Færsluflokkur: Fjármál
20.7.2009
Orsök og lausn kreppunnar
Það virðist sama hver vandinn er - þetta er alltaf meint lausn, ef lausn skal kalla. Sama hverjir eru við völd hverju sinni. Sama hvort um er að ræða endurreisn bankakerfisins, rándýrar virkjanir fyrir erlenda auðhringa eða hvað annað sem stjórnvöldum og þrýstihópum samfélagsins hugnast að bjóða þjóðinni upp á í það skiptið.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.6.2009
Útifundur og óvænt heimsókn til ráðherra
Fundurinn á Austurvelli í gær var fámennari en ég bjóst við. Og þó... Vonin dregur mann alltaf á asnaeyrunum. Af hverju ætti fólk svosem að nenna niður í bæ í klukkutíma til að berjast fyrir framtíð sinni og barnanna sinna þegar hægt er að dúlla sér í Kringlunni, Smáralind, sumarbústaðnum eða bara liggja í sófanum og horfa á sjónvarpið? Það er svo þægilegt að láta aðra um púlið og njóta bara afrakstursins. Jakkalakkarnir úr Sjálfstæðisflokki og Framsókn létu auðvitað ekki sjá sig. Svona fundir eru fyrir neðan þeirra virðingu. En hetjurnar mættu.
Fundurinn var góður og ræðurnar stórfínar. Andrea Ólafsdóttir flutti þrumuræðu með álfahúfu á höfði og litla barnið sitt í poka á maganum. Jóhannes Þ. InDefence var seinni ræðumaðurinn og flutti glæsilega tölu sem fundargestir tóku undir hvað eftir annað. Ég birti hana hér að neðan. Og hér eru fréttir kvöldsins samanklipptar. Tölum ber að sjálfsögðu ekki saman frekar en venjulega og ég heyrði að lögreglan hefði talið 100 manns.
Eftir fundinn sat stór og skemmtilegur hópur fólks á spjalli á Thorvaldsen þegar Hörður Torfa fékk upphringingu og gekk frá til að tala í símann. Kom svo og sagðist vera á leið til fjármálaráðherra sem vildi leiðrétta eitthvað sem komið hafði fram í máli Harðar og ráðherra sagði misskilning. Ég bauðst samstundis til að fara með honum og gerðist boðflenna á fundinum. Steingrími J. og Indriða H., sem hitti okkur líka, fannst það bara í góðu lagi og við sátum og ræddum við þá í hálftíma eða svo. Ég hafði hvorugan hitt áður.
Það sem þeim lá á hjarta var að leiðrétta þær fullyrðingar að Hollendingar og Bretar hafi ekkert haft á móti því að gera Icesave-samningana opinbera. Þeir sýndu okkur tölvupósta á milli Indriða H. og embættismanna í Hollandi og Bretlandi og ég bað um ljósrit af þeim til að birta úr hér máli þeirra til sönnunar. Fyrsti pósturinn er frá Indriða og er dagsettur 11. júní. Þar segir Indriði:
Í íslenskri snörun: "Samningurinn hefur verið ræddur í nokkrum þingnefndum og þeir hafa krafist þess að fá afrit af samningunum í hendur líka. Ég held að mjög erfitt sé að verða ekki við óskum þeirra en við myndum fara fram á trúnað. Hvað segið þið um það?" Þá kemur svar frá Bretanum, einnig frá 11. júní:
"Ég býð fólki gjarnan að lesa skjalið inni á skrifstofu/ í herbergi en leyfi þeim ekki að fá afrit. Það þýðir að þeir verða að segja fólki frá innihaldinu en skjalið sjálft er ekki gert opinbert. Gæti það gengið á Íslandi?" Hollendingurinn svarar ekki fyrr en 12. júní og afsakar töfina. Hann segir:
"Ef tillaga G (Bretans) er möguleg hreyfi ég engum mótmælum. Ég hef áhyggjur af því, að ef allt verður gert opinbert hellist yfir okkur utanaðkomandi athugasemdir sem flækja umræðuna. En ef þú telur eina möguleikann vera að opinbera samningana væri ég tilbúinn til að íhuga það. En það verður að vera ljóst að við getum ekki endursamið."
Svo mörg voru þau orð. Greinilegt er á þessum orðaskiptum að Bretar og Hollendingar vildu ekki gera samningana opinbera. Ekki einu sinni þingmönnum, hvað þá þjóðinni. Hvað gerðist milli 12. og 17. júní þegar hollensku útgáfunni var lekið í fjölmiðla veit ég ekki. Ef áhugasamir koma með spurningar í athugasemdum er mögulegt að Indriði geti gefið sér tíma til að svara. Maður veit aldrei. Þeir lesa þetta væntanlega og vonandi athugasemdirnar líka. Einmitt þess vegna vil ég benda Steingrími J. sérstaklega á þessa bloggfærslu Teits Atlasonar. Þetta er málið eins og við ræddum, Steingrímur. Ekki bara mín skoðun. Koma svo!
Viðbót: Illugi skrifaði líka pistil á sömu nótum og Teitur í morgun.
Ég legg líka til að Steingrímur og Indriði lesi ræðu Jóhannesar sem ég sagði þeim frá. Hún var ansi mögnuð og mjög vel flutt. Hér er hún:
Austurvöllur, 20. Júní 2009.
Góðir Íslendingar.
Í gær birti ríkisstjórn Íslands undirritaðan samning við Breta og Hollendinga um lausn ICESAVE deilunnar.
ICESAVE málið varðar stærstu fjárskuldbindingar íslensku þjóðarinnar frá upphafi. Það er mikilvægasta mál sem Alþingi hefur fjallað um frá lýðveldisstofnun. Og það er gríðarlega áríðandi að fjallað verði um þetta mál af skynsemi og samkvæmt efnisinnihaldi því að án þess að það gerist eigum við Íslendingar ekki möguleika á því að komast út úr þessu máli sem heil þjóð.
InDefence hópurinn, sem ég er hluti af, er ópólitískur og óháður hópur fólks sem á það eitt sameiginlegt að bera hagsmuni Íslands fyrir brjósti. Hópurinn afhenti í mars breska þinginu 83 þúsund undirskriftir gegn hryðjuverkalögunum og hefur síðustu 8 mánuði ítrekað bent stjórnvöldum á þær hættur sem Íslendingar stæðu frammi fyrir og þörfina fyrir aðgerðir.
Hópurinn hefur frá því að skrifað var undir ICESAVE samninginn barist fyrir því að vekja athygli á fjölmörgum atriðum sem tengjast samningnum og sem skipta öllu máli fyrir framtíð Íslands. Meðal þessara grundvallaratriða eru eftirfarandi:
Nr. 1. Afsal fullveldisréttar og eignir íslenska ríkisins
Mikið hefur verið rætt um 16. grein samningsins, sem fjallar um afsal fullveldisréttar íslenska ríkisins. Lögfræðingar InDefence, sem hafa mjög víðtæka reynslu af því að fjalla um þjóðréttarsamninga, eru sammála um að þetta ákvæði feli í sér víðtækt afsal friðhelgisréttinda sem leiðir til þess að mun auðveldara verður að ganga að eignum íslenska ríkisins. Þegar ákvæðið er lesið kemur ekki fram í texta samningsins nein takmörkun á hugtakinu eign".
Ríkisstjórn Íslands hefur sakað okkur um hræðsluáróður fyrir að benda á þessa augljósu staðreynd. En ef sú fullyrðing stjórnvalda er rétt að þessi tilvísan taki ekki til eigna á Íslandi - af hverju stendur það þá ekki skýrt í ákvæðinu?
Það er rétt að benda á að fyrst þegar þetta ákvæði komst í almenna umræðu á 17. júní, þá héldu stjórnvöld því blákalt fram að þarna væri aðeins átt við eignir Landsbankans. Nú hefur verið sýnt fram á, meðal annars af sérfræðingi í þjóðarétti, að þessi skilningur stjórnvalda var rangur.
Íslenskur almenningur á kröfu til þess að öll réttaráhrif sem felast í þessari grein séu skýrð af stjórnvöldum á tæmandi hátt. Að benda á staðreyndir og að kalla eftir nákvæmum útskýringum er ekki hræðsluáróður.
Nr. 2. Engar efnahagslegar forsendur
Samkvæmt útreikningum InDefence hópsins hefur íslenska ríkið engar efnahagslegar forsendur til þess að greiða lánið samkvæmt þessum samningi. Samninganefnd Íslands gefur sér að á næstu 7 árum muni eignir Landsbankans seljast fyrir 75% af upphæðinni. Það þýðir að eftir 7 ár koma íslendingar til með að sitja uppi með skuld sem með vöxtum og vaxtavöxtum verður milli 450-500 milljarðar króna. Þessa upphæð þarf að greiða á næstu 8 árum eftir það. Til að setja þessa tölu í samhengi þá jafngildir þetta því að íslendingar borgi að minnsta kosti þrjár Kárahnjúkavirkjanir á 8 árum. Ef eignir Landsbankans gefa minni heimtur en 75% hækkar þessi upphæð hratt.
Vaxtagreiðslur af þessu láni eru einnig gríðarlega erfiðar fyrir ísland. Miðað við forsendur samninganefndarinnar eru vextirnir um 36 milljarðar króna á hverju ári. Til að eiga fyrir þessum vaxtagreiðslum verður íslenska ríkið að eiga 36 milljarða af erlendum gjaldeyri í afgang á hverju ári, því að lánið er í evrum og pundum. En hvernig er hægt að búast við því þegar mesti gjaldeyrisafgangur síðustu 25 ára var aðeins 30 milljarðar? Þetta þýðir að Ísland þarf að gera betur en besta gjaldeyrisjöfnuð síðustu 25 ára bara til að geta borgað vextina samkvæmt þessum samningi. Og það þarf að gerast á hverju ári, næstu 15 ár.
Nr 3. Lánshæfismat Íslands mun mögulega lækka.
Það skiptir gríðarlegu máli að staðfesting fáist frá óháðum aðilum á því að lánshæfismat Íslenska ríkisins muni ekki lækka í kjölfarið á þessum samningi. Það myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og heimilin í landinu. Slík staðfesting hefur ekki fengist.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra lýsti sjálfur yfir áhyggjum af lánshæfismati íslenska ríkisins í erlendum fjölmiðlum í gær. Það hlýtur því að vera alger forsenda að áður en ríkisábyrgð á þessum samningi er lögð fyrir Alþingi sé fengið álit á stöðu Íslands frá alþjóðlegum lánshæfismatsfyrirtækjum.
Nr. 5. Samningsmarkmið Íslendinga eru þverbrotin
Það er algerlega ljóst að samningurinn er ekki í neinu samræmi við þau viðmið sem samninganefndir landanna þriggja voru bundnar af og fram koma í þingsályktun Alþingis frá 5. desember 2008. Þessi samningsviðmið voru mikilvægur hluti af pólitískri lausn málsins, þannig að íslendingar samþykktu að taka á sig skuldbindingar gegn því að samið yrði um þær þannig að tekið skyldi tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og ... ákveða ráðstafanir sem gerðu Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt".
Það er ljóst að samningur sem er ekki í neinu samræmi við þessi viðmið er óásættanlegur fyrir Alþingi Íslendinga. Í 3. grein samningsins er tekið skýrt fram að samningurinn tekur ekki gildi ef ríkisábyrgðinni verður hafnað á Alþingi. Þetta er eina útleið Íslendinga. Ef þessi samningur tekur gildi með samþykki Alþingis er hann algerlega skotheldur. Eina leiðin er að hafna ríkisábyrgðinni núna og knýja þannig á um að Bretar og Hollendingar setjist aftur niður að samningaborðinu, til að gera samning við Íslendinga sem er í samræmi við markmið Alþingis eða svokölluð Brüssel viðmið. Samning sem gerir okkur kleift að standa við skuldbindingar okkar. Það gerir þessi samningur ekki. Sá fyrirvari sem talað er um af hálfu stjórnvalda, að setjast niður og ræða vandann, er máttlaus því engin skylda er lögð á viðsemjendur okkar að breyta neinu í þeim viðræðum.
Svavar Gestsson hefur ítrekað haldið því fram að tvö atriði gerðu það að verkum að þetta væri góður samningur fyrir Ísland: Annars vegar að hryðjuverkalögunum yrði aflétt og hins vegar að Ísland kæmist í sjö ára skjól. Hvort tveggja er ofmetið.
Í fyrsta lagi lá það fyrir allan tímann, eins og InDefence fékk staðfest á fundi með fulltrúa breska utanríkisráðuneytisins í mars síðastliðnum, að um leið og einhvers konar samningur um ICESAVE lægi fyrir yrði hryðjuverkalögunum aflétt. Það er því ekki þessum samningi að þakka sérstaklega. Það lá alltaf fyrir hvort eð var.
Í öðru lagi er lítið hald í þessu sjö ára skjóli þegar Bretar og Hollendingar geta, samkvæmt 11. grein samningsins, gjaldfellt allt lánið hvenær sem er á lánstímanum, til dæmis á grundvelli þess að Alþingi breyti lögum eða að Íslendingar geta ekki borgað önnur erlend lán á réttum tíma. Þessi gjaldfellingarákvæði binda hendur Alþingis og íslenska ríkisins á óvenjulegan hátt, meðal annars takmarka þau rétt Alþingis til að setja lög. Ef Ísland uppfyllir eitthvað af þessum gjaldfellingarákvæðum þá skiptir engu máli hvort liðin eru sjö ár eða ekki. Allt tal um sjö ára skjól er því orðum aukið.
Svavar Gestsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa bæði fullyrt að Bretar og Hollendingar séu að kaupa eignir Landsbankans eða taka þær upp í greiðslu. Þetta er algerlega rangt. Hið rétta er að Íslendingum er gefið færi á því að selja eignirnar áður en við greiðum Bretum og Hollendingum peninga. Ef okkur tekst ekki að selja eignirnar og fá andvirðið upp í ICESAVE mun Íslenska þjóðin þurfa að borga mismuninn. Svona rangfærslur hjá forsætisráðherra og aðal samningamanni Íslands gefa tilefni til að spyrja hvort þau hreinlega skilja ekki þann samning sem þau ætlast til að Alþingi samþykki?
Mikið hefur verið rætt um þann þrýsting sem liggur á Íslendingum að samþykkja ríkisábyrgð á ICESAVE samningnum. En gleymum því ekki að það hefur áður legið þrýstingur á Íslendingum og í hvert sinn risu Íslendingar upp sem einn maður undir einkunnarorðum Jóns Sigurðssonar: Eigi víkja! Og þeirrar samstöðu þörfnumst við í dag.
Því fyrir Breta og Hollendinga getur það ekki talist neins konar ósigur að þurfa, samkvæmt samningnum sjálfum, að lúta vilja lýðræðislega kjörins þjóðþings Íslendinga. Það gefur hins vegar tækifæri til að setjast niður á nýjan leik og endurmeta samningsstöðuna á grundvelli þess að Alþingi telur forsendur þessa samnings of óhagstæðar fyrir Íslenska ríkið.
Það er staðreynd að í þessum samningi gefur íslenska ríkið frá sér allar varnir gegn því að vera dregið fyrir dómstóla vegna þessa samnings. Það er skýrt afsal á fullveldisrétti Íslenska ríkisins. Og hvort sem fjármálaráðherra telur það vera eðlilegt" ákvæði eða ekki, þá er það algerlega ljóst að fyrir Íslensku þjóðina, sem barðist fyrir fullveldi sínu í heila öld, er ekkert eðlilegt" við að afsala því með einu pennastriki. Þó við Íslendingar búum í fullvalda lýðræðisríki megum við aldrei gleyma því að jafnvel enn í dag eru fullveldi og lýðræði ekki sjálfsögð réttindi. Við búum við lýðræði, en við verðum samt að búa það til á hverjum degi.
Fyrir þrem dögum síðan fögnuðu Íslendingar fæðingardegi Jóns Sigurðssonar og stofnun íslenska lýðveldisins. Og við skulum aldrei gleyma því að það er engin tilviljun að mynd Jóns Sigurðssonar er staðsett hér á Austurvelli. Í nærri heila öld hefur Jón staðið hér og minnt Alþingismenn Íslendinga á skyldur sínar gagnvart því fjöreggi þjóðarinnar sem hann og fjölmargir aðrir börðust fyrir alla sína daga, fullveldi Íslands. Í nærri heila öld hafa íslenskir Alþingismenn aðeins þurft að líta út um glugga Alþingishússins til að vera minntir á að í eina tíð þótti fullveldi Íslands ekki sjálfsagður hlutur í samfélagi þjóða. Að afsala fullveldisrétti þjóðarinnar getur því aldrei talist eðlileg ráðstöfun sem embættismenn skrifa undir í skjóli nætur. Aldrei.
Góðir Íslendingar.
Þetta er vondur samningur fyrir Ísland. Alþingismenn verða að gera sér grein fyrir því að eina svarið er að hafna ríkisábyrgðinni núna og freista þess að ná betri kjörum við Breta og Hollendinga í kjölfarið. Það er ljóst að þegar Alþingi hafnar þessum samningi munu verða erfiðar afleiðingar af því fyrir Ísland í skammtímanum. En allt tal um áralanga útilokun úr alþjóðasamfélaginu, það er hræðsluáróður og hræðsluáróður bítur ekki á þá sem vita að þeir hafa réttlátan málstað að verja. Það er öllum aðilum í hag að semja upp á nýtt. En til þess að það geti gerst verðum við að standa saman núna. Eigi víkja. Því það er betra að taka slaginn núna en að komast að því eftir sjö ár að við höfum skrifað upp á dýrustu mistök Íslandssögunnar.
Jóhannes Þ. Skúlason
Fjármál | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (67)
Til að byrja með langar mig að leiðrétta leiðan misskilning sem ég hef orðið vör við. Icesave-samningurinn er ekki flokkspólitískt mál heldur þverpólitískt eða ópólitískt. Hann er harmleikur þjóðar, afleiðing taumlausrar græðgi nokkurra siðlausra manna og meðvirkra meðreiðarsveina sem kunnu sér ekkert hóf. Og spilltra, vanhæfra og sinnulausra stjórnmála- og embættismanna. Það er fáránlegt að einhverjir flokkar, einkum þeir sem eru í raun arkitektar hrunsins, eigni sér andstöðu við samninginn. Þess vegna þurfa þeir sem vilja mæta á mótmælafundinn á Austurvelli klukkan 15 í dag ekki að hafa áhyggjur af því að þeir lýsi þar með yfir stuðningi við einhverja stjórnmálaflokka. Þeir lýsa yfir stuðningi við sjálfa sig, samvisku sína og þjóðina - og andstöðu við óréttlæti.
Ég veit varla lengur hvað snýr upp eða niður á Icesave-samningnum. Hvort ég er samþykk honum eða ekki. Ég les og les, hlusta, horfi og tala við fólk - og snýst í hringi. Við höfum loksins fengið að sjá samninginn (sjá viðhengi neðst í færslu) en enginn hefur ennþá séð eignirnar sem eiga að fara upp í. Hvorki samninganefndin né ríkisstjórnin, hvað þá þingmenn eða þjóðin. Ku vera mest lánasöfn og slík söfn eru ekki traustustu eignirnar nú til dags. Og ómögulegt að segja hvað gerist á næstu 7 árum. Þeir voru ekki beint sammála, Indriði H. og Eiríkur Indefence í Kastljósinu á fimmtudagskvöld.
Auðvitað vil ég standa í skilum við mitt. Það er óheiðarlegt að borga ekki skuldir sínar. En þetta eru ekki mínar skuldir. Ég er í nógu rammgerðu skuldafangelsi fyrir þótt Icesave-skuldirnar bætist ekki við. Íslenska ríkið líka. Og þær bætast ekki bara við mínar skuldir heldur einnig afkomenda minna. Á meðan er ekki hróflað við þeim sem stofnuðu til þessara skulda. Þeir lifa enn í fáheyrðum lúxus víða um heim og gefa skít í okkur þrælana sem eigum að borga. Ég er ekki sátt.
Auðvitað eiga allir sparifjáreigendur að sitja við sama borð. Íslenskir, breskir og hollenskir. Ég skil vel að fólkið vilji fá peningana sína. Það myndi ég líka vilja. En hvað kostar það okkur Íslendinga? Mér virðist að það muni kosta okkur ógnvænlegar þrengingar, skattahækkanir, niðurskurð á allri grunnþjónustu, lækkuð laun, skertan lífeyri, lakari menntun barnanna okkar, landflótta... og fleira og fleira. Íslenska þjóðin verður í skelfilegu skuldafangelsi um ókomin ár. Nema þeir sem rændu okkur, því þeir fá að hafa þýfið í friði og ró.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, segir hér frá fundi þeirra Þórs Saari við konu í hollensku samninganefndinni. Þau spurðu hvort hún myndi samþykkja svona samning í þeirra sporum. Hún sagði nei.
Hvað gerist ef við borgum ekki? Tvennum sögum fer af því. Sumir mála skrattann á vegginn, aðrir segja þrengingar í örfá ár og síðan ekki söguna meir. Hvernig hefur upplýsingagjöf til útlanda verið háttað? Er búið að gera t.d. Bretum og Hollendingum grein fyrir því hvað samningurinn kostar íslenskan almenning? Hvaða afleiðingar hann hefur fyrir okkur um ókomin ár? Er búið að biðja breskan og hollenskan almenning um stuðning, höfða til samvisku hans og sanngirni? Ég held ekki. Upplýsingaflæðið innanlands er afleitt, svo ég geri ekki ráð fyrir að það sé neitt skárra út á við.
Ég minni á þá Michael Hudson og John Perkins sem voru í Silfri Egils í byrjun apríl. Byrjum á Hudson. DV talaði við hann í gær.
Og þetta sagði hann í Silfrinu 5. apríl.
John Perkins sagði þetta í sama Silfri.
Eins og áður sagði er ég búin að fara í marga hringi með þetta mál. Reyna að vera skynsöm, sanngjörn, raunsæ og með kalt mat. En það er alveg sama hvað ég reyni - hjartað segir NEI. Réttlætiskenndin segir NEI. Alveg sama hvernig ég hugsa þetta, frá hvaða hlið - og þær eru margar - mér finnst einhvern veginn að verið sé að byrja á öfugum enda. Hengja bakara fyrir smið. Ég get ekki samþykkt það.
Ég ætla því að mæta á Austurvöll klukkan þrjú í dag. Ekki aðeins til að mótmæla Icesave-samningnum heldur líka til að krefjast þess að tekið verði á vanda heimilanna. Okkar, sem sjáum skuldirnar okkar rjúka upp, skattana hækka, verðlagið fara upp úr öllu valdi á meðan bankar og innheimtustofnanir - jafnvel ríkisins - ganga hart að skuldurum í vanda.
Síðast en ekki síst ætla ég að krefjast réttlætis. Krefjast þess að tekið verði á sökudólgunum, þeim sem bera ábyrgð á ástandinu. Að íslenskt réttarkerfi hafi döngun í sér til að gera það sem Danirnir gerðu við Bagger - láta þá sem brutu af sér sæta ábyrgð. Ekki okkur sem alsaklaus erum.
Viðbót: Bendi á tvær góðar greinar í prentmiðlum dagsins - Herdís Þorgeirsdóttir í Fréttablaðinu og Árni Þórarinsson í Lesbók Morgunblaðsins.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
12.6.2009
Exista, Síminn og Skipti
Ég sé ástæðu til að vekja athygli á athugasemd sem Gunnar Tómasson, hagfræðingur í Bandaríkjunum, skrifaði við síðustu færslu mína. Prjóna svo fleiru aftan við. Leturbreytingar og tenglar eru frá mér komnir. Þetta skrifar Gunnar:
Sæl Lára Hanna.
Þann 21. apríl sl. sendi ég ábendingu um hugsanleg lagabrot til Páls Hreinssonar, formanns Rannsóknarnefndar Alþingis - sjá hér að neðan. Málið tengist Exista.
Kv. Gunnar
I.
Í eftirfarandi samantekt minni frá því í marz 2008 eru leidd rök að því að yfirtökutilboð Exista í allt hlutafé Skipta...
1. braut sett skilyrði við einkavæðingu Símans;
2. skapaði eldri eigendum Exista nokkurra milljarða skaða;
3. ofmat að sama skapi verðmæti Skipta í bókhaldi Exista; sem
4. jafngilti margföldu bókhaldsbroti af því tagi sem Jón Ásgeir var sakfelldur fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. maí 2007.
II.
Þann 21. marz 2008 sendi ég eftirfarandi tölvupóst til viðskiptaráðherra:
Sæll Björgvin.
Ég tek mér það bessaleyfi að senda þér hér með umsögn mína um yfirtökutilboð Exista í allt hlutafé Skipta.
Umsögnin er innlegg mitt á viðskiptaþræði málefnin.com.
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson
III.
Þann 6. apríl 2008 sendi ég eftirfarandi tölvupóst til Umboðsmanns Alþingis:
Hæstvirtur Umboðsmaður Alþingis.
Með hliðsjón af ákvæðum 5. gr. laga nr. 85/1997 leyfi ég mér að senda yður til athugunar í viðhengi lauslega samantekt varðandi embættisfærslu ráðherra í sambandi við nýafstaðin viðskipti í hlutabréfum Skipta.
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson
[kennitala]
IV.
Viðskiptaráðherra og Umboðsmaður Alþingis létu tölvupóstum mínum ósvarað.
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson
Yfirtökutilboð Exista í allt hlutafé Skipta - brýtur sett skilyrði við einkavæðingu Símans.
1. Í greinargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu dags. 4. apríl 2005 um fyrirkomulag sölu á hluta ríkisins í Landsíma Íslands hf. (sjá hér að neðan) segir m.a. að "Sala bréfa til hóps kjölfestufjárfesta verður háð eftirfarandi skilyrðum", þ.m.t. þessu:
"að tiltekinn hluti keyptra hlutabréfa og ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins verði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007, og sala á hlutum í félaginu til annarra eigi sér ekki stað fyrr en að lokinni slíkri sölu."
2. Viðskipti | mbl.is | 19.3.2008 | 10:48
Exista vill yfirtaka Skipti
Stjórn Exista ákvað á fundi sínum í morgun að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Skipta, móðurfélag Símans. Tilboð Exista hljóðar upp á 6,64 krónur á hlut sem er sama verð og í nýafstöðnu hlutafjárútboði Skipta. Greitt verður með nýjum hlutum í Exista sem verða verðlagðir í samræmi við lokagengi á OMX í gær sem var 10,1 króna á hlut.
Fyrirhugað er að tilboðið standi í átta vikur. Verði gengið að tilboðinu mun Exista leggja til við stjórn Skipta að óskað verði eftir afskráningu félagsins eins fljótt og auðið er.
Stefnt að skráningu á ný síðar.
Í tilkynningu til kauphallar OMX er kemur fram að ástæða tilboðs Exista er sú að félagið telur ekki vera grundvöll fyrir eðlilega verðmyndun með hlutabréf Skipta á markaði í ljósi niðurstöðu nýafstaðins hlutafjárútboðs og þeirra óvenjulega erfiðu markaðsaðstæðna sem nú ríkja.
Vegna samþjappaðs eignarhalds og markaðsaðstæðna eru verulegar líkur á því að félagið og hluthafar þess muni ekki njóta þeirra kosta sem fylgja skráningu í kauphöll. Stefnt er að því að kanna skráningu félagsins á ný þegar aukið jafnvægi verður komið á fjármálamörkuðum.
Það er mat Exista að tilboðsverðið, 6,64 krónur á hlut, endurspegli á sanngjarnan hátt núverandi raunvirði Skipta í samanburði við önnur fjarskiptafyrirtæki á markaði og nýlegar yfirtökur á sambærilegum fyrirtækjum.
Exista og dótturfélög þess eiga þegar 43,68% hlutafjár í Skiptum og gerir Exista tilboð í alla útistandandi hluti félagsins. Verði tilboðið samþykkt mun stjórn Exista nýta heimild í samþykktum félagsins til útgáfu allt að 2.846.026.330 nýrra hluta í Exista. Hlutafé Exista mun því að hámarki aukast úr 11.361.092.458 hlutum í allt að 14.207.118.788 hluti og eigið fé félagsins mun aukast um allt að 28,7 milljarða króna," samkvæmt tilkynningu.
Tilboðið er háð skilyrði um samþykki samkeppnisyfirvalda að því marki sem það kann að vera áskilið lögum samkvæmt.
Skipti voru skráð í Kauphöll OMX á Íslandi í dag í kjölfar hlutafjárútboðs.
Útboðið og skráning félagsins á hlutabréfamarkað var í samræmi við ákvæði kaupsamnings sem upphaflega var gerður við sölu ríkisins á 98,8% hlut í Landssíma Íslands hf. árið 2005.
Í útboðinu, sem stóð frá 10. til 13. mars 2008, var almenningi og öðrum fjárfestum boðið að kaupa 30% hlutafjár félagsins. Einungis seldust um 7,5% hlutafjár í félaginu.
3. Skilyrði um sölu 30% hlutabréfa til almennings og annarra fjárfesta var án fyrirvara um hugsanlegt söluverð:
Fyrirkomulag sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf.
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur að undanförnu unnið að undirbúningi við sölu á hlutabréfum í Landssíma Íslands (Símanum) í samræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnin og ráðherranefnd um einkavæðingu hafa markað.
Ákveðið hefur verið að selja eftirstandandi hlut ríkisins (98,8%) í einu lagi einum hóp kjölfestufjárfesta. Sala bréfa til hóps kjölfestufjárfesta verður háð eftirfarandi skilyrðum:
- að enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar, eignist stærri hlut í Símanum, eða í félagi sem stofnað er til kaupa á hlut í ríkisins í Símanum, en 45%, beint eða óbeint, fram að skráningu félagsins á Aðallista í Kauphöll.
- að tiltekinn hluti keyptra hlutabréfa og ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins verði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007, og sala á hlutum í félaginu til annarra eigi sér ekki stað fyrr en að lokinni slíkri sölu.
- að Síminn verði skráður á Aðallista Kauphallar hér á landi að uppfylltum skilyrðum Kauphallarinnar samhliða sölu til almennings og annarra fjárfesta, og innlausnarrétti verði ekki beitt gagnvart núverandi hluthöfum í Símanum (1,2%) fram að skráningu félagsins á Aðallista Kauphallar.
- að kjölfestufjárfestir fari ekki með eignaraðild, beina eða óbeina, í fyrirtækjum í samkeppni við Símann hér á landi.
Allir áhugasamir aðilar, sem hafa til þess getu, nægjanlega reynslu og fjárhagslegan styrk til að ljúka kaupum, koma til greina sem kaupendur. Upplýsingar um gang söluferlisins verða gefnar út með reglulegu millibili, en eðli máls samkvæmt verða ákveðnar upplýsingar varðandi söluferlið bundnar trúnaði, sem og til að viðhalda forsendum til samkeppni.
Stefnt er að því að ljúka söluferlinu í júlí n.k. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu áskilur sér rétt til þess að hafna öllum tilboðum. Ráðherranefnd um einkavæðingu tekur ákvörðun um við hvaða aðila verður samið, að fengnum tillögum framkvæmdanefndar um einkavæðingu.
Við mat á tilboðum verður meðal annars horft til verðs, fjárhagslegs styrks og lýsingar á fjármögnun, reynslu af rekstri fyrirtækja, hugmynda og framtíðarsýn varðandi rekstur Símans, starfsmenn fyrirtækisins og þjónustu í þéttbýli og dreifbýli næstu fimm árin, og annarra viðeigandi þátta.
Ráðgjafar- og fjármálafyrirtækið Morgan Stanley í Lundúnum er framkvæmdanefnd um einkavæðingu til ráðgjafar við undirbúning sölu.
Reykjavík, 4. apríl 2005
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu
4. Í markaðshagkerfi eins og því íslenzka ræðst raunvirði hlutabréfa af aðstæðum á hlutabréfamarkaði hverju sinni. Verð sem mætir ekki væntingum samningsaðila réttlætir því ekki að skilyrði um sölu bréfa til kjölfestufjárfesta séu sniðgengin.
5. Þann [3. maí 2007] var Jón Ásgeir Jóhannesson sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir "meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna."
6. Undirtektir almennings og annarra fjárfesta við útboðið á 30% hlutafjár Skipta jafngilda ótvíræðri staðfestingu á því að útboðsgengið 6,64 krónur á hlut var verulega umfram raunverulegt markaðsvirði.
7. Ef yfirtökutilboð Exista á öllum útistandandi hlutum í Skiptum á genginu 6,64 gengur eftir, þá mun útgáfa 2.846.026.330 nýrra hluta í Exista skapa eigendum þeirra 11.361.092.458 hluta sem fyrir eru tjón að upphæð mismuninum á 6,64 krónum og raunverulegu markaðsvirði x 2.846.026.330 - e.t.v. tjón upp á nokkra milljarða króna.
8. Eftir yfirtökuna myndi verðmæti Skipta í bókhaldi Exista vera ofmetið að sama skapi.
9. Meint bókhaldsbrot Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fólst í því að hafa "látið færa til eignar (........) í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf., sem lækkuð vörukaup, kr. 61.915.000 á grundvelli rangs og tilhæfulauss kreditreiknings (afsláttarreiknings) frá Nordica Inc., Miami í Flórída í Bandaríkjunum, dagsetts 30. ágúst 2001, að fjárhæð USD 589.890, sem jafngilti kr. 61.915.000 á færsludegi."
10. Hliðstætt bókhaldsbrot virðist blasa við ef yfirtökutilboð Exista á öllum útistandandi hlutum í Skiptum gengur eftir.
*************************
Svo mörg voru orð Gunnars. Ekki get ég hrakið þau. Einhver...? Hér má sjá sitthvað um einkavæðingu Símans, bankanna og fleiri ríkisfyrirtækja á vef Forsætisráðuneytisins.
Þessu tengt - í október skrifaði Agnar Kr. Þorsteinsson bloggpistil þar sem hann sagði farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við Exista. Agnar sagði frá grein sem hann hafði skrifað og birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2008. Hér er hún. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Strax daginn eftir, 5. júlí, birtist lítil svargrein frá framkvæmdastjóra samskiptasviðs Existu - og hann fékk rammagrein, hvorki meira né minna. Það fær ekki hver sem er.
Í desember tóku Bakkabræður yfir Exista eins og mbl.is greinir frá hér. Í apríl fengu svo hluthafar Exista yfirtökutilboð þar sem þeim voru boðnir 2 aurar - 0,02 krónur - fyrir hlut sinn í Exista. Um þetta skrifar Agnar aftur fínan bloggpistil 19. apríl.
Að lokum er hér ítarlegur fréttauki af Eyjunni eftir Sigrúnu Davíðsdóttur með fyrirsögninni Hversu lengi lifir Exista? Þessi mál eru öll með þvílíkum ólíkindum að það hálfa væri nóg.
Fjármál | Breytt 13.6.2009 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
11.6.2009
Fyrirspurnir og svör Jóhönnu
Þetta fór fram á Alþingi í morgun. Nú vitum við afstöðu forsætisráðherra og væntum þess að nú verði sett í blússgírinn og því breytt sem breyta þarf til að hægt sé að halda áfram leitinni að réttlætinu.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)