Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Vanhæfir stjórnendur, gráðugir ráðgjafar, sinnulaust eftirlit

Maður er nefndur Jeff Randall og hann er með viðskiptaþátt á sjónvarpsstöðinni Sky. Í gær spjallaði hann við Tony Shearer, fyrrverandi bankastjóra Singer & Friedlander sem Kaupþing keypti á sínum tíma. Shearer fór yfir ýmislegt sem læra mætti af reynslunni og nefndi hina alræmdu lánabók Kaupþings. "Þeir brutu allar reglur." Lítum á spjallið.

Fjallað var um Tony Shearer í byrjun febrúar þegar hann kom fyrir rannsóknarnefnd breska þingsins og bar Kaupþingsmönnum ekki góða söguna. Ég skrifaði um málið á sínum tíma og birti umfjöllun Channel 4 um væntanlega yfirheyrslu nefndarinnar og um Kaupþing - Singer & Friedlander frá 2. febrúar 2009.

Hér er yfirheyrslan í þingnefndinni 3. febrúar 2009 og annar pistill hér.

Hér er svo fréttaumfjöllun um yfirheyrsluna á Stöð 2 - 3. febrúar 2009.



Að lokum er hér afar fróðlegur pistill Sigrúnar Davíðsdóttur um Kaupþing og Singer & Friedlander þar sem hún vitnar m.a. í samræður sínar við Tony Shearer um þátt forseta Íslands í að Kaupþingsmenn tengdust hinum gamla, enska banka og geislabauginn yfir Kaupþingi. Og síðan annar pistill Sigrúnar um aðdraganda aðgerðanna í Bretlandi fyrir rúmu ári.
 
Jón Steinar minnir á fréttaskýringu áströlsku stöðvarinnar ABC frá 22. september sl. í athugasemd nr. 2. Ég fann upptökuna af þættinum í sarpinum mínum og bæti hér við til fróðleiks. Þarna er rætt við bæði Íslendinga og útlendinga, þeirra á meðal Gunnar Sigurðsson, Robert Wade og áðurnefndan Tony Shearer. Mjög áhugavert efni.

 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Niðurlæging þjóðar

Niðurlæging þjóðar - Njörður P. Njarðvík - Fréttablaðið 26. október 2009


"Haltu þér saman!"

Unnur Brá Konráðsdóttir...hrópaði ég í tví- eða þrígang þegar ég reyndi að horfa og hlusta á vettvang dagsins í Silfrinu í dag. Þar sat kona sem greip hvað eftir annað fram í fyrir öðrum gestum, stal orðinu og þvaðraði botnlaust bull. Ein af þessum óþolandi gjammgelgjum á þingi sem kann enga mannasiði. Kom upp um fáfræði sína, vanþekkingu og getuleysi til að segja nokkurn skapaðan hlut af viti og ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum - kannski úr stjórnmálaskóla eða einhæfu skoðanaumhverfi. Svona framkoma er ekki bjóðandi áhorfendum og konan má skammast sín fyrir að eyðileggja umræðuna í eina þættinum af þessum toga sem boðið er upp á í íslensku sjónvarpi. Og því miður var hún eini fulltrúi kvenþjóðarinnar í þessum þætti.

Ég held að það sé misskilningur að opna Silfrið fyrir stjórnmálamönnum aftur. Mér er mjög minnisstæður feginleikinn sem greip um sig í þjóðfélaginu fyrir ári þegar þeim var úthýst og "venjulegu fólki" boðið að koma og ræða málin. Á meðan sá háttur var hafður á fengu allir að ljúka máli sínu, sýndu hver öðrum og þáttastjórnanda almenna kurteisi og áhorfendum þá sjálfsögðu virðingu að gjamma ekki eins og fífl, grípa orðið, tala ofan í aðra, leyfa fólki ekki að ljúka máli sínu og almennt að haga sér eins og illa upp aldar gelgjur. Áhorfendur Silfursins fengu miklu meira út úr umræðuköflum þáttanna og þeir sem voru hættir að horfa á Silfrið, að mestu leyti vegna fyrrgreindra gjammara, fóru að horfa aftur og líkaði vel.

Tveir viðmælendur Egils í dag voru með glærur. Þetta virkar ekki nógu vel - a.m.k. ekki fyrir mig. Mér finnst ekki gott að sjá hvað á glærunum stendur, jafnvel þótt skjárinn sé stór. Ég varð vör við á Fésinu í dag að fleiri voru á þessari skoðun, svo ég fékk glærur Jóns F. Thoroddsen sendar í tölvupósti og er búin að stækka þær og setja inn í þetta albúm. Fólk getur þá opnað þar og stækkað hverja glæru fyrir sig á meðan það horfir aftur á umfjöllun Jóns um gervimarkaðinn sem hér viðgekkst í fjármálalífinu. Ég vonast til að fá glærur Hjálmars Gíslasonar líka og meðhöndla þær þá á sama hátt með þeim kafla Silfursins.

Jón F. Thoroddsen í Silfri Egils 25. október 2009


Einar Már og Kjarni málsins

Mörgum eru greinarnar hans Einars Más í fersku minni - þessar sem birtust í Morgunblaðinu í fyrravetur og urðu undirstaðan í Hvítu bókinni góðu. Einar Már er kominn á kreik aftur og þar sem þessi grein er merkt númer 1 er væntanlega von á fleirum. Þótt flestir séu hættir að lesa Morgunblaðið er sumt einfaldlega skyldulesning. Þessi birtist í dag - smellið þar til læsileg stærð fæst.

Einar Már - Kjarni málsins 1 - Morgunblaðið 23. október 2009


Réttur karla sem vilja ríða konum

Nú hljóma fréttir um mansal og glæpaklíkur því tengdu í öllum fjölmiðlum. Það fer um mann nístandi hrollur við tilhugsunina um að konur neyðist eða séu neyddar til að selja sig - hver sem ástæðan er og hver sem á því hagnast fjárhagslega. En þetta er gömul saga og ný og alltaf eru einhverjir sem mæla vændi bót eins og Una Sighvatsdóttir bendir á í stórfínum pistli í Mogganum í dag. Í honum bendir Una m.a. á hina göfugu frjálshyggjumenn og -konur í Frjálshyggjufélaginu sem standa vörð um réttindi karla sem vilja ríða konum. "Tilraunir til að stjórna lífi borgaranna..." er eitur í beinum frjálshyggjunnar eins og sást t.d. á afnámi regluverks í fjármálaheiminum, sem varð efnahag Íslands að fjörtjóni. Kannski er það misskilningur hjá mér, en mér virðast frjálshyggjumenn vera mestu anarkistarnir af öllum.

Gamlir ósiðir - Una Sighvatsdóttir - Mbl. 21. október 2009

Þessi sena úr kosningaþætti á RÚV 20 apríl sl. er ógleymanleg. Hér er það Ragnheiður Elín sjálfstæðiskona sem virðist bera óblandna virðingu fyrir því sem hún minnir á að sé "elsta atvinnugreinin". Flokkur Ragnheiðar Elínar hefur aldrei beitt sér af neinni alvöru gegn vændi eða reynt að sporna við því. Maður spyr sig af hverju... Ekki má skerða "frelsi" einstaklingsins til athafna, jafnvel þótt það frelsi leiði til helsis annarra. Það á miklu frekar að reka Egil Helgason fyrir að hampa sannleikanum og taka afstöðu með honum. Sannleikanum verður enda hver sárreiðastur.

 

Að lokum bendi ég á stórfurðulegt, mótsagnakennt viðtal við súlukóng Íslands sem ég birti hér.


Brátt verða hliðin opnuð

Kunningjakona mín kom heim eftir stutta dvöl í útlöndum fyrir rúmri viku. Hún hafði ekki farið út fyrir landsteinana um nokkurt skeið og henni brá þegar hún kom aftur. Þetta er næm kona og hún sagðist hafa fundið svo neikvæða orku þegar hún steig á íslenska grund. Þetta kom mér ekkert á óvart. Neikvæðnin er nánast áþreifanleg í samfélaginu. Og það á sér vitaskuld ofureðlilegar skýringar.

Jóakim endurheimtir peningana sínaÞótt ég ætli ekki að fara náið út í saumana á margslungnu andrúmsloftinu á Íslandi hér og nú er ég sannfærð um að hin neikvæða orka sem kunningjakona mín fann við heimkomuma er nátengd réttlætinu. Ef það er eitthvað sem okkar þjakaða og þjáða þjóðarsál  þarfnast um þessar mundir er það réttlæti.

Búið er að skrifa undir Icesave-samning sem skuldsetur okkur í marga áratugi - en þeir sem höfuðábyrgðina bera ganga lausir og baða sig í illa fengnu fé eins og Jóakim aðalönd. Réttlæti?

Seðlabankinn henti nokkur hundruð milljörðum í gjaldþrota bankana dagana fyrir hrun og ríkissjóður öðru eins til að bjarga fjármagnseigendum. Vanhæfur seðlabankastjórinn og einn af arkitektum hrunsins, sem loks tókst að losna við úr embætti með lagasetningu í febrúar, þeytir nú skítabombum út um víðan völl sem ritstjóri um leið og hann reynir að hvítþvo sjálfan sig og þátt sinn í hruninu. Réttlæti?

Virkjana- og stóriðjusinnar fara nú mikinn og heimta að allt verði virkjað, orkuauðlindir þurrausnar í margar kynsóðir, til að breiða yfir gróðærisklúður einkavinavæddra bæjarstjóra sem seldu sér og vinum sínum opinberar eigur og settu bæjarfélögin sín á hausinn. Auðlindum kynslóðanna á að fórna á altari græðgi nokkurra manna og frasarnir fljúga. Álver eða dauði! Minnir óhugnanlega á æðið sem reið yfir þegar fjármálabólan var að þenjast út. Réttlæti?

Þetta eru bara þrjú dæmi af ótalmörgum sem varpa kannski einhverri ljóstýru á hina neikvæðu orku sem svífur yfir vötnunum á Íslandi. Eygjum við einhverja von? Vonandi - en eitt er víst: Ef hrunflokkarnir ná aftur völdum getum við, sem krefjumst réttlætis og þráum það umfram allt, pakkað saman og farið. Þá verða allir hrunvaldar hvítþvegnir og haldið áfram þar sem frá var horfið í einkavinavæðingar- og spillingarferlinu. Þá verður réttlætinu ALDREI fullnægt, sannið þið til. "Alting bliver igen som för", eins og segir í textanum með myndinni af Jóakim hér að ofan.

Pistillinn minn á Morgunvaktinni síðasta föstudag fjallaði ekki nema óbeint um þetta. Jú, kannski ljóðið hans Eyþórs. Ég kaus alltént að skilja það þannig að ljónið í búrinu væri réttlætið - og að brátt verði hliðin opnuð og ljónið brjótist út. Guðir allra trúarbragða hjálpi þeim sem á vegi þess verða. Hljóðskrá er viðfest neðst. Pistlunum er útvarpað svo snemma að það er enginn vaknaður - ja... að minnsta kosti ekki ég.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Einu sinni, endur fyrir löngu, var ég stolt af að vera Íslendingur. Spáði ekkert of mikið í pólitík en fylgdist samt með. Las blöðin, horfði á fréttir, lagði saman tvo og tvo og dró mínar ályktanir. Muldraði í barminn, tautaði og tuðaði, skammaðist yfir misvitrum ákvörðunum ráðamanna en hafðist ekki að. Reyndi ekki að fá greinar birtar í dagblöðum eða leggja orð í belg á annan hátt. En ég hugsaði mitt og safnaði í hugarsarpinn.

Hvað ætli þessi lýsing eigi við marga Íslendinga? Hve margir hafa hingað til beygt sig af þýlyndi undir hið lífseiga ofbeldi stjórnmálaflokkanna, sem kveður á um að við megum bara tjá skoðanir okkar með atkvæðinu á fjögurra ára fresti? Við eigum að þegja og hafa okkur hæg þess á milli. Ekki hafa skoðanir og leyfa stjórnmálaflokkunum að athafna sig í friði - hvort sem þeir eru að efna eða svíkja kosningaloforðin, láta þjóðina styðja innrásir og stríð eða gefa eigur hennar vinum sínum. Er þetta lýðræði? Ja... að minnsta kosti ekkert venjulegt lýðræði.

Já, ég var stoltur Íslendingur. Stolt af landinu mínu og þjóðinni minni. Menntaða fólkinu, náttúrunni, hreina loftinu, tæra vatninu og jafnvel eldgosum og jarðskjálftum. Slíkt tilheyrði því að vera Íslendingur. Árið 1983 var ég á leið heim eftir stutta heimsókn til Frakklands. Þegar ég fór í gegnum vegabréfaskoðun á flugvellinum í París sagði maðurinn sem þar vann: "Ah... Ísland! Ekkert sjónvarp á fimmtudögum og í júlí - og enginn bjór!" Ég var þessu vön en honum fannst þetta skemmtileg sérkenni og við hlógum dátt saman. Ekki varð ég vör við að hann vissi fleira um Ísland. En það gerði ekkert til, ég var örugg í þeirri fullvissu, að það væri gott að vera Íslendingur.

Nú er öldin önnur. Þegar Íslendingar viðurkenna þjóðerni sitt erlendis nú um stundir - ef þeir þora því á annað borð - fá þeir glósur um að við séum þjófar og glæpamenn. Ekki er talað lengur fallega um land og þjóð, bara minnst á hrunið og spurt af hverju ekki sé enn búið að handtaka neinn fyrir að ræna þjóðina. Fyrir að rýja hana inn að skinni - ekki aðeins af fé heldur líka sjálfsvirðingu, stolti og reisn. Og við spyrjum líka: "Af hverju? Hvað dvelur réttlætinu?"

Stundum finnst mér ég vera eins og dýr í búri. Ég æði um, öskra svolítið á blogginu, en finnst ég vera innilokuð á svo margan hátt. Kefluð með hendur bundnar í skuldafangelsi og sé ekki ennþá von um betra líf eða réttlæti, almenningi til handa. En svo las ég lítið ljóð í nýútkominni ljóðabók eftir Eyþór Árnason, hið kunna ljúfmenni sem fékk verðlaun Tómasar Guðmundssonar á þriðjudaginn fyrir sitt fyrsta verk. Ljóðið heitir Dagar og það veitti mér örlitla von:

Dagar

Dagarnir eru
eins og ljón
í búri

Ég bíð í hringnum

Brátt verða
hliðin opnuð

Öskrandi ljón


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eru svona bændur bústólpar?

Svona mál ættu að vera hætt að koma manni á óvart. En ég rak engu að síður upp stór augu þegar ég horfði á fréttir Stöðvar 2 í kvöld. Þar var sagt frá fyrirtæki Brynjólfs Bjarnasonar, forstjóra Símans, Lamba ehf. Tilgangur þess er sauðfjár- og geitarækt. Brynjólfur orðinn bóndi? Ónei, ekki aldeilis. Fyrirtækið... eða réttara sagt einkahlutafélagið... var notað til að slá lán og braska. Virðist ekki hafa komið sauðfjár- og geitarækt nokkurn skapaðan hlut við.

Skuld einkahlutafélags Brynjólfs er nú þúsund milljónir - einn milljarður - sem bankinn gæti þurft að afskrifa. Ætli Brynjólfi þyki óábyrg meðferð á fé að borga skuldir sínar eins og Bjarna Ármannssyni? En eins og Lóa Pind segir í lok fréttarinnar: Það er ekki sama Jón og Jón ehf.

 Fréttir Stöðvar 2 - 14. október 2009

 

Lambi ehf. - Fyrirtækjaskrá
Viðbót: Agnar minnti mig á þetta myndbrot úr Silfrinu þar sem Ari Matthíasson sagði söguna af því þegar hann lenti á fundi með mönnum þar sem verið var að kynna skattaskjól og hvernig hægt væri að koma fé undan skatti. Þarna er Brynjólfur Bjarnason einmitt nefndur til sögunnar. Skattrannsóknarstjóri brást við sögu Ara eins og sjá má hér og hér. Hvar ætli þetta mál sé statt?

Silfur Egils 25. janúar 2009

Önnur viðbót: Það er ekki að spyrja að DV og skúbbinu þeirra. Ég var minnt á að fréttin um Lamba hans Brynjólfs og skulduga geitarækt forstjórans birtist í DV í maí sl. DV hefur hvað eftir annað afhjúpað alls konar sukk, svínarí og spillingu þótt þær fréttir rati ekki alltaf í aðra fjölmiðla. Ég held að þeir sem treysta DV ekki ennþá ættu að endurskoða afstöðu sína, fara að kaupa blaðið og gera því þar með kleift að koma út oftar!

Skuldug geitarækt forstjórans - Jóhann Hauksson - DV 22. maí 2009


Að króa sig af í kreppunni

Að króa sig af í kreppunni - Bergþóra Njála Guðmundsdóttir - Morgunblaðið 13. október 2009

Kvartað og kveinað, volað og vælt

Undanfarið ár hefur margoft komið fram, að ein af ástæðum hrunsins hafi verið skortur á gagnrýni. Útrásardólgum, bankastjórnendum, stjórnmálamönnum og talsmönnum þeirra sem mærðu eigin hæfileika og félaga sinna var trúað og treyst. Allt of fáir settu sig inn í málin og bentu á mistökin og fáránleikann sem leyndist undir yfirborðinu. Nokkrir reyndu en voru skotnir í kaf af hagsmunaaðilum. "Niðurrifsmenn!" hrópaði auðelítan hástöfumBankatertan og útskúfaði gagnrýnisröddunum.

Hingað til hefur það talist góður siður hjá öllu skynsömu, heiðarlegu fólki að læra af reynslunni. Gera ekki sömu mistökin æ ofan í æ. Sem þýðir a.m.k. í mínum huga að nú gagnrýnum við það sem okkur þykir gagnrýnivert og pukrumst ekkert með þá gagnrýni. Í því sambandi verðum við að hafa ýmislegt í huga - m.a. þá staðreynd að enn eru talsmenn og útsendarar gróðahyggjunnar sem knésetti okkur við völd víða í samfélaginu. Þeir eru ekki á því að breyta um kúrs og vilja halda áfram að höndla með samfélagið að vild og eftir eigin hentisemi. Þeir væna gagnrýnendur um mannorðsmorð ef einhver dirfist að setja út á orð þeirra eða gjörðir. Gagnrýnin er líka kölluð McCarthyismi, sem er ein fáránlegasta og siðlausasta samlíking sem hugsast getur. Fólk sem þannig talar þekkir hvorki né skilur söguna og alvarleika McCarthyismans í Bandaríkjunum um og eftir miðja síðustu öld. Það ætti að skammast sín fyrir að líkja réttmætri gagnrýni íslensks almennings á spillta hrunvalda við slíkan ósóma.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, skrifar innblásna grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fetar í fótspor Sigmundar Davíðs og líkir  skósveinum útrásardólga við fólk sem var ofsótt fyrir skoðanir sínar í tíð McCarthys. Þeir eru reyndar ekki fyrstir til að gera það. Í mars sl. skrifaði ég pistil um samskonar gagnrýni - Eru auðmenn "kommúnistar" samtímans? Þá var hægri hönd Ólafs Ólafssonar að kveinka sér við gagnrýni. Lítum á harmakvein Árna Sigfússonar.

Árni fellur í nákvæmlega sömu gryfju og Sigmundur Davíð hér þar sem hann segir m.a. "...að þessir menn hafi einhvern tíma tengst Landsbankanum eins og líklega tugir þúsunda annarra Íslendinga..." og leggur þar að jöfnu vini og viðskiptafélaga Björgólfs Thors og saklausa viðskiptavini bankans. Árni segir: "En á Íslandi í dag virðist gilda að þeim sem hafa á einhvern hátt komið að samstarfi við fyrirtæki þekktustu nafnanna í íslensku útrásinni er att fyrir nornaveiðara". Hverslags dómadagsvitleysa er þetta? Skilja þeir ekki að sumir eru einfaldlega vanhæfir til vissra verka og ábyrgðarstarfa? Traust almennings var fótum troðið og sá trúverðugleiki sem nauðsynlegur er í samfélaginu hefur ekki verið endurreistur - og verður ekki fyrr en heiðarlegt uppgjör hefur farið fram. Meðal annars uppgjör Suðurnesjamanna við Árna Sigfússon, sem nú hefur rúið Reykjanesbæ inn að skinni, selt allar eigur bæjarins og afnotarétt orkuauðlindarinnar á Reykjanesi að auki.

Gagnrýni og tortryggni almennings beinist ekki að blásaklausum, almennum starfsmönnum banka eða annarra fjármálafyrirtækja heldur þeim, sem voru innstu koppar í búri og tóku fullan þátt í þeirri spillingu, græðgisvæðingu og blekkingu sem setti efnahag Íslands á annan endann. Slík gagnrýni á fullan rétt á sér, er í hæsta máta eðlileg og heldur vonandi áfram á fullum dampi framvegis.

Árni rifjar upp kommagrýluna sem veifað var framan í íbúa Vesturlanda á McCarthy-árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Hann segir að margir Vesturlandabúar hafi óttast hættuna af hugmyndafræði kommúnista og séð hana birtast í árásum á frelsi fólks, gerræðisstjórnum, fátækt, einræði og ofbeldi. Árásir á frelsi, gerræðisstjórnum, einræði og ofbeldi. Er hann að lýsa stjórnarháttum Davíðs Oddssonar? Mér sýnist það.

Og nú geysast helsárir vogunarsjóðsmenn fram á ritvöllinn (sjá viðhengi Víkingatertanneðst í færslunni) og tala um "óhróður blogglúðrasveitar Samfylkingarinnar". Ég verð að hryggja þá með því, að henni tilheyri ég að minnsta kosti ekki, né heldur Agnar, Jenný og margir fleiri sem hafa tjáð sig um þetta mál. Sigmundur Davíð, Árni Sigfússon, vogunarsjóðsmenn og aðrir sem nú kveina sáran undan réttmætri og heilbrigðri gagnrýni almennings verða að átta sig á því, að ekki liggja allir í flokkspólitískum skotgröfum og láta leggja sér orð í munn þótt þeir þekki kannski ekki önnur viðmið sjálfir. Vita ekki að fólk getur haft skoðanir þótt það tengist ekki pólitískum flokki. Sem betur fer er til nóg af fólki með gagnrýna hugsun sem býr yfir heilbrigðri skynsemi og réttlætiskennd og lætur ekki sérhagsmuni eða flokkspólitíska blindu villa sér sýn eða leggja sér orð í munn. En kannski er ekki nema von að menn, sem sjálfir láta stjórnast af eigin-, sér- og flokkshagsmunum, geri sér enga grein fyrir því.

Við munum sjá meira af yfirlýsingum eins og frá Árna Sigfússyni, Sigmundi Davíð, vogunarsjóðsmönnum og ýmsum meðreiðarsveinum útrásardólganna. Þeir eru í vörn því veldi þeirra stendur höllum fæti. Ef réttlætið nær fram að ganga í íslensku þjóðfélagi sjá þeir sæng sína upp reidda. Þeir munu halda áfram að kalla eðlilega gagnrýni McCarthyisma og gagnrýnendur skríl, kommúnistadrullusokka eða blogglúðrasveitir andskotans ef því er að skipta. En við megum aldrei aftur láta þagga niður í röddum réttlætis, sannleika og heilbrigðrar skynsemi.

Verum vel á verði.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hrunið og aðdragandinn í spéspegli

Þetta er nauðsynlegt líka, rétt eins og Spaugstofan og Skaupið. En öllu gamni fylgir nokkur alvara og oft sér maður betur fáránleika hlutanna í gríninu. Ísland er að sjálfsögðu nefnt til sögunnar í þessari yfirferð.

Silly Money - Where did all the money go?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband