Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Spegill, spegill herm þú mér...

Ætli það sé ekki best að skella inn síðasta Morgunvaktarpistli áður en þeim næsta verður útvarpað í fyrramálið. Svo mikið hefur gengið á að ég var satt að segja búin að steingleyma pistlinum - en var minnt á hann í dag. Það er þetta með orðhengilsháttinn og tittlingaskítinn... Hljóðskrá fylgir neðst í færslunni.

Morgunvaktin á Rás 2

Ágætu hlustendur...

Ég býst við að flestir eigi spegil og líti í hann endrum og eins. Sumir með aðdáun og ánægju, aðrir með hryllingi og jafnvel skömm. En hvað sjáum við þegar við horfum í spegil? Sjáum við aðeins umbúðirnar - útlitið? Eða eru einhverjir svo hugaðir að þeir þori að kafa dýpra, skoða sálina og spyrja: "Hver er ég?"

Skömmu fyrir hrun las ég pistil eftir Bergþóru Jónsdóttur, blaðamann á Mogganum. Ég klippti hann út, birti á blogginu mínu og endurbirti hann seinna. Bergþóra þorði nefnilega að kafa dýpra og skoða sálina - og það þjóðarsálina. Hún segir meðal annars þetta:

slenska þjóðin er skrýtin skepna. Hún veður áfram í dugnaði; er framsækin, menntuð, nútímaleg, tæknivædd og vinnusöm. Í útlöndum Spegill, spegill...heyrir maður að Íslendingar séu eftirsóttir í vinnu, og það finnst íslensku þjóðinni gott að heyra - eins og allt annað hrós um sjálfa sig.

Það er stutt í pirringinn ef Íslendingurinn er ekki bestur í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Íslenska þjóðin stærir sig af landinu sínu; blámanum, hreina vatninu og náttúrufegurðinni, fiskinum og lambinu og öllum framkvæmdunum sem fleyta henni í röð mest velmegandi þjóða heims.

Samt er eitthvað að.

Íslendingar eiga erfitt með að tjá sig og andmæla sjaldan þegar yfir þá er vaðið. Þeir lúffa fyrir valdinu og þora ekki eða nenna ekki að hafa sig í frammi þegar þeim er innst inni misboðið. Þeir trúa því að glæpur sé ekki glæpur - segi valdið það. Þeir gapa af undrun þegar einkabankarnir fá óvart gefin listaverkin þeirra - gera samt ekkert. Þeir hneykslast á dómum í dómskerfinu en hafa ekki döngun í sér til að þrýsta á um breytingar. Þeir hafa ekki neytendavitund, láta okur og óréttmæta viðskiptahætti yfir sig ganga. Þeir bölva, en eru fljótir að gleyma. Þeir agnúast út í stjórnvöld en kjósa sífellt annað eins yfir sig aftur."

Svo mælti Bergþóra. Mér hefur oft orðið hugsað til orða hennar í vetur, nú síðast þegar birtar voru niðurstöður úr skoðanakönnun sem sýndu, að sá flokkur sem ber langmesta ábyrgð á hruninu hafði bætt við sig fylgi. "Hvað er að?" spurði ég sjálfa mig, en fátt varð um svör. Er svona auðvelt að sannfæra Íslendinga? Láta þá kyssa vöndinn, þakka fyrir hýðinguna og biðja um meira.

Hvers vegna getum við ekki rætt málin af skynsemi og yfirvegun og komist að sameiginlegri niðurstöðu með hagsmuni allrar þjóðarinnar í huga, ekki aðeins útvaldra sérhagsmuna? Hvar er samfélagsvitund Íslendinga; meðvitundin um að við búum í samfélagi þar sem okkur ber að hlýða reglum og taka tillit til náungans? Var þeirri vitund útrýmt af skefjalausum heilaþvotti nýfrjálshyggjunnar um að hver væri sjálfum sér næstur? Hvernig stendur á að sumir alþingismenn nota ræðustól Alþingis til að gjamma eins og unglingar í ræðukeppni í grímulausri sérhagsmunagæslu í stað þess að leysa risavaxin vandamál þjóðarinnar í sameiningu?

Í Innansveitarkróníku sagði Halldór Laxness: "Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls."

Þetta er skrifað fyrir 40 árum og ekkert hefur breyst. Er ekki kominn tími til að leggja orðhengilsháttinn og tittlingaskítinn á hilluna, líta í spegil og endurskoða þjóðarsálina?

En við skulum byrja á okkur sjálfum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Heimildamyndir og hrollvekjur

Ég hef aldrei verið hrifin af hrollvekjum. Horfi ekki á þær. Mér finnst vont að fyllast viðbjóði og láta hræða mig. En um þessar mundir er lífið sjálft ein allsherjar hrollvekja og engin leið að komast hjá því að horfa. Stundum er eins og hroðinn skvettist yfir okkur í gusum og ein slík er í gangi núna. Kaupþingsránið og lögbannið á sannleikann, Landsbanka- og Björgólfsmál, Icesave og margt, margt fleira. Listinn er óralangur. Bankamenn og aðrir auðjöfrar halda nú varnarræður í gríð og erg - Karl Werners, Sigurður Einars og Bjarni Ben. Enn aðrir hóta kærum og málaferlum. Væntanlega hafa þeir allir hag almennings og heimilanna í huga alveg eins og Árni Páll félagsmála - eða hvað? Þessum mönnum finnst þeir ekki hafa gert neitt rangt og eru bara að verja sína hagsmuni. Mér verður hugsað til siðlausu sýkópatísku snákanna í jakkafötunum með testosteróneitrunina.

Í gær kom Serious Fraud Office í Bretlandií ljós að Bretar eru að rannsaka íslensku bankana - starfsemi þeirra í Bretlandi - eins og sjá má hér. Á mbl.is sá ég að Sérstakur saksóknari hefur ekki heyrt frá SFO og ég álykta sem svo að hann hafi heldur ekki haft samband við þá. Eva Joly skrifaði magnaða grein sem birtist í fjórum löndum á jafnmörgum tungumálum á laugardaginn. Indefence-hópurinn auglýsir nú eftir fólki til að skrifa um, tala og útskýra málstað Íslands erlendis - kannski í og með af því upplýsingafulltrúi Forsætisráðuneytisins, sem ráðinn var þangað af og í tíð Geirs Haarde, sér sér ekki fært að gera það og fylgja grein Evu Joly eftir.

Mitt í storminum eru skrifaðar bækur og gerðar heimildamyndir um þessa atburði alla. Nokkrar bækur eru komnar út og þessa dagana er ég að lesa Hvítu bókina hans Einars Más. Einar Már er galdrakarl. Honum tekst að skrifa þannig um atburði vetrarins að unun er að lesa - eða þannig. Hvernig honum tekst þetta er ofar mínum skilningi - en mikið svakalega er þetta góð bók.

Gunnar Sig gerir mynd um hrunið - DV 10. júlí 2009Ég hef fregnað af mörgum heimildamyndum sem eru í vinnslu, bæði innlendum og erlendum. Hrunið er upplagt efni í hrollvekjur. Svo vill til að ég tengist svolítið einni þeirra sem minnst var á í DV fyrir tæpum mánuði. Aðalsprautan í þeirri mynd er Gunnar Sigurðsson, leikstjóri m.m., sem varð landsþekktur þegar hann stjórnaði Borgarafundunum í vetur. Þar sem ég kem svolítið nálægt vinnslu þessarar myndar hef ég undir höndum nokkur viðtöl sem Gunnar hefur tekið við mann og annan. Meðal viðmælenda hans eru Björgólfur Thor Björgólfsson, Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra, Sigrún Davíðsdóttir rannsóknarblaðamaður, Jón Daníelsson hagfræðingur í London og síðast en ekki síst Austin Mitchell, þingmaður breska Verkamannaflokksins.

Austin Mitchell hefur verið á þingi í 32 ár, eða frá árinu 1977. Hann lýsir skemmtilega á heimasíðu sinni hvernig hann og Verkamannaflokkurinn hans hafa fjarlægst hvor annan, og á þá væntanlega við frjálshyggjuvæðingu flokksins í tíð Tonys Blair. Gunnar hefur þann hæfileika að fá fólk til að tala tæpitungulaust og viðtalið við Mitchell ber þess merki, enda lætur hann ýmislegt flakka. Ég klippti saman nokkur brot úr viðtalinu og birti hér að neðan.

Ég hef oft minnst á nauðsyn þess að tala máli Íslendinga erlendis og málflutningur Mitchells ber þess merki að hann þekkir til aðstæðna. Það er meira en hægt er að segja um allan almenning í þeim löndum sem við er að semja - og reyndar víðar. Nú er lífsnauðsynlegt að spýta í lófana og hefja öfluga kynningu á málstað og málefnum almennings á Íslandi og þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Við eigum greinilega hauk í horni þar sem Austin Mitchell er - en ég efast stórlega um að Kristján Kristjánsson valdi verkefninu. Eigum við ekki nóg af góðu fólki?


Bretarnir rannsaka málin

Kastljósið er komið úr fríinu og var fullt af allskonar efni. Ég hjó sérstaklega eftir þessum búti úr viðtalinu við Rowenu Mason, blaðakonu hjá Daily Telegraph.

Svo birtist þetta á vef blaðsins fyrr í kvöld. Efnahagsbrotadeild Breta, Serious Fraud Office (SFO) er að rannsaka íslensku bankana og Kaupþingslekinn veldur því að deildin ætlar að gefa í.

SFO investigation - Daily Telegraph 4.8.09

Efnahagsbrot eru litin alvarlegri augum í Bretlandi en á Íslandi eins og hefur komið margoft fram í pistlum Sigrúnar Davíðsdóttur - t.d. þessum. Svo er ekki úr vegi að lesa (og hlusta á) þennan pistil Sigrúnar þar sem hún fjallar einmitt um SFO og segir frá fjársvikum Allen Stanford. Í lánabók Kaupþings er annar Stanford, Kevin, stór þánþegi Kaupþings í Lúx. Kevin þessi Stanford er annar stofnenda Karen Millen verslanakeðjunnar og tengist því Baugi og Jóni Ásgeiri a.m.k. í þeim bransa.

Stórlánabók Kaupþings - Kevin Stanford


Að ræna banka og rýja þjóð

"Bankaránið" í Kaupþingi er orðið eitt þekktasta mál hrunsins, þökk sé lögbannskröfu Nýja Kaupþings og skilanefndar þess gamla á fréttaflutning RÚV. Vonandi láta aðrir bankar - og útrásarauðmenn - þetta mál sér að kenningu verða. Hin svæsna lánabók Kaupþings er líklega orðin ein mest lesna bók ársins, a.m.k. sú víðlesnasta, enda á alþjóðlegu tungumáli.

Ég minnist þess ekki að hafa orðið vör við eins mikla samstöðu meðal almennings út af neinu máli - ef frá er talin gríðarleg ánægja með grein Evu Joly sem birtist í íslenskum og erlendum blöðum. Allir lögðust á eitt við að birta slóðir og upplýsingar á bloggi, Facebook, Twitter og víðar. Og senda slóðirnar til erlendra fjölmiðla og skrifa um málið á ýmsum tungum. Enda hefur fiskisagan flogið hraðar og víðar en aðrar sögur, sem betur fer. Svona á að gera þetta, gott fólk! Sameinuð sigrum við. Og Kaupþing dró í land, enda ekki stætt á öðru.

Þegar ég sá forsíðu þýsku útgáfu Financial Times með fyrirsögninni "Eigendur rændu Kaupþing" varð mér hugsað til Williams Black, sem heimsótti Ísland í maí sl. Ég birti viðtal við hann úr bandarískum fjölmiðli hér sem eins konar inngang að viðtali Egils við hann í Silfrinu. William Black skrifaði nefnilega bók sem heitir "Besta leiðin til að ræna banka er að eiga hann". Við vitum nú að það er hverju orði sannara.

Mér finnst ekki úr vegi að minna á viðtalið við William Black eftir hremmingar og uppljóstranir síðustu daga og vikur. Hér er hann hjá Agli í Silfrinu 10. maí sl. Nú ættu allir að geta tengt það sem Black segir við Kaupþingsatburðina undanfarna daga og verið viðbúnir birtingu lánabóka hinna bankanna.

 

Hér er stutt frétt RÚV sama kvöld um viðtalið í Silfrinu.

 

Black hélt síðan fyrirlestur í Háskóla Íslands daginn eftir. Ég fékk upptöku af honum hjá Viðskiptadeild HÍ - en hef ekki birt hana áður. Yfirskrift fyrirlestrarins var "Why economists must embrace the "F" word" og vísar F-ið í orðið Fraud, eða (fjár)svik. Sökum lengdar skipti ég upptökunni í tvennt.

William Black - fyrirlestur á vegum Viðskiptadeildar HÍ - 11. maí 2009
Fyrri hluti

Seinni hluti


Auglýst eftir samverkafólki

Í nýlegri athugasemd (nr. 49) við þennan pistil auglýsir Ævar Rafn Kjartansson eftir samverkafólki til að kortleggja ættar-, flokks-, vina- og klíkutengsl samfélagsins og gefa út. Ég vil skora á þá sem vilja og geta lagt sitt af mörkum að hafa samband við Ævar Rafn og drífa í þessu. Getið þið ímyndað ykkur hvað það væri þægilegt að hafa svona rit við hendina þegar atburðir gerast til að fletta upp í? Sjálf er ég ekki mjög fróð um svona tengsl og lítið pælt í þeim - en hef þó verið á námskeiði í vetur eins og aðrir landsmenn.

Í þessu sambandi minni ég á orð Jóns Baldvins í Silfrinu 19. október þar sem hann sagði þetta:


Við vitum að þetta er satt og rétt hjá Jóni Baldvin og það myndi auðvelda mjög að greina alls kyns spillingu ef svona rit væri til. Ég hef sent Ævari Rafni skilaboð og beðið um netfangið hans og set það hér inn um leið og það berst mér.

Netfangið er komið - sendið póst á hrun2008@gmail.com! Hugmyndin er frábær, samtaka nú!


DV og kúlulán Kaupþings

Ég má til með að halda því til haga að DV hefur talsvert fjallað um lánabók Kaupþings - án þess að fá á sig lögbann - og þá einkum kúlulán til starfsmanna. Þetta er mögnuð lesning. Hér fyrir neðan eru fjögur dæmi um umfjöllun DV. Þarna koma ýmsir við sögu sem vert er að skoða nánar. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

DV 4. nóvember 2008

DV 4. nóvember 2008 - Við eigum þó allavega húsið

DV 30. júní 2009

DV 30. júní 2009 - Kúlulán Kristjáns 893 milljónir

DV 1. júlí 2009

DV 1. júlí 2009 - Stjórarnir tóku fimm milljarða án ábyrgðar

DV 3. júlí 2009

DV 3. júlí 2009 - Fókið í lánabók Kaupþings - Listinn allur


Mergjað kjaftæði

Við fengum staðfest áðan að hér ríkir ekki upplýsinga-, mál- eða tjáningarfrelsi og fjölmiðlar eru múlbundnir af hagsmunaaðilum ef þeim þykir ástæða til. Yfirlýsing Kaupþings er með ólíkindum. Þar segir m.a.: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings leggja áherslu á að með þessum aðgerðum séu bankarnir að bregðast við skyldum sínum til að tryggja trúnað við viðskiptavini sína og koma í veg fyrir að óviðkomandi hafi aðgang að upplýsingum um viðskipti þeirra..."

Trúnað við viðskiptavini, jamm. Trúnaður þeirra við Ólaf Ólafsson, Bakkabræður, Jón Ásgeir, Robert Tchenguiz og fleiri slíka er semsagt meiri og mikilsmetnari en trúnaður við íslenskan almenning. Og mér finnst ekki úr vegi að spyrja hvaða peninga var verið að höndla með og útbýta til valinna viðskiptavina og eigenda bankans. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að tíu hæstu lánin voru tæplega þreföld fjárlög ríkissjóðs, hvorki meira né minna.

En hvaða peningar voru þetta? Hvaðan komu þeir og ekki síst - hvert fóru þeir? Og hve stór hluti af gjaldþroti gamla Kaupþings eru þessi lán? Hver þarf að borga brúsann? Hvaða eignir íslensku þjóðarinnar þarf að leggja að veði til að friða kröfuhafa í þrotabú bankans? Hvað þarf íslenskur almenningur að þola t.d. í formi niðurskurðar og skattahækkana vegna græðgi, sukks og spillingar þessara eðalviðskiptavina og eigenda Kaupþings? Í yfirlýsingu Kaupþings frá í gær segir: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings..." Þetta er mergjað kjaftæði. Auðvitað eiga þessar upplýsingar erindi til almennings! Er það ekki sá sami almenningur sem situr uppi með efnahagslegt hrun landsins sem einmitt þessir viðskiptavinir ollu - ásamt ýmsrum öðrum? Það hefði ég haldið.

Ég vil ítreka áskorun mína til netmiðla og bloggara frá síðasta pistli um að allir sem tök hafa á birti sem mest af þessu á netinu - á bloggsíðum, netmiðlum, Facebook, Twitter og hvað þetta heitir allt saman. Eða slóðir að umfjöllun ef ekki vill betur til. Allir saman nú! Látum Kaupþing hafa fyrir því að krefjast lögbanns á alla netverja ef því er að skipta. Með því móti leggjum við okkar af mörkum til að mótmæla þeirri þöggun sem nú hefur verið samþykkt af embætti Sýslumanns. Ég hengi eintak af lánabókinni aftur neðst í þessa færslu og ítreka slóðina að WikiLeaks.

Fréttir RÚV - 1. ágúst 2009

 

Fréttir Stöðvar 2 - 1. ágúst 2009

 

Viðbót:  Kannski kemur þetta málinu ekkert við, en er ekki beint traustvekjandi og vægast sagt umhugsunarvert. Ég var að fá upplýsingar - og kannaði þær nánar - að tengsl eru milli Sýslumannsins í Reykjavík og Kaupþings. Sýslumaður er Rúnar Guðjónsson (f. 1940). Rúnar var sýslumaður í Borgarnesi og rótarýfélagi Ólafs, föður Ólafs Ólafssonar. Sonur Rúnars er Frosti Reyr Rúnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings. Eins og sjá má t.d. hér og hér var Frosti Reyr einn af kúlulánþegum Kaupþings.

Annar sonur Rúnars er Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Búið er að loka vef samtakanna, að því er virðist, og ég finn þau ekki í símaskránni. En lauflétt gúgl leiðir ýmislegt í ljós, m.a. að þessi samtök virðast hafa gengið einna lengst í að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef eins og sjá má t.d. hér og hér. Gúglið leiðir ýmislegt fleira í ljós um samtökin, eins og t.d. þetta.

Ég fékk upplýsingar á fésinu rétt í þessu um að samtökin heiti nú Samtök fjármálafyrirtækja. Guðjón er ennþá framkvæmdastjóri - og kíkið á hverjir eru í stjórninni.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rökstuddur grunur um glæpi?

Kompássmaðurinn Kristinn Hrafnsson byrjaði sumarafleysinguna með trukki á RÚV í kvöld. Hann fjallaði um myrkraverkin sem framin voru hjá Kaupþingi dagana áður en bankinn var yfirtekinn - og þau eru vægast sagt svakaleg. Kristinn boðaði framhald næstu kvöld og vísaði í síðuna WikiLeaks.

Fjallað var um lán Landsbankans til fyrirtækja sem tengd eru eigendum hans hér og hér. Nú var það Kaupþing - og sukkið... maður minn! Þetta er það sem við erum að borga fyrir - og þetta líka. Og fleira og fleira.

Fréttir RÚV - Kristinn Hrafnsson - 31. júlí 2009

Kristinn segir í fréttinni að lán Kaupþings til 11 fyrirtækja í Existu-hópnum, að Skiptum meðtöldum, séu upp á rúmlega 300 milljarða króna að núvirði. Bara þau lán eru tæpur helmingur af Icesave-skuldinni. Sjáið þetta bara. Upphæðir eru í milljónum evra og gengið er rétt um 180 krónur.

Lánabók Kaupþings - Exista

Í glæruskjalinu sem fjallað er um og kallað er "Meeting of the Board of Directors - Annual Large Exposure Reporting" er bara fjallað um lán frá 45 milljónum evra, sem mér reiknast til að séu 8,1 milljarður króna. Þetta er ótrúlegt skjal og þar kennir ýmissa grasa. Ég hengi það hér neðst í færsluna ef fólk vill taka þátt í að rjúfa þá vernd sem bankaleynd veitir þessum mönnum. Ég skora á alla bloggara og netmiðla að birta þetta - þá hafa þeir nóg að gera í lögsóknunum, blessaðir.

Skoðið þetta vandlega með reiknivél við hönd til að fá íslensku upphæðirnar. Hvað varð um alla þessa peninga? Hvernig stendur á að ekki er búið að frysta, kyrrsetja, haldleggja... hvað sem við köllum þann gjörning að hirða af þeim það sem þeir stálu og ætla að láta okkur borga. Í lögum nr. 88/2008 - gr. 68 og 88 - er fjallað um slíkt og þar er vísað í lög nr. 31/1990 sem beinlínis fjalla um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Hér er tilvitnun í gr. 68 og 88 í fyrrnefndu lögunum:

Lög nr. 88/2008 - gr. 88

Hrunstjórnin gerði ekkert í þessum málum í haust - EKKERT. Hugsið ykkur ef sú stjórn hefði haft döngun í sér til að frysta allt strax og hindra öll stór viðskipti. Værum við í annarri stöðu í dag? Hefði þessu fólki tekist að mjólka bankana og fjárhirslur þjóðarinnar eins og raun virðist bera vitni? Munið þið eftir þegar Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra "til nokkurra daga" rétt áður en bankinn féll? Það eru 90 milljarðar íslenskra króna á núvirði. Einn sjöundi hluti Icesave. Hvað varð um þá peninga í ljósi þessara Kaupþingslána og meintra undanskota stærstu eigenda í skattaskúmaskot?

Er ekki kominn tími á gjalddaga?

Stöð 2 og RÚV 28. júlí 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Snákar í jakkafötum með testosteróneitrun

Anna vinkona benti á þessa grein á fésbókinni. Greinin er frá 2006 og smellpassar við umræðuna þessa dagana um siðleysi, siðblindu og almennt  andlegt heilbrigði vissra hópa í samfélaginu og fleira í þá veru. Þessum pælingum Kristjáns, Hare og Babiak til áhrifsauka og staðfæringar bendi ég á nýjustu bloggfærslu Egils Helga og sýkópatapistil Stefáns Snævarr. Hér er svo einnig fróðleg grein um þá kenningu að testosteróneitrun hafi lagt efnahag heimsins í rúst. Í því sambandi er vert að geta þess að testosterón er aðalkarlhormónið sem myndast einkum í eistum.

Kristján G. Arngrímsson - Snákar í jakkafötum - Moggi 7. júní 2006


Dagar Kompáss taldir?

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég pistil um ábyrgð fjölmiðla á umbrotatímum og birti auk þess pistil um sama efni af Morgunvakt Rásar 2. Í honum fór ég fram á við mennta- og fjármálaráðherra að veitt yrði fé til að stofna og reka sjálfstæðan og óháðan rannsóknar- og upplýsingahóp fjölmiðla. Þetta ætti að vera auðsótt mál og oft var þörf en nú er nauðsyn. Ríkisstjórnin hefur ekkert að fela, er það? Þótt fréttastofur og hefðbundnir fjölmiðlar séu góðra gjalda verðir svo langt sem þeir ná, er ekki nóg að fá aðeins 2 mínútna frétt eða þriggja dálka grein af stórmálum og síðan ekki söguna meir. Fréttirnar þarf að setja í samhengi, grafa og grufla, tengja og skýra, finna orsakir og afleiðingar, komast að niðurstöðu og fylgja fréttunum eftir.

Ég, eins og svo ótalmargir aðrir, hef beðið eftir að Kompás kæmi aftur á skjáinn en ekkert hefur bólað á honum. Silfur Egils hætti í maí, kemur væntanlega ekki aftur fyrr en í september og Kastljósið fór skyndilega í sumarfrí. Um þessar mundir er því engar fréttaskýringar að fá í sjónvarpi og þótt Spegillinn standi sannarlega fyrir sínu vantar myndrænu útfærsluna. Þetta er fáránleg staða sem almenningi er boðið upp á af fjölmiðlunum. Við þurfum á miklu öflugri fjölmiðlun að halda en hægt er að sinna nú miðað við samdrátt og niðurskurð. Eða er kannski eitthvað galið við forganginn hjá miðlunum? Það skyldi þó aldrei vera.

Í Mogganum í dag er sagt að dagar Kompáss séu taldir. Ég neita að trúa því. Skortur á gagnrýnni fjölmiðlun á gróðærisárunum og í aðdraganda hruns hefur orðið okkur dýrkeyptur. Við verðum að læra af þeirri reynslu og efla fjölmiðlunina ef eitthvað er. Hlustið á Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, í myndböndunum neðst í þessum pistli. Við getum ekki haft miklar væntingar til einkarekinna fjölmiðla í eigu sjálfra útrásarauðmannanna sem eiga risastóran þátt í stöðu okkar í dag og því sem rannsaka þarf. En við getum gert miklar kröfur til Ríkisfjölmiðilsins sem við eigum og kostum sjálf. Og til ríkisstjórnarinnar sem fer með fjárveitingarvaldið.

Hér fyrir neðan er greinin úr Mogganum í dag (smellið þar til læsileg stærð fæst) og valin sýnishorn af umfjöllun Kompáss um mikilvæg mál í íslensku samfélagi. Ég vil fá meira af slíku - ekki er vanþörf á um þessar mundir! Set líka inn umfjöllun um Kompás og viðtöl úr Kastljósi og Spjalli Sölva.

Morgunblaðið 29. júlí 2009

Dagar Kompáss taldir - Moggi 29. júlí 2009

Kompás 20. nóvember 2007 - um Seðlabankann, vexti og verðbólgu

 

Kompás 13. október 2008 - um efnahagskreppuna

 

Kompás 20. október 2008 - um útrásina

 

Kompás 15. apríl 2008 - um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum

 

Kompás 29. apríl 2008 - um olíuslys

 

Kompásmál í Kastljósi 27. janúar 2009

 

Sölvi Tryggva spjallar við Kompássmenn - Skjár 1 - 3. apríl 2009

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband