Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Tortryggni, teygðar meiningar og tengsl

Það var ekki ætlun mín að skrifa meira alveg strax um meðreiðarsveina Sigmundar Davíðs og Höskuldar á fundum þeirra með þingmönnum í Osló. Ekki fyrr en ég hef fengið meiri upplýsingar. En tvennt varð til þess að ég ákvað að nefna nokkur atriði í viðbót.

Fram hefur komið sá undarlegi skilningur einhverra - eða misskilningur - að tilgangur minn eða heimildamanns míns hafi verið að kasta rýrð á erindi þeirra félaga til Osló og göfugan tilgang. Svo er alls ekki. Ég hef ekkert minnst einu orði á skoðun mína á þeim hluta málsins og ætla ekki að gera. Þeir höfðu með sér fjóra aðstoðarmenn og ég gerði aðeins athugasemd við tvo þeirra. Hér eru engar samsæriskenningar á ferðinni, bara verið að benda á staðreyndir sem blasa við.

Sigmundur Davíð gerði að mínu mati mikil mistök í gær sem kasta rýrð á tilgang hans með förinni, hversu göfugur sem hann kann að hafa verið. Mistökin kristallast í viðtölum við báðar sjónvarpsstöðvarnar, RÚV og Stöð 2. Hlustið á manninn.

 

Hér vogar Sigmundur Davíð sér að gera lítið úr ofureðlilegum ótta, tortryggni, reiði og vanþóknun fólks á þeim mönnum sem settu íslenskt þjóðfélag á hausinn og samverkamönnum þeirra. "Á Íslandi tengjast allir einhverjum á einhvern hátt," segir Sigmundur Davíð og gerir ekki greinarmun á vogunarsjóðum, skúringakonum og leikfangabúðum. Er auðmaðurinn Sigmundur Davíð þarna að verja félaga sína, hina auðmennina? "Ég veit ekkert um hvort einhverjir sem voru með okkur á þessum fundum hafi einhvern tíma verið viðskiptafélagar Björgólfs Thors," segir Sigmundur Davíð og fer svo að tala um nornaveiðar og McCarthyisma. Mér finnst ég hafa heyrt svona kjaftæði fyrir ekki svo ýkja löngu - í margar vikur eftir hrun þegar þáverandi stjórnvöld voru upptekin við að persónugera ekki hlutina. Síðan segir Sigmundur Davíð: "Ætla menn að troða þetta allt niður í svaðið af því þeir hafi hugsanlega þekkt einhvern sem var einhvern tíma með einhverjum útrásarmanni." Ja, hver skollinn... hugsaði ég með mér. Annaðhvort hefur tunguliprum töffurunum tekist að blekkja Sigmund Davíð svona hressilega eða eigin- eða pólitískir hagsmunir bera samvisku hans ofurliði.

Sigmundur Davíð á að vita betur - og gerir það. Hann er í ábyrgðarhlutverki í þjóðfélaginu og honum leyfist ekki hvað sem er. Mennirnir tveir í vogunarsjóðBjörgólfur Thor Björgólfssonnum eru ekki bara "einhverjir sérfræðingar" - þeir eru vinir og viðskiptafélagar Björgólfs Thors Björgólfssonar - fyrrverandi aðaleiganda bankans sem bjó til Icesave. Hér er ekki um að ræða að þeir hafi "hugsanlega þekkt einhvern sem var einhvern tíma með einhverjum útrásarmanni". Og ég skal hengja mig upp á að Sigmundur Davíð veit þetta mætavel. Ef ekki skal ég gefa honum vísbendingar:

Vogunarsjóðurinn Boreas Capital Fund tengist Björgólfi Thor á a.m.k. tvennan hátt - fyrir utan vináttuna - við meðreiðarsveina Sigmundar Davíðs. Sjóðurinn var... ég held að það sé kallað að vera vistaður hjá... Landsvaka, sem er hluti Landsbankans. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því, að þar hafi Boreas Capital komist upp með ýmislegt af því þetta voru vinir Bjögga.

Eins og áður hefur komið fram var Boreas Capital stofnað um mitt ár 2007. Í þessari frétt kemur fram að sjóðurinn lokaði fyrir nýja fjárfesta í ágústlok 2007 og var fjárfestingargeta hans þá 126 milljónir evra sem á núvirði eru rúmir 23 milljarðar íslenskra króna. Hér er ársfjórðungsuppgjör Straums fyrir 3. ársfjórðung 2007. Takið eftir að á bls. 23 er sagt að eignarhlutur Straums í Tanganyika Oil Company er 32 milljónir evra.

Á 4. ársfjórðungi er hluturinn kominn niður í 20 milljónir, en aftur á móti á Straumur nú 19 milljónir evra í... jú, einmitt - Boreas Capital Fund - sjá bls. 39. Þessi hlutur Straums er heil 15% af fjárhæðinni sem Boreas Capital lagði upp með í lok ágúst þetta ár, 126 milljónunum.

Á 1. ársfjórðungi 2008 er hlutur Straums í Tanganyika Oil 28 milljónir evraBoreas Capital og áfram19 milljónir í Boreas Capital, en á 2. ársfjórðungi er hluturinn í Tanganyika horfinn og hluturinn í Boreas Capital 18 milljónir. Spurning hvort þetta sé sami Tanganyika hluturinn - eða einhver annar. Á þessum tímapunkti virðist Boreas Capital sjóðurinn hafa skroppið saman og var orðinn 10 milljarða virði eins og sjá má hér í stað 23. milljarða rúmu ári áður.

Stökkvum nú fram í 3. ársfjórðung 2008 - plús október og kíkjum í sérstaka Fjárfestabók. Þarna eru inni fyrstu 10 mánuðir ársins 2008 og þar hefur hlutur Straums í Boreas Capital hækkað upp í 24 milljónir evra. En eitthvað gerist í nóvember og desember 2008 því í árslok, í lok 4. ársfjórðungs, er eignarhlutur Straums í Boreas Capital horfinn. Liðurinn "other", þ.e. önnur óskráð fyrirtæki, stekkur hins vegar úr 86 milljónum evra í 173 milljónir. Eins og sjá má á þessari mynd var Boreas Capital Fund einn af 20 stærstu hluthöfum í Straumi í lok október 2008. Stjórnarformaður og aðaleigandi Straums var Björgólfur Thor Björgólfsson, æskuvinur Franks Pitt, stjórnarformanns Boreas Capital. Straumur varð gjaldþrota í mars 2009.

Þetta er sett hér fram til að sýna tengsl. Ég er ekki að halda því fram að Straumurviðskiptin sem vísað er í séu að neinu leyti ólögmæt - það veit ég hreinlega ekkert um og hef ekki forsendur til að meta það. En ég efast ekkert um að viðskiptatengsl þessara manna séu miklu meiri og flóknari en ég get nokkurn tíma skilið.

Málið er að Sigmundur Davíð og Höskuldur gerðu mikil og stór mistök með því að taka með sér tvo fulltrúa vogunarsjóðs, sem jafnframt eru vinir og viðskiptafélagar Björgólfs Thors, á fund norsku kollega sinna. Frá því hrunið átti sér stað og sannleikskornin hafa komið upp á yfirborðið eitt af öðru hefur oft verið sagt að Ísland hafi verið einn stór vogunarsjóður. Það er bæði landinu til hnjóðs og raunsönn lýsing á starfsemi vogunarsjóða.

Annars vegar er það blaut tuska framan í þjóðina að taka vini og viðskiptafélaga eins aðalleikarans í hruninu með sér. Hins vegar eru það hrikaleg skilaboð til norsku þingmannanna að taka menn úr vogunarsjóði með til að biðja um lán - hversu göfugur sem tilgangurinn er. Það er eins og að biðja um pening með spilafíkil við hliðina á sér.

Mogginn er orðinn nokkurs konar barómeter. Allir vita að hinum nýja ritstjóra þóknuðust Björgólfsfeðgar - enda gaf hann þeim Landsbankann og hefur liðið þeim hvaðeina sem þeim hefur dottið í hug. Geir Haarde sagði þegar hrunið var að bresta á að hann talaði alltaf við Björgólf Thor þegar hann væri á landinu. Ábending mín í síðasta pistli (lesið athugasemdir Magnúsar nr. 53, 54 og 57) hefur þótt frétt í velflestum fjölmiðlum og um málið fjallað í Pressunni, á Eyjunni, í DV og sjónvarpsfréttunum hér að ofan. Fjölmargir bloggarar hafa ýmist fjallað sjálfir um málið eða linkað í mitt. En hvað segir Mogginn? Ekkert á mbl.is svo ég viti en minnst á málið í þessari grein í sunnudagsmogganum. Þetta segir í greininni um málið:

Úr frétt Mogga 11. október 2009

Svo mörg voru þau orð. Ritstjórinn stendur með sínu fólki og er að undirbúa nýja stjórn til að gæta sérhagsmuna ýmiss konar. Spurning hvort hann sé að biðla til Framsóknar...


Getur einhver útskýrt þetta?

Nú skil ég hvorki upp né niður og bið lesendur um aðstoð. Eins og alþjóð veit eru tveir framsóknarmenn í Noregi að kynna stöðu efnahagsmála á Íslandi. Kannski að fiska eftir láni. Stóru láni. Fram kom í fréttum RÚV í gærkvöldi að þeir hafi hitt fulltrúa allra flokka á norska stórþinginu. Þeir eru sem sagt í Noregi sem stjórnmála- og alþingismenn, ekki einkaaðilar. Lítum á fréttina.

 

Ég er með ómanngleggri manneskjum og á yfirleitt erfitt með að púsla saman nöfnum og andlitum. Þetta er genetískur galli. Ekki að ég hafi þekkt þessa náunga, það gerði ég ekki. En mér barst tölvupóstur frá lesanda sem benti á þetta og ég kannaði málið. Ég sé ekki betur en að ábendingin sé réttmæt.

Í júní 2007, á hápunkti gróðærisins, var stofnaður vogunarsjóður (hedge fund) sem heitir Boreas Capital. Eins og sjá má ef smellt er á linkinn er þetta platsíða. Ekkert á bak við hana frekar en síðu þessa fyrirtækis, sem ku hafa velt milljörðum en er nú gjaldþrota. Maður fær því upplýsingar á erlendum síðum og innlendum, því hér er nýleg frétt um að fjárfestingar sjóðsins hafi skilað 70% ávöxtun í miðju hruni. Hér er enn nýrri frétt um gagnrýni sjóðsstjóra vegna olíumála Íslendinga - ímyndaðra eða raunverulegra. Strákarnir hafa líklega ætlað að græða á olíuauðlindinni. Lái mér hver sem vill, en ég er tortryggin gagnvart svona fréttum eftir það sem á undan er gengið.

Boreas Capital vogunarsjóðurinn mun tengjast Landsbankanum og/eða Landsvaka í gegnum einhvers konar umboðsmennsku. Ég kann þó ekki að greina frá þeim tengslum frekar og læt mér fróðari um það. En vert er að kynna sér skilgreiningu á hvað vogunarsjóðir eru og hætturnar af þeim hér.

Stjórnarformaður Boreas Capital er Frank Pitt og einn af stjórnarmönnum, eigendum og stofnendum vogunarsjóðsins er Ragnar Þórisson. Báðir hafa þeir ýmis tengsl við banka og einstaklinga, m.a. segir hér að þeir séu vinir og viðskiptafélagar Björgólfs Thors, eins aðaleiganda gamla Landsbankans.

Og þá er það stóra spurningin: Hvað voru tveir forsvarsmenn þessa vogunarsjóðs að gera með framsóknarmönnunum Sigmundi Davíð og Höskuldi í Osló í gær? Ef til vill er til eðlileg skýring á því og þá væri auðvitað mjög fróðlegt að heyra hana. Einhver?

Framsóknarmenn með vogunarsjóði í Osló

Frank Pitt lengst til vinstri og tvær smámyndir - Ragnar Þórisson næstur og ein smámynd.

*******************************************

Ábending frá lesanda: Boreas Capital er skráð til húsa að Hellusundi 6 í Reykjavík. Þar er einnig til húsa fjárfestingarfélagið Teton, en stjórnarformaður þess er Gunnlaugur Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs.


Ég fann mikið til...

...með Birni Þorra, alveg eins og Marinó, þegar hann sat andspænis samfylkingarþingmanninum Magnúsi Orra Schram í Kastljósi í gærkvöldi til að ræða aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Það er erfitt að vera í þeirri aðstöðu. Ætla mátti að Magnús Orri neitaði að skilja. Hann ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum og maður fékk á tilfinninguna að hann hefði ekki grænustu glóru um hvað hann var að tala. Hann heyrði ekki í Birni Þorra, skildi hann líklega ekki, og hélt bara áfram í frasafílingnum. Minnti óhugnanlega á Árna Pál.

Magnús Orri SchramVeit Magnús Orri ekki hvað höfuðstóll er? Skilur hann ekki að vextir og kostnaður er reiknaður af höfuðstóli lána? Fattar hann ekki að verðtryggingin bætist við höfuðstólinn? Veit hann ekki að húsnæðis- og bílalán í erlendri mynt líta allt öðruvísi út í dag en fyrir rúmu ári, hvað þá tveimur? Nær hann ekki að það er ekki sök lántakenda, heldur auðmanna, bankamanna, fyrri ríkisstjórna og annarra gráðugra áhættufíkla? Sama má segja um vísitölutryggðu lánin þótt þau hafi ekki hækkað nándar nærri eins mikið. Skilur Magnús Orri ekki að það er grundvallaratriði að leiðrétta höfuðstólinn? Meira að segja ég skil það - og er ég þó ekki efnahagslega vaxin. Ég beini þeim tilmælum til Samfylkingarinnar að senda næst einhvern sem veit hvað hann er að tala um þegar mál, sem eru lífsspursmál fyrir mestalla þjóðina, eru til umfjöllunar. Ekki smástrák á rangri hillu sem vanvirðir heilbrigða skynsemi. Eru kannski "lausnir" ríkisstjórnarinnar í stíl?

Hagsmunasamtök heimilanna hafa unnið gríðarlega mikilvægt og óeigingjarnt starf fyrir skuldsettar fjölskyldur í landinu - hvað allir athugi! Samtökin ályktuðu um "lausnir" ríkisstjórnarinnar. Þar innanborðs er fólk sem hefur mikla þekkingu á því sem við hin og botnum ekkert í. Einn af þeim er Marinó G. Njálsson sem skrifaði bloggpistil eftir Kastljósið og bókstaflega valtaði yfir Magnús Orra og málflutning hans. Ég hvet alla til að lesa pistil Marinós sem er skýr og skilmerkilegur eins og allt sem hann lætur frá sér fara. Lesið líka styttri pistil Baldvins Jónssonar. Þarna er Baldvin að tala um niðurfærslu lána milli gömlu og nýju bankanna.

Ef einhver veit ekki hvað þar fór fram er hér dæmi: Jósafat skuldaði gamla Landsbankanum 20 milljónir í húsnæðislán. Nýi Landsbankinn "kaupir" skuldina af þeim gamla á 10 milljónir. Það er 50% niðurfærsla eða afskrift. EN... Nýi Landsbankinn rukkar Jósafat ekki um 10 milljónirnar, heldur 20 eins og upprunalega skuldin kvað á um. Jósafat nýtur því í engu niðurfærslunnar eða afskriftarinnar, heldur ætlar nýi bankinn að innheimta skuldina sem hann fékk á hálfvirði í topp. Mér skilst að þannig sé farið um öll húsnæðislán bankanna.

Á meðan þessu fer fram fá vildarvinir skilanefnda gömlu bankanna afskrifaðar milljarðaskuldir og halda fyrirtækjum sínum og eignum. Er nema von að fólki sé misboðið?

Kastljós 8. október 2009

 

Viðbót: Talað var við Marinó G. Njálsson og Árna Pál Árnason í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Marinó skrifaði pistil um málflutning Árna Páls og ég hengi upptöku með viðtölunum við þá hér fyrir neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Við borgum ekki!

Alltaf er hollt og nauðsynlegt að rifja upp. Það er nefnilega gert ráð fyrir því að við gleymum og höfum ekki aðgang að upplýsingum. Nú er það Kastljósviðtalið fræga 7. október 2008. Í tengslum við þetta bendi ég á bloggfærslur Vilhjálms Þorsteinssonar og Egils Helgasonar og athyglisverðar umræður í athugasemdakerfum þeirra.

Kastljós 7. október 2008



Viðbót: Hengi neðst í færsluna hljóðupptöku úr þættinum Víðu og breiðu á Rás 1 frá mánudeginum 5. október. Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri, er þar í siðfræðispjalli um Icesave. Umsjónarmaður þáttarins er Hanna G. Sigurðardóttir. Þetta er athyglisvert spjall... hlustið.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Í tilefni dagsins

Ógleymanlegur dagur, ógleymanlegt ávarp og lokaorðin greypt í vitund flestra landsmanna.

Ávarp forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, 6. október 2008

 

 129 dögum síðar - 12. febrúar 2009


Hugvekja Björns og fulltrúar framtíðar

Það fór ekki mikið fyrir litlu sendinefndinni sem afhenti hluta af andmælabréfum, athugasemdum og mótmælum gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun í Þorlákshöfn í gær. En athöfnin var engu að síður táknræn þar sem tvö börn, fulltrúar og orkunotendur framtíðarinnar, afhentu skjölin. Fyrir litla hópnum fór Björn Pálsson, sem hefur barist ötullega fyrir verndun Hengilssvæðisins sem útivistarsvæðið fyrir ofan Hveragerði er hluti af. Björn flutti stutta, innihaldsríka hugvekju sem hann leyfði birtingu á hér. Athugið, að tölurnar sem hann nefnir eru fyrir utan þau bréf sem berast í pósti og tölvupósti. Neðst í færsluna hengi ég við hið magnaða athugasemdabréf Björns og Ingibjargar Elsu Björnsdóttur, sem vakið hefur mikla athygli.

************************************************

Ræða flutt við afhendingu andmæla þann 5. okt. 2009.

Ágætu áheyrendur!

Í tilefni þess að hér eru nú afhent 977 bréf, þar sem 1061 einstaklingar og þar af 712 með búsetu í Hveragerði mótmæla auglýstri breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss, vil ég gera stutta grein fyrir aðkomu minni að þeim málum.

Þessi mótmæli beinast einkum að ætlaðri Bitruvirkjun, líklegum eituráhrifum frá henni og þeirri eyðileggingu á lítt spilltri náttúru sem bygging hennar mun valda á umhverfi sínu. Þar hef ég, frá upphafi búsetu í Hveragerði 1974, notið margra góðra stunda, einn eða með fjölskyldu og vinum. Eðlislæg forvitni mín um örnefni, sögu, og tilurð fyrirbæra í umhverfinu hefur valdið því að ég er oftlega kallaður til leiðsagnar á þessu svæði. Nefna má eignaréttarmál fyrir Óbyggðanefnd og héraðsdómi Suðurland þar sem Sveitarfélagið Ölfus hefur meðal annars þurft að verja hagsmuni sína Björn Pálssonfyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Í þeim átökum sýnist mér að sannleikurinn þurfi oft að víkja og sú buddunnar lífæð sem í brjóstinu slær ráði för.  

Skemmtilegra er mér þó að leiðbeina göngufólki um þau svæði sem í flestum andmælunum er lagt til að verði friðlýst. Þar eru börnin einlægustu ferðafélagarnir. Hvaða faðir, móðir, afi, amma eða leiðsögumaður getur vænst betri launa en þegar fimm ára gamalt barn segir: „Hingað verðum við að koma fljótt aftur". Því er vel við hæfi að ung móðir, sem hefur lagt á sig ómælda sjálfboðavinnu við söfnun andmæla, afhendi þau hér í fylgd tveggja barna sinna. Þeirra er framtíðin og ég vona að þeir sem nú ráða för í landsmálum verði ekki í hlutverkum þeirra þjóðarsona, sem síðustu gripunum farga  úr gullabúri íslenskrar náttúru. 

Allt frá því að hamfarir, tilbúnar af sérhyggju og græðgi, skullu yfir okkur fyrir ári hef ég óttast að í kjölfarið fylgdu þær fjölþjóða hræætur sem ætið eru tilbúnar til að gæða sér á hinu ósjálfbjarga fórnarlambi. Það vekur mér ugg þegar frændur mínir og sýslungar fyrrum í Norðurþingi kalla eftir stuðningi alþjóðlegs álrisa til byggingar gufuaflsvirkjunar þar. Upplýsingar um að nýtanleg háhitaorka frá Reykjanestá til Hengils geti í besta falli dugað til 66% orkuþarfar álvers í Helguvík lofar heldur ekki góðu. Atburðarrás um eignarhald á HS-orku vekur einnig ugg um eignarhald á orkuverum. Er hugsanlegt að álrisar í harðvítugri samkeppni á alþjóðamarkaði muni fljótlega kaupa skuldsett íslensk orkuver? Hvað verður þá um þjóðareign á íslenskum orkuauðlindum? Þá spurningu ættu íbúar Þorlákshafnar, sem vilja halda aflakvóta í sinni heimabyggð, að íhuga. Reynslan sýnir að undirrituð fyrirheit um vinnslu í heimabyggð hafa ekki reynst traust. Ætli svo geti ekki einnig orðið um vilyrði um nýtingu orku í heimabyggð? Og hvað þá um loforð um eyðingu eiturefna frá gufuaflsvirkjunum?

Ágætu hlustendur! Þennan pistil hef ég samið í nokkurri samvinnu við Þorstein Erlingsson skáld. Hann studdi Sigríði í Brattholti í baráttu hennar fyrir verndun Gullfoss og kvæðið, Við fossinn, mun Þorsteinn hafa ort eftir að hafa lesið Dettifosskvæði Einars Benediktssonar. Við Fossinn, kvæði Þorsteins, ætti að vera skyldulesning á náttborðum allra stóriðjusinna nú. Lokaerindið verður niðurlag tölu minnar hér:

Og því er nú dýrlega harpan þín hjá
þeim herrum til fiskvirða metin,
sem hafa það fram yfir hundinn að sjá,
að hún verður seld eða jetin;
sem hálofa „guðsneistans" hátignarvald
og heitast um manngöfgi tala,
en átt hefur skríðandi undir sinn fald
hver ambátt sem gull kann að mala.
Og föðurlandsást þeirra fyrst um það spyr,
hve fémikill gripur hún yrði,
því nú selst á þúsundir þetta sem fyr
var þrjátíu peninga virði.

Ég þakka áheyrnina.

Fréttir RÚV 5. október 2009

 

Hvaðan Ólafur Áki hefur þessar tölur sem hann nefnir er mér hulin ráðgáta. Og ef honum finnst skemmdarverk þau, sem hljótast af stórri virkjun eins og Bitruvirkjun með öllu tilheyrandi í ósnortinni náttúru vera "að taka tillit til náttúrunnar" - ja... þá vildi ég ekki sjá hvernig umhverfið liti út ef sýnt væri tillitsleysi!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áríðandi skilaboð!

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem litið hefur hingað inn síðastliðna viku að Bitruvirkjun er aftur á dagskrá. Ég hef fengið upplýsingar um að senda megi athugasemdir í tölvupósti til kl. 16 í dag þar sem 3. október bar upp á laugardag. Enda er þeim í Ölfusi ekki stætt á að hafna athugasemdum í tölvupósti þegar allir aðrir taka slíkt sem sjálfsagðan nútíma samskiptamáta. Það er nú einu sinni 21. öldin - ekki sú 19.

Því skora ég á alla sem ekki vilja láta eitra andrúmsloftið fyrir sér og sínum; sem vilja eiga náttúruperluna Ölkelduháls og nágrenni ósnortna; sem ekki vilja láta hljóð-, sjón- og loftmengun eyðileggja upplifun sína af einu fegursta landsvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins; sem vilja mótmæla rányrkju og misnotkun á orkuauðlindum Íslendinga - til að senda athugasemd til Sveitarfélagsins Ölfuss NÚNA. Viðfest hér að neðan eru nokkur tilbúin bréf sem öllum stendur til boða að nota. Veljið eitt - vistið það - opnið (breytið ef þið viljið) - skrifið nafn, kennitölu og heimilisfang - vistið aftur. Sendið síðan sem viðhengi á netfangið: sigurdur@olfus.is - og jafnframt afrit (cc.) á olfus@olfus.is og til öryggis á skipulag@skipulag.is. Ég bið starfsfólk Skipulagsstofnunar forláts - en allur er varinn góður.

Ekki ætla ég að endurtaka eina ferðina enn það sem komið hefur fram í fyrri pistlum. En eitt vil ég benda á sem hvergi hefur komið fram - hvorki hjá mér né annars staðar mér vitanlega. Það er samanburður á fjarlægðum. Ég hef minnst á eiturgufurnar frá jarðhitavirkjunum og hve nálægt Hveragerði fyrirhuguð Bitruvirkjun er. Rétt rúmlega 4 km frá suðaustustu borholunni að byggð í Hveragerði. Ég veit ekki hvort lesendur hafa upplifað að standa hjá borholu í blæstri - það er sérstök upplifun. Annars vegar upplifir maður orkuna - kraftinn sem dælt er upp úr jörðinni. Hins vegar hávaðann - ógurlegan, yfirgnæfandi, ærandi hávaðann sem orkudælingunni fylgir. Þessum krafti fylgir óumdeilanlega gríðarleg eiturefnamengun sem spúð er yfir allt nágrennið og svífur með vindinum víða. Ég hef fjallað ítarlega um hana í fyrri pistlum.

En hvað eru rúmir 4 km mikil fjarlægð? Hvað segðu íbúar Þorlákshafnar um að fá yfir sig hávaðann og eitrið sjálfir? Gera þeir sér grein fyrir hvað þeir ætla að bjóða Hvergerðingum upp á? Hér eru afstöðumyndir af Bitruvirkjunarsvæðinu - annars vegar frá Hveragerði og hins vegar frá Þorlákshöfn. Greinilega sést hér hve nálægt Hveragerði virkjanasvæðið er og Þorlákshöfn í samanburði. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Bitruvirkun - fjarlægð frá Hveragerði vs. Þorlákshöfn

Bitruvirkjun - afstöðumynd - Hveragerði og Þorllákshöfn

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu gera sér litla grein fyrir fjarlægðum í kílómetrum innan borgarmarkanna, flestir hverjir. Ég tók á það ráð til að gefa kost á samanburði að setja fjarlægðina í samhengi við hluta af höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða tæplega 4,2 km. Og ég spyr: Viljum við hafa eiturspúandi gufuaflsvirkjun svona stutt frá heimilum okkar, skólum barnanna, vinnustöðum okkar og daglegu lífi? Ekki ég! En svona nálægt Hveragerði er fyrirhuguð Bitruvirkjun. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Reykjavík NV - 4,2 km

Reykjavík NV - samanburður á fjarlægðum - Bitruvirkjun-Hveragerði

Kópavogur-Garðabær- 4,2 km

Kópavogur/Garðabær - samanburður á fjarlægðum - Bitruvirkjun-Hveragerði


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Andað léttar

Mikið var ég fegin þegar ég heyrði í fréttunum í kvöld að ummælin um ónýtu spólurnar hafi verið villandi. Þar af leiðandi er færslan hér á undan líka villandi - eða texti hennar - þó að myndbrotin standi vitaskuld fyrir sínu. En rétt skal vera rétt og hér með leiðréttist þetta. Um leið vil ég benda á fína athugasemd (nr. 25) frá Gunnlaugi Lárussyni sem hafði spurst fyrir um málið og sent Páli Magnússyni tölvupóst. Gunnlaugur birtir ekki sinn póst til Páls en fékk þetta svar: "Þakka þér kærlega fyrir hressilega áminningu - þetta verður athugað!"

Svo fékk Gunnlaugur svohljóðandi póst frá Óðni Jónssyni, fréttastjóra:

"Því miður var frásögn fréttamanns villandi. Það er rétt að sérstakar upptökur stúdíói misfórust þessa daga sem um ræðir. Flestar fréttir voru síðan keyrðar af klippistæðum og inn á harðan disk og band þegar mistökin uppgötvuðust. Nánast allar frumtökur úti á vettvangi á þessu tímabili eru til á millisafni fréttastofu. Aðalatriðið er þó að allt efnið er til á DVD, ekkert er glatað eða týnt! Öll útsending RÚV er til á DVD, beinar útsendingar o.s.frv. Hitt er svo annað mál að varðveislumál okkar mættu vera betri, vegna fjárskorts erum við ekki enn að fullu komin inn í stafrænu öldina. Þá er ég sammála þér um það að fréttaupptökur þyrftu að vera aðgengilegar miklu lengur á netinu. Vonandi fáum við úrbætur á því fljótlega."

Við þetta vil ég bæta að það væri skömm að því ef nefskatturinn skilar sér ekki allur til að reka RÚV eins og ýjað hefur verið að.

Hin villandi ummæli og leiðréttingin - RÚV 27. og 28. september 2009


Litið um öxl - ár liðið frá hruninu

Undanfarna daga hefur fréttastofa RÚV rifjað upp ársgamlar fréttir af aðdraganda hrunsins. Þórdís Arnljótsdóttir sagði í fréttunum í kvöld að engin upptaka væri til af fréttum þessarar örlagaríku helgar í fyrra því spóla hafi eyðilagst. Þótt mínar netupptökur séu ekki tækar á sjónvarpsskjáinn geta þær kannski fyllt aðeins í einhverjar eyður. Það er geysilega fróðlegt að rifja upp þessar fréttir af efnahagsmálunum - sem reyndust vera hrunfréttir þótt við höfum ekki vitað það þá - í kringum þessa helgi í lok september fyrir ári. Set Kastljósið þann 29. inn líka.

Fréttir RÚV föstudaginn 26. september 2008

 

Fréttir RÚV laugardaginn 27. september 2008

 

Fréttir RÚV sunnudaginn 28. september 2008

 

Fréttir RÚV mánudaginn 29. september 2008

 

Tíufréttir RÚV mánudaginn 29. september 2008

 

Kastljós 29. september 2008 - Geir H. Haarde

 

Kastljós 29. september 2008 - Stoðir, Hreiðar Már, Gylfi Magnússon

 

Kastljós 29. september 2008 - Ögmundur Jónasson og Árni Páll Árnason

 


Er þetta kóngablæti?

Ég er hér enn sjálf. Geir H. Haarde hefur ekki ennþá tekið við þessari síðu til að skrifa söguútgáfu þeirra Davíðs og ekki vitað hvenær það verður. Ætli ég noti þá ekki tækifærið og birti meira efni eftir sjálfa mig á meðan færi gefst. Skrifa mína eigin sögu.

Íslensk fjallasala - Andrés 1999 - Lesbók Morgunblaðisins 10. apríl 1999

Mér finnst umræðan um ráðningu Davíðs Oddssonar í stól ritstjóra Morgunblaðsins svolítið undarleg. Sumir eru fullir umburðarlyndis og finnst rétt að "gefa honum séns" og "leyfa honum að sanna sig". Sjá lítið sem ekkert athugavert við ráðninguna og segja að Davíð beri ekki einn ábyrgð á hruninu. Líkja henni saman við ráðningu Þorsteins Pálssonar sem ritstjóra Fréttablaðsins. Segja að eigendur Morgunblaðsins ráði því hvern þeir láti ritstýra blaðinu - og svo framvegis. Er aðdáun sumra á Davíð Oddssyni einhvers konar kóngablæti? Arfur frá liðinni tíð? Maður spyr sig...

Íslendingar hafa gefið Davíð Oddssyni sénsa í rúm 30 ár - endalausa sénsa. Hann hefur alltaf þegið laun sín frá skattborgurum. Fyrst sem skrifstofu- og framkvæmdastjóri Sjúkrasamlagsins frá 1976, síðan borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og að lokum seðlabankastjóri. Davíð hefur alltaf stjórnað því sem hann vill og farið fram af hörku. Hann innleiddi hér hræðsluþjóðfélag þar sem mönnum var refsað fyrir að vera ósammála honum, stofnanir lagðar niður ef þær reiknuðu gegn vilja hans, mönnum vísað úr nefndum fyrir smásagnaskrif sem hugnuðust honum ekki. Ótalmargt fleira mætti nefna og lesendur geta bætt við í athugasemdum.

Davíð Oddsson gerði íslenska þjóð ábyrga fyrir innrásinni í Írak 2003 og hörmungunum þar sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Það var vægast sagt  umdeildur gjörningur og þar kom Davíð rækilega aftan að þjóðinni. Sumir hafa kallað hann stríðsglæpamann síðan. Þá sem ekki voru sáttir við áframhaldandi þátttöku í svokallaðri "endurhæfingu" Bandaríkjamanna í Írak kallaði Davíð afturhaldskommatitti í frægri ræðu á Alþingi. Þar talaði hann ekki bara niður til eins flokks, heldur stórs hluta þjóðarinnar sem hafði alla tíð verið andsnúinn veru Íslands á stríðslistanum. Það var og er stíll Davíðs að niðurlægja þá sem ekki eru á sömu skoðun og hann, hæðast að þeim og ljúga upp á þá - í þeim tilgangi að upphefja sjálfan sig.

Verjendur Davíðs og verka hans í íslensku samfélagi hamra gjarnan á því að hann sé ekki einn ábyrgur fyrir hruninu. Það er enginn að segja það. Mjög margir eru ábyrgir. En óumdeilanlegt er að Davíð Oddsson lék eitt af aðalhlutverkunum í frjálshyggju- og einkavinavæðingunni, sem og  aðdraganda hrunsins og fyrstu viðbrögðum við því. Sú staðreynd að fleiri voru þar að verki gerir ábyrgð hans engu minni. Að þessu leyti er ógerlegt að bera ráðningu Davíðs til Moggans nú saman við ráðningu Þorsteins Pálssonar til Fréttablaðsins. Þorsteinn var aldrei sami áhrifavaldur og Davíð í íslensku samfélagi og hafði hætt beinum afskiptum af pólitík mörgum árum áður en hann settist í ritstjórastól. Davíð hélt hins vegar bæði FLokknum og þjóðinni í járnkrumlum einvaldsins fram á síðasta dag og harðneitaði að sleppa.

Davíð Oddsson er ekki bara "einhver maður" og Morgunblaðið er ekki bara "eitthvert blað". Þó að til sanns vegar megi færa að eigendur blaðsins "megi ráða og reka þá sem þeim sýnist" er lágmarkskurteisi gagnvart þjóð sem liggur í blóði sínu í ræsi kreppunnar að ráða ekki manninn sem í huga þjóðarinnar er holdgervingur hrunsins. Það er lágmarkskrafa að fjölmiðlar axli samfélagslega ábyrgð og hjálpi þjóðinni að rísa á fætur í stað þess að hleypa í valdastól aftur manni, sem á eftir að henda sprengjum inn í samfélag sem þegar hefur verið sprengt í loft upp.

Við þekkjum Davíð Oddsson. Hann hefur fengið að margsanna sig í 30 ár. Við þekkjum eiturtunguna, ofsann, hrokann, ráðríkið og valdafíknina. Ég sé enga ástæðu til að gefa honum fleiri sénsa til að sanna sig enn frekar. Mig grunar að hlutverk Davíðs sem ritstjóri Morgunblaðsins verði að stýra stríði gegn vilja þjóðarinnar. Stríði gegn endurheimt þjóðarinnar á auðlindum til sjós og lands. Stríði gegn þeim vilja meirihlutans að halda grunnstoðum þjóðfélagsins í þjóðareigu. Enda fjallaði annar leiðari fyrsta blaðsins undir hans stjórn um ágæti einkasjúkrahúsa.

Stríð sjálfstæðismanna er hafið. Það sést á ýmsum vígstöðvum, ekki bara í ráðningu ritstjórans. Látum ekki blekkjast, þeir ætla að ná aftur völdum og við vitum hvað það þýðir. Við erum velflest fórnarlömb þessa fólks. Neitum að kyssa vöndinn.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband