hannesi Smárasyni og öðrum tugmilljóna-auðmönnum:

Vit er
veraldar
gengi.

Og
gott
er hátt
gengi en
hættar þó
en lágu við
að lækka
lengi.


vit er
vandmeðfarið
og valt.

Kúlið
getur óðara
orðið svo
kalt.

9
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá innsta aðstoðarkoppi æðstaráðsritara
landseigendaflokksins vann:
Fjórðungi bregður til flokks
en frekar bregður hinum
til hagsmuna
hans.

Ljóðið hljóðar svo - ég tileinka það Alþingi og ríkisstjórn, sem með réttu ættu að fara með stjórnartaumana - og sem lofa öllu fögru fyrir kosningar:

Í upphafi
skal efndirnar
skoða.


fagurt
galar formaður
sem fögnuðinn vill
fólki sínu
boða.

Og
ljúft er
að leggja svo
með lygasögnum
slag eftir
slag.


sjaldan
lifir kosningaloforð
kjördag.

Og
marga
mun sverja
eiðana sá
sem alla
svíkja
má.


enginn
tryggir atkvæðin
eftir á.

 


Hver á umhverfið?

Þessi spurning er yfirskrift fundar sem haldinn verður á vegum Framtíðarlandsins næsta miðvikudag, 5. desember. Í fundarboðinu, sem birt er hér að neðan, kemur fram að allar Norðurlandaþjóðirnar hafi fullgilt Árósasamninginn - nema Ísland. Tekið skal fram að samningurinn var gerður í júní 1998, fyrir hartnær 10 árum.

Yfirskrift samningsins, eða titill hans, hljóðar svo:  SAMNINGUR UM AÐGANG AÐ UPPLÝSINGUM, ÞÁTTTÖKU ALMENNINGS Í ÁKVARÐANATÖKU OG AÐGANG AÐ RÉTTLÁTRI MÁLSMEÐFERÐ Í UMHVERFISMÁLUM

Hvað veldur tregðu íslenskra stjórnvalda við að leyfa almenningi og náttúruverndarsamtökum að hafa meiri áhrif á meðferð umhverfisins? Alveg eins mætti spyrja: Hver á Ísland?

Framtíðarlandið hélt annan fund um Árósasamninginn 27. september sl. og var sitthvað skrifað og bloggað um málið þá, t.d. hér. Heilmikla umfjöllun má finna um samninginn víða á netinu, svo sem hér og hér og hér

------------------------------------------------

Hver á umhverfið? Stefnumót við framtíðina

Framtíðarlandið efnir til opins morgunfundar miðvikudaginn 5. desember frá klukkan níu til tíu í fundarsal Norræna hússins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, verður sérstakur gestur fundarins en að lokinni tölu hennar verða pallborðsumræður.

Í pallborði sitja eftirtaldir, auk umhverfisráðherra:
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar
Salvör Jónsdóttir, skipulagsfræðingur

Fundarstjóri er Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur og meðlimur í sérfræðingaráði Framtíðarlandsins.

Umfjöllunarefni fundarins er staða lýðræðis-, skipulags- og umhverfismála með hliðsjón af Árósasamningnum. Árósasamningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Á fjórða tug ríkja í Evrópu eru aðilar að samningnum og hafa öll Norðurlöndin fullgilt hann nema Ísland. Þar sem samningurinn tryggir að almenningur og félagasamtök sem starfa að umhverfismálum eigi lögvarða hagsmuni þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á umhverfið má telja að fullgilding hans myndi breyta miklu fyrir frjáls félagasamtök.

Fyrir alþingiskosingar í vor lýsti Samfylkingin yfir vilja til að staðfesta Árósasáttmálann og því er forvitnilegt að vita hvort umhverfisráðherra muni beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að hann verði fullgiltur. Að sama skapi er áhugavert að ræða hvaða áhrif fullgilding hans muni hafa, t.d. á umhverfi orkufyrirtækja og umhverfismála almennt á Íslandi. Staða frjálsra
félagasamtaka á Íslandi myndi að líkindum taka stakkaskiptum t.a.m. hvað varðar gjafsóknir og hverjir geta kallast lögaðilar að málum en einnig hvað varðar fjárstuðning til þess að kanna og kynna mál - t.d. andstöðu við fyrirhuguð álver og virkjanaáform.

Það hlýtur að vekja athygli að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa fullgilt samninginn þrátt fyrir að öll önnur lönd í kringum okkur hafa gert það..  Eiga komandi kynslóðir það ekki skilið að ákvarðanir um stórframkvæmdir og röskun á umhverfi séu teknar á opinn og gagnsæjan hátt?

Fundurinn á erindi til allra sem eru áhugasamir um lýðræðis-, skipulags- og umhverfismál.

 

Vísir að svari við spurningunni?

Í síðustu færslu spurði ég spurningar - um hvort menn færu ekki að sjá að sér og hætta við fyrirhugaða Bitruvirkjun...  Ætli þetta sé vísir að svarinu? Það vona ég svo sannarlega!

Fréttabladid_031207


Sjá menn ekki bráðum að sér og hætta við?

Mér hefur orðið tíðrætt um þær athugasemdir sem bárust vegna fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar á Hengilssvæðinu, enda ekki að ástæðulausu. "Víða er pottur brotinn" segir máltækið. Í þessu máli er ekki um nokkra brotna potta að ræða heldur eru heilu álverakerin hreinlega í maski.

Í fyrri færslum hef ég birt ýmsar athugasemdir víða að og sagt frá alvarlegum göllum sem vísindamenn hafa bent á við vinnubrögð sem viðhöfð voru af hálfu þeirra aðila sem unnu mat á umhverfisáhrifum virkjanaframkvæmda.

Þótt talsmaður Orkuveitu Reykjavíkur hafi gert tilraunir til að gera lítið úr því að hluti af tæplega 700 athugasemdum við virkjanaframkvæmdirnar hafi verið samhljóða eru allar þær sem hér hafa verið birtar eða verða birtar úr hinum hópnum, þeim ósamhljóða. Eins og þeir sjá sem nenna að lesa þetta allt saman eru athugasemdirnar mjög alvarlegar og vel rökstuddar - sem þær samhljóða voru reyndar einnig. Enn á ég nokkrar athugasemdir óbirtar sem ég hef fengið sendar.

Í þetta sinn birti ég athugasemd Framtíðarlandsins. Hún er tekin af vefnum hér:  http://framtidarlandid.is/hellisheidarvirkjanir.
VARÚÐ - þetta er dágóð lesning en alveg frábærlega áhugaverð og kemur öllum við!

________________________________________________________ 

Reykjavík 9. nóvember 2007

Efni: Athugasemdir vegna frummatsskýrslna um Bitruvirkjun og Hverahliðarvirkjun


1.    Virkjanir Orkuveitu Reykjavíkur við Bitru og Hverahlíð eru tilkomnar vegna samnings um orkusölu til álvers við Helguvík. Sama á við stækkun Hellisheiðarvirkjunar. Í 5.gr.laga um umhverfismat er gert ráð fyrir því að séu fleiri en ein framkvæmd á sama svæði eða framkvæmdirnar háðar hver annarri geti Skipulagsstofnun metið áhrif þeirra sameiginlega. Hvoru tveggja á sannarlega við í þessu tilviki. Allar líkur eru á að virkjanirnar séu að nýta sama jarðhitageyminn, en ekki er áætlað hver sameiginleg áhrif þeirra eru, , einungis er reynt að meta áhrifin af hverri fyrir sig.  Áhrifasvæði virkjana á loftgæði eru einnig það sama eða skarast mjög en þær eru allar staðsettar í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Ennfremur er afar hæpið að fjalla ekki um heildaráhrif framkvæmda á upplifun af landslagsheild með myndrænum hætti. Til viðbótar virkjunum  verða sjónræn áhrif af fyrirhuguðum háspennulögnum um sama svæði, hvort heldur er í strengjum eða háspennulínum.
Hér hefði því verið afar brýnt að fjalla um umhverfisáhrif sameiginlega og að það skuli ekki gert gefur villandi mynd af þeim umhverfisáhrifum sem munu verða. Það hefði verið eðlilegt að fjalla að lágmarki um framkvæmdir á Hellisheiði við stækkun Hellisheiðarvirkjunar, Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun ásamt háspennulögnum Landsnets um svæðið.
Enn æskilegra hefði verið að meta sameiginlega að auki álver við Helguvík og fyrirhugaðar virkjanir Hitaveitu Suðurnesja, (stækkun Reykjanesvirkjunar, Svartsengis og virkjanir á Krýsuvíkursvæðinu) og/eða aðrar þær virkjanir sem nauðsynlegar eru til að afla álverinu orku.


2.      Í frummatsskýrslum um Bitruvirkjun og Hverahlíð kemur fram að orkuvinnsla sé „ágeng“ og að bora þurfi nýja vinnsluholu á 2 – 4 ára fresti allan rekstrartímann til að viðhalda vinnslugetu. Ennfremur kemur fram að hitalækkun á vinnslutíma sé áætluð um 10°C og allt að 1000 ár taki varmaforðann að endurnýjast. Massaforðinn endurnýjast á skemmri tíma að því er talið er en þó taki það áratugi. Áætlað er að eftir um 60 ára nýtingu svæðisins þurfi það um 60 ára hvíld. Þrátt fyrir þetta fullyrða skýrsluhöfundar að um „sjálfbæra vinnslustefnu sé að ræða“ og „falli ágætlega að markmiðum um sjálfbæra þróun“ með tilvísun til þess að vænta megi tækniþróunar í framtíðinni sem gera muni afkomendum okkar kleift að bora dýpra og nýta orkuna betur. Þá er í skýrslunni einnig tekið fram að rannsóknargögn skorti til þess að þetta mat teljist áreiðanlegt . Reynsla af öðrum svæðum er heimfærð á bæði Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun.  Ekki er nein tilraun gerð til þess að meta heildaorku sem áætla má að sé vinnanleg úr jarðhitageyminum með bestu nýtingaraðferð né heldur hversu hátt hlutfall þess megi gera ráð fyrir að nýta í fyrirhuguðum virkjunum. Rýrir það möguleika á að leggja mat á fyrirhugaða auðlindanýtingu á svæðinu.
Útilokað er að fallast á þessa túlkun á hugtakinu sjálfbær nýting “auðlindar”. Svæðið sem dælt er úr hlýtur að verða metið á þeim forsendum hvernig jarðhitanáman sjálf er nýtt, en ekki hvort unnt sé í framtíðinni að sækja í dýpri námur ellegar að kreista meira úr því sem upp er dælt.
Jafnframt verður að gagnrýna alvarlega að ekki skuli hafa verið gerðar fullnægjandi rannsóknir áður en stærð virkjunar var ákveðin. Það hefur í för með sér alvarlega hættu á að óafturkallanleg ákvörðun sé tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga sem auðveldlega hefði mátt afla með hæfilegum undirbúningstíma.
Ennfremur kemur hvergi fram í skýrslunni svo skýrt sé hversu slaklega fyrirhugað sé að nýta orkuna sem upp úr jörðunni kemur, en fyrir liggur á öðrum vettvangi að ætlunin sé að henda á bilinu 85-90% orkunnar. Þetta fellur engan veginn að markmiðum sjálfbærrar þróunar né nokkrum öðrum markmiðum um eðlilega auðlindanýtingu. Óska verður eftir úrlausnum á þessu atriði ellegar að skoða hvort ekki sé rétt að fresta virkjunarframkvæmdum uns betri nýting reynist möguleg, sérstaklega með hliðsjón af ágengri nýtingu svæðisins.


3.    Ekki liggur fyrir á þessu stigi hver verður áætluð heildarlosun vegna allrar orkuvinnslu fyrir álverið í Helguvík. Hér skortir enn á heildarmynd á losun jarðvarmavirkjananna og álversins samtals. Þó er ljóst af skýrslunum að losun frá virkjununum verður verulegt hlutfall af losun álversins sjálfs, eða um 25.000 tonn frá Hverahlíð og 31.000 tonn frá Bitruvirkjun. Að meðtalinni losun frá stækkun Hellisheiðarvirkjunar veður því losun frá þessum virkjunum alls um 85.000 tonn árlega eða um 21% losunar álversins sjálfs. Þá er enn ótalin losun í jarðgufuvirkjunum þeim sem Hitaveita Suðurnesja fyrirhugar vegna sama álvers. Jarðgufuvirkjanirnar eru undanþegnar lögum um losunarheimildir, sem í sjálfu sér er gagnrýnivert og hlýtur fyrr eða síðar að koma til endurskoðunar. Það breytir þó engu um að kostnaður samfélagsins er til staðar þar sem önnur starfsemi hlýtur með einum eða öðrum hætti að taka þennan bagga á sig og annað hvort draga úr losun á móti, afla losunarheimilda ellegar standa fyrir annars konar mótvægisaðgerðum enda ljóst að íslenskt samfélag mun standa frammi fyrir takmörkum síminnkandi losunarheimilda. Að undanþiggja losun við raforkuframleiðslu loftslagskvótum í stað þess að kostnaður vegna þeirra komi fram í rekstrarkostnaði álversins er auðvitað ekkert annað en samfélagsleg niðurgreiðsla til stóriðjunnar.


4.    Fyrirhugað er að báðar virkjanirnar muni losa verulegt magn brennisteinsvetnis og sama á raunar einnig við um Hellisheiðarvirkjun. Ljóslega stefnir í að samanlagt muni losun frá þessum virkjunum öllum verða um 21.000 tonn árlega, en auk þess virðist mega vænta hlutfallslega enn meiri losunar frá jarðgufuvirkjunum á Krýsuvíkursvæðinu. Hér vantar enn mat á heildaáhrifum allra þeirra jarðgufuvirkjana i nágrenni borgarinnar sem fyrirhugaðar eru vegna Helguvíkur. Þó kemur fram í skýrslunni að búist er við því að einungis vegna virkjananna á Hellisheiði séu 8-16% líkur á því að klukkustundarmeðaltal brennisteinsvetnis verði það hátt innan borgarmarkanna að lykt sé merkjanleg. Þar við bætast áhrif virkjana HS. Það hljóta að teljast verulegar líkur.
Nú þegar eru fram komin ákveðin óþægindi vegna brennisteinsvetnis í borginni á ákveðnum dögum vegna losunar í fyrsta áfanga Hellisheiðarvirkjunar sem undirstrikar enn þörfina á að meta heildarmyndina. Má benda á að skv.leiðbeiningum WHO um loftgæði, (kafli 6), er bent á að til þess að forðast óþægindi vegna lyktar verði að setja mun strangari mengunarmörk en af heilsufarsástæðum. Um þetta er ekkert fjallað í skýrslunni.
Í skýrslunni segir að áhrif brennisteinslosunar verði hverfandi og það rökstutt með því að brennisteinsvetnið muni rigna fljótt niður. Ekki kemur fram í skýrslunni hver áhrif þess eru á umhverfið né hvers vegna ekki þurfi að fjalla um það.


5.      Í frummatsskýrslunum er talið að áhrif á landslag verði þó nokkur og útivistargildi svæðisins rýrni, sem og gildi þess fyrir ferðaþjónustu. Sameiginleg áhrif vegna allra framkvæmda eru talin „talsverð eða veruleg“, en með mótvægisaðgerðum dragi úr þeim svo þau verði bara „talsverð“. Hér verður að telja að samlegðaráhrif séu stórlega vanmetin. Ósnortnum eða lítt snortnum svæðum fækkar og þau minnka svo um munar og upplifun þeirra sem vilja njóta ósnortinnar náttúru í næsta nágrenni borgarinnar verður allt önnur. Þá er ekkert mat lagt á vaxandi gildi svæðisins í framtíðinni að þessu leyti í núll kostinum með sívaxandi fjölda ferðamanna, verðmætari frítíma og auknu vægi ósnortinnar náttúru í gildismati nútímamannsins. Þannig hefur þróunin verið undanfarin ár hérlendis og alls staðar í löndum okkar heimshluta og engin ástæða til að ætla að sú þróun stöðvist skyndilega þó að virkjanir verði byggðar á Hellisheiði. 


6.    Landsnet hefur það hlutverk að annast raforkuflutning  frá virkjunum til orkukaupanda skv. raforkulögum. Þó hefði verið æskilegt að fá mat á hvaða áhrif það hefur á stöðugleika og áreiðanlega íslenska raforkukerfisins að bæta svo gríðarlega við þann flutning um kerfið og óhjákvæmilega verður með álversframkvæmdunum. Vert er að minna á að nú á fáeinum árum á að margfalda uppsett afl í íslenska raforkukerfinu vegna fáeinna álvera og er Helguvík þar á meðal. Slaki sem áður var í raforkukerfinu og áður nýttist til þess að tryggja stöðugleika þess og áreiðanleika þess hefur horfið á skömmum tíma. Má m.a. rekja tíðari truflanir í flutningskerfinu til þessara vaxtarverkja a.m.k. að hluta. Í framtíðinni má búast við auknum kröfum um frekari styrkingu raforkukerfisins en felst í þeim línulögnum sem eru beinlínis vegna tiltekinna virkjana og notanda, t.d. er þegar farið að bera á kröfum um styrkingu byggðalínuhringsins og jafnvel Sprengisandslínu. Þá er verið að ræða um aðgerðir sem eru m.a. til þess ætlaðar að endurheimta þann stöðugleika og svigrúm sem áður var. Samfélagsleg áhrif áreiðanleika raforkuafhendingar eru ótvíræð og mikil. Hefði verið full þörf á því að fjalla um þann þátt.


7.    Um núllkostinn, þ.e. að virkja ekki núna, er afar lítið fjallað í skýrslunum. Þar hefði þó verið áhugavert að sjá umfjöllun um ávöxtun auðlindarinnar í jörðu, þ.e. hvort líklegt sé að orkuverð muni fara vaxandi í framtíðinni, en til þess liggja allar spár og þá hversu mikið. Jafnframt í hverju aðrir möguleikar til orkusölu gætu falist,  jafnvel í minni einingum og á lengri tíma og hvort vænta hefði mátt hærra orkuverðs við slíka sölu eða meiri arðs af auðlindinni. Einnig væri áhugavert að sjá þjóðhagslegt mat á því hvort heppilegt sé að binda svo stóran hluta af orkuauðlindinni við langtímasamninga við álversframleiðendur eða hvort æskilegt væri að dreifa áhættunni á fleiri geira.


8.    Ekkert er fjallað um samfélagsleg áhrif framkvæmdanna á þenslu, vexti og gengi. Þó er ljóst að þær munu áfram kynda undir þá ofþenslu sem verið hefur undanfarin ár frá því að framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun hófust og leitt hafa til stórfelldrar hækkunar gengis og vaxta sem aðrar atvinnugreinar hafa þurft að taka á sig. Íslenskir hávextir og hágengi hafa auðvitað haft margfeldisáhrif og dregið að fjármagn í formi jöklabréfa og erlendra skulda einstaklinga og fyrirtækja til viðbótar við það sem fyrir var sem aftur hefur magnað þensluna innanlands enn frekar.


9.    Ekki er komið inn á afkomu virkjunarinnar, en þó er óhjákvæmilegt að taka eftirfarandi fram. Opinber stuðningur við virkjanirnar felst fyrst og fremst í opinberum ábyrgðum. Yfirleitt er stuðningur sem felst í slíkum ábyrgðum reiknaður sem munur á heildarávöxtunarkröfu verkefnisins með ábyrgðum og án þeirra (ávöxtun eiginfjár er hins vegar merkingarlaust hugtak í þessu samhengi). Í breskum heimildum 1,2]  er talað um að þar í landi hafi heildarávöxtunarkrafa til orkumannvirkja vaxið úr 5-8% í 14-15% eða meira þegar ríkið dró sig úr rekstrinum fyrir nokkrum árum. Hér á landi hefur heildarávöxtunarkrafan verið 5-6% í orkufjárfestingum. Ekkert liggur fyrir um að Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun geti staðið  undir þeim vöxtum sem líklegt er að farið sé fram á á frjálsum markaði og draga verður stórlega í efa að svo sé.


Ályktun Framtíðarlandsins varðandi loftgæði og mengun:


Suðvesturhornið er þéttbýlasta svæði Íslands. Hér búa 2/3 hlutar þjóðarinnar. Að staðsetja álver í Hvalfirði, Hafnarfirði og Helguvík, sem gerir þetta svæði að einhverju mesta álvinnslusvæði í heimi með tilheyrandi mengun er ekki ásættanleg framtíðarsýn nema til komi MJÖG brýnir þjóðarhagsmunir, efnahagslegir og félagslegir. Í stað þess að umhverfis höfuðborgina sé hrein og óspillt náttúra er verið að ramma borgina inn með álbræðslum annarsvegar og hins vegar jarðvarmavirkjunum sem þjóna álbræðslu í baklandinu. Það er verið að skerða útivistarperlur og náttúrugersemar og þar með bæði andlega og líkamlega heilsu borgarbúa. Það er verið að skerða ímynd Íslands og íslenskrar jarðvarmaorku sem hingað til hefur einkum þjónað borgarbúum með mikilli og ábyrgri nýtingu á jarðvarmanum.


Við tökum undir orð hitaveitustjóra Jóhannesar Zoëga í ævisögu hans sem kom út árið 2006:


,,Eftir nokkra áratugi með sama háttalagi má búast við að afl virkjunarinnar fari að minnka verulega, og nokkrir áratugir eru ekki langur tími í sögu hitaveitu eða borgar. Þá slaknar á hitanum, varminn í jörðinni gengur til þurrðar. Vatnið sem streymir gegnum heit berglögin og er notað í orkuverinu ber með sér varmann úr berginu sem kólnar um leið. Ef kæling þess er örari en varmastreymið frá djúpgeymi jarðhitasvæðisins minnkar aflið smám saman. Öll sóun jarðvarmans stríðir á móti hagfræðilegum og siðferðilegum sjónarmiðum."


Bloggað um blogg og bloggara

Nú ætla ég að víkja frá upprunalegum tilgangi þessarar síðu og tala um allt annað.

Hvaða orð er þetta eiginlega? Blogg. Við tókum það gagnrýnislítið úr ensku og bættum einu g-i á endann til að laga orðið betur að íslensku - aðallega framburðinum, held ég. Eitthvað hefur verið reynt að finna íslenskt orð yfir fyrirbærið en ekkert náð að festa sig í sessi, tilraunirnar verið of máttlausar og komið of seint. Orðið er líklega komið til að vera.

Enska orðið "blog" er stytting á orðinu "weblog" eða "vefdagbók" sem gefur til kynna upphaflegt eðli bloggsins, þ.e. dagbók á vefnum, gjarnan um persónulega hluti eins og er náttúra dagbóka. Ef einhver hefur áhuga er nánari útskýring á orðinu hér og það eru ekki ýkja mörg ár síðan orðið, eða öllu heldur framkvæmdin sjálf, bloggið, varð nógu þekkt til að fara í orðabækur.

Ég er sein til með sumt og uppgötvaði ekki bloggið fyrr en fyrir um ári síðan. Áður hafði ég lesið pistla Egils Helgasonar reglulega og þar kynntist ég fyrst bloggi þegar hann harðneitaði að skrif hans teldust blogg. Nú bloggar hann grimmt og mér finnst Kári hinn ungi afskaplega skemmtilegur krakki. Það verður gaman að fylgjast með þroskasögu hans úr fjarlægð. Vonandi heldur Egill áfram að blogga.

Einhvern veginn beit ég það í mig að ég hefði ekkert gaman af að lesa blogg, enda þekkti ég enga bloggara og þar sem þetta áttu að vera persónulegar dagbækur var ég ekki ginnkeypt fyrir að hnýsast í einkalíf annarra. Mér kemur einkalíf fólks ekkert við, einkum og sér í lagi ókunnugra.

Svo tóku tvær vinkonur mínar upp á því að blogga. Önnur var í námi erlendis og ég vildi fylgjast með henni og hin er einfaldlega með skemmtilegri konum sem ég þekki - svo ég fór að lesa blogg. Reyndar voru þær - og eru enn - afspyrnulatar við þetta en ég var dottin í bloggið. Ekki man ég nákvæmlega hvernig þetta vatt upp á sig, en fyrir tæpu ári var ég búin að búa til sérstaka bloggmöppu í bókamerkin hjá mér og hún fylltist af slóðum á bloggara. Og ég uppgötvaði að ég var alls ekki að hnýsast í einkalíf fólks, bloggið er miklu víðtækara en svo og gjarnan bráðskemmtilegt, áhugaverðar umræður og lífleg skoðanaskipti í gangi.

Þetta fór rólega af stað hjá mér. Fyrir utan áðurnefndar vinkonur bættist við einn bloggari, hálfum mánuði seinna næsti og svo koll af kolli. Endrum og eins hef ég tekið til og hent út þeim sem ekki hafa staðið undir væntingum en bætt öðrum við sem ég hef rekist á og líkað vel. Áður en ég vissi af var ég farin að lesa viss blogg á hverjum degi og alltaf bættist í safnið.

Þetta er fyrsti bloggarinn sem fór í möppuna hjá vinkonum mínum tveimur og syni annarrar. Ég þekkti konuna af afspurn og hún er algjör snillingur í að gera hversdagslega atburði skemmtilega og spennandi. Maður brosir eftir hvern lestur.
Þessi varð fljótlega skyldulesning. Hún hefur skrautlegan stíl, myndrænan og bráðfyndinn, en hún er líka einlæg og hefur með eindæmum ríka réttlætiskennd.
Svo er það þessi sem segir svo dásamlega frá. Nánast allt sem frá henni kemur hefur snert mig á einhvern hátt og kennt mér eitthvað nýtt um hluti sem ég hef aldrei kynnst af eigin raun.
Þessar tvær eiga örugglega báðar eftir að skrifa bækur, mjög ólíkar bækur. Ég verð fyrst til að kaupa bækurnar þeirra og hlakka til að lesa þær.

Þessi varð fljótlega algjört möst. Hún er flott kona og áhugaverð þótt oft sé ég ósammála henni.

Ég fór að uppgötva vini og kunningja á blogginu sem ég vissi ekki að væru þar eða hafði misst sjónar á. Ég gerði aldrei athugasemdir, kunni einhvern veginn ekki við að troða mér inn í umræður hjá bláókunnugu fólki, en einn daginn mátti ég til, málefnið var mér mikils virði. Síðdegis sama dag fékk ég tölvupóst frá þessari konu sem reyndist vera gömul vinkona mín sem ég hafði misst sjónar á eins og gengur í lífinu. Hún hafði séð nafnið mitt í athugasemdinni og hafði upp á mér. Ég las skrif hennar langt aftur í tímann, fannst hún með eindæmum málefnaleg og skemmtileg, bloggið hennar höfðaði sterkt til mín og hún bættist á daglega listann minn. Það verður gaman að kynnast henni upp á nýtt.

Enn ein góð vinkona mín bloggar, en stopult þó. Hún er ein af þessum ódrepandi hugsjónamanneskjum sem er óþreytandi við að benda á bæði það sem betur má fara og sem vel er gert.
Skólabróðir minn er orðinn duglegur bloggari. Hann er frábær ljósmyndari, birtir flottar myndir á blogginu sínu og setur fram skemmtilegar hugmyndir sem hann fær í bunkum.
Þessi er gamall vinnufélagi og mér finnst alltaf gott að lesa bloggið hans. Honum er einkar lagið að blanda saman hlutum í skrifum sínum, er einstaklega vel máli farinn og segir skemmtilega frá.
Vin minn frá unglingsárum fann ég og var búin að lesa bloggið hans lengi áður en ég gaf mig fram við hann. Mér virðist hann ennþá vera svolítið dyntóttur eftir alla þessa áratugi en það verður áhugavert að kynnast honum aftur.

Þessi er líka gamall vinnufélagi og nýbyrjaður að blogga. Hann er með yndislegri mönnum og bloggið hans eftir því. Hann segir þannig frá, að fyrr en varir er maður kominn á staðinn og sér atburðina ljóslifandi fyrir sér. Skrifin hans virka á mig eins og prósaljóð. Hann á að skrifa ljóðabækur.

Svo er það þessi náungi. Ég varð fyrst vör við hann á athugasemdum annarra bloggara og var hikandi við að skoða skrifin hans af því myndin sem hann notaði var svo skrýtin (hann er reyndar nýbúinn að bæta úr því). En ég lét vaða og sá ekki eftir því. Hann kryfur lífið og tilveruna, trú, trúfrelsi, trúleysi, andann og alheiminn almennt alveg sérlega vel. Það eina sem angrar mig við bloggið hans er, að hann er með ljósa stafi á dökkum bakgrunni - og það get ég ekki lesið, sjónin mín er bara þannig. Svo ég þarf alltaf að hafa heilmikið fyrir honum - afrita færslurnar hans inn á Word-skjal, sverta letrið og stækka það. Stundum þarf ég marga daga til að melta skrifin, liggja yfir þeim og lesa oft. Maður tekur misvel við. En ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma verið alvarlega ósammála honum.

Þá eru það tveir kollegar mínir í þýðingunum, háðfuglinn og lati bloggarinn, frábær listakona þess síðarnefnda, leiðsögukonan, bókabéusinn, veðurfræðingurinn, eldhuginn, tölvu- og ættfræðingurinn, uppáhaldssöngvarinn, skemmtilegi pælarinn, fallega Stígamótakonan, maður frænku minnar, líklega systir Gyðu bekkjarsystur, þessi og þessi standa með okkur í baráttunni, glæsilega nágrannakona mín, sagnfræðingurinn og tölvunördinn, og fleiri og fleiri og fleiri. Listinn er endalaus.

Ég hafði aldrei ætlað mér að blogga sjálf, láta mér bara nægja að lesa blogg annarra. En nauðsyn braut lög og vegna sérstaks baráttumáls, sem dylst engum sem les fyrri færslur, lét ég slag standa og byrjaði 1. nóvember. Hvort ég held áfram þegar baráttumálið verður útkljáð veit ég ekki, það verður tíminn að leiða í ljós. Ég hef verið hikandi og feimin við að afla mér bloggvina, en þó gert heiðarlegar tilraunir því ég lærði smátt og smátt hvað það er þægilegt að fylgjast með skrifum þeirra sem eru á bloggvinalistanum. Ég hef líka verið allt of ódugleg við að skrifa athugasemdir en líka gert heiðarlegar tilraunir þar. En þetta kemur í rólegheitunum.

Aðalatvinna mín felst í því, að sitja fyrir framan tölvuna í vinnuherberginu heima og þýða misgott sjónvarpsefni. Þetta er einmanalegt starf, engir vinnufélagar, engin skemmtileg kaffistofa til að spjalla við fólk og stundum er hápunktur dagsins að setja í þvottavél, fara út með ruslið eða skreppa í eitthvert samráðsfélagsheimilið, Hagkaup, Bónus, Krónuna eða Nóatún. Þá er gott að geta kíkt á kunningjana á blogginu og athugað hvað er á seyði á þeim vettvangi.

Þættirnir hans Gísla Einarssonar, Út og suður, voru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hann var naskur að finna áhugvert fólk víða um land og eftir hvern einasta þátt fékk ég sömu tilfinninguna: Þetta eru hinar sönnu hetjur Íslands. Liðið á síðum tímarita eins og Séð og heyrt, auðjöfrarnir og glansgengið hefur ekkert í þær.

Sama finnst mér um bloggarana, þeir eru líka alvörufólk.


Hvernig dettur fólki í hug að segja svona?

Ég var búin að skrifa langan pistil um viðtalið hér að neðan sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Ég las hann yfir og mildaði allt orðfæri eins og ég gat en samt var hann svo harðorður að á endanum eyddi ég honum. Ég vil síður vera dónaleg. En það fýkur í mig þegar fólk lætur svona út úr sér.

Þess í stað bendi ég á tvær góðar bloggfærslur um málið hér og hér. Einnig pistil um vinnubrögð þessa manns hér.

En ég spyr í fúlustu alvöru: Hvernig dettur Ólafi Áka í hug að bera svona vitleysu á borð fyrir fólk á opinberum vettvangi? Það er erfitt að vera málefnalegur og færa skynsamleg rök fyrir hlutunum andspænis þvílíkri dellu.

Ólafur Áki fer svo með rangt mál hvað lyktarmengun í Hveragerði varðar. Í hinni mjög svo umdeilanlegu frummatsskýrslu er hún metin talsverð, ekki óveruleg. Ég er með skýrsluna fyrir framan mig. Miðað við hve mjög er dregið úr vægi umhverfisáhrifa í skýrslunni, enda er hún unnin af aðalframkvæmdaraðilanum og til þess gerð að réttlæta virkjunina, kæmi mér ekki á óvart þótt lyktarmengunin verði veruleg þegar upp verður staðið.

Og ef Ólafur Áki fær að ráða verður dritað niður fjölmörgum virkjunum á Hellisheiðar- og Hengilssvæðinu og þá verður líkast til ólíft bæði í Hveragerði og Ölfusi, auk þess sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu fá aldeilis sinn skammt af brennisteinsvetnis- og lyktarmengun.

Síðan ætlar hann sjálfsagt að selja ferðamönnum "virkjanahringinn", því þeir koma örugglega í rándýrar Íslandsferðir til að horfa á rör, lagnir, uppgrafinn svörð, skóg af rafmagnsmöstrum og hlusta á ærandi hávaða frá hundruðum borhola.

Sér er nú hver framtíðarsýn sveitarstjórans í Ölfusi. Hvaða plánetu er hann frá?

Fréttabladid_221107-2


Góð vísa er aldrei of oft kveðin

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag. Hún er reyndar mikil stytting á þessum pistli hér frá því á sunnudaginn. Síðan greinin var skrifuð hefur komið í ljós að endanlegur fjöldi athugasemda var 678 en ekki 660, og eru þá ekki meðtaldar fjöldaundirskriftir sem líkast til myndu hækka töluna í 700 eða fleiri.

Fréttabladid_221107


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband