17.10.2009
"Formannssynir fyrr og nú"
Mikið hefur verið rætt um hinn svokallaða "nepótisma" og "cronyisma" sem þýðir frændhygli og/eða einkavinavæðing, og er þá einkum verið að tala um stjórnsýsluna á Íslandi og aðrar áhrifastöður í þjóðfélaginu. Carsten Valgreen er fyrrverandi aðalhagfræðingur Danske Bank og einn af þeim sem skrifuðu fræga rannsóknarskýrslu árið 2006, þar sem varað var við því sem var að gerast á Íslandi en var hæddur og spottaður af íslenskum yfirvöldum og auðmönnum fyrir vikið. Í grein sem Carsten Valgreen skrifaði í janúar sl. segir hann m.a.: "Ísland er lítið, einsleitt samfélag þar sem innbyrðis tengsl eru mikil. Þetta er bæði mikill styrkleiki og veikleiki. Þetta er rót kreppunnar. Slík samfélagsgerð virkar næstum eins og fjölskylda eða eitt fyrirtæki. Útilokun tiltekinna vandamála og ákvörðun um að þagga þau niður þróast mjög auðveldlega, og af því leiðir að erfitt er að grípa inn í þegar þau hafa hreiðrað um sig." Ég nefndi þetta í pistli um Evu Joly í júní.
Rót kreppunnar, hvorki meira né minna. Það eru stór orð en sannleikurinn er sá, að embættismannakerfið og stjórnsýslan eru gegnsýrð af pólitískum bitlingum þar sem menntun og hæfileikar hafa þurft að víkja fyrir flokksskírteinum og frændsemi. Hagsmunir flokkanna og valdsins látnir ganga fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Eins og gefur að skilja eru þar sjálfstæðis- og framsóknarmenn í yfirgnæfandi meirihluta eftir óralanga stjórnarsetu flokka þeirra. Ég hef kallað þetta fyrirbæri fimmta valdið.
Gríðarlegar sviptingar hafa verið hjá "blaði allra landsmanna", Morgunblaðinu. Þar hefur átt sér stað ein mesta hreinsun síðari ára og nú síðast hverfa frá störfum fjórir af bestu blaðamönnunum sem eftir voru. Mbl.is ku hafa sett mikið niður og Moggabloggarar hverfa á önnur mið hver á fætur öðrum. Þeir sem eftir eru kvarta yfir að hafa ekki almennilegar fréttir til að tengja bloggin sín við. Þetta sést reyndar glöggt á heimsóknartölum helstu fréttabloggaranna, sem mér virðist hafa hrapað. Og Mogginn hefur breyst verulega eins og Gunnar skrifar t.d. um hér.
Mikilfengleg árásarhrina er í gangi hjá sjálfstæðismönnum gegn bloggi, gagnrýni og frjálsri fjölmiðlun. Tjáningarfrelsið á að beisla, einkum tjáningarfrelsi Egils Helgasonar að því er virðist, því sannleikurinn má ekki koma í ljós. Það er hættuleg þróun að þeirra mati sem stórskaðar valdastrúktúrinn sem þeir voru búnir að koma sér upp. Aðalmálpípa árásarhrinunnar skreið út úr fylgsni sínu þegar Leiðtoginn settist í ritstjórastólinn og skvettir nú skoðunum sínum yfir landslýð af miklum móð og hirðir ekkert um hvað er satt og rétt. Völdin skulu endurheimt með lygum og óhróðri ef ekki vill betur til. Hér mærir hann t.d. félaga Björn og segir hann betri en Egil Helgason. Ekki vissi ég að samkeppni væri þar á milli, en takið sérstaklega eftir orðum hans um Evu Joly. Það fer um mig ónotahrollur við tilhugsunina um hvað verður um rannsóknir á gerendum hrunsins ef þetta lið kemst aftur til valda. Svo fabúlerar hann um meinta samsærisfundi nokkurra manna sem ég hef öruggar heimildir fyrir að hafi aldrei átt sér stað.
En aftur að nepótismanum. Sagt er að eigendur Morgunblaðsins geti ráðið og rekið þá sem þeim sýnist og það er strangt til tekið alveg hárrétt. Engu að síður gagnrýni ég harkalega þann gjörning eigendanna að reka blaðamenn á sjötugsaldri sem höfðu varið allri starfsævi sinni á blaðinu og áttu eftir örfá ár í eftirlaun. Löglegt kannski, en fullkomlega siðlaust. Því fylgir nefnilega mikil samfélagsleg ábyrgð að reka fjölmiðla.
Jóhann Hauksson skrifaði bloggpistil í gær um væntanlega viðbót við blaðamannaflóruna á Mogganum. Og viti menn! Það er sonur besta vinar aðal - en ekki hvað? Mannsins sem sigldi áreynslulaust inn í Hæstarétt á flokksskírteini og vináttuböndum. Jóhann vitnar í grein sem nýi blaðamaðurinn skrifaði fyrir tæpum tveimur árum þegar FLokkurinn réð son Leiðtogans, óverðugastan umsækjenda, í dómaraembætti fyrir norðan. Þar beitir blaðamaðurinn þekktum réttlætingum fyrir lögbrotum og siðleysi: Þetta hefur verið gert áður! Og fyrst þeir gerðu það megum við gera það líka. Hér er grein blaðamannsins úr Morgunblaðinu 25. janúar 2008:
Ég bendi á áðurnefnt blogg Jóhanns hvað innihaldið varðar - en vil þó sérstaklega staldra við lokaorð greinarinnar. Lýsinguna á meintu lýðræði á Íslandi þar sem pöpullinn fær að segja skoðun sína á fjögurra ára fresti en er gert að halda kjafti þess á milli og vera ekki með neitt væl, þ.e. gagnrýni. Þannig hefur lýðræðið verið túlkað af a.m.k. sjálfstæðis- og framsóknarmönnum sem sátu í valdastólum allt of lengi. En við vitum betur, einkum eftir atburði ársins.
Embættisveitingin sem hér er fjallað um er væntanlega öllum í fersku minni. Björn Bjarnason lét Árna Mathiesen ráða aðstoðarmann sinn og son Leiðtogans í embætti sem hann var talinn síst fallinn til af umsækjendum. Þráinn Bertelsson gerði þessu m.a. skil í dagbókarfærslu í Fréttablaðinu 22. desember 2007. Embættisveiting þessi er með þeim umdeildari hin síðari ár og ekki að ástæðulausu. Árni reif bara kjaft yfir gagnrýninni, var væntanlega að hlýða fyrirmælum, og viðhafði fordæmalaus orð um væntanlegt álit Umboðsmanns Alþingis. Margir vilja meina að með þessu máli hafi pólitískur ferill Árna verið ráðinn. Enda starfar hann nú loks við það sem hann menntaði sig til, dýralækningar.
Árni Mathiesen og Umboðsmaður Alþingis - mars 2008
Frá hruni hefur mikið verið talað um bætt siðferði hjá yfirvöldum, í stjórnsýslunni og meðal almennings. Staðreyndin er nefnilega sú að "hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það." Yfirvöld verða að ganga á undan með góðu fordæmi, hvaða flokkar sem eru við völd hverju sinni. Ég bind vonir við að Þjóðfundurinn í næsta mánuði taki siðferðið föstum tökum og tali enga tæpitungu. Vonandi fær þessi maður að vera með í þeirri umræðu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)