Færsluflokkur: Sjónvarp
3.7.2008
Forsætisráðherra og fjölmiðlarnir
Það var aldrei meiningin að fara út í mikla myndbandagerð, en ég ræð ekkert við hugmyndaflæðið; fjölmiðlarnir og þjóðmálin eru endalaus uppspretta hugmynda og gagnrýni. Ég hef ekki tíma til að vinna úr nema brotabroti af öllum þeim hugmyndum sem ég fæ. Oft spilar margt saman og í þetta sinn var það lítill pistill á baksíðu 24stunda þriðjudaginn 1. júlí og nokkrar fréttaúrklippur af viðtölum við forsætisráðherra.
Í mars sl. skrifaði ég þennan pistil, sem ég kallaði "Fjölmiðlar, fjórða valdið og fyrirlitning í framkomu ráðamanna". Tilefnið var tilsvar forsætisráðherra þegar fréttakona spurði hann spurningar - eða réttara sagt, reyndi að ganga á eftir því að hann svaraði spurningu. Forsætisráðherra var aldeilis ekki á því og hreytti í hana ónotum. Hann hefur verið áberandi ergilegur undanfarið, blessaður, og gjarnan svarað með skætingi.
Svo sá ég þennan pistil á baksíðu 24stunda á þriðjudaginn og ákvað að búa til nýtt myndband.
Mér til dálítillar furðu bættist við enn eitt myndbrotið áður en ég byrjaði á myndbandinu - í hádegisfréttum Stöðvar 2 í gær, miðvikudag. Að sjálfsögðu tók ég það með. Athygli vekur að svona myndbrot hafa aðeins birst í fréttum Stöðvar 2. Hvað þýðir það? Að forsætisráðherra svari ekki fréttamönnum Ríkissjónvarpsins á þennan hátt - eða eru tilsvör hans bara ekki sýnd þar? Það langar mig að vita.
Geir Haarde er vel gefinn maður og hér áður fyrr naut hann álits, trausts og virðingar langt út fyrir raðir síns flokks. Er valdið að fara svona með hann eða er eitthvað annað að gerast? Af hverju sér þessi áður fyrr prúði og kurteisi maður sig knúinn til að koma fram eins og forveri hans í embætti sem kunni sér ekkert hóf í framkomu sinni og talaði alltaf niður til þjóðarinnar? Ég neita að trúa að Geir sé strengjabrúða seðlabankastjóra, sem virðist ráða því sem hann vill ráða þótt hann eigi að heita hættur í stjórnmálum. Breytir hann hegðan sinni fyrir næstu kosningar? Verður hann þá eins og Halldór Ásgrímsson sem sást aldrei brosa nema í kosningabaráttu? Eða er Geir búinn að fá leið á vinnunni sinni eins og George Constanza sem Atli Fannar skrifar um?
Með samsetningu þessa myndbands vil ég hvetja fjölmiðlafólk til að láta stjórnmálamenn ekki komast upp með að svara ekki spurningum eða hreyta í það ónotum þegar það reynir að gera skyldu sína gagnvart almenningi - að upplýsa þjóðina um atburði líðandi stundar. Og birta svör þeirra eins og Stöð 2 hefur gert. Fjölmiðlar eru fjórða valdið í þjóðfélaginu og þeim ber að sinna skyldu sinni gagnvart þjóðinni. Vonandi ber þeim gæfa til að inna það starf eins vel af hendi og kostur er.
Sjónvarp | Breytt 9.7.2008 kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
1.7.2008
Fuglalíf og svolítil nostalgía
Ég var að horfa á og taka upp tíufréttirnar í Ríkissjónvarpinu áðan og heillaðist af lokamínútunum. Þar voru lómur og kjói við Héraðsflóa í aðalhlutverki ásamt ungunum sínum. Mér finnst að báðar sjónvarpsstöðvarnar mættu sýna svona náttúrulífsbrot í lok allra fréttatíma í sjónvarpi. Á báðum stöðvunum vinna kvikmyndatökumenn sem geta, ef sá gállinn er á þeim og þeir fá tækifæri til, verið listamenn á sínu sviði eins og þetta myndbrot ber með sér.
Mér varð hugsað til bernskunnar og lags sem ég grét yfir í hvert sinn sem það var spilað í útvarpinu. Mikið svakalega fannst mér það sorglegt. Það var á þeim árum þegar útvörp voru risastórar mublur, helst úr tekki, og maður var sannfærður um að fólkið sem talaði eða söng væri inni í tækinu. En aldrei skildi ég hvernig heilu hljómsveitirnar og kórarnir komust þar fyrir - og skil ekki enn.
Lagið setti ég í tónspilarann - það er gullaldarlagið "Söngur villiandarinnar", sungið af Jakob Hafstein af yndislegri innlifun og tilfinningu. Ég gleymi aldrei hvernig mér leið þegar ég hlustaði á það "í den". Og það vill svo skemmtilega til að sonur og alnafni söngvarans er nú afskaplega kær fjölskylduvinur.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
25.6.2008
Erum við einhverju nær?
Það er óvinnandi verk að reyna að hlusta á samræður stjórnmálamanna þegar allir gjamma í einu, enginn fær að klára setningu og mönnum virðist fyrirmunað að halda sér saman, hlusta og sýna viðmælandanum - og áhorfendum eða hlustendum - lágmarkskurteisi. Kannski er þetta fólk orðið svona hundleitt hvert á öðru, búið að heyra þetta allt mörgum sinnum í þingsölum eða annars staðar og nennir ekki að hlusta eina ferðina enn.
En hvað með okkur hin sem erum að hlusta og horfa? Almenning í landinu sem vill heyra hvernig ráðamenn hyggjast taka á málum og hver er að viðra hvaða hugmyndir eða skýringar hverju sinni? Þó að stjórnmálamenn séu leiðir hver á öðrum geri ég þá lágmarkskröfu til þeirra að þeir sýni þá sjálfsögðu kurteisi að leyfa mér að hlusta á þann sem talar þá mínútuna. Og að þeir sýni mér ekki þá lítilsvirðingu að tala niður til mín eins og sumir stjórnmálamenn gera gjarnan. Um leið og ég finn að verið er að koma fram við mig eins og vanvita eða fífl afskrifa ég viðkomandi stjórnmálamann samstundis.
Stjórnmálamenn virðast heldur ekki geta svarað spurningum. Þeir fara eins og köttur í kringum heitan graut, blaðra út og suður og eru oft komnir langt út fyrir efnið sem lagt var upp með eða frá spurningunni sem spurt var. Maður er engu nær eftir langa ræðu og spyrlar reyna allt of sjaldan að spyrja aftur og kreista út úr þeim sæmilega vitrænt svar. Þeir sem gengið hafa hvað lengst í því eru stimplaðir dónar, ruddar eða eitthvað þaðan af verra - af stjórnmálamönnunum sem reynt er að fá til að svara, ekki fólkinu í landinu sem vill fá svörin.
Í Kastljósi í kvöld var dæmigert atriði í þessum stíl þar sem þeir mættust, Guðni Ágústsson og Lúðvík Bergvinsson. Ég var nákvæmlega engu nær eftir að hlusta á þá í 11 mínútur. Engum spurningum var svarað, ekkert var sagt af viti, gripið var stanslaust fram í og ekki nokkur leið að fá botn í hvað þeir vildu sagt hafa - ef eitthvað. Þetta er alvarlegt mál ef litið er til ástandsins í þjóðfélaginu og þess, að annar þeirra er þingflokksformaður stjórnarflokks og hinn formaður stjórnarandstöðuflokks (sem er reyndar að deyja út) og fyrrverandi ráðherra. Engin svör, engar lausnir, engin vitræn umræða.
Hvað segið þið? Fáið þið einhvern botn í þessar "umræður"?
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
25.5.2008
Dave Allen og Júróvisjón
Ég dáði Dave Allen forðum, fannst hann fyndnasti maður í heimi. Svei mér ef mér finnst það ekki ennþá! Ég fletti honum upp áðan. Ætlaði að athuga hvort hann hefði fjallað á sinn einstaka hátt um Júróvisjón en um leið og ég byrjaði að spila myndböndin varð það algjört aukaatriði. Maðurinn var einfaldlega snillingur og með fyndnari mönnum... enda Íri og hét réttu nafni David Tynan O'Mahoney. Maður saknar hans og skopskynsins við að horfa á þessi myndbönd. Dave Allen lést fyrir þremur árum, 2005.
Þetta myndband er tileinkað Jennýju, Hallgerði og okkur hinum sem syndgum enn.
Þetta er fyrir alka í afneitun.
Fyrir trúarnöttana og Jón Steinar.
Um tiktúrur enskrar tungu.
Að kenna börnum á klukku.
Dave Allen byrjar í skóla.
En ekki er hægt að hætta nema drepa á upphaflega fyrirætlun - að fjalla á einhvern hátt um mál málanna í gær - Júróvisjón. Ekki eru allar þjóðir og þulir jafnhrifnir af Júró og við Íslendingar. Ég hef oft heyrt talað um hvernig þulurinn hjá BBC dregur keppnina, keppendurna og lögin sundur og saman í háði. Maðurinn sá heitir Terry Wogan og mun vera írskur að uppruna eins og Dave Allen. Hann stjórnar líka forkeppninni í Englandi.
Hér er Terry Wogan hjá snillingnum Parkinson þegar keppnin var fram undan í Eistlandi - hvenær sem það var - og hann gerir m.a. grín að hjónabandinu... og auðvitað Júróvisjón. Hann er alveg með á hreinu muninn á viðhorfi Breta til keppninnar annars vegar og þjóða á meginlandi Evrópu hins vegar. En hann minnist ekki á Íslendinga - enda tilheyra þeir hvorki Bretlandi né meginlandi Evrópu... hvar ætli hann flokki okkur?
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 02:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Í síðustu færslu sýndi ég brot úr Mannamáli Sigmundar Ernis þar sem Einar Kárason las okkur pistilinn. Til að gera ekki upp á milli þeirra nafna og aðdáenda þeirra ætla ég að sýna hér einn af pistlum Einars Más Guðmundssonar þar sem hann fjallar meðal annars um hinn íslenska stjórnmálaflokk, Fatahreyfinguna.
Flestum er sjálfsagt enn í fersku minni uppákoman í borgarstjórn Reykjavíkur þann 21. janúar sl. þegar valdabröltið á þeim bæ náði hæstu hæðum. Síðan þá hafa svipaðir atburðir gerst í tveimur sveitarfélögum, í Bolungarvík og á Akranesi.
Þar sem Einar Már flytur pistil sinn helgina eftir yfirtöku nýs meirihluta í Reykjavík fjallar hann vitaskuld um þá uppákomu. En pistillinn er miklu yfirgripsmeiri en svo, að hann einskorðist við einn atburð. Hvort hann er sígildur verður sagan að dæma.
Blaðakonurnar Agnes Bragadóttir og Björg Eva Erlendsdóttir voru næstar á eftir Einari Má. Agnes dæsti og sagði: "Ég er eiginlega bara orðlaus eftir að hlýða á hann Einar Má. Mér fannst hann algjör snillingur, bara frábær! Ég hef engu við þetta að bæta. Hann er bara búinn að analýsera þetta og það þarf ekkert frekar að segja."
En lokaorð Einars Más finnst mér að ættu að vera fleyg - takið sérstaklega eftir þeim.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
21.5.2008
Lögbrot ráðamanna
Mannamálið hans Sigmundar Ernis á Stöð 2 á sunnudagskvöldum er alveg sérdeilis góður þáttur. Hæfilega langur með mjög þægilegri blöndu af efni. Hinir og þessir gestir koma til Simma og "fastir liðir eins og venjulega" eru gyðjumlíku gáfudísirnar Katrín Jakobsdóttir og Gerður Kristný.
Ekki spillir svo fyrir að Einararnir tveir, rithöfundarnir Kárason og Már Guðmundsson flytja pistla til skiptis. Oftar en ekki fá þeir mann til að sperra eyrun og hugsa... íhuga mál frá öðru sjónarhorni en hingað til. Þeir hrista stundum upp í heilasellunum svo um munar og ýta hressilega við manni eins og Simmi reyndar líka.
Síðasta sunnudagskvöld var Kárason á ferðinni og eftir að hafa hlustað á hann spurði ég sjálfa mig í hálfum hljóðum: "Hvenær breytist þetta? Hvað þarf til? Ætlar þjóðin aldrei að vakna af Þyrnirósarsvefninum?" Það varð fátt um svör og mér varð hugsað til pistils Illuga Jökulssonar frá 2002 og ég birti hér.
Ráðamenn þjóðarinnar verða hvað eftir annað uppvísir að spillingu og lögbrotum en þurfa aldrei að svara fyrir það á meðan almenningur er dæmdur mishart fyrir smávægilegustu yfirsjónir. Hlustið á hann Einar Kárason. Alveg burtséð frá hvaða mál hann er að tala um - þetta er alltaf að gerast. Er það bara ég - eða finnst fólki þetta virkilega í lagi?
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 02:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)