Færsluflokkur: Bloggar

Sjokkerandi Silfur

Ætli stór hluti áhorfenda Silfursins þurfi ekki áfallahjálp núna. Það kæmi mér ekki á óvart. Reyndar kom fátt fram sem ekki hefur verið sagt áður af ýmsum Íslendingum, bæði á netinu og annars staðar. Ég nefni t.d. Jón Steinar á blogginu sínu og fleiri og fleiri. Og hægt hefur verið að horfa á myndir eins og Zeitgeist og ýmis myndbrot á YouTube um alls konar svona mál víða um heim.

En að fá þessa menn í sjónvarpssal hjá RÚV - í Reykjavík - að tala beint við okkur Íslendinga um okkar eigin mál og framtíð okkar er einhvern veginn beinskeyttara, persónulegra og áhrifaríkara. Finnst mér. Ég er eiginlega í hálfgerðu sjokki og á eftir að melta þetta allt saman miklu betur. Þetta er ekki áróður, heldur blákaldur veruleiki. Látið engan reyna að telja ykkur trú um neitt annað.

Hugurinn er á fleygiferð, orð og gerðir stjórnmálamanna skoðast í nýju ljósi og verður að meta á nýjan hátt ef marka má það sem Michael Hudson og John Perkins sögðu. Tökum samning Össurar Skarphéðinssonar við Century Aluminium um álverið í Helguvík sem dæmi. Er Össur að selja okkur í hendur erlendra auðhringa - eða réttara sagt að gera vonda stöðu enn verri? Ég var sannfærð um það fyrir og er enn sannfærðari nú. Verður litið á slíka samninga sem landráð héðan í frá? Ég ætla rétt að vona það. Skoðið minnihlutaálit Iðnaðarnefndar þingsins frá í gær.

Ég er líka enn meira hugsi en venjulega yfir stefnu og stjórnsýslu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þessir flokkar vilja einkavæða, selja grunnstoðir þjóðfélagsins, virkja og reisa álver um allt land. Miðað við það sem kom fram í Silfrinu eru þeir ólígarkaflokkar og þingmaður staðfesti meint eignarhald auðlinda sjávar í frægri ræðu á landsfundi um síðustu helgi. Auðlindum sjávar var stolið frá þjóðinni fyrir mörgum árum. Nú höfum við möguleika á að eignast hana aftur og eigum hiklaust að gera það. Nýta hana í þágu okkar allra, ekki bara fárra auðmanna. 

Samfylkingin setti upp grímu Fagra Íslands fyrir kosningarnar 2007 en kastaði henni fljótt og vill virkja og fórna auðlindum okkar fyrir gróða erlendra auðmanna. Þó veit ég að í þeim flokki eru einlægir náttúruverndarsinnar og skynsemisraddir eins og Mörður, Dofri, Þórunn og nú Ómar Ragnarsson. Orkuauðlindir okkar eru ómetanlegur fjársjóður sem við eigum að nýta í þágu lands og þjóðar, ekki erlendra auðhringa.

Það eru að koma kosningar. Lokaorð Johns Perkins voru þau að þegar upp er staðið erum það við sjálf sem ráðum hvað verður um okkur, almenningur í landinu, kjósendur. Við fáum það sem við kjósum yfir okkur - og engum ætti lengur að dyljast fyrir hvað íslenskir stjórnmálaflokkar standa í raun. Við vitum það að fenginni afar dýrkeyptri reynslu.

Michael Hudson - með íslenskum texta

 

John Perkins - með íslenskum texta

 

Draumalandið - kynningarmyndband

 

 Vettvangur dagsins 1 - Agnes Braga og Kristinn Hrafnsson

 

Vettvangur dagsins 2 - Jón Helgi Egilsson og Ketill orkubolti Sigurjónsson

 

Viðbót: Michael Hudson og John Perkins í kvöldfréttum RÚV 5.4.09

 


Myndband með kveðju

Þetta myndband fékk ég í tölvupósti fyrir nokkrum dögum - með kveðju frá vini...


Efnahagsmálaliðinn og Stríðið gegn Íslandi

Ég veit ekki hverjir aðrir verða í Silfrinu á morgun, en ég hlakka til að heyra i þessum tveimur.

John Perkins - sjá hér og hér

 

Rætt er við Perkins í mynd Andra Snæs og Þorfinns Guðnasonar, Draumalandinu, sem frumsýnd verður á þriðjudaginn. Hann tekur einnig þátt í málþingi í Háskóla Íslands á mánudag, sjá hér.

 

Michael Hudson - sjá einnig þessa grein

Stríðið gegn Íslandi - Michael Hudson


Er græðgi góð?

"Andrúmsloftið í samfélaginu einkennist í ríkum mæli af græðgi sem við höfum ekki áður upplifað jafnsterkt og um þessar mundir. Það hefur fjarað undan samfélagslegum gildum, samkennd og samhjálp."

Ég hef verið að grúska allsvakalega í kvöld og rakst á þessa grein eftir Kristján G. Arngrímsson í Mogganum frá 14. október 2005. Í upphafi greinarinnar er vitnað í Grétar Þorsteinsson, þá forseta ASÍ. Ég veit ekki hvort það er tilviljun, en greinin birtist sama dag og sagt er frá setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem var daginn áður. Um þessar mundir hafði Flokkurinn verið samfleytt við völd í 14 eða 15 ár, þar af 10 ár með Framsóknarflokknum. Við þekkjum framhaldið allt of vel.

Vonandi bera Íslendingar gæfu til að hafna báðum græðgisflokkunum í kosningunum og kjósa fólk og flokka sem hafa samfélagsleg gildi, samkennd og samhjálp að leiðarljósi. Við þurfum öll á því að halda núna - sárlega.

Er græðgi góð? - Moggi 14.10.05


Leikhús fáránleikans

Leikhús fáránleikans

Henrý Þór - Iceland's Most Wanted

En Gylfi ætlar að  skera þau úr snörunni.

 


Hvað er í gangi?

Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað þetta á að þýða? Hvers vegna FME reynir að hindra upplýsingagjöf til almennings. Þetta eru upplýsingar um hvernig farið var með peningana OKKAR - hvernig VIÐ vorum svikin og blekkt. Loksins þegar Fjármálaeftirlitið gerir eitthvað þá ræðst það á fjölmiðlamenn sem upplýsa það, sem eftirlitið átti að vera búið að taka á fyrir löngu! Er FME með þessu að þrýsta á stjórnvöld að afnema bankaleynd eða er pólitík á bak við þetta í þeim tilgangi að vernda einhverja? Skilur þetta einhver? Ég geri það ekki. Það er eitthvað öfugsnúið við þetta.

Morgunblaðið í dag - Sjá grein Agnesar hér og hér og Þorbjörns hér

Brutu þau bankaleynd? - Moggi 2. apríl 2009

Eyjan í dag - Sjá blogg Egils Helgasonar

FME í herferð gegn fjölmiðlum? - Eyjan 2. apríl 2009

Fréttir Stöðvar 2 í kvöld


Umfjöllun Kastljóss og viðtal við Kristin Hrafnsson 27.1.09


"Stjórnmálin líða fyrir valdhroka"

Fjölmiðlarnir skipta gríðarlega miklu máli. "Einn djúpstæðasti vandi íslensks lýðræðissamfélags eru fjölmiðlarnir," sagði Vilhjálmur Árnason, heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands. Þetta eru stór orð, en Vilhjálmur skýrir þau og rökstyður prýðilega í viðtali sem Bergljót Baldursdóttir tók við hann og sýnt er á kosningavef RÚV sem vert er að vekja athygli á. Þar kennir nú þegar ýmissa grasa sem fólk ætti að kynna sér og fylgjast svo með.

Bergljót spyr líka í upphafi hvort ekki þurfi eitthvað mikið meira en kosningar til að breytingar eigi sér stað á Íslandi. Góð spurning - og mitt svar er tvímælalaust . Það þarf hugarfarsbyltingu, siðferðisbyltingu, miklar atferlisbreytingar hjá almenningi, þingmönnum, í stjórnsýslunni... ja, bara um allt þjóðfélagið. Það þarf líka miklu meiri samlíðun með náunganum, tillitssemi og viðurkenningu á því, að við búum hér öll saman og rassinn á manni sjálfum er enginn gullrass sem sjálfsagt er að hlaða undir á kostnað annarra. Við myndum samfélag sem þarf nú að endurskoða gildismat sitt frá grunni. Og við þurfum margfalt meira aðhald - ekki síst af hendi fjölmiðla.

Í fyrsta bloggi sínu á kosningavefnum segir Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, að fréttamenn séu hliðverðir lýðræðisins, hversu flókið, þvælið, tafsamt og þreytandi sem það geti verið. Vonandi bera þeir allir gæfu til að standa sig í þessu Lykla-Péturshlutverki, á hvaða miðli sem þeir starfa. Við hin, sem á þá horfum og hlustum, gerum miklar kröfur til þeirra og reynum að vera sanngjörn. En mig grunar að viðhorf fólks almennt sé margfalt gagnrýnna nú en nokkru sinni áður. Það er gott.

Ég mæli eindregið með þessu viðtali Bergljótar við Vilhjálm Árnason.

Vilhjálmur var líka í Silfrinu 9. nóvember sl.


Ólíkt hafast þeir að

Eignarhald fjölmiðla hefur verið mikið rætt og áhrif þess eignarhalds á umfjöllunarefni í miðlunum. Eins og ástandið er í þjóðfélaginu þurfum við bráðnauðsynlega á góðum, heiðarlegum fjölmiðlum að halda sem fjalla á gagnrýninn hátt um það sem aflaga hefur farið, fletta ofan af misgjörðum, svikum, falsi og öllu því sem átti þátt í efnahagshruninu. Mogginn hefur staðið sig ótrúlega vel, sem og ýmsir netmiðlar eins og Smugan og Eyjan. Fréttablaðið/Vísir.is á líka góða spretti og DV hefur verið að gera marga mjög góða hluti. RÚV er svo alveg sérkapítuli og stendur sig einna best í ljósvakafréttamiðluninni með fjölbreytta þætti í útvarpi og sjónvarpi. En ég hef þó á tilfinningunni að sameining fréttastofa útvarps og sjónvarps eigi eftir að slípast betur. Og þótt vefur RÚV hafi lagast mjög vantar mikið upp á að hann sé eins og ég vil hafa hann a.m.k.

Við eigum ógrynni af frábærum blaða- og fréttamönnum sem nú gætu notið sín sem aldrei fyrr ef þeim væru skapaða aðstæður til að vinna og rannsaka mál ofan í kjölinn. Fjöldi reyndra og góðra blaða- og fréttamanna hefur fengið reisupassann á meðan haldið er í ung, óreynd, ótalandi og óskrifandi ungmenni sem varla geta flutt fréttir af öðru en hneykslismálum um Britney Spears, kynsjúkdóm kærasta Parísar Hilton eða afturenda Kirstie Alley. Þetta er nokkuð sem ég skil ekki. Má ég heldur biðja um alvörufréttamenn sem flytja alvörufréttir.

Við höfum tvær sjónvarpsstöðvar, hvora með sinni fréttastofunni og um hálftíma löngum fréttatengdum þætti á eftir fréttum. Sú var tíðin að maður varð var við samkeppni milli Kastljóss og Íslands í dag og jafnvel milli fréttastofanna en sú samkeppni virðist vera - ef ekki dauð þá í dauðateygjunum. Heyrst hefur jafnvel að til standi að leggja fréttastofu Stöðvar 2 niður. Hvort það er af sparnaðarástæðum eða vegna þess að einhverjir stjórarnir haldi að "fólk hafi ekki áhuga" á slíkum óþarfa sem fréttum veit ég ekki.

Ótalin er litla sjónvarpsfréttastofan hjá Mogganum - Mbl-Sjónvarp - þar sem Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, Magnús Bergmann og fleiri vinna vinnuna sína og það frábærlega vel. Ef fréttastofa Stöðvar 2 leggur upp laupana, sem vonandi verður aldrei, mætti stórefla Mbl-Sjónvarp í staðinn.

En tökum dæmi frá í kvöld með innskotum úr Fréttablaðinu og Mogganum. Hvað var efst á baugi og hvernig eru málin meðhöndluð? Höfum í huga að fjölmiðlar eru mjög skoðanamyndandi og margir fá alla sína heimsmynd úr þeim.

Fréttir RÚV

 

Fréttablaðið

Milljarðar í súginn vegna aðgerðarleysis - Fréttablaðið 31. mars 2009

Kastljós - Ríkisskattstjóri um skattaskjól, lagaumhverfi o.fl. Viðtal við Aðalstein Hákonarson hjá RSK frá í desember er hér og desember-Tíundin hér.

 

Morgunblaðið amson greiddi fé til Tortóla - Moggi 31. mars 2009

Mbl-Sjónvarp - Steingrímur J. um Samson

 

Rúsínan í pylsuendanum er Ísland í dag. Á meðan aðrir fjölmiðlar eru með vitræna umræðu og upplýsingar sem skipta máli var Ísland í dag með... Já, notalega Nærmynd af Björgólfi Thor, þeim hinum sama og fjallað er með einum eða öðrum hætti um í hinum fjölmiðlunum - en á gjörólíkum nótum. Áður hafa verið sýndar notalegar Nærmyndir af Róberti Wessman og Ólafi Ólafssyni. Er það þetta sem fólk vill sjá, auðjöfrana sem komu okkur á hausinn gljáfægða, pússaða og mærða af vinum og vandamönnum? Eða er það út af þessu sem enginn horfir á Ísland í dag lengur og þátturinn fær ekkert áhorf? Maður spyr sig...

 


Þetta líst mér vel á!

Bankakreppan hefur haft ýmsar hliðar. Meðal annars þá, að um tíma vissi enginn hvað yrði um sín bankaviðskipti, innistæður eða skuldir og ekki er búið að gera allt upp enn . Átti maður að fara eða vera? Flýja - og þá hvert? Það var alls staðar sama sukkið, sama óráðsían, vafasamir eigendur og bankastjórar.

Ég er búin að sjá ljósið. Það voru ekki allir að sukka og svalla og þenja sig út óverðskuldað. Ef dæmið hjá MP með SPRON gengur upp ætla ég að flykkjast þangað og vona að fleiri geri slíkt hið sama, þótt ekki sé nema til að sýna velþóknun á ráðdeild stjórnendanna og stuðning í verki. Ekki sakar að stuðla að því í leiðinni að fleiri starfsmenn SPRON haldi vinnunni. Ég vona bara að þeir taki við mér þótt ég eigi ekki ónýta krónu með gati. Ég leik bara í auglýsingu fyrir þá í staðinn... eða eitthvað.

Mér líkar vel við svona menn með slíkan málflutning!


Silfur dagsins

Það var engin þreyta í Silfrinu í dag. Og ekki verður næsta Silfur síðra ef marka má gestina sem Egill nefndi í lok þáttar. Það verða John Perkins, sá sem skrifaði bókina Confessions of an economic hitman og bandaríkski hagfræðingurinn Michael Hudson. En hér er Silfur dagsins.

Vettvangur dagsins 1 - Dögg Páls, Svanborg Sigmars, Gunnar Smári og Bjarni Harðar

 

Vettvangur dagsins 2 -  Haraldur L. (umrædd grein hér), Andri Geir og Gunnar Axel

 

Jónas Kristjánsson

 

Bandaríski lögmaðurinn Tom Spahn

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband