Sannleikurinn í gríninu og grínið í veruleikanum

SpaugstofanRaunveruleikinn er oft svo farsakenndur að það er einfaldlega ekki hægt að túlka hann nema slá honum upp í grín. Áramótaskaupið er eitt dæmið um slíkt, þótt misjafnt sé, og Spaugstofumenn hafa stundað slíka þjóðfélagsrýni í hátt á þriðja áratug og oftar en ekki tekist vel upp, síðast í gær með þættinum um Davkúla greifa. Fyrir viku voru þeir með óborganlegt atriði um það, hverja samdráttur í þjóðfélaginu - svokölluð kreppa - hittir verst fyrir og þá hvernig. Því miður fékk ég ekki leyfi til að klippa út og sýna atriði úr Spaugstofunni vegna flókins höfundaréttar, en ég má vitna í textann.

Munið þið eftir vel klædda manninum (Pálma) sem stóð á gangstétt í Ingólfsstræti (hjá Sólon) og þusaði þessi ósköp um ástandið í landinu og skort á viðbrögðum stjórnvalda við því? Enn má sjá þáttinn hér. Hann sagði:

Jeppi"Það er bara hreinlega að verða deginum ljósara að það er ekki búandi í þessu þjóðfélagi. Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvernig hægt er að fara með okkur þegnana. Ég er til dæmis nýbúinn að kaupa mér 8 milljón króna jeppa og hjólhýsi á afborgunum. Og þegar þetta bætist við afborganirnar af nýja eldhúsinu mínu og heita pottinum og hérna... já, og lánið af sumarbústaðnum... og flatskjáinn og snjósleðann minn og fjórhjólið og frúarbílana... þá bara ræð ég ekkert við þetta lengur! Og svo hækka þeir vextina til að gera endanlega út af við mann. Og hvað gera stjórnvöld? Ekki neitt! Þetta á ekki að líðast í siðmenntuðu þjóðfélagi!"

EinkaþotaÞetta er vissulega drepfyndið - og eflaust dagsatt líka. Það eru svona menn sem verið er að vernda og bjarga frá gjaldþroti þegar talað er um að "nú þurfi innspýtingu í efnahagslífið" sem helst virðist felast í því að reisa sem flest orkuver, álver og olíuhreinsistöðvar. Ekki ætla þeir nú samt að vinna í þeim verksmiðjum sjálfir, heldur flytja inn erlenda farandverkamenn, borga þeim lúsarlaun og græða á öllu saman. Óspilltri, dýrmætri náttúru skal fórnað fyrir jeppa, sumarbústaði, utanlandsferðir, munað, óhóf og einkaþotur auðmanna. Það er kjarni málsins þótt reynt sé að telja almenningi trú um annað og öllu illu hótað ef fólk spilar ekki með.

Ég hef rekið mig á ótalmargt í þessum dúr í þjóðfélagsumræðunni, eins og til dæmis talið um að nú verði ríkið (við skattborgarar) að koma eigendum bankanna til bjargar í "kreppunni" - mönnum sem ríkið (við aftur) gaf bankana fyrir nokkrum árum og þeir hafa siglt næstum í strand með óráðsíu og fíflagangi. Á sömu nótum er talað í þessari frétt hér. Þarna er fulltrúi eins bankans að kvarta yfir því að búið sé að byggja of mikið og íbúðirnar seljist ekki. Þetta hefði ég getað sagt honum fyrir löngu og spáð fyrir um afleiðingarnar. En auðvitað hlýtur hann að hafa vitað þetta - bankarnir hafa jú lánað fyrir þessu öllu saman og óttast nú að sitja uppi með heilu háhýsin þegar verktakarnir fara á hausinn vegna offjárfestinga. En tillaga eða lausn bankamannsins er að ríkið (við, munið þið?) kaupi óseldu íbúðirnar! Ég afþakka boðið, kæri mig ekki um fleiri íbúðir. Bjargið ykkur sjálfir upp úr kviksyndinu sem þið stukkuð út í af fúsum og frálsum vilja með græðgina að leiðarljósi.

Illugi JökulssonEn grín um alvarlega atburði getur verið tvíbent. Ég tjáði mig um dálæti mitt á Illuga Jökulssyni og skoðunum hans í gegnum tíðina í þessum pistli. Ég mundi eftir ávarpi sem Illugi flutti á Stöð 2 eftir eitt besta Áramótaskaup í manna minnum þar sem hann fjallar um hvernig áhrif það getur haft - og virðist hafa - þegar gert er grín að háalvarlegum þjóðfélagsmeinum og jafnvel glæpum. Ég fann pistilinn í fórum mínum og ætlaði að klippa úr honum stuttar tilvitnanir. En ég gat ekki valið úr án þess að slíta samhengið svo ég birti hann hér í heild sinni, með leyfi Illuga. Hér er fjallað um Áramótaskaupið 2001 og í mínum huga hefur ekkert breyst - pistillinn er sígildur og hljóðar svo:

"Áramótaskaup Sjónvarpsins var náttúrlega ekki sýnt á þessari sjónvarpsstöð en ætli það sé nú ekki þrátt fyrir allt slíkur þáttur í tilveru þjóðarinnar að óhætt sé að gera ráð fyrir að þorri áhorfenda á þessari stöð hér hafi séð það, engu síður en aðrir landsmenn? Við skulum alla vega gera ráð fyrir því. Og að svo mæltu vil ég taka fram að áramótaskaupið hefur vafist nokkuð fyrir mér undanfarið - og þó kannski öllu heldur viðbrögðin við því.

Rétt er að taka fram strax að ég var og er í hópi þess stóra meirihluta sem hafði verulega gaman af áramótaskaupinu; satt að segja er það líklega það best heppnaða frá upphafi - ekki í því dauður púnktur og á stundum var það mun hvassara og beinskeyttara en menn eiga að venjast. Og þar liggur hundurinn grafinn. Það var gengið nær mönnum en tíðast er í áramótaskaupi, og þá er ég í rauninni alls ekki fyrst og fremst að tala um þátt Árna Johnsens, svo vel heppnað sem það grín var nú allt saman. Án þess ég ætli hér að fara að telja upp efni skaupsins, þá er morgunljóst að ýmsir aðrir áttu alls ekki síður en Árni Johnsen um sárt að binda eftir það.

Hélt ég, að minnsta kosti. Vonaði ég, að minnsta kosti. Án þess að ég vilji í rauninni nokkrum manni verulega illt, þá skal ég alveg játa að ég vonaði þegar skaupinu lauk að ýmsum sem þar fengu á baukinn væri alls ekki skemmt - það hefði sviðið verulega undan þessu á sumum bæjum.

En svo virðist nefnilega ekki hafa verið. Síðan áramótaskaupinu lauk hefur maður gengið undir manns hönd af þeim sem þar voru teknir í gegn að lýsa því yfir hversu ánægðir þeir væru, hversu skemmt þeim hefði verið og hversu alveg laust væri við að þeir hefðu tekið þetta nærri sér - í raun væru allir stoltir af því að hafa verið teknir fyrir í svo vel heppnuðu áramótaskaupi, enda væri þetta allt svo græskulaust og gúddí.

Og þá fór ég að hugsa, einsog stundum hendir jafnvel enn í dag. Áramótaskaupið var nefnilega alls ekki græskulaust - eða það gat ég ekki með nokkru móti séð. Það var - einsog ég sagði áðan - mun beittara og jafnvel dónalegra en lengi hefur sést, og kannski aldrei. Og manni fannst það líka vera ætlunin: að afhjúpa á hvassari og níðangurslegri hátt en títt er um íslenskan húmor, jafnvel íslenska þjóðfélagsgagnrýni yfirleitt. En eigi að síður hefur allt stefnt í þá átt síðan að sýna fram á að ALLIR hafi haft gaman af þessu, enginn verið særður, og jafnvel höfundar skaupsins hafa gengið fram fyrir skjöldu við að lýsa því - að því er virðist allshugar fegnir - að skotmörk þeirra hafi nú ekkert tekið þetta nærri sér. Haft bara gaman af þessu og gott ef ekki boðið höfundunum í glas.

Þetta er dálítið skrýtið. Nú eru það í sjálfu sér eðlileg viðbrögð hjá þeim sem hæðst er að, að bera sig vel og viðurkenna ekki að undan hafi sviðið. Það eru áreiðanlega líka eðlileg og mannleg viðbrögð að hafa í sjálfu sér gaman af því að um mann sé fjallað, jafnvel þótt í háðskum tón sé, frekar en að allir séu búnir að gleyma manni. Og auðvitað er áramótaskaup enginn endanleg samfélagskrítík - við vitum náttúrlega að þetta á fyrst og fremst að vera fyndið yfirlit yfir atburði ársins. En það er samt eitthvað skrýtið, fannst mér, hvað sumir þeirra sem mest og harðast var hæðst að í þessu skaupi áttu auðvelt með að blása á þá reglulega hvössu hæðni sem að þeim var beint. Og hvað Sjónvarpinu sjálfu og meirað segja höfundum skaupsins virtist mikið í mun að leiða sem allra flest skotmörkin fram í sviðsljósið og láta þau vitna um að þau væru bara hæstánægð og allt hefði þetta nú kossumer verið bara í gríni.

En sumt af þessu var ekkert grín. Svo ég taki dæmi af handahófi - Ísólfur Gylfi Pálmason og Guðni Ágústsson voru þar sakaðir um grófa spillingu í sambandi við sölu ríkisjarða. Þetta var fyndið en fyndnin hefði síst átt að breiða yfir þá staðreynd að þetta var þó umfram allt ásökun um grófa spillingu.

En er þá bara júst dandí að þeir sem sakaðir eru um spillingu séu leiddir fram í sjónvarpinu og fái að segja bara ha-ha-ha með okkur hinum, mikið var þetta gasalega sniðugt þó þetta hafi auðvitað verið alveg tóm þvæla, tra-la-la. Og þar með er málið afgreitt og í rauninni alveg endanlega fyrir bí. Verður varla tekið upp aftur nema sem saklaust háð og spé.

Háðsádeilan - samfélagskrítíkin sem í þessu fólst - hefur þannig í rauninni misst alveg marks og nánast snúist upp í andhverfu sína; þótt maður hafi talið hana verulega beitta og nánast meiðandi þá er með viðbrögðunum búið að draga úr henni allan mátt og hún er orðin einsog lokastimpill - þá er þessu máli lokið, búið að taka það fyrir í áramótaskaupinu og allir höfðu gaman af, líka þeir sem að var sótt, allt var þetta tómt grín og græskulaust spaug.

Ég skal fúslega viðurkenna að áhyggjur mínar útaf viðbrögðunum við áramótaskaupinu snerust að nokkru leyti um mig sjálfan. Þegar maður hefur tekið sér fyrir hendur árum saman að tala opinberlega um ýmislegt sem manni þykir aðfinnsluvert í samfélaginu, þá vill maður auðvitað hafa einhver áhrif - að einhver taki gagnrýnina til sín, velti henni fyrir sér og taki hana jafnvel nærri sér; aðeins þannig ímyndar maður sér að eitthvað kunni á endanum að breytast.

Þannig áhrif hélt ég líka að þetta hárbeitta áramótaskaup myndi kannski hafa. En virðist ætla að fara ansi mikið á annan veg; meirað segja þjóðin sjálf, sem búið er að svína á, hún virðist anda léttar og segja sem svo: Mikið var nú gott að blessaðir elsku valdhafarnir tóku þetta ekki nærri sér! Og þeir eru ekkert særðir heldur höfðu bara gaman af, þessi karlmenni!

Þegar maður sér semsagt að jafnvel eitilhart háð einsog í áramótaskaupinu er strax afgreitt af öllum viðkomandi - aðstandendum, valdhöfunum og meirað segja þjóðinni sjálfri - sem nánast innantómt grín og glens sem allir geti bara haft gaman að en enginn kippir sér upp við, þá hlýtur maður að spyrja: Hvað þarf eiginlega til að hrófla hér við hlutum? Hversu langt þarf að ganga?"  (Leturbreyting er mín.)

Er nokkur furða að Illugi spyrji? Hefur nokkuð breyst síðan hann skrifaði þennan pistil í ársbyrjun 2002? Ég fæ ekki með nokkru móti séð að neitt hafi haggast í íslensku þjóðfélagi. Gerir það kannski aldrei en eins og venjulega heldur maður dauðahaldi í vonina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Mér finnst þessi íslenska fyndni, einog hún birtist hjá Spaugstofumönnum í gærkvöldi og oftar, alls ekki bíta og virka frekar einsog prozac á þjóðarsálina. Af hverju er ekki farin í gang undirskriftasöfun meðal þjóðarinnar, þar sem krafist er afsagnar Seðlabankastjóranna ALLRA og bankaráðs þeirra og ALVÖRU fólk með tilskyda menntun og reynslu sett yfir bankann?

Tek undir orð Spartverja: -Ef sverð þitt er of stutt, gakktu þá feti framar-.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 20.4.2008 kl. 13:01

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Erum við ekki öll eins og ein stór hamingjusöm fjölskylda þar sem ríkir eintóm hamingja sama hvað á gengur?

Kjartan Pétur Sigurðsson, 20.4.2008 kl. 13:27

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú ert með þetta kona, takk kærlega fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.4.2008 kl. 13:32

4 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Frábær pistill, eins og þin er von og vísa.

Steingerður Steinarsdóttir, 20.4.2008 kl. 14:18

5 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Jamms, snilld!!!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.4.2008 kl. 15:05

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vel athugað Lára Hanna. Ég er sammála þér.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.4.2008 kl. 15:44

7 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Þegar búið er að gera abbalítið grín að spillingunni og dellunni sem er í gangi er rétt eins og landinn hafi kvittað fyrir og það er bara hægt að halda áfram. Þrjár Maríubænir og málið dautt.

Eins og ég nefndi nýlega þá er veruleikinn í þessu stundum svo absúrd að ef gefin væri út skáldsaga með þessum söguþræði myndum við segja þetta ekki geta gerst. Þannig leið mér þegar ég las nýlega "Dauðans óvissi tími" eftir Þráinn Bertselsson, lesning sem á vel við í dag.

Annars takk fyrir góðan pistil.

Kristjana Bjarnadóttir, 20.4.2008 kl. 16:20

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við erum tvíburasálir, Lára mín Hanna. Huxum það sama og gerum það sama, á sama tíma. (Best að fara ekki nánar út í það, hemm hemm!) Eitt sinn skrifaði ég dóm í Moggann um veitingahús nokkurt hér í Reykjavík og fyrirsögnin var svona: Sósan til mikillar fyrirmyndar. Þetta þótti Illuga Jökuls alveg svakalega fyndið. En staðurinn fór á hvínandi kúpuna skömmu síðar.

Þorsteinn Briem, 20.4.2008 kl. 17:56

9 Smámynd: Einar Indriðason

Það eru amk 2 ef ekki fleiri dæmi, um að íslenskur stjórnmálamaður hafi þurft að bakka.   Hvers megum við íslenskir kjósendur gjalda, þegar þessir stjórnmálamenn sjá ekki, átta sig ekki á, vilja ekki viðurkenna.... að þeir hafi gert rangt af sér?  Gleggsta dæmið er sennilega af Árna Johnsen.

Nei, ég segi aftur, að það styttist í að móðir náttúra bara ýti á RESET takkann gagnvart mannkyni.

Dæs.... Annars fannst mér spaugstofan nú hafa oft verið beittari.  En... það er ekki alltaf sem heill þáttur hjá þeim snýst um einn ákveðinn aðila.  Það sem er verst, er að þeir sem þurfa tiltal, þurfa að átta sig, ... semsagt, stjórnvöld.  Þau munu bara yppa öxlum, hlægja og horfa svo út í loftið.  Að þetta nái til þeirra?  GLÆTAN!

Það þarf að hrista suma af þessum pólitíkusum alveg svakalega mikið, og spurning hvort það dugi til. 

Hmm... segjum bara að þetta sé... innlitskvitt!

Einar Indriðason, 20.4.2008 kl. 20:15

10 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Blessuð og sæl Lafði Lára Hanna!

Man hygg ég vel eftir þessu skaupi sem og einu eða tveimur til viðbótar sem sami hópur gerði örugglega (Óskar "Skari Skrípó" J'onasson, Hallgrímur Helga, Hjálmar snillingur hjálmars m.a.) og man sömuleiðis eftir þessum pælingum Illuga og fleiri!Held að það nái þó enn lengra aftur, að stjórnmálamenn litu frekar á það sem upphfð frekar en hitt að spaugarar tækju þá fyrir, minnir að Steingrímur Hermanns kannski hafi nefnt þetta. En menn hafa nú í seinni tíð aldeilis fengið það óþvegið, verðskuldað eður ei og kveinkað sér hressilega undan því. Skemmst er nú að minnast alls fársins með Ólaf F. og sömuleiðis vilhjálm v. en Halldórarnir blöndal og Ásgrímsson voru rækilega teknir í gegn af Spaugstofunni og létu báðir í sér heyra þess vegna á sínum tíma.Djúpt í hjarta sér fá kannski sumir þeirra alvöru sting á stundum já, en almennt finnst me´r stjórnmálamenn margir hverjir fyrst og síðast taka mark á sjálfum sér, taki lítt tillit til annara nema þeir neyðist til þess líkt og bæði Johnsen og Halldór Á. urðu að gera með ólíkum hætti þó.

Magnús Geir Guðmundsson, 20.4.2008 kl. 20:45

11 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Við mótmælum öllu með því að segja bara hjáróma bú og höldum svo áfram að grafa pyttinn handa okkur sjálfum. Hvað þarf til að við breytum um háttalag?

Berglind Steinsdóttir, 20.4.2008 kl. 22:04

12 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ætli grátbrosleiki raunveruleikans skapi hjá okkur ónæmi fyrir veruleikanum & við lítum á sataríuna um hann sem grín ?

Það væri þó fyndin niðurstaða.

Steingrímur Helgason, 20.4.2008 kl. 23:23

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Já, sjálfsagt erum við þríburar, Hallgerður mín. Hins vegar á ég svo mörg systkini, bæði al- og hálf-, og allt þar á milli, að ég er enn að leggja það allt saman, og draga frá.

Þorsteinn Briem, 20.4.2008 kl. 23:45

14 identicon

Ástandið er ekki einu sinni fyndið.  Haugur af fólki er að fá launin sín átta til tíu vikum seinna en fyrir ári síðan, við viljum ekki auglýsa kreppu, en dominokubbarnir eru raunverulega byrjaðir að falla. Verktakar eru að borga vsk-inn fyrirfram, án þess að vita hvort eða hvenær greiðslur berast. Spurningin er: hvað margir hafa bolmagn til þess að tapa 20 - 30% af árslaunum. Ríkisábyrgðarsjóður launa! Tvö ár í bið. Hafið samband við Eflingu og leitið upplýsinga um fjölda þeirra sem hafa beðið um aðstoð. Fyndið!

Laufeyb undirverktaki.

laufeyb (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 02:54

15 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Ég held þetta sé alveg rétt, að það sé tilfellið að þegar búið er að gera gys, falli allt í ljúfa löð og allt gleymist og vitanlega ekki við grínið að sakast, eða þá sem það fremja. Nei, það erum við hin. Við látum bjóða okkur of mikið og erum upp til hópa haldin framkvæmdakvíða og erum þess guðs lifandi fegin að nú sé búið að gera grín og þá þurfi við ekki að gera neitt meir

Brjánn Guðjónsson, 21.4.2008 kl. 15:53

16 identicon

Alveg frábær psitill hjá þér Lára hanna - eins og alltaf - maður drekkur í sig hvert orð - Orð Illuga eiga svo sannarlega við um það sem við sjáum í spaugi í dag. Það virðist eins og við, pöpullinn, fáum bara nóga útrás fyrir réttlætiskennd okkar með því einu að gert sé grín að þeim sem misbjóða henni trekk í trekk. Ég tek undir með þeim hér fyrir ofan sem sagði að spaugið væri orðið eins konar Prozak fyrir okkur.

Ég horfði á Davgúla þáttinn, fannst hann beittur, fannst mikill sannleikur í gríninu - en Davíð situr enn, auðmennirnir kvarta enn, og við (almenningur) erum sett í þá stöðu að redda þeim upp úr kviksyndinu svo þeir geti haldið áfram að gambla með peningana okkar og safna feitum sjóðum fyrir sjálfa sig á Cayman Islands.  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 16:13

17 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Það þarf ekk imörg orð um þetta Lára Hanna. Þessi pistill þinn er frábær og verðugt umhugsunarefni.

Haraldur Bjarnason, 22.4.2008 kl. 20:53

18 Smámynd: Heiða  Þórðar

Takk kærlega fyrir mig.

Heiða Þórðar, 22.4.2008 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband