Færsluflokkur: Dægurmál
17.12.2008
Síðasti borgarafundurinn fyrir jól
Í kvöld kl. 20 verður síðasti borgarafundurinn fyrir jól að Borgartúni 3 þar sem samtökin hafa aðstöðu. Fundurinn á að fjalla um spillingu og hringamyndun í viðskiptalífinu - mjög aktúelt umræðuefni á Íslandi í dag. Gestir fundarins verða Óli Björn Kárason, ritstjóri, og Gunnar Axel Axelsson, viðskiptafræðingur og bloggari. Í sarpinum má finna þá báða í ýmsum sjónvarpsþáttum.
Spaugstofan lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi og hefur aldrei verið beittari en upp á síðkastið. Þeir félagar lögðu sitt af mörkum á fjölmennasta fundinum hingað til, þegar ráðherrar og þingmenn mættu í Háskólabíó. Muna ekki allir sem voru á fundinum eftir þessum spurningum... og svörum?
Spilling, hringamyndanir og viðskiptatengsl eru yfir og allt um kring og verið er að moka flórinn daglega. Og hann er mikill og daunillur. Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag og fjallar um hvernig lykilpersónur bankahrunsins tengjast á einn eða annan hátt. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.12.2008
Gjaldþrot sem skiptimynt
Í Kompási kvöldsins á að fjalla um óprúttna aðila sem notfæra sér neyðarástand fólks til að græða. Ég veit ekki meira en fram kemur í þessari stiklu hér að neðan en þetta hljómar ótrúlega. Þátturinn er í opinni dagskrá á Stöð 2 klukkan 19.20.
En ég var að reka augun í frétt á Vísi þar sem lögmaður hótar málssókn ef þátturinn verður sendur út. Ég hef trú á að Kompássmenn láti það sem vind um eyru þjóta. Og ég sé ekki betur en að þetta sé sami lögmaður og varði annan náungann í handrukkunar- og líkamsárásarmálinu sem Kompás fjallaði um nýverið.
Lesendur þessarar síðu vita að mér finnst oft fróðlegt að líta um öxl. Rifja upp orð, efndir, álit og yfirlýsingar, bera saman og spá í hver hefur haft rétt fyrir sér og hver rangt - og hvað er á bak við orð manna. Upphaflega ætlaði ég aðeins að birta tvö myndbönd en þetta vatt upp á sig. Ég á svo mikið efni í gullakistunni að erfitt er að velja og hafna.
Lítum til að byrja með á nýársávarp forsætisráðherra frá 31. desember 2007, fyrir næstum ári síðan. Eðli slíkra ávarpa er að vera innihaldslaust, upphafið, staðlað kjaftæði um allt og ekkert og þetta ávarp er engin undantekning. Eftir hálfan mánuð fáum við nýtt ávarp. Það þarf ekki að vera spámannlega vaxinn til að vita hve gjörólíkt það verður. Í þessu nýársávarpi er tæpt á öllu þessu klassíska blaðri = við erum svo góð í náttúruvernd (kanntu annan, Geir?), orkan okkar er svo hrein og endurnýjanleg (meðvituð lygi), efnahagurinn er mjög traustur (), sama, gamla mærðin um tungumálið, rithöfundana sem varðveita það o.s.frv. sem er gleymt um leið og ávarpinu lýkur - sem sagt, allt er í góðu lagi = tómt bull. En... pöpullinn, sem enn lítur upp til valdsins og trúir því, er friðaður.
Hér er aftur á móti "áramótaávarp" Sigurjóns Þ. Árnasonar, þáverandi bankastjóra Landsbankans, frá 28. janúar 2008 - eftir ársuppgjör bankans. Hann lætur þess ekki getið að lokað hafi verið fyrir millibankalán til íslenskra banka um mitt ár 2007 og að þá hafi bankinn sótt eyðslufé í vasa sparifjáreigenda ýmissa landa með góðum árangri. Sigurjón fékk bónusinn sinn og bankinn græddi á pappírunum eins og sést á sjálfumglöðum svipnum á bankastjóranum. Takið sérstaklega eftir annars vegar kröfum Sigurjóns til stjórnvalda hvað "jákvæða umgjörð fjármálastofnana" varðar og hins vegar meðvirkni fréttamannsins og leiðandi spurningum hans. Hlustið líka á orð Sigurjóns um allt eftirlitið sem bankarnir þurfi að sæta sem nú hefur komið í ljós að var nákvæmlega ekkert. Ekki neitt.
Það er varla hægt að hafa svona yfirlit án innkomu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Hann er fenómen sem, þrátt fyrir andstreymi, gefst aldrei upp. Gengur ekki af trúnni hvað sem á dynur. Fróðlegt væri að fá "einkaviðtal" við Hannes Hólmstein í Kastljósi eða Silfrinu núna og heyra skýringarnar og réttlætingarnar sem frá honum kæmu. Eða kannski uppgjöfina? En VARÚÐ - í Sjálfstæðisflokknum eru fjölmargir lærisveinar hans, þar af þó nokkrir á Alþingi. Þetta viðtal er frá 4. apríl 2008.
Þetta viðtal við viðskiptablaðamann hjá Daily Telegraph, Ambrose Evans-Pritchard, er mjög athyglisvert. Hann hefur bæði rétt og rangt fyrir sér - vitum við núna. En varla er annað hægt en að líta á orð hans sem alvarlega viðvörun. Hver hlustaði? Athugið aftur leiðandi spurningar og hvernig fréttamaðurinn kemur inn með sín prívatinnslög. Viðtalið er frá 27. júní 2008 og hvað var þá að gerast hjá íslenskum stjórnvöldum? Allir á leið í sumarfrí eða...?
Að lokum kemur neyðarlagaávarp Geirs Haarde, forsætisráðherra. Bara svona til upprifjunar. Gríðarlega mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta ávarp var flutt og daglega hefur verið grafinn upp þvílíkur spillingarskítur að það hálfa væri nóg. Lögfræðingar draga neyðarlögin í efa, enda samin undir pressu á örskömmum tíma, en það er alltaf gott að rifja upp - við erum svo fjári fljót að gleyma. Ávarpið er frá 6. október sl., fyrir 2 mánuðum og 9 dögum - og 9 mánuðum og 6 dögum frá nýársávarpinu.
Ég hef aldrei hampað Steingrími J., hugnast hann ekkert sérstaklega þótt ég viðurkenni fúslega að vera stöku sinnum sammála honum. En þegar ég rakst á þetta mátti ég til með að hafa það með sem nokkurs konar "punchline" eða lokahnykk á færsluna. Eins og sjá má er þetta úr Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag 2007.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 04:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
14.12.2008
Kverúlantasilfur dagsins
Í Silfrinu voru fjömargir eðalkverúlantar en aðeins einn málsmetandi maður samkvæmt skilgreiningu DV, Illugi Gunnarsson, alþingismaður og fyrrverandi stjórnarmaður í sjóði 9 hjá gamla Glitni sem mikið hefur verið fjallað um. Lesið skoðun Þorleifs Ágústsonar á Illuga þætti í Silfrinu. Ég held að Agli verði seint fullþakkað fyrir þátt hans í að veita aðhald og fletta ofan af spillingunni í íslensku þjóðfélagi, bæði í Silfrinu og á blogginu.
En hér er þátturinn - í bútum eins og venjulega. Ég vil enn og aftur ítreka þá skoðun mína að lengja þáttinn, það veitir ekkert af í þessu ástandi. Beini því erindi beint til Páls Magnússonar að þessu sinni.
Vettvangur dagsins - Helgi Áss, Eygló, Magnús og Þráinn
Illugi Gunnarsson, "málsmetandi" alþingismaður
Símaviðtal við Sigrúnu Davíðsdóttur í London
Indriði H. Þorláksson, hagfræðingur og fyrrverandi ríkisskattstjóri
Jóhann G. Ásgrímsson, viðskiptafræðingur
Jón Gerald Sullenberger - ég styð lágvöruverslunina hans
Paul Hawken, rithöfundur og umhverfisverndarsinni.
Hér er viðtal við hann í Mogganum í dag
og hér er pistill Stefáns Gísla um Paul
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
14.12.2008
Dagur hins gljáfægða Silfurs
Sunnudagar eru dagar Silfurs sem ég er að horfa og hlusta á í þessum skrifuðu orðum. Þar eru núna þessir líka flottu kverúlantar eins og Þráinn Bertelsson, Magnús Þór Sigmundsson og fleiri þótt þátturinn sé rétt nýbyrjaður.
Þegar ég sá þetta sandkorn í DV fauk í mig í fyrstu en fljótlega rann mér reiðin og mér fannst þetta bara fyndið. Þetta var einmitt þvert á það sem fólk talar og skrifar um þar sem öllum finnst fjarvera "málsmetandi manna" alveg dásamleg. Ég kynnti mér uppruna orðanna "kverúlant" og "málsmetandi" og hló enn meira að DV. Leit síðan yfir þessa færslu Egils og skildi enn betur hvaða hagsmunir voru á bak við sandkornið og var stolt af veru minni meðal kverúlantanna. En ég varð fyrir vonbrigðum með DV því það hefur verið að gera góða hluti. Þetta var ótrúleg lágkúra og eins rangt og frekast gat verið. Annars getur fólk dæmt sjálft - hér er hægt að horfa á allt Silfur vetrarins og meira til.
Tveimur dögum seinna dró DV svolítið í land og hrósaði Agli fyrir Kiljuna. Sagði meira að segja að margir sem koma í Silfrið séu ekki "kverúlantar". Ég varð fyrir vonbrigðum - aftur. Það var nefnilega orðið flott að vera Silfurkverúlant - alveg eins og mótmælaskríll. En allt er í heiminum hverfult.
Henrý Þór hefur skilning á þessu og kom með sína túlkun á tilgangi DV með kverúlantastimplinum á Silfrið og gesti þess. Ég held að hann hafi alveg hárrétt fyrir sér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.12.2008
Þagað í háværum, hljómmiklum kór
Ég þagði í 17 mínútur á Austurvelli í gær og fór létt með það. Ég er nefnilega jafnvíg á hvoru tveggja - að þegja og tala. Ég heyrði lágværar raddir pískra af og til og ég heyrði ekki betur en að það væru allt karlaraddir, þvert á goðsögnina. En andrúmsloftið var alveg einstakt... svolítið rafmagnað og þrungið einhverju sem ég kann ekki að skýra. Samkennd, kannski. Það var að minnsta kosti hávær og og mikill hljómur í þessum þögla kór. Þegar ég kom voru ekki margir mættir en svo dreif fólk að úr öllum áttum rétt fyrir þrjú og ég gæti vel trúað að um 1.500 til 2.000 manns hafi verið á Austurvelli. Mér fannst það fínt - en hvar voruð þið hin?
Það var vel til fundið hjá Herði að lesa upp ártal á mínútufresti, frá 1991 til 2008. Táknrænt fyrir efnahagsstjórn Flokksins sem hefur átt stærstan þátt í að steypa þjóðinni í glötun - en ekki hjálparlaust. Hinn Flokkurinn átti sinn þátt í því og þriðji Flokkurinn blandast æ meira í málið. Eftir að þagnarstundinni lauk var Neyðarstjórn kvenna með uppákomu þar sem þær brenndu ja... feðgaveldið eins og stóð á einu skiltinu þeirra og væntanlega voru þær að vísa í synina (t.d. Árna Mathiesen og Björn Bjarnason) sem þykjast eiga tilkall til valda bara af því þeir eru synir feðra sinna. Eða Bjarna Ben sem nú virðist ætla að gera tilkall til forystu í Flokknum með nafnið eitt að vopni og ættina undir sér. Ég get ekki séð að hann hafi neitt það til að bera sem gerir hann hæfan í valdastól að eigin verðleikum. Ef svo er hefur það farið alveg fram hjá mér. Kannski afsannar hann það ef töggur eru í honum. En eitt má hann eiga - hann hefur þorað að viðra skoðanir sem eru í andstöðu við borðorð Davíðs. En aldrei einn. Nei, aldrei einn - alltaf í slagtogi við Illuga Gunnarsson, félaga sinn.
Það er fróðlegt að renna yfir skrif fólks um þessa atburði dagsins og mótmælafundina almennt. Sumir eru harðákveðnir í að eitthvert pólitískt afl sé á bak við fundina sem Hörður Torfason hefur skipulagt 10 laugardaga í röð. En ég veit fyrir víst að svo er ekki og er því sallaróleg yfir slíku bulli. Svo virðast aðrir hafa túlkað aðgerðir kvennanna þannig að þær beinist gegn forræðislausum feðrum af því orðið "feðraveldi" var nefnt í fréttum. Ég komst ekki nógu nálægt tunnunni sem kveikt var í til að heyra það sem þar var sagt en nógu nálægt til að sjá orðið "feðgaveldi" sem er auðvitað allt önnur merking. Auðvitað er fráleitt að forræðislausir feður hafi á neinn hátt verið skotspónn þeirra. En svona er fólki stundum mikið í mun að mistúlka alla hluti.
Maður einn fer mikinn þessa dagana og vikurnar, heim kominn úr sjálfskipaðri útlegð og alltaf með fulla vasa fjár sem enginn veit hvaðan kemur. Hann þenur sig á bloggsíðum, vefsíðum og í fjölmiðlum og fárast yfir því að fá ekki að ryðjast inn á fundi eða upp á svið og láta ófriðlega eins og er hans vandi. Hann virðist ekki skilja að fólk almennt vill ekkert með hann hafa, hefur fengið nóg af honum og að hann er hvergi velkominn... í það minnsta óvíða. Hann skilur ekki að hann er óvelkominn en reynir að ryðjast áfram með offorsi, valta yfir allt og alla og eys síðan aur, skít og lygum yfir fólk þegar það tekst ekki. Undarlegur andskoti. Ég held að flestir viti um hvern ræðir og mér finnst furðulegt hvað fjölmiðlar eru viljugir að tala við hann - vitandi allt um manninn.
Hér er umfjöllun sjónvarpsstöðvanna af fundinum í gær. Myndirnar með færslunni finnst mér eiginlega ómögulegar, því ég er ekki nógu há í loftinu til að fá betri yfirsýn yfir fundarmenn. Ég stóð um stund við hlið Geirs Jóns við myndatökuna, sem er með hávaxnari mönnum, og datt í hug að biðja hann að taka mig á háhest - en kunni ekki við það. Veit ekki hvernig hann er í bakinu, blessaður.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
13.12.2008
Ef einhver velkist í vafa um...
...hvort mæta eigi á Austurvöll klukkan 15 í dag og taka þátt í 17 mínútna kyrrðar- og friðarstund - sem ég vil líka kalla sorgarstund - er kannski rétt að horfa á þetta myndband og skoða hug sinn. Sumir hafa eflaust hugsað með sér að þeim sé slétt sama þótt tóbak og áfengi hækki - en átta sig ekki á að sú hækkun, auk eldsneytishækkunar, veldur því að verðbólgan hækkar og verðtrygging húsnæðislánanna - þ.e. afborgarnir af lánunum hækka og eftirstöðvarnar líka. VARÚÐ - Þetta er bara byrjunin.
Íhugið vandlega það sem hér kemur fram.
Sjáumst á Austurvelli klukkan þrjú í dag! Gefið ykkur tíma - það borgar sig!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
12.12.2008
Baneitraður brandari?
Undanfarnar vikur hefur Morgunblaðið verið ansi öflugt, komið með margar góðar fréttaskýringar og umfjöllun um efnahagshrunið og aðdraganda þess frá ýmsum hliðum. Blaðamenn Moggans hafa stungið á kýlum, flett ofan af spillingu og fylgt málum óvenju vel eftir miðað við þá staðreynd að ótrúlegustu spillingar- og stórmál sem þarfnast umfjöllunar hafa komið upp nánast á hverjum einasta degi. Fleiri síður hafa verið lagðar undir aðsendar greinar þar sem fjölmargir Íslendingar, þekktir og óþekktir, hafa farið á kostum. Fólk hefur gagnrýnt, hrósað og stungið upp á alls konar lausnum. Þar hefur einna mest borið á nýsköpun og sprotafyrirtækjum sem framtíðarlausnum. Fólk hefur verið mestan part málefnalegt og sýnt heilbrigða skynsemi. Óvenju lítið bull hefur slæðst með miðað við fjölda greina. Það má sem sagt margt gott segja um frammistöðu Morgunblaðsins undanfarnar vikur þótt ýmislegt megi auðvitað gagnrýna líka.
Mér brá í brún þegar ég sá stutta grein í heiðursramma í Mogganum í dag. Ef hún hefði verið eftir einhvern óbreyttan úti í bæ hefði ég í versta falli afgreitt hana sem kjánalega. En greinin er ekki eftir mann úti í bæ, heldur fjármálaráðherra Íslendinga, Árna M. Mathiesen. Mann sem hefur gegnt ráðherraembættum árum saman, sýnt af sér fádæma roluskap og spillingu auk þess að hafa sáralítið sem ekkert til málanna að leggja og neita að upplýsa um fjárhagsleg tengsl sín við bankastofnanir. Hann ætlar nú að hækka skatta og ótalmargt fleira sem var m.a. rætt í Kastljósi í gærkvöldi eins og sjá má hér.
En fjármálaráðherra fjallaði ekki um skattamál og ég er ekki alveg búin að átta mig á tilgangi greinarinnar og hvað ráðherranum gengur til með birtingu hennar, en tökum dæmi: "Við uppfærslu fjárlaga er lagður grunnur að framkvæmdum sem í verður ráðist á næsta ári. Skiptir máli að þær séu vel ígrundaðar, og forgangsraðað verði út frá eftirfarandi forsendum: Þær séu arðbærar til skemmri og lengri tíma, séu mannaflsfrekar, bæði á undirbúnings- og framkvæmdatímabili, skapi atvinnu á því svæði þar sem mest hefur dregið úr atvinnuframboði og kalli ekki á mikinn innflutning aðfanga." Hvað er Árni að tala um hér? Þó ekki virkjanir og álver! Þá er hann enn meiri kjáni en ég hélt. Hér hefur komið fram hver sérfræðingurinn á fætur öðrum undanfarnar vikur og varað við slíku óráði sem fælist í því að slá enn fleiri og hærri lán í útlöndum - ef þau þá fást. Þjóðin er gjörsamlega að drukkna í skuldafeni og ekki er á bætandi.
Ég gæti tínt til ótal fleiri ástæður en í bili nægir að nefna eiturefnið brennisteinsvetni sem jarðgufuvirkjanir þær sem áætlað er að reisa til að knýja álverin í Helguvík og á Bakka spúa út í andrúmsloftið. Ég hef skrifað um málið margoft á þessum vettvangi - til dæmis hér, hér, hér, hér og hér svo eitthvað sé nefnt. Í tónspilaranum eru 15 viðtöl við lærða og leika, sérfræðinga og vísindamenn auk fréttaumfjöllunar. Til hægðarauka fyrir þá sem vilja hlusta merkti ég efnið A00 til A14 svo það raðast efst í spilarann. Ég hvet fólk eindregið til að hlusta - og horfa svo á þessar fréttir af RÚV í gær og fyrradag. Þarna er reyndar ekki fjallað um þá hættu sem mannfólkinu getur stafað af brennisteinsvetnismengun - og ég er ekki að tala um lyktmengun. Ætlar Árni að eitra fyrir okkur ofan á allt annað?
Fleira mætti tína til úr þessari litlu grein fjármálaráðherra en hér er hún. Misskil ég greinina kannski - eða þetta brot úr henni sem ég tók út? Og er Árni sá maður sem hefur efni á að hvetja til samheldni og samstarfs? Hefur hann sýnt sig vera verðugan fulltrúa almennings sem fólk ætti að flykkjast á bak við og sýna samstöðu?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
12.12.2008
Kona er nefnd...
Ég sá viðtal við hana í sjónvarpinu fyrir tveimur eða þremur árum hjá Evu Maríu. Konan heillaði mig gjörsamlega. Ég man ekki eftir viðlíka upplifun af bláókunnugri manneskju. Persónutöfrar hennar, eðlisgreind, gáfur og heilbrigð skynsemi gneistuðu í gegnum skjáinn og inn á gafl hjá mér. Hún talaði um lífið eins og gestir Evu Maríu gera, barnæsku, unglingsár, námsárin í Bandaríkjunum, störf þar og lífið eftir heimkomuna. Ég hafði aldrei heyrt konunnar getið og mér lék mikil forvitni á að vita hver hún væri.
Í viðtalinu kom fram að hún hafi unnið um tíma hjá fyrirtæki þar sem ég þekki til. Ég spurðist fyrir og það var eins og við manninn mælt - þeir sem ég spurði fengu stjörnur í augun þegar ég minntist á hana. Allir söknuðu hennar þótt hún hafi staldrað stutt við, allir dýrkuðu hana og dáðu, sögurnar af henni voru stórkostlegar. Miðað við áhrifin sem hún hafði á mig eftir eitt sjónvarpsviðtal kom það ekki á óvart.
Nokkru seinna var ég í stóru hófi og var kynnt fyrir þessari konu. Ég hrósaði henni fyrir viðtalið og hafði orð á því að ef hún einhvern tíma stofnaði eigin fyrirtæki myndi ég gjarnan vilja vinna hjá henni. Til að árétta að mér hefði verið alvara sendi ég henni tölvupóst daginn eftir og fékk vingjarnlegt svar. Kannski fór hún hjá sér og þótti þetta óþægilegt, hver veit? Kona þessi stofnaði eigið fyrirtæki eins og ég vissi að hún myndi gera, en hún hefur ekki ennþá boðið mér vinnu og ég ekki sótt um. Ég er ekki viss um að bransinn hennar henti mér.
Mér varð hugsað til þessarar konu í kvöld eftir aulahrollinn sem ég gagntók mig við að hlusta á viðtalið við forstjóra Fjármálaeftirlitsins í Kastljósi og aumt yfirklór hans um spillingar- og krosstengsl banka, skilanefnda og endurskoðenda. Þvílíkur munur væri nú ef þessi kona væri þar við stjórn en ekki þessi flóttalegi, óöruggi, hálfstamandi maður sem er svo gjörsamlega vanhæfur í starfi að manni hrýs hugur við þeim völdum sem hann hefur í krafti embættisins. Þetta er það sem hefst upp úr pólitískum mannaráðningum þar sem flokksskírteini er rétthærra en hæfni og hagsmunir Flokksins látnir ganga fyrir hagsmunum þjóðarinnar.
Hér eru nokkur myndbrot með viðtölum við konuna en því miður á ég ekki áðurnefnt viðtal sem ég sá fyrst. Það var gjörólíkt þeim sem birtast hér að neðan, ekkert rætt um pólitík eða fjármál. En ímyndið ykkur það sama og ég - mynduð þið treysta henni betur fyrir allri þeirri ábyrgð og því valdi sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins hefur? Eða Seðlabankanum? Ég óttast mest að hún hafi engan áhuga á embættum ríkisins.
Konan heitir Halla Tómasdóttir og stofnaði og rekur ásamt fleiri konum fjárfestingarsjóðinn Auður Capital. Hún hefur unnið að því, og fengið viðurkenningar fyrir, að stuðla að jafnrétti og var ein frumkvöðla að verkefninu Auður í krafti kvenna hér um árið. Ég veit ekki hvort Halla er flokkspólitískt þenkjandi eða starfandi í stjórnmálaflokki en mér er alveg sama. Sem einstaklingur er hún geysilega öflug manneskja sem ég myndi treysta. Gott dæmi um ástæður þess að hafa persónukjör í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna - þvert á lista. Hlustið á Höllu í þessum myndböndum.
Hádegisviðtalið á Stöð 2 - 14. mars 2008
Markaðurinn hjá Birni Inga 15. nóvember 2008
Takið sérstaklega eftir hvað Halla segir um stjórn Seðlabankans og varamannssetu sína í henni
Kastljós (ásamt Óla Birni) 18. nóvember 2008
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
11.12.2008
Björgvin G. í brennidepli og stórum dráttum
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, er í brennidepli þessa dagana. Hvort sem það er af hans eigin völdum eða annarra virðist hann ekki hafa verið hafður með í einu eða neinu og heldur ekki fylgst með að eigin frumkvæði. Ekki veit hann sitt af hverju sem átti að vera ljóst og hafði verið á margra vitorði um alllangt skeið. Segir hann satt eða ósatt? Alla ráðherratíð sína hefur hann þó verið með aðstoðarmann í fullu starfi og nú einnig upplýsingafulltrúa - auk starfsfólksins í ráðuneytinu auðvitað. En hann kemur samt hvað eftir annað af fjöllum með hvert málið á fætur öðru, blessaður, enda virðast þeir þrír ekki tala mikið saman af þessu að dæma. Traustvekjandi? Maður spyr sig hvort þessir piltar vinni fyrir laununum sínum - sem við borgum og eru örugglega ekki skorin við nögl.
Ég efast ekki um að Björgvin sé ljúfur drengur, en furða mig æ oftar á því hvaða duldu hæfileikar gerðu hann hæfan í þetta embætti. Hann er ekki einu sinni dýralæknir, hvað þá íþróttakennari. Ekki það að menntun manna skipti öllu máli - ég veðja frekar á heiðarleika, greind og almenna þekkingu og skynsemi. Og hvað er hann búinn að vera að gera í eitt og hálft ár? Ég man best eftir skóflustungunni í Helguvík.
Í tilefni af viðtalinu við Björgvin í Kastljósi í gærkvöldi gróf ég upp fleiri viðtöl úr gullastokknum. Ég ætla ekki að segja margt um þau, dæmi hver fyrir sig um þau orð sem hann lætur falla í þessum viðtölum. Skoðun á hlutunum í sögulegu ljósi er alltaf áhugaverð og undanfarna tvo og hálfan mánuð hafa hlutirnir gerst svo hratt og breyst með hraða ljóssins frá degi til dags þannig að í dag er gærdagurinn orðinn sagnfræði. Öðruvísi mér áður brá.
Fyrsta viðtalið er frá 29. maí 2007, skömmu eftir að Björgvin varð ráðherra. Athygli vekur ákafi hans við að koma í gegnum þingið frumvarpi sem auðveldar útrásarbarónum og bönkunum að leika sér með fjármuni erlendis sem endaði með hundraða milljarða féflettingu sem við og afkomendur okkar þurfum að borga. Ef hann yrði spurður um þetta nú kæmi líkast til þreytta klisjan: "Ég gat ekki vitað á þessum tíma..." o.s.frv. Þó var staða mála á þessum tíma þannig að lokað hafði verið á erlend millibankalán til íslenskra banka og því tóku þeir á það ráð að fjármagna sukkið með sparifé grandalausra útlendinga víða um Evrópu - og okkar peningum. Þetta hefði átt að hringja einhverjum bjöllum einhvers staðar en gerði greinilega ekki. Ráðamenn í siðmenntuðum löndum reka menn og segja af sér fyrir margfalt minni sakir.
Næst kemur viðtal í Mannamáli 11. nóvember 2007. Þarna er Björgvin í góðum félagsskap annars ráðherra ríkisstjórnarinnar, Árna Mathiesen, fjármálaráðherra.
Þá er það Hádegisviðtalið á Stöð 2 frá 18. mars 2008.
Því næst Kastljós 30. september 2008 ásamt Valgerði Sverrisdóttur,
Nú er skammt stórra högga á milli og næst kemur Kastljós 24. október 2008. Þar ræðir Björgvin um fund sinn með Darling.
Hér er svo viðtal í Íslandi í dag 27. nóvember 2008.
Björgvin er hér í Markaðnum hjá Birni Inga 6. desember 2008.
Loks er það Kastljós í gærkvöldi, 10. desember 2008.
Er ég að gleyma einhverju? Ef fólk man eftir fleiri áhugaverðum viðtölum við Björgvin er það vinsamlegast beðið að láta mig vita. Líkur eru á að ég eigi það í fórum mínum en það er svo fjári tímafrekt að leita í öllu þessu efni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)