Færsluflokkur: Dægurmál

Lögleg svik, spilling og þjófnaður

Jón SteinssonÍ Silfrinu á sunnudaginn var símaviðtal við Jón Steinsson, hagfræðing í Bandaríkjunum, sem var afskaplega athyglisvert og er algjört skylduáhorf og hlustun. Því miður rofnaði símasambandið og náðist ekki aftur fyrr en síðast í þættinum svo ekki er víst að fólk hafi náð því sem Jón var að segja í samhengi. Ég klippti saman viðtalsbrotin tvö til að samtalið kæmi út sem ein heild.

Það sem Jón er að segja er allt í senn óhugnanlegt, ótrúlegt og að því er virðist rétt - því miður. Þetta er nokkuð sem verður að ráða bót á strax - helst í síðustu viku - því þetta er hluti af þeim ógeðslega spillingarleik sem hefur grasserað og er verið að leika í íslensku þjóðfélagi ennþá.

Þeir Jón og Egill nefna Fjárfar, alveg ótrúlega vafasamt skúffufyrirtæki sem var hluti af Baugsmálinu. Ég er búin að kynna mér það mál svolítið - alls ekki nóg samt, þessi mál eru mjög flókin fyrir manneskju eins og mig sem fylgdist aldrei með fjármála- eða viðskiptalífinu - en ég bendi fólki á að kynna sér það endilega hér. Þetta mál er hreint með ólíkindum.

Lokaorð Jóns t.d. eru alvarleg viðvörun - leturbr. og innskot eru frá mér:

"Jón:  ...allt fólkið sem hefur verið efnað á Íslandi í gegnum tíðina, en er í dag gjaldþrota, er með undraskömmum hætti orðið efnað á ný. Við bara megum ekki láta þetta gerast. Við verðum að hafa alvörueftirlit með því sem er að gerast inni í þessum risastóru bönkum sem nú eru á ábyrgð skattgreiðenda.

Egill: Þú meinar að sömu aðilar geti notfært sér þetta ástand til að ná einhvern vegin aftur undir sig samfélaginu.

Jón:  Þeir eru í kjöraðstæðum til þess. Þeir þekkja fyrirtækin, þeir vita hvernig er hægt að búa til einhverja díla sem hljóma eins og þeir meiki einhvern sens fyrir ríkið en eru í rauninni eitthvað allt annað. Og á meðan staðan er þannig að þetta er ekkert allt uppi á borðinu í fyrsta lagi... það eru ekki skýrar reglur um það hvernig sölu eigna og endurmati skulda er háttað innan bankakerfisins... og á meðan þetta er ekki uppi á borðinu þá er þessi hætta til staðar. Þetta eru kjöraðstæður fyrir svona látalæti vegna þess að í dag er erfiðara en nokkru sinni fyrr að átta sig á því hvað sannvirði eigna er.

Egill:  Kjöraðstæður fyrir spillingu.

Jón:  Kjöraðstæður fyrir spillingu.

Egill:  Þú treystir þá ekki því sem er að gerast inni í bönkunum?

Jón:  Nei, ég hef miklar áhyggjur af því. Í fyrsta lagi þarf verklagsreglur. En í öðru lagi er bara ekki hægt að komast hjá því að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar (innsk.: þingmenn), sem bera ábyrgð gagnvart þjóðinni, séu virkir í eftirliti. Ég hef miklar áhyggjur af því, að það sé ekki þannig - ekki nægilega mikið. Það þarf toppfólk í það. Fólk sem hefur djúpan skilning á fjármálaleikfiminni sem innherjarnir munu bera á borð. Þegar þessi flóknu mál koma á borðið hjá bankaráðum bankanna eða fjármálaráðherra (innsk.: Árna Mathiesen) eða viðskiptaráðherra (innsk.: Björgvin G.) þá þurfum við að hafa aðila í þeirra stöðum sem geta skilið þessa díla til að þeir semji ekki af sér fyrir hönd þjóðarinnar. Ég er því miður ekki viss um það að aðilarnir í þessum stöðum á Íslandi í dag hafi nægilega djúpan skilning á því erfiða verkefni sem er fyrir höndum hjá þeim."

Jón Steinsson í Silfri Egils 7. desember 2008

Hér eru svo tvær nýlegar blaðagreinar eftir Jón Steinsson þar sem hann fjallar um spillinguna á Íslandi. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Fréttablaðið 3. desember 2008

Jón Steinsson - Fréttablaðið 3.12.08

Morgunblaðið 27. nóvember 2008

Jón Steinsson - Moggi 27.11.08


Þingmenn bornir út

Atburðir gærdagsins séðir með augum Henrýs Þórs.

Lögreglan ber þingmenn út úr Alþingi


Sprengjuregn spillingar

KastljósKastljós varpaði sprengjum í kvöld og fylgdi eftir ýmsu sem hefur verið að leka út, að nokkru leyti í fjölmiðlum en mest á bloggsíðum og í athugasemdum. Þótt ég og örugglega fleiri séum komin með upp í kok og meira til þakka ég Kastljóssfólkinu fyrir og hvet það til frekari dáða. Heldur vil ég halda áfram að fá dagleg áföll og að tekið sé á þeim en að þessi spillingarsori verði látinn viðgangast í laumi. Haldið áfram að grafa upp og segja frá, gott fólk!

Svo rífur þingflokksformaður Samfylkingarinnar kjaft við Atla Gíslason og segir að við höfum "lent í því" að bankakerfið hafi hrunið eins og það sé afsökun fyrir þeirri spillingu og þeim forkastanlegu vinnubrögðum sem viðgangast NÚNA við afskriftir skulda fyrirtækja, sölu þeirra sem Atli segir ólöglega, rannsóknir á gömlu bönkunum o.fl. o.fl. Umboðsmaður alþingis gagnrýnir og gagnrýnir en ríkisstjórnin hlustar ekki. Atli vitnaði í skýrslu Umboðsmanns og Lúðvík segir bara: "Hér er haldið áfram með ítrekaðar ásakanir"! Mér heyrðist Lúðvík vera steinhissa og undrandi á að það skuli ríkja mikil tortryggni í þjóðfélaginu. Hvaða rugl er þetta?

Laganefnd Lögmannafélags Íslands leggst gegn samþykkt frumvarps um rannsóknarnefnd vegna bankahrunsins eins og það var lagt fyrir Alþingi. Nefndin vill víðtækar og veigamiklar breytingar á frumvarpinu. Ýmsir lögmenn og fræðimenn í lögfræði hafa lýst áhyggjum yfir að lagasetning í kjölfar bankahrunsins hafi verið óvönduð og flaustursleg. Fjallað var um þetta og rætt við Evu B. Helgadóttur, formann laganefndar, í Speglinum. Hlustið, þetta er grafalvarlegt mál.

Enn og aftur kemur viðskipta- og bankamálaráðherra af fjöllum. Hann vissi ekki af rannsókn KPMG á viðskiptum gamla Glitnis sem staðið hefur yfir í tvo mánuði! Þó er Björgvin með einn aðstoðarmann og einn upplýsingafulltrúa í fullri vinnu á kostnað okkar við að upplýsa hann um menn og málefni og hefur fjölskyldutengsl inn í gamla Glitni. Ég held að Björgvin og allir hinir ráðherrarnir ættu að hlusta á það sem Birgir Hermannsson, stjórnmálafræðingur, sagði í Silfrinu á sunnudaginn um pólitíska ábyrgð. Ég klippti það sérstaklega út fyrir þau:

Ég legg svo til að fólk lesi t.d. þetta og þetta hjá Agli. Bloggið hans Egils Helgasonar er nauðsynleg lesning fyrir alla og þótt athugasemdirnar séu margar og æði misjafnar leynast þar gullmolar inni á milli. En horfið á Kastljósið ef þið eruð ekki búin að því. Ég er búin að horfa tvisvar og þetta er svo þétt efni og mikið af upplýsingum að ég þarf að horfa oftar.

Svo er fólk að hæðast að mótmælum og borgarafundum og þeim sem eru nógu gagnrýnir í hugsun til að vilja mótmæla svona vinnubrögðum. En það nennir ekki að mæta sjálft og ber fyrir sig veðri, ræðumönnum sem hugnast þeim ekki eða einhverjum ímynduðum hægri/vinstri stöðlum! Málið snýst bara ekki um það heldur að leggja sitt af mörkum, taka þátt í að mótmæla endalausri spillingu og óheiðarleika og krefjast umbóta. Þverpólitískar aðgerðir sem krefjast eingöngu nærveru okkar. Gerður Kristný og Stefán Pálsson ræddu um mótmæli í Íslandi í dag í gærkvöldi.


Vek athygli á þessu...

Páll Ásgrímsson - Moggi 9. des. 08

og þessu (smellið í læsilega stærð)...

Fundað vegna Icesave - Moggi 9. des. 08

og þessu...

Björgvin Guðmundsson - Moggi 9. des. 08

og í tengslum við það þessu...

Fámennt meðal þingmanna og ráðherra - Ljósm. Mbl. Kristinn

Steingrímur J., Helgi Hjörvar og Guðjón Arnar sátu í salnum. Af þeim 63 sem við borgum laun og voru boðnir mættu semsagt 6 að Björgvin G. meðtöldum. Hvað ætli margir hafi mætt í árlegan kvöldverð Forseta Íslands á Bessastöðum 1. desember sl.? Eða var sparað í kreppunni og kvöldverðurinn sleginn af?

Viðbót: Gerið það svo fyrir mig að lesa þetta sem er stytt og endursagt héðan. Hugsið ykkur ef við hefðum svona mann í Seðlabankanum. Þvílíkur munur væri á ástandinu þá! Og hér eru mjög athyglisverðar niðurstöður skoðanakönnunar.


Fjölmennur og heitur borgarafundur

Frá hægri: Heiða skessa, dóttlan hennar, ég. Ljósm. Mbl. KristinnMikið vildi ég að borgarafundurinn í gærkvöldi hefði verið sendur út í beinni eins og sá síðasti. Mér finnst það eiginlega vera skylda RÚV, sjónvarps allra landsmanna, að gefa fólki um allt land kost á að vera með að svo miklu leyti sem það er hægt í gegnum sjónvarpið. Og öllum þeim, sem komast ekki út úr húsi einhverra hluta vegna. Það var ekki einu sinni útvarpað frá fundinum og það fannst mér aumt. Vonandi fjalla prent- og netmiðlar vel um fundinn. Þetta eru engar venjulegar aðstæður sem við búum við núna og fjölmiðlum ber skylda til að miðla því sem er að gerast til allra Íslendinga, heima og erlendis.

Þarna voru saman komnir nokkrir af helstu forystumönnum verkalýðsfélaga og eitthvað af lífeyrissjóðsforkólfum. Og einn ráðherra sem átti bágt, Björgvin G. Á honum stóðu ansi mörg spjót. En hann má eiga það að hann reyndi og svaraði einstaka spurningum afdráttarlaust. Eins og til dæmis því hvort Davíð Oddsson sæti ekki í Seðlabankanum í skjóli SamÁsta Rutfylkingar alveg eins og Sjálfstæðisflokks. Því svaraði hann játandi. Og þegar hann var spurður hvað honum fyndist um að bankamálaráðherra og seðlabankastjóri hittust ekki né ræddust við í heilt ár. Björgvin sagði að auðvitað væri það fáránlegt. Hann fékk líka yfir sig nokkrar eftirlaunafrumvarpsgusur og getur varla hafa liðið mjög vel undir þeim ósköpum. Annars fékk ég á tilfinninguna að honum sé farið að ofbjóða - sem manneskju. Og skyldi engan undra. Annars er Gylfi Arnbjörnsson efni í stjórnmálamann af gamla skólanum, hann fór eins og köttur í kringum heitan graut og svaraði spurningum út og suður. Hitti aldrei í mark.

Fólk gaf upp við hvað launin þeirra eru miðuð. Aðeins Gunnar Páll hjá VR er með "markaðslaun" eins og hann orðaði það. Sem þýðir að á meðan lægsti taxti umbjóðenda hans er 140.000 er hann með um 1.700.000. Traustvekjandi verkalýðsforingi, eða hitt þó heldur. Auðvitað á að gera eins og Guðmundur Gunnarsson og náunginn frá Trésmíðafélaginu - þeirra laun miðast við taxta sem þeir semja um fyrir umbjóðendur sína. Mig minnir að fleiri hafi svarað í þeim dúr og þannig á það að vera.

Vésteinn GautiHrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, sagði að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki tapað jafnmiklu og talið var í fyrstu - en ekki gat hann gefið upp neinar prósentur. Svo sagði hann að Fjármálaeftirlitið hefði eftirlit með áhættufjárfestingum lífeyrissjóðanna og þá var hlegið dátt í salnum. Greinilega enginn sem treystir eftirlitinu því, enda hefur það brugðist hlutverki sínu hrapallega - en samt hefur engum verið vikið frá sem þar eru í forsvari. Skrýtið.

Ásta Rut Jónasdóttir og Vésteinn Gauti Hauksson voru frummælendur auk Gylfa ASÍ. Þau voru bæði fantagóð og bæði lögðu þau út af sínum persónulegu högum. Aðstæður þeirra eru svipaðar og hjá okkur öllum sem erum með verðtryggð húsnæðislán. Vésteinn og konan hans hafa ákveðið að taka hjónabandið og hamingjuna fram yfir þrældóm fyrir skuldahítina til æviloka og honum létti við að taka þá ákvörðun. Það eiga örugglega fleiri eftir að feta í fótspor þeirra. Sáuð þið viðtalið við hann í Kastljósinu í síðustu viku? Það er hér:

En RÚV var ekki alveg fjarri góðu gamni og fjallaði um fundinn í Kastljósi og Tíufréttum sem ég klippti saman. Ég bjóst alveg eins við að heyra eitthvað á þessa leið: "Mörg kunnugleg andlit voru á fundinum frá flokksráðsfundi Vinstri grænna..." í stíl við það sem Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir sagði í kvöldfréttum Sjónvarpsins í fyrrakvöld. Ég stimplaði það inn og glotti við tönn. En fréttakonur kvöldsins féllu ekki í þá pólitísku áróðursgryfju.

Vonandi fáum við góðar frásagnir af fundinum í fjölmiðlum í dag. Þetta var mjög góður fundur að mörgu leyti og verður þess að fá vandaða umfjöllun. Þótt hann hafi ekki verið jafnfjölmennur og sá síðasti voru nálægt 1.000 manns þarna og mikil stemmning.


Andskotinn hafi það!

Ég var að bisa við að sýna skilning og vera kúl þegar ég afsakaði þá sem mættu ekki á mótmælin á Austurvelli - af hvaða ástæðu sem það var. Reyna að átta mig á sinnuleysinu sem hefur valdið því að fjöldinn á Austurvelli hefur mest náð um 10.000 manns þótt ég viti fyrir víst að 90% þjóðarinnar er óánægð með ástandið og vildu gjarnan mæta - ef þeir bara nenntu því. Auðvitað eru ótalmargir löglega afsakaðir en samt... Ég er pirruð. Mótmæla- og borgarafundirnir eru ekki skemmtisamkomur þar sem hæfir að diskútera kynhneigð eða handapat fundarstjóra og klæðnað eða einstakar setningar ræðumanna. Á þá mætir fólk til að senda skilaboð frá þjóðinni til yfirvalda. Skilið?

Ætli það hafi verið fullt í Kringlunni og Smáralind? Eða Hagkaupinu hans Jóns Ásgeirs sem er svo rosalega góður strákur að ætla að lána fólki fyrir jólunum í hálft ár! Nennið þið að borga fyrir jólin fram í júní? Er víst að þið getið það? Viljið þið virkilega láta Jón Ásgeir njóta góðs af kannski síðustu aurunum ykkar áður en þið missið vinnuna eða íbúðina? Sáuð þið þetta?

Tvennt varð til þess að ég ákvað að skammast svolítið yfir sinnuleysinu - og ég nenni ekki að hlusta á kjaftæði um að ykkur líki ekki þetta eða hitt við fundina á Austurvelli eða borgarafundina - ræðumenn, fundarstjóra eða hvað sem fólk er að setja fyrir sig og hnýta í. Málið snýst nefnilega alls ekki um það heldur framtíð okkar allra, barnanna okkar og barnabarnanna - og það fólk sem rændi okkur aleigunni, ærunni og orðstírnum og ætlar að ræna því sem eftir er af landinu sjálfu og auðlindum þess. Yfir okkur hellast upplýsingar á hverjum einasta degi um fláræði, heimsku, lítilsvirðingu, glannaskap, kæruleysi, lygar, leyndarmál, spillingu, mútur, óheiðarleika og allt sem nöfnum tjáir að nefna - og hvað gerir fólk í því? Ekkert. Muldrar í barminn en tekur ekki þátt í að segja skoðun sína þótt ekki sé nema að sjá af klukkutíma í viku til að mæta á mótmælafund. Lætur aðra um að skipuleggja og mæta í þeirri von að kannski breytist eitthvað einhvern tíma. Ja, hérna! Er ekki kominn tími til að vakna?

Það verður borgarafundur í Háskólabíói í kvöld - aftur. Síðast var troðfullt og gott betur. Verður troðfullt aftur í kvöld? Ég ætla bara rétt að vona það! Vitið þið hvað á að fjalla um? Ekki, nei? Ég skal segja ykkur það - lífeyrissjóði og stéttarfélög. Þar eiga að sitja fyrir svörum mennirnir sem eiga annars vegar að sjá til þess að við fáum mannsæmandi laun og hins vegar mennirnir sem bera ábyrgð á því að lífeyrisþegar nútímans og framtíðarinnar - við - eru búnir að glata stórum hluta af aurunum sem þeir ætluðu að lifa á í ellinni. En þeir eru allir með roknalaun og hafa engar áhyggjur af okkur.

Mennirnir sem eiga að sjá til þess að við fáum mannsæmandi laun eru búnir að missa öll tengsl við umbjóðendur sína. Þeir hafa varla sést síðan efnahagshrunið varð fyrir rúmum tveimur mánuðum. Gylfi ASÍ tuðar um Björgvin og ESB en hefur ekkert sagt eða gert til að verja og vernda þá sem honum ber að vernda - launþega þessa lands. Hafa þeir tjáð sig um uppsagnirnar? Ekki svo ég viti.

Og þessi náungi, sem stýrir stærsta stéttarfélagi landsins, var með 1,7 milljónir á mánuði árið 2007. Sat í sukkstjórn Kaupþings, fékk hálfa milljón fyrir hvern fund og tók þátt í að fella niður ábyrgð á milljarðaskuldum starfsmanna Kaupþings sem þið þurfið nú að standa skil á. Hvað annað samþykkti hann fyrir 500 þúsund á fund? Eruð þið sátt við svona spillingu og slík ofurlaun manna sem klúðra málunum?

Hafið þið skoðað launaseðlana ykkar og séð hvað þið eruð að borga í lífeyrissjóð? Þið borgið 4% og launagreiðandinn borgar helmingi meira, eða 8%. Þetta eru allt YKKAR peningar, nóta bene. Og hvað gerðu þeir við þá, mennirnir sem áttu að varðveita þá fyrir ykkur þangað til þið þurfið á þeim að halda? Þeir stunduðu fjárhættuspil og töpuðu þeim!

Ég er einyrki, þ.e. sjálfstætt starfandi, ekki launþegi. Af hverjum 100 þúsund kalli þarf ég að borga 12.000 í lífeyrissjóð, bæði framlag launþega og atvinnurekanda. Þegar lögin voru sett ca. árið 2000 um að allir væru skyldugir til að borga í sameiginlega sjóði þá hringdi ég vítt og breitt til að athuga hvort ég mætti í staðinn leggja mín 12% inn á reikning í banka sem haft yrði eftirlit með. En nei, ég varð að borga í sameiginlegan sjóð en mér var frjálst að bæta við í séreignarsjóð - eins og ég hefði efni á að borga meira. Og nú hefur komið í ljós að lífeyrissjóðir landsmanna hafa ástundað áhættufjárfestingar og tapað stórum hluta af peningunum mínum. Kannski áttar fólk sig ekki á því hvað lífeyrissjóðirnir hafa tapað miklu af peningum þess, ég veit það ekki - en það eru miklir peningar. Ég þekki fólk sem hefur tapað milljónum og sér varla fram á að skrimta þegar það hættir að vinna - sem við þurfum öll að gera einhvern tíma.

Ég nefndi hér að ofan að það hefði verið tvennt sem varð til þess að ég ákvað að skammast svolítið. Annað var þessi flotti bloggpistill Baldurs McQueen, eðalbloggara. Hitt var þessi skopmynd Henrýs Þórs. Og hananú!

Ágrip af sögu mótmæla á Íslandi

Eftir þennan reiðilestur er aðeins eitt eftir - að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að fjölmenna á borgarafundinn í Háskólabíói í kvöld kl. 20 og heyra hvað forsvarsmenn verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða hafa að segja um þátt sinn í hruninu og hvað þeir sjá fram undan. Þjarma að þessum fánaberum almennings sem hafa glatað sýn á tilgang þeirra félaga sem þeim er rausnarlega borgað fyrir að sinna. Þetta kemur okkur öllum við, andskotinn hafi það!

 Borgarafundur í Háskólabíói 8. des. 2008


Fámennt en góðmennt á Vellinum

Það var fámennara á Austurvelli í gær en undanfarna laugardaga og grassvæðin voru eitt forarsvað eftir frostið og þíðuna. Fækkunin kom ekki á óvart. Eftir því sem nær dregur jólum verður fólk æ uppteknara af smákökubakstri, innkaupum og öllu mögulegu sem tilheyrir jólaundirbúningnum. Svo er skólafólk í prófum og upplestri, allir mögulegir og ómögulegir viðburðir eru úti um allt, s.s. jólatónleikar Björgvins Halldórssonar, skólakórajólatónleikar, jólabasarar og þar fram eftir götunum. Flestir hafa bara helgarnar til að sinna hlutunum og það er bara gott að þeir geri það. Maður verður líka að gefa sér tíma til að sinna sér og sínu fólki þegar tækifæri gefst, svo ég tali ekki um fyrir jólin.

Ég hef enga trú á því að fólk trúi dúsum ríkisstjórnarinnar eða haldi, eftir allt sem hefur gengið á í vikunni, að ástandið sé eitthvað skárra en það er í raun. Held raunar að fæstir geri sér almennilega grein fyrir því hvað það er hrikalega slæmt og hrædd er ég um að það eigi eftir að versna til muna. Fólk vill bara ekki trúa því ennþá. Reiðin í þjóðfélaginu magnast hægt og sígandi en reiði er orkufrek og slítandi tilfinning

Í fréttum RÚV var athyglisverð umfjöllun um þátt bloggsins og netmiðla í lýðræðislegri umræðu í þjóðfélaginu. Talað var við Salvöru og Jónas, gamalreynda bloggara. Þau hafa alveg hárrétt fyrir sér og ég hef nefnt svipaða hluti í skrifum mínum nokkrum sinnum. Hengdi fréttina aftan við  umfjöllun um mótmælin í gær.


Þetta viðtal við Björgvin G. Sigurðsson er harla merkilegt og þar kennir ýmissa grasa. Eftir að hafa hlustað á það spyr maður sig hvað Björgvin sé að gera í ríkisstjórn sem lætur kyrrt liggja hvernig seðlabankastjóri kemur fram við bankamálaráðherrann - ítrekað. Skilur það einhver? Þessu tengt t.d. hér.

Svo er hér mynd sem ég hnuplaði af netmiðli. Hvað er Ingibjörg Sólrún að gera á mótmælafundi á Austurvelli? Svarið er hér.

Mótmæli á Austurvelli


Góðar hugmyndir eru sígildar

Fyrir nokkrum dögum bárust mér skilaboð frá góðum bloggvini með hugmynd sem mér þótti fjári góð og lofaði að koma áleiðis. Ég gleymdi mér og er svolítið sein á ferðinni með hana, en gjörningurinn sem í henni felst er sígildur og á við jafnt framvegis sem í dag.

Hugmyndin er þessi: Flestir eiga gamla lykla sem þeir hafa ekki not fyrir, vita ekki að hverju þeir eru eða hafa gleymt því... semsagt - ónothæfa aukalykla. Hengjum lykil í band, t.d. jólaborða, mætum með lykilinn á Austurvöll kl. 15 á laugardögum og hengjum hann á norska jólatréð. Þetta er táknrænn gjörningur og verður æ táknrænni eftir því sem fleiri annað hvort gefast upp á að borga síhækkandi afborganir á verðtryggðum húsnæðislánum eða missa heimili sín. Skilum lyklunum!

Slíkur gjörningur, táknrænn sem hann er, væri mjög í ætt við þetta atriði Spaugstofunnar frá 22. nóvember sl.


Hótanir Tortímandans

Ég held að ekki þurfi að skýra neitt frekar þessar myndir frá Halldóri og Henrý Þór.

Halldór Baldursson - Mbl. 5. desember 2008

Henrý Þór - www.henrythor.blogspot.com


Stórmerkilegt viðtal

Nú hlýtur Samfylkingin að gera eitthvað í málinu. Ætli Össur mæti á Austurvöll kl. 15 í dag? Nógu er hann reiður. Og athyglisvert sem Geir segir að þeir Davíð hafi talað saman ótal sinnum um "þessi mál" - en samt gerðu þeir aldrei neitt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband