Færsluflokkur: Dægurmál

Getur Árni Mathiesen ekki gert NEITT rétt?

Mér ofbýður og réttlætiskennd minni er stórlega misboðið. Af hverju eru kálfar og lömb meira metin en börnin okkar?

 ÁFRAM STELPUR!

 
 
Hlustið á Samfélagið í nærmynd á Rás 1 í morgun, föstudag. Ég setti það líka í tónspilarann ofarlega til vinstri.

Að míga í mengaðan sjó... eða skó

Þær fregnir bárust í fyrrakvöld að olíuskip hefði tekið niðri í innsiglingunni í Skutulsfirði á leið inn í höfnina á Ísafirði. Í fréttum Stöðvar 2 var sagt að minnstu hefði munað að alvarlegt mengunarslys hefði orðið, en sem betur fer hafi tekist að afstýra því með snarræði lóðsins.

Þar sem ég hef skrifað talsvert um fyrirhugaða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum og möguleg slys henni tengd rann mér blóðið til skyldunnar og ég hóf að kanna málið. Í skipinu voru 3 milljónir lítra af olíu. Það hefði valdið gífurlegu tjóni ef gat hefði komið á skipið og olían lekið út.

Til að geta borið skipið saman við önnur olíuflutningaskip þurfti ég að vita um burðargetu þess og hringdi í Siglingastofnun við Vesturvör í Kópavogi. Þar lenti ég á bráðskemmtilegum manni, bar upp erindið og fyrr en varði var ég komin í djúpar samræður um frumskóg mismunandi mælieininga á stærðum skipa að gefnum hinum og þessum forsendum. Í ljós kom að þrátt fyrir að vera viðræðuhæfur í betra lagi um útreikninga á stærð skipa var þetta ekki hans sérsvið en hann komst þó að niðurstöðu - án ábyrgðar. Hann ráðlagði mér að hringja í þeirra mann á Ísafirði til öryggis og það gerði ég. Sá lét nú hlutina ekki vefjast fyrir sér og svaraði um hæl: 4.058 tonn. Minn maður í Vesturvör hafði verið glettilega nálægt því.

En áður en lengra er haldið skulum vil líta á frétt Stöðvar 2 af málinu. Ég hef fengið staðfest að 3 milljónir lítra sé rétt tala. 

Eins og allir vita koma hingað til lands fjölmörg olíuskip á hverju ári, færandi varninginn heim. Í Spegilsviðtali þann 28. febrúar sl. sagði Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri hjá N1, að stærstu skip sem hingað koma séu um 25.000 til 30.000 tonn. (Til skýringar skal tekið fram að tonnafjöldi er miðaður við burðargetu skipsins og ekki tekið tillit til eðlisþyngdar farmsins.) Magnús giskar á að þau skip sem kæmu til landsins í tengslum við olíuhreinsistöð yrðu um 100.000 tonn, en tekur fram að hann þekki ekki nákvæmlega til málsins.

Semsagt - 4.058 tonna skip með 3 milljónir lítra af olíu hefði hæglega getað valdið miklu mengunarslysi og gríðarlegu tjóni m.a. á þorskeldi og lífríki hafsins í Skutulsfirði og út í Ísafjarðardjúp. Jafnvel á miklu stærra svæði eftir því hvernig straumar eru á staðnum. Hvaða tjóni geta þá slys á 100.000 tonna skipum valdið sem sigla til landsins um eitt hættulegasta hafsvæði í heimi. Rifjum upp umfjöllun Kompáss frá 29. apríl sl. sem ég birti fyrst hér. Þar er fjallað um hættuna á olíuslysum og mögulegar afleiðingar þeirra. Hlustið vel á Gísla Viggósson, forstöðumann hjá Siglingastofnun.

Falleg framtíðarsýn, eða hitt þó heldur. Ég skil ekki fólkið sem lætur sér detta í hug að reisa olíuhreinsistöð á Íslandi, hvað þá á Vestfjörðum. Ég skil ekki fólkið sem lætur sér detta í hug að börnin þeirra og barnabörnin langi til að vinna í olíuhreinsistöð. Ef það er þá hugsunin á bak við þetta hjá þeim. Ég skil ekki fólkið sem er tilbúið til að fórna hreinni ímynd Íslands og ómetanlegri náttúru og fuglalífi fyrir skammtímagróða. Ég skil ekki lög sem heimila fámennri sveitarstjórn með 345 atkvæði á bak við sig að taka þvílíka ákvörðun í trássi við - sem ég er sannfærð um - eindreginn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar. Ég skil ekki ennþá málflutning annars aðalhvatamannsins að olíuhreinsistöðinni sem ég fjallaði um hér.

Ég kalla eftir skoðanakönnun á landsvísu þar sem spurt yrði hvort fólk vilji olíuhreinsistöð - hvort sem er í Arnarfirði eða annars staðar á landinu - og þá áhættu sem því fylgir að risastór olíuskip sigli til landsins og frá því allan ársins hring í öllum veðrum. Við eigum landið okkar öll - saman - og eigum því öll rétt á að hafa skoðun á því hvernig farið er með það, hvort sem um er að ræða uppistöðulón á hálendinu eða í byggð, álver og virkjanir á suðvesturhorninu, flugvöll í Vatnsmýrinni eða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.

Og af því eiturefnið brennisteinsvetni hefur verið í umræðunni undanfarna daga vegna gróðureyðingar af völdum þess við Hellisheiðarvirkjun minni ég á það sem kom fram í þessum pistli og lesa má nánar um hér "Brennisteinsvetni eða vetnissúlfíð (H2S) er litlaus, eitruð gastegund. Megn lykt er af brennisteinsvetni þó magn þess sé lítið í andrúmsloftinu, það er brennisteinsvetni sem veldur lykt af fúleggjum og jöklafýlu sem gjarnan fylgir hlaupum í jökulsám. Lyktin hverfur hins vegar þegar styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti eykst og það verður lífshættulegt. Það eykur einnig á hættu að brennisteinsvetni er þyngra en andrúmsloftið og getur því lagst í dældir eða safnast fyrir í botnum á geymum og tönkum..." Þar segir ennfremur: "Um 10% af losun á H2S í heiminum er af mannavöldum. Í iðnaði er það einkum í olíuhreinsunarstöðvum. H2S finnst þar sem brennisteinn kemst í samband við lífrænt efni, sérstaklega ef um er að ræða hátt hitastig." (leturbr. mínar)

Og ég skil ekki, og mun aldrei skilja, málflutning aðalleikaranna í þessu myndbandi - sællar minningar.


Vor hreina, baneitraða orka

Þessi stórfrétt birtist fyrst á mbl.is klukkan 13:49 í gær, mánudag. Hún kom í örmynd í fimmfréttum Ríkisútvarpsins en lengri umfjöllun var í kvöldfréttunum klukkan 18 (sjá tónspilara). Hvorug sjónvarpsstöðin var með fréttina í gærkvöldi.

Í tengslum við þessa frétt varð ég vör við, bæði á blogginu og í samtölum við fólk, að þetta kom á óvart. Þekking á jarðhita og jarðhitavirkjunum er ekki mjög almenn og því hefur orkufyrirtækjum, virkjanasinnum og stjórnvöldum reynst auðvelt að telja fólki trú um að jarðhitavirkjun sé hrein, endurnýjanleg og jafnvel sjálfbær - en ekki er minnst á hve mikið er virkjað, hve ágengt og hvernig. Þessi fullyrðing er alröng. Lítum á svolítinn fróðleik úr Veðurmolum Sigga storms sem ég klippti saman og birti hér á blogginu mínu í lok apríl sl.

Eins og þarna kemur fram skiptir máli hvort jarðhitinn er á lághita- eða háhitasvæði. Það sem ekki kemur fram er, að það skiptir líka máli í sambandi við efnamengunina hvort gufan er nýtt til að hita upp kalt vatn til húshitunar auk þess að framleiða rafmagn (Nesjavellir - jarðvarmavirkjun) eða hvort eingöngu er framleitt rafmagn í virkjuninni og efnamengaðri gufunni allri sleppt beint út í andrúmsloftið (Hellisheiðarvirkjun - jarðgufuvirkjun). Að auki er nýting jarðgufuvirkjana ekki nema um 12-13% og 87-88% orkunnar fer því til spillis. Það getur engan veginn talist forsvaranleg nýting á verðmætri orku. Ýmsum hugmyndum hefur verið hent á lofti til að nýta umframorkuna en engin orðið að veruleika ennþá.

En hvernig getur það gerst að gróðureyðing hjá jarðgufuvirkjun sé að koma upp núna? Var ekki framkvæmt mat á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar? Jú, vissulega, en eins og lög um mat á umhverfisáhrifum gera ráð fyrir er það framkvæmdaraðilinn sjálfur sem sér um matið og kostar það, og það er honum að sjálfsögðu mikið í mun að ekki komi neitt fram sem hindrað gæti framkvæmdina. Aðilar sem hann fær til liðs við sig gætu síðan fengið hluta af verkefnunum við framkvæmdirnar svo varla eru þeir hlutlausir heldur, eða hvað? Þetta er svo flókið ferli að það hálfa væri nóg. Svo er Skipulagsstofnun nú aðeins álitsgjafi, ekki úrskurðaraðili, svo þótt hún leggist gegn virkjun af umhverfisástæðum eins og raunin varð með Bitruvirkjun er sveitarfélagi/framkvæmdaraðila og öðrum sem að málinu koma í raun í sjálfsvald sett hvort virkjað er eða ekki.

Svo er það hraðinn - allt þarf að gerast svo hratt af því hitt eða þetta sveitarfélagið er búið að eyða svo miklum peningumHellisheiðarvirkjun í undirbúning sinnar draumaálverksmiðju að það má engan tíma missa í aukaatriði eins og mat á umhverfisáhrifum og slíka endaleysu. Hvað þá að bíða eftir að fram fari heildarmat á téðum umhverfisáhrifum eins og fyrir norðan. Þar er einmitt áætlað að reisa fleiri en eina - kannski fleiri en tvær jarðgufuvirkjanir til viðbótar við Kröflu. Það gæti hindrað áform þeirra ef í ljós kemur við heildstætt mat á umhverfisáhrifum að samlegðaráhrif eitrunar af völdum brennisteinsvetnis gæti deytt gróður og ógnað heilsu stórs hluta Þingeyinga. Annaðhvort gera menn sér ekki grein fyrir þessu eða þeim er alveg sama. Það liggur lífið á að skapa störf þar sem ekkert er atvinnuleysið og innflutt vinnuafl vinnur verkin.

Draumur nýja meirihlutans í Reykjavík er að virkja meira, setja Bitruvirkjun aftur á dagskrá. Óskar Bergsson og Hanna Birna kysstust upp á það þrátt fyrir afar neikvætt álit Skipulagsstofnunar á virkjuninni sem varð til þess að hætt var við hana í maí sl. Einnig á að reisa Hverahlíðarvirkjun sunnan þjóðvegar nr. 1 á Hellisheiði. Þá verða saman komnar á mjög litlu svæði þrjár jarðgufuvirkjanir og ein jarðvarmavirkjun sem allar spúa eiturefninu brennisteinsvetni yfir íbúa á suðvesturhorni landsins sem teljast vera um 200.000.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sem orðinn er einn helsti virkjana- og stóriðjusinni í ríkisstjórninni, ber sér á brjóst í bloggpistli og segir að í grein um jarðhita og umhverfisvernd sem muni birtast í Morgunblaðinu einhvern næstu daga komi fram að þeir hjá iðnaðarráðuneytinu séu alltaf á tánum... Þar er hann að tala um verkefni við rannsóknir á aðferðum til að ná brennisteini úr gufunni. Þessar aðferðir eru ennþá aðeins á tilraunastigi og kannski mörg herrans ár þar til þær verða að veruleika - ef nokkurn tíma. Á meðan er boruð hver holan á fætur annarri og Hengilssvæðið og Hellisheiðin orðin eins og gatasigti eða svissneskur ostur, gróður deyr sem hefur tekið 1000 ár að ná sér upp á ósléttu hrauni og heilsu 2/3 þjóðarinnar jafnvel stefnt í voða með sívaxandi efnamengun.

Þessi tafla birtist með grein í Fréttablaðinu 22. febrúar sl. Hér er mæling á brennisteinsvetni í andrúmsloftinu á einu mælingarstöðinni við Grensás um það leyti sem Hellisheiðarvirkjun var gangsett. Tekið skal fram að enginn mælir er annars staðar í borginni, enginn við virkjunina og enginn mælir í Hveragerði sem þó yrði aðeins í 4.600 metra fjarlægð frá suð-austustu borholu Bitruvirkjunar. Miklu nær en mælirinn á Grensás er Hellisheiðarvirkjun.

Brennisteinsvetni - Grensás - 2006

Í greininni  sem um er rætt segir: "Engin heilsuverndarmörk eru til fyrir almenning á Íslandi um brennisteinsvetnismengun og slík mengun er yfirleitt einungis metin á vinnustöðum. Mengunin í Reykjavík hefur þó margoft farið yfir erlend viðmið, til dæmis þau sem eru í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum, og einnig yfir heilsuverndarmörk Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar." Finnst íbúum á höfuðborgarsvæðinu og Hvergerðingum þetta viðunandi? En Þingeyingum? Er fólk almennt sátt við að láta eitra fyrir sér, börnunum sínum og barnabörnunum?

Þetta er grafalvarlegt mál sem ég er búin að skrifa talsvert um. Ég nefni í því sambandi pistla eins og þennan, þennan og þennan. Ég nefni líka Spegilsviðtöl í tónspilaranum ofarlega vinstra megin á síðunni, t.d. við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í öndunar- og atvinnusjúkdómum og ekki síst Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði. Hlustið á þessi viðtöl.

Að lokum ætla ég að setja inn grein sem birtist í Morgunblaðinu 14. ágúst sl. og er eftir Pálma Stefánsson, efnaverkfræðing. Pálmi er hér að fjalla um áhrif loftmengunar á heilsuna. Hugsið málið og takið afstöðu áður en það verður of seint.

Pálmi Stefánsson, efnaverkfræðingur

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Silfraður Jónas og Agnes í stuði

Ósköp gladdi mig að sjá Silfrið hans Egils aftur í dag. Ég áttaði mig á því hve mjög ég hef saknað þess. Vissulega eru þættirnir misjafnir að gæðum en þessi var fínn og einkar vel til þess fallinn að bera saman umræður "venjulegs fólks" annars vegar og stjórnmálamanna hins vegar. Í fyrri umræðunum fékk fólk að tala og ljúka máli sínu en í þeim seinni reyndu Guðni Ágústsson og Björgvin G. Sigurðsson hvað eftir annað að ná orðinu og töluðu ofan í þá sem höfðu það. Enginn sagði Guðna að þegja í þetta sinn... því miður, liggur mér við að segja. Samt er ég kurteis og vel upp alin.

En stjarna þáttarins var Jónas Haralz, hinn aldni spekingur og fyrrverandi bankastjóri. Ég klippti viðtalið við hann í þrennt og set inn hér að neðan. Hlustið á öldunginn, það er alveg þess virði. Þátturinn allur er hér, halaklipptur að venju en það verður lagað á morgun, trúi ég.


Um efnahagsmálin fyrr og nú - og Þjóðhagsstofnun. Man fólk hver lagði hana niður og af hverju?

 
Um Evrópusambandið, aðildarviðræður og myntbandalag

 
Um virkjanir og stóriðju

 
Og hér talar Agnes Bragadóttir um kæru Árna Johnsen

 
Þessu ótengt - og þó ekki - athyglisverð frétt úr kvöldfréttum Stöðvar 2


Myndskreytt útvarpsefni

Sumir eru jafnari en aðrir, það vita allir þótt við séum langflest afskaplega ósátt við hina gríðarlegu misskiptingu sem nú er orðin á Íslandi. Ljósmæður standa nú í kjarabaráttu og setja fram sanngjarnar kröfur um leiðréttingu á launum sínum sem tæki mið af hinu langa námi sem þær hafa að baki. Þjóðin styður þær heilshugar. Það er ekkert svigrúm, segir dýralæknirinn. En hvað gerist þegar fjallað verður um eftirlaunaósómann og kjaranefnd ákveður launahækkanir "hinna jafnari" í þjóðfélaginu? Verður svigrúm þá sem ekki er núna?

Þegar ég íhugaði fyrst að blogga spurði ég sjálfa mig auðvitað um hvað ég myndi skrifa. Það fyrsta sem kom upp í hugann var útvarpið - Rás 1. Gamla gufan. Vanmetnasta útvarpsstöðin á Íslandi en jafnframt sú langbesta. Hægt væri að skrifa marga bloggpistla um ótalmarga þætti á þeirri eðalstöð. Ég hef þó hingað til látið nægja að nefna nokkra þætti í ýmsum pistlum, vitna í þá og setja þá inn á tónspilarann. Þar er heilmikið útvarpsefni, ýmist heilu þættirnir eða brot úr þeim.

Einn þessara frábæru útvarpsþátta á Rás 1 er Samfélagið í nærmynd sem er á dagskrá alla virka daga milli 11 og 12 á morgnana. Leifur Hauksson er þar fasti punkturinn í tilverunni og hann gerði þennan snilldarpistil. Þegar mér datt í hug á sínum tíma að fjalla um útvarpið hvarflaði samt aldrei að mér að ég ætti eftir að myndskreyta útvarpsefni - en það var ég að gera og afraksturinn birtist hér fyrir neðan. Pistill Leifs hreinlega bauð upp á það, hann var svo myndrænn. Alltaf má gera betur en þetta verður að duga sem frumraun á þessu sviði.

 


Til stuðnings ljósmæðrum

Flest þekkjum við ljósmæður og störf þeirra. Þegar von er á barni vill enginn vera án þeirra. Þegar barnið fæðist eru návist þeirra og sérþekking nauðsynleg. Þegar nýbakaðir foreldrar taka fyrstu skrefin með litla barninu sínu er eftirlit og ráðgjöf þeirra ómetanlegur stuðningur. Mér heyrist að allir í samfélaginu séu sammála því að leiðrétta þurfi kjör ljósmæðra - nema ríkisstjórnin. Fólk úr öllu litrófi stjórnmálanna styður kröfur þeirra. Fagfólk í heilbrigðisstéttum, samstarfsfólkið, styður ljósmæður. Þjóðin stendur með þeim.

Ég setti saman lítið myndband til stuðnings ljósmæðrum og hér fyrir neðan eru tvær góðar greinar sem birtust í Morgunblaðinu í morgun. Ég setti myndbandið líka inn á Youtube - slóðin er hér. Öllum sem vilja styðja ljósmæður er heimilt að setja það inn hjá sér ef þeir vilja.

 

 

Mbl. 4.9.08 - Steinunn Blöndal

 

Mbl. 4.9.08 - Gunnar Skúli


Stórskemmtilegt framtak...

...og vettvangurinn við hæfi. Sumir eru nefnilega jafnari en aðrir!


Pólitískt skemmdarverk í Bolungarvík?

Flestir sem eitthvað þekkja til Vestfjarða og atvinnumála þar vita af hugmyndinni sem Soffía Vagnsdóttir var með í bígerð. Ég las um hana í blöðum og sá teikningu eða líkön af litlu húsunum sem til stóð að byggja. (Man einhver hvenær þetta var í fjölmiðlum svo ég geti fundið það og sýnt hér?) Mér fannst hugmyndin frábær. Passa líka mjög vel við einmitt Bolungarvík og ef hún gengi vel þar gætu önnur þorp á Vestfjörðum prófað eitthvað svipað.

Af þessari frétt að dæma er hinn nýi meirihluti í Bolungarvík að drepa þessa frábæru hugmynd. Af hverju skil ég ekki, enda ekki innmúruð í þann félagsskap. En ef ég man rétt lýsti nýi bæjarstjórinn yfir stuðningi við olíuhreinsistöð í Arnarfirði um leið og hann tók við embættinu. Varla geta margir Bolvíkingar sótt vinnu þangað, eða hvað?

Satt best að segja finnst mér Þjóðverjinn í fréttinni meira sannfærandi en bæjarstjórinn - en hvað segja Bolvíkingar? Eru þeir sáttir við svona vinnubrögð? 

 

Ég varð mér úti um teikningu af tillögu að verkefninu. Eins og mig minnti eru þetta lítil hús með torfþökum í þjóðlegum, íslenskum stíl. Ég efast ekki um að erlendum ferðamönnum myndi líka þau vel. Hvernig líst ykkur á? Smellið tvisvar á myndina til að stækka hana.

Tillaga að uppbyggingu ferðaþjónustu í Bolungarvík

 

Fann svo þessar slóðir þar sem lesa má um fyrirhugað verkefni og eins og sjá má er hér um háar fjárhæðir að ræða fyrir þetta litla sveitarfélag sem ég hefði haldið að allir tækju fagnandi miðað við eðli og umfang þessarar starfsemi.

Veiðimenn.is

Mbl.is


Ævintýrið heldur áfram

Um daginn fékk ég slóð í tölvupósti með ótrúlegu myndbandi sem ég setti inn á bloggið hér. Nú er komið annað og í lok þess er þriðji kafli boðaður. Enn er efnið ævintýralega ótrúlegt og ég viðurkenni fúslega að ég botna ekkert í því hvernig þetta er hægt.

Þeir sem lásu þennan óralanga pistil með frábærri fréttaskýringu Péturs um REI-málið sjá tenginguna við það sem fjallað er um í pistlinum. Þar kemur fram að fyrirtækið sem mest er fjallað um í þessum myndböndum var nálægt því að eignast hlut í Orkuveitu Reykjavíkur og þar með aðgang að verðmætum orkuauðlindum þjóðarinnar. Þessir menn eru búnir að kaupa sig inn í Hitaveitu Suðurnesja í gegnum Geysi Green Energy og Atorku. Kannski eiga þeir hlut í fleiri fyrirtækjum á þessum hluthafalistum. Þetta er hringavitleysa, menn að leika sér með peninga - gífurlegar fjárhæðir sem maður skilur eiginlega ekki.

Hefur enginn eftirlit með þessu? Er mögulegt að hægt sé að fara svona með sameignir þjóðarinnar ef allir eru svona andvaralausir? Geta þessir menn laumað sér inn um bakdyr OR í gegnum HS ef OR myndi til dæmis borga hlut sinn í HS með hlutabréfum í sjálfri sér? Hvar er alvöru rannsóknarblaðamennskan á Íslandi? Hver er afstaða stjórnvalda til slíkra vinnubragða? Mega þau hafa skoðun á þeim? Eða er frjálshyggjan og einkavæðingarbullið alveg búið að ná yfirhöndinni?

 Nýja myndbandið - FL Group - In Memoriam 2

 
 
Eldra myndbandið - FL Group - In Memoriam 1
 
 

Sveitabrúðkaup

Ég fór í bíó í gærkvöldi sem telst til tíðinda í mínu lífi því það geri ég ekki oft í seinni tíð. Við fórum saman mæðginin að sjá Sveitabrúðkaup og skemmst er frá því að segja að við skemmtum okkur bæði konunglega. Við fórum brosandi út með góða tilfinningu og það var mjög notalegt.

Eins og kemur fram í viðtölum við Valdísi Óskarsdóttur í myndbandinu hér að neðan er þetta fyrsta mynd hennar sem leikstjóra og handritshöfundar - ef handrit skal kalla því leikhópurinn spann víst talsvert eftir hendinni. Sú aðferð sem Valdís lýsir (og hefur verið notuð í öðrum myndum) að nota margar upptökuvélar og að leikararnir viti í raun aldrei hvenær þeir eru í mynd eða ekki er bráðskemmtileg og útkoman eftir því.

Leikarahópurinn var frábær, Herdís Þorvaldsdóttir stal senunni hvað eftir annað og ef einhverjum hefur fundist presturinn ótrúverðugur eru til fjölmargar sögur um hið gagnstæða - reyndar frá fyrri tíð þar sem þeir misstu margir hempuna fyrir drykkjuskap og/eða kvennafar. Það er væntanlega fátítt nú til dags... vona ég.

En þessu kvöldi var vel varið.

Viðtöl við Valdísi Óskarsdóttur í Kastljósi og Íslandi í dag í gærkvöldi, 28. ágúst.

 
Hér er kynningarmyndband um Sveitabrúðkaup


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband