Færsluflokkur: Bloggar

Eru auðlindirnar okkar ekki sexí?

Óþekktur hverUm daginn var ég að ræða við mann sem er vel heima í fjölmiðlabransanum og hann sagði að það væri erfitt að gera auðlindamálin okkar sexí. Þetta þýðir einfaldlega að fjölmiðlar eiga erfitt með að fanga athygli fólks og áhuga á sumum málum. Þeirra á meðal er málið sem ég ætla að fjalla um - og mér finnst alveg rosalega sexí. Enda hef ég skrifað um það óteljandi pistla og kafað djúpt í þau mál. Þið ráðið hvort þið lesið áfram, en ég fullvissa ykkur um að mál af þessum toga skiptir okkur öll alveg gríðarlega miklu máli. Einmitt þess vegna geta þau ekki verið annað en sexí.

Áður en lengra er haldið tek ég fram að frásögnin sem hér fer á eftir er mín eigin túlkun á atburðum. Ég styðst við þær upplýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum, ýmsar vefsíður, blogg og annað tiltækt efni. Ég tel mig hafa lært á reynslu undanfarinna mánaða og dreg miskunnarlaust ályktanir út frá þeirri reynslu og þeim heimildum sem ég hef og finn.

Við munum flest eftir REI-málinu frá haustinu 2007. Sjálfsagt dæsa margir bara við tilhugsunina því málið var svo stórt og flókið og mikið um það fjallað á sínum tíma að maður var kominn með upp í kok og botnaði orðið ekki neitt í neinu. En svo skýrðist málið betur þegar frá leið og mjög upplýsandi fréttaskýring birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2007 sem ég hef birt tvisvar hér á blogginu, síðast hér. Í næstu færslu á eftir birti ég samanklippta fréttaumfjöllun um málið sem skýrir það enn betur.

Einhvern veginn á maður betra með að átta sig á málinu núna, eftir allt sem hefur gengið á. Persónur, leikendur og hlutverk þeirra í farsanum eru í stórum dráttum þannig: Spilltir stjórnmálamenn ætluðu að afhenda útrásardólgum orkuauðlindirnar okkar á silfurfati og allir ætluðu að græða feitt. Skítt með þjóðina og afkomendur okkar. Auðvitað er þetta einföldun,  málið er flókið. Fólk verður að kynna sér það og draga eigin ályktanir.

Nú virðist nýtt REI-mál vera í uppsiglingu sem verður að stöðva í einum grænum. Fleira skiptir máli en Icesave, ESB og skuldaniðurfelling Björgólfsfeðga.

HS OrkaÞegar REI-málið var í bígerð var Geysir Green Energy stofnaðHS Veitur og það keypti þriðjung í Hitaveitu Suðurnesja í júní 2007, en gríðarlega mikill jarðhiti er á Reykjanesskaganum. Til stóð hjá auðmönnunum að sameina GGE og REI en sá gjörningur varð aldrei að veruleika. Þeir ætluðu nefnilega að leggja undir sig auðlindirnar á öllu suðvesturhorninu, útrásarsnillingarnir.

Nú hefur Hitaveitu Suðurnesja verið skipt í HS Orku og HS Veitur. Í grófum dráttum má segja, að HS Orka sjái um orkuframleiðsluna og söluna en HS Veitur um dreifinguna og vatnið. Það er semsagt Orkan sem nýtir auðlindina og framleiðir en Veitan sér bara um að dreifa afurðinni, þ.e. rafmagninu og vatninu. Peningarnir - gróðinn - eru í framleiðslunni og sölunni. Þess vegna er verið að braska með HS Orku. Eignarhald HS Orku er nú svona:

HS Orka - eignarhald

Og hverjir eru að braska með auðlindina? Jú, bæjarstjórinn í Reykjanesbæ - sjálfstæðismaðurinn snoppufríði sem er búinn að koma bænum sínum í stórfelld fjárhagsvandræði - og Geysir Green Energy, fyrirtæki í óljósri einkaeigu hvers forstjóri getur ekki gefið upp fjárhagsstöðu fyrirtækisins (sjá fréttaviðtal hér að neðan) en hermt er að GGE sé í gjörgæslu bankanna og sé mun minna virði en forstjórinn vill vera láta (sjá grein hér). Forstjórinn segir eitt, endurskoðendur allt annað.

Eigendur GGE eru þrír: Atorka (41%), Glacier Renewable Energy Fund - í umsjón Íslandsbanka (40%) og Mannvit sem hét áður VGK (9%). Við höfum væntanlega öll lært í vetur að kanna hvað býr að baki svona upplýsingum. Á vefsíðu Atorku eru taldir upp 20 stærstu hluthafarnir miðað við 30. júní 2009:

20 stærstu hluthafar í Atorku

Þarna eru m.a. talin upp þræltraust fyrirtæki eins og FL Group og Landsbankinn í Luxembourg, nú ríkisbankinn Nýi Glitnir (væntanlega Íslandsbanki eftir nýjustu breytingar) og Sameinaði lífeyrissjóðurinn sem mun hafa tapað töluverðum fjárhæðum á áhættufjárfestingum. Samkvæmt frétt í AtorkaViðskiptablaðinu frá 16. október sl. var Atorka afskráð úr Kauphöllinni og hafði verðmæti félagsins þá lækkað um 90% frá áramótum. Í fréttinni er rætt við Þorstein Vilhelmsson, sem yfirgaf Samherja fyrir nokkrum árum með nokkur hundruð milljónir upp á vasann. Féð var afrakstur sölu annarrar auðlindar landsmanna, fiskjarins í sjónum, sem Þorsteinn og félagar hans í Samherja höfðu fengið endurgjaldslaust eða -lítið þegar sú auðlind var einkavædd. Mér var sagt af fróðum að flest félög á ofangreindum hluthafalista Atorku væru að meira eða minna leyti í eigu Þorsteins.

Engar upplýsingar er að fá á vefsíðu Íslandsbanka um eigendur eða hluthafa í Glacier Renewable Energy Fund. Ef einhver getur veitt upplýsingar um þann sjóð væru þær vel þegnar.

DV var með umfjöllun um þetta mál sl. föstudag og þar er sagt að Finnur Ingólfsson sé meðal hluthafa Mannvits. DV fann semsagt Finn enda er blaðið er aftur með stórfróðlega umfjöllun um málið í dag og þar er sagt að S-hópurinn alræmdi fari með völd í Geysi Green þrátt fyrir minnihlutaeign.

Svo er komið inn í myndina kanadískt fyrirtæki, Magma Energy, sem sagt Magma Energyer að hafi áhuga á að kaupa hlut í HS Orku. Forstjóri Magma er jarðfræðingurinn Ross Beaty, sem auðgaðist gríðarlega á silfurnámum, m.a. í Suður Ameríku. Hann stofnaði fyrirtækið í byrjun árs 2008, svo það er ekki nema eins og hálfs árs. Engin reynsla komin á starfsemi þess og siðferði stjórnenda í umgengni við jarðhitaauðlindir. Hér má sjá umfjöllun Bloomberg um hlutafjárútboð Magma í júní, sem var það stærsta í Kanada í 13 mánuði.

Eins og gefur að skilja, og allir Íslendingar ættu að vera með á hreinu eftir uppljóstranir undanfarinna 9 mánaða, kaupir kanadískt fyrirtæki sig ekki inn í jarðorkufyrirtæki á Íslandi nema til þess að græða á því og það rækilega. Forsvarsmenn GGE og Reykjanesbæjar fagna ógurlega, því þá vantar aur í kassann til að bjarga eigin skinni.

Í nóvember sl. var stofnað nýtt ráðgjafafyrirtæki, Arctica Finance. Eins og sjá má á þessari frétt eru stofnendur þess fyrrverandi starfsmenn gamla Landsbankans. Traustvekjandi? Fyrirtækinu var falið að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku eins og sjá má t.d. hér. Engar hömlur - hvað sem það þýðir.

Gallinn er bara sá að verið er að braska með auðlindir þjóðarinnar og einkavæða þær. Það gildir einu hvort auðlindin sé formlega í umsjón einhvers sveitarfélags - auðlindirnar okkar eru og eiga ávallt að vera sameign þjóðarinnar og spilltir stjórnmálamenn og aðrir siðlausir gróðapungar hafa ekkert leyfi til að selja innlendum eða erlendum fjárglæframönnum afnot af henni margar kynslóðir fram í tímann.

Til allrar hamingju eru fjölmiðlar á verði... sumir og upp að vissu marki. Og sumum fjölmiðlamönnum finnst þessi mál nógu sexí til að fjalla um þau. Fremstir í flokki eru Þórður Snær Júlíusson á Mogganum, sem hefur staðið vaktina með sóma, Jóhann Hauksson á DV og Hallgrímur Indriðason, Guðfinnur Sigurvinsson og Björn Malmquist á RÚV. Ég hef safnað saman greinum um þetta mál úr DV, Mogganum, mbl.is og 24 stundum hér og klippt saman fréttaumfjöllun RÚV - auk einnar fréttar á Stöð 2. Bloggararnir Hannes Friðriksson og Agnar Kristján Þorsteinsson hafa líka fjallað um þessi mál af mikilli innsýn og þekkingu.


Hagur lands og þjóðar

Aftur ætla ég að rifja upp áður en lengra er haldið. Í þetta sinn er það pistill í pistli sem ég birti 11. ágúst í fyrra undir heitinu Máttur athugasemdanna - einlægur pistill ungrar konu. Að gefnu tilefni. Pistillinn í pistlinum er verðugt umhugsunarefni þegar við íhugum hvort við kærum okkur um að láta auðlindir okkar eða nýtingu þeirra af hendi til misviturra, gráðugra einkaaðila eða óþekktra, erlendra fyrirtækja og auðhringa sem eru á höttunum eftir gróða - engu öðru. Náttúran og auðlindirnar eru aleiga okkar. Viljum við fórna þeim þjóðargersemum um ókomna tíð á altari græðgi og skammtímahagsmuna? Ekki ég.

Kjarni pistilsins í pistlinum er hagur lands og þjóðar. Ég fæ ekki séð að einkavæðing t.d. bankanna hafi skilað landi og þjóð öðru en tæknilegu gjaldþroti, versnandi lífskjörum, skömm og svívirðu. Eða hvað? Ég hef ekki heldur orðið vör við að einkavæðing hafi lækkað verð eða bætt kjör neinna annarra en gráðugra manna sem svífast einskis í ásókn sinni í peninga, sjálfum sér til handa. Skítt með hag lands og þjóðar. En hér er pistillinn í pistlinum eins og hann var birtur í ágúst 2008.

*********************************

Á þessum níu mánuðum sem ég hef bloggað hafa verið skrifaðar ótalmargar, stórkostlegar athugasemdir við pistlana mína. Sumar langar, aðrar stuttar en svo innihaldsríkar margar hverjar að þær ættu heima sem sjálfstæðir pistlar. Svo dettur maður stundum inn á pistla annarra sem skrifa athugasemdir við manns eigin - og þannig var það í þessu tilfelli.

Þann 28. júní sl. skrifaði ég pistilinn Var "Fagra Ísland" tálvon eða blekking? og birti þar myndband sem ég hafði klippt saman. Örstutt athugasemd við hann leiddi mig áfram að þessum sem ég birti hér. Ég ætlaði að birta hann fyrir löngu og fékk leyfi höfundar, en tíminn hefur hlaupið ansi hratt í sumar og annir verið miklar svo ég er núna fyrst að drífa í þessu.

Dagný ReykjalínHöfundur pistilsins er ung kona, Dagný Reykjalín. Í tölvupósti sem hún sendi mér þegar ég bað um leyfi til að birta pistilinn sagði hún m.a.: "Þessi grein er reyndar skrifuð út frá sjálfri mér og minni túlkun á þessari kynslóð og því hvernig ég þekkti afa minn. Ég er ekki að reyna að leggja honum orð í munn og ég vona að enginn túlki það þannig. Það er hins vegar hollt að hugsa til þess hvernig kynslóðin sem byggði landið hugsaði um framtíðina og horfa svo á það hvernig við erum að fara með hana."

En pistill Dagnýjar, sem eins og sjá má er skrifaður daginn eftir náttúrutónleika Bjarkar og Sigur Rósar, hljóðaði svona:

Framtíðin sem byggir á fortíðinni

Ég vaknaði eldsnemma í býtið, allt var með kyrrum kjörum hérna heima en ég gat ekki sofnað aftur. Tónleikarnir í gærkvöldi voru í fersku minni, ég fylgdist með þeim á netinu. Tónlistin var frábær, stemmningin greinilega skemmtileg en mér fannst samt pínulítið vanta uppá að þau segðu milli laga hver áherslan í baráttunni væri. Kannski var nægur áróður á staðnum sem skilaði sér ekki yfir netið, og líklega voru þessi 30.000 manns nokkuð viss á málstaðnum. En árla morguns fór ég eitthvað að hugsa, og setti saman þessa færslu:

Afi minn var Haraldur Guðmundsson, rafvirki á Dalvík. Hann var maður síðustu aldar, einna mestu tæknibreytinga og framfara í Íslandssögunni. Hann var fæddur í Skagafirði þann 28. apríl 1920, menntaður í Iðnskólanum á Akureyri og var um tíma kallaður Halli Edison fyrir færni sína við að gera við ýmis rafmagnstæki.

Hann var samtímamaður Halldórs Laxness og um tíma herbergisfélagi Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Hann var sjálfstæðismaður í gegn enda sjálfstæðisbarátta Íslendinga í algleymi á mótunarárum hans. Sjálfstæðisbaráttan snerist um að vera óháður skilningssljóu yfirvaldi og það að nýta krafta einstaklingsins í þágu allrar þjóðarinnar. Í þá daga var þjóðernishyggjan nauðsynleg í baráttunni fyrir sjálfstæði.

Í sjálfstæðisbaráttunni endurspeglaðist stolt yfir náttúrunni og auðmýkt yfir kröftum hennar. Þegar við náðum að tendra rafmagnsljós komumst við út úr vetrarmyrkrinu og þar var einn sigur á náttúrunni unninn. Margir sigrar fylgdu í kjölfarið; heita vatnið úr jörðinni kynti húsin okkar og betri farartæki gerðu okkur kleift að klífa fjöll og sigla firði. Maðurinn vann sífellt nýja sigra á annars ógnarvaldi náttúrunnar. Þetta ógnarvald bar með sér óttablandna virðingu.

Gullfoss á frímerkiHalli afi var virkjunarsinni af gamla skólanum. Á ferðum sínum um landið mat hann ár og vatnsföll í megavöttum, sama hversu litlar sprænurnar væru. Hann starfaði m.a. við að reisa Blönduvirkjun á sínum tíma og virkjaði einnig bæjarlækinn sem enn í dag veitir æskuheimili hans orku til daglegra starfa. Öll nýting á landsins gæðum átti hins vegar að fela í sér virðingu fyrir náttúrunni og öflum hennar. Þess vegna var hann ekki síður ákaflega mikið og einlægt náttúrubarn, og jafnvægi í náttúrunni var honum mikilvægt. Það fól í sér hógværa nýtingu. Hann var veiðimaður, sem lá bæði á greni í marga sólarhringa til að vernda fuglavarpið og veiddi hæfilegt magn af rjúpu í jólamatinn.

Ég er sannfærð um að þrátt fyrir að Halli afi hafi verið hlynntur því að nýta náttúrunnar gæði fyrir fólkið í landinu þá gæti hann í engu móti samþykkt svo gerræðislegar framkvæmdir sem framundan eru.

Í fyrsta lagi vegna þess að þær hafa ekki þjóðarhag að leiðarljósi heldur þjóna fyrst og fremst fjárhagslegum hvötum alþjóðlegra stórfyrirtækja sem í eðli sínu leita þangað sem orkan er ódýrust. Það þýðir að íslenska þjóðin fær eins lítið og mögulegt er fyrir orkuna en fórnar því sem er henni verðmætast af öllu, því sem mótaði sjálfsmynd hennar.

Í öðru lagi vegna þess að þær sýna hvorki hógværð né virðingu fyrir íslenskri náttúru eða landslagi. Frá hinu stærsta til hins smæsta.

Í þriðja lagi vegna þess að þær rýra framtíðarmöguleika komandi kynslóða og binda þær til þjónustu við alþjóðleg stórfyrirtæki sem eru ekki þekkt fyrir að aumka sig yfir litla manninn ef það þjónar ekki hagsmunum þeirra. Hvers vegna ættum við að vera eitthvað öðruvísi í þeirra augum en aðrir, annarsstaðar í heiminum.

Þegar ég hugsa um öll þau ferðalög um landið sem ég fór með afa og ömmu, þar sem afi þekkti nærri hverja þúfu, skil ég betur hvernig 20. aldar þjóðin hugsaði. Við í nútímanum erum hins vegar komin langt úr takti við þennan hugsunarhátt og erum að missa tengslin við það sem mótaði okkur.

Kannski er náttúruvernd of rómantískt hugtak fyrir okkur nútímafólkið sem erum knúin áfram af efnislegum gæðum, þrátt fyrir að það hafi verið helsti drifkraftur sjálfstæðisbaráttunnar á síðustu öld og gerði okkur að því sem við erum í dag.

Halli afi lést á þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2000, daginn sem íslensk jörð skalf undir fótum okkar.

 --------------------------------------------------------------------

Í seinni athugasemd sinni, þegar ég var búin að svara henni, segir Dagný m.a.: "... ég er ekki í nokkrum vafa um hvað 20. aldar sjálfstæðismaðurinn hefði valið stæði hann frammi fyrir þessum spurningum núna. Hann hefði hugsað laaaangt fram í tímann, miklu lengra en það sem er verið að gera núna, og hefði hugsað um hag afkomenda sinna langt framar síns eigin.

En þetta væri samt sem áður erfitt vegna þess að krafan um praktískar skyndilausnir er svo rík. Glópagullinu er veifað framan í okkur. En við eigum ekki að hlusta á vælið í þeim sem halda því fram að allt falli hérna í eymd og volæði ef við förgum ekki Íslandi. Þeir sem hafa sterka sjálfsmynd, hafa val og kunna að forgangsraða ná að bjarga sér sjálfir. Ef við virkjum allt sem hægt er að virkja fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki sem senda gróðann úr landi, höfum við ekki aðeins misst þetta val heldur líka fórnað því sem býr til sjálfsmyndina. Hvar verðum við þá?

Við höfum alltaf verið rík af því stoltið yfir landinu og fólkinu okkar höfum við ekki getað metið til fjár, og sennilega ekki kært okkur um það fyrr en núna. Þetta eru allt siðferðilegar spurningar eins og Stefán segir í viðtalinu góða."

Þarna í lokin er Dagný að vísa í Spegilsviðtalið við Stefán Arnórsson (sjá tónspilara) sem ég nefndi meðal annars í síðasta pistli. Á meðan við eigum ungt fólk sem hugsar og skrifar eins og Dagný er enn von.


Hugleiðingar um einkavæðingu - áríðandi skilaboð

Nú er rúmur mánuður síðan ég endurbirti pistil um fjárfesta og einkavæðingu og ætlaði honum að vera formála að því sem koma skyldi. Ætli þessi pistill verði þá ekki fyrsti kafli af einkavæðingarpælingum mínum því fleira er í farvatninu.

Í formálapistlinum sagði meðal annars: "Nú blasir við að einkaaðilar ásælist orkuauðlindirnar okkar sem verða æ verðmætari eftir því sem orkuskorturinn eykst í heiminum. Stjórnvöld virðast ætla að nánast gefa þessa auðlind erlendum auðhringum í formi orku til álvera í stað þess að hinkra og sjá til hvernig veröldin þróast. Það á að gera okkur fjárhagslega háð öflum sem gæti ekki verið meira sama um land og þjóð - á meðan þeir sjálfir hagnast. Er nokkur furða að maður mótmæli? Það er verið að arðræna íslensku þjóðina - aftur. Ég get ekki setið þegjandi undir því." Þetta er upphaflega skrifað 21. júlí 2008, fyrir tæpu ári. Fyrir hrun þegar önnur ríkisstjórn var við völd. Hefur eitthvað breyst?

Ég hef skrifað ótalmarga pistla um auðlindir okkar, nýtingu þeirra og þá rányrkju sem á sér stað. Sú rányrkja hefur hingað til alfarið verið verk Íslendinga, sem þó ættu að vita betur og þykja nógu vænt um land og þjóð til að valda ekki slíkum skaða. Samt gerist t.d þetta, sem er nýjasta dæmið um rányrkjuna. Það eru landar okkar sem haga sér svona. Hvers verður þá að vænta af erlendum eigendum sem hugsa um það eitt að hagnast - á auðlindunum okkar - og er skítsama um land og þjóð?

Með þetta í huga og áður en lengra er haldið langar mig að biðja fólk að gefa sér tíma til að horfa á myndina The Big Sellout (Stórsvikin) eftir Florian Opitz, sem sýnd var á RÚV í lok maí undir heitinu Einkavæðing og afleiðingar hennar. Ég hvet þá sem sáu hana í sjónvarpinu að horfa á hana aftur og íhuga um leið afleiðingar þess að einkavæða orkuauðlindir okkar, hvort sem um er að ræða fallvötn eða jarðhita. Og hafið í huga að um er að ræða grunnþarfir okkar, vatn og rafmagn. Mér finnst tilhugsunin um einkavæðingu grunnstoða þjóðfélagsins skelfilegri en orð fá lýst - hvað þá sölu þeirra til gráðugra, andlitslausra, erlendra auðmanna eða íslenskra útrásardólga í dulargervi.

ATH: Hægt er að stækka myndböndin með því að smella á ferninginn neðarlega til hægri, vinstra megin við hljóðstjórnina.

The Big Sellout - fyrri hluti

 

The Big Sellout - seinni hluti

 

Ég klippti saman atriðin í myndinni með Joseph Stiglitz til að hlusta á hann í samhengi.
Takið vel eftir því sem hann segir!

 


Ólafur Hannibalsson um Icesave

Þessi grein Ólafs Hannibalssonar er afskaplega áhugaverð. Morgunblaðið birti aðeins hluta hennar í prentútgáfu sinni í morgun en greinin er í heild birt hér. Greinin Icesave-hamfarirnar í Hollandi eftir Þórð Snæ Júlíusson sem Ólafur vitnar í er hér og skýrsla Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega, Hagkerfi bíður skipbrot, er hér. Auk þessara greina segist Ólafur hafa byggt grein sína á bókunum Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson og Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson.

Ólafur Hannibalsson - Icesave - Moggi 6.7.09


Engar áhyggjur, landsmenn!

Þessa skopmynd eftir snillinginn Halldór Baldursson fann ég í 24 stundum frá 29. desember 2007. Mér fannst hún passa prýðilega inn í þá umræðu sem á sér stað þessa dagana.

Halldór Baldursson - 24 stundir - 29. desember 2007


Til íslenskra yfirvalda og löggjafans

Eins og þið vitið öll er hrópað á réttlæti - og það hátt. Eitt af því sem veldur andstöðu almennings við Icesave-samninginn er að höfundar hans og ábyrgðarmenn ganga allir lausir og baða sig í ríkidæmi - fé sem þjóðin lítur á sem illa fengið. Þó að bresk stjórnvöld séu kannski ekki hátt skrifuð hjá öllum um þessar mundir, hvort sem þau verðskulda það eður ei, má ýmislegt læra af þeim engu að síður.

Ég legg til að þið lesið og hlustið á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur sem hún flutti í Speglinum á föstudaginn, þann 3. júlí. Hljóðskráin er viðfest neðst í færslunni. Ég ætla að leyfa mér að birta hann hér og feitletra sérstaka kafla til áhersluauka. Pistillinn fjallar um frystingu eigna. Ég legg líka til að þið lærið af þessu og útvegið ykkur heiðarlega lögfræðinga sem ekki eru tengdir vafasömum mönnum til að semja og/eða útfæra lög um frystingu eigna. Nú þegar. Slík aðgerð myndi strax slá eitthvað á ólguna í samfélaginu.

Sigrún Davíðsdóttir - Pistlar í Speglinum á RÚV
Frysting eigna

Frysting eigna er svo öflug aðgerð að meðal enskra lögfræðinga er henni líkt við kjarnorkuvopn - og þeim er að sjálfsögðu ekki beitt af neinu kæruleysi. Frysting eigna fæst með dómsúrskurði. Þegar eignir Landsbankans hér voru frystar var það gert með dómsúrskurði.

Frystingu eigna er þó hægt að beita við ýmis tækifæri, bæði í málum sem einstaklingar höfða, í málum sem hið opinbera höfðar - og svo er frysting eigna notuð þegar felldir hafa verið dómar til að koma í veg fyrir að dæmdir glæpamenn geti áfram notað illa fengið fé.

Tökum fyrst dæmi um þetta síðasta: nýlega var lögfræðingur dæmdur fyrir innherjaviðskipti ásamt tengdaföður sínum. Lögfræðingurinn vann í fyrirtæki og frétti þar að verið væri að selja fyrirtækið. Það var því ljóst að hlutabréf í fyrirtækinu ættu eftir að hækka verulega. Tveimur dögum áður en tilkynnt var um kaupin keypti tengdafaðir lögfræðingsins hluti í fyrirtækinu. Tengdafaðirinn hafði aldrei áður keypt hlutabréf og græddi 50 þúsund pund, rúmar tíu milljónir króna.

Nokkrum mánuðum síðar fékk lögfræðingurinn ávísun upp á helming þeirrar upphæðar frá tengdaföðurnum. Fjármálaeftirlitið lét frysta afrakstur hlutabréfakaupanna meðan málið var í rannsókn. Í vor voru tengdafeðgarnir á endanum dæmdir í átta mánaða fangelsi - já hvorki meira né minna - fyrir þessi innherjaviðskipti.

Dómurinn þykir mjög strangur en er liður í því að taka innherjaviðskipti og annað markaðssvindl föstum tökum. Afraksturinn var gerður upptækur á endanum. Viðkomandi menn eru engir stórkarlar í ensku viðskiptalífi svo fréttir um fangelsun þeirra lenti ekki á neinum forsíðum. Það er hins vegar athyglisvert hvað dómurinn er þungur: átta mánaða fangelsi fyrir innherjaviðskipti í eitt skipti og illa fengnar tíu milljónir króna. Fjármálaeftirlitið hér hefur lýst því yfir að dómurinn og fleiri innherjaviðskipti sem eru í rannsókn sé ábending um að eftirlitið ætli að taka hvers lags markaðsmisnotkun mjög föstum tökum.

Einkaaðilar sem fara í mál geta farið fram á frystingu eigna rétt eins og opinberir aðilar. En svona kjarnorkuvopni má ekki veifa af neinni léttúð. Það eru ýmislegar kringumstæður sem getur leitt til þess að þetta öfluga vopn er notað. Þegar verið er að höfða mál gegn aðilum sem áður hafa orðið uppvísir að svikum eða glæpsamlegu athæfi, eða sem hafa sýnt tilburði til að koma eignum undan er þessi leið farin. Þá er viðkomandi einfaldlega ekki treyst.

En þar sem frysting getur valdið fjárhagslegum skaða verður sá sem fer fram á eignafrystingu að borga kostnaðinn sem hlýst af ef í ljós kemur að frystingin var ekki réttmæt. Og vei þeim sem brýtur gegn eignafrystingu! Það fellur undir að sýna dómstól fyrirlitningu og er einfaldlega mjög alvarlegur glæpur.

Það hefur vakið athygli að eignir bandaríska svikahrappsins Bernard Madoff voru frystar meðan mál hans var í rannsókn. Nú verða eignirnar gerðar upptækar þar sem hann hefur verið dæmdur, í 150 ára fangelsi eins og kunnugt er. Kona hans fær þó að halda eftir eignum sem eiga að duga henni til framfærslu.

Hér í Englandi hafa ekki komið upp nein svona stór fjársvikamál svo það er ekki hægt að benda á neinar hliðstæður. En kjarnorkuvopnið er til og það er notað. Lögunum var breytt fyrir nokkrum árum sem gera það að verkum að það er auðveldara en áður að bæði frysta eignir og síðan að gera þær upptækar. Áður var það flókið og seinlegt ferli að fá dómsúrskurð. Nú er þetta aðgerð sem hægt er að fá skorið úr með hröðum og einföldum hætti. Það hefur því haft í för með sér að það er nú orðið algengara að frystingu sé beitt.

Og frysting gildir ekki aðeins eignir sem viðkomandi á þegar frystingu er komið á heldur eignir sem hann fær eftir það. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að viðkomandi hafi minnsta möguleika á að selja eða eiga önnur viðskipti með eignir sem grunur er á að séu annaðhvort fengnar með sviksamlegum hætti eða eigi að fara upp í gjaldþrotakröfur eða aðrar kröfur.

Það sem menn hérlendis verða að taka með í reikninginn er að eignir þeirra geta verið frystar meðan mál eru í rannsókn. Þeir geta því vel átt von á því að einn góðan veðurdag birtist fulltrúar laganna og taki eignir eins og bíla, loki bankareikningum og öðrum aðgangi að eigum. Saksóknari þarf aðeins að færa rök fyrir að eignirnar séu hugsanlega afrakstur ólöglegrar starsemi. Þau rök þurfa ekki að vera jafn veigamikil og forsendur sem eru notaðar í rétti.

Eins og áður er nefnt eru engin stór fjársvikamál hér sem gætu verið hliðstæður mála sem hugsanlega gætu komið upp á Íslandi. Serious Fraud Office, stofnunin sem rannsakar viðamikil efnahagsafbrot, nýtir óspart frystingu eigna þar sem það þykir eiga við.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Friðhelgi heimilanna

Staksteinar Morgunblaðsins 4. júlí 2009Ég fékk tölvupóst frá vinkonu minni í morgun. Hún hafði verið að lesa Staksteina Morgunblaðsins. Henni fannst undarlegt að staksteinahöfundur skyldi gagnrýna fólk fyrir að skvetta málningu á hús auðmanna og segja: "En heimili fólks eru friðhelg. Og þau eiga ekki að vera vettvangur mótmæla af neinu tagi." Þessir sömu auðmenn hafa hins vegar svipt fjölmarga heimilum sínum af ótrúlegri ófyrirleitni og steypt öðrum heimilum í þvílíkt skuldafen að þeim eru allar bjargir bannaðar. Engin leið er að segja til um hvernig ótal heimilum mun reiða af í framtíðinni með þann skuldabagga á bakinu sem íslensku þjóðinni hefur verið skenktur... af téðum auðmönnum. Hvar er friðhelgi heimila þessa fólks? Verður tekið tillit til friðhelgi heimila þessara fjölskyldna þegar þær verða bornar út vegna skulda auðjöfranna? Ætli Staksteinn dagsins hafi íhugað það?

Staksteinn þessi segir ennfremur: "Það er glæpsamlegt að ráðast að heimilum fólks. Friðhelgi heimilisins er grundvallaratriði í samfélagi okkar." En miðað við hamfarir undanfarinna mánaða eru bara sum heimili friðhelg, önnur ekki. Sumir rétthærri en aðrir. Ef ræða á um grundvallaratriði í samfélagi okkar ættum við kannski að byrja á að ræða um réttlætið

Annar vinsæll frasi hjá þeim, sem verja útrásardólga, bankamenn og aðra auðjöfra er að höfða til tilfinninga fólks um fjölskylduna. Konurnar og börnin. "Hafa ætti í huga að einstaklingarnir, sem um ræðir, eiga flestir fjölskyldu, maka og börn, sem ekkert hafa til saka unnið og enga ábyrgð bera," segir Staksteinn. Það sagði Hannes Smárason líka í yfirlýsingu sinni frá 24. júní sem sjá má hér. Hannes segir þar: "...Engu að síður er nauðsynlegt að vanda umfjöllun um viðkvæm mál og fara hægt í að kynda undir galdrabrennurnar því að í öllum tilvikum eru börn og fjölskyldur sem tengjast viðkomandi aðilum." 

Í þessu samhengi velti ég fyrir mér hvort Hannes Smárason og aðrir hans líkar hafi íhugað afleiðingar gjörða sinna fyrir fjölskyldur sínar áður en þeir frömdu þá gjörninga sem gerðu þá að auðjöfrum á kostnað almennings á Íslandi. Áður en þeir, vitandi vits, ryksuguðu fé út úr bönkum og fyrirtækjum sem jafnvel hafði tekið marga áratugi að byggja upp og þeim tókst að rústa á örfáum árum. Ég spyr líka hvort dópsalar og -smyglarar, ofbeldismenn, nauðgarar, ótíndir þjófar og aðrir glæpamenn eigi ekki líka fjölskyldur sem þarf að taka tillit til. Geta þeir höfðað til meðaumkvunar á sama hátt? Eða allar fjölskyldurnar sem þetta fólk hefur lagt í rúst með gjörðum sínum. Hvað með þær? Verðskulda þær ekki að tekið sé tillit til þeirra? Bera þær einhverja ábyrgð?

Það þarf enginn að segja mér að eiginkonur auðmannanna hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Og einhverjar að minnsta kosti tekið þátt í því, þótt ekki væri nema að eyða peningunum til dæmis í ofurlúxusferðir eins og þessar á meðan Ísland brennur. Ef eitthvað bærist í höfði þessara kvenna vita þær, að eyðslueyririnn var illa fengið fé. Lánsfé sem íslenska þjóðin þarf að borga. Ég held líka að eiginkonurnar þurfi að hafa verið ansi meðvitundarlausar til að vita ekki að verið var að skrifa á þær eignir og nota nöfn þeirra í vafasömum tilgangi. Eins og t.d. þegar Sigurjón Þ. Árnason notaði nöfn mágkonu sinnar og eiginkonu til að komast yfir Landsbankabenzinn sinn eins og sagt var frá í DV 16. júní sl

Og það þarf enginn að segja mér að eiginkonur þessara manna hafi ekki vitað af því sem Lóa Pind Aldísardóttir lýsir hér - og tekið fullan þátt í því. Eigum við að vorkenna þessu fólki? Þótt ég myndi aldrei skvetta málningu á neins manns hús held ég samt að ég hafi ekki geð í mér til þess.


Við vitum þetta...

Ég veit ekki alveg hvað ég er búin að koma mér í. Samþykkti um daginn að vera pistlahöfundur hjá nýrri Morgunvakt Rásar 2... veit ekki hve lengi. Ég held bara í sumar. Ég verð með pistla á föstudögum... eða spjall. Þetta er í mótun. Orkuboltinn og kjarnakonan Lára Ómarsdóttir fékk mig í þetta og fyrsti pistillinn var tekinn upp hjá RÚV á Akureyri í gær. Bjössi tæknimaður var mjög góður við byrjandann og allt gekk eins og í sögu. Eftir prufurennslið sagði hann að þetta yrði ekkert betra svo við létum það bara standa.

Morgunvaktin á Rás 2

"NOOOHHH!", heyrði ég í heyrnartólunum þegar ég var búin að flytja pistilinn. "Hvað þýðir það?", spurði ég. "Þú tekur djúpt í árinni," sagði Bjössi. "Það er full ástæða til þess," sagði ég. En mér fannst ég ekkert taka of djúpt í árinni, síður en svo. Reyndar var ég búin að ákveða allt annað umfjöllunarefni en skipti um skoðun eftir fréttirnar á miðvikudagskvöldið.

Svo tók það mig miklu lengri tíma að stytta pistilinn en að semja hann. Mátti vera hámark 4 mínútur en upphaflegur pistill var 7 mínútur. Þegar þetta gerist - og ég hef reynslu af að reyna að stytta skrif mín úr 10-15.000 slögum í 5.000 slög sem er blaðagreinalengdin - finnst mér allt kjöt horfið af beinunum og skrifin/pistillinn vera komin(n) í einkennilegan skeytastíl. Þess vegna gafst ég upp á sínum tíma við að stytta pistlana mína og senda í dagblöðin. Ég er einfaldlega plássfrekari en leyfilegt er.

En hér er pistillinn, frumraun mín á þessum vettvangi - hljóðskrá hengd við neðst ef fólk vill hlusta líka.

************************

Ágætu hlustendur...

Íslenska efnahagsundrið - flugeldahagfræði fyrir byrjendurÉg er að lesa hryllingssögu í tíu köflum. Bókin heitir Íslenska efnahagsundrið og er eftir Jón F. Thoroddsen. Í henni er farið yfir aðdraganda íslenska efnahagshrunsins og persónur og leikendur í þjóðarharmleik Íslendinga. Þetta er skelfileg lesning og segir mikla sögu. Skúrkarnir eru margir og með sótsvarta samvisku. Spillingin, siðleysið og græðgin bókstaflega skvettist framan í mann af hverri síðu.

Önnur bók, Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson, var ekki síður fróðleg en sjónarhornið annað. Þriðja bókin, Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson, er samantekt sagnfræðingsins. Þessar þrjár bækur ættu að vera skyldulesning. Námsbækur í framhaldsskólum og framhaldsögur í útvarpi. Við verðum öll að vita sannleikann, þekkja forsöguna, vita hvernig á ekki að gera hlutina, hverjum má ekki treysta og læra af reynslunni. Fleiri bækur koma út með meiri upplýsingum sem við verðum að lesa til að vita sannleikann um það sem gerðist og hverjir bera ábyrgð á hruninu mikla, sem mun fylgja íslenskri þjóð um ókomna tíð og setja svartan blett á sögu hennar.

Við vitum ýmislegt nú þegar. Við vitum hvaða flokkar voru við völd. Við Sofandi að feigðarósivitum hvaða flokkar einkavinavæddu auðlindina í sjónum, bankana og fleiri fyrirtæki og stofnanir í eigu almennings. Og buðu okkur svo jafnvel að kaupa hlut í fyrirtækjunum sem við höfðum sjálf átt áratugum saman. Við vitum hvaða flokkar afnumdu höft og reglur sem gerðu spilltum og siðlausum bankamönnum kleift að setja okkur á hausinn. Við vitum hvaða flokkar prédikuðu frjálshyggju, einkavæðingu, græðgi og sérgæsku sem gróf undan réttlæti, jafnræði, samvinnu og samhjálp í þjóðfélaginu og ýtti undir misskiptingu og óréttlæti. Og við vitum að þessir flokkar hafa ekkert breyst.

Af því ég veit að við vitum þetta öll fékk ég létt áfall yfir niðurstöðu nýrrar Gallupkönnunar í fyrradag. Flokkarnir tveir, sem bera höfuðábyrgð á græðgisvæðingunni og hruninu, höfðu aukið fylgi sitt og ríkisstjórnin tapað fylgi. Erum við virkilega svona gleymin? Við vitum að leiðtogar beggja flokkanna eru auðmenn. Þeir eru líka gasprarar sem lofa upp í bæði ermar og skálmar eins og heyrist á málflutningi þeirra á Alþingi. Ég sé þá ekki fyrir mér vinna að endurheimt jafnræðis eða samfélagslegri ábyrgð í íslensku þjóðfélagi. Ég sé flokkana þeirra ekki heldur stuðla að réttlæti og alls ekki að rannsókn á hruninu. Það er af og frá. Til þess eru þeir allt of stórir leikendur í aðdraganda þess.

HruniðVið erum kannski ekki alveg sátt við núverandi stjórn. Kvörtum yfir skorti á upplýsingum og margir gagnrýna Icesave-samninginn. Fleiri atriði má nefna, eins og fáránlega sérhagsmunagæslu samgönguráðherra. En þrátt fyrir allt held ég að stjórnin sem nú situr sé skásti kosturinn. Hún er ekki öfundsverð af að taka við hrundu þjóðarbúi og skafa grómtekinn skítinn eftir fyrri stjórnir. Engar ráðstafanir eru vinsælar undir þeim kringumstæðum en látum okkur ekki detta í hug að fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar myndu gera betur. Og núverandi stjórn virðist að auki vera alvara með að leita réttlætis - þótt hægt gangi. Réttlæti er grundvallaratriði og vegur mjög þungt. Er ekki rétt að gefa Jóhönnu og Steingrími tækifæri til að halda áfram að moka flórinn? Við vitum að þau gera það af heilum hug og leggja nótt við dag í þágu þjóðarinnar.

Ekki vildi ég vera í þeirra sporum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Afsakið hlé


Orðheingilsháttur og titlíngaskítur

Halldór Laxness"Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls." Mér komu þessi orð Halldórs Laxness úr Innansveitarkroníku í hug þegar ég skoðaði viðbrögðin við frásögn minni af útifundinum og óvæntri heimsókn til fjármálaráðherra sem ég sagði frá í síðasta pistli. Nokkrir netmiðlar fjölluðu um málið auk Bylgjunnar og bloggara.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðunum. Það kom mér á óvart hvað þau voru mikil og sterk. Túlkun manna er ólík og jafnvel er hártogað út og suður það, sem ég taldi einfalda og skýra frásögn. Afskaplega misjafnt hvað fólki fannst vera kjarni málsins og það finnur jafnvel engan kjarna. Kannski er hér við sjálfa mig að sakast - kannski ekki.

Ég get ekki með nokkru móti svarað öllu sem sagt hefur verið, reyni það ekki. Enda öllum frjálst að hafa sínar skoðanir og tilfinningar. Mér finnst aftur á móti verra þegar verið er að gera mér upp skoðanir og leggja mér orð í munn. Segja mig meina eitthvað sem ég hef ekki einu sinni gefið í skyn, hvað þá sagt og fráleitt hugsað. Svo er alltaf talsvert um að fólk lesi ekki einu sinni textann eða hafi svo afleitan lesskilning að ætla mætti að það hafi villst á bloggpistlum þegar það tjáir sig.

Ég kallaði þá sem mættu á fundinn hetjur. Sagði að hetjurnar hefðu mætt.  Þýðir það að allir aðrir séu gungur? Ekki aldeilis. Ég mæti t.d. sjálf ekki á útifundinn næsta laugardag. Líkast til ekki þarnæsta heldur. Er ég þá gunga? Nei, ég bara kemst ekki, svo einfalt er það. Ef maður segir að einhver sé fallegur - eru þá allir aðrir ljótir? Eða ef hópur fólks er talinn gáfaður - eru þá allir aðrir heimskir? Nei, alls ekki. Lífið er ekki svo svart-hvítt eða pólaríserað og því hef ég aldrei haldið fram. Þótt ég hafi skýrt málið enn frekar í athugasemd nr. 8 við pistilinn virðist fólk ekki hafa tekið eftir því og heldur áfram í hártogunum. Ég skrifaði ekki ósvipaða ádeilu hér - í janúar - en minnist þess ekki að hafa séð viðlíka útúrsnúninga þá. Meira að segja gáfumennið, uppáhaldið mitt og rithöfundurinn Guðmundur Andri fellur í þessa gryfju hér. Orðheingilsháttur og titlíngaskítur? Maður spyr sig...

Mikið var gert úr því, að Steingrímur J. skyldi leggjast svo lágt að fá einhvern bloggara til að birta tölvupóstana. "Lauma bréfasnifsum að Steingrímur J. Sigfússoneinstaklingum til að birta á bloggi..." Ég tek hjartanlega undir með þeim sem gagnrýna Steingrím fyrir að hafa ekki birt þá fyrr, og þá í útbreiddum fjölmiðlum bæði hefðbundnum og á netinu. Og ég spyr hvort fjölmiðlamenn hafi beðið Steingrím um skjöl máli sínu til stuðnings. Hitt er svo annað mál að Steingrímur bað mig ekki að birta póstana. Ég bað hann um að fá að birta þá. Á þessu er grundvallarmunur. Steingrímur hafði ekki hugmynd um að ég kæmi með Herði Torfa, ég tók fram í pistlinum að ég hefði verið boðflenna, svo varla var þetta vandlega undirbúið stönt eins og sumir hafa látið að liggja. Gengur þeim eitthvað til sem kjósa að mistúlka hlutina á þennan hátt? Maður spyr sig...

Einhverjir sögðu að Hörður hafi verið "tekinn á teppið". Það fannst mér bráðfyndið, sérstaklega af því það voru öfgahægrimennirnir hjá "fremsta fréttaskýringavef landsins", AMX sem sögðu það. Ég hef lært, ef ekki á langri ævi þá að minnsta kosti í ölduróti vetrarins, að spyrja sjálfa mig ævinlega: Hver segir hvað? Af hvaða hvötum? Í þágu hvaða hagsmuna? Í umboði hvaða stjórnmálaafla? Það hefur reynst mér nokkuð vel í tilraunum mínum til að skilja hina ómálefnalegu og þröngsýnu umræðu sem einkennist af... jú, einmitt... orðheingilshætti og titlíngaskít.

Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ljósritið af tölvupóstunum sem ég fékk í hendur var með nöfnum og netföngum allra viðkomandi aðila. Ég var ekki beðin um að klippa textann þannig að þau kæmu ekki fram. Það tók ég algjörlega upp hjá sjálfri mér. Miðað við andrúmsloftið í samfélaginu óttaðist ég að fólk í slæmu jafnvægi myndi senda þessum mönnum tölvupósta með miður notalegum athugasemdum. Þótt púkanum í mér hafi fundist það bara gott á þá komst ég að þeirri niðurstöðu, að slíkt væri íslensku þjóðinni ekki til framdráttar um þessar mundir.

Það sem mér finnst einna verst við umræðuna um þennan pistil er, að þrumuræða Jóhannesar Þ. Skúlasonar virðist hafa fallið í skuggann. Hana birti ég í pistlinum en fáir virðast hafa tekið eftir henni. Ég vil því hvetja fólk til að kíkja aftur á pistilinn og lesa ræðu Jóhannesar.

Að lokum langar mig að biðja lesendur að hlusta á Krossgötuþáttinn sem ég hengi neðst í pistilinn. Þar ræða þau Páll Skúlason og Vigdís Finnbogadóttir meðal annars um skort á almennilegri rökræðu og rökræðuhefð á Íslandi, hræðslu við að ástunda gagnrýna hugsun og hættSjö töframenn - Halldór Laxnessulegt vald stjórnmálanna.

Ég lýk máli mínu með annarri tilvitnun í Halldór Laxness, lýsingu á íslensku þjóðarsálinni um aldir - að þessu sinni úr Sjö töframönnum. Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933: "Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgang af meiri kurteisi en Íslendingar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendingar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól."


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband