Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Afmælisboð 1. desember - hvað allir athugi!

1. desember er flottur afmælisdagur. Ég veit allt um það, því það er afmælisdagurinn minn. Þegar ég var lítil stelpa voru það forréttindi fyrir afmælisbarn að geta ævinlega haldið upp á afmælið sitt á sjálfan afmælisdaginn. Það gat ég, allir krakkar áttu frí í skólanum og gátu mætt í boðið OG... best af öllu - það var alltaf flaggað fyrir mér - hélt ég. Fram eftir aldri trúði ég því og þegar ég áttaði mig á hinu sanna - að það var ekki beint verið að flagga fyrir mér heldur fullveldinu - fékk ég lauflétt áfall sem stóð þó ekki ýkja lengi yfir, ef ég man rétt. En ég ákvað af lítillæti mínu að deila deginum með því. Það var fín tilfinning og ég var ekki mjög gömul þegar ég skildi þýðingu þessa dags.

Í dag ætla ég (ásamt fleirum) að bjóða í afmæli og ég vona að sem flestir mæti. Fullveldið okkar verður 90 ára - ég er aðeins yngri. En við höldum saman upp á daginn eins og venjulega, fullveldið, Rósa Guðna (jafnaldra mín), Rás 2 (25 ára krakki) og ég. En í þetta sinn er það ekki boð í heimahúsi með lítilli kók í glerflösku og lakkrísröri, súkkulaðiköku með kertum og stórkostlegum skreytingum eftir listamanninn Einar Jens, föðurbróður minn... heldur risastór þjóðfundur á Arnarhóli klukkan þrjú - á hefðbundnum afmælisveislutíma. Það verða haldnar ræður og allt. Kannski ekki beint í tilefni af mínu afmæli... en það gerir ekkert til vegna þess að alvörutilefnið er miklu, miklu mikilvægara.

Mætið í afmælið, gangið út af vinnustaðnum, standið með sjálfum ykkur, börnunum ykkar og barnabörnunum, komið og leggið ykkar af mörkum til að gera þennan afmælisdag sem eftirminnilegastan fyrir alla þjóðina (og mig Wink). Oft var þörf en nú er nauðsyn!

Þjóðfundur - fullveldið 90 ára


Þorvaldur Gylfason í Mannamáli

Sá vísi maður, Þorvaldur Gylfason, var í Mannamáli á Stöð 2 í kvöld. Ég hef birt mörg viðtöl við hann úr Silfrinu og greinar úr blöðum. Hlustum á Þorvald, hann hefur svo margt fram að færa og hér er hann ómyrkur í máli. Ekki vita allir að hann er bróðir Vilmundar sem ég fjallaði um hér.


Silfur dagsins

Enn var Silfrið pakkað - fullt af flottu fólki og margt bar á góma. Þátturinn er ennþá aðeins einn tími og 20 mínútur. Hann þyrfti að vera miklu lengri þessar vikurnar og mánuðina. Ég fékk aftur póst frá Friðrik í Asíu sem sagði m.a.:

"Því miður þarf ég að kvarta aftur yfir Silfrinu. Ætluðum að horfa á það rétt eftir að því lauk (upptökuna) núna áðan, en þá var bara hljóð en engin mynd. Það er vissulega betra að hafa hljóð og enga mynd en mynd og ekkert hljóð. Best væri þó ef RÚV gæti gert þetta almennilega og haft þetta í lagi. Talaði við félaga mína í Kína og Þýskalandi og það er nákvæmlega sama vandamálið þar - hljóð án myndar." Ég benti Friðrik á að horfa á það í myndbandasafninu mínu og fékk póst frá honum til baka um að það hafi gengið prýðilega. En hér er Silfrið - sundurklippt að venju.

Vettvangur dagsins 1 - Katrín Oddsdóttir, Ástráður Haraldsson, Sigurður Ingi Jónsson, Kristinn Pétursson

 

Vettvangur dagsins 2 - Vilhjálmur Birgisson, Einar Árnason, Gunnar Axel Axelsson, Ragnar Þór Ingólfsson

 

Vettvangur dagsins 3 - Vilhjálmur Þorsteinsson, Guðrún Heiður Baldvinsdóttir

 

Benedikt Jóhannesson

 

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir

 


Fáránleg þróun í launamálum

Fréttin hér að neðan er frá því á miðvikudagskvöldið. Kynbundinn launamunur eykst mjög samkvæmt einni viðamestu könnun sem gerð hefur verið hér á landi og nær yfir allan vinnumarkaðinn, ekki aðeins einstök stéttarfélög, fyrirtæki eða stofnanir. Munurinn hefur aukist um þriðjung á síðustu árum og er mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Þessu verður að breyta! Hvað ætli þessi setning hafi verið sagt oft undanfarna áratugi? Nú eru 33 ár frá kvennafrídeginum, sællar minningar, en við erum ekki komin lengra en þetta þótt við státum okkur af jafnrétti á ýmsum sviðum - réttilega eða ranglega. Og af Vigdísi sem fyrstu konunni sem kjörin var forseti í lýðræðislegum kosningum. Andskoti er þetta nú aumt. Ég treysti því að á hinu Nýja Íslandi sem verður í mótun næstu mánuði og ár verði tekið fast á þessu máli og það leyst farsællega. Takið í því sambandi sérstaklega eftir orðum Láru V. Júlíusdóttur í viðtalinu í seinni úrklippunni.

Það stakk í augu að á fréttamannafundinum voru aðeins þrír fulltrúar fjölmiðla og þar af tveir frá sjónvarpsstöðvunum. Ætli einhver skýring sé á því? Varla þykir málefnið svo ómerkilegt.

Þessi frétt er frá 11. september 2008 - annað innlegg í umræðuna. Þið munið kannski eftir þessu, en fréttin kom þegar ljósmæðradeilan var í algleymingi og var kaldhæðnislegt innlegg í kjarabaráttu kvennastéttar.



Þá er bara spurning hvort einhverjar kvennahreyfingar verði með uppákomu á Austuvelli kl. 15 í dag eins og síðast þegar þær sveipuðu Jón forseta bleikum klæðum. Munið að mæta!
 
Viðbót: Sigurjón Þórðarson bað um að sjá könnunina. Ég festi hana við hér að neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Veruleikinn tekur skáldsögum fram

Eru fleiri en ég að verða uppgefnir á skáldsögunni veruleikanum? Hann er svo ótrúlegur að það jaðrar við vitfirringu. Skítamokstrinum linnir ekki og sífellt fjölgar sukk- og spillingarmálunum. Ef einhver hefði skrifað þessa sögu sem við erum að upplifa fyrir nokkrum árum, jafnvel nokkrum mánuðum, hefðum við ekki trúað einu einasta orði og flokkað sem skáldsögu eða fáránleika.

Um daginn birti ég myndband sem kallað var "Stórustu pissudúkkur í heimi" og var viðtal við blaðamann sem stýrði rannsóknarhóp sem fór í saumana á viðskiptum nokkurra af íslensku útrásarbarónunum og hlaut bágt fyrir hjá íslenskum bönkum og stjórnvöldum. Höfundur myndbandsins, Arnar Steinþórsson, hefur nú unnið úr því efni sem hann átti og útbúið 5 myndbönd í viðbót. Hér eru þau öll - að Pissudúkkunum meðtöldum - samtals 6. Þau eru mislöng en öll úr sama viðtalinu og með íslenskum texta.

Stórustu pissudúkkur í heimi -  Peningahringrás

Rússagull

 

Lík í lestinni

 

Ísland lokast

 

Ekstrablaðið - Kaupþing

 

Pólitíkin dansar með útrásinni

 


Davíð Oddsson er alvarlegt vandamál

Bankastjórn Seðlabankans er vandamál sem mjög nauðsynlegt er að leysa sem allra fyrst - og þótt fyrr hefði verið. Við vitum þetta öll, viðurkennum það flest en stjórnvöld þráast við að leysa málið og skipta út. Davíð Oddsson er mesti vandræðagemlingurinn, neitar að hætta og bætir stöðugt við syndaregistrið. 90% þjóðarinnar vill losna við hann eins og sjá má hér. Miðað við þann ómælanlega skaða sem hann hefur valdið þjóðinni bæði innanlands og utan finnst mér stór spurning hvort hann falli undir skilgreininguna landráðamann eða föðurlandssvikara. Mér þætti fróðlegt að fá umræðu um hvað þyrfti til að vera metinn og dæmdur sem slíkur.

Meira að segja ungliðarnir í Flokknum, Heimdellingarnir, eru búnir að fá nóg eins og sjá má t.d. hér. Þá er mikið sagt. Og auðvitað hafa þeir líka rétt fyrir sér með Fjármálaeftirlitið. Þar þarf svo sannarlega að moka flórinn. Engu að síður er verið að færa þessum stofnunum enn meiri völd í hendur með frumvarpi Björgvins sem rætt er um í þessum skrifuðu orðum á Alþingi. Þessir menn hafa sýnt svo ekki verður um villst að þeim er alls ekki treystandi en engu að síður á að gera stofnanirnar enn valdameiri án þess að skipta um fólk. Fáránlegt.

Davíð og bankastjórn Seðlabankans eru langt í frá eina vandamálið sem íslenska þjóðin glímir við um þessar mundir eins og allir vita, en einhvers staðar þarf að byrja. Fá inn nýtt fagfólk sem er ekki er á mála hjá flokkunum og hreinsa til í stjórnkerfinu. Til þess þarf væntanlega að breyta fjölmörgum lögum og þá verður bara að gera það. En þá þurfum við nýtt fólk með nýja framtíðarsýn - og/eða gott, heiðarlegt fólk innan gömlu flokkanna með heilbrigða skynsemi sem hugsar ekki bara um rassinn á sjálfum sér og sínum... og auðvitað Flokknum. Það er nefnilega til slíkt fólk í flestum flokkum. Góð blanda af þessu tvennu væri upplögð og þjóðin vill kosningar - eins og sjá má í niðurstöðu þessarar nýju skoðanakönnunar Smugunnar.

En hér eru sýnishorn af tveimur nýjustu "glappaskotum" seðlabankastjóra. Hvað finnst fólki um þetta framferði mannsins? Var ekki komið nóg?


Hér er ræðan umdeilda

Katrín er hér að tjá sig sem einstaklingur en ekki fulltrúi HR eða nemenda. Þetta er fáránleg aðför að bæði Katrínu og málfrelsinu og samnemendum hennar til lítils sóma.


mbl.is Ræða Katrínar ekki tekin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Íslensk spilling og íslensk bylting

Í Mogga í dag er athyglisverð grein eftir Jón Steinsson um að íslenskt lagaumhverfi sé mun hagstæðara fyrir óeðlileg viðskipti og viðskipti tengdra aðila en víðast hvar annars staðar. Jón segir að hvatar ráðandi hluthafa í fyrirtækjum landsins til þess að viðhafa óeðlilega viðskiptahætti hafi aldrei verið meiri. Ætlar Alþingi að hindra þetta með lagasetningu í ljósi þess, eins og Jón segir: "Sagan sýnir að fjármálakreppum fylgir oft á tíðum umtalsverð spilling í formi óeðlilegra viðskiptahátta tengdra aðila." Er ekki lag að flýta frumvarpi Álfheiðar Ingadóttur o.fl. um að heimila frystingu eigna útrásarbarónanna og gæta þess síðan með lagasetningu að sama ferlið geti ekki endurtekið sig? (Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Íslensk spilling - Jón Steinsson - Mbl. 27.11.08

Þessi grein var í Mogga í gær og fjallar um að við séum í miðri byltingu á Íslandi. Tökum öll þátt í henni! Því fleiri því líklegra er að hún takist. Og eins og Kristján segir - byltingar eru ekki endilega blóðugar, athugum það.

Byltingin - Kristján G. Arngrímsson - Mbl. 26.11.08


Mikið svakalega hlakka ég til...

Nýja Ísland - listin að týna sjálfum sér...að lesa þessa bók. Er reyndar byrjuð og strax í fyrsta kafla datt ég í þvílíka nostalgíu og gleymdi mér alveg í barnæskunni og uppvextinum. Við Guðmundur hljótum að vera á svipuðum aldri því upplifunin af fortíðinni er mjög svipuð hjá okkur báðum. Endurlitið er því eðlilega með sömu formerkjum. Ég er þegar búin að gefa systursyni mínum eintak í afmælisgjöf og kannski splæsi ég í jólagjafir líka. En fyrst ætla ég reyna að finna mér tíma til að klára bókina.

Ólína Þorvarðar skrifaði um bókina hér en hún hefur það fram yfir mig að vera búin að lesa hana. Guðmundur var í Silfrinu fyrir réttum mánuði síðan, 26. október, að ræða við Egil um bókina. Sú umræða kveikti hjá mér áhuga á henni og því sem Guðmundur er að skrifa um. Ég hef líka mikinn áhuga á sagnfræði og að skoða hlutina í ljósi sögunnar, þróunina og tengja við nútímann. Það er einmitt það sem mér heyrist í viðtalinu að Guðmundur sé að gera, enda er maðurinn sagnfræðingur. Hér er bloggfærsla höfundar frá 23. okt. þegar bókin var að koma í búðir. Hann er nú farinn að blogga hér. En hér er þetta fína viðtal við Guðmund Magnússon í Silfrinu.


Skyldulesning

Í Mogganum í dag er mjög athyglisverð umfjöllun um lýðveldið og endurnýjun þess. Í viðtali við Gunnar Helga Kristinsson, stjórnmálafræðing, kemur fram að alls ekki sé óeðlilegt eða óalgengt að lýðræðið sé endurmetið og því jafnvel bylt á um 70 ára fresti og bendir hann í því sambandi á Frakkland og Bandaríkin. Hér er þetta - afskaplega holl lesning sem sýnir svo ekki verður um villst að við erum svo sannarlega á hárréttri leið með öll mótmælin og aðgerðirnar um þessar mundir þótt ríkjandi valdhafar hrópi "skrílslæti" og neiti að hlusta. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Lýðveldið Ísland ungt og í mótun

Lýðveldið Ísland í mótun


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband