Færsluflokkur: Dægurmál
16.5.2009
2. sætið á 10 ára fresti...
...og úti þess á milli? Ég er einn minnsti Júróvisjónsérfræðingur landsins en þekki þó stigagjöfina nokkuð vel. Enda er hún það eina sem ég hef fylgst með nokkuð lengi. Fátt kom á óvart við stigagjöfina í kvöld en þó var ekki eins eindregin slagsíða á henni og undanfarin ár. Kannski er það vegna hins breytta fyrirkomulags.
Svo vill til að einu lögin sem ég hafði lagt mig eftir og hlustað/horft á voru einmitt íslenska og norska lagið. En í kvöld var maður í stofunni hjá mér sem kallaði og hrópaði álit sitt á hinum lögunum sem ég sinnti þrifnaði, svalaskrúbbi, gluggaþvotti og öðrum skemmtilegheitum. Hann hefur haft tónlist að aðalatvinnu mestallt sitt líf og honum fannst norska lagið langbest - tónlistarlega séð. Var reyndar líka mjög ánægður með það íslenska.
Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því, að Rybek - flytjandinn sjálfur - samdi bæði lag og texta norska lagsins. Hann var vel að sigrinum kominn, guttinn.
Ég hafði spáð íslenska laginu 3. - 7. sæti svo 2. sætið kom skemmtilega á óvart. Þökk sé Norðmönnum. En í ár eru einmitt 10 ár síðan Selma lenti líka í 2. sætinu, munið þið...? Heyrir einhver samhljóm með því og íslenska laginu í ár?
Hér eru sigurlögin tvö - það norska og íslenska - og lokahnykkur atkvæðagreiðslunnar.
Dægurmál | Breytt 17.5.2009 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.5.2009
Sofandi að feigðarósi - aftur?
Bók Ólafs Arnarsonar, Sofandi að feigðarósi, hefur verið mjög umtöluð síðan hún kom út fyrir nokkrum vikum. Í gær hitti ég konu sem hefur lesið hana og hún sagði að undiraldan í bókinni - það sem látið er ósagt en lesa megi á milli línanna - væri ekki síður áhugavert en sjálfur texti bókarinnar.
Ólafur var gestur í Silfri Egils 26. apríl sl.
Ólafur skrifaði vægast sagt athyglisverða grein í Pressuna sl. fimmtudag og var auk þess gestur Björns Inga Hrafnssonar í Markaðnum á Stöð 2 sama kvöld. Hann fylgdi greininni eftir með þessu ákalli í gær - Í guðs bænum opnið augun!
Markaðurinn með Birni Inga 14. maí sl.
Í kjölfarið skrifaði Jón Baldvin Hannibalsson opið bréf til viðskiptaráðherra í gær sem ráðherrann svarar á sama vettvangi í dag og útilokar ekki skuldaafskriftir. Öll þessi umræða fer fram á Pressunni.
Mér virðist almenningur búinn að skipta um gír og vera hálfdottandi á verðinum. Eftir hamfarir vetrarins er eins og margir hafi lagst í dvala. Þetta gerðist fyrst eftir að minnihlutastjórnin tók við í byrjun febrúar. Þá var eins og mörgum hafi fundist málin leyst, þeir hættu að mæta á mótmæla- og borgarafundi og vísir að fyrra sinnuleysi fannst greinilega. Mánuðinn fyrir kosningar komst lítið annað að en undarlegur, flokkspólitískur skotgrafahernaður og hann hefur haldið áfram eftir kosningar.
Furðuleg, einskis verð mál eins og eignarhald þingflokksherbergja, sykurskattur, hneykslan yfir að nokkrir þingmenn hafi ekki mætt í messu fyrir þingsetningu og fleira í þeim dúr hafa keyrt ýmsa mikilvægari umræðu í kaf. Svo virðist sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur ætli að vera á móti góðum málum á þingi - bara af því þeir eru í stjórnarandstöðu og "hefðin" kveður á um að þá eigi þeir að vera á móti málum stjórnarflokkanna. Þetta er auðvitað algjört rugl. En Borgarahreyfingin virðist ekki ætla að detta í þennan fúla pytt flokkspólitísks skotgrafahernaðar á kostnað þjóðarinnar. Vonandi sjá hinir flokkarnir að sér og styðja góð mál stjórnarinnar. Og öfugt. Stjórnarflokkarnir verða líka að átta sig á því, að ekki er allt alslæmt sem frá stjórnarandstöðuflokkunum kemur og gefa málum þeirra tækifæri - ef þau eru þess virði.
Pólitískar eða persónulegar flokkaerjur, svo ekki sé minnst á siðlausa og gjörspillta hagsmunagæslu örfárra auðmannahópa í samfélaginu er allsendis óviðeigandi eins og ástandið í íslensku þjóðfélagi er um þessar mundir. Við verðum ÖLL að gera þá kröfu til ráðherra og alþingismanna að þeir láti hagsmuni almennings ganga fyrir - alltaf, í öllum málum. Enn og aftur bendi ég á þennan Krossgötuþátt og hvet alla til að hlusta. Ég mæli líka með að fólk rifji upp þennan pistil, horfi og hlusti á viðtölin við Vilhjálm Árnason, heimspeking og prófessor, þar sem hann segir stjórnmálin líða fyrir valdhroka.
Og fjölmiðlarnir verða að standa vaktina. Fréttamenn verða að vera þeir hliðverðir lýðræðisins sem Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, segir þá vera í þessum pistli sínum. Þetta Lykla-Péturshlutverk frétta- og blaðamanna er með mikilvægustu hlutverkum í því þjóðfélagslega leikriti lífsins sem leikið er af íslensku þjóðinni um þessar mundir og þeir mega ekki klikka. Ábyrgð þeirra er slík að frammistaðan getur skipt sköpum fyrir framtíð þjóðarinnar. Við megum ekki fljóta sofandi að feigðarósi - aftur!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Frumgerðin frá 1991 (þarna er hljómsveitin ennþá - allt annað líf!)
Eftirlíkingin - norskur húmor 2008 (góðir!) - Lagið er greinilega klassík
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.5.2009
Ógleymanlegt bréf til Egils
Eins og þeir vita sem lesa blogg Egils Helgasonar reglulega birtir hann oft bréf sem hann fær. Stundum nafnlaus, stundum fylgja nöfn bréfritara. Þau eru misjöfn, þessi bréf. Sum eru stútfull af upplýsingum, góðum pælingum og öllum mögulegum fróðleik. Önnur lýsa persónulegum upplifunum fólks og snerta mann á annan hátt. Öll skipta þau máli í umræðunni og Egill velur þau yfirleitt af kostgæfni, að því er virðist.
Á hádegi í gær birti Egill nokkur bréf. Eitt þeirra hefur verið að velkjast í huga mér síðan og ég losna ekki við það úr huganum. Ég er búin að lesa bréfið þrjátíu sinnum og það er með ólíkindum. Bréfið vekur upp í mér gríðarlega reiði, nístandi sárindi, óskaplega skömm og djúpa sorg. Ég hef þráspurt sjálfa mig síðan ég las það hvers konar samfélag hefur fóstrað svona fólk. Hvort þeir séu margir sem hugsa svona. Hvernig hægt sé að vera svona þenkjandi í þessu litla samfélagi okkar. Svona eigingjarn og sérgóður á meðan þjóðinni blæðir út. Hvers konar siðferði hefur mótað slíka sérhagsmunagæslumenn sem gefa skít í allt og alla nema sjálfa sig?
Bréfið segir mikla og stóra sögu í látleysi sínu. Takið eftir eignarhaldi jöklabréfanna. (Vill einhver fjölmiðill vinsamlegast komast að eignarhaldi þeirra!) Ég skil mætavel niðurstöðu og ákvörðun bréfritara. Spurning hvort maður fetar í fótspor hans. Svona hljóðar bréfið:
"Ég var í samkvæmi um helgina. Þar var maður sem sagðist eiga nokkur hundruð milljónir í jöklabréfum skráð á félag á Tortóla. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til þess að gefa tommu eftir, hann hefði jú fjárfest í góðri trú. Stuttu seinna fóru umræðurnar að snúast um afturköllun aflaheimilda. Útgerðarmaður í hópnum hló að þessar ríkisstjórn og sagði að þeir myndu fljótlega ganga á vegg með þetta. Þarna töluðu allir digurbarkalega um að verja rétt sinn og aflandseyjar.
Í dag opnaði ég netbankann minn. Teygjulánið var komið inn (skipti um íbúð rétt fyrir hrun og náði ekki að selja hina). Það sem á að bætast aftan við lánið er sett í reitinn VANSKIL. Mér sortnaði fyrir augum, það hvarf hjá mér öll löngun til að hjálpa þessu landi. Ég hafði jú fengið erlent lán hjá bankanum, en nokkrum vikum seinna hringdi sami bankinn og bað mig um að setja allan sparnaðinn í sjóð 9 því að það væri svo pottþétt.
Ég hef vel undan að borga en löngunin er horfin. Ég hringdi í lögfræðing og ætla að skipuleggja þrot mitt fram í tímann."
14.5.2009
Það ku vera gott að búa í Kópavogi
Enda vita Kópavogsbúar alltaf hvernig útsvarinu þeirra er varið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.5.2009
Athyglisverð umræða
Hér eru tveir menn heldur betur á öndverðum meiði. Ég veit ekki hvers vegna (jújú, ég veit það alveg), en ég trúi ekki einu orði sem frá kvótakóngunum og LÍÚ-grátkórnum kemur. Frá því ég man eftir mér hafa útgerðarmenn vælt og volað endalaust. En ég get ekki með nokkru móti séð að þeir hafi það skítt. Ekki bera þyrlukaup, bílafloti, laxveiðar og aðrir lifnaðarhættir það með sér. Hefur einhver spáð t.d. í "eignasafn" Samherjamanna? Eða er þetta kannski allt út á krít eins og hjá útrásarauðmönnum - og við sitjum uppi með skuldir þeirra ef illa fer? Kvótinn ku jú vera veðsettur fyrir hundruði milljarða mörg ár fram í tímann - vegna græðgi kvótakónganna. Þetta verður að stöðva.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.5.2009
Lúxusferð í boði íslensku þjóðarinnar
Við erum nú góðir í okkur og umburðarlyndir, Íslendingar. Er það ekki? Hópur manna rændi okkur aleigunni og kom þjóðfélaginu á heljarþröm og þeir ganga allir lausir. Voru búnir að koma eigum sínum og mestum fjármunum undan fyrir hrun og hafa síðan fengið að dunda sér við að redda restinni undanfarna rúma sjö mánuði. Við berum svo mikla virðingu fyrir mannréttindum þeirra að það má ekki frysta eða sækja þýfið. Ekki fyrr en kannski mögulega eftir áralöng réttarhöld, þegar og ef tekst að sakfella einhvern.
Á meðan blæðir samfélaginu út. Börn fá ekki að borða, dregið er úr kennslu í skólum, öll þjónusta er skert alls staðar, þjóðin rambar á barmi uppgjafar og fólk glatar aleigunni. En það hindrar nú ekki eiginkonur útrásarauðmannanna í að skemmta sér og fara í lúxusferðir fyrir þýfið - peningana sem ættu með réttu að vera með lögheimili á Íslandi og nýtast íslenskum almenningi. Ekki notast í óhóf og munað í eðalvillum í útlöndum og rándýrum skemmtiferðum. Og þetta er svo mikið einkamál að það er ekki einu sinni til umræðu.
Já, við erum höfðingjar, Íslendingar... en suma virðist skorta allt jarðsamband, heilbrigða skynsemi og almennt siðferði. Og þeir kunna ekki að skammast sín, svo mikið er víst. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
12.5.2009
Besta Júróvisjónatriðið - douze points
Ég sé á Fésbókinni að fólk er yfirkomið af tilfinningaþrunginni gleði yfir velgengni Jóhönnu og íslenska lagsins. Karlar (og konur) játa að hafa fellt tár, sem sumir vilja meina að þýði að þeir séu farnir að reskjast óhóflega. Og allir virðast hafa horft - eða flestir. En ekki ég.
Ég er greinilega kaldlynd og gjörsamlega laus við evrópska föðurlandsást. Nennti ekki að horfa á keppnina en sat fyrir úrslitunum og haggaðist ekki þegar Ísland datt inn í restina. Var slétt sama. Mér hefur alltaf fundist stigagjöfin skemmtilegust og mikil þjóða- og þjóðernisstúdía. Varð fyrir vonbrigðum að fá ekki þetta hefðbundna: "Cinq points, douze points..."
En svo sá ég þetta atriði í tölvunni og þarna fann ég mitt tólf stiga lag. Þetta er sko almennileg músík en ekki evrópskt glimmergaul, yfirgnæft af hálfberu, spriklandi plastfólki!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
12.5.2009
Tilvistarkreppa á Alþingi
10.5.2009
Silfur dagsins
Enn eitt frábært Silfur að baki og enn einu sinni fékk Egill erlenda sérfræðinga í þáttinn til sín. Þeir eru nú orðnir allmargir sem hafa verið í Silfrinu með þann ótvíræða kost í farteskinu að horfa á ástandið á Íslandi utanfrá, flestir sem hlutlausir sérfræðingar með skoðanir. En stóra spurningin er hvort yfirvöld á Íslandi hafa hlustað á sérþekkingu þessa fólks, hvort sem það hefur talað í Silfrinu, Kastljósi eða annars staðar?
Jú... Eva Joly var ráðin til aðstoðar við rannsókn á bankahruninu og Anne Sibert er í peningastefnunefnd Seðlabankans. En hvað með t.d. Robert Wade og Willem Buiter? Eða Michael Hudson og John Perkins... tóku yfirvöld eftir þeim? Er einhver að skoða það sem þetta fólk hafði til málanna að leggja?
Í dag voru tveir afar ólíkir útlendingar hjá Agli, þau Ann Pettifor og William K. Black. Egill segir um Ann á vefsíðu sinni: "Ann Pettifor er forstjóri samtaka sem nefnast Advocacy International. Hún var aðalhvatamaður átaks sem hét Jubilee 2000 - þar var barist fyrir því að skuldir fátækustu ríkja heims yrðu felldar niður. Pettifor spáði því að efnahagskerfi heimsins stefndi í hrun vegna skulda þegar árið 2003, en 2006 gaf hún út bókina The Coming First World Debt Crises."
Um Black segir Egill: "Black er háskólaprófessor sem áður var háttsettur í fjármálaeftirliti. Hann hefur fjallað mikið um fjársvik og hlut þeirra í efnahagshruninu, mun flytja fyrirlestur um þetta efni í Háskólanum klukkan 12 á morgun. Fyrirlesturinn heitir 'Why Economists Must Embrace the "F" Word (Fraud)'. Black er höfundur bókar sem nefnist The Best Way to Rob a Bank is from the Inside." Í færslunni hér á undan má sjá (og lesa) rúmlega mánaðargamalt viðtal við Black á bandarískri sjónvarpsstöð.
Páll Vilhjálmsson var varla búinn að opna munninn í öðrum hluta Vettvangs dagsins þegar síminn hringdi hjá mér. Í símanum var vinkona mín, alveg ævareið. Hún sagði Pál vera beinlínis að ljúga þegar hann sagði að samþykkt VG á aðildarviðræðum væru bein svik við kjósendur þeirra og að enginn fyrirvari hafi verið um að VG myndu breyta mati sínu á að Íslandi væri betur borgið utan ESB. Vinkona mín og maðurinn hennar höfðu einmitt velt mikið fyrir sér hvort þau ættu að kjósa VG eða Samfylkingu. Hjörtu þeirra slógu nær VG en þau vildu aðildarviðræður. Og einmitt vegna þess að VG höfðu sagt að ef farið væri í viðræður (höfðu það opið) yrði samningur síðan lagður í dóm þjóðarinnar - þá kusu þau bæði VG. Þeim fannst Páll harla ómerkilegur í sínum málflutningi. Enda eru ekki nema 4 dagar síðan birt var skoðanakönnun um fylgi við aðildarviðræður annars vegar og aðild hins vegar og þar kom greinilega fram að meirihluti kjósenda VG vill fara í aðildarviðræður - og síðan væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn - eins og sjá má hér:
En lítum á Silfrið. Vettvangurinn var fjölmennur og þau Ann Pettifor og William K. Black stórfín og málefnaleg.
Vettvangur dagsins 1 - Ólafur, Hallur, Margrét og Andrés
Vettvangur dagsins 2 - Páll og Auðunn
Ann Pettifor - með íslenskum texta
William K. Black - með íslenskum texta
Dægurmál | Breytt 11.5.2009 kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)