Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Silfur dagsins

Fínt Silfur í dag að venju og fjölmennt.

Vettvangur dagsins 1 - Daði Rafns, Árni Snævarr, Þóra Kristín og Sveinn Andri

 

Vettvangur dagsins 2 -  Valgeir Skagfjörð og Anna Sigrún

 

Þóra Arnórsdóttir um Enron myndina - Sýnd á RÚV í kvöld!


Jón Baldvin Hannibalsson með munninn fyrir neðan nefið.

 

Hjálmar Gíslason hjá Data Market var með stórmerkilegar upplýsingar.

 


Sölvi spjallar við áhættufjárfesti

Sölvi Tryggvason, sjónvarpsmaðurinn klári sem ég sakna mjög úr Íslandi í dag er kominn með eigin þátt á Skjá einum - Spjallið með Sölva. Þættirnir eru á laugardagskvöldum klukkan 19:55. Annar þátturinn var sendur út í gærkvöldi og þar spjallaði Sölvi m.a. við áhættufjárfestinn Jón Hannes Smárason. Ætli þetta sé almennur þankagangur áhættufjárfesta...?


Réttlætið og sálarheill þjóðar

Þessi litla frétt birtist í Mogganum í gær. Landlæknir segir að réttlæti dragi úr áfallastreitu, sem öll þjóðin þjáist líklega meira og minna af um þessar mundir. Ég tek heilshugar undir þessa skoðun landlæknis - ekki á faglegum forsendum, því þær hef ég ekki, heldur aðeins með því að líta á eigin líðan og annarra í kringum mig. Þegar réttlætiskennd manns er misboðið - og það bæði gróflega og ítrekað - fyllist maður reiði, vonleysi og svartsýni og allir vita hve mikil áhrif sálræn líðan hefur á líkamlega heilsu.

Landlæknir um fé í skattaskjólum - Moggi 28.2.09

Ótrúlegasta fólk hefur liðið sálarkvalir í vetur - verið kvíðið, óttaslegið, vonlítið með hugann fullan af svartnætti. Það er líka logandi af réttlátri reiði og sárindum sem eiga sér engan líka. Jafnvel fólk sem ekki fer illa út úr hruninu fjárhagslega, hefur ennþá vinnu og hefur kannski ekki yfir mörgu að kvarta að mati þeirra sem verr eru staddir.

Ég held að okkur líði flestum eins, að minnsta kosti mjög svipað. Það var brotið gróflega á okkur. Við vitum hverjir gerðu það en þar til bær yfirvöld virðast ætla að láta brotamennina sleppa án refsingar. Svo virðist sem réttlætinu verði ekki fullnægt - þjófarnir og nauðgararnir fá að sleppa án svo mikils sem yfirheyrslu. Eða hvað? Fimm mánuðir eru liðnir frá fullnustu glæpsins og hinir seku eru enn frjálsir menn. Þeir ganga um á meðal okkar og láta eins og ekkert sé. Sumir krefja meira að segja þjóðina um hundruð milljarða í viðbót við það sem þeir stálu frá henni vegna gengismunar - sem þeir sjálfir áttu mesta sök á. En hlustið á það sem Egill Helgason segir hér í heimsókn hjá stelpunum í þættinum Mér finnst á ÍNN.

Ég hef heyrt þetta áður - eða lesið. Þeir bjuggust við frystingu eigna - eða einhverju. Meðal annars þess vegna skráðu þeir eignir á eiginkonurnar. Er eitthvert yfirvald að skoða þau mál núna og athuga hvort forsendur séu til að ógilda þá gjörninga eins og gera má ef þeir eru sannanlega til málamynda? Ekki hef ég heyrt um það.

Munið þið hvað Sölvi Tryggvason sagði hér? EITT mál til athugunar hjá Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra rétt fyrir miðjan febrúar, 4 og hálfum mánuði eftir hrun! Þetta er með ólíkindum og vakti gríðarlega athygli. Heil þjóð sett á hausinn, enginn yfirheyrður og engin mál einu sinni til athugunar.

Þetta er meðal annars það sem fer svo illa í fólk og fyllir það reiði, sárindum, vonleysi og sálarangist. Það er ekkert réttlæti í augsýn. Ekki verið að yfirheyra neinn eða rannsaka nein mál. Almennt er réttlætiskennd fólks mikil og við viljum öll sjá réttlætið ná fram að ganga. Það er eitt af grunngildum samfélagsins sem yfirleitt er nokkuð góð sátt um. Við sjáum dópsala, þjófa og ofbeldismenn dæmda og fangelsaða - jafnvel fyrir minniháttar mál - en stærstu þjófar Íslandssögunnar eru látnir í friði. En menn reyndu. Sáuð þið þessa frétt?

Kafla Indriða um skattaskjól hafnað - Fréttablaðið 26.2.09

Hér stendur að Tryggvi Þór Herbertsson, nú frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrrverandi efnahagsráðgjafi Geirs Haarde og Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins - tveir sjálfstæðismenn - hafi einna helst lagst gegn tillögum Indriða. Indriði tjáði sig um þessi mál í Silfri Egils og Kastljósi.

Þá kem ég aftur að mikilvægi réttlætisins fyrir sálarheill þjóðarinnar. Flestir kannast orðið við Andrés Magnússon, geðlækni. Hann hefur komið fram í Silfri Egils, fréttum, haldið ræður á Austurvelli og á Borgarafundi og verið mikið niðri fyrir. Þetta sagði hann um áhrif réttlætis á geðheilsuna 3. febrúar sl.

Og hér er hann í Silfri Egils tveimur dögum áður, eða 1. febrúar.

En við þurfum svosem ekki landlækni, Indriða eða Andrés til að segja okkur þetta. Við finnum það sjálf. Okkur þyrstir eftir réttlæti. Síðasta ríkisstjórn veitti okkur enga von um slíkt og lét sem hún heyrði ekki neyðaróp okkar og spurning hvort núverandi stjórn nái að gera eitthvað í málinu. Þess vegna er mjög mikilvægt að við íhugum sem þjóð og sem einstaklingar með réttlætiskennd hvernig stjórn við viljum eftir næstu kosningar. Spyrjum frambjóðendur gagnrýnna spurninga og tökum hvorki blaður né þvaður trúanlegt. Hugsum sjálfstætt, höfum skoðanir og verum minnug þess að okkar skoðanir eru ekkert minna virði en þeirra. Sálarheill þjóðarinnar er í húfi.

Viðbót: Þessi pistill birtist á vef Þjóðkirkjunnar í dag. Þarna eru átta guðfræðingar að fjalla mikið til um þetta sama málefni út frá sínum forsendum. Best að halda þessu til haga.


Ræður dagsins

Hér eru ræðumenn dagsins frá fundinum á Austurvelli í dag og ræðurnar þeirra.

Heiða B. Heiðarsdóttir

 

 

 

      Heiða B. Heiðarsdóttir

Valgeir Skagfjörð

 

 

                                Valgeir Skagfjörð 


Athyglisverð grein til íhugunar

Ekki get ég nú tekið undir allt sem Gunnar segir hér, en mér finnst þó vert að íhuga ýmislegt sem hann setur hér fram.

Gunnar Karlsson - Fréttablaðið 25.2.09

Þessu tengt festi ég við hér að neðan brot úr Krossgötuþætti Hjálmars Sveinssonar frá í dag þar sem hann minnist m.a. á grein Gunnars og ræðir við Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, um lýðræðið og hve það er brothætt. Allur þátturinn í samhengi hér þar sem einnig er rætt við Sigrúnu Davíðsdóttur og Einar Mar Þórðarson auk þess sem vitnað er í Biederman og brennuvargana og hliðstæðna við atburði hér.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Símtal Árna og Darling

Hér er umfjöllun Kastljóss frá 23. október 2008 um símtal Árna Mathiesen og Alistairs Darling.

RÚV fjallaði um málið í seinni fréttum sama kvöld.

Björgvin G. Sigurðsson var spurður um fund sinn með Darling í Kastljósi daginn eftir, 24. október.


Óþekkjanlegur sannleikur Davíðs

Davíð OddssonÞað var nú meira hvað Davíð togaði og teygði sannleikann út og suður í þessu volaða viðtali í Kastljósi. Mér finnst hann alltaf tala eins og hlustendur/áhorfendur séu fífl og hálfvitar. Kannski eru þeir sem trúa honum, dá hann og dýrka fífl og hálfvitar - en ekki við hin. Heldur hann virkilega að hann sé trúverðugur? Til er viss manngerð sem upphefur sjálfa sig ævinlega á kostnað annarra. Niðurlægir fólk með hnyttni og spaugsemi í þeim tilgangi að bera lof á sjálfa sig. Davíð Oddsson er slík manngerð. Fólk sem er óöruggt með sjálft sig, uppburðarlítið og hefur ómótaðar skoðanir dáir þannig menn og gerir skoðanir þeirra að sínum - hverjar sem þær eru.

Davíð réðst hvað eftir annað á Sigmar, gerði lítið úr honum (og þar með áhorfendum sem vildu svör) og sagði hann ráðast á sig. Davíð skilur greinilega ekki hlutverk spyrilsins. Einhverjir segja eflaust að hann hafi "varist fimlega" en ég segi að hann hafi endanlega sannað veruleikafirringu sína, mikilmennskuóra og fullkomið vanhæfi. Hann gat ekki einu sinni sýnt almenna kurteisi.

Hann sagði að "þetta væri nú afskaplega almennt hjá þér sagt" þegar Davíð og útrásarvíkingur - Ljósm. Mbl. KristinnSigmar nefndi gagnrýni á Seðlabankann í aðdraganda hrunsins. Þá las Sigmar upp fjölmörg nöfn virtra innlendra og erlendra sérfræðinga, fyrirtækja og stofnana sem hafa gagnrýnt Davíð og Seðlabankann. Davíð gaf lítið fyrir það og sagði m.a.: "Þetta eru fræðimenn sem þú nefnir sem gjarnan vildu vera í Seðlabankanum." Þvílík mótrök! Svo var hann sjálfur með dylgjur og aðdróttanir og ýjaði að þessu og hinu um menn og málefni - án þess að nefna nein nöfn.

Meginþemað í máli Davíðs var að réttlæta sjálfan sig. "Ég varaði við" segir hann ítrekað. Hvern eða hverja varaði hann við? Af hverju lét hann hafa eftir sér í viðtölum að allt væri í stakasta lagi nánast fram á síðasta dag, kvittar fyrir skýrslu Seðlabankans í maí 2008 þar sem bankarnir eru sagðir traustir - en segist engu að síður hafa varað við? Í hvaða eyru hvíslaði hann þeim viðvörunum? Hvaða lausnir kom Davíð með? Hvaða ráð gaf hann? Þess lét hann ógetið

Davíð segir menn hafa komið til sín í hrönnum (maður sér fyrir sér biðröð þar sem allir taka númer) til að segja sér að hann væri eini maðurinn sem hægt væri að treysta. Eini maðurinn sem var á móti þessari vitleysu allan tímann, talað um þetta allan tímann, barðist gegn þessu allan tímann. Eini maðurinn sem hafði verið sjálfum sér samkvæmur allan tímann og varað við þessu allan tímann. Eins og hann gerir hér, til dæmis.

Ætli Davíð sé kannski að meina þetta viðtal þegar hann segist hafa varað við því sem var í aðsigi?

Hér er úrklippa úr viðtalinu með honum einum.

Eða átti hann kannski við þetta viðtal, sem tekið var 11 dögum áður en hann ákvað að taka yfir Glitni. Hver varar hvern við hverju hér?

Þetta Kastljósviðtal var eflaust kærkomið í herbúðum aðdáenda Davíðs - en hjá okkur hinum floppaði hann algjörlega og endanlega. Svo einfalt er það.


 
Niðurstaða mín eftir viðtalið er að Davíð eigi mjög bágt og þarfnist hjálpar. Þjóðin á líka bágt og þarf að losna við Davíð.

Maðurinn sem vill kaupa Ísland

Þessi Ástrali vill greinilega kaupa Ísland eins og það leggur sig - eða því sem næst. Er þetta allt saman til sölu? Ég vissi að minnsta kosti ekki að orkuauðlindirnar okkar og virkjanirnar væru falar. Misskilur maðurinn eitthvað... eða geri ég það?


Góð grein í Mogga í dag

Gauti Kristmannsson - Moggi 24.2.09

Sannfæring eða...

Höskuldur Þórhallsson

Ég verð að gera játningu. Ég hafði ekki hugmynd um að framsóknarmenn hefðu sannfæringu. Að minnsta kosti sannfæringu sem ekki væri föl. Jú... kannski Bjarni Harðar og nýju stelpurnar. Ég vissi heldur ekki að sjálfstæðis- og framsóknarmönnum væri svona annt um skoðanir ESB. Lengi má manninn/Flokkinn reyna. Við erum jú í EES en hvorki í ESB né myndbandalagi Evrópu. Umsögn Seðlabanka Evrópu um frumvarpið var hafnað í síðustu viku. Hvaða stóridómur er þetta sem verið er að bíða eftir? Hvað sagði þessi ágæti útlendingur við nefndina í gærmorgun sem varð til þess að tveir framsóknarmenn, sem berjast um 1. sætið á lista Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi, skilja hann út og suður. Hvernig er tungumálakunnátta þeirra?

Ríkisstjórnin vildi að Seðlabankafrumvarpið færi í efnahags- og skattanefnd. Í henni sitja 9 þingmenn, þar af 5 úr stjórnarflokkunum og 1 framsóknarmaður. Framsóknarflokkurinn neyddi frumvarpið í viðskiptanefnd. Í henni sitja líka 9 þingmenn, þar af 3 úr stjórnarflokkunum og 2 framsóknarmenn. Í viðskiptanefnd skiptir samþykki Framsóknar meira máli en í efnahags- og skattanefnd. Það skiptir öllu máli - og svo fór sem fór.

Framsóknarþingmaður "fylgir sannfæringu sinni" og tefur afgreiðslu frumvarpsins. Frumvarps, sem gerir ráð fyrir því að einn mesti og hrokafyllsti skaðvaldur íslensku þjóðarinnar víki. Samkvæmt skoðanakönnunum vill 90% þjóðarinnar hann burt - en ekki hugumstóri framsóknarmaðurinn. Og hann ræður - eða hvað? Er þetta flétta? Var erindi Alfreðs í Seðlabankann um daginn að semja við Davíð? Þessir tveir flokkar hafa samið, plottað og skipt landinu á milli sín svo lengi að þeir ættu að kunna það. Eða eru strákarnir kannski bara í prófkjörsslag á kostnað þjóðarinnar?

Mikið væri gaman að vita hverjir stjórna á bak við tjöldin - og nota framagjarna drengi í skítverkin. Ekki er nóg með að Sjálfstæðisflokkurinn leggi stein í götu ríkisstjórnarinnar í góðum málum eins og komið hefur fram á fundum Alþingis, heldur gerir Framsóknarflokkurinn það ítrekað líka - flokkurinn sem lofaði stuðningi.

Viðtalið við Höskuld Þórhallsson í Kastljósi var sorglegur farsi. Ég fór hjá mér þegar ég horfði á það og vissi ekki hvort ég ætti að vorkenna Höskuldi. Ákvað þó að gera það ekki - hann kom sér í þetta sjálfur, drengurinn. Höskuldur var ítrekað í mótsögn við sjálfan sig, hikaði, tafsaði, talaði um "skynsemi og fagleg vinnubrögð". Hann var eins ósannfærandi og frekast gat verið. Hefur kannski ekki farið á nógu mörg námskeið hjá Eggerti Skúla í framkomu í fjölmiðlum en hafði greinilega vondan málstað að verja og maður fékk á tilfinninguna að "sannfæringin" væri ekki hans eigin. Framsóknarflokkurinn þarf að bjóða fram betra fólk ef hann vill bæta ímyndina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband