Færsluflokkur: Dægurmál
1.10.2008
Hverju og hverjum skal trúa?
"Loksins getum við þessir óbreyttu með skítalaunin farið að tala um þjóðarhag án þess að óttast að hagspekingarnir geri athugasemdir og telji sig vita betur. Þeir vita ekki neitt - ekki einu sinni það sem þeir máttu vita fyrir löngu. Hver einasti meðaljón fer að flissa um leið og talsmenn "greiningardeildanna" opna á sér pena þverrifuna." Þannig hefst kröftugur bloggpistill Péturs Tyrfingssonar á Eyjunni sem hann birti í gær.
Glitnismálið virðist flóknara eftir því sem fleiri tjá sig um það og erfiðara fyrir okkur, þessi óbreyttu með skítalaunin, að ná áttum. Ætli þetta verði ekki eitt þeirra mála þar sem sannleikurinn kemur ekki upp á yfirborðið fyrr en í söguskoðun síðar meir. Ég veit að minnsta kosti ekki í hvorn fótinn ég á að stíga og tók saman nokkur viðtöl við málsaðila beggja vegna borðsins. Svo var ansi freistandi að flokka færsluna undir "Landsbankadeildina".
Ýmislegt vekur athygli. Sem dæmi má nefna að ráðherra bankamála, Björgvin G. Sigurðsson, var ekki hafður með í ráðum. Það er seðlabankastjóri sem heldur blaðamannafund og tilkynnir "aðgerðir ríkisstjórnarinnar" en ekki er vitað til að ríkisstjórnin hafi fundað um málið og rætt það þegar þarna var komið sögu.
Hann segir peningana koma til að byrja með úr Seðlabankanum en honum verði "væntanlega bætt það upp með ákvörðun Alþingis". Hvergi hefur komið fram að Alþingi hafi fjallað um málið og veitt vilyrði fyrir þessu, né heldur að nefndir þingsins hafi verið kallaðar á fund vegna málsins. Vitað er að nokkrir þingmenn voru boðaðir á kvöldfund sem fulltrúar sinna flokka og tilkynnt ákvörðun seðlabankastjóra.
Engar umræður fóru semsagt fram um þessa gríðarlega stóru ákvörðun hjá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar, ríkisstjórn eða kjörnum fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi. Að því er virðist er þetta ákvörðun seðlabankastjóra með samráði við forsætisráðherra. Í mínum huga minnir þetta ákvarðanaferli óhugnanlega mikið á ákvörðun sem tekin var í mars 2003 og verður ævarandi svartur blettur á íslensku þjóðinni.
Því meira sem ég les og heyri um þetta Glitnismál því minna botna ég í því. Hverju og hverjum á að trúa? Allir virðast hafa skoðun á málinu og sumir koma jafnvel með sannfærandi rök - en þau eru mjög misvísandi. En hér eru líka ýmsir að ljúga okkur full, það er nokkuð ljóst. Og hvað verður um Glitni? Hvað heldur ríkið lengi í bankann og hver fær svo að kaupa hann á hvaða verði? Það verður fróðlegt að vita. Er verið að bjarga öðrum banka með því að knésetja þennan?
Á meðan strákarnir leika sér í bófahasarnum sínum heldur gengi krónunnar áfram að falla, almenningur í landinu verður æ skuldsettari og fyrirtæki og heimili stefna hraðbyri í gjaldþrot. Hver er að taka á því máli?
Seðlabankastjóri í hádeginu á mánudag
Forsætisráðherra í Kastljósi á mánudagskvöld
Jón Ásgeir í Íslandi í dag á þriðjudagskvöld
Þorsteinn Már í Kastljósi á þriðjudagskvöld
Björgvin bankamálaráðherra og Valgerður fyrrverandi í Kastljósi á þriðjudagskvöld
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.9.2008
Konur, þekkið takmörk ykkar!
Úff, erfiður mánudagur að baki sagði breski leikarinn og grínistinn Harry Enfield og tók til sinna ráða.
Konur, þekkið takmörk ykkar!
Konur eiga ekki að aka bifreiðum
Þetta myndband er sérstaklega sett inn fyrir Zteingrím Arsenal og Önnu Liverpool
Kennslustund í sjálfsvörn
29.9.2008
Í hádegisfréttum kenndi margra grasa
Aukafréttatími RÚV í hádeginu í dag
Hádegisfréttir Stöðvar 2 í dag
Mbl Sjónvarp í hádeginu í dag
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.9.2008
Myndir dagsins
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Utan úr heimi berast fregnir á færibandi um afleiðingar einkavæðingar ýmiss konar almannaþjónustu. Þekktustu dæmin eru líklega frá Bretlandi og í greininni hér að neðan (Fréttablað í dag) segir Einar Már Jónsson frá afleiðingum einkavæðingar á símaþjónustu í Frakklandi og undirbúningi að einkavæðingu póstþjónustunnar. Íslendingar þekkja orðið mætavel afleiðingar einkavæðingar þar sem græðgi, gróðahyggja og fullkomið skeytingarleysi gagnvart almenningi hefur ráðið för.
Það er langt í frá að öll einkavæðing sé alvond, en þegar undirstöður þjóðfélagsins og auðlindir þjóðarinnar eru seldar/gefnar fávísum mönnum (eða einkavinum ríkjandi stjórnvalda) með evru- eða dollaramerki í augum er voðinn vís. Frásögn Einars Más og fleiri slíkar frá milljóna- eða tugmilljónaþjóðum, þar sem greinilega kemur fram hvernig þjónusta skerðist og verðlag snarhækkar við einkavæðingu, ættu að vera okkur víti til varnaðar. Ísland er örþjóð og í fámenninu hér getur hagur almennings aldrei falist í einkavæðingu á grunnstoðum og -þjónustu þjóðfélagsins. Hvað þá auðlinda eins og fiskjar í sjónum og orku í náttúrunni, verðmætum sem okkur ber að vernda og varðveita fyrir komandi kynslóðir. Um daginn skrifaði ég nokkur orð um einkavæðingu hér - að gefnu tilefni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Eitt besta einstaklingsframtak síðari ára held ég að sé Okursíða dr. Gunna. Íslendingar hafa löngum verið mjög ómeðvitaðir um verð, gert lítinn verðsamanburð og lengst af ekki haft um margt að velja (hafa svosem ekki heldur núna í fákeppninni og samráðinu). En við erum afleitir neytendur og látum ótrúlegustu hluti yfir okkur ganga möglunarlaust, það held ég að flestir geti verið nokkuð sammála um.
Hér áður fyrr var eini vettvangurinn til að bera saman bækur sínar, segja dæmisögur og þvíumlíkt, kaffistofur, saumaklúbbar og önnur viðlíka mannamót - líklega einkum þar sem konur komu saman. Karlar hafa frekar verið í því að státa sig af að kaupa dýrt, sjálfsagt þykir "karlmannlegt" að þurfa ekki að horfa í aurinn og bera vott um "velgengni". Ég býst við að ráðdeildarsamir karlar (þeir eru jú vissulega til) segi fátt í slíkum félagsskap. Ekki þar fyrir að í vissum kvennakreðsum þykir líka fínt að gefa dauðann og djöfulinn í hvað hlutirnir kosta, og því dýrara því flottara.
Okursíða dr. Gunna átti eins árs afmæli í gær, sunnudag, og gerði Gunnar af því tilefni lista yfir Topp 10 - Vondu gæjana og Topp 10 - Góðu gæjana. Þetta er fróðleg lesning og það er Okursíðan reyndar alla jafna. Stór liður í baráttu okkar fyrir skaplegra verðlagi á landinu, og þar með kjarabót, er að fylgjast með verði og þjónustu, til dæmis á Okursíðu dr. Gunna. Það ætti að vera keppikefli verslana og þjónustufyrirtækja að fá góða umsögn á Okursíðunni. Hún er hér. En hann er ekki við eina fjölina felldur og heldur úti annarri heimasíðu þar sem hann fjallar um margvísleg önnur mál - sú síða er hér.
Ég óska Gunnari Lárusi Hjálmarssyni - dr. Gunna - til hamingju með eins árs afmæli Okursíðunnar, sem ætti að vera í daglegum netrúnti allra, þakka fyrir mig og vona að hann haldi henni úti um ókomin ár. Það er ótrúleg vinna að halda úti svona síðu og hann á mikinn heiður skilinn fyrir framtakið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Ísland
Ísland! farsældafrón
og hagsælda, hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð,
frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult
og stund þíns fegursta frama
lýsir sem leiftur um nótt
langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt
og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár,
hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu
og frjálsræðishetjurnar góðu
austan um hyldýpishaf,
hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú
í blómguðu dalanna skauti,
ukust að íþrótt og frægð,
undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp,
þar sem ennþá Öxará rennur
ofan í Almannagjá,
alþingið feðranna stóð.
Þar stóð hann Þorgeir á þingi,
er við trúnni var tekið af lýði.
Þar komu Gissur og Geir,
Gunnar, Héðinn og Njáll.
Þá riðu hetjur um héruð,
og skrautbúin skip fyrir landi
fluttu með fríðasta lið,
færandi varninginn heim.
Það er svo bágt að standa í stað,
og mönnunum munar
annaðhvort aftur á bak
ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkar starf
í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs
götuna fram eftir veg?
Landið er fagurt og frítt
og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár,
hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp,
þar sem ennþá Öxará rennur
ofan í Almannagjá,
alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur,
og lyngið á lögbergi helga
blánar af berjum hvert ár,
börnum og hröfnum að leik.
Ó, þér unglinga fjöld
og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð
fallin í gleymsku og dá!
Jónas Hallgrímsson
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
"Bitruvirkjun er brjálæði" sagði starfsmaður orkufyrirtækis fyrir nokkrum mánuðum við vinkonu mína - að gefnu tilefni. Hann útskýrði það ekkert nánar, því miður. Fyrir 10 dögum birtist frétt á mbl.is þar sem sagt var frá gróðureyðingu í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar. Í fréttinni er rætt við Sigurð H. Magnússon, gróðurvistfræðing hjá Náttúrufræðistofnun, og hann þykist fullviss um að gróðurinn hafi drepist vegna brennisteinsvetnismengunar frá virkjuninni. Mér þóttu þetta mikil tíðindi, þ.e. að vísindamaður fullyrti eitthvað, því þeir eru svo yfirgengilega orðvarir og varkárir. Ég birti frétt mbl.is og fleira tengt efni, m.a. grein um áhrif loftmengunar á heilsuna, í pistli hér. Umfjöllun um málið á vef Náttúrufræðistofnunar er hér.
Ég grennslaðist svolítið fyrir um Sigurð og í tölvupósti sagði annar varkár vísindamaður um hann: "Sigurður Magnússon hjá NÍ sem viðtalið var við hjá mbl var mjög viss í sinni sök um að þetta væri mengun en ekki t.d. út af veðri. Hann er afskaplega hógvær og nákvæmur vísindamaður og það hvað hann var afgerandi fannst mér athyglisvert." Þetta staðfesti reynslu mína af vísindamönnum - sem hefur oft pirrað mig því ég vil gjarnan fá ákveðnari svör og álit frá þeim. Hér er frétt mbl.is aftur til upprifjunar:
Það sem kom mér mest á óvart var að hvorug sjónvarpsstöðin sinnti þessari frétt. Fréttastofa Ríkisútvarpsins var með hana í kvöldfréttum sama dag en síðan ekki söguna meir. Þó er þetta stórfrétt og þarf að setja í samhengi við það, að jarðgufuvirkjanirnar á Hellisheiði og Hengilssvæðinu spúa eitri yfir höfuðborgarsvæðið og Hveragerði. Fréttamenn og fréttastjórar verða að átta sig á því, alveg eins og við hin, að verið er að eitra fyrir þeim, börnunum þeirra og barnabörnunum.
Eitt af aðalmálunum þegar nýjasti meirihlutinn hrifsaði völdin í Reykjavík virtist vera að slengja Bitruvirkjun aftur upp á borðið. Ég hef beðið þolinmóð eftir rökum fyrir því feigðarflani en ekki séð eða heyrt nein rök. Engar skýringar, ekkert. Ekki einu sinni orðróm um hvaða hvatir liggja að baki, hvaða verktakar eiga að fá sneið af þeirri orkuköku. Þetta virðist vera svona "afþvíbara" mál hjá Óskari Bergssyni, sem frá upphafi var mótfallinn því að hætta við Bitruvirkjun og rökstuddi það meðal annars svona: "...það er alveg ljóst að ýmsar háhitavirkjanir og ýmsar virkjanir sem við Íslendingar eigum hafa verið heilmikið aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustuna og ekki færri ferðamenn sem koma til að skoða það hvernig við nýtum okkar hreinu, endurnýjanlegu orku en líka til þess að sjá og upplifa ósnortna náttúru." Þetta gullkorn lét hann út úr sér á fundi borgarstjórnar 20. maí sl. - orðrétt.
Þetta er náttúrulega bara fíflalegt og þolinmæði mín er á þrotum. Ég krefst þess að fá rök og skýringar meirihlutans í borgarstjórn á því, að þrátt fyrir fjölda athugasemda frá almenningi og öðrum, afar neikvætt álit Skipulagsstofnunar á framkvæmdum við Bitruvirkjun og þá staðreynd að jarðgufuvirkjanir valda gríðarlegri og hætturlegri loftmengun (auk annars konar mengunar og náttúruspjalla) - þá vilja þau Óskar og Hanna Birna samt reisa Bitruvirkjun. Það er ekki sannfærandi að Hanna Birna kalli til fjölmiðla og svari alþýðlega í símann hjá borginni á margföldum símadömulaunum með annarri og eitri fyrir borgarbúum með hinni - en haldi því leyndu fyrir fjölmiðlum. Hvort ætli skipti meira máli?
Ég hef skrifað ótal pistla um Bitruvirkjun og fært margvísleg rök fyrir því að ekki eigi að reisa þá virkjun. Bent á spillingu, mútur og annan ósóma sem viðgengst í orku- og virkjanamálunum. Fleiri hafa tjáð sig og mér er minnisstæð athugasemd við mat á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar sem ég fékk leyfi til að birta 7. nóvember sl. Hún er eftir Gunnlaug H. Jónsson, eðlisfræðing, og hljóðaði svona:
"Sem íbúi Árbæjarhverfis geri ég alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæði og sérstaklega Bitruvirkjun með eftirfarandi atriði í huga:1. Loftmengun af völdum brennisteinsvetnis er orðin óásættanleg í Árbæjarhverfi í hægum austlægum áttum vegna athafna Orkuveitu

2. Þegar ekið var yfir Hellisheiðina blasa við ryðgaðir burðarstaurar raflína Landsvirkjunar. Þetta er eini staðurinn frá Búrfelli að Geithálsi þar sem veruleg tæring hefur orðið á staurunum. Líklegasta orsökin er brennisteinssýrlingur sem berst frá borholum Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er aðeins ein af mörgum sýnilegum afleiðingum þeirrar mengunar sem fylgir borholum og jarðvarmavinnslu Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu.
3. Undirritaður hefur iðulega farið gangandi um Hengilssvæðið og Hellisheiðina og þá einkum á gönguskíðum að vetri til. Gufur úr borholum á svæðinu valda miklum óþægindum og nauðsynlegt er að forðast þau svæði sem gufa frá borholum leikur um. Þessi svæði hafa stækkað ár frá ári.
4. Orkuvinnslan á Hengilssvæðinu er þegar orðin langt umfram náttúrlegt varmastreymi á svæðinu. Það er því gengið á varmaforðann. Þessu má líkja við olíuvinnslu. Orkan á svæðinu mun minnka jafnt og þétt og eftir tiltölulega fáa áratugi mun aflið minnka þannig að virkjanirnar ganga ekki á fullu afli. Fleiri virkjanir munu flýta fyrir því að orkan og aflið minnki. Verði

5. Með því að framleiða þetta mikla raforku nú þegar verður ekki hægt að nýta lághitann (undir 80°C) nema að (litlum) hluta í hefðbundna hitaveitu. Mestum hluta orkunnar um 90% er því kastað út í loftið með kæliturnum. Þetta er sóun á orku sem að öðrum kosti myndi nýtast höfuðborginni og raunar höfuðborgarsvæðinu öllu næstu aldirnar.
6. Meðan endurnýjanleg vatnsorka rennur ónýtt til sjávar er siðferðilega rangt að sóa jarðhita til raforkuframleiðslu í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins með mikilli mengun og umhverfisáhrifum. Jarðhitann má geyma til betri tíma til nota í hitaveitu vaxandi höfuðborgar með raforkuframleiðslu sem búbót og með margfaldri nýtingu á orkunni (90%).
Niðurstaða: Þar til Orkuveita Reykjavíkur hefur ekki sýnt fram á að fyrirhuguð raforkuvinnsla á Hengilssvæðinu sé endurnýjanleg og sjálfbær og sýnt fram á að hún geti dregið verulega úr brennisteinsmenguninni frá því sem þegar er orðið ber skipulagsyfirvöldum og viðkomandi sveitarfélögum að stöðva frekari virkjun jarðvarma á Hengilssvæðinu til raforkuframleiðslu. Heilsa og velferð íbúa höfuðborgarsvæðisins, einkum þeirra er búi austan Elliðaáa, er í húfi."
Ég hef ekkert heyrt frá Gunnlaugi síðan í haust en við upprifjun á Bitruvirkjunarpistlum mínum datt ég aftur inn á bloggið hans og rakst þá á pistil sem hann skrifaði daginn sem nýi borgarstjórnarmeirihlutinn tók við völdum og skutlaði Bitruvirkjun fyrirvaralaust aftur upp á borðið. Pistill Gunnlaugs 21. ágúst sl. hljóðaði svona:
"Jóhannes Zoëga, fyrrverandi hitaveitustjóri, markaði þá stefnu að virkja Hengilssvæðið fyrir hitaveituna og nýta jafnframt háþrýsta gufu til raforkuframleiðslu sem aukaafurð. Með þessu móti nýtist um 90% af varmanum í hitaveituna og um 10% til raforkuframleiðslu. Lítið fer til spillis.Á síðustu árum hefur Orkuveita Reykjavíkur markað nýja stefnu þar sem raforkuvinnsla er orðin ráðandi þátturinn í virkjun Hengilssvæðisins. Hitaveitan getur því ekki nýtt allan lághitavarmann og hann fer út í andrúmsloftið um kæliturna. Mestur hluti varmaorkunnar, um 90%, fer til spillis.
Með þessu er verið að eyða þeirri orku sem er í Henglinum á nokkrum áratugum. Eftir situr Orkuveitan með fjórar óstarfhæfar raforkuvirkjanir á Hengilssvæðinu sem minnismerki um skammsýni mannanna og græðgi stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur.
Þrýstingur jarðhitasvæðisins á Nesjavöllum hefur þegar fallið sem nemur meira en 100 metrum og kominn niður fyrir sjávarmál. Þrýstingurinn fellur um tvo metra á ári. Við aukna orkuvinnslu Hellisheiðarvirkjunar mun þrýstingurinn falla enn hraðar. Ef Birtuvirkjun verður að veruleika herðir enn á þrýstifallinu. Þessar virkjanir eru aðeins í 5 km fjarlægð hvor frá annarri og því í raun að nýta sama háhitasvæðið.
Með því að stinga fleiri göt á blöðru fær maður meira loft úr blöðrunni en þeim mun fyrr tæmist blaðran. Sama lögmál gildir um háhitasvæði. Orkan í Hengilssvæðinu er takmörkuð og náttúrulegur varmastraumur úr iðrum jarðar aðeins brot af þeirri vinnslu sem ráðgerð er á Hengilssvæðinu. Rónarnir koma óorði á brennivínið. Það á ekki að tæma flöskuna í einum teig.
Vona að núverandi stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hugsi lengur en eitt kjörtímabil og dreifi orkuvinnslunni. Næsta jarðvarmavirkjun þarf að vera góðri fjarlægt frá Henglinum, ekki minna en 15 til 20 km gæti látið nærri.
Orkuveitan mætti huga að vatnsaflsvirkjunum. Þær nýta úrkomuna sem annars rennur ónotuð til sjávar á hverju ári en ekki uppsafnaðan varmaforða síðustu alda. Markmið með þessu bloggi er að stuðla að aukinni en skynsamlegri nýtingu orkulindanna."
Gunnlaugur er greinilega hlynntari vatnsaflsvirkjunum en jarðhitavirkjunum en fer ekki út í umræðuna um fyrir hverja er verið að virkja og í hvaða tilgangi. Það er atriði sem mér finnst skipta mjög miklu máli í allri virkjanaumræðu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
16.9.2008
Minnið er gloppótt og gisið
Ég er alltaf að gera mér betur og betur grein fyrir því hvað Silfrið hans Egils er góður samtímaspegill. Vissi að fréttirnar væru það. Um daginn var ég að leita að frétt frá sumrinu 2007 og gleymdi mér gjörsamlega yfir upprifjun á ýmsum atburðum og tengingum við daginn í dag. Ég var að gera það sama við Silfur Egils í dag, leita að tilteknum ummælum sem ég mundi eftir - nema hvað ég á ekki marga þætti upp tekna, því miður. Engu að síður er þetta mikill fjársjóður.
Þarna voru stjórnmálamenn, leikmenn, sérfræðingar og álitsgjafar af ýmsu tagi að ræða aðskiljanlegustu mál, sum hreinlega klassísk. Það var skondið að rifja upp réttlætingu sjálfstæðismanna á valdaráninu í Ráðhúsinu í janúar og meinta trú þeirra á Ólafi F. Langt drottningarviðtal við Geir Haarde, forsætisráðherra frá 17. febrúar sem gaman væri að bera saman við sambærilegt viðtal við hann í Silfrinu síðasta sunnudag. Í þáttunum er hin eilífa efnahagsumræða - vextir, verðtrygging, verðbólga, staða bankanna og margt, margt fleira. Sumt verulega áhugavert og annað bara fyndið eftir atvikum.
Það er með ólíkindum hvað maður er fljótur að gleyma. En kveikir þegar maður sér hlutina aftur og verður þá steinhissa á hvað það er langt - eða stutt - síðan þetta eða hitt gerðist eða var sagt. Oft er enn verið að ræða sömu málin og fyrir hálfu ári, níu mánuðum, ári... jafnvel tveimur.
Ég held að það væri verulega sniðugt að hafa eitt aukasilfur í viku með úrklippum úr ýmsum þáttum þar sem málefnin eru tengd frá mánuði til mánaðar - jafnvel ári til árs. Sama mætti gera með fréttirnar. Líklega ætti slíkur þáttur best heima á Netinu. Það veitir einfaldlega ekkert af því að halda fólki við efnið, minna stöðugt á mikilvæg mál, feril þeirra, afdrif og niðurstöðu - ef einhver er.
Hér eru nokkrar úrklippur af handahófi úr Silfrinu frá því fyrr á þessu ári. Byrjum á Agli sjálfum þar sem hann nær ekki upp í nef sér af hneykslan. Ég er ekki sammála þeim sem gagnrýna Egil fyrir að hafa skoðanir og tjá þær. Hans skoðun er bara viðbót við flóruna í þáttunum og ég hef ekki orðið vör við að skoðanir andstæðar hans eigin fái ekki að njóta sín í þáttum hans.
Næstur er Gunnar Smári Egilsson að tjá sig um húsafriðun, Laugaveginn, Þingholtin og þau mál. Ég hef yfirleitt afskaplega gaman af Gunnari Smára og hvernig hann tjáir skoðanir sínar, alveg burtséð frá því hvort ég er sammála honum eða ekki.
Upphaflega var það þetta sem ég var að leita að í tengslum við frétt í síðustu viku um vinnubrögð Alþingis. Mig minnti að Ólöf Nordal hefði látið þessi orð falla, en eftir að hafa rennt í gegnum 11 þætti áttaði ég mig allt í einu á því að það var Guðfinna Bjarnadóttir. Skellti svo fréttinni frá 10. september sl. aftan við. Þetta umfjöllunarefni er mjög alvarlegt og eiginlega hálfgerður skandall og sýnir vel vanþroskað lýðræðið á Íslandi - eða hreinlega algjöran skort á því. Þessi vinnubrögð Alþingis endurspeglast síðan hjá þjóðinni og í allri umræðu.
Að lokum er hér heilt viðtal við Vilhjálm Bjarnason, aðjúnkt og formann Félags fjárfesta. Hlustið á viðtalið í ljósi þess sem kemur fram í þessum myndböndum. Þetta FL Group mál er með ólíkindum og ég skil ekki af hverju enginn er búinn að rannsaka málið og afhjúpa rækilega hvað þarna fór fram á máli sem allir skilja... eða kannski hefur það verið rannsakað á fjölmiðlunum en ekkert hægt að sanna á fullnægjandi hátt og birta. Við hvað er fólk svona hrætt? Er þetta ekki upplagt mál fyrir Kompás? Hvað með Fjármálaeftirlitið? Efnahagsbrotadeildina? Á að láta þetta og fleiri svipuð mál óátalin? Kíkið á þessa litlu bloggfærslu Friðriks Þórs í tengslum við þetta mál.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.9.2008
Fyrir hvað borgum við ráðherrunum laun?
Hvað borga ég Árna Mathiesen í laun á mánuði? Milljón? Tvær? Ég veit það ekki og fann ekki upplýsingar um það. Þó er ég vinnuveitandi hans og hlýt þar af leiðandi að gera kröfur til árangurs í starfi, viðveru og að hann sinni aðkallandi verkefnum. Árni er dýralæknir að mennt en starfar sem fjármálaráðherra íslensku þjóðarinnar - hvernig svo sem fólk fær það til að ganga upp.
Fjárhagur þjóðarinnar ku vera á heljarþröm - það segja allir nema ráðherrar. Lítið sem ekkert hefur heyrst frá Árna... og reyndar ekki heldur frá hinum ráðherrunum sem eru á launaskrá hjá þjóðinni. Árni fjármálaráðherra hefur engar lausnir, engar tillögur - það kemur ekkert af viti frá honum. Hann hlýtur að vera búinn að týna buddunni.
Eitt heitasta deilumálið þessa dagana og vikurnar er kjarabarátta ljósmæðra. Sem fjármálaráðherra og aðalviðsemjandi ljósmæðra fyrir hönd þjóðarinnar myndi maður ætla að Árni ætti að vera vakinn og sofinn yfir viðræðunum og leggja sitt af mörkum. Hann fær jú meðal annars borgað fyrir það - úr okkar vasa. En hann nennti ekki að sinna starfinu og stakk af í réttir í nýja kjördæminu, væntanlega til að snapa atkvæði. Er það ekki brottrekstrarsök? Það væri það í öllum venjulegum fyrirtækjum, er ég hrædd um.
Ég hef ekki í annan tíma skynjað eins mikinn stuðning meðal þjóðarinnar við kjarabaráttu neinnar stéttar eins og ljósmæðra nú. Síðast þegar ég skynjaði viðlíka samstöðu um eitthvað mál var þegar hið alræmda fjölmiðlafrumvarp var í bígerð.
Hér er enn eitt myndbandið til stuðnings ljósmæðrum, hið fjórða í röðinni. Málstaðurinn er þess virði. YouTube linkur hér fyrir þá sem vilja styðja málstaðinn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)