Færsluflokkur: Bloggar

Skýjum ofar í boði Framsóknar

Félagsskapur skiptir miklu máli, ekki síst á mótunarárum unglinga. Ekki er svo verra að trítla lífið á enda í eðalkompaníi við klárt og skemmtilegt fólk. Ég hef verið lánsöm að þessu leyti og nú bætti heldur betur í lukkuna hjá mér. Vegsaukinn kom þó úr óvæntri átt - frá Framsóknarflokknum. Þar sit ég nú á lista með þvílíku sómafólki að það hálfa væri nóg. Ég er að springa úr stolti og veit ekki hvernig ég get þakkað Framsókn upphefðina og dv.is fyrir að birta þennan frábæra lista. Öfundsjúkir eru hvattir til að reyna að kæra sig inn á listann með því að senda tölvupóst á framsokn@framsokn.isW00t   Ætli Sjálfstæðisflokkurinn sé með svona lista líka? Mikið væri gaman að komast á hann.

Viðbót: Lesið bréf Baldurs McQueen til Framsóknarflokksins í tilefni listans og öfundarpistil Illuga Jökuls með tilraun til að komast á listann.

Óvinir Framsóknarflokksins - dv.is 22.4.09


Styrkir, spilling og traust

Þótt ekki séu öll kurl komin til grafar varðandi "styrkjamál" flokkanna hlýtur að vera næsta skref að upplýsa um "styrki" til einstakra frambjóðenda í prófkjörsbaráttu. Fréttir Stöðvar 2 í kvöld voru kannski fyrsta skrefið, en þetta þarf að gerast hratt. Sökum tímaskorts ætla ég að stytta mér leið og vísa í blogg annarra um málið. Hér skrifar Jenný Anna, Egill Helga hér, Salvör hér og Marinó G. Njálsson hér. Ég tek undir með Marinó þar sem hann segir:

"Ég hélt að þetta styrkjamál væri eiginlega kjarni málsins.  Það snýst um heilindi stjórnmálamanna og hvort enn sé við líði fyrirgreiðslupólitík fortíðarinnar.  Mér finnst það skipta miklu máli hvort stjórnmálamenn séu ennþá að taka við því sem er ekki hægt að túlka á neinn hátt nema mútugreiðslum stórfyrirtækja til einstakra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka.  Síðast í kvöld var í fréttum Stöðvar 2 nefnt að nokkrir stjórnmálamenn, þar á meðal báðir efstu menn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefðu tekið við milljónastyrkjum vegna prófkjörsbaráttunnar haustið 2006.  Eru þetta virkilega mennirnir sem við viljum fá inn á þing?  Því neita ég að trúa og þess vegna snúast þessar kosningar um spillingarstyrkina.  Þær snúast líka um uppbyggingu atvinnulífsins, endurreisn heimilanna og framtíðarsýn fyrir þjóðina."

Og hvað er orðið af Guðlaugi Þór? Alkunna er að Hannes Hólmsteinn er alltaf vel falinn fyrir kosningar, því enginn er duglegri við að reyta atkvæðin af SjálfstæðisFLokknum. En Guðlaugur Þór er í framboði. Efsti maður í Reykjavík Suður. Var honum stungið inn í skáp til Hannesar? Hér eru forsíður á bæklingi sem dreift var/er í Reykjavík. Þeim vinstra megin fyrir helgi en þeim hægra megin eftir helgi. Búið er að skipta Guðlaugi Þór út fyrir Kristján Þór Júlíusson, efsta mann á lista FLokksins í Norðvesturkjördæmi. Er þetta ekki afdráttarlaus yfirlýsing um að Guðlaugur Þór þyki óæskilegur frambjóðandi? Lesið um upplifun Myndsmugunnar hér. Þetta er verulega dularfullt kosningabragð. Tekið skal fram að ég stækkaði báðar útgáfur, bar þær saman og sá augljós merki þess að "eftir helgi" myndin er "fótósjoppuð". Ætli Illuga verði skipt út fyrir kosningar?

Þeirra leið er að fela Gulla


Ragnheiður Elín og "elsta atvinnugreinin"

Eins og fram kom á kosningafundi RÚV á Suðurlandi í gærkvöldi var sjálfstæðiskonan Ragnheiður Elín Árnadóttir ekki sátt við vændisfrumvarpið og sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Þótt hún hafi sagt að hún væri ekki sérstakur talsmaður vændiskvenna gæti hún kannski fundið leið til atvinnusköpunar og "skapað störf" á þessum vettvangi fyrst hún lítur á vændi sem atvinnugrein. Ætli fólk kjósi með góðri samvisku frambjóðendur sem eru svona þenkjandi?


Sjálfstæðisflokkurinn og skattarnir

SjáLfstæðisFLokkurinnSjálfstæðisflokkurinn er í tómu tjóni þessa dagana og skyldi engan furða eftir þann gríðarlega skaða sem hann hefur valdið þjóðinni. FLokkurinn veit ekki sitt rjúkandi ráð og skilur ekkert í af hverju kjósendur trúa ekki bullinu og mótsögnunum sem vellur upp úr frambjóðendum og klappliði flokksins. Þeim hefur hingað til tekist að ljúga fólk fullt en nú virðast mun færri trúa þeim en áður. Það er jafnvel gripið til ótrúlegustu uppátækja eins og hér má sjá.  Kannski þurfti hrunið til að fólk áttaði sig á blekkingum FLokksins, en það var æði dýrkeypt lexía.

FLokkurinn hamast nú við að auglýsa - og ekki bara sjálfan sig og huggulega fólkið sitt heldur eyða einhver dularfull öfl, væntanlega á hans vegum, miklum peningum í upplognar auglýsingar um skelfilegar skattahækkanir ef "vinstri stjórn" kemst til valda eftir kosningar. Samkvæmt þessu eru þar bæði lygar og villandi upplýsingar og passar engan veginn við það sem sagt hefur verið. Þetta er þekkt taktík í stjórnmálum og víðar og gjarnan nefnd "Látum þá neita því" aðferðin. Hún felst í því að ljúga einhverju upp á andstæðinginn sem hann síðan ber til baka. En fræi efans er sáð, sá er tilgangurinn. Þetta er ein sóðalegasta og óheiðarlegasta baráttuaðferð sem fyrirfinnst í stjórnmálum.

En það er þetta með skattana... Sjálfstæðiflokkurinn reynir nú hvað hann getur að telja kjósendum trú um að hann geti veifað töfrasprota og þurfi ekki að hækka álögur á almenning í landinu. Slíkt sé algjör vinstrivilla sem ekki sé hlustandi á. Þetta er auðvitað fáránlegt. Sjálfstæðismenn með eignarrétt yfir þótt ekki sé nema nokkrum heilasellum sjá að slíkar fullyrðingar eru þvættingur í ljósi þeirra aðstæðna sem einmitt FLokkurinn sjálfur hefur komið þjóðinni í. Ég hef enga trú á að nokkur kjósandi með viti falli fyrir svona málflutningi.

Sjálfstæðismönnum eru þó skattar mjög hugleiknir og hafa verið manna duglegastir við að hækka skattbyrði almennings í landinu í stjórnartíð sinni. Man einhver eftir skýrslum Stefáns Ólafssonar frá vorinu 2006 þar sem Stefán sýndi með ótvíræðum hætti fram á að skattbyrði þeirra sem minna mega sín hefði hækkað mjög á Íslandi frá 1995 til 2005? Ég man vel eftir þessu og hve harkalega sjálfstæðismenn reyndu að neita því. En ári síðar, í mars 2008, komu niðurstöður úr rannsókn OECD sem staðfestu allt sem Stefán hafði haldið fram = Skattbyrði einstaklinga og fjölskyldna hafði aukist verulega á Íslandi 1995-2005, mun meira en í öðrum OECD-ríkjum. Þetta er einfaldlega staðreynd sem ekki verður horft fram hjá. Rifjum þetta aðeins upp.

Fréttir Stöðvar 2 - 12. - 16. mars 2008

 Fréttir RÚV 12. mars 2008

Það sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði aftur á móti var að breyta Íslandi í skattaparadís fyrir fyrirtækjaeigendur og fjárfesta. Það er líka staðreynd.

Stefán Ólafsson, prófessorViðfest neðst í færslunni er nýtt skjal frá Stefáni Ólafssyni með myndrænum skýringum á skattamálum og þróun þeirra undanfarinn hálfan annan áratug. Ég hvet alla til að skoða skjalið vel og vandlega og senda þessar upplýsingar áfram til sem flestra. Ef skjalið opnast ekki hjá einhverjum útbjó ég albúm með skýringarmyndunum hér þar sem hægt er að fara í gegnum þær. Neðst í færslunni er einnig viðfest Spegilsviðtal við Stefán Ólafsson frá 12. mars 2008.

Að lokum vitna ég í lokaorð Stefáns í skjalinu þar sem segir:

"Í dag segja þeir sem hækkuðu skattbyrði 90% almennings í góðærinu (Sfl. og Ffl.) að þeir ætli ekki að hækka neina skatta nú, þrátt fyrir geigvænlegan halla á ríkisbúskapnum (um 170 milljarðar). Þeir sögðu ósatt um skattastefnu sína 1995 til 2005. Er þeim treystandi þegar þeir segjast ekki ætla að hækka nú? Eða vilja þeir frekar leggja íslenskt samfélag í rúst?
Samanlögð útgjöld félags- og tryggingamálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins eru um 172 milljarðar. Það þyrfti að loka menntakerfinu og velferðarkerfinu (almannatryggingum o.fl.) alveg, ef niðurskurðurinn væri allur tekinn þar. Heilbrigðiskerfið kostar 115 milljarða á árinu og dugir því ekki að loka því alveg einu og sér. Menntakerfið (58 milljarðar) þyrfti t.d. að fara líka! Heildarkostnaður ríkisins er um 555 milljarðar árið 2009. Ef allur hallinn er tekinn með niðurskurði þarf að stórskaða alla grunngerð samfélagsins. Eða er markmiðið að einkavæða í staðinn og bjóða upp á menntun og heilsugæslu eingöngu fyrir þá sem hafa greiðslugetu fyrir slíku?
Þá væri Ísland orðið mun "amerískara" en Bandaríkin."

Halldór Baldursson - Vondi prófessorinn


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

SÁÁ, dulnefni og reynslusögur

SÁÁMér er afar hlýtt til SÁÁ enda er ég stofnfélagi samtakanna. Árið 1977 gekk undirskriftalisti um vinnustað minn þar sem fólki var boðið að gerast stofnfélagar. Ég held að flestir ef ekki allir hafi skrifað nafnið sitt á listann. Mikið vatn er runnið til sjávar síðan og samtökin hafa bjargað mörgu mannslífinu. Sem betur fer hef ég aldrei þurft á aðstoð þeirra að halda, líklega vantar í mig tilheyrandi gen. En enginn veit þó sína ævina fyrr en öll er.

Mér þykir líka afar vænt um nafnið mitt, Lára Hanna - í þessari röð. Ég er skírð í höfuðið á tveimur ömmum mínum, þeim Láru og Jóhönnu. Þar til fyrir rúmum 10 árum var ég eini Íslendingurinn með þessu nafni. Til voru fjölmargar Hönnu Lárur en bara ein Lára Hanna enda er nafninu mínu oft snúið við og ég kölluð Hanna Lára - mér til mikils ama. Svo uppgötvaði ég fyrir 9 árum að ég átti litla nöfnu, alls óskylda mér, sem nú er nýorðin 10 ára dama. Ég hef ekki hitt hana ennþá, en það má alltaf bæta úr því. En við erum semsagt bara tvær á Íslandi, Láru Hönnurnar.

Dulnefni hafa alltaf tíðkast. Til dæmis í dagblöðum (Svarthöfði, Víkverji o.fl.) og tímaritum (dálkar þar sem fólk segir sögu sína undir dulnefni og fær ráðgjöf misviturra "sérfræðinga"). Rithöfundar skrifa jafnvel heilu bækurnar undir dulnefni. Notkun dulnefna hefur farið ört vaxandi eftir að bloggið kom til sögunnar og fleira þvíumlíkt á netinu. Opinskáar reynslusögur eru oft sagðar undir dulnefni og er þá notast við ýmist tilbúin nöfn eða algeng nöfn eins og Sigga, Palli, Nonni, Gunna eða eitthvað slíkt þar sem ekki er nokkur leið að finna út hver viðkomandi er - a.m.k. ekki út frá nafninu.

Það kom mér því á óvart þegar ég fékk tölvupóst frá kunningja mínum með slóð að reynslusögum spilafíkla - svona lítur síðan út:

Reynslusögur spilafíkla - SÁÁ

Siggi, Nonni, Sigga og - viti menn - Lára Hanna! Þetta sjaldgæfa nafn sem aðeins tveir Íslendingar bera er notað sem dulnefni við reynslusögu spilafíkils sem hafði leitað ásjár SÁÁ og segir sögu sína á vef samtakanna. Ég varð eiginlega hálf hvumsa og 14. apríl sendi ég tölvupóst á netfangið saa@saa.is til að spyrjast fyrir um hvort einhverjar reglur giltu hjá samtökunum um notkun dulnefna á vefsíðum þeirra.

Í dag er 20. apríl og ekkert svar hefur borist. Mér svosem alveg sama um þetta þótt ég hafi orðið steinhissa í fyrstu. Þetta er í besta falli fyndið og í versta falli afar ósmekklegt. En samt er nú alltaf skemmtilegra að fá svör við fyrirspurnum, er það ekki?


Frábært Silfur í dag

Ég var núna fyrst að sjá Silfrið og mér fannst það frábært. Einvalalið gesta (þótt ég segi sjálf frá) og ég vona innilega að sjálfstæðismaðurinn Jón Magnússon hafi horft á þennan "innantóma sleggjudómaþátt" eins og haft er eftir honum hér. Hann og fleiri stjórnmálamenn gætu lært heilmikið af ýmsum sem þarna voru - ef þeir vilja læra eitthvað yfirhöfuð, sem er alls ekki víst.

Vettvangur dagsins - Björn Þorri, Lára Hanna, Ólafur Stephensen, Páll Ásgeir, Íris og Elías

 

 Sverrir Hermannsson - nýi vefurinn hans hér

 

Benedikt Jóhannesson - greinin sem um er rætt hér

 

Kári Halldór - kom við sögu hjá mér hér og hér

 


Spaugstofan

Ég sakna Spaugstofunnar sárt og skil ekki af hverju hún hætti svona snemma í ár. Mánuði fyrr en árið 2008 þótt kosningar séu fram undan og gott hefði verið að hafa þá til að skerpa á hlutunum. Hér er viðtal DV við Karl Ágúst frá 8. apríl sl. þar sem hann tjáir sig meðal annars um vinnu við þættina í vetur.

Kveðjulagið Yfir til þín 26. apríl 2008

 

Kveðjulagið Yfir til þín 28. mars 2009

 


Atvinnutækifæri fyrir bændur...

...eða kannski bara dægradvöl? Ég fékk senda slóð að þessu myndbandi um daginn og fannst uppátækið ansi skemmtilegt. Það eru bændur í Wales sem voru svona hugmyndaríkir.

Fyrir nokkrum dögum sá ég svo að fréttastofan Sky hafði komið auga á myndbandið og sá ástæðu til að fjalla um þessa nýstárlegu iðju sauðfjárbænda.


Orkuútrásin og sjálfsblekkingin

Páskar eru tími málshátta - en af þeim eigum við nóg - þökk sé páskaeggjunum. Mér duttu nokkrir í hug í tilefni upprifjunar á REI-málinu, t.d. "Dramb er falli næst", "Margur verður af aurum api" og "Hroki vex þá hækkar í pyngju". Þessi viskuorð hafa átt við ótalmarga undanfarin ár og eiga jafnvel enn.

Þá sem nenntu að renna í gegnum myndböndin í færslunni hér næst á undan rekur kannski minni til orða Franz Árnasonar, forstjóra Norðurorku, úr fréttum Stöðvar 2, 23. október 2007. Franz sagði meðal annars: "Það er sérþekking til staðar en það er líka sjálfsblekking til staðar". Þar var hann að vísa í hrokafull ummæli þeirra sem stóðu að hinni svokölluðu "orkuútrás" um alla séríslensku þekkinguna sem átti að nýta í útrásinni. "Við erum ekkert óskaplega stórir á jarðhitamarkaðnum," hélt Franz áfram.

Þessi ummæli hans og önnur slík eru í takt við það, sem Stefán Arnórsson, prófessor í jarðeðlisfræði, hefur margreynt að fá Íslendinga til að skilja en erfitt hefur reynst að fá þá til að hlusta á. Dramb græðgivæðingarinnar var slíkt að menn létu varnaðarorð vísindamanna sem vind um eyrun þjóta og  æddu áfram í villtri ásókn í peninga - sjálfum sér til handa, ekki þjóðinni. Auðlindum hennar og komandi kynslóða skyldi fórna á altari Mammons fyrir stundargróða og sértækt sællífi. Enn eru nokkrir valdamiklir einstaklingar þannig þenkjandi sem sést best á niðurlægjandi Helguvíkurfrumvarpi iðnaðarráðherra. Hann dreymir um að keyra það í gegnum þingið, fórna náttúru og auðlindum þjóðarinnar og bæta á hana byrðum sem hún getur ekki með nokkru móti staðið undir.

Ég fann viðtal við Guðmund Þóroddsson, fyrrverandi forstjóra OR og síðan REI, frá 4. október 2007. Daginn eftir að sameining REI og GGE var samþykkt. Þegar viðtalið er tekið eru Hannes Smárason og Bjarni Ármannsson líklega nýlentir í London með glærusýninguna frægu sem ég hengdi neðst í þessa færslu. Hér fyrir neðan hengi ég þrjú viðtöl við Stefán Arnórsson sem ég hvet fólk eindregið til að hlusta á og fræðast um sannleikann og staðreyndir málsins hjá einum reyndasta og fremsta jarðorkusérfræðingi sem við eigum.

Hádegisviðtalið á Stöð 2 - 4. október 2007

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

REI-málið í máli og myndböndum

Líklega er að bera í bakkafullan lækinn að rifja REI-málið upp enn frekar. En þar sem nýjasta hneykslið í Sjálfstæðisflokknum tengist því órjúfanlegum böndum er varla hægt annað. Auk þess geri ég ráð fyrir að fólk vilji vita hvað kjörnir fulltrúar þess voru og eru að gera við sameiginlegar eigur okkar allra og auðlindir þjóðarinnar. Fréttaskýring Péturs Blöndal, blaðamanns á Morgunblaðinu, sem ég birti í síðustu færslu er mjög upplýsandi og greinagóð. Það er líka yfirlit Sigrúnar Elsu Smáradóttur sem birt var í athugasemd nr. 12 við þá færslu og ég ætla að endurbirta hér á eftir.

Lítum á yfirlit sem hin frábæra fréttakona RÚV, María Sigrún Hilmarsdóttir, sýndi okkur í fréttum í gærkvöldi.

Skoðum síðan áðurnefnda frásögn Sigrúnar Elsu á atburðum, en hún sat á þessum tíma í stjórn OR fyrir Samfylkinguna:

Staðreyndir málsins:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leiddu stofnun REI og sameiningarviðræður milli REI og GGE en FL-Group var meirihlutaeigandi GGE. "Hetjuleg" framganga 6-menninganna í REI málinu birtist sem nafnlausir lekar í fjölmiðlum. Niðurstaða borgarfulltrúahóps Sjálfstæðisflokks var að selja ætti REI með 20 ára einkaréttasamningnum, en GGE átti forkaupsrétt. Undir forystu 100-daga meirihlutans var samrunasamningnum rift.

Tengsl REI-málsins við risastyrki Sjálfstæðisflokksins
Guðlaugur Þór Þórðarson tók við stjórnarformennsku í Stjórn OR eftir borgarstjórnarkosningar (en hann hafði stutt Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson dyggilega í prófkjöri). Skömmu eftir að Guðlaugur biður varaformann stjórnar FL-Group um að safna styrkjum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (í mars 2007) að stofna hlutafélagið Reykjavik Energy Invest utan um útrásarstarfsemi OR. Í júní 2007 tók Haukur Leósson við
Sigrún Elsa Smáradóttir stjórnarformensku í OR og sat einnig í stjórn REI og fylgdi því samrunaferlinu frá upphafi. Fram hefur komið í fréttum að Haukur Leósson var endurskoðandi Sjálfstæðisflokksins árið 2006 og vissi um risastyrkina og hafði rætt þá við forsvarsmenn flokksins.

Þetta er athyglisvert í því ljósi að í niðurstöðu stýrihóps borgarráðs sem Svandís Svavarsdóttir stýrði og Sigrún Elsa Smáradóttir sat í fyrir hönd Samfylkingar segir meðal annars: "Við vinnu stýrihópsins kom í ljós að FL-Group, sem hafði verulega fjárhagslega hagsmuni af því hvernig þjónustusamningur OR og REI yrði, hafði bein áhrif á samningsgerðina eins og fram kemur í tölvupóstsamskiptum milli FL-Group og OR. Þetta verður að teljast óeðlilegt í ljósi þess að samningurinn var á milli tveggja fyrirtækja í meirihlutaeigu borgarinnar og formleg staða FL-Group gagnvart þeim fyrirtækjum engin. Þannig telur hópurinn að hagsmuna OR hafi ekki verið gætt nægjanlega vel við samningsgerðina." Síðar í skýrslu stýrihópsins segir: "Stýrihópurinn gagnrýnir sérstaklega þau vinnubrögð að aðkoma einkaaðila að verkefninu skuli hafa verið með þeim hætti að einum tilteknum aðila stæði auðlindin til boða án þess að eðlilegs jafnræðis milli aðila væri gætt."

Einnig er rétt að hafa í huga að ef sjálfstæðismenn í borginni hefðu náð fram sínum vilja og REI hefði verið selt, eftir sameininguna við GGE, hefði GGE haft forkaupsrétt að hlutnum. Þannig hefði FL-Group getað eignast allan hlutinn í REI með 20 ára einkaréttarsamningi.

Aðdragandi REI-málsins, aðkoma minnihluta
REI var stofnað í valdatíð fyrsta meirihluta þessa kjörtímabils en í þeim meirihluta sátu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Fulltrúar þeirra leiddu samningaviðræður við GGE um sameiningu GGE og REI. Minnihlutinn átti engan fulltrúa í stjórn REI og kom því hvergi nærri því örlagaferli. Í stjórn
Svandís SvavarsdóttirREI voru til að mynda kaupréttasamningar samþykktir og þeim síðar breytt eftir harða gagnrýni minnihlutans eftir að minnihlutinn kom upp um samningana og að endingu voru þeir svo felldir niður í stjórn REI. Enginn fulltrúi minnihlutans greiddi því atkvæði með eða á móti þeim kaupréttarsamningum, því í stjórn REI átti minnihlutinn ekki fulltrúa.

Samruninn var vissulega samþykktur mótatkvæðalaust í stjórn OR 3. október 2007. Enda hafði veigamiklum þáttum verið haldið leyndum fyrir kjörnum fulltrúum og var talað um algjöran trúnaðarbrest í því sambandi. Meðal annars var eðli 20 ára einkaréttarsamnings ekki kynnt. Fulltrúar minnihlutans í stjórn OR óskuðu eftir frestun á málinu en frestunartillagan var felld af meirihlutanum. Meirihluta sjálfstæðismanna og framsóknarmanna.

Það var svo minnihlutinn sem náði að draga fram í dagsljósið meinbugina sem voru á þessum gjörningi. Það fór ekki fram hjá neinum að mikil ólga var innan borgafulltrúahóps Sjálfstæðisflokksins þegar kvarnast fór upp úr þeirri glansmynd sem dregin hafði verið upp af sameiningu REI og GGE. En sú óeineining birtist helst í nafnlausum lekum innan úr hópnum og því varla um mikla hetjudáðir að ræða.

Sjálfstæðismenn vildu afhenda FL-Group REI
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins héldu blaðamannafund í ráðhúsinu þann 8. október 2007 þar sem þeir kynntu niðurstöðu þriggja tíma sáttafundar sem þeir höfðu þá setið á með sjálfum sér. Niðurstaða þess fundar var að selja ætti REI að fullu út úr Orkuveitunni. Reyndar láðist þeim að ræða þessa niðurstöðu við samstarfsflokkinn, sem ekki gat unað henni og sleit samstarfinu þremur dögum síðar. Hefði Sjálfstæðisflokkurinn náð að hrinda vilja sínum í framkvæmd hefði GGE átt forkaupsrétt að fyrirtækinu og þar með 20 ára einkaréttasamningi á öllum erlendum verkefnum OR.

Hvernig nokkur maður getur látið sig dreyma um að hægt sé að falsa söguna þannig að sexmenningarnir svokölluðu hafi bjargað REI er óskiljanlegt.

Það var svo 100-daga meirihlutinn og vinna stýrihóps undir forystu Svandísar Svavarsdóttur sem fór yfir málið í heild sinni og rifti samrunanum.

Þá er komið að hinni myndrænu upprifjun. Ég klippti saman umfjöllun um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í október 2007 með tveimur klippum frá september sem mér fannst skipta máli. Því miður hef ég ekki aðgang að fréttum RÚV eða Kastljósi frá þessum tíma.

Fréttir Stöðvar 2 frá 5. - 10. október 2007

Hér sprakk meirihlutinn og fréttaumfjöllun næstu tveggja daga var nánast eingöngu um þann atburð. Þeir fréttatímar koma hér hvor í sínu lagi.

Fréttir Stöðvar 2 - 11. október 2007

Fréttir Stöðvar 2 - 12. október 2007

 

Og hér eru síðan fréttirnar frá 13. - 31. október 2007

Á þessum tíma var Ísland í dag alvöru fréttaskýringaþáttur og var með puttann á púlsinum. Hér er samanklippt umfjöllun Íslands í dag 4., 8., 9. og 10. október 2007. Af meiru er að taka en það verður að bíða betri tíma.

Ísland í dag

Að lokum er hér umfjöllun Kastljóss um skýrslu starfshóps um REI-málið frá 6. og 7. febrúar 2008

Dæmi nú hver fyrir sig um gjörninginn og tengslin milli "styrkja" og stjórnmála. Við vitum hvað útrásarvíkingunum gekk til, en hvað gekk stjórnmálamönnunum til? Hvernig stendur á því að sumir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar voru - og eru reyndar enn - tilbúnir til að selja eigur og auðlindir þjóðarinnar til að þeir sjálfir, frændur þeirra og vinir, geti auðgast  og lifað í vellystingum praktuglega á kostnað almennings? Er þetta ekki einn anginn af spillingunni sem er lífsnauðsynlegt fyrir þjóðina að uppræta? Varla gerum við það með því að kjósa þessa sömu menn aftur.

Málefni Hitaveitu Suðurnesja hef ég ekki kynnt mér nægilega vel til að fjalla um þau, en bæði Hannes Friðriksson, sem barðist gegn einkavæðingu HS, og Agnar Kristján Þorsteinsson og eflaust fleiri hafa gert þeim skil.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband